Sunnudagur 01.10.2017 - 18:23 - Ummæli ()

Allir þingmenn Suðurkjördæmis gefa kost á sér áfram

Allir tíu þingmenn Suðurkjördæmis gefa kost á sér áfram, sem kemur varla á óvart enda rétt ár liðið frá síðustu kosningum. Flestir flokkanna velja listana með uppstillingu og má búast við að þeir komi fram lítið eitt breyttir frá fyrra ári.

Samfylkingin ákvað á fundi kjördæmisráðs á sunnudaginn að stilla upp lista og var 5 manna uppstillingarnefnd valin til að gera tillögu til kjördæmisráðs um listann. Píratar héldur lokað prófkjör sama dag og búist er við að Viðreins og Vinstri græn stilli upp listum sínum, Framsókn haldi tvöfalt kjördæmisþing og gert er ráð fyrir að listi Sjálfstæðisflokksins frá því í fyrra verði lagður óbreyttur fyrir kjördæmisráð þann 1. október.

Þá er búist við að Flokkur fólksins og Samvinnuflokkurinn stilli upp listum og bjóði fram í kjördæminu.

Ljóst er að hart verður keppt um sætin 10 og ómögulegt að segja til um það hvernig hlutföll verða á milli flokka, þar sem nýju framboðin geta haft mikil og ófyrirsjáanleg áhrif á það og frambjóðendur þeirra ekki komnir fram.

Suðri hafði samband við alla 10 þingmenn kjördæmisins og spurði um fyrirætlanir þeirra og helstu áherslur í komandi kosningum, og fara svör þeirra sem svöruðu hér á eftir.

 

Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður Viðreisnar:

Stjórnarslit mikil og óvænt vonbrigði

Hvernig horfa stjórnarslitin við þér sem þingmanni Viðreisnar?

Stjórnarslitin voru mér mikil og óvænt vonbrigði. Í okkar huga var brýn þörf á að fá allar upplýsingar upp á borðið áður en við færum að velta fyrir okkur framhaldi ríkisstjórnarsamstarfsins. Við í Viðreisn stöndum nefnilega fyrir að ákvarðanir séu teknar á yfirvegaðan hátt og að vel ígrunduðu máli, enda er slíkt forsenda þess að unnt sé að taka réttar ákvarðanir. Þegar annar samstarfsflokkurinn ákvað hins vegar að slíta stjórnarsamstarfinu fyrirvaralaust og án samráðs var sá möguleiki augljóslega ekki lengur í boði. Eftir mikla yfirlegu sá þingflokkur Viðreisnar að í raun var ekkert annað í stöðunni en að fara í kosningar enda höfðu allir aðrir stjórnarmyndunarmöguleikar verið fullreyndir. Grátlegast finnst mér samt að við höfum ekki fengið meira en átta mánuði í ríkisstjórn. Það liggur í augum uppi að þær viðamiklu kerfisbreytingar sem Viðreisn hefur barist fyrir til að ná niður vaxtastiginu í landinu, sem og kerfisbreytingar í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, taka lengri tíma í framkvæmd en örfáa mánuði. Ég vona því að kjósendur fylki sér aftur að baki umbótaöflum á borð við Viðreisn, sem hefur að skipa öflugu fólki sem lætur verkin tala.

Gefur þú kost á þér áfram?

Ég mun gefa kost á mér á ný í oddvitasæti fyrir Viðreisn í Suðurkjördæmi enda á ég mörg verk ókláruð á Alþingi sem ég brenn fyrir að fá að halda áfram með. Ég mun leggja áherslu á umbætur á landbúnaðarkerfinu og að við eflum tengslin á milli bænda og neytenda. Kerfið í dag þjónar engum, og þá allra síst bændum. Skýrasta dæmið í dag eru sauðfjárbændur sem mega þola algjörlega órökstuddar verðlækkanir af hálfu afurðastöðvanna, sömu afurðastöðva og ætluðu sér að sækja milljarða í vasa skattgreiðenda vegna „3000 tonna kjötbirgða“. Birgðirnar reyndust síðan vera mun minni og raunar töluvert minni en á síðasta ári eða innan við 1000 tonn. Þetta er auðvitað óboðleg framkoma við bændur og aðför að skattgreiðendum. Afurðastöðvarnar ættu að sjá sóma sinn í því að hækka verðið aftur til bænda.

