Þriðjudagur 02.05.2017 - 14:36 - Ummæli ()

25 ár frá undirritun EES – samningsins: Bráðabirgðaúrræði eða framtíðarlausn?

Jón Baldvin Hannibalsson. Mynd/Þormar Vignir Gunnarsson

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar:

EES-samningurinn (um evrópska efnahagssvæðið) var undirritaður við hátíðlega athöfn í Kauphöllinni í Oporto þann 2. maí, 1992, fyrir aldarfjórðungi.

Fyrstir til að undirrita samninginn voru forsætisráðherra Portúgals, Anibal Cavaco Silva, sem var í forsæti fyrir Evrópubandalaginu og utanríkisráðherra Íslands, sem þá var formaður ráðherraráðs EFTA , og heitir að eftirnafni Hannibalsson. Að undirskrift lokinni tókumst við í hendur. Með vísan til skyldleika nafnanna stóðst ég ekki mátið og sagði: „Þessar undirskriftir gefa til kynna, að áhrifa Hannibals gætir nú langt norður yfir Alpana“.

Hvers vegna EES? Hvers vegna gátu EFTA-ríkin sjö – fjögur Norðurlanda og þrjú Alpalönd, Sviss, Austurríki og Lichtenstein – ekki bara gengið í Evrópubandalagið? Fyrir því voru ýmsar ástæður. Fjögur EFTA-ríkjanna voru hlutlaus (Finnland, Svíþjóð, Sviss og Austurríki). Aðild að Evrópubandalaginu samrýmdist ekki hlutleysisstefnu þeirra (e.non-alliance).

Innri markaður ESB

Evrópubandalagið var fyrir sitt leyti svo upptekið af því að undirbúa framkvæmd innri markaðarins (og sameiginlegs gjaldmiðils í framtíðinni), að fjölgun aðildaríkja var ekki á dagskrá að sinni. En þótt pólitíkin væri öndverð, knúðu gagnkvæmir viðskiptahagsmunir á um lausn. Það gat ekki beðið. Þótt EFTA-ríkin teldust vera smáþjóðir á jaðri Evrópubandalagsins, voru þær engu að síður efnahagslega sterkar. Sameiginlega stóðu þær fyrir meiri viðskiptum við Evrópubandalagið en Bandaríkin og Japan til samans. Það voru gagnkvæmir hagsmunir, að þær yrðu fullgildir aðilar að innri markaðnum, sem var í smíðum.

Jacques Delors tók að sér hlutverk brúarsmiðsins. Í ræðu á Evrópuþinginu í Strassbourg í upphafi árs 1989 bauð hann EFTA-ríkjunum til samningaviðræðna. Í tilboði hans fólst aðild að innri markaðnum, sem var meginmálið. Varðandi stjórnsýslu samningsins lagði hann til tveggja stoða lausn til að fyrirbyggja, að lög og reglur um innri markaðinn brytu í bága við fullveldi EFTA-ríkjanna. Seinna hefur verið upplýst – m.a. í endurminningum Gro Harlem-Brundtland, forsætisráðherra Noregs, að Delors hafði undirbúið jarðveginn með viðræðum í bræðralagi sócíal-demókrata í Skandínavíu og Austurríki. Eftir þær viðræður þóttist hann viss um jákvæðar undirtektir.

Í framhaldinu tók Gro frumkvæðið. Hún bauð forsætis- og utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna sjö til fundar í skíðaparadísinni, Holmenkollen, fyrir utan Osló í mars 1989. Þar átti að leggja á ráðin um viðbrögð við frumkvæði Delors. Fyrir Íslands hönd mættu þar Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra og undirritaður, þáverandi utanríkisráðherra. Af framsöguræðum forsætisráðherranna mátti ráða, að undirtektir við útspili Delors væru jákvæðar. Sumir þeirra tíunduðu þó meiri fyrirvara en aðrir. Þeirra á meðal var forsætisráðherra vor. Hans fyrirvari var um fisk (og reyndar sitthað fleira), en settur fram í fúlustu alvöru. Við sögðum reyndar báðir, að ef EFTA-ríkin tækju ekki upp fríverslun með sjávarafurðir sín í milli (eins og iðnaðarvörur), og mörkuðu sér sameiginlega samningsstöðu gagnvart hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins (sem kvað á um aðgang að auðlindum fyrir aðgang að mörkuðum), þá gæti Ísland ekki verið með.

