Föstudagur 22.8.2014 - 22:36 - Ummæli ()

Lifðu heil, Evrópa

Ljudmila Ulitskaja er einn helsti rithöfundur Rússlands. Bækur hennar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og hún hefur fengið margar alþjóðlegar viðurkenningar eins og sjá má hér. Ulitskaja er 71 árs, býr í Moskvu. Hún skrifar magnaða ádrepu á stjórnmálin í Rússlandi sem birtist í nýjasta hefti þýska tímaritsins Der Spiegel. Hér er hluti af greininni.

Ég bý í Rússlandi. Ég er rússneskur rithöfundur, af gyðingaættum og kristinni trú. Landið mitt er komið í stríð við menninguna, við húmanísk gildi, við frelsi einstaklingsins og hugmyndina um mannréttindi, þessa ávexti siðmenningarinnar. Landið mitt þjáist vegna árásarhneigðrar fáfræði, þjóðernishyggju og mikilmennskuóðrar heimsvaldastefnu.

Ég skammast mín fyrir hið fáfróða og árásarhneigða þings landsins, fyrir hina árásarhneigðu og vanhæfu ríkisstjórn, fyrir stjórnarherranana sem fara fremstir í flokki, menn sem dreymir um að vera ofurhetjur, menn sem eru dýrkendur ofbeldis og fláttskapar, ég skammast mín fyrir þjóð mína, sem hefur tapað siðferðislegum viðmiðum sínum.

Menningin hefur beðið hroðalegt afhroð í Rússlandi, við iðkendur hennar getum ekki breytt hinni sjálfseyðandi pólitík ríkis okkar. Mennta- og menningarstétt landsins er klofin í tvennt: Það er aðeins minnihluti sem mælir gegn stríði.

Land mitt færir heiminn á hverjum degi nær stríði. Hernaðarsinnarnir hafa þegar brýnt klærnar í Tsétséníu og Georgíu, og nú æfa þeir sig á Krím og í Úkraínu.

Lifðu vel, Evrópa, ég óttast að við eigum aldrei eftir að tilheyra hinni evrópsku þjóðafjölskyldu. Hin mikla menning okkar, Tolstoj okkar, Tsékov okkar, Tsjaikovskí okkar og Shostakovits okkar, málarar okkar, leikarar, heimspekingar og vísindamenn gátu ekki stöðvað trúarofstækismenn fortíðarinnar né kommúnista og hugmyndir þeirra – og eins geta þeir ekki stöðvað hina valdasjúku brálæðinga sem nú ráða.

Í 300 ár höfum við drukkið af sömu lindum – Bach var líka okkar, Dante var okkar, Beethoven var okkar og Shakespeare var okkar – og við gáfum aldrei upp vonina. En nú getum við, menningarfólk í Rússlandi, sá litli hluti af því sem ég tilheyri, bara sagt eitt: Lifðu heil, Evrópa!

cache_2450950432

Föstudagur 22.8.2014 - 17:10 - Ummæli ()

Allir fóru fram úr

Ég gerði smá tilraun í dag.

Átti tvívegis erindi upp Ártúnsbrekkuna. Ók í bæði skiptin á hámarkshraða sem er auglýstur rækilega á skiltum við veginn.

80 kílómetra hraða á klukkustund.

Eiginlega allir hinir bílarnir fóru fram úr mér.

Um síðustu helgi var ég að keyra úti á vegum. Við vorum að ferðast í ró og næði – um það bil á hámarkshraðanum.

Það var mikið spanað framúr – mesta ferðin var á mótorhjólum sem voru ekki undir 130.

Maður sá eiginlega hvergi lögreglubíl en það er ljóst að þessir mótorhjólamenn og sumir aðrir ökumenn lögðu líf sitt í hættu, og það sem verra er – stofnuðu lífi annarra í hættu.

Nú hef ég ekið bíl víða um heiminn og man eiginlega ekki eftir því að ökumenn fari svona mikið fram úr löglegum hraða. Ég hef tvívegis verið stöðvaður erlendis, í Marokkó og í Kanada. Í Marokkó var það á hraðbraut þar sem var mikið lögreglueftirlit, í Kanada eru held ég prúðustu ökumenn í heimi. Meira að segja ég virka villtur þar.

Grikkland er svolítið sérstakt dæmi. Ég hef verið talsmaður þess að verði sett herlög á vegi í Grikklandi og þau látin gilda í svona ár.

Föstudagur 22.8.2014 - 10:57 - Ummæli ()

Töf á olíuævintýrum

Styrmir Gunnarsson spyr hvort íslenska olíuævintýrið sé búið áður en það nær að hefjast. Styrmir vitnar í skýrslu frá bandaríska bankanum Citigroup:

Citigroup segir olíuiðnaðinn umkringdan vegna þess að gas sé hægt að fá á lágu verði, sparneytnari ökutækja og ótrúlegra framfara í að virkja sólarorku.

