Laugardagur 24.06.2017 - 11:55 - Ummæli ()

Skrítið sambland af nýjum og gömlum tíma

Þessi ljósmynd segir býsna skemmtilega sögu. Hún er tekin í Álfheimunum, greinilega að sumarlagi, því það er enginn snjór í Esjunni. Þetta virkar eins og snemma kvölds á góðviðrisdegi, við sjáum að sólin er farin að skína úr vestri. Það eru rósir í garðinum fremst á myndinni.

Húsin eru mjög nútímaleg, í anda módernismans, þetta er ljómandi fínt hverfi og vinsælt til búsetu. En bílarnir eru miklu fornfálegri en húsin. Það stingur í stúf. Þeir eru út út kú í þessu nútímalega og fúnksjónalíska umhverfi – líta út eins og eitthvað frá því í kringum stríð. En þetta minnir okkur á að módernismi í byggingarlist er kominn talsvert til ára sinna.

Myndin birtist á vefnum Gamlar ljósmyndir, það var Þorsteinn Bjarnason sem setti hana þar inn.

 

Fimmtudagur 22.06.2017 - 22:40 - Ummæli ()

Draumur möppudýra, Brave New World og 1984

Sú hugmynd, komin úr ranni Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra, að útrýma reiðufé úr íslenska hagkerfinu og byrja á 10 þúsund og 5 þúsund króna seðlum hefur vakið hörð viðbrögð.

Reyndar eru nokkrir hagfræðingar sem fagna þessu, þar á meðal Jón Steinsson í Bandaríkjunum. Jón vitnar í nýja bók eftir einn lærimeistara sinn, Kenneth Rogoff hagfræðiprófessor. Hún heitir The Curse of Cash, Bölvun reiðufjárins. Það sé notað í skattsvikum og glæpum. En þess er að gæta að bók þessi er tætt í sundur af lesendum sem skrifa um hana á Amazon. Hvorki meira né minna en 63 prósent þeirra sem dæma hana þar gefa henni 1 stjörnu – telja að hún sé hörmuleg.

Annar Íslendingur sem býr í Bandaríkjunum, Jóhannes Björn, skrifar á Facebook:

Hugmyndin (sem möppudýr margra landa eru að reifa þessa dagana) er að leggja niður ALLA peningaseðla. Stærri seðlarnir eru bara byrjunin. Þegar allar greiðslur eru stafrænar vita stjórnvöld nákvæmlega um allt sem við gerum. Það opnast líka sá möguleiki að þeir sem eru „óþægir“ verði flokkaðir sem andófsmenn eða „terroristar“ og kortið þeirra virki ekki lengur. A Brave New World og 1984 í einum pakka.

G. Valdimar Valdimarsson er frammámaður í Bjartri framtíð. Honum líst illa á hugmyndina, segist vona að BF samþykki hana ekki, og gerir skilmerkilega grein fyrir skoðun sinni. Hann segir að einfaldasta leiðin til að sporna við skattsvikum sé að lækka skatta og heldur áfram og talar meðal annars um greiðslumiðlun:

