Mánudagur 31.8.2015 - 19:42 - Ummæli ()

Kemur okkur ekkert við

Á forsíðu Vísis voru áðan fjórar fréttir um aðganginn sem Bjarni Benediktsson mun hafa stofnað á misheppnaðri dónasíðu.

Á forsíðu DV voru þrjár fréttir.

Stundin nálgast þetta af mikilli alvöru, eins og hér sé rúm fyrir mikla rannsóknarblaðamennsku, segir að ummæli eiginkonu Bjarna séu ekki í samræmi við „gögn af framhjáhaldssíðu“.

Við getum fylgst með þessu af ákafa og óstjórnlegri forvitni í dag, þurfum endilega að láta leiða okkur í allan sannleika um þetta, en svo gleymist það.

Auðvitað kemur okkur þetta nákvæmlega ekkert við, en þessar fréttir tóku við af flóttamannafréttunum sem voru allsráðandi í gær. Og það verður eitthvað annað á morgun.

 

Mánudagur 31.8.2015 - 12:57 - Ummæli ()

Rótlausa fólkið og þeir sem eru af gamalli rót

Reikult er rótlaust þangið,
rekst það um víðan sjá.
Straumar og votir vindar
velkja því til og frá.

Fuglar flugu yfir hafið
með fögnuði og vængjagný,
– hurfu út í himinblámann
hratt eins og vindlétt ský.

Þangið, sem horfði á hópinn,
var hnipið allan þann dag.
Bylgjan, sem bar það uppi,
var blóðug um sólarlag.

Ég sá að gáfuðum vini mínum á Facebook, Viðari Víkingssyni, hafði komið þetta í hug þegar hann las orð Bjarna Benediktssonar um rótleysi Pírata. Þetta er úr kvæði eftir Jóhann Sigurjónsson.

Nú bætir Brynjar Níelsson um betur og segir að Píratar séu „rótlausir kennitöluflakkarar í pólitík“.

Eins og Sigurjón Magnús Egilsson sagði á Sprengisandi í gær verður Bjarni Benediktsson seint vændur um rótleysi. Hann er af gamalli valdaætt og  óx beina leið upp af gamalli rót, MR, lögfræðinni, Sjálfstæðisflokknum.

Það er samt umhugsunarvert að Píratar eru farnir að laða til sín, og það er sjálfsagt óhjákvæmilegt, fólk sem hefur komið víða við í pólitík. Þar innan um er fólk sem hefur verið á ferðinni í Borgarahreyfingunni, Dögun og Lýðræðisvaktinni og sér tækifæri til að hafa áhrif í gegnum Pírata. Sumt af því er það sem má kalla einsmálsfók – sumir meta allt út frá nýrri stjórnarskrá, aðrir út frá verðtryggingu eða kvótakerfinu, svo nokkuð sé nefnt.

Það getur verið mikil list að halda saman flokki sem hefur slíkt fólk og svo eindregin sjónarmið innan sinna raða. Þarna er innan um fólk sem er tamt að líta á hverja málamiðlun, hverja eftirgjöf, sem svik. Sérstaklega gæti það verið vandasamt ef Píratar komast nær því að vinna stóran kosningasigur – hvað þá ef þeir komast í ríkisstjórn.

Athyglisvert er að Guðmundur Steingrímsson fór aðra leið með Bjarta framtíð sína. Hann lokaði á einsmálsfólkið, gætti þess að það kæmist ekki á fundi hjá BF. Þetta gekk ágætlega framan af, en fór svo að virka öfugt. Flokkur Guðmundar fór að líta út eins og vinahópur, klíka, þar sem þrífst engin alvöru pólitísk umræða eða hugmyndir.

 

 

Mánudagur 31.8.2015 - 07:27 - Ummæli ()

Innflytjendur og lífskjörin – íhlutun í Sýrlandi

Ekki verður séð að lífskjör þjóða versni við að taka á móti innflytjendum. Það er eiginlega þvert á móti – kakan stækkar, eins og það er stundum orðað í umræðum um hagstjórn. Fyrstu kynslóðar innflytjendur hafa tilhneigingu til að safnast saman í ákveðnar starfsgreinar sem innfæddir vilja oft ekki sinna eða líta jafnvel niður á. Þrif, umönnunarstörf, verksmiðjustörf, verslun og veitingarekstur.

Við getum nefnt Svíþjóð, Danmörku og Kanada – lönd þar sem ríkir dæmalaus velmegun – við höfum varla nein dæmi í sögunni um svo almenna velmegun. Þetta eru ríki sem hafa tekið á móti miklum fjölda innflytjenda. Kanada er reyndar byggt um á innflytjendum, þar voru ekki fyrir nema þeir sem kallast frumbyggjar eða fyrstu þjóðirnar. Kanadamenn taka að meðaltali við um 250 þúsund innflytjendum á ári.

„If you break it, you own it,“ var haft eftir Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á tíma Íraksstríðsins. Bandaríkjamenn og Bretar réðust inn í Írak með atbeina viljugra þjóða eins og Íslands. Nú má ljóst vera að þetta var eitthvert dæmalausasta feigðarflan í sögu mannkyns, gæti verið kafli í bókinni Framrás heimskunnar eftir Barbara Tuchman. Árásaraðilunum í þessu stríði hefur heldur ekki tekist að lifa eftir orðum Powells. Styrjöldin gat af sér blóðugt borgarastríð í Írak sem síðan færðist yfir til Sýrlands – þar sem ástandið hefur orðið ennþá verra.