Vaxtamálin munu líka halda áfram að vera mér ofarlega í huga, enda eru vaxtamál mikilvægt velferðarmál fyrir alla landsmenn og því brýnt að við náum böndum um krónuna og getum þannig lækkað vexti. Aðeins með því að ráðast að rót vandans, þ.e. sveiflukenndum gjaldmiðlinum, náum við vaxtastiginu niður. Það er óréttlátt að við Íslendingar þurfum að vinna næstum heila viku í mánuði bara fyrir þeim okurvöxtum sem íslenska krónan færir okkur. Með því að festa krónuna, og jafnvel helminga vaxtastigið, gæti meðalfjölskylda fengið fleiri tugi þúsunda króna í auknar ráðstöfunartekjur á hverjum mánuði. Það væri raunveruleg kjarabót til framtíðar!

Hvernig verður valið á listann?

Uppstillinganefndir eru að störfum en líkt og fyrir síðustu kosningar munum við vera með fléttulista og jafnt hlutfall kvenna og karla í oddvitasætum á landsvísu.

Hvaða ríkisstjórnarmynstur heldur þú að komi upp?

Það er ómögulegt að segja núna þegar fylgið er á jafnmikilli hreyfingu og raun ber vitni. En Viðreisn er að sjálfsögðu tilbúin að axla ábyrgð á ný í ríkisstjórn ef til þess kæmi.

Ef fólk vill sjá umbætur í framkvæmd, hægri hagstjórn og vinstri velferð þá kjósið þið Viðreisn. Ef þið viljið standa vörð um úrelt kerfi og gamaldags stjórnmál þá kjósið þið hefðbundnu kerfisflokkana.

 

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Vonast eftir góðum stuðningi á kjördag

Hvernig horfa stjórnarslitin við þér?

Stjórnarslitin komu á óvart en úr því að þetta er staðan þá er ekkert annað að gera en kjósa sem fyrst. Með því gefst nýju þingi tími til að afgreiða þau fjölmörgu mál sem verður að taka afstöðu til fyrir áramót. Segja má að sú ríkisstjórn sem nú fer frá hafi ekki verið draumaríkisstjórn margra en þetta var eini starfhæfi meirihlutinn sem tök var á að mynda. Við munum öll hversu langan tíma tók að mynda þann meirihluta. Ábyrgir flokkar leggja mikið á sig til að láta hlutina ganga með það að markmiði að hér ríki stöðugleiki. Þannig flokkur er Sjálfstæðisflokkurinn. Það að slíta stjórnarsamstarfi án þess að  reyna til þrautar er í ljósi forsögunnar ábyrgðarlaust.

Þú gefur kost á þér áfram?

Að sjálfsögðu gef ég kost á mér að nýju. Helstu áherslumálin í kosningabaráttunni eru efnahagslegur stöðugleiki, samgöngumál, heilbrigðismál og atvinnumál.

Hvernig munu flokkar ykkar standa að röðun á lista og baráttunni á þessum stutta tíma, verður hún óhefðbundin fyrir vikið?

Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins fundar n.k. sunnudag til að ákveða hvaða aðferð verður notuð. Ég myndi vilja hafa prófkjör en ég átta mig á því að tíminn fram að kosningum er naumur og því líklegt að það verði ekki niðurstaðan.

Hvaða ríkisstjórnarmynstur teljið þið að komi upp úr kjörkössunum?

Vonandi verður möguleiki að mynda sterka stjórn sem leggur áherslu á stöðugleika í efnahagsmálum, frelsi og framfarir.
Ég er afar þakklát fyrir það brautargengi sem Sunnlendingar hafa veitt mér og Sjálfstæðisflokknum á liðnum árum. Ég vonast svo sannarlega eftir góðum stuðningi þann 28. október. Ég hlakka til baráttunnar fram undan, að hitta fólk og fá að heyra hvað brennur á íbúum kjördæmisins.

 

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar:

Gefur kost á sér til að leiða lista flokksins

Þín viðbrögð við stjórnarslitum, og því að ákveðið var að kjósa nú þegar?

Einn flokkur af þremur í ríkisstjórn sleit samstarfinu því þeim fannst farið á bakvið þau með upplýsingar um uppreist æru barnaníðings. Þau treystu ekki lengur forsætisráðherra eða dómsmálaráðherra. Þá er sannarlega ástæða til stjórnarslita. Mér finnst hins vegar athyglisvert að þau hafi samþykkt fjárlagafrumvarpið og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára og ekki fundist ástæða til að slíta stjórnarsamstarfinu á þeim plöggum. Í þeim er staðfest að ríkisstjórnin ætlaði ekki að hirða um að efna kosningaloforðin sín um betra heilbrigðiskerfi, skólakerfi, vegi og almannatryggingar svo dæmi séu tekin um stóru málunum sem varða hag almennings.

Ætlar þú að gefa kost á þér áfram og hvaða áherslur viltu sjá á í kosningabaráttunni?

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Við í Samfylkingunni viljum að fyrst verði ráðist í að leysa bráðavanda sem blasir við nú um stundir og gera langtímaáætlanir um betra velferðarsamfélag. Það þarf að byrja á þessu:

Ráðast á húsnæðisvandann með byggingu þúsunda íbúða sem leigðar verða út án gróðrasjónarmiða og með möguleikum á kaupleigu.

Styrkja heilbrigðisþjónustu í opinberum rekstri. Taka markviss skref í átt að ókeypis heilbrigðisþjónustu fyrir alla og niðurgreiða tannlækningar aldraðra og öryrkja strax.

Styrkja menntakerfið til að taka við nýjum áskorunum.

Bæta kjör öryrkja og einfalda útreikninga á lífeyri. Hækka frítekjumark lífeyris og byggja fleiri hjúkrunarrými.

Laga vegi og efla lögregluna.

Gera réttlátar breytingar á skattkerfinu, auka stuðning við ungt fólk og barnafjölskyldur og setja réttláta auðlindastefnu.

Ljúka  heildarendurskoðun á stjórnarskrá og virða þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þetta er allt hægt og við höfum efni á því. Allir eiga að njóta góðs af góðærinu.

Hvernig verður raðað á listann?

Vegna tímaskorts þá munum við raða á listana. Þeir þurfa að vera tilbúnir fyrir flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar þann 6. október. Kosningabaráttan mun verða snarpari  og markast af uppgjöri við gamaldags stjórnmálamenningu og spillingu.

Hvaða ríkisstjórnarmynstur vonastu til að sjá úr kjörkössunum?

Það er ekki gott að segja. Óska ríkisstjórnin okkar jafnaðarmanna er samstarf félagshyggjuaflanna. Í stuttu máli ætti sú stjórn að sameinast um góða efnahagsstjórn og  öflugra velferðarkerfi. Miklu sterkara opinberu heilbrigðiskerfi og framsæknum skólum fyrir alla, ásamt mannsæmandi kjörum aldraðra og öryrkja og vinnumarkaði sem tryggir réttindi og jafnrétti.

Sagan sýnir að Samfylkingin þarf að vera stór til að hægt sé að mynda félagshyggjustjórn. Kannanir sýna að þriðjungur landsmanna vill Samfylkinguna í ríkisstjórn. Til þess að þeim verði að ósk sinni þarf fólk að kjósa Samfylkinguna 28. október og það hvet ég ykkur, góða fólk sem les héraðsblaðið Suðra, til að gera.