• Það er sjálfsagt að segja skattsvikum stríð á hendur en verðum raunsæ og gætum meðalhófs.
• Það svíkur enginn óvart undan skatti – þar er einbeittur brotavilji og menn finna alltaf leiðir.
• Mér finnst ekki koma til greina að lögþvinga fólk í einhverja greiðslumiðlun sem er í eigu einkaaðila eða banka í eigu vogunarsjóða. Ríkið verður þá að sjá alfarið um alla greiðslumiðlun og afleggja færslugjöld.
• Það eru miklar líkur á að svona aðgerðir búi til nýtt hagkerfi með nýjum greiðslumiðli sem þá gæti til dæmis verð gull, demantar, dýrir skartgripir eða úr. Þetta þekkist t.d í löndum þar sem traust á bankakerfi er lítið.
• Innan ferðaþjónustu til dæmis tíðkast að gefa tips og þar strax kominn vísir að tvöföldu hagkerfi þar sem sumir hafa greiðan og ókotlagðan aðgang að gjaldeyri sem hægt er síðan að nota í viðskiptum við þriðja aðila. Viljum við tvöfaldar verðmerkingar í viðskiptum þar sem uppgefin eru verð í kortlögðum íslenskum krónum annars vegar og “dollaraverð” hins vegar ?
• Tölvuinnbrot undanfarna mánuði á ár hafa sýnt fram á að erfitt er að tryggja gagnaöryggi og sífelldar tilraunir gerðar til að nálgast viðkvæm gögn og misnota. Ef safna á upplýsingum um öll viðskipti einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi í gagnagrunn verða til mjög viðkvæmar upplýsingar á einum stað sem freistandi væri fyrir tölvuþrjóta að ná í og annað hvort selja til þriðja aðila eða krefjast lausnargjalds fyrir.

Ragnar Þór Pétursson, sem skrifar skarpar greiningar í Stundina, leggur út af því hversu litlu Viðreisn nær fram í stjórnarsamstarfinu og hvernig Sjálfstæðisflokkurinn nýtur þess að stoppa málin sem Viðreisn setti á oddinn – og horfa á fylgi samstarfsflokksins, sem er að nokkru leyti klofningur úr Sjálfstæðisflokksins, hverfa í leiðinni. Þannig hefur Viðreisn lent í vandræðum með skatt á ferðaþjónustuna, nýskeð með umræðu um að einkavæða Flugstöð Leifs Eiríkssonar og nú með þessar óvinsælu hugmyndir um að stoppa skattsvik með að útrýma peningaseðlum:

Hugmyndin er enda eiginlega glötuð. Bæði praktískt og pólitískt. Fyrirbæri allt frá fermingarveislum til persónuverndar eru í uppnámi verði ákvörðuninni fylgt eftir. Og almenningur mun ekki fylgja fjármálaráðherra í þessu máli.

Slíkt má Viðreisn ekki láta gerast. Sjálfstæðisflokkurinn á engin sterkari vopn gegn umbótakröfum en að þæfa mál af þessu tæi. Þegar menn ætla í slag við Sjálfstæðisflokkinn er lykilatriði að hafa á sínum gunnfána vinsælli afstöðuna af tveimur. Viðreisn er því í vanda. Raunveruleikinn er sá að þar á bæ eiga menn hreinlega ekki fyrir kosningaloforðum sínum og tíminn líður hratt.

Tíminn vinnur með Sjálfstæðisflokki enda hagnast engir meira en íhaldsmenn á óbreyttu ástandi.

Það er á endanum úthaldið sem vinnur köld stríð.

 

Fimmtudagur 22.06.2017 - 12:41 - Ummæli ()

Fáránleg efnahagsaðgerð

Fyrir fjórum árum kynnti Már Guðmundsson seðlabankastjóri hróðugur nýjan 10 þúsund króna seðil. Hann er með mynd af lóunni og Jónasi Hallgrímssyni. Nú tilkynnir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra að hann vilji taka þessa seðla úr umferð, granda þeim.

Það verður að segjast eins og er – þetta er einhver fávitalegasta efnahagsaðgerð sem maður hefur heyrt um. Sagt er að þetta sé gert til að sporna gegn skattsvikum. Lokatakmarkið er yfirlýst að útrýma reiðufé þannig að öll verslun fari fram með rafrænum hætti – og loks að allar okkar gerðir og hreyfingar verði skrásettar í tölvukerfum. Upplýsingar af því tagi eru eitthvað það verðmætasta sem stórfyrirtæki búa yfir núorðið.

En hvað er íslenskur 10 þúsund kall há upphæð? Jú, það jafngildir 85 evrum eða 95 dollurum. Seðlar sem eru hærri en þeirri upphæð nemur verða áfram í umferð í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum.

