Mánudagur 21.09.2009 - 17:36 - Ummæli ()

Davíð Oddsson verður ritstjóri Morgunblaðsins

david-oddsson.gifDavíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri, verður ritstjóri Morgunblaðsins. Ákvörðun um þetta verður væntanlega tekin formlega á fundi stjórnar Árvakurs, útgáfufélags blaðsins, á miðvikudaginn.

Dagsetning stjórnarfundar Árvakurs fékkst ekki staðfest í Hádegismóum í dag. Forráðamenn blaðsins vilja ekki tjá sig um ráðningu ritstjóra.

Á stjórnarfundinum verða að líkindum teknar ákvarðnir um hagræðingu í útgáfu og rekstri. Líklegt er að starfsfólki Árvakurs verði fækkað. Þá er rætt um að fækka útgáfudögum blaðsins um einn.

Davíð Oddsson hefur áður verið orðaður við ritstjórastól á Morgunblaðinu. Hann var þingfréttaritari blaðsins 1973 til 1974 og hefur alla tíð sýnt blaðinu mikinn áhuga.

Verði gengið frá ráðningu Davíðs á miðvikudaginn mun hann koma til starfa á blaðinu á fimmtudaginn.

Einhverjar tilfærslur verða að líkindum á yfirmannsstörfum á ritstjórninni í tengslum við ráðningu Davíðs eða í kjölfarið.

«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Miðlar ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is