 

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Geng stoltur til kosninga

Gefur þú kost á þér áfram til þingsetu?

Já, ég býð að sjálfsögðu fram krafta mína aftur. Ég lít svo á að kjósendur gáfu mér umboð til þess að tækla málin sem brenna á íbúum Suðurkjördæmis til fjögurra ára, og þó uppþot hafi orðið í samstarfsflokki okkar í Sjálfstæðisflokknum, þá þarf að klára þau mál. Ég geng því stoltur og keikur til kosninga með mín mál í vasanum. Samgöngumálin eru þar fyrst og fremst. Nú siglum við inn í enn einn veturinn af einbreiðri Reykjanesbraut á köflum, hættulegum vegaköflum á Suðurlandi og ókláruðum Suðurlandsvegi auk afleysingaferja til Vestmannaeyja sem drífur ekki yfir minnstu öldur – svolítið eins og einn samstarfsflokkurinn okkar á kjörtímabilinu. Sjúkraþyrlan er mál sem ég hef brunnið fyrir á kjörtímabilinu og unnið mikið í á undanförnum árum. Mig dauðlangar til þess að sjá það mál klárað.

Hvernig verður raðað á listann?

Í Sjálfstæðisflokknum er mikið innra skipulag sem byggir á aðkomu grasrótarinnar að uppstillingu lista. Í okkar flokki dugir ekki til að kalla til nefnd og kalla það gott, heldur er uppstilling og önnur framboðsmál í föstum skorðum. Á næstu dögum kemur þetta allt í ljós, en auðvitað geri ég ráð fyrir því, í ljósi aðstæðna og þess að aðeins er um mánuður til kosninga, að ekki verði efnt til prófkjörs. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að hefja kosningabaráttuna strax til að koma sínum málum á framfæri. Svo eru vöfflurnar úr síðasta prófkjörs-kosningakaffi varla orðnar kaldar og rjóminn enn ferskur (enda úr sunnlenskum kúm) síðan í síðasta prófkjöri, svo niðurstöðurnar þar ættu að duga, tel ég.

 

Silja Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins:

Hlakkar til baráttunnar

Komu stjórnarslitin þér á óvart?

Stjórnarslitin komu mér ekki á óvart. Ósamstaðan og vantraustið innan ríkisstjórnar blasti við. Hins vegar kom mér verulega á óvart hversu snemma stjórnarslitin urðu. Þremur dögum eftir þingsetningu er auðvitað hlægilega sorglegt.

Gefur þú kost á þér áfram?

Ég mun gefa kost á mér á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi og mun nú sem endranær leggja áherslu á að þjóna mínum umbjóðendum eins vel og ég get. Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur lagt áherslu á að halda áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs og minnka þar með vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Við teljum hins vegar að svigrúm til uppbyggingar innviða sé til staðar. Á uppgangstímum er  hægt að auka fjárframlög til aðkallandi verkefna eins og heilbrigðisþjónustu, nefni ég þá sérstaklega heilsugæsluna, sjúkraflutninga sem og til vegaframkvæmda og menntamála.

Vissulega þarf að fara varlega svo hagkerfið ofhitni ekki. Þess vegna þarf að taka til greina ólíka stöðu landshluta þegar verkefni eru valin. Þenslan er auðvitað mest á höfuðborgarsvæðinu, en töluvert minni annars staðar og vitna ég þá í skýrslu Byggðastofnunar sem kom út nú í sumar. En í stuttu máli sagt þá mun Framsóknarflokkurinn leggja áherslu á stöðugleika, velferð og samvinnu.

Hvernig er valið á listann?

Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir hvernig valið verður á lista hjá Framsóknarflokknum en hvert kjördæmi ákveður það fyrir sig. Ég geri ráð fyrir að kosningabaráttan verði hefðbundin þó að skammur tími sé til stefnu. Ég hlakka til þeirrar baráttu og er í góðri æfingu þar sem þetta er þriðja kosningabaráttan mín á á fjórum árum. Sem er auðvitað stórfurðulegt ef út í það er farið. Maður veltir fyrir sér, miðað við hraðann í samfélaginu og stemminguna almennt, hvort þetta verði það sem við megum eiga von á næstu árin, kosningar á 1-3 ára fresti? Ég óttast að stöðugleikinn fari þá fyrir lítið og mikilvæg verkefni falli á milli skips og bryggju.