Milli þriðjungur og helmingur íbúa Sýrlands er á flótta undan stríðinu. En vestrænar þjóðir eru ráðalausar, þær geta ekki sett saman það sem þær brutu. Hernaðarleg inngrip eru mjög fálmkennd, felast einkum í loftárásum sem virðast ekki hafa sérlega mikil áhrif. Spyrja má hvort þarna sé ekki átakasvæði sem kallar á alvöru hernaðarlega íhlutun. Slíkt er hins vegar mjög óvinsælt eftir tíma Íraksstríðsins – jú, eiginlega óhugsandi. Um tíma heyrðist hugtakið „mannúðleg hernaðaríhlutun“ oft, en svo er ekki lengur. Sumir forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum eru stóryrtir, en í raun leggur enginn neitt slíkt til í alvöru. Á meðan aukast þjáningar íbúa Sýrlands og æ fleiri leggja á flótta.

 

Sunnudagur 30.8.2015 - 18:24 - Ummæli ()

Kensingtonsteinninn, Vínlandskortið og víkingaþorp í suðurhöfum

Í sumar staldraði ég við í Alexandria í Minnesota, en þar er varðveittur hinn svonefndi Kensington-rúnasteinn. Sænskur innflytjandi, Olof Ohman, á að hafa fundið steininn árið 1898. Sagan er sú að steinninn hafi verið höggvinn af norrænum mönnum árið 1362, og segir á steininum að þeir hafi verið þarna lengst inni í „Vínlandi“ á flótta undan indíánum sem voru búnir að drepa tíu þeirra.

Steinninn var strax umdeildur, hann átti sér nokkra ákafa formælendur, en flestir voru á þeirri skoðun að hann væri gróf og kjánaleg fölsun. Þetta var á tíma þegar margir Norðurlandabúar höfðu flutt til Ameríku, þeir vildu gera sig gildandi og áhugi var á Leifi Eiríkssyni og vesturferð hans. Margir Svíar og Norðmenn settust einmitt að á svæðinu þar sem steinninn fannst.

Ein kenningin var sú að þarna hefðu verið á ferðinni menn í svokölluðum Knútson-leiðangri, að þeir hafi verið sendir af Magnúsi Eiríkssyni smek, konungi Noregs og Svíþjóðar, til að kanna kristnihald meðal norrænna íbúa á Grænlandi. Þeir hafi verið að ganga af trúnni. Þessi leiðangur hafi gert lykkju á leið sína og farið alla leið til svæðisins þar sem nú er Minnesota.

Hjalmar Holand, sá sem ákafast reyndi að sannfæra fólk um sannleiksgildi Kensington-steinsins, hélt því fram að ljósleitir indíánar af Mandan-ættbálki við Missouri-fljót væru afkomendur hinna norrænnu langferðamanna.

En steininn má semsagt sjá á safninu í Alexandria og þar er best að hafa ekki hátt um að hann sé líklega óekta. Honum er skipað í öndvegi og búið glæsilega um hann. Alexandria er ekki fjölfarinn staður, og steinninn er flestum gleymdur. En einstaka sinnum kemst hann aftur inn í umræðuna, eins og þegar Robert Hall, prófessor við Cornell-háskóla, hélt því fram fyrir tuttugu árum að hann væri ófalsaður og fullyrti hópar norrænna manna hefðu flakkað um meginland Ameríku.

Kensington-runestone

Kensington-rúnasteinninn minnir á Vínlandskortið sem var feikilega umdeilt á árunum í kringum 1960. Það fannst innan í gömlu handriti 1957 og var gefið Yale-háskóla. Kortið á að vera frá 15. öld og viti menn, það er land þar sem Ameríka er – fyrir tíma Kólumbusar. Meðal þeirra sem tóku til máls um kortið voru vinirnir Jón Helgason og Halldór Laxness – þeir töldu það báðir vera hlægilega fölsun. En inngrip þeirra sýnir að virtir að menntamenn tóku málið nógu alvarlega til að tjá sig um það.

Screen Shot 2015-08-30 at 09.53.39

Frá Bandaríkjunum berast stundum fréttir af því að fundist hafi minjar frá víkingatímanum, yfirleitt er það eitthvað málum blandið utan rústirnar í L’Anse aux Meadows á Nýfundnalandi sem er almennt talið að séu ekta og til marks um að norrænir menn hafi komist yfir hafið að ströndum Ameríku.

Og svo má líka lesa svona skemmtilegar fréttir eins og þessa, á vefnum Worldnewsdailyreport, en þar segir frá því að fornleifafræðingar hafi nýskeð fundið víkingaþorp á vesturströnd Ástralíu. Segir í fréttinni að minjarnar séu frá því um 1000, frá tíma víkingaferða og að þarna hafi norrænir menn nær örugglega verið á ferð.

Screen Shot 2015-08-30 at 10.06.56

 

Sunnudagur 30.8.2015 - 09:19 - Ummæli ()

Efnahagslega klókt að taka við innflytjendum

Evrópu beinlínis vantar innflytjendur, segir í grein í The Economist sem fjallar um flóttamannavandann. Það er semsagt hagfræðilega klókt að taka við flóttamönnum, að því tilskyldu að þeir fái tækifæri til að samlagast þjóðfélögunum sem þeir koma til en séu ekki einangraðir og án atvinnu.

Evrópubúar eru að verða eldri og ríki Evrópu skulda stórar fjárhæðir. Innflytjendur eru yfirleitt ungt fólk og þeir eru tilbúnir til að vinna. Ef færi gefst eru þeir líklegir til að setja á stofn fyrirtæki. Og, þeir láta sig hafa það að vinna störf sem er nauðsynlegt að sