Föstudagur 27.5.2016 - 09:15 - Ummæli ()

Eftir það þoldu þeir ekki hvor annan…

Í janúar 1999 tók Kolbrún Bergþórsdóttir viðtal við Bjarna Guðnason sem nú er prófessor emeritus. Bjarni sat eitt sinn á þingi fyrir flokk sem nefndist Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Þetta birtist í hinu sáluga dagblaði Degi. Bjarni fer á kostum í viðtalinu. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá menn deila þessari ljósmynd hér á Facebook.

 

Screen Shot 2016-05-26 at 22.02.17

 

Þarna eru Jón Baldvin Hannibalsson og Davíð Oddsson að mynda Viðeyjarstjórnina svokölluðu vorið 1991. Þá varð Davíð Oddsson fyrst forsætisráðherra. Í viðtalinu við Bjarna er að finna bestu lýsingu sem ég hef séð á þessari stjórn, hann líkti henni við hjónaband höfðingjans Staðarhóls-Páls og Helgu Aradóttur, sonardóttur Jóns Arasonar, um miðja sextándu öld.

 

Screen Shot 2016-05-26 at 22.07.25

 

Staðarhóls-Páll var ágætt skáld og orti ástarljóð til Helgu. Eftir að ástin kólnaði breyttist kveðskapurinn. Þetta kvæði orti hann þegar komið var að skilnaði þeirra.

Ef leiðist þér, grey, að ganga,
gefa vil ég þér hest.
Segi eg upp sambúð langa,
svo trúi eg fari best.
Hafir þú fornt á fótum,
fá skaltu skæðin ný.
Gakktu hart á grjótum
og ganaðu upp í ský
með bandvettlinga og traf,
styttuband og staf.
Farðu norður í Gýgjarfoss
og stingdu þér þar á kaf.
Sökktu til botns sem blý
og komdu aldrei upp frá því.

Ég hygg að hugarþelið eftir Viðeyjarstjórnina hafi ekki verið miklu kærleiksríkara.

En svona var umbrotið á viðtalinu við Bjarna Guðnason í janúar 1999. Rifjaðist upp að hann var skemmtilegur stjórnmálamaður, þótt ferillinn þar yrði ekki langur – starfstími hans í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands var mun lengri. Og svo var Bjarni auðvitað fótboltamaður líka, spilaði með landsliðinu og er sagt að honum hafi eitt sinn verið boðið að koma og leika með Chelsea.

Myndatextinn hér að neðan hefur ekki misst gildi sitt, nema síður sé.

 

Screen Shot 2016-05-26 at 21.59.41

 

Fimmtudagur 26.5.2016 - 16:14 - Ummæli ()

Fimm milljón ferðamenn – og starfsfólkið innflutt

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, segist telja að Ísland geti tekið á móti 3-5 milljón ferðamönnum á ári. Hann er á móti því að leggja komugjöld á túrista eða svo segir í frétt á mbl.is:

Ef við ætl­um að fjölga ferðamönn­um hér, segj­um upp í 5 millj­ón­ir á ári, þá byrj­um við ekki á því að leggja svona gjald á þá sem ákveða að koma hingað.

Á síðasta ári var fjöldi ferðamanna tæplega 1,3 milljónir. Þá var eins og ýmislegt væri komið að þolmörkum, til dæmis nokkrir þekktir ferðamannastaðir og svo útleiga húsnæðis til ferðamanna í Reykjavík.

Í ár er gert ráð fyrir að fjöldinn verði 1,7 milljónir, margir hafa áhyggjur af því hvernig staðan verður yfir háferðamannatímann í sumar.

