Mánudagur 01.01.2018 - 19:40 - Ummæli ()

Nýársávarp forseta Íslands

Nýársávarp
forseta Íslands
Guðna Th. Jóhannessonar
1. janúar 2018.

 

 

 

 

 

 

Góðir Íslendingar. Góðan dag og gleðilegt ár!
Um áramót lítum við gjarnan um öxl, rifjum upp viðburði ársins. Margt
bar til tíðinda á nýliðnu ári. Það gæti ært óstöðugan að rekja átök í heimi
stjórnmálanna en sitthvað fleira mun rata í annála framtíðarinnar. Listafólk
auðgaði mannlífið og sama gerðu stelpurnar okkar og strákarnir okkar í hinum
ýmsu íþróttum, báru hróður Íslands víða og sýndu hverju hægt er að áorka þegar
saman fara vilji og þor, eining og agi. Margir sigrar unnust og við gátum svo
sannarlega glaðst – en sorgin kvaddi líka dyra.
Um miðjan janúar fyrir tæpu ári hvíldi drungi yfir mannlífinu hér. Ungrar
stúlku var saknað, hún sneri ekki heim, hvað hafði komið fyrir? Leitin mikla
hófst, okkar öfluga björgunarsveitarlið kom saman hvaðanæva af landinu og
almenningur lét sitt ekki eftir liggja. „Við … fórum í bíltúr í kvöld,“ skrifaði
einn á Fésbók, „að svipast um eftir stúlkunni sem hefur verið saknað …Við
keyrðum … upp í Heiðmörk, kringum Elliðavatn og upp í Urriðaholt. Alls staðar
var fólk að leita, sums staðar bíll á eftir bíl á fáförnum slóðum og glampar af
vasaljósum út um allt. Þrátt fyrir að hafa ekki fundið neitt sem komið getur að
gagni var sterkt að upplifa samkenndina sem myndast hjá ókunnugu fólki við
aðstæður sem þessar.“
Aðrir tóku í sama streng. Við vonuðum saman og leituðum saman, við
óttuðumst saman og við báðum mörg saman. Þann þjóðarhug festi í orð
rithöfundurinn Guðmundur Brynjólfsson:
Nú biðji sem biðja,
nú óski sem óska,
nú voni sem vona,
nú hugsi allir þá hlýju hugsun,
þá einu ósk, þá bæn og von
sem býr með smárri þjóð.

2

Við misstum hana. Við misstum brosmilda stúlku sem átti drauma og þrár,
lífið allt framundan. „Þessi voveiflegi atburður má aldrei skilgreina Birnu,“
sagði séra Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur í eftirmælum sínum. En
það sem var svo sérstakt hina dimmu daga, það sem mun lifa í minningu fólks,
var leitin mikla og samkenndin, samhugur heillar þjóðar.
Fleiri urðu valdníðslu að bráð hér á nýliðnu ári, féllu fyrir hendi annarra;
ungur faðir frá börnum sínum, útlendur piltur í leit að betra lífi, erlend kona sem
lagði sinn skerf til samfélagsins og sagði Ísland öruggasta land veraldar, vegin af
manni sem kvaðst hingað kominn í leit að skjóli. Miskunnarleysið getur verið
mikið í þessum heimi. En það er ekki bundið við tiltekinn eða tilbúinn hóp fólks,
það þekkist ekki á þjóðerni eða trú.
Hugsum til þeirra sem eiga um sárt að binda eða minnast liðins árs með
sorg í hjarta. En leyfum voninni líka að lifa og færa fólki styrk. Martin Luther
King sagði á sínum tíma að sönn umhyggja yrði að lokum allri illsku
yfirsterkari. Nýlega lét rithöfundurinn Auður Ava Ólafsdóttir söguhetju sína,
sem misst hafði lífslöngun en fann svo neista á ný, mæla þessi orð: „Ég hef hitt
nógu margar góðar manneskjur til að trúa á manninn.“
Kæru landar. Kannski verður nýliðins árs einkum minnst fyrir þau
tímamót að konur fylktu liði gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi, sögðu hingað
og ekki lengra og karlar tóku undir. Við eigum að standa saman um samfélag
sem hafnar ráðríki hinna freku, áfergju þeirra sem þykjast geta komist upp með
hvað sem er. Í þessum efnum sem öðrum má þó varast alhæfingar, hviksögur og
haldlausar ásakanir; þær spilla góðum málstað.
Og nú er nýtt ár hafið. Áföll munu áfram dynja yfir. Óréttlæti mun áfram
svíða. Getum við í raun og veru litið björtum augum fram á veg? Hvað getur
vakið með fólki von um betri heim?
Árið 1918, fyrir réttri öld, urðu tímamót. Ísland varð frjálst og fullvalda
ríki, áfram undir Danakonungi en með fyrirheit um fullt sjálfstæði. Fólkið
fagnaði en framtíðardraumar voru blandnir ugg og sorg hinnar líðandi stundar.
Árið hófst með frostum, hörkugaddi sem varði vikum saman um land allt. Svo
gaus Katla og mesta mildi að hún olli litlum búsifjum. Spænska veikin,
inflúensan skæða, lagði hundruð landsmanna að velli um haustið. Þetta ár lifðu
Íslendingar ófáa dimma daga.
En samt, en samt, þá lifði vonarljós. Í hundrað ár hafa skipst hér á skin og
skúrir, ógnir og aðstoð að utan, framfarir sem byggðust á dugnaði okkar og
hyggjuviti, afturkippir og sjálfskaparvíti. Og hér erum við enn. Saman getum við
litið stolt yfir liðna tíð og við, sem yngri erum, megum þakka hinum eldri fyrir
þeirra drjúga þátt, okkur til hagsbóta. Ríki okkar er vel stætt og megi marka
kannanir eru Íslendingar upp til hópa hamingjusamir.

