Þriðjudagur 19.09.2017 - 17:31 - Ummæli ()

Íslenska apaplánetan

Einar Kárason rithöfundur. Mynd/Sigtryggur Ari

Einar Kárason skrifar:

Ef við horfum framhjá þeim efnahagslega harmleik sem reið yfir landið og íbúa þess í kjölfar hrunsins þá má samt segja að það hafi ekki komið degi of snemma; um margt forðaði það þjóðfélagi okkar frá því að breytast í hreinræktaða apaplánetu. Siðlaus og heimskur lýður var við það að ná tökum á öllu samfélaginu, nokkrir auðmenn voru að eignast allt á sama tíma og þeir sönnuðu grátlega hratt og eftirminnilega gömlu kenninguna um að margur verði af aurum api. Og ekki síður þótt þeir fljúgi milli landa í þyrlum og einkaþotum eða keyri um á rollsum og bentleyum.

Ætli það hafi ekki verið það fræga ár 2007 að mér barst boð um að koma í konunglega veislu í boði forsetaembættisins. Að sjálfsögðu var það boð sent af góðum hug og ég var þakklátur fyrir það, en hingað til lands voru þá komin konungshjónin sænsku og ríkisarfi ef ég man rétt og þeim átti að halda veglegt kvöldverðarboð í Perlunni. Í þannig hóf er boðið alls kyns fyrirmennum úr pólitík, atvinnulífi og embættiskerfi, og að auki fulltrúum hinna og þessara geira eða greina, eins og einhverjum úr listalífinu, og þarna var semsé röðin komin að mér. Tekið var fram á boðskortinu að áskilin væru kjólföt og þannig galadress, og að gestir ættu að bera orður sínar og heiðursmerki. Í stuttu máli þá hafði ég engan áhuga á að mæta í svona boð og ætlaði að senda kurteislegt afboð til þeirra góðu manna sem ég þekki og höfðu sýnt mér þann höfðingsskap að hugsa til mín, en hins vegar þá hefur minn betri helmingur lesið dönsku blöðin, full af fréttum um allt norræna kóngafólkið, frá því hún var krakki og þótt ekki sé til snobblausari manneskja þá vildi hún einu sinni í lífinu fá að sjá hvernig svona færi fram. Svo að það var athugað með fataleigur og ákveðið að fara þarna upp í Öskjuhlíð á boðskvöldinu.

Thor heitinn vissi hvað gera ætti

Maður skar sig nokkuð úr karlafansinum á þann hátt að engar hafði ég orðurnar eða heiðursmerkin, flestir hinna skörtuðu slíku og sumir mörgum; útrásarvíkingarnir helstu voru þarna auðvitað allir og skreyttir eins og sovéskir marskálkar á hersýningu. Ég hitti Thor heitinn Vilhjálmsson vin minn skömmu eftir þetta boð og sagði honum frá því, og þá sagðist hann sjálfur eitt sinn hafa lent í því að þurfa að koma í svona orðu- og heiðursmerkjaveislu en eiga ekkert slíkt, en hann hefði bjargað sér með því að næla í sig silfurmedalíu sem hann fékk á drengjamóti í þrístökki á Melavellinum 1940 og gullmerki sem hann síðar hlaut fyrir öruggan akstur frá Almenna tryggingafélaginu.

Þetta var annars dálítið undarlegt borðhald að því leyti að borðum var raðað allan hringinn þarna á snúningspallinum efst í Perlunni, en í miðju salarins eru súlur og veggir og þessháttar mannvirki, þannig að þar sem við vorum sást ekkert yfir á háborðið þar sem forsetar og kóngafólk sat, og ræður þeirra fóru fyrir vikið að mestu framhjá okkur sem vorum alltaf í hvarfi frá þeim, hvar sem við vorum annars stödd í snúningsferlinu. En borðfélagar voru ágætisfólk, þar var Jóhannes heitinn í Bónus ásamt sinni konu og Árni Þór borgarfulltrúi VG og hans frú og samræður allar fremur afslappaðar. Einhvern veginn var nú líðanin samt aðeins eins og að vera lentur á stað þar sem maður er ekki á heimavelli, en hins vegar virtist mér að þannig liði ekki nýju auðkýfingunum sem voru allir þarna. Svo lauk þessu og ég fór niður í fatahengið og framvísaði miðum og meðan ég beið eftir yfirhöfnum var nákvæmlega í sömu sporum og erindum við hlið mér einn helsti og frægasti útrásarvíkingurinn og við gátum ekki annað gert en að kynna okkur og kinka kolli. Ég spurði hann svo úr því við biðum enn hvort hann væri ekki sonur tiltekins manns sem ég nefndi, og er hann játti því sagði ég honum, sem satt er, að móðir hans og tengdamóðir mín væru æskuvinkonur og héldu alltaf góðu sambandi. Hann var kannski ekki að hlusta nema með öðru eyranu því að þegar ég hafði þetta mælt sneri hann sér að manni sem var líklega þarna í fylgd með honum, og sagði: Þarna sérðu hvernig allir finna sér alltaf eitthvað tilefni til að tala við mig.