Hvaða samstarf sérðu í kortunum eftir kosningar?

Í ljósi stöðunnar er ómögulegt að spá fyrir um hvað kemur upp úr kjörkössunum. Á Norðurlöndum eru orðin hefð fyrir fjölflokka og minnihlutastjórnum jafnvel. Margt bendir til þess að við séum að feta sömu leið. Við Framsóknarfólk erum samvinnufólk og eigum því að geta unnið með öllum flokkum, hvort sem þeir flokkast til hægri eða vinstri.

 

Ari Trausti Guðmundsson, þingamaður Vinstri grænna:

Geng ekki frá borði nú og gef kost á mér áfram

Komu stjónarslit á óvart?

Ríkisstjórnin stóð alla tíð á veikum grunni og mótsetningar skerptust þegar meginmál voru tekin fyrir, svo sem efnahagsmál, málefni landbúnaðar og skipting fjármuna til velferðar í víðum skilningi. Mig grunaði að stjórnin héldi ekki við afgreiðslu fjárlaga og tel að hörð gagnrýni okkar í VG á bæði fjármálaáætlun til 5 ára og á nýja fjárlagafrumvarpið hafi ýtt undir þróun sem leiddi óvænt til stjórnarslita vegna trúnaðarbrests. Engar umtalsverðar forsendur hafa breyst hvað varðar samstarf flokka til myndunar stjórnar án kosninga og þess vegna einboðið að fá kjósendur til þess að búa til nýja möguleika með atkvæðum sínum.

Gefur þú kost á þér áfram og á hvað mun þú leggja áherslu á í kosningabaráttunni?

Ég tók ákvörðun um að standa vaktina kjörtímabilið sem hófst í fyrra og mér hefur gengið vel að starfa á grænum félagshyggjugrunni. Ég geng ekki frá borði eftir tæpt ár og held mínu striki ef félagarnir samþykkja það. Áherslurnar verða á aukinn jöfnuð, velferðarmál, bættar samgöngur, útrýmingu fátæktar og kreppukjara svo margra, ásamt umhverfismálum og öllu sem getur orðið til þess að halda hækkun meðalhita jarðar undir 1,5 til 2 stigum á öldinni.

Hvernig verður staðið að röðun á lista og baráttunni á þessum stutta tíma, verður hún óhefðbundin fyrir vikið?

VG hefur væntanlega svipaðan hátt á listagerð og var fyrir síðustu kosningar; kjördæmisráðin vega þungt. Kosningastarfið verður eflaust einfaldara í sniðum en síðast og mikil áhersla lögð á bein samskipti við kjósendur, maður á mann er stundum sagt, og á samfélagsmiðlana.

Hvaða ríkisstjórnarmynstur er líklegastað loknum kosningum?

Við þessu hef ég ekki svar. Hitt veit ég að nú er sögulegt tækifæri til þess að kalla fram meirihluta- eða minnihlutastjórn með VG undir forystu Katrínar Jakobsdóttur sem setur félagshyggju í öndvegi og tekur til við að endurskipuleggja úthlutun gæða, eftir því sem það er á valdi ríkisstjórnar, á tímum þar sem fjármunir safnast til samfélagsins en er ranglega skipt. Samsteypustjórnir byggja á málamiðlunum og þær ráða miklu um efndir kosningastefnu flokka. Gleymum því ekki.

 

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Flokkur með þunnskipað bakland gafst upp

Hvernig  horfa stjórnarslitin við þér?

Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin sé fallin af meintum trúnaðarbresti. Hafi það verið raunveruleg ástæða þá hefðu stjórnmálamenn með snefil af ábyrg og virðingu fyrir kjósendum rætt málin við þann sem braut trúnað á þeim og jafnað málin. Það hefði verið hin eðlilega leið í mannlegum samskiptum áður en gripið er til slíks örþrifaráðs, að ræða málin. Umboðsmaður Alþingis hefur nú skorið úr um það að dómsmálaráðherra var heimilt að ræða málið við forsætisráðherra, svo sú ásökun um trúnaðarbrest á ekki við.

Óstöðugur stjórnmálamaður getur ekki staðið á eigin fótum og í skjóli myrkurs fær hann sundurtætt baklandið til að skera sig úr snörunni með kosningu undir þrýstingi á fésbókinni. Þau feldu ríkisstjórnina í skjóli myrkurs, án þess að gefa samtalinu tækifæri. Raunveruleg ástæðan var að lítill þingflokkur sem réð ekki við þunga ábyrgð sem hann tókst á herðar, gafst upp.

Hvernig spilast úr þessu?

Íslendingar eru að sjá það að smáflokkar með ekkert bakland, þingmenn sem geta ekki staðið í fæturna þegar á herðir eru ekki á vetur setjandi eins og þjóðin sér nú í miðri sláturtíðinni. Það fylgir því rík ábyrgð að setjast í ríkisstjórn og taka pólitíska ábyrgð og stefnu fyrir land og þjóð inn í framtíðina. Sjálfstæðisflokkurinn tók ábyrgð við myndun ríkisstjórnarinnar. Formaður flokksins hafði skilað umboði forseta Íslands til stjórnarmyndunar þegar leitað var til hans öðru sinni. Þá hafði vinstra kraðakið reynt stjórnarmyndun þar sem allir foringjar þeirra höfðu fengið til þess umboð en þar var að venju hver höndin upp á móti annarri.

Hrokinn var þeim að falli, þeir vildu ekki fá Framsóknarflokkinn með í samstarfið. Þeim hugnaðist betur að fá Píratana til liðs við sig. Flokkinn sem er skipaður fólki sem sendir óhróður um landið sitt og fólkið sem hér býr og stjórnar landinu og málar það svörtum myndum óþverraháttar og lyga á erlenda fjölmiðla.

Þegar forsetinn leitaði í annað sinn til Sjálfstæðisflokksins leiddi formaður flokksins stjórnarmyndun með Bjartri Framtíð og Viðreisn. Þar var sýnd mikil pólitísk ábyrgð og Sjálfstæðisflokkurinn gaf mikið eftir til að ná sátt um ríkisstjórn með einn mann í meirihluta. Þeir eru ekki margir flokkarnir á hinum pólitíska vettvangi sem hafa slíkt bakland og stöðuleika sem þarf svo samfélagið viðhaldi góðri stöðu sem nú er uppi í þjóðfélaginu. Íslendingar eiga aðeins val um að kjósa 3 flokka ef þeir vilja tryggja stöðugleika, þar er Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri grænir og Framsóknarflokkur, smáflokkarnir eru einsmálsflokkar sem bjóða ekki upp á annað en áframhaldandi sundrung og óstöðugleika.

Það hefði verið raunveruleg pólitísk hugrekki að leggja allt undir við fjárlagaumræðuna og láta þannig reyna á samstarfið við mikilvægustu stefnumótun ríkisstjórnarinnar, samþykkt fjárlagafrumvarpsins. Bjartri framtíð skorti á það hugrekki.

 

Smári McCarthy, þingmaður Pírata:

Tími til að gefa Sjálfstæðisflokknum frí

Ég gef kost á mér áfram og hefði gjarnan viljað sjá fólk reyna að tryggja hagsmuni þjóðarinnar strax eftir að ríkisstjórnin féll frekar en að rjúka bara í kosningar. Píratar eru engu að síður alveg tilbúnir í kosningar, enda er alveg ljóst að sú framtíðarsýn sem við höfum verið að boða á jafnvel betur við nú en fyrir ári síðan – það verður að fara að koma á traustu og stöðugu stjórnkerfi á Íslandi. Það er erfitt að segja til um ríkisstjórnarmynstur fyrir kosningar, en það er alveg tími til kominn að gefa Sjálfstæðisflokknum frí.