Það er líka lagt til að 5000 króna seðillinn verði tekinn úr umferð – aðeins seinna. Eins og við höfum séð undanfarið duga 5000 krónur fyrir einum aðalrétti á íslensku veitingahúsi.

Viðreisn fór í stjórnmál meðal annars til að koma skikki á gjaldmiðilsmálin á Íslandi. Það er líkt og flokkurinn hafi tekið bratta beygju út af þeim vegi og sé lent út í skurði. Og þá kemur einhver svona vitleysa í staðinn.

Á  þessu eru ýmsar hliðar sem ekki eru ræddar. Sumir kjósa að nota reiðufé vegna þess að þá geta ýmsir aðilar ekki fylgst með neyslunni, eins og er ríki tilhneiging til að gera. Öðrum er illa við að greiða færslugjöld sem fylgja kortanotkun. En bankarnir innheimta þau grimmt. Ef reiðufé verður útrýmt verður í raun líka að útrýma færslugjöldunum því ekki verður önnur leið til að greiða fyrir nauðsynjar en með korti eða bankafærslu. Og það er hvergi skráð í lög að fólk sé skyldugt til að eiga viðskipti við banka eða greiða þeim prósentu af launum sínum.

 

 

 

Miðvikudagur 21.06.2017 - 10:11 - Ummæli ()

Til varnar eftirliti

Fáir mæla regluverki bót – og það er talað um „eftirlitsiðnaðinn“ og nauðsyn þess að skera upp herör gegn honum. En svo erum við einatt minnt á að hversu reglur geta verið mikilvægar og skortur á eftirliti slæmur – og oft lífshættulegur.

Við upplifðum þetta sterkt í efnahagshruninu, og þá ekki bara á Íslandi, þar sem eftirlitsstofnanir brugðust illa. Að mörgum hafði verið þrengt. Hinn hræðilegi Grenfell bruni í Lundúnum er dæmi um regluverk og eftirlit sem bregst fátæku fólki. Og svo eru minni dæmi, úr daglega lífinu, í gær birtu fjölmiðlar frétt um mismunandi gagnsemi sólvarna – og jafnvel skaðsemi sumra þeirra. Og gæti hugsast að mygla væri minna vandamál á Íslandi ef eftirlit með nýbyggingum hefði verið harðara?

Steven Poole skrifar grein í Guardian þar sem hann fjallar meðal annars um þá áráttu að vera á móti reglum og eftirliti, stundum nánast af einhverri sjálfvirkni. Slíkum málflutningi hefur til dæmis verið mikið beitt gegn Evrópusambandinu í Bretlandi – það náði hámarki þegar Boris Johnson laug upp sögu um reglur um bogna banana.

Poole rekur sögu eftirlitsstofnana meðal annars til hinnar frægu bókar Uptons Sinclair, The Jungle, en þar afhjúpaði höfundurinn hryllinginn sem tíðkaðist í hinum miklu sláturhúsum Chicagoborgar. Poole nefnir líka The Food and Drugs Administration sem Roosevelt Bandaríkjaforseti stofnaði.

Eftirliti er oft lýst sem dragbít á viðskipti. Þannig lætur til dæmis Donald Trump í Bandaríkjunum. En fyrir almenna borgara (ég nota ekki orðið neytendur) er eftirlitið oftar af hinu góða – með matvælum, lyfjum, byggingum, raftækjum, bílum, flugi, bönkum o.s.frv.

 

Þriðjudagur 20.06.2017 - 22:03 - Ummæli ()

Ljótir og ógeðslegir sígarettupakkar

Meira að segja Grikkir, sú mikla reykingaþjóð, eru farnir að merkja sígarettupakka með hroðalegum og hrollvekjandi myndum af afleiðingum reykinga. Þetta er sannarlega ekki aðlaðandi vara þar sem hún blasir við í hillum verslana. Það er reyndar líka farið að takmarka hvar tóbak er selt.