Fríverslun með fisk

Fyrst í stað leit út fyrir, að samstaðan gæti strandað á þessu. M.a.s. Svisslendingar töldu sig þurfa að vernda sinn vatnafisk. Sama máli gegndi reyndar um Finna og Svía. Að lokum var það Ingvar Carlsson, forsætisráðherra Svía, sem tók af skarið. Hann beitti sér fyrir því í einkaviðræðum við starfsbræður sína frá Finnlandi og Sviss,  að þeir gæfu eftir sína fyrirvara í nafni allsherjar samstöðu: meiri hagsmunir fyrir miklu minni. Það varð niðurstaðan. Íslendingar mættu gjarnan minnast þess, að forsætisráðherra vor, Steingrímur Hermannsson, hélt vel á brýnustu þjóðarhagsmunum Íslendinga á þessum fundi. Við skulum líka minnast þess, að við áttum hauk í horni, þar sem Ingvar Carlsson var. Það á að fara í sögubækurnar.

Jón Baldvin á forsíðu DV 11.apríl 1993 þegar EES-samningurinn var afgreiddur á Alþingi. Samningurinn var enginn smásmíði, 22 þúsund blaðsíður í bókarbroti.

En þar með var björninn svo sem ekki unninn. Að loknum Holmenkollen fundinum hófust könnunarviðræður, þar sem þetta risavaxna samningssvið var kortlagt. Sjálfar samningaviðræðurnar hófust haustið 1989. EFTA-ríkin höfðu þann hátt á að skipta með sér formennsku í ráðherraráðinu. Þegar samningaviðræðurnar byrjuðu fyrir alvöru, var Ísland í formennsku. Það fór hrollur um sérfræðingana í ráðuneytum samtarfsþjóðanna. Það lak út í sænsku pressuna, að mandarínum sænsku stjórnsýslunnar væri órótt. Hvernig var unnt að ætlast til þess, að hin örsmáa utanríkisþjónusta Íslands réði við svo risavaxið verkefni? Þetta var áður en þeir höfðu kynnst fyrir alvöru Hannesi Hafstein, aðalsamningamanni Íslands. Þegar upp var staðið, var aðalsamningamaður Íslands (og EFTA í upphafi, um miðbik og lok samningstímans) rómaður sem einhver harðsvíraðasti samningaþjarkur, sem hin þýsk-leidda samningavél Evrópubandalagsins hafði kynnst. Hannes fékk reyndar fljótlega viðurnefnið „Herra Nei“, heiðursnafnbót, sem hann bar með rentu.

Þegar aðalsamningamaður ESB tilkynnti, að hann hefði ekkert umboð til að falla frá kröfunnni um aðgang að auðlindum fyrir aðgang að markaði, svaraði Hafstein því til f.h. EFTA, að þá væri ekki um neitt frekar að ræða –  og strunsaði út. EFTA hafði jú samþykkt að gera fríverslun með fisk að sameiginlegu samningsmarkmiði. Á það var látið reyna til þrautar. Niðurstaðan varð endanlega sú, að Íslendingar (og þar með Norðmenn og Færeyingar) fengu því sem næst fulla fríverslun með fisk (96.6%) fyrir lítilfjörlegar veiðiheimildir ESB, tímabundnar. Þar að auki fékkst undanþága frá rétti annarra ríkja til fjárfestinga í íslenskum sjávarútvegi. Sú undanþága stendur enn.

Hrakspár

EES-samningurinn er langsamlega umfangsmesti og mikilvægasti milliríkjasamningur, sem íslenska lýðveldið hefur nokkru sinni gert. Með gildistöku hans 1994 stækkaði heimamarkaður okkar úr 300 þúsund manns í 300 milljónir, og síðar í 500 milljónir með stækkun Evrópusambandsins. Með samningnum erum við fullgildir aðilar að innri markaði ESB – stærsta fríverslunarmarkaði í heiminum. Samningurinn er sívirkur í þeim skilningi, að lög og reglur um starfsemi innri markaðarins eru innleiddar í löggjöf aðildarríkja jafnóðum og þær verða til.