Plebbaskapur út í eitt

Það sem var að verða skuggalegt á þessum tíma einkaþotnanna og gumball-kappakstranna var hversu víðtækum völdum þessir fáu nýríku menn voru að ná, og það á flestum sviðum samfélagsins. Þeir áttu alla bankana, fjölmiðlana og svo framvegis, en voru líka í krafti lóðaeignar og fjár að ná tökum á skipulagsmálum í borginni, svo eitthvað sé nefnt. Að auki var sífellt meiri áhersla á að einkaaðilar tækju að sér að reka menningarlíf, styrkja tónlistarmenn og myndlist, og þar með gera listamenn háða sér; við sáum dæmi um að myndlistarmanni var vísað út úr vinnustofu sem auðmenn höfðu lánað húsnæði til, vegna þess að hann tjáði sig á einhvern hátt þannig sem kapítalinu ekki líkaði. Og leikhúsin og bókaútgáfa stefndu einnig í að lenda undir hæl hinna ný-ofsaríku.

Svo voru sögurnar um plebbaskap alveg endalausar. Hinir nýríku voru að kaupa upp alla fremstu bekkina á fínum og eftirsóttum tónleikum og þannig listviðburðum, svo héldu þeir sínum gestum og vildarvinum fyrirpartí í vistarverum tónleikahallanna en komu ekkert inn þótt hljómleikarnir hæfust fyrr en þeim sjálfum hentaði. Þá birtist allt í einu góðglöð hersing, á miðjum tónleikum, undir forystu auðkýfingsins og gestgjafans, og raðaði sér í fremstu sætin, á miðjum konsertinum eða hvað það var sem var í gangi, og með öllu skyldugu fasi aðals eða konungshirðar.

Sömuleiðis vissi maður að íslenskir milljónerar og banksterar væru að kaupa upp stór og dýr stúkupláss á eftirsóttum íþróttaviðburðum, eins og úrslitaleikjum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta, og fljúga með sína boðsgesti út á leikina í leiguþotum með lúxusveitingum, en þegar til kom voru svo bara fáir af þessum hundruðum Íslendinga að horfa á leikinn, héngu mest inni á VIP-börunum og baksviðssalarkynnunum, komu kannski rallhálfir fram undir lok leiks og spurðu hvernig staðan væri. En sæti þeirra voru annars auð, á leikjum sem milljónir sannra fótboltaunnenda um allan heim hefðu verið til í að fórna útlimi fyrir að fá að vera viðstaddir.

Bændauppreisn

Ef þróunin hefði gengið áfram á fullu í átt að svona apakattasamfélagi hefði það kannski endað með einhvers konar uppreisn; hvað veit maður um það? En að minnsta kosti í einni nýlegri skáldsögu var slíkt látið gerast, en það var í „Látið síga piltar“ eftir rithöfundinn Óskar Magnússon. Hann er eins og mörgum er kunnugt lögmaður að mennt, og starfaði lengi sem forstjóri eða framkvæmdastjóri frægra fyrirtækja, en hefur unað sér vel við ræktunar- og ritstörf undanfarin ár á bæ sínum austur í Fljótshlíð.

