Miðvikudagur 11.10.2017 - 21:25 - Ummæli ()

Áherslur flokkanna: Mennta- og menningarmál

Eyjan mun fram að kjördegi bjóða framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá utanríkismálum til heilbrigðismála.

Í dag er spurt:

Hverjar eru áherslurnar í mennta- og menningarmálum?

Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.

 

Björt framtíð – X-A

 

Tökum á brottfalli úr skólum með því að auka valkosti og sveigjanleika í skólakerfinu. Brottfall er sóun á hæfileikum, tíma og fé.

Bjóða þarf upp á fleiri möguleika varðandi lengd námsins og eins upp á mun fleiri leiðir sem henta styrkleikum hvers og eins.

 

Framsóknarflokkurinn – X-B

 

Framsókn vill fella niður afborganir af námslánum í fimm ár

Skapa þarf hvata til að laða ungt vel menntað fólk til þess að setjast að á landsbyggðinni, líkt og Norðmenn hafa gert. Framsókn vill að afborganir séu felldar niður af námslánum í fimm ár fyrir þá sem eru búsettir á skilgreindum svæðum á landsbyggðinni.

Framsókn vill fjárfesta í nýjum áskorunum og tækifærum

Skapa þarf ný tækifæri á umbreytingatímum sem framundan eru. Framsókn vill öflugt menntakerfi og fjárfesta í hugverka- og þekkingariðnaði. Með aukinni rannsókna- og þróunarstarfsemi má tryggja velferð og hagsæld til framtíðar. Framsókn er flokkur fjölskyldunnar og vill fjárfesta í menntun í framtíðinni.

Framsókn vill styrkja menntakerfið

Framsókn vill að fjármunir sem sparast við styttingu framhaldsskólans í þrjú ár verði skilyrðislaust nýttir til uppbyggingar og þróunar framhaldsskólastigsins, m.a. í verknámi og á landsbyggðinni.

Framsókn vill hækka endurgreiðslu í 25% í tengslum við nýsköpun og rannsóknir

Rannsóknir og nýsköpun í dag eru undirstaða kröftugs hagvaxtar og velmegunar í framtíðinni. Framsókn telur skynsamlegt og nauðsynlegt efla stuðning við rannsóknir og nýsköpun.

Menning

Framsókn vill afnema virðisaukaskatt af bókum

Bóksala hefur dregist saman um 31% frá árinu 2008 og 11% samdráttur var í bóksölu árið 2016 miðað við fyrra ár. Framsókn vill afnema virðisaukaskatt af bókum og rafbókum til að efla lestur og styrkja innlent fræðastarf og auðga íslenska tungu sem á undir högg að sækja.

Framsókn vill afnema virðisaukaskatt af tónlist

Sala tónlistar fer í auknum mæli fram á netinu og tónlistarmenn fá sífellt minna í sinn hlut. Framsókn vill styðja við öflugt tónlistarlíf og tónlistariðnað í landinu og vill leggja niður virðisaukaskatt af sölu tónlistar á netinu, á geisladiskum og hljómplötum.

 

Viðreisn – X-C

 

Leik-, grunn- og framhaldsskóli

Meiri samfella milli skólastiga
Sett verði skýr markmið og rammi um starfsemi menntastofnana. Unnið verði að heildstæðri löggjöf um íslenskt menntakerfi, sem auðveldi samfellu á milli skólastiga. Einstökum stofnunum verði jafnframt veitt frelsi til að finna vænlegustu leið að markmiðum.

Styttri skólaganga og meiri sveigjanleiki
Leikskólinn er fyrsta stig skólagöngu og ber að samþætta það síðari stigum. Stefnt skal að því að stytta námstíma til loka framhaldsskóla í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum. Horft skal til skilvirkrar samþættingar fyrstu skólastiga. Þjóðhagslegur ávinningur af styttingu námstímans skili sér í betra námsumhverfi og bættum innviðum. Stefnt skal að sveigjanleika í starfsemi menntastofnana sem og sveigjanlegum námshraða.

Grunnfærni á fyrstu skólastigum
Alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að íslensk börn standi jafnöldrum sínum að baki í lestri og stærðfræði. Auka þarf grunnfærni nemenda í þessum greinum á fyrstu stigum skólagöngu.

Draga þarf úr brotthvarfi með fjölbreytni
Til þess að sporna gegn brotthvarfi úr námi þarf að bjóða upp á fjölbreyttara nám og gera skapandi og starfstengdu námi hærra undir höfði. Sérstaklega á að horfa til hópa þar sem brotthvarf er hlutfallslega hátt, t.d. meðal drengja og nemenda af erlendum uppruna.

Starfsmenntun verður að endurskoða og bæta
Umgjörð starfsmenntunar á að taka til gagngerrar endurskoðunar og horfa til breyttra kennsluhátta sem mæti þörfum atvinnulífs. Áhersla á að vera á samvinnu atvinnulífs og skóla á öllum skólastigum með það að leiðarljósi að nám fari fram þar sem best hentar á hverjum tíma og að nám leiði til atvinnuþátttöku. Efla þarf náms- og starfsráðgjöf á öllum skólastigum.

Hagnýtar námsleiðir og fjarnámskennsla
Bjóða þarf upp á sveigjanlegan námshraða, í samræmi við færni hvers og eins, fjölga viðurkenndum styttri og hagnýtum námsleiðum á framhaldsskólastigi. Nýta á  tækninýjungar í skólastarfi. Vert er að þróa fjarnámskennslu enn frekar, ekki síst til þess að auðvelda aðgengi að námi í dreifbýli.

Framhaldsfræðsla verði óháð aldri
Endurskoða þarf löggjöf um framhaldsfræðslu og jafna aðgang að námi óháð aldri.

Góðir kennarar eru forsenda menntunar
Gæði kennslu er ein forsenda góðrar menntunar. Búa þarf kennurum gott starfsumhverfi og vanda þarf umgjörð kennaramenntunar, sem á að taka mið af þörfum nemenda og skóla. Mikilvægt er að styrkja þátt stærðfræði og raungreina í kennaramenntun.

Sporna þarf gegn staðalmyndum og kynjahyggju
Kynja- og jafnréttisfræðsla er mikilvæg á öllum skólastigum. Jafnréttissjónarmið eiga að vera til hliðsjónar í allri kennslu til að vinna markvisst gegn staðalmyndum og kynjahyggju. Menntamálayfirvöld þurfa að vera meðvituð um forsendur kynjaðs námsvals og leita leiða til þess að stuðla að jafnri stöðu kynjanna í einstaka námsgreinum og á vinnumarkaði.

Huga þarf að andlegri og líkamlegri vellíðan
Rétt er að hafa hugmyndafræði heilsueflandi skóla til hliðsjónar við þróun skólastarfs. Huga þarf að hreyfingu nemenda, næringu og geðrækt.

Háskólanám, vísindi, rannsóknir og nýsköpun

Jöfn tækifæri til náms
Allir eiga að hafa jöfn tækifæri til háskólanáms óháð efnahag og búsetu. Bjóða á sveigjanlegan námshraða og fjölga viðurkenndum styttri og hagnýtum námsleiðum á háskólastigi. Nýta þarf tækninýjungar í skólastarfi, til dæmis að þróa fjarnámskennslu enn frekar, ekki síst til þess að auðvelda aðgengi að námi í dreifbýli.

Námslán og styrkir eiga að hvetja
Námslán og skólagjöld taki mið af því að allir eiga að hafa jöfn tækifæri til háskólanáms óháð efnahag og búsetu. Kjör námslána taki tillit til námshraða, árangurs og framgangs í námi. Beinn stuðningur við námsmenn í námslánakerfi á að vera sýnilegur og í formi styrkja. Námslánakerfi þarf að vera árangurshvetjandi. Afborganir námslána eiga að vera tekjutengdar.

Gæði og hagkvæmni með meira fjármagni
Auka þarf fjárframlög til menntastofnana hér á landi. Íslendingar standa Norðurlandaþjóðunum, sem og öðrum OECD-ríkjum, langt að baki í þessu efni. Ráðstafa þarf fjármunum af hagkvæmni og stefna að aukinni samvinnu og/eða sameiningu skóla, þó þannig að æskilegri samkeppni sé haldið. Gæðasjónarmið eiga að vera í forgangi í öllu skólastarfi og stefnumótun.

Samvinna um nýsköpun og vísindi
Háskólar, rannsóknastofnanir og atvinnulíf vinni meira og betur saman, og skapi umgjörð fyrir þróttmikið nýsköpunarstarf og stuðli að því að sprotar geti dafnað. Efla þarf innlenda samkeppnissjóði og auka sókn í alþjóðlega samkeppnissjóði meðal annars með skilvirku stoðkerfi fyrir vísindafólk. Stefna verður að því að fjárframlög til rannsókna og þróunar verði aukin enn frekar. Til að svo megi verða þurfa hið opinbera og atvinnulífið að taka höndum saman.