Fyrir gildistöku samningsins, frá árinu 1988 til 1994, var Ísland í djúpri efnahagslægð, reyndar þeirri lengstu á lýðveldistímanum. Það var langvarandi samdráttur í sjávarafla, versnandi viðskiptakjör og neikvæður hagvöxtur ár frá ári. Þetta þýddi umtalsvert atvinnuleysi. Það gerbreyttist eftir gildistöku EES-samningsins. Þar með hófst öflugt hagvaxtarskeið, uppgangur útflutningsgreina, meiriháttar fjárfestingar, vaxandi kaupmáttur og blómleg nýsköpun. Á skömmum tíma voru Íslendingar komnir í hóp ríkustu þjóða heims.

Jón Baldvin Hannibalsson þáverandi utanríkisráðherra og Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra. Mynd/DV

En því fór fjarri, að Íslendingar væru á einu máli um ágæti EES-samningsins. Sjálfstæðisflokkurinn var á móti samningnum í stjórnarandstöðu og boðaði í staðinn fríverslunarsamning um fisk við ESB, sem reyndar var ekki í boði. Eftir kosningar 1991 skipti flokkurinn um stefnu, en klofnaði samt í málinu við atkvæðagreiðslu á Alþingi. Samningurinn var efnislega að mestu frágenginn í ríkisstjórnartíð Steingríms Hermannssonar (1988-91) með samningsumboði Framsóknar og Alþýðubandalags. En fyrir Alþingiskosningarnar 1991 snerust þessir stjórnarflokkar harkalega öndverðir við þessu stærsta máli ríkisstjórnarinnar. Reyndar fóru þeir hamförum í kosningabaráttunni gegn samningnum, sem þeir fundu allt til foráttu.Helstu talsmenn þessara flokka spáðu því, að spænski flotinn mundi leggja undir sig Íslandsmið, að landið mundi fyllast af portúgölskum verkamönnum og að þýskir auðkýfingar mundu kaupa upp laxveiðiár og óðul feðranna. Þeir harðsvíruðustu fullyrtu jafnvel, að landið mundi á endanum glata nýfengnu sjálfstæði sínu. Það þótti fréttnæmt í útlöndum, að umræður á Alþingi um EES-samninginn tóku lengri tíma en í þjóðþingum allra hinna aðildarríkjanna til samans – og reyndar lengri tíma en sjálf kristnitakan þúsund árum áður.

Eftir á, í ljósi reynslunnar, vilja fæstir kannast við hrakspárnar og landráðabrigslin. Steingrímur Hermannsson viðurkennir í ævisögu sinni, að kúvendingin í EES-málinu fyrir kosningarnar 1991 hafi verið stærstu mistökin á stjórnmálaferli hans. Þau mistök hafa dregið langan slóða á eftir sér í íslenskum stjórnmálum. Alþýðuflokkurinn, sem einn flokka stóð heill og óskiptur með EES-samningnum, taldi sig ekki geta tryggt samningnum brautargengi á Alþingi í áframhaldandi vinstristjórn. Þar með var Sjálfstæðisflokkur Davíðs Oddssonar leiddur til valda. Allir vita, hvernig það fór að lokum.

Lof og last

Sú var tíð, á uppgangsárunum fyrir og eftir aldamótin síðustu, að flestir lofuðu og prísuðu EES-samninginn sem burðarstoð íslensks efnahagslífs. Þetta gilti líka um flesta þá, sem höfðu farið hamförum gegn samningnum. Þá vildu hins vegar gjarnan flestir þessa Lilju kveðið hafa. Það gilti ekki síst um fyrrverandi andstæðinga, sem sögðu, að samningurinn væri svo góður, að við þyrftum ekki að ganga í Evrópusambandið.

Eftir Hrunið 2008  breyttist þetta enn í hugum margra. Þá sögðu menn sem svo, að ef EES-samningurinn hefði ekki opnað allar gáttir fyrir frjálst flæði fjármagns til og frá landinu, hefðum við kannski getað forðast Hrunið.  EES-samningurinn hefði opnað allt upp á gátt, án þess að tryggja nægilegt eftirlit og úrræði til að taka í taumana, ef úr hófi keyrði. Með öðrum orðum, að lög og reglugerðir Evrópusambandsins um fjármálastofnanir og fjármálamarkaði, sem innleiddar hefðu verið á evrópska efnahagssvæðinu árið 1999, hefðu ekki dugað, þegar á reyndi.

Sömu mönnum vefst gjarnan tunga um tönn, þegar á það er bent, að Noregur innleiddi sömu reglur og við. Samt varð ekkert Hrun í Noregi. Sömu reglur, en ekkert Hrun. Hvers vegna ekki? M.a. vegna þess, að norski Seðlabankinn setti þann fyrirvara varðandi lágmarkstryggingu sparifjáreigenda, að þær giltu aðeins um innistæður í norskum krónum. Þetta þýddi, að norskir bankar ráku ekki útibú í útlöndum á ábyrgð norska tryggingasjóðsins, heldur dótturfyrirtæki með bankaleyfi og undir eftirliti og á ábyrgð gistiríkja. Þess vegna var t.d. ekkert Icesave í Noregi. Veldur hver á heldur.

Langlífi?

EES-samningurinn hefur reynst vera mun langlífari en við, sem að honum stóðum í upphafi, gerðum ráð fyrir. Í okkar hugum var hann brúarsmíð, sem átti að brúa bil í sögulegri þróun, sem við gerðum ráð fyrir, að yrði skammvinnt. Reynslan hefur kennt okkur, rétt einu sinni enn, að skýst þótt skýrir séu. Á 20 ára afmælinu frá gildistöku, þ.e. á árinu 2014, efndu stjórnvöld í Noregi og Lichtenstein til viðamikillar rannsóknar á reynslunni af EES-samningnum. Hinum lærðu skýrsluhöfundum bar saman um, að efnahagslegur ávinningur samningsins fyrir aðildarríkin væri óumdeilanlegur og ómetanlegur. Án aðildar að innri markaði ESB væru EFTA-ríkin, sem eftir standa, í vonlítilli stöðu. Þau ættu þá fárra annarra kosta völ en að ganga í Evrópusambandið.

Það hefur hins vegar orðið æ ljósara á seinni árum, að fullri aðild fylgja alvarlegir ókostir, ekki síst vegna skilpulagsbæklunar peningamálasamstarfsins. Þess vegna er það, að þeir sem eru af ýmsum ástæðum andstæðingar Evrópusambandsaðildar líta með velþóknun á EES-samninginn. Það er engin góðgá að kalla EFTA-ríkin aukaaðila að ESB. Þau njóta kostanna, sem fylgja aðild að innri markaðnum, en eru laus við meinta ókosti peningamálasamstarfsins og sameiginlegu fiskveiðistefnunnar, svo að dæmi séu nefnd.

M.a. s. Bretar, verða að íhuga það vandlega eftir útgöngu sína úr ESB, hvort EFTA-aðild –  og þar með aðild að innri markaðnum –  leysi þann efnahagsvanda, sem þeir ella standa frammi fyrir. En það vefst fyrir gamla stórveldinu að sætta sig við þá skerðingu á fullveldi, sem EFTA-aðild hefur í för með sér. Það getur vafist fyrir gömlum nýlenduherrum að sætta sig við að fá meginið af löggjöf sinni um efnhags- og viðskiptamál í faxi frá útlöndum, án þess að eiga þar nokkurn hlut að máli. En það hefur ekki vafist fyrir smáþjóðum eins og Noregi, Íslandi og Lichtenstein. Kannski  líta þær á fullveldisskerðinguna sem fórnarkostnað fyrir aðlögun að viðskiptaháttum í hnattvæddum heimi. Og heimastjórnin í Skotlandi hefur formlega lýst því yfir, að innganga í EFTA, og þar með aðild að innri markaði ESB, sé einn þeirra valkosta, sem sjálfstætt Skotland stæði frammi fyrir –  eftir Brexit.