Birtist fyrst í Suðri.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Bjarni, Þórdís og Áslaug kosin til forystu Sjálfstæðisflokksins

Bjarni Benediktsson var í dag endurkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins með 96,2% atkvæða á landsfundi flokksins sem fram fer í Laugardalshöll. Alls greiddu 762 atkvæði í formannskjörinu og hlaut Bjarni 710 af þeim. Aðrir hlutu 28 atkvæði og auðir og ógildir seðlar voru 24. Þá var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins með […]

Hreinn hagnaður jókst um 12%

Kristinn H. Gunnarsson ritar: Enn er í fersku minni leiftursókn útgerðargreifanna að almannahag í byrjun ársins. Talsmenn LÍÚ ráku upp mikið ramakvein yfir því að veiðigjaldið jókst í samræmi við aukinn hagnað 2015. Var því mjög haldið fram að greiðslur til ríkisins í formi veiðigjalds og tekjuskatts af hagnaði væru svo yfirgengilegar orðnar að þær […]

Stjórn VR vill sömu hækkun og forstjórinn fyrir starfsmenn á plani N1

Stjórn VR hefur samþykkt að leggja fram tillögu á aðalfundi N1 um að öllum starfsmönnum N1 skuli tryggð sama kjarahækkun og forstjóri félagsins fékk en laun hans voru 5,8 m.kr. á mánuði á síðasta ári og hækkuðu þau um 20,6% á milli ára eða um rúma milljón krónur á mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu […]

Forsætisráðherra heimsótti Hagstofu Íslands og embætti ríkislögmanns

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti Hagstofu Íslands og embætti ríkislögmanns í gær, fimmtudaginn 15. mars. Í heimsókn Katrínar til Hagstofu Íslands kynnti hún sér fjölbreytta starfsemi stofnunarinnar og áhersluverkefni um þessar mundir. Það var Ólafur Hjálmarsson, Hagstofustjóri sem tók á móti ráðherra og fylgdarliði ásamt yfirstjórn Hagstofunnar og fékk ráðherra kynningu á öllum sviðum stofnunarinnar sem […]

Ljósmæður eru langþreyttar á skilningsleysi og tómlæti ríkisvaldsins

Hvorki gengur né rekur í kjaraviðræðum Ljósmæðrafélags Íslands (LMFÍ) við ríkið sem nú hafa staðið í rúmlega hálft ár. Frá upphafi hefur meginkrafa félagsins verið sú að menntun og ábyrgð ljósmæðra í starfi sé metin til launa og að laun ljósmæðra fylgi almennri launaþróun í landinu. Ljósmóðurstarfið krefst 6 ára háskólanáms en að loknu sérnámi […]

Staksteinar býsnast  yfir Borgarlínubásabjór: „Kosningaáróður“

Höfundur Staksteina hefur hingað til ekki verið hrifinn af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag, er nefnast „Borgin, básinn og Borgarlínubjórinn,“ býsnast höfundur yfir básnum sem Reykjavíkurborg hélt úti á sýningunni Verk og Vit í Laugardalshöllinni um liðna helgi. Er hann sagður kosningaáróður: Reykjavíkurborg er stórskuldug og borgarbúar greiða hæsta leyfilega útsvar. […]

Bjarkey vildi varamenn fyrir villikettina: „Það voru kannski mistök af minni hálfu“

Andrúmsloftið innan VG er spennuþrungið þessa dagana. Frá því er greint í Fréttablaðinu í dag að þingflokksformaður Vinstri grænna, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hafi kallað inn varamann fyrir Rósu Björk Brynjólfsdóttur þar sem Rósa væri erlendis. Hinsvegar hafi Rósa afturkallað varamanninn og fundist Bjarkey taka fram fyrir hendurnar á sér. Bjarkey segir þetta mistök af sinni […]