Öflugar menningarstofnanir gegna miklu hlutverki
Standa á vörð um menningarstofnanir og efla þær eftir mætti. Almenningsútvarp hefur bæði menningarlegu og lýðræðislegu hlutverki að gegna. Fólk þarf að eiga þess kost að njóta menningar óháð efnahag eða búsetu. Stuðlað skal að því að einstaklingar geti tekið þátt í skapandi starfi óháð fötlun.

Menntun í skapandi greinum er mikilvæg
Aðgengi að góðri menntun í skapandi greinum þarf að vera á öllum skólastigum. Styrkja verður umgjörð háskólanáms í listgreinum, efla fræðilegt starf og rannsóknir á þeim sviðum.

Menning er fjárfesting
Líta ber á opinberan stuðning við menningarstarfsemi sem fjárfestingu. Hlutverk stjórnvalda er fyrst og fremst að skapa umgjörð og gott starfsumhverfi fyrir skapandi greinar. Efla þarf menningartengda samkeppnissjóði, þ.e. launa- og verkefnasjóði og úthlutun á að vera opin og fagleg. Þá skal gert ráð fyrir því að vísindasjóðir styðji rannsóknir á sviði skapandi greina. Gæta ber að kynjasjónarmiðum á þessu sviði sem öðrum.

Samhæfðari og styrkari stjórnsýsla
Umhverfi menningarstarfs á að vera sambærilegt við það sem gerist best í helstu samanburðarlöndum. Stefnt skal að því að styrkja stjórnsýslu skapandi greina. Hún þarf að vera heildstæð, stöðug, fagleg og byggja á langtíma framtíðarsýn.

Listamenn njóti ávaxta síns erfiðis
Starfskjör listafólks eiga að taka mið af þeirri grundvallarreglu að einstaklingar fái greitt fyrir vinnu sína. Opinberar stofnanir eiga að ganga á undan með góðu fordæmi.

Höfundarrétt ber að virða en laga að nýjum tímum
Það er ófrávíkjanlegt að höfundarrétt beri að virða. Hins vegar á að uppfæra löggjöf í samræmi við þróun í tækni, tækjabúnaði, afritun og dreifingu höfundarréttarvarins efnis. Rétt er að skattleggja tekjur af höfundarrétti líkt og fjármagnstekjur.

Íslensk tunga í stafrænum heimi
Hlúa þarf að íslenskri tungu og gera hana gjaldgenga í stafrænu samskiptaumhverfi. Styðja þarf við verkefni sem hafa þetta að markmiði. Tungumálið er mikilvægasti miðill menningarinnar og ein undirstaða sjálfsvitundar þjóðar. Tungan er menningarverðmæti í sjálfu sér.

Alþjóðlegir straumar leiki um íslenska menningu
Menning er síkvik framþróun sem fléttar saman fortíð nútíð og framtíð. Menning er menntun samfélags. Hún þarf að vera víðsýn og opin fyrir ytri straumum. Því er virk þátttaka í alþjóðasamstarfi nauðsynleg á þessu sviði sem öðrum.

 

Sjálfstæðisflokkurinn – X-D

 

Mennta- og menningarmál

 • Auka skilvirkni á grunn- og framhaldsskólastigi og fjölga sjálfstætt starfandi skólum
 • Nýta betur tækniþróun og samskiptatækni í menntamálum
 • Við ætlum að endurskoða kennsluaðferðir og skólastarf
 • Auka framlög til háskólastigsins til meðaltals OECD-landa
 • Við viljum að námsmenn fái styrk til náms – ekki bara lán
 • Efla skal verknám almennt
 • Hlúð verði að menningu og listum.
 • Listnám og skapandi greinar efld á öllum skólastigum
 • Auka á vægi íþrótta og heilsuræktar í tengslum við skólastarf

Markmið menntakerfisins er að tryggja börnum okkar og ungmennum bestu mögulegu menntun til þess að undirbúa þau undir lífið. Það þarf að kenna þeim til verka, veita þeim fjölbreytilegan fróðleik og kunnáttu, og kveikja hjá þeim fróðleiksþorsta. Við þurfum að hugsa menntamál upp á nýtt með fagfólki, kennurum, nemendum og foreldrum. Í heimi sem breytist hratt verður menntakerfið að vera sveigjanlegt og framsækið til að halda í við þróun og alþjóðlega samkeppni. Við ætlum að endurskoða kennsluaðferðir og skólastarf í samvinnu við sveitarfélög, kennara, nemendur og foreldra.