Í umræddri skáldsögu frá 2013 segir frá mannlífi í sveit og ýmsum skemmtilegum persónum og uppákomum sem þar verða. Sagan gerist að mestu á árunum fyrir hrun og margt sem þar á sér stað minnir á heimaslóðir Óskars austur í Fljótshlíð, eins og að þar verður eldgos í nágrenninu með miklu öskufalli, og líka minnir það á Fljótshlíðina að landareign þar í sveit kaupa bræður tveir, nýríkir og stórauðugir, og hefja að byggja yfir sig sumarhús sem er miklu meira í ætt við greifahöll, með tilheyrandi víðáttumiklum kjöllurum fyrir eðalvín og eftirsótta listmuni. Bræður þessir eiga að sjálfsögðu banka, og taka nú til við að prakka upp á bændur og búalið lánum sem þeir lofa mjög og eiga ekki að geta fært mönnum neitt nema gæfu og stóran hagnað. En svo standast engar áætlanir og allt er svikið og loks kemur hrunið með tilheyrandi forsendubrestum, og áður stöndugir bændur og jarðeigendur sjá fram á gjaldþrot og eignamissi. Og engrar samúðar eða hjálpar er að vænta frá þeim auðkýfingum sem nú eru búnir að loka sig inni í sínu sloti þar uppi í hlíð. Loks er ástandið orðið þannig að bændur héraðsins sjá þann vænstan kost í stöðunni að taka sig saman um að fara að öðrum bræðranna, taka hann höndum og neyða með pyntingum til að breyta lánaskilmálum og skera þá þannig úr snörunni, en drepa hann svo og brenna slotið. Þetta var nógu mikið þjóðþrifaverk til þess að þótt sóknarpresturinn gerði sér ljóst í jarðarför bankagreifans að líkmenn hans, sem voru komnir með kistuna í reipin, hefðu sannarlega drepið innihald hennar, þá lét hann gott heita og sagði bara: „Látið síga piltar.“

Að því leyti kemur á óvart að svona hugmyndir komi úr penna Óskars Magnússonar að frá því við sáumst fyrst á menntaskólaárum hefur mér þótt hann með ólíklegri mönnum til að verða málshefjandi hugmyndar um uppreisn hinna kúguðu gegn auðvaldinu. En þá er hins líka að gæta að hér er skáldsaga á ferðinni.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Íslensk pólitík þarf að breytast

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar: Um eitt og hálft ár er liðið síðan baráttumaðurinn Kári Stefánsson afhenti íslenskum stjórnvöldum undirskriftir rúmlega 85 þúsund Íslendinga sem fóru fram á að 11 prósentum af vergri landsframleiðslu yrði varið í rekstur heilbrigðiskerfisins. Þessi undirskriftasöfnun er sú fjölmennasta í Íslandssögunni. Ráðamenn lögðu við hlustir eða þóttust allavega gera það. Þeim er […]

Gylfi Ólafsson: Hvernig á að auka sjávarútveg á Vestfjörðum?

Blaðið Vestfirðir sendi frambjóðanda í efsta sæti á öllum níu listum í Norðvesturkjördæmi svohljóðandi spurningu: Aðeins um 7% af framleiðslunni í sjávarútvegi var 2015 á Vestfjörðum, en hlutfallið var um 16% fram til um 1995. Hvaða breytingar telur þú að þurfi að gera, m. a. á löggjöf um stjórn fiskveiða, til þess að sjávarútvegur vaxi […]

Hverjum treystir þú?

Ari Trausti Guðmundsson þingmaður VG í Suðurkjördæmi skrifar:  Eftir að tvær ríkisstjórnir með aðild Sjálfstæðisflokksins hafa sundrast verður að kjósa til Alþingis og leita nýrra leiða við landsstjórnina. Vinstrihreyfingin – grænt framboð (VG) leggur nú í dóm kjósenda stefnu sem byggir á jöfnuði, jafnrétti, samstöðu, lýðræði, umhverfisvernd og ábyrgu frelsi. Grunnstef VG í komandi kosningum […]

Aðskilnaður stjórnmála og viðskipta

Kristinn H. Gunnarsson skrifar: Það sem helst má draga fram sem ástæðu stjórnarslitanna og snemmbúinna Alþingiskosninga er gífurlega uppsöfnuð gremja almennings út í klíkuskap og sérmeðferð útvalinna í þjóðfélaginu. Skemmst er að minnast þingkosninganna í fyrra sem urðu af sömu ástæðu. Panamaskjölin drógu fram að hópur fólks í þjóðfélaginu geymdi fé sitt erlendis og leyndi […]

Kosningar 2017: Sigurður Ingi Jóhannsson um Vestfirði

Spurningar um Vestfirði vegna Alþingiskosninganna 2017, sem sendar voru öllum forsvarsmönnum framboða í Norðvesturkjördæmi. Tilefni: Skýrsla Byggðastofnunar um hagvöxt landshlutans 2008 – 2015. Útg. ágúst 2017. Upplýsingar sem fram koma í skýrslunni: Hagvöxtur á Vestfjörðum:  -6% ,     en  +4% á landinu öllu. Íbúaþróun:  -4,6% , en +4,3% á landinu öllu. Framleiðsla á mann:  -2%,  en […]

Af hverju eru allir stóreignamenn í Sjálfstæðisflokknum?