 

 

Það verður að segjast eins og er að hönnun margra sígarettupakka er býsna flott – sumar tegundir myndu jafnvel teljast vera sígild hönnun. En nú er það allt eyðilagt, það blasa við ónýt lungu, börn sem verða fyrir heilsutjóni vegna reykinga, sviðnar tær.

Mikil reykingamanneskja sagði reyndar við mig að myndin hér fyrir neðan væri photosjoppuð. Nei, sagði ég, hún er fót-ó-sjoppuð.

 

 

Einu sinni voru á sígarettuauglýsingum myndir af fallegu fólki, karlmannlegum mönnum og þokkafullum konum, við alls kyns innihaldsríka iðju. En nú er þetta veruleikinn. Hvenær verða settar myndir af ofurölvi fólki, börðum eiginkonum og skorpulifur á brennivínsflöskur? Það er verið að gera sígarettur útlægar víðast hvar en áfengisdýrkun er normið og menn keppast við að setja áfengi í flottar flöskur með fagurlega hönnuðum miðum.

Þriðjudagur 20.06.2017 - 12:11 - Ummæli ()

Þarf að vera svo óþægilegt að fljúga?

Eftir því sem flugfargjöldin lækka, tilboðunum fjölgar og fleira fólk ferðast, verður flugið óþægilegri ferðamáti. Við erum fæst til í að eyða miklum peningum í flugmiða og megum því sæta því að ferðast í þröngum flugvélum, þurfum að borga sérstaklega fyrir ferðatöskur, mat og allt aukalegt – það er löngu liðin tíð að var einhver ljómi yfir flugferðum. Við ferðumst um yfirfulla flugvelli þar sem við lendum oftar en ekki í biðröðum og þurfum að fara í gegnum afar hvimleiða öryggisgæslu.

Á þessu ári hefur maður heyrt sérstaklega mikið kvartað undan flugi, bæði utanlands og innan. Það hafa komið upp atvik í flugvélum erlendis sem hafa orðið fréttamatur út um allan heim – eins og þegar farþeginn var dreginn frá borði hjá United Airlines. Á Íslandi heyrir maður stöðugt af flugvélum sem eru alltof seinar, farþegum sem lenda í hrakningum vegna þessa, þurfa að dúsa tímum saman inni í vélum á flugvöllum – og svo flugi sem er aflýst á síðustu stundu. Ég lenti um daginn í því að fá tilkynningu um að flugmiði sem ég hafði keypt með mjög þægilegum brottfarartíma á miðjum morgni hefði fyrirvaralaust verið breytt í næturflug. Maður sættir sig illa við slíkt.

Í þessu sambandi getur verið forvitnilegt að skoða netsíðu eins og þessa – Skytrax. Þar skrifa notendur umsagnir um flugfélög og þjónustu þeirra. Við getum til dæmis séð að Vueling – sem þvældist með íslenska farþega milli Barcelona, Edinborgar og Keflavíkur í skelfilegum óþægindum – fær afleita dóma. Fólk ætti kannski að hugsa sig um tvisvar áður en það kaupir miða með þessu félagi.

Við getum líka séð að dómarnir sem hið íslenska Wow Air fær eru ansi slæmir. Fólk kvartar undan þjónustuleysi, huldum kostnaði, miklum þrengslum og því að engin leið sé að fá nein svör frá flugfélaginu. Svipað er uppi á teningnum með Wow í umsögnum á Tripadvisor og Yelp. Miðað við þetta spyr maður hvort Wow þurfi ekki að taka starfsemina aðeins til endurskoðunar – eða hvort það sé beinlínis stefna að reka félagið á þessum grundvelli?