Evrópusambandið er nú um stundir í tilvistarkreppu, sem ekki er séð fyrir endann á. Það er því ekki í stakk búið til að taka við nýjum aðildarríkjum í náinni framtíð. Það þýðir, að EES-ríkin þrjú, Noregur, Ísland og Lichtenstein, munu halda dauðahaldi í EES-samninginn. Hann mun reynast þeim haldreipi enn um hríð. Og kannski Skotland – og jafnvel Færeyjar og Grænland –  bætist brátt í hópinn. Hver veit?

Höfundur var utanríkisráðherra Íslands 1988-1995

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Íslensk pólitík þarf að breytast

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar: Um eitt og hálft ár er liðið síðan baráttumaðurinn Kári Stefánsson afhenti íslenskum stjórnvöldum undirskriftir rúmlega 85 þúsund Íslendinga sem fóru fram á að 11 prósentum af vergri landsframleiðslu yrði varið í rekstur heilbrigðiskerfisins. Þessi undirskriftasöfnun er sú fjölmennasta í Íslandssögunni. Ráðamenn lögðu við hlustir eða þóttust allavega gera það. Þeim er […]

Gylfi Ólafsson: Hvernig á að auka sjávarútveg á Vestfjörðum?

Blaðið Vestfirðir sendi frambjóðanda í efsta sæti á öllum níu listum í Norðvesturkjördæmi svohljóðandi spurningu: Aðeins um 7% af framleiðslunni í sjávarútvegi var 2015 á Vestfjörðum, en hlutfallið var um 16% fram til um 1995. Hvaða breytingar telur þú að þurfi að gera, m. a. á löggjöf um stjórn fiskveiða, til þess að sjávarútvegur vaxi […]

Hverjum treystir þú?

Ari Trausti Guðmundsson þingmaður VG í Suðurkjördæmi skrifar:  Eftir að tvær ríkisstjórnir með aðild Sjálfstæðisflokksins hafa sundrast verður að kjósa til Alþingis og leita nýrra leiða við landsstjórnina. Vinstrihreyfingin – grænt framboð (VG) leggur nú í dóm kjósenda stefnu sem byggir á jöfnuði, jafnrétti, samstöðu, lýðræði, umhverfisvernd og ábyrgu frelsi. Grunnstef VG í komandi kosningum […]

Aðskilnaður stjórnmála og viðskipta

Kristinn H. Gunnarsson skrifar: Það sem helst má draga fram sem ástæðu stjórnarslitanna og snemmbúinna Alþingiskosninga er gífurlega uppsöfnuð gremja almennings út í klíkuskap og sérmeðferð útvalinna í þjóðfélaginu. Skemmst er að minnast þingkosninganna í fyrra sem urðu af sömu ástæðu. Panamaskjölin drógu fram að hópur fólks í þjóðfélaginu geymdi fé sitt erlendis og leyndi […]

Kosningar 2017: Sigurður Ingi Jóhannsson um Vestfirði

Spurningar um Vestfirði vegna Alþingiskosninganna 2017, sem sendar voru öllum forsvarsmönnum framboða í Norðvesturkjördæmi. Tilefni: Skýrsla Byggðastofnunar um hagvöxt landshlutans 2008 – 2015. Útg. ágúst 2017. Upplýsingar sem fram koma í skýrslunni: Hagvöxtur á Vestfjörðum:  -6% ,     en  +4% á landinu öllu. Íbúaþróun:  -4,6% , en +4,3% á landinu öllu. Framleiðsla á mann:  -2%,  en […]

Af hverju eru allir stóreignamenn í Sjálfstæðisflokknum?

Einar Kárason skrifar: Því hefur stundum verið haldið fram að tími stéttastjórnmála sé liðinn, og vissulega hljóma sumir gamlir frasar um öreiga og verkalýð ærið forneskjulega í eyrum nútímafólks. En staðreyndin er hinsvegar merkilegt nokk sú að næstum allir þeir hér á landi sem gamlar skilgreiningar sortera í auðstétt, eru í hægriflokkunum, og þar af […]

Ásmundur Einar Daðason: Hvernig á að auka sjávarútveg á Vestfjörðum?