Lögð verður aukin áhersla á gæðamál og skilvirkni á grunn- og framhaldsskólastigi og fjölga sjálfstætt starfandi skólum einkum á grunnskólastigi, m.a. til að auka valfrelsi. Gæða- og árangursmælikvarðar eru mikilvægir og þá sérstaklega við mat á námi og frammistöðu nemenda og framgangi kennara í starfi.

Draga þarf úr brottfalli nemenda. Stjórnvöld þurfa að hafa áhrif á og styðja sveitarfélög við að efla starf á leik- og grunnskólastigi og auka sveigjanleika milli skólastiga, m.a. þurfa nemendur að geta hafið grunnskólanám við 5 ára aldur. Stjórnvöld munu auka framlög til háskólastigs til meðaltals OECD-landa. Jafnframt þarf að efla verknám og gera þarf nemendum auðveldara að komast á samning, m.a. í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Kröfur atvinnulífsins til hæfni og þekkingar starfsmanna taka sífelldum breytingum. Auðvelda þarf nemendum afla sér þekkingar við hæfi á ólíkum sviðum.

Við ætlum að taka upp námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd, 65.000 króna styrk á mánuði og lán ofan á það upp að fullri framfærslu með samtímagreiðslu, sem íslenskum námsmönnum hefur aldrei áður staðið til boða. Mikill meirihluti námsmanna mun njóta ávinnings af breytingunum.

Íþróttir og heilsurækt eru lykilatriði í vellíðan þjóðarinnar. Við viljum tengja hreyfingu og íþróttastarf við öll skólastig. Líkamsrækt og íþróttastarf er afar mikilvægur þáttur í uppvexti allra barna og lykillinn að góðri lýðheilsu.

Við viljum standa öðrum þjóðum jafnfætis þegar kemur að því hvernig við búum að afreksíþróttafólki okkar. Kominn er tími til að endurnýja þjóðarleikvang okkar Íslendinga.

Íslensk menning og tunga er það sem gerir okkur að þjóð. Verja þarf stöðu tungunnar í heimi upplýsingatækni og gervigreindar og hlúa markvisst að menningu og listum. Listnám verður eflt á öllum skólastigum, og nám á sviði skapandi greina, forritunar og hönnunar tekið upp á almennu grunn- og framhaldsskólastigi. Menning og listir eru hluti af atvinnusköpun á sviði iðnaðar, ferðaþjónustu og flestra greina atvinnulífs næstu áratugi.

 

 

 

Flokkur fólksins – X-F

 

Öllum börnum verði tryggður gjaldfrjáls og hollur matur í grunnskólum og leikskólum. Skólastarf sé þróttmikið með áherslu á sjálfsstyrkingu, mannleg samskipti, virðingu og kærleika.

Leysa skal úr fjárhagsvanda háskólastigsins og efla rannsóknir og nýsköpun í þágu atvinnulífsins sem undirstöðu að hagsæld og framförum í landinu. Mennt er máttur.

 

 

Píratar – X-P

 

Menntun fyrir framtíðarsamfélagið aðgengileg öllum – Óháð efnahag, búsetu og aldri

Þekking er og verður áfram grunnforsenda hárra launa og öflugs hagvaxtar. Til að allir hafi jöfn tækifæri til þátttöku í þessari framtíuð þarf menntakerfi sem tryggir öllum aðgang án tillits til efnahags, búsetu eða aldurs – allt frá leikskóla til háskóla og endurmenntunar.

Við viljum að í menntakerfinu sé jafnvægi milli bók-, list- og verkgreina, með lítið heimanám, smærri bekki og virðingu fyrir starfi kennara sem endurspeglast í háum launum.

Námsstuðningur

Grunnframfærslan skal leiðrétt og miðuð við eðlilegar fjárþarfir fólks í námi. Námslán til framfærslu skulu verða að styrk sem eins og námslán til að greiða skólagjöld skal greiða fyrirfram.
Vísindarannsóknir og tækniþróun

Með auknu alþjóðlegu samstarfi í vísindarannsóknum og þróun stóraukast möguleikar Íslendinga á atvinnu, menntun og tækniþróun innanlands. Umsóknir á sviðum menningar og lista skulu fá faglega meðferð frá viðeigandi fagaðilum, sem skal tryggt m.a. með fulltrúa úr listheiminum innan vísinda og tækniráðs.

Kynfræðsla

Kynfræðsla skal lögbundin sem sérstök námsgrein í grunnskóla, og samið verði efni við hæfi mismunandi aldurshópa.

Menningarmál

Efla þarf íslenskuna í stafrænum heimi. Það gerum við ekki bara með kennslu á forritun í skólum, heldur með stuðningi við þróun opins og frjáls hugbúnaðar á íslensku. Einnig þarf að skoða hvernig við tryggjum að íslenskt efni sé aðgengilegt á netinu þannig að listamenn og neytendur njóti góðs af.

