Miðvikudagur 26.03.2014 - 13:00 - Ummæli ()

Rússar eru verðmætustu ferðamennirnir

Rússar kunna að grípa til fjármagnshafta til að koma í veg fyrir frekari fjármagnsflótta. Mynd/Getty images

Meðalferðamaður frá Rússlandi kaupir varning fyrir 250% hærri fjárhæð en meðalferðamaður frá öðrum löndum. Norðmenn, sem næstir koma, eru rétt rúmlega hálfdrættingar á við Rússa, svo mikill er munurinn. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðideildar Landsbankans sem kynnt var í gær á ráðstefnu bankans um stöðu og horfur í ferðaþjónustu.

Í henni er greint frá niðurstöðum greiningar á ársreikningum tæplega 1200 fyrirtækja í ferðaþjónustu á Íslandi en þessar upplýsingar hafa ekki verið teknar saman áður.

Vert er að nefna að aðeins um 7.000 Rússar komu hingað til lands í fyrra, en þó fjölgaði komum þeirra hlutfallslega mest milli ára, eða um 48 prósent. Þá fjölgaði Kanadabúum og Kínverjum einnig umfram meðaltal, en Bretar voru fjölmennastir ferðamanna árið 2013, eða 137 þúsund talsins. Í febrúar 2014 voru þeir svo margir að þeir voru fjölmennari en Íslendingar sem fóru um Leifsstöð en það mun hafa verið í fyrsta sinn sem það gerist. Í öðru sæti voru Bandaríkjamenn, eða tæplega 120 þúsund.

Fjöldi ferðamanna frá þessum tveimur löndum var svo til jafn árið 2012, en þeim hefur fjölgað mest síðustu ár. Frá árinu 2010 hefur ferðamönnum frá Bandaríkjunum fjölgað um 42.000 (54%) og Bretum um 70.000 (103%) og helming heildarfjölgunar milli áranna 2012 og 2013 má rekja til þessara tveggja þjóða. Samanlagt eru Bretar og Bandaríkjamenn þriðjungur allra erlendra ferðamanna sem hingað koma.

Ferðamönnum frá Norðurlöndum hefur fækkað minna en ferðamönnum frá öðrum þjóðum. Sænskum ferðamönnum fækkaði milli ára, einum þjóða, en Svíþjóð, Danmörk og Finnland, eru meðal þeirra fjögurra þjóða þar sem fjölgunin er hægust frá árinu 2002. Útkýringin er talin vera að flugsamgöngur til þessara ríkja hafi löngum verið tíðar og því minna rými til vaxtar.

Samkvæmt skýrslunni eru Bretar, þrátt fyrir fjölmenni þeirra, ekki mikilvægir í samanburði við aðrar þjóðir þegar kemur að verslun, en þeir kaupi að meðaltali næst minnst allra þeirra þjóða sem miðað sé við. Þeir gegni þó mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að jafna árstíðarbundnar sveiflur, en þeir hafi verið fleiri utan háannatíma en á háannatímanum. Engin breyting hafi orðið á þessu á árinu 2013, og í raun hafi þeim fjölgað utan háannar. Þessi þáttur í ferðahegðun Breta sé sérstaklega mikilvægur og hafi jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna í heild, þar sem auðveldara sé að þjónusta svipaðan fjölda árið um kring en að fá alla inn á sama tíma.

Skýrsluna má lesa hér.

«
»

Ummæli ()

Birta

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is