3

Við skulum því hiklaust leyfa okkur að horfa bjartsýn til framtíðar,
bjartsýn en raunsæ og hógvær um leið. Hvaða siði og venjur þurfum við að
halda í? Hvað hefur gefist vel, hvað miður? Hvað er að óttast? Hvað ber að
varast?
Við þessum spurningum eru engin einhlít svör. Þannig á það að vera í
frjálsu samfélagi. Lærdómur liðinnar fullveldisaldar getur þó hæglega verið
þessi: Við þurfum að hlúa að náttúru landsins og menningu. Við erum háð
umheiminum og þróun mála þar og við þurfum að sýna ráðdeild og fyrirhyggju,
samkennd og mannúð.
Fyrir hundrað árum óx aldamótakynslóðin úr grasi, vormenn Íslands. Nú
skyldi rækta hið nýja land. Síðan tók við útvegsöld. Sá auður sem skóp hér
velferðarsamfélag kom einkum úr blikandi hafi. Sjávarafli ræður ekki eins miklu
um hag þjóðarinnar og fyrr, sífellt færri vinna við fiskveiðar og fiskvinnslu.
Auðlindir hafsins verða okkur þó áfram drjúgar og því má hampa að í útvegi
okkar Íslendinga eru nýsköpun og tækniþróun í fyrirrúmi. Okkur hefur líka
tekist að stöðva ofveiði, við ráðum miðunum sjálf og viljum gera það áfram.
Illvígur vandi blasir hins vegar við, mengun, hlýnun og súrnun sjávar. Því hefur
verið spáð að um miðja öldina verði meira plast en sjávarfang í heimsins höfum.
Á alþjóðavettvangi ættum við Íslendingar að láta til okkar taka um þessa vá alla.
Líklegast er að rödd smáþjóðar heyrist þegar þekking og heilindi búa greinilega
að baki.
Til sveita eru vormenn Íslands horfnir á braut. Nú skal mokað ofan í
skurði sem skópu tún, endurheimta votlendi í þágu lífríkis og loftslags. Í
landbúnaði getur duglegt fólk samt áfram fundið kröftum sínum farveg. Í hinum
dreifðu byggðum hafa ný sóknarfæri skapast, ferðaþjónusta, sjálfbærni og
vistvænir búskaparhættir lykilorð nýrrar aldar.
Hér á landi hefur lengi verið deilt um stóriðju og stórvirkjanir. „Fram!
Temdu fossins gamm.“ Þannig kvað Hannes Hafstein við upphaf síðustu aldar
og færði í bundið mál þær vonir þorra fólks að nýta mætti vatnsföllin í
þjóðarþágu. Sú varð raunin og við bættust leiðir til að beisla og nýta jarðhita,
færa yl og orku í hús. Kosti þessarar samfélags- og atvinnubyltingar má ekki
vanmeta.
Blessunarlega mótmæltu þó margir „hernaðinum gegn landinu“, svo að
vitnað sé til þekktra orða Nóbelsskáldsins um virkjanir og lón sem spilltu að
ósekju fagurri náttúru. Kapp er best með forsjá, það sanna dæmin, og nú eru
verðmæti mögulegra virkjunarstaða metin í fleiru en megavöttum. Víðerni
Íslands eru auðlind sem eyðist þegar af er tekið. Við sjálf og ferðamennirnir,
sem flykkjast hingað, viljum njóta landsins í allri sinni dýrð – frá Bláa lóns
böðum að nyrstu sjávarströnd eins og Rúnar Júlíusson söng, frá vel þekktum
stöðum út í ókönnuð lönd.

