Þriðjudagur 1.12.2015 - 21:27 - Ummæli ()

Vetrarfegurð

Smá jólastemming, mitt í öllum kuldanum. Og það á víst að kólna enn.

Jólatré með náttúrulegu frostskrauti – fyrir utan húsið hjá Agli bólstrara og Sirrý í Bergstaðastræti 2.

 

IMG_6965

Þriðjudagur 1.12.2015 - 13:55 - Ummæli ()

Snýst um langa valdasetu, ekki aldur

Michael Higgins, forseti Írlands, er eldri en Ólafur Ragnar Grímsson. Hann er fæddur 1941 og verður 75 ára á næsta ári. Ólafur Ragnar Grímsson er fæddur 1943 og er 72 ára.

Það verður að segjast eins og er að Þóra Tómasdóttir, hinn nýi ritstjóri Fréttatímans, komst heldur óheppilega að orði um Ólaf Ragnar. Málið er ekki hvað hann er gamall – í raun væri ágætt að hafa fleira gamalt fólk í stjórnmálum.

Fólk mætti jafnvel gera meira af því að byrja í stjórnmálum þegar það er orðið vel fullorðið og búið að afla sér reynslu. Af einhverjum ástæðum er mjög lítið um þetta – það er meira af ungu fólki sem er að keppast að því að ná sem skjótustum stjórnmálaframa. Oft er það hvorki þeim sjálfum né þjóðinni til sérstakrar farsældar.

Nei, þetta snýst um langa valdasetu. Ef Ólafur Ragnar býður sig fram aftur, nær kjöri og situr heilt kjörtímabil hefur hann verið forseti í 24 ár. Vigdís Finnbogadóttir átti fyrra met, 16 ár.

Michael Higgins Írlandsforseti, sem er ekki bara stjórnmálamaður, heldur líka skáld og heimspekingur, hefur setið í embætti síðan 2011. Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið forseti síðan 1996, en hann hefur verið atvinnumaður í stjórnmálum síðan 1978 þegar hann settist fyrst á þing.

Nokkuð hefur verið um það rætt hvort skuli setja einhver takmörk á valdasetu forseta. Bandaríkjaforseti má ekki sitja nema tvö kjörtímabil. En svo má auðvitað spyrja hvort þurfi að hafa slíkar reglur um embætti sem er fyrst og fremst táknrænt.  En þá birtist reyndar sú þversögn að Ólafur hefur breytt embættinu svo það er eiginlega hætt að vera táknrænt – hann hefur safnað til sín miklum völdum.

Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá segir að forseti skuli ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil – semsé 12 ár.

Og embættið er líka alveg hætt að vera sameinandi – forsetinn núna sameinar ekki þjóðina á sama hátt og Vigdís og Kristján gerðu. Í raun er Ólafur Ragnar fremur sundandi stjórnmálamaður – rétt eins og hann var hér í eina tíð, þegar hann var formaður hins sósíalíska Alþýðubandalags.

Aðalatriðið er þó að stjórnskipulega erum við komin út í ógöngur með forsetaembættið. Við vitum í raun ekki hvert á að vera hlutverk forsetans – í næstu kosningum gætum við kosið forseta sem er fyrst og fremst tækifærisræðumaður en við gætum líka kosið Pírata sem vill nota embættið til umbreyta samfélaginu og beitir málskotsrétti sínum óspart.

Sá vísi maður, Haraldur Ólafsson, prófessor og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, orðar það svo í færslu á Facebook:

Alltaf jafn heillandi að fylgjast með umræðum um forsetakjör. Er ekki tími til kominn að velta fyrir sér hvort ekki megi breyta til og hugsa upp á nýtt hvaða skipan stjórnsýslu hentar fámennri þjóð? Einhvern veginn hugnast mér ekki hve margt er óljóst um tengsl Alþingis og forsetaembættisins.

 

Þriðjudagur 1.12.2015 - 10:10 - Ummæli ()

16. febrúar 1970 – smá veðursagnfræði

Jakob Möller hæstaréttarlögmaður var svo vinsamlegur að benda mér á að veðrið sem ég skrifaði um í pistli í gærkvöldi hefði sennilega verið 16. febrúar 1970. Þá, eins og ég lýsti, var óveður með mikilli snjó um morguninn, en upp úr tíu lægði, snjókomunni slotaði, og börn nutu skólafrís og fóru út að leika sér í fannferginu.

Jakob segir að þennan dag hafi verið 50 ára afmæli Hæstaréttar, það hafi verið kolófært í bænum, og snjóbíll hafi verið sendur til að sækja saksóknara ríkisins, Valdimar Stefánsson, sem bjó á horni Ægissíðu og Hofsvallagötu.