Þetta þýði að olíunotkun fari minnkandi á næstu árum og áratugum og þar með séu forsendur brostnar fyrir gífurlegri skuldsetningu olíufyrirtækja til að geta leitað að og unnið olíu á erfiðum stöðum.

Olíuleit er nánast hætt við Grænland um sinn – það er ljóst að olíudraumarnir þar rætast ekki á næstunni. Ketill Sigurjónsson orkubloggari skrifaði í gær:

Þar má nefna að stórlega hefur dregið úr olíuleit við Grænland – a.m.k. tímabundið. Sama á við um olíuleitina norður af ströndum Alaska, þar sem Shell hefur hætt við umfangsmiklar framkvæmdir sem þar voru komnar á fullt. Meira að segja Statoil hefur verið að lenda í veseni norður í Barentshafi. Og það er líka athyglisvert að sérleyfishafarnir á Drekasvæðinu hófust ekki handa við rannsóknir í sumar – og það virðist allsendis óvíst hvort nokkuð gerist þar næsta sumar.

Fimmtudagur 21.8.2014 - 19:55 - Ummæli ()

Vesturfarar

Þættirnir byrja á sunnudagskvöldið  á Rúv, klukkan 20.30. Þeir eru tíu talsins. Spanna frá Íslandi til Kyrrahafsstrandar Kanada og Bandaríkjanna. Fyrsti þátturinn er nokkurs konar inngangur – fjallar um lífið á Íslandi á tímum vesturferðanna og ástæður þeirra.

 
vestr:egill

 

Fimmtudagur 21.8.2014 - 13:58 - Ummæli ()

Óþýðanleg orð

Í grein í Guardian er fjallað um orð sem eru óþýðanleg – en hafa mjög sérstaka merkingu.

Þarna er nefnt danska orðið hyggelig, portúgalska orðið saudade, tékkneska orðið litost, norska orðið utepils, þýska orðið Waldeinsamkeit.

Maður getur skilið þessi orð, vitað nokkurn veginn hver meiningin er – en þau eru óþýðanleg.

Við þetta má bæta þýska orðinu Wehmut og gríska orðinu φιλότιμο eða filotimo. Það er að sumu leyti lykillinn að grískri þjóðarsál.

Muna lesendur eftir öðrum svona orðum – kannski íslenskum?

 

Fimmtudagur 21.8.2014 - 10:53 - Ummæli ()

Menningin blómstrar í Reykjavík

Miðborgin í Reykjavík iðar af lífi – það er eitthvað annað en fásinnið sem var þegar ég var að komast til vits og ára. Þá voru sirka tvö kaffihús sem hægt var að sitja á, varla neinir matsölustaðir að heitið gæti, menningarviðburðir voru mjög stopulir og alltaf sama fólkið á þeim.

Í gær vorum við sonur minn að koma af lokatónleikum jazzhátíðar í Reykjavík sem stóð í heila viku í Hörpu. Þar kom fram fjöldi frábærra listamanna, íslenskra og erlendra.

Á Bernhöftstorfunni var útibíó, fjöldi fólks, ókeypis popp og góð stemming. Myndin var Jaws.

Á laugardaginn er menningarnótt með fjölda viðburða. Það er sérlega skemmtilegt að nú skuli lögð áhersla á að hafa fjölda atriða á hinni nýuppgerðu Hverfisgötu. Með auknum mannfjölda er svæði miðbæjarins nefnilega að þenjast út.

Þá má ekki gleyma sunnudagskvöldinu, en þá leikur Toronto Symphony Orchestra í Hörpu. Þetta er helsta sinfóníuhljómsveit Kanada – mér skilst að hún sé framúrskarandi góð. Harpa gefur möguleika á að slíkar stórhljómsveitir sæki Ísland heim – áður var það óhugsandi.

10620507_10152715732360439_3560326015113528627_n

Útibíó við Bernhöftstorfuna í gærkvöldi.

 

Fimmtudagur 21.8.2014 - 08:53 - Ummæli ()

Stórundarleg kenning

Maður á kannski ekki að elta ólar við þau skrif sem birtast í ritstjórnarpistlum Morgunblaðsins.

En blaðið er borið í hvert hús í dag – líka til þeirra sem ekki eru áskrifendur.

Þar má lesa, bæði í leiðara og Staksteinum þá speki að rétt sé og sjálfsagt að leka trúnaðarupplýsingum um fólk úr stjórnkerfinu og í fjölmiðla ef vinir þeirra og stuðningsmenn hafi efnt til mótmælastöðu eða ef einhverjir lögfræðingar séu að vinna í málum þess.

Má þá líka leka villandi eða röngum upplýsingum, fyrst þetta snýst um almenningsálit, eins og lesa má í Morgunblaðinu?

En vissulega gæti þetta orðið forvitnilegt þegar ráðuneyti og stofnanir ríkis og sveitarfélaga fara að reka alls kyns einkamál í fjölmiðlum – fyrir dómstóli götunnar. Gróur þessa lands myndu væntanlega hoppa af kæti.

1908057_10204679446129066_3396960987951760586_n

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is