Laugardagur 15.11.2008 - 08:24 - Ummæli ()

Verður séreignarsparnaður strax greiddur út? Til alvarlegrar skoðunar. Gæti hjálpað mörgum

johanna-sig1.jpgVinnuhópur á vegum ríkisstjórnarinnar skoðar nú alvarlega að eigendur séreignarsparnaðar geti fengið hann til ráðstöfunar strax. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. 

Blaðið hefur eftir Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra: „Þetta atriði getur dregið línuna á milli þess að fjölskyldur missi aleiguna eða komist út úr þessum vanda án verulegra skakkafalla.“

Blaðið segir að þessi aðgerð sé meðal þess sem kæmi til viðbótar víðtækum aðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti í gær og Eyjan hefur áður greint frá.

Jóhanna segir í Fréttablaðinu að hún finni fyrir miklum þrýstingi í samfélaginu um að eigendur séreignarsparnaðar fái aðgang að sparifé sínu strax. Samkvæmt lögum getur fólk byrjað að taka út þennan sparnað við sextugsaldur. Við 67 ára aldur má taka inneignina út í einu lagi.

„Þetta gæti fólk nýtt til að til að hagræða vegna aðsteðjandi vandamála. Þó að ekki sé langt síðan þessi sparnaður kom til er ljóst að um verulegar upphæðir er að tefla fyrir margar fjölskyldur. Ég tel nauðsynlegt að þetta verði skoðað algjörlega niður í kjölinn,“ segir Jóhanna.

«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Miðlar ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is