Listaháskólinn hefur verið í óviðunandi húsnæði frá stofnun og margoft hefur heilbrigðiseftirlitið þurft að skarast í leikinn. Píratar vilja sameina deildir skólans undir eitt þak í viðunandi húsnæði. Störf framtíðarinnar verða skapandi og það ógnar framtíðar hagvexti og lífsskilyrðum að vanrækja þann hluta hagkerfisins.

Píratar styðja aukna gagnaöflun um þriðja geirann og kortleggja áhrif hans á hagkerfið með skipulegum hætti.

Stjórnsýsla í kringum menningarmál á að færa undir eitt ráðuneyti og skoða vandlega hvaða ávinningur fælist í því að aðskilja mennta og menningarmálaráðuneyti í tvö ráðuneyti.

Píratar vilja auka fagmennsku og gagnsæi við úthlutun úr styrkjakerfi listamanna í samráði við samtök listamanna.

Píratar vilja fella niður virðisaukaskatt á bókum líkt og tíðkast m.a. í Noregi, Danmörku og Bretlandi.

Höfundar njóti ágóða af verkum sínum

Endurskoðun höfundalaga skal taka mið af síbreytilegri þróun viðskiptahátta og miðlunarmöguleika í listsköpunar- og hugverkaiðnaði, með það að markmiði að gera höfundum kleift að afla tekna af verkum sínum án þess að framfylgni laganna bitni á almannahagsmunum, borgararéttindum eða hefðbundnum ferlum réttarríkisins.

 

 

Alþýðufylkingin  – X-R

 

Í menntamálum viljum við tryggja jafnt aðgengi að námi, óháð aldri, uppruna, fötlun eða efnahag. Það þýðir m.a. að opna framhaldsskólana aftur fyrir eldri en 25 ára og að félagsvæða Lánasjóð íslenskra námsmanna þannig að námslán séu vaxtalaus og veitt af samfélagslegu eigin fé, en breytist í námsstyrk að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Við viljum bæta starfsaðstæður nemenda og kennara á öllum skólastigum og endurskipuleggja vinnutíma kennara í samráði við þá sjálfa. Við viljum hlíta ráðum skólafólks um hvað sé hægt að gera til að draga úr skaðanum af niðurskurði framhaldsskólans í þrjú ár.

Í menningarmálum viljum við að hið opinbera styrki menningarinnviði á borð við söfn og leikhús, enda mynda þeir burðarvirki sem annað menningarstarf styðst við og bætir lífið í landinu.

Mikilvægt er að undirstrika að við ætlum ekki að forgangsraða peningum frá sveltandi öryrkjum til að reka söfn – við ætlum að forgangsraða peningum frá gróðadrifnum fjármálastofnunum til fólksins í landinu. Ef fjármálakerfið verður félagsvætt losna svo mikil verðmæti úr læðingi að við munum búa við allsnægtir og þurfum ekki að velja milli matar, lyfja og menningarlífs heldur getum veitt okkur þetta allt. Öll.

 

Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands – X-S

 

Sókn í menntamálum er eitt af aðalmálum Samfylkingarinnar í þessum kosningum. Á hátíðisdögum er talað um mikilvægi hennar en þess á milli er dauðaþögn ráðamanna. Þróun skólastarfs verður að fá miklu stærri sess í íslenskri þjóðamálaumræðu.

Menntun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun og betri lífskjörum. Við stöndum í anddyri tæknibyltingar þar sem starfshættir eiga eftir að breytast verulega og mörg störf munu tapast. Miklar breytingar verða á vinnumarkaði og skólarnir þurfa að búa nemendur undir þær með því að leggja áherslu á grunnþætti á borð við félagsfærni, sköpun og gagnrýna hugsun.

 • Gefum nemendum tækifæri til þess að þroska hæfileika sína í skapandi greinum, listum, rannsóknum og nýsköpun til að mæta nýjum áskorunum í lífi og starfi.
 • Aukum virðingu fyrir kennurum og bregðumst við kennaraskorti.
 • Fjármögnum háskóla til jafns við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.
 • Styðjum betur við fjölbreytta framhaldsskóla út um allt land og vinnum gegn brottfalli framhaldsskólanema með markvissum aðgerðum.