Hér má sjá hvernig Morgunblaðið sagði frá veðrinu daginn eftir.

 

Screen Shot 2015-12-01 at 10.04.03

 

Og mig misminnir greinilega ekki varðandi hvað þetta var mikill sæludagur fyrir börnin.

 

Screen Shot 2015-12-01 at 10.05.11

 

Í dag var ekki gefið sérstaklega frí í skólum vegna veðurs. Nú er hins vegar komin snjókoma og skafrenningur og færðin verulega tekin að spillast. Það var ekki vandamál að koma krökkunum í skólann, en spurning hvernig verður að koma þeim heim aftur seinna í dag. Skólarnir eru náttúrlega að nokkru leyti geymslustaðir líka – ef börnin eru heima er hætt við að „stöðvist hjól atvinnulífsins“. Og það má náttúrlega ekki.

Mánudagur 30.11.2015 - 18:39 - Ummæli ()

Vonda veðrið á morgun

Hér á heimilinu hafa verið miklar vangaveltur nú seinnipartinn um hvort skólahaldi verði frestað á morgun vegna veðurs. Svona hjóðar spáin.

Vax­andi aust­an átt í nótt. Snemma í fyrra­málið má bú­ast við slæmu skyggni vegna skafrenn­ings víða suðvest­an­lands, þar með talið á höfuðborg­ar­svæðinu og á Reykja­nes­braut. Hvess­ir enn þegar líður á morg­un­inn og fer að snjóa og bú­ast má við mik­illi snjó­komu fram eft­ir degi. Síðdeg­is milli kl 15. og 18. snýst vind­ur í hæg­ari vest­an átt með élja­gangi, fyrst á Reykja­nesi. Versn­andi veðri er spáð aust­an­lands seint.

Það verður kannski hægt að koma börnunum í skólann, en miðað við þetta gæti verið erfitt að koma þeim heim aftur. Þyrfti jafnvel að kalla út hjálparsveitir til þess.

Það blundar reyndar í mér minning um einhverja bestu daga bernskunnar – dagana þegar skólum var aflýst vegna veðurs. Þetta gerðist örsjaldan en þessir dagar ljóma í minningunni.

Ég man til dæmis einn dag, þá var ég held ég enn í Öldugötuskólanum gamla, það kyngdi niður fönn um nóttina og morguninn. Þegar leið að hádegi lægði og birti til. Þá þustu börnin út. Það var svo mikill snjór að hægt var að grafa löng göng gegnum fannfergið sem hafði safnast í kringum Landakotstúnið.

Ein eins og ég segi, það er óvíst hvort verður skóli á morgun. En það er allavega eitt sem má ekki gera í svo vondu veðri og erfiðri færð: Funda í fjárlaganefnd. Menn geta orðið svo úrillir.

 

Mánudagur 30.11.2015 - 12:02 - Ummæli ()

Vond stjórnsýsla

Eitt af því sem nokkuð góð samstaða ríkir um á Íslandi er að það þurfi að efla heilbrigðiskerfið. Í raun er furðulegt hversu stjórnmálamenn starfa lítt eftir þessu – það er ekkert lát á lýsingum á því hversu kerfið er að niðurlotum komið. Og þær eru trúverðugar – ég hef talað við lækna og hjúkrunarfólk sem lýsir því hversu skelfilega erfiður vinnustaður Landspítalinn er, aðstaða léleg og vinnuálag alltof mikið.

Hið sama er uppi á teningnum í heilsugæslunni, sjálfu hliðinu inn í heilbrigðisþjónustuna, þar er starfsfólkið alltof fátt og engin leið að anna eftirspurninni eftir læknishjálp. Þar virðast ráðamenn helst vera komnir að þeirri niðurstöðu að beri að ráða bót á vandanum með einkavæðingu.

Þess vegna er svo skrítið að heyra formann fjárlaganefndar, sem hafði uppi stór orð um eflingu heilbrigðiskerfisins fyrir síðustu kosningar, tala um „andlegt ofbeldi“ þegar forstjóri Landspítalans bendir enn einu sinni á að fjárveitingar hrökkvi ekki til og séu ekki í samræmi við fyrirheit.

Einhvers staðar sá ég að þarna væri formaðurinn að ganga erinda „greiðenda“. Semsagt þeirra sem borga skattana – að þarna væri vörn gagnvart frekum hagsmunahópum. En það verður að segjast eins og er að freku hagsmunahóparnir eru ekki þarna – í raun ríkir þjóðarsátt um að styrkja heilbrigðisþjónustu í landinu og verja til þess fjármunum.