Launþegum fjölgar í byggingariðnaði

Á 12 mánaða tímabili, frá febrúar 2017 til janúar 2018, voru að jafnaði 17.644 launagreiðendur á Íslandi og hafði launagreiðendum fjölgað um 648 (3,8%) frá síðustu 12 mánuðum þar á undan. Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 189.200 einstaklingum laun sem er aukning um 8.400 (4,7%) samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr. […]

Framsýn krefst launahækkana

Framsýn, stéttarfélag hefur ritað stjórn Landsvirkjunar bréf með áherslu á hækkun launa til starfsmanna á gólfinu.  Laun forstjóra Landsvirkjunar hækkuðu um 45% á síðasta ári og hjá framkvæmdarstjórum og aðstoðarforstjóra um 24 prósent. „Það er von Framsýnar, stéttarfélags að sá velvilji stjórnar Landsvirkjunar til að hækka eigin laun og laun lykilstjórnenda fyrirtækisins verði til þess […]

Vilja auka öryggi barna og bæta ráðningarferli

Úttekt Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á verkferlum og reglum er varða tilkynningar og ábendingar sem berast til Barnaverndar Reykjavíkur var lögð fram á fundum borgarráðs og velferðarráðs í dag. Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Regína Ásvaldsdóttir, óskaði eftir úttektinni í framhaldi af máli stuðningsfulltrúa á skammtímaheimili við Hraunberg sem grunaður er um kynferðisbrot gegn börnum. Í niðurstöðum skýrslunnar […]

Ragnar hraunar yfir forystu Sjálfstæðisflokksins: „Sá fjársterkasti kjörinn formaður og fallegar ungar konur valdar honum til stuðnings“

Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur, sem komst í fréttir fyrir að gagnrýna útlit Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins, tekur engum silkihönskum um Sjálfstæðisflokkinn á Facebooksíðu sinni í morgun. Hann segir Bjarna Benediktsson kjörinn formann vegna fjárstyrks síns, en áður hafi það ráðið úrslitum hver væri öflugasti pólitíkusinn. Þá segir hann að ungar og fallegar konur séu valdar […]

Össur um landsfund Sjálfstæðisflokksins: „Nú er Bjarni Ben kjörinn formaður með þessari sósíaldemókratísku leið“

Frá því var greint í dag að formannskjör Sjálfstæðisflokksins á landsfundi um helgina verði framkvæmt með rafrænni kosningu, þar sem allir skráðir flokksmenn hafi kosningarétt. Þó verður hafður sá hátturinn á, að þeir sem mæta á landsfundinn, geta enn kosið með gamla laginu, það er skriflega. Össur Skarphéðinsson, fyrrum ráðherra Samfylkingarinnar, var fljótur að gera […]

Rafrettufrumvarp í mótsögn við sjálft sig – Krefst nikótínaðvarana á nikótínslausum rafrettum

Í rafrettufrumvarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, er að  finna meinlega mótsögn. Á einum stað segir að lögin eigi að ná yfir rafrettur, hvort sem þær innihaldi nikótín eða ekki. Á öðrum stað segir að aðeins megi selja rafrettur sem merktar eru viðvörunum um áhrif vörunnar á heilsu fólks. Með öðrum orðum, nikótínslausar rafrettur verða merktar viðvörunarmiða um […]

Öryrkjabandalagið um krónu á móti krónu skerðingu: „Kerfisbundið ofbeldi“

„Ef skynsemi, réttlæti og vilji til að breyta til batnaðar, ráða gjörðum stjórnvalda, hlýtur „króna á móti krónu“ skerðingin að verða afnumin strax, þannig staðfestu stjórnvöld vilja til velferðar í verki. Vilji er allt sem þarf,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands í ítarlegri umsögn bandalagsins um frumvarp þar sem lagt er til að sérstök uppbót til framfærslu […]

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is