Guðmundur Andri Thorsson sem er nýr oddviti okkar í Suðvesturkjördæmi fangaði vel áherslu okkar á menntun og menningu í erindi á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar þegar hann sagði:

Sigurður Pálsson skáld, sem nú er nýlátinn, skildi eftir sig þessa áminningu handa okkur í síðustu bók sinni, Ljóð muna rödd:

Hvað sem hver segir
er fegurðin ekki skraut
heldur kjarni lífsins.

Þessi hugsun má gjarnan vera okkur leiðarljós í störfum okkar, ekki bara í öllu sem varðar menntun og menningu og listir heldur líka þegar við byggjum mannvirki, þegar við göngum um náttúruna, þegar við tölum saman, þegar við semjum excelskjal: að reyna að gera hlutina vel og fallega.

Slíkt kallar á opinn huga, jákvæðni, frekar en tortryggni og ráðríki af því tagi sem mér finnst hafa einkennt áratugalanga stjórn Sjálfstæðismanna á mennta- og menningarmálum með ofstjórn að ofan, vantrú á kennurum og öðru fagfólki og undirliggjandi löngun til að gera þessi grundvallarréttindi, góða menntun, að sérréttindum hinna útvöldu.

Við jafnaðarmenn teljum hins vegar að lifandi, frjálst og öflugt menntakerfi handa öllum sé grunnstoð góðra lífskjara og farsældar í framtíð, sjálfsögð mannréttindi. Við þurfum að taka til hendi í menntakerfinu, styrkja öll skólastig og hætta að láta sparnaðarsjónarmið ráða för: hætta að byggja glæsilegar umgjarðir en láta svo reksturinn sjálfan vera á heljarþröm.

Sjálfum er mér tungumálið hugleikið, það er sjálfur vettvangur hugmyndanna og við þurfum að huga að merkingu orðanna; gæta þess að jaðar sé ekki kallaður miðja, gott fari ekki að tákna illt, sannleikur verði ekki skammaryrði.

Og íslenskan: ef við hættum að nota þetta forna og sínýja mál í daglegu lífi okkar kann sá dagur að renna upp, fyrr en varir, að íslenskt sjónvarp muni texta íslenskt efni handa Íslendingum – á ensku.

Á komandi árum og áratugum gegnir menntun lykilhlutverki í lífsgæðum; æ fleiri störf hverfa í kjölfar vélvæðingar og þá skiptir sköpum um heill og farsæld fólks hvort það getur menntað sig til nýrra starfa, óháð aldri, stétt, kyni og uppruna, en líka stundað fagrar listir, iðkað þær og notið þeirra. Í komandi atvinnuþróun er óhemju mikilvægt að hugsun jafnaðarmanna ráði för þegar kemur að því að dreifa arðinum af þeirri verðmætasköpun sem af sérhæfingunni hlýst; annað getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir samfélag okkar.

Því eins og Sigurður Pálsson segir í sama ljóði og ég vitnaði í áðan:

Hvað sem hver segir
byggir friður á réttlæti.

 

Vinstrihreyfingin grænt framboð – X-V

 

Jafnrétti til náms

Jafnrétti til náms verði tryggt óháð aldri, búsetu og efnahag. Til þess þarf fjölbreytt nám, bóklegt, verklegt og listnám sem og fjarnám um land allt.

Sterkari háskólar

Tryggja þarf að framlög á hvern háskólanema nái sem fyrst meðaltali OECD og í kjölfarið verði þau hækkuð þannig að Ísland standi jafnfætis öðrum Norðurlöndum í takt við samþykkta stefnu Vísinda- og tækniráðs.

Lánasjóðurinn

Frelsa þarf námsmenn frá yfirdráttarkerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna og taka upp samtímagreiðslur samhliða því að tryggt verði að námslán dugi til raunverulegrar framfærslu. Eðlilegt er að hluti höfuðstóls námslána breytist í styrk ef námi er lokið á áætluðum tíma og áfram þarf að tryggja að námslán beri í mesta lagi eitt prósent vexti. Endurskoða þarf allt fyrirkomulag Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Skólaþróun og faglegt sjálfstæði kennara

Gera þarf kennarastarfið að fýsilegri kosti, til dæmis með því að efla faglegt sjálfstæði kennara og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum og tryggja fjármuni til hennar. Bregðast þarf við kennaraskorti með hvötum í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga.

Sálfræðiþjónusta í skóla

Sálfræðiþjónusta og heilsugæsla verði tryggð í öllum framhaldsskólum.

Faglegt sjálfstæði framhaldsskóla

Framhaldsskólum verði tryggt svigrúm til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaga. Tryggja þarf fullnægjandi fjármagn til að framhaldsskólinn geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki.