Freku hagsmunahóparnir eru í röðum stórútgerðarinnar og kvótahafa sem komast upp með að greiða ekki sanngjarnan hlut fyrir afnot sín af auðlindum þjóðarinnar – þeim er enn að takast að koma í veg fyrir að sett verði ákvæði um auðlindir í stjórnarskrá með ítökum sínum í stjórnmálaflokkum. Og þeir eru í fjármálakerfinu þar sem hagnaðurinn er óskaplegur – og þar sem er sífellt verið að leita leiða til að plokka meira fé af almenningi. Vilji menn byggja sanngjarnt samfélag á Íslandi þarf að horfa í þessa átt.

Það er ekki bjóðandi að ár eftir ár búi stofnanir samfélagsins við einhvers konar óttastjórnun frá hendi misviturra stjórnmálamanna og þurfi sífellt að lúta duttlungum þeirra. Þetta er einfaldlega hræðilega vond stjórnsýsla, í henni felst sóun á tíma og kröftum – með svona aðferðum er aldrei hægt að skipuleggja neitt fram í tímann heldur rekur menn stjórnlítið, ár frá ári, sem kannski hentar sumum stjórnmálamönnum ágætlega.

Þannig geta þeir sýnt vald sitt – gert sig breiða, líkt og samfélagið sé komið upp á náð og miskunn þeirra sjálfra.

Mánudagur 30.11.2015 - 07:30 - Ummæli ()

Þunglyndislegasta jólagjöfin

Byggðasafn Hafnafjarðar birtir þessa auglýsingu úr blaðinu Hamri frá 15. desember 1958.

Skiljið ekki fjölskyldu ykkar eftir bjargarlausa þótt þið verðið kallaðir yfir landamæri lífs og dauða

Dálítið þunglyndisleg jólagjöf, satt að segja. Getur þó vissulega verið gagnleg ef svo óheppilega vill til.

 

12279200_1143734732326895_5518979482667165344_n

Sunnudagur 29.11.2015 - 17:16 - Ummæli ()

Kontrapunktur tribute – já, þetta var dægilegt sjónvarpsefni

Í Berlín er tekinn upp þessa helgi sérstök tribute útgáfa af Kontrapunkti, samnorræna sjónvarpsþættinum sem var sýndur með hléum frá 1964-1998. Kontrapunktur var spurningakeppni um klassíska tónlist, afar fræðandi, mjög menningarleg og furðulega vinsæl.

Íslendingar tóku þátt í Kontrapunkti um hríð, ég man eftir keppendum eins og Valdimar Pálssyni, Gylfa Baldurssyni og Ríkharði Erni Pálssyni, en á þessum árum urðu keppendurnir sumir celeb um Norðurlöndin. Ég man að ég gekk að Finna einum á tónleikum í Háskólabíói fyrir margt löngu og spurði:

„Ert þú Mats Liljeroos?“

Mats var líklega yngsti maðurinn sem nokkurn tíma keppti í Kontrapunkti, hann var í sigurliði Finna 1998, en árin áður höfðu Norðmenn nánast einokað keppni sína, enda höfðu þeir í liði sínu mann sem nefnist Kjell Hillveg, hæglátan náunga sem vissi nánast allt um tónlist.

Stjórnandinn var hinn óviðjafnalegi Sixten Nordström frá Svíþjóð – þetta var norræn samvinna eins og hún gerist best. Spurningarnar voru byggðar upp með aðleiðslu, keppendur færðu sig nær höfundi, verki og ártali, og enduðu jafnvel á ópusnúmeri og tóntegund.

Sjálfur gat maður stundum rétt um höfund og tónverk – en restinni náði maður síður. Ég hef aldrei verið sterkur í ópusnúmerunum. En áhorfendur gátu semsagt tekið þátt á sinn hátt, það var ein snilldin við Kontrapunkt.

En nú er semsagt vitnað í Kontrapunkt í samnorrænni tónlistarspurningakeppni sem haldin er í sendiráði Norðurlandanna í Berlín. Þar er áherslan á nútímatónlist, en í íslenska liðinu eru Daníel Bjarnason, Guðný Guðmundsdóttir og Bjarni Frímann Bjarnason.

Þetta minnir mann á hvað Kontrapunktur var dægilegt sjónvarpsefni, rólegt og gott. Það þarf ekki alltaf að vera með þennan asa í sjónvarpi.

 

images-20

Fyrst var Kontrapunkti stjórnað af sænska tónlistarmanninum Sten Broman, það sáum við aldrei hér á Íslandi, þegar þátturinn barst hingað og við fórum að taka þátt var stjórnandinn Sixten Nordström, einnig Svíi.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is