Icelandair fær svosem ekki frábæra dóma, en þó mikið betri en Wow. Ef flugbókunarsíður eru athugaðar má sjá að þessi tvö félög bjóða upp á einhverjar ódýrustu ferðir milli Evrópu og Bandaríkjanna sem völ er á – með millilendingu á Íslandi. Manni skilst jafnvel sá að draumurinn sé að gera Ísland að flugmiðstöð Atlantshafsins, eins konar Dubai norðursins. En þá þurfa flugfélögin auðvitað að rísa undir nafni.

 

 

Mánudagur 19.06.2017 - 09:04 - Ummæli ()

Hryðjuverk ógna Evrópu en borgir álfunnar eru miklu öruggari en fólk heldur

Hryðuverk eru hræðileg og þau vekja tilfinningu óöryggis og ótta meðal borgaranna. Óréttlætið sem er fólgið í hryðjuverkum sem beinast gegn almennum borgurum sem hafa ekkert til saka unnið svíður. Fólk er af tilviljun statt á veitingahúsi, tónleikum eða bara á einhverju torgi og verður fyrir árás ruglaðra manna sem sem hafa ánetjast sturlaðri hugmyndafræði. Þetta er vissulega martraðarkennt.

Varnir gegn hryðjuverkum eru líka mjög kostnaðarsamar, eins og við sjáum á öllu veseninu á flugvöllum heimsins, þær útheimta bæði mikinn mannafla og pláss – og þær gera samfélög okkar leiðinlegri og erfiðari að búa í.

En staðreyndin er samt, og þá verður ekki of oft minnt, að í raun lætur sárafátt fólk lífið vegna hryðjuverka á Vesturlöndum. Hryðjuverkamennirnir eru ekki sterkir, hafa ekki yfir fullkomnum vopnum að ráða. Við sáum það á hryðjuverkinu á Lundúnabrú. Ódæðismennirnir höfðu ekki átt fé til að leigja stóran vörubíl. Þeir urðu að láta sér minni bíl nægja. Þeir voru vopnaðir eldhúshnífum. Svona menn geta vissulega gert líf okkar erfiðara og flóknara, en þeir ógna ekki sjálfri samfélagsgerðinni. Það eru viðbrögð okkar við hryðjuverkunum sem skipta sköpum.

Á vef World Economic Forum má lesa grein sem ber yfirskriftina Hryðjuverkaógnin í Evrópu er raunveruleg en borgir álfunnar eru miklu öruggari en fólk heldur.

Langflest hryðjuverkin í heiminum eru reyndar framin í Miðausturlöndum, Afríku og Asíu. En síðustu árin hefur Evrópa upplifað mjög alvarlegar hryðjuverkaárásir. Á þessu ári hafa 39 manns látist í 11 hryðjuverkaárásum í Evrópu. Í greininni segir að þetta sé þó ekki nema 1 prósent af þeim sem fórust í hryðjuverkaárásum í heiminum fyrstu fimm mánuði ársins.

2016 er álitið að 142 borgarar Evrópusambandsins hafi dáið í hryðjuverkaárásum. Talan var hærri 2015, þá létust 176 manns í hryðjuverkaárásum innan ESB. Þetta er áhyggjusamleg aukning – hryðjuverkamönnunum hefur tekist ætlunarverk sitt sem er að vekja ótta og ugg.

En svo má líka setja þessar tölur í samhengi við aðrar dánarorsakir. Í téðri grein er birt stöplarit sem sýnir hættuna á því að deyja í hryðjuverki miðað við annað sem ógnar okkur. Þarna er miðað við árin 2010-2014, svo hryðjuverkin eru nokkuð hærri. Á metárunum 2015 og 2016 var hlutfallið 0,034 á hverja 100.000 íbúa fyrra árið en 0,027 síðara árið.

Þarf ekki að taka fram að margfalt líklegra er að fólk deyi vegna hitabylgja, íþróttaástundunar, að maður tali ekki um bílslys. Eldingar eru fyrir ofan hryðjuverk á töflunni hér fyrir neðan en myndu vera fyrir neðan síðustu tvö árin.

 

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is