Efling leikskóla

Leikskólar verði lögbundið verkefni sveitarfélaga og gjaldfrjálsir í áföngum. Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla í samvinnu ríkis og sveitarfélaga.

Sterkur grunnskóli

Grunnskólinn er eitt mikilvægasta jöfnunartæki samfélagsins. Standa þarf vörð um fjölbreytta og öfluga opinbera grunnskóla þar sem kennarar, nemendur og fjölskyldur vinna saman að alhliða menntun og þroska barna og ungmenna.

Iðn- og tæknigreinar

Stórauka þarf menntun í iðn- og tæknigreinum til að búa samfélagið betur undir samfélags- og tæknibreytingar.

Fullorðinsfræðsla fyrir alla

Lögð verði áhersla á samfélagslega rekið stoðkerfi fullorðinsfræðslu. Jöfnun á aðgengi að námi og námsþjónustu óháð búsetu og öðrum aðstæðum verði meginmarkmið. Endurskoða þarf löggjöf um framhaldsfræðslu og setja skýran ramma um starfsemi menntastofnana og samstarf við atvinnulífið.

 

Sjá einnig:

Þrjú helstu atriðin sem flokkurinn setur á oddinn í kosningabaráttunni

Velferðarmálin og almannatryggingar

Efnahags- og atvinnumál

Mennta- og menningarmál

Utanríkismál

Stjórnkerfið

Það sem kjósendur ættu að varast

Umhverfismál

Þarf að herða refsingar í kynferðisbrotamálum?

Samgöngumál

Á Þjóðkirkjan að vera á fjárlögum?

Stjórnarskráin

Húsnæðismál

Sjávarútvegsmál

Uppreist æra

Málefni krabbameinssjúklinga

Útlendingamál

Landbúnaðarmál

Heilbrigðismál

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Listi Eyþórs klár – Tveimur borgarfulltrúum bolað burt

Sjálfstæðismenn kynntu endanlegan framboðslista sinn í kvöld, fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí. Borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir eru ekki á listanum, en Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi er í fimmta sæti listans. Hildur Björnsdóttir lögfræðingur er í öðru sæti, Valgerður Sigurðardóttir því þriðja, og Egill Þór Jónsson í fjórða. Heildarlistinn er hér að neðan:   1. Eyþór Lax­dal […]

Fjárframlög til stjórnmálaflokka hækka um 127% : Sjálfstæðisflokkur fær mest – Viðreisn minnst

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman upplýsingar um greiðslur ríkisins til stjórnmálasamtaka fyrir árið 2018. Framlög fara eftir stærð flokkanna samkvæmt atkvæðafjölda og fær því Sjálfstæðisflokkurinn hæsta framlagið, eða rúmar 166 milljónir. Viðreisn fær minnsta framlagið, eða rétt tæpar 44 milljónir. Framlagið hækkar milli ára um 127 prósent. Tillaga um að hækka framlög til flokkanna […]

Björn Valur þjófkennir þingmenn-Segir marga vísvitandi brjóta reglurnar-Á pari við Árna Johnsen

Björn Valur Gíslason, fyrrum varaformaður VG, segir það gott mál að nú skuli greiðslur Alþingis til þingmanna verða gerðar opinberar, líkt og til stendur samkvæmt Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis. Hann telur einnig sjálfsagt að Alþingi endurgreiði útgjöld þingmanna, þeir eigi ekki að „verða fyrir útgjöldum vegna starfa sinna.“ Það sem er eftirtektavert er að […]

Pawel býður sig fram í borginni

Pawel Bartoszek, fyrrum þingmaður Viðreisnar, segist á Facebook síðu sinni hafa komið því áleiðis til uppstillingarnefndar Viðreisnar, að hann sækist eftir sæti ofarlega á lista flokksins í komandi borgarstjórnarkosningum.   „Reykjavík er frábær borg. Hún dregur til sín hæfileikaríkt fólk frá öllu landinu og öllum heimshornum. Hún er oftar en ekki aðdráttaraflið dregur þá Íslendinga […]

Gunnar Smári sakar Samtök atvinnulífsins um að kaupa sig inn í fréttir RÚV

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands, sakar framkvæmdarstjóra Samtaka atvinnulífsins, Halldór Benjamín Þorbergsson um að hafa greitt fyrir að koma fram í kvöldfréttatímum RÚV, í áróðurskyni. Hann segist ekki skilja hvers vegna Halldór sé „alltaf fenginn til að vera með fréttaskýringar í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins“ og spyr: „Erum við orðin svo blind af peningahyggjunni að við teljum […]