Svo er líka spurningin hverjir eigi að vinna við alla þessa ferðamennsku. Í frétt sem birtist á Vísi í dag segir að um fjörutíu prósent nýrra starfsmanna í ferðaþjónustu komi erlendis frá. Þetta eru að miklu leyti láglaunastörf, eða eins og segir í fréttinni:

Mest vantar af fólki í ræstingar/þrif, starfsmenn í gestamóttöku, eldhús og veitingasal, leiðsögumenn, sölu- og afgreiðslufólk og faglærða matreiðslumenn. Erfiðast er að manna í ræstingar/þrif og í stöður faglærða matreiðslumanna.

Maður spyr einfaldlega: Hver er gæti verið tilgangurinn í því að fara þessa leið, með 5 milljón túrista og vinnuaflið mestanpart innflutt?

Þetta er spurning sem við þyrftum að svara.

Hér er svo forvitnileg tafla frá Ferðamálastofu, sýnir fjölda ferðamanna á Íslandi frá 1949. Þarna sjáum við glöggt hina miklu fjölgun síðustu fimm árin sem hefur í raun gerbreytt atvinnulífi og efnahag á Íslandi.

 

Screen Shot 2016-05-26 at 16.16.28

Screen Shot 2016-05-26 at 16.10.19

Fimmtudagur 26.5.2016 - 07:53 - Ummæli ()

Hegningarhúsinu lokað – en hvað á að gera við bygginguna?

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig það er að sitja inni í gamla Hegningarhúsinu við Skólavörðustíginn. Í þröngum klefa og heyra borgarysinn fyrir utan. Hljóð frelsisins, eins og þau hljóta að hljóma í eyrum þeirra sem hafa verið sviptir því. Hljóðin frá fólkinu sem sinnir daglegum erindum, hljóðin í ferðamönnum sem eru fjölmennir í þessu hverfi, hljóð næturlífsins fram undir morgun um helgar.

Fangelsi í hjarta miðborgar er nokkuð óvenjulegt núorðið – og nú um mánaðarmótin hættir sú starfsemi endanlega í Hegningarhúsinu. En þessi sögufræga bygging stendur þarna áfram, byggð 1872. Orðalagið að „fara í steininn“ mun vera tilkomið vegna þess að húsið var reist úr tilhöggnu grjóti. Húsið var hér áður fyrr stundum kallað „nían“ – sökum þess að það er við Skólavörðustíg 9.

Hvað á að gera við svona hús – sem að auki nýtur mikillar friðunar? Það á ekki bara við um ytra byrðið, heldur líka gamla dómssalinn á annarri hæð. Ekki er alveg auðvelt að svara því. Einhvers staðar sá ég stungið upp á því að þetta yrði upplifunarhótel fyrir túrista, þeir yrðu læstir inni á kvöldin, fengju að heyra hringl í lyklum og fótatak fangavarða í klossum, en á morgnana yrðu þeim sleppt – eftir fangelsislegan árbít inni í klefa.

Í alvörunni, þá þarf að gæta þess að þarna komi inn starfsemi sem hentar húsinu. Varla veitingahús eða skemmtistaður. En það mætti reyndar byrja á því að rífa hluta af steinsteyptum veggnum sem umlykur fangelsisgarðinn. Hann er frekar ljótur. Þá opnast svæði þarna fyrir aftan, í hinu þrönga rými sem fangar hafa haft til útivistar.

 

images-5

Sjón sem maður hefur ekki fengið að sjá með berum augum, kannski sem betur fer. Garðurinn bak við Hegningarhúsið á Skólavörðustíg. Veggurinn í kringum garðinn mætti alveg missa sín.

Miðvikudagur 25.5.2016 - 22:24 - Ummæli ()

Uppgangur hins popúlíska og þjóðernissinnaða hægris í Evrópu

New York Times birtir athyglisverða samantekt um ris pópúliskra flokka á hægri væng í Evrópu. Þarna eru flokkar sem vissulega eru misjafnir að gerð, sumir eru einfaldlega mjög þjóðernissinnaðir, aðrir slá út í að vera ný-fasískir.