Blaðið Vestfirðir sendi frambjóðanda í efsta sæti á öllum níu listum í Norðvesturkjördæmi svohljóðandi spurningu: Aðeins um 7% af framleiðslunni í sjávarútvegi var 2015 á Vestfjörðum, en hlutfallið var um 16% fram til um 1995. Hvaða breytingar telur þú að þurfi að gera, m. a. á löggjöf um stjórn fiskveiða, til þess að sjávarútvegur vaxi […]

Áherslur flokkanna: Samgöngumálin

Eyjan mun fram að kjördegi bjóða framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá landbúnaðarmálum til afstöðu flokkanna til veru Þjóðkirkjunnar á fjárlögum. Í dag er spurt: Hver er stefnan í samgöngumálum? Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.   Björt framtíð – X-A   Björt […]

Nýr Þjóðarpúls: Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur áfram langstærst

Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur mælast með langmest fylgi, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Fjallað var um hann í kvöldfréttum RÚV. Vinstri græn mældust með rúmlega 23 prósenta fylgi á meðan Sjálfstæðisflokkur mældist með tæplega 23 prósenta fylgi. Í niðurstöðum könnunar sem MMR birti í vikunni var fylgi Sjálfstæðisflokks 19,9 prósent en fylgi Vinstri grænna 19,1 prósent. […]

Deilt á skattablekkingarleik vinstri flokkana: „Kjósendur eru ekki fífl“

Hörður Ægisson ritstjóri Markaðarins deilir harkalega á tillögur Vinstri grænna og Samfylkingarinnar um verulega aukningu ríkisútgjalda í leiðara Fréttablaðsins í dag, segir hann að málflutningur um að það eigi ekki að hækka skatta á almenning standist enga skoðun: „Fyrir liggur að tveir stjórnmálaflokkar – Vinstri grænir og Samfylkingin – hafa lagt til að útgjöld ríkissjóðs […]

Hannes og Gunnar Smári í átökum: Öfund, dóni, mykjudreifari og ruglukollur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands deilir á gagnrýnendur Bjarna Benediktssonar formann Sjálfstæðisflokksins, segir Hannes á Fésbók að öfund vinstrimanna í garð Bjarna sé öflugri en allar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir á Íslandi. Þeim orðum svaraði Gunnar Smári Egilsson Sósíalistaforingi og fyrrverandi útgefandi á eftirfarandi hátt: Áttu við að andstyggð fólks á þeim […]

Þetta miklu eyða flokkarnir í kosningabaráttuna

Aðeins átta dagar eru til kosninga og því naumur tími til að koma stefnumálum sínum á framfæri. Boðað var til kosningar með mun skemmri fyrirvara en venjan er og því hafa flokkarnir ekki haft mikinn tíma til að undirbúa kosningabaráttuna. Flokkarnir hafa ekki úr jafn miklum fjármunum að moða líkt og sjá má þegar kosningabaráttan […]

Þingmaður Pírata um Sjálfstæðisflokkinn: „Þessir lygarar hafa blóð á höndum sínum – Blóð vina minna“

„Þetta er ljótasta lygi sem ég hef séð í þessari kosningabaráttu. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem bannaði Óttari og Viðreisn að gera umbætur,“ segir Gunnar Hrafn Jónsson þingmaður Pírata í umræðu inni í Fésbókarhópnum Geðsjúk þar sem meðlimur hópsins setti inn færslu Sjálfstæðisflokksins þar sem segir að flokkurinn vilji ljúka framkvæmd geðheilbrigðisstefnunnar og fylgja henni eftir. […]

Bjarni Ben um nýjan þjóðarleikvang – Við erum að hugsa til langs tíma

,,Við erum að hugsa til langs tíma, það er einfaldlega kominn tími til þess að við tökum ákvarðanir,“ sagi Bjarni Benediktsson sitjandi forsætisráðherra um þau áform að byggja nýjan Laugardalsvöll.

Eyjan Miðlar ehf. - Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is