Formannslausir Píratar deila með sér aðstoðarmanni-Þiggja ekki kaupálag

  Á vef Alþingis er Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sögð formaður Pírata frá 2017. Píratar hafa löngum stært sig af formannsleysi sínu og að hafa ekki fallið í formannsgryfju fjórflokksins og þannig sloppið við hið alkunna foringjaræði. Þessi flati „strúktúr“ , andstæðan við hinn útbreidda valdapíramída, fékkst í arf frá Borgarahreyfingunni og hefur haldist síðan. […]

Alþingi boðar breytt vinnubrögð með birtingu gagna-En aðeins frá áramótum

Í tilkynningu frá forseta Alþingis í dag, Steingrími J. Sigfússyni, kemur fram að forsætisnefnd hafi samþykkt á fundi sínum þrjár efnisbreytingar á reglum Alþingis um þingfararkostnað. Þingmenn fá endurgreiðslu vegna afnota af eigin bíl upp að 15.000 kílómetrum, skýrari ákveði verða sett vegna staðfestingargagna til grundvallar endurgreiðslu og ný ákveði sett varðandi þá skilmála sem […]

Umskurður drengja

Sara Pálsdóttir ritar: Umskurður drengja hefur sterk tengsl við trúarbrögð Gyðinga og Íslam. Drengir um allan heim eru umskornir og er um að ræða rótgróna hefð í mörgum samfélögum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) gaf út skýrslu árið 2010 þar sem umskurði ungra drengja eða kornabarna er lýst sem einni af algengustu og elstu skurðaðgerðum í heimi og […]

Eyþór segir meirihlutann hafa misst tökin-Nýr starfshópur þriðja hvern dag

Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, sakar stjórnkerfið í borginni um óviðunandi vinnubrögð í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Nefnir hann því til stuðnings að fyrirspurnum sé svarað seint og illa og að 351 starfshópur hafi verið skipaður fyrstu þrjú ár kjörtímabilsins. Það þýði að nýr starfshópur hafi verið skipaður þriðja hvern dag. Á meðan hafi […]

Fækkar í fiskiskipaflotanum – 70 ný skip á fimm árum

Samtals 70 ný fiskiskip hafa bæst við flotann hér á landi á síðustu fimm árum. Af þeim eru átta skuttogarar, 37 vélskip og 25 opnir bátar. Samtals 53 þessara skipa voru smíðuð hér á landi, öll úr trefjaplasti og undir 30 brúttótonnum. Togararnir voru allir smíðaðir í Tyrklandi, sem og fjögur af þeim sjö vélskipum sem […]

Þurfa að greiða 4.8 milljónir í skaðabætur vegna ólögmatrar uppsagnar

Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ, þurfa að greiða fyrrverandi starfsmanni og félagsmanni í SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu, alls 4,8 milljónir króna í skaðabætur, miskabætur og lögfræðikostnað vegna ólögmætrar uppsagnar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SFR. Starfsstöð starfsmannsins var á Akureyri en […]

VR stofnar leigufélag – Ekki rekið í hagnaðarskyni

Stjórn VR ákvað á fundi sínum í gær að stofna leigufélag fyrir félagsmenn sína. Það skal ekki rekið í hagnaðarskyni. Þetta kemur fram á vef VR. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur verið forgöngumaður fyrir slíku félagi, en hann hefur lýst leigumarkaðinum hér á landi sem fársjúkum og talað um græðgisvæðingu leigufélaga. Í frétt VR […]

Verð á bílaleigubílum lækkar við Leifsstöð-Samt hæsta verð í Evrópu

Samtals hefur verð á bílaleigubílum við Leifsstöð lækkað um 38% frá því 2015, um 24% í evrum talið og 17% í dollurum talið, sökum styrkingar krónu síðastliðin þrjú ár. Þá er miðað við gengið í febrúar 2015 og febrúar 2018. Þetta kemur fram á Túristi.is. Forsendurnar eru að leigður sé minnsti bíllinn í tvær vikur […]

Landbúnaðarháskólinn skuldlaus við ríkissjóð – Fékk 85% skulda afskrifað

Samkvæmt Ríkisendurskoðun er Landbúnaðarháskóli Íslands nú skuldlaus við ríkissjóð. Skólinn hefur lengi átt í fjárhagserfiðleikum og voru 85% af skuldum skólans afskrifaðar um áramótin 2016/2017. Þá þurfti einnig að segja upp starfsfólki. Ríkisendurskoðun kom með tvær ábendingar til skólans og menntamálaráðuneytisins árið 2015 um fjármálastjórn og rekstrarstöðu skólans. Sú fyrri var að tryggja þyrfti  að […]

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is