4

Samfélag okkar er á fleygiferð. Sagt hefur verið að hin nýja öld sé öld
borganna, öld hátækni og alþjóðavæðingar. Við hljótum að fylgja tímans þunga
nið. Þjóðmenning getur samt lifað góðu lífi, blanda hins gamla og nýja,
innlendur stofn margra greina sem ferskir vindar blása um héðan og þaðan.
Lagið um fólk eins og þig og fólk eins og mig er amerískt en fært í íslenskan
búning og boðskapurinn sameiginlegur öllu mannkyni: „Ef dimmir í lífi mínu
um hríð, eru bros þín og hlýja svo blíð.“
Já, látum fjölbreytni endilega ríkja í menningu okkar og siðum. Við
skulum horfa á Hollywood-myndir og þætti, leyfa ungviðinu að vera í
tölvuleikjum á ensku en njóta um leið bóka, kvikmynda og dægurlaga á hinni
lífseigu og dýrmætu tungu okkar. Brýnt er þó að grípa til aðgerða og tryggja
íslensku sess í rafrænum heimi. Á nýrri öld munum við tala við hvers kyns tæki
og tól – erum þegar byrjuð á því – og það þurfum við að geta gert um alla
framtíð á okkar eigin ástkæra og ylhýra máli.
Góðir landsmenn: Nú mun uppi mikið hagvaxtarskeið hér á landi, góðæri
sem sumir líkja jafnvel við hið ljúfsára ár 2007. Laust fyrir jól mátti lesa í einum
fjölmiðli að þessi gósentíð sæist meðal annars í eldhúsum landsmanna „sem
virðast verða flottari og dýrari með hverjum deginum“. Annars staðar var frá því
greint að endurvinnslustöðvar hefðu vart undan að taka við varningi fólks, oftar
en ekki í góðu lagi en utan tískustrauma og þyrfti því að farga. Er þetta alveg
sjálfsagt? Á sama tíma berjast margir við að ná endum saman, búa jafnvel við
sára fátækt.
Víst er að efnisleg verðmæti tryggja ekki endilega hamingju og lífsgæði.
Og víst er það áhyggjuefni hve illa hefur gengið á Íslandi að safna í sjóði þegar
vel árar. Er þetta eitthvað í þjóðarsálinni? Í rapplaginu „Græða peninginn“
syngur tíu ári snáði, Úlfur Emilio Machado Tinnuson, um þá list sem geri
honum kleift að kaupa ís og bland í poka. „Sóaði öllum peningunum en ég bara
græði á morgun,“ segir svo áfram í laginu. Bragð er að þá barnið finnur!
Hér má horfa öfundaraugum til Norðmanna sem báru gæfu til að setja
olíuauð sinn í þjóðarsjóð. Við búum líka yfir sameiginlegum auðlindum. Þau
lofa því góðu, áform stjórnvalda um þjóðarsjóð Íslands sem tryggi að arður
auðlindanna renni til nýsköpunar og nauðsynlegra endurbóta í
heilbrigðiskerfinu, auk annarra þjóðþrifamála.
Kæru landar: Allt of lengi brugðumst við þeim sem áttu undir högg að
sækja í okkar samfélagi, fólki með líkamlega fötlun eða þroskaskerðingu. Þess
vegna er gleðiefni að stjórnvöld hyggjast festa í lög notendastýrða, persónulega
aðstoð og innleiða Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við
brugðumst líka ungmennum sem lentu utangarðs, krökkum sem mörg hver
þurftu að þola óreglu og eymd í heimahúsum. Á liðnu ári hlaut Vigdís
Grímsdóttir rithöfundur verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og er vel að þeim

5

heiðri komin. Fyrir nokkru mælti hún þessi vísdómsorð: „Það eina sem skiptir í
rauninni virkilegu máli er að vera góður við börn. Þar liggur allt.“
Við búum í samfélagi og eigum að hugsa vel hvert um annað, einkum þá
sem þurfa á aðstoð að halda, nær og fjær. Ég vona að við sýnum áfram þá
þrautseigju og elju sem hefur fleytt okkur á framfarabraut, en að við sýnum líka
þá samkennd og mildi sem þarf í öflugu samfélagi. Ég vona að við getum verið
sammála um þann grundvöll þjóðskipulagsins að jafnrétti ríki á öllum sviðum,
að allir fái grunnmenntun og geti reitt sig á öflugt velferðar- og heilbrigðiskerfi,
óháð efnahag eða búsetu, að allir megi njóta eigin atorku en greiði sanngjarna
skatta og skyldur til sameiginlegra þarfa, og allir njóti arðs af sameiginlegum
auðlindum okkar.
Kæru landar: Fyrir hönd okkar Elizu óska ég ykkur öllum farsældar og
blessunar. Gleðilegt nýtt ár.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Fjögur nýsköpunarfyrirtæki hljóta viðurkenningar fyrir samstarf

Í dag afhenti Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra viðurkenningar til fjögurra fyrirtækja innan Íslenska sjávarklasans sem skarað hafa framúr við að efla samstarf við önnur fyrirtæki. Fyrirtækin sem hlutu viðurkenningu eru Navis, Evris, Iceland Sustainable Fisheries og Knarr Maritime. Navis hlýtur viðurkenningu fyrir að efla samstarf tæknifyrirtækja um hönnun á umhverfisvænum skipum. Evris hlýtur viðurkenningu fyrir […]

Grein Hannesar á skjön við skýrslu Rannsóknarnefndar – „Því var bjargað sem bjargað varð“

Í tilefni 70 ára afmælis Davíðs Oddssonar ritar Hannes Hólmsteinn Gissurason eina og hálfa opnu um aðkomu Davíðs að bankahruninu í Morgunblaðinu í dag. Í Stundinni kemur fram að Hannes sé ósammála niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis og lýsi Davíð sem bjargvætti Íslands í hruninu, en það sé söguskýring sem Hannes kenni í skyldunámskeiði í Háskóla Íslands. […]

Samkeppniseftirlitið hafnar kröfu Símans – Skilyrði samnings verða óbreytt

Samkeppniseftirlitið hefur hafnað kröfu Símans um að breyta skilyrðum samnings milli Fjarskipta hf. (Vodafone) og 365 miðla hf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu. Þann 9. október sl. heimilaði Samkeppniseftirlitið kaup Fjarskipta hf. (Vodafone) á tilteknum eignum og rekstri 365 miðla hf. Samruninn er háður skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið og samrunaaðilar gerðu sátt um.   […]

Forsætisráðherra fundaði með formanni landsstjórnar Grænlands

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, átti fund með Kim Kielsen, formanni landsstjórnar Grænlands í dag. Á fundinum var rætt um góð samskipti Íslands og Grænlands, stöðu efnahagsmála og stjórnmála. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Mikilvægi Vestnorræna ráðsins kom til umræðu og aukin samvinna Íslands og Grænlands, meðal annars á sviði ferðamála.Vaxandi straumur ferðamanna er fyrirliggjandi […]

Skúli Helgason stefnir á 3. sætið hjá Samfylkingunni

Borgarfulltrúinn Skúli Helgason gefur kost á sér í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar sem fram fer 10. febrúar næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu. Skúli hefur verið borgarfulltrúi í eitt kjörtímabil, í meirihlutasamstarfi undir forystu Samfylkingarinnar og stýrir einum viðamesta málaflokknum í borgarmálunum, skóla- og frístundamálum.   Skúli er menntaður stjórnmálafræðingur frá […]

Gjörbreyting á Kringlusvæðinu – Fyrirhuguð uppbygging gerir ráð fyrir Borgarlínu

Í dag skrifuðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Guðjón Auðunsson forstjóri Reita undir viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Reita um uppbyggingu á Kringlureitnum og verður það umfangsmesta uppbygging á svæðinu frá því verslunarmiðstöðin Kringlan var opnuð árið 1987. Reitir og Reykjavíkurborg munu vinna saman að nýju rammaskipulagi fyrir svæðið og breyta gildandi skipulagsáætlunum. Miðað er við að […]