Uppgangur þeirra nú um stundir er einna mestur í fyrrum ríkjum kommúnistablokkarinnar, Póllandi og Ungverjalandi, en líka í hinu geysilega vel megandi Austurríki. Flokkar af þessu tagi hafa einnig sótt fram á Norðurlöndunum, en það er athyglisvert að þeim verður lítið ágengt á Ítalíu, Spáni og Portúgal. Ítalir fengu kannski nóg með sinn Berlusconi og óstjórn hans um langt árabil, en á Spáni og Portúgal lifa enn minningar um fasistastjórnir sem þar sátu fram á áttunda áratug síðustu aldar.

Grafið sem birtist í New York Times byggir á kosningaúrslitum í tuttugu löndum. Stóra yfirlitsmyndin lítur svona út, en nánari útfærslu má sjá í greininni sjálfri.

 

Screen Shot 2016-05-25 at 22.21.52

Miðvikudagur 25.5.2016 - 12:00 - Ummæli ()

Undirbúningurinn fyrir kosningar í haust

 

Maður sér því haldið fram á nokkrum stöðum að Viðreisn sé klofningur úr Sjálfstæðisflokki. Það má vera að talsverðu leyti en sá klofningur varð í rauninni fyrir nokkuð löngu síðan, aðallega vegna evrópustefnu Sjálfstæðisflokksins. Maður heyrði fyrir síðustu kosningar að margir fyrri kjósendur Sjálfstæðisflokks hölluðust að Bjartri framtíð – og svo var náttúrlega hin stóra sneið kjósenda sem Framsókn tók af Sjálfstæðisflokki kosningavorið 2013. Hún er að talsverðu leyti að að skila sér aftur sem er væntanlega meginskýringin á því að Sjálfstæðisflokkurinn er að auka fylgi sitt.

Það er vandséð að Viðreisn breyti miklu þar um.

Í raun verður að segjast að Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera flokka best undirbúinn undir kosningar í haust. Flokkurinn er farinn að halda kjördæmaþing, undirbúa prófkjör, og innan hans er stöðugleiki. Staða Bjarna Benediktssonar er býsna traust, þrátt fyrir Panamauppljóstranir. Leiðin í skoðanakönnunum hefur legið upp á við og gæti jafnvel stefnt í 30 prósent í kosningum.

Aðrir flokkar virðast misjafnlega vanbúnir undir kosningar – að undanskildum Vinstri grænum þar sem ríkir mikill einhugur um Katrínu Jakobsdóttur sem formann. Hún ætti líka að vera nægilega sterk til að gæta þess að nauðsynleg endurnýjun verði á framboðslistum flokksins.

Samfylkingin kýs sér ekki nýjan formann fyrr en í júní; þar er varla farið að ræða um stefnumál eða framboðslista. Það má spyrja hvor eitthvert pláss sé fyrir Bjarta framtíð lengur – kannski gæti hún runnið saman við Viðreisn? Það er farið að tala um báða þessa flokka eins og þeir séu nánast feigir – það er erfitt að reka af sér slíkt orðspor.

Píratar virðast ekki búnir að ákveða hvernig þeir ætla að stilla upp, en það vekur athygli að einstaklingar sem hafa ekki starfað innan hreyfingarinnar, eins og Björn Þorláksson fréttamaður, sækjast eftir að komast á lista hjá flokknum. Hvernig munu Píratarnir bregðast við því?

Þá er komið að Framsóknarflokknum þar sem  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tilkynnti um helgina að hann vildi sitja áfram sem formaður, sæktist eftir því að koma aftur í forsætisráðuneytið og það yrðu ekki endilega kosningar í haust. Það vakti athygli að Bjarni sagði allt annað fáum dögum síðar, snupraði í raun Sigmund. Eftir að Sigmundur  hrökklaðist úr forsætisráðuneytinu í vor virðist trúnaðurinn milli hans og Bjarna hafa brostið.