Einar Kárason skrifar: Því hefur stundum verið haldið fram að tími stéttastjórnmála sé liðinn, og vissulega hljóma sumir gamlir frasar um öreiga og verkalýð ærið forneskjulega í eyrum nútímafólks. En staðreyndin er hinsvegar merkilegt nokk sú að næstum allir þeir hér á landi sem gamlar skilgreiningar sortera í auðstétt, eru í hægriflokkunum, og þar af […]

Ásmundur Einar Daðason: Hvernig á að auka sjávarútveg á Vestfjörðum?

Blaðið Vestfirðir sendi frambjóðanda í efsta sæti á öllum níu listum í Norðvesturkjördæmi svohljóðandi spurningu: Aðeins um 7% af framleiðslunni í sjávarútvegi var 2015 á Vestfjörðum, en hlutfallið var um 16% fram til um 1995. Hvaða breytingar telur þú að þurfi að gera, m. a. á löggjöf um stjórn fiskveiða, til þess að sjávarútvegur vaxi […]

Áherslur flokkanna: Samgöngumálin

Eyjan mun fram að kjördegi bjóða framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá landbúnaðarmálum til afstöðu flokkanna til veru Þjóðkirkjunnar á fjárlögum. Í dag er spurt: Hver er stefnan í samgöngumálum? Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.   Björt framtíð – X-A   Björt […]

Nýr Þjóðarpúls: Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur áfram langstærst

Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur mælast með langmest fylgi, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Fjallað var um hann í kvöldfréttum RÚV. Vinstri græn mældust með rúmlega 23 prósenta fylgi á meðan Sjálfstæðisflokkur mældist með tæplega 23 prósenta fylgi. Í niðurstöðum könnunar sem MMR birti í vikunni var fylgi Sjálfstæðisflokks 19,9 prósent en fylgi Vinstri grænna 19,1 prósent. […]

Deilt á skattablekkingarleik vinstri flokkana: „Kjósendur eru ekki fífl“

Hörður Ægisson ritstjóri Markaðarins deilir harkalega á tillögur Vinstri grænna og Samfylkingarinnar um verulega aukningu ríkisútgjalda í leiðara Fréttablaðsins í dag, segir hann að málflutningur um að það eigi ekki að hækka skatta á almenning standist enga skoðun: „Fyrir liggur að tveir stjórnmálaflokkar – Vinstri grænir og Samfylkingin – hafa lagt til að útgjöld ríkissjóðs […]

Hannes og Gunnar Smári í átökum: Öfund, dóni, mykjudreifari og ruglukollur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands deilir á gagnrýnendur Bjarna Benediktssonar formann Sjálfstæðisflokksins, segir Hannes á Fésbók að öfund vinstrimanna í garð Bjarna sé öflugri en allar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir á Íslandi. Þeim orðum svaraði Gunnar Smári Egilsson Sósíalistaforingi og fyrrverandi útgefandi á eftirfarandi hátt: Áttu við að andstyggð fólks á þeim […]

Þetta miklu eyða flokkarnir í kosningabaráttuna

Aðeins átta dagar eru til kosninga og því naumur tími til að koma stefnumálum sínum á framfæri. Boðað var til kosningar með mun skemmri fyrirvara en venjan er og því hafa flokkarnir ekki haft mikinn tíma til að undirbúa kosningabaráttuna. Flokkarnir hafa ekki úr jafn miklum fjármunum að moða líkt og sjá má þegar kosningabaráttan […]

Þingmaður Pírata um Sjálfstæðisflokkinn: „Þessir lygarar hafa blóð á höndum sínum – Blóð vina minna“

„Þetta er ljótasta lygi sem ég hef séð í þessari kosningabaráttu. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem bannaði Óttari og Viðreisn að gera umbætur,“ segir Gunnar Hrafn Jónsson þingmaður Pírata í umræðu inni í Fésbókarhópnum Geðsjúk þar sem meðlimur hópsins setti inn færslu Sjálfstæðisflokksins þar sem segir að flokkurinn vilji ljúka framkvæmd geðheilbrigðisstefnunnar og fylgja henni eftir. […]

Bjarni Ben um nýjan þjóðarleikvang – Við erum að hugsa til langs tíma

,,Við erum að hugsa til langs tíma, það er einfaldlega kominn tími til þess að við tökum ákvarðanir,“ sagi Bjarni Benediktsson sitjandi forsætisráðherra um þau áform að byggja nýjan Laugardalsvöll.

Eyjan Miðlar ehf. - Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is