Björn Valur: „Árni Páll til liðs við stjórnina?“

Björn Valur Gíslason, fyrrum varaformaður Vinstri grænna, veltir því fyrir sér á heimasíðu sinni hvort að Árni Páll Árnason, fyrrum formaður Samfylkingarinnar, sé ekki vel til þess fallinn að liðsinna ríkisstjórninni þegar kemur að málefnum ESB og Brexit.   Björn Valur dáðist að framgöngu Árna Páls í Silfrinu um helgina, hvar hann ræddi Brexit af […]

Reykjavíkurborg fær falleinkunn í þjónustukönnun Gallup

Reykjavíkurborg fær lægstu einkunn í nýrri þjónustukönnun Gallup, þegar þjónusta borgarinnar við leik- og grunnskóla, eldri borgara og fatlaða er borin saman við önnur sveitafélög. Þetta kemur fram á Kjarnanum.   Mælist Reykjavíkurborg einnig neðst í heildaránægju íbúa af sveitafélagi sínu. Hún mælist þó ekki neðst í öllum flokkum, þó litlu muni. Garðabær mælist efstur […]

Davíð Oddsson sjötugur í dag – „Ég er ekk­ert að hugsa um að hætta“

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, er sjötugur í dag. Af því tilefni fór hann í viðtal á útvarpsstöð Árvakurs, K100, í morgun. Þar kvaðst hann ekki ætla að setjast í helgan stein, líkt og tveir forverar hans, þeir Styrmir Gunnarsson og Matthías Johannessen gerðu þegar þeir urðu sjötugir. Davíð var hress og kátur […]

Kjartan vill endurskoða samning ríkis og borgar um samgöngumál

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, flutti tillögu þess efnis á borgarstjórnarfundi í gær, að endurskoða þyrfti samning ríkis og borgar um samgöngumál frá árinu 2013, með því augnarmiði að hægt verði að fara í stórframkvæmdir í samgöngumálum í borginni. Samningurinn kveður á um svokallað „framkvæmdarstopp í samgöngumálum Reykjavíkurborgar“ að sögn Kjartans og að ríkið veiti borginni […]

Konur brjóta blað í Atvinnuveganefnd Alþingis

Atvinnuveganefnd hefur störf á morgun að loknu jólaleyfi. Nú ber svo við að eingöngu konur stýra starfi nefndarinnar. Lilja Rafney Magnúsdóttir VG, er formaður, Inga Sæland Flokki fólksins er 1. varaformaður og Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki er 2. varaformaður.   Mun það ekki hafa áður gerst að eingöngu konur veittu þessari nefnd eða fyrirrennurum hennar […]

Kjartan vill vera áfram bæjarstjóri í Reykjanesbæ: „Ég er alveg til í það“

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segist áfram vilja starfa sem slíkur, en hann var ráðinn af núverandi meirihluta eftir sveitastjórnarkosningarnar árið 2014, en meirihluta skipa Bein leið, Frjálst afl og Samfylking. Kjartan er fyrrum bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins en var ráðinn á faglegum forsendum, ekki pólitískum. Þetta kemur fram í Víkurfréttum.       Aðspurður hvort […]

Helgi Seljan sakar formann Varðar um seinheppni – Formaðurinn býður Helga í Valhöll til að læra um húmor

Í dag byrjaði utan-kjörfundaratkvæða-greiðsla í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en leiðtogakjörið sjálft er þann 27. janúar. Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sér um framkvæmdina, en formaður hennar, Gísli Kr. Björnsson, greiddi atkvæði sitt í morgun.   Gísli birti mynd af sér við athöfnina, líkt og tíðkast. Birti hann myndina á Facebooksíðu sinni. Netverjum brá sumum […]

Stofna á ungmennaráð Heimsmarkmiða sameinuðu þjóðanna

Greint var frá fyrirhugaðri stofnun ungmennaráðs Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á ríkisstjórnarfundi í morgun. Forsætisráðuneytið mun óska eftir umsóknum í ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna 31. janúar nk. og mun sérfræðingur í þátttöku barna og ungmenna hjá UNICEF á Íslandi halda utan um skipulag og vinnu ráðsins. Eitt af meginstefum Heimsmarkmiðanna er samvinna milli ólíkra hagsmunaaðila, þ.á […]

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is