Enn einu sinni kom í ljós hversu Sigmundur er gjarn á að spila einleik í stjórnmálunum. Hann fór í viðtalið án þess að vera búinn að láta vita um hugmyndir sínar og áform, þetta kom flatt upp á hans eigin flokksmenn og samstarfsflokkinn í ríkisstjórn.

En þá er spurning hvaða leið Framsóknarflokkurinn ætlar að fara? Það gæti dregið til tíðinda á fundi miðstjórnar flokksins sem verður haldinn í Reykjavík 4. júní. Þar eiga bæði Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra að halda ræður. Vilja Framsóknarmenn halda áfram með Sigmund sem formann – og þá væntanlega forsætisráðherraefni – en Sigurð Inga sem einhvers konar bráðabirgðamann? Eða veðja þeir á Sigurð Inga sem leiðtoga í kosningunum – hann hefur jú yfir sér dálítið gamaldags framsóknaryfirbragð? Svo er líka nefnd til sögunnar Lilja Alfreðsdóttir – hefur hún alvöru pólitískan metnað eða sækist hún kannski ekki eftir meiru en að vera utanríkisráðherra um stundarsakir?

 

 

Þriðjudagur 24.5.2016 - 21:15 - Ummæli ()

Hvergi í heimi meiri áhrif af Airbnb en í Reykjavík

Vilji maður íbúð yfir helgi í höfuðborg Íslands, lítilli borg með 122.460 íbúa, býður Airbnb upp á mörg þúsund möguleika. En ef maður leitar að íbúð til að búa árið um kring, gufa þessir möguleikar upp. Í nýlegri leit eina netsvæði borgarinnar sem býður upp á íbúðaleigu, leigulistinn.is, aðeins upp níu íbúðir í miðborg Reykjavíkur. Í allri borginni voru þær tuttugu og tvær talsins.

Þetta má lesa í grein sem blaðamaðurinn Kirsten V. Brown skrifar á vef sem nefnist Fusion. Í greininni segir hún að það sé næstum ómögulegt að finna íbúð til leigu í borginni. Hún rekur dæmi um fólk sem leigði húsnæði en var sagt upp leigunni með stuttum fyrirvara. Hún nefnir konu sem varð að yfirgefa íbúð undir því yfirskyni að veikur frændi eigandans gæti flutt inn. Nokkrum dögum síðar var íbúðin auglýst á Airbnb.

Kirsten V. Brown segir að miðað við íbúatölu séu meira en tvöfalt fleiri Airbnb íbúðir í Reykjavík en í Barcelona, San Francisco og Róm. Hún vitnar í tölfræði sem segir að fimm prósent af íbúðum í borginni séu í boði á Airbnb. Segir að tölfræðingur að nafni Tom Slee hafi farið yfir gögnin og komist að því að næstum helmingur af íbúðunum séu í eigu aðila sem leigi þær út í atvinnuskyni, ekki sé búið í þeim að öðru leyti. Þar kemur einnig fram að sumir aðilar hafi yfir meira en tíu íbúðum að ráða, einn meira en fjörutíu.

Reykjavík sé hugsanlega sú borg í heiminum þar sem áhrif Airbnb eru mest.

 

Screen Shot 2016-05-24 at 21.25.07

Þetta kort af Airbnb íbúðum í Reykjavík fylgir greininni á vefnum Fusion.

Þriðjudagur 24.5.2016 - 12:36 - Ummæli ()

Smá upprifjun um einkavæðingu

Hér er grein sem birtist á þessum vef í upphafi árs 2009. Þarna er fjallað um mál sem reyndar hafði margoft verið rætt um allt frá því löngu fyrir hrun.

Nú sýnist manni það vera aftur komið upp sökum þess að umboðsmaður Alþingis greinir frá því að hafi undir höndum nýjar upplýsingar um einkavæðingu Búnaðarbankans og aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäser að henni.

 

Screen Shot 2016-05-24 at 12.42.13

Screen Shot 2016-05-24 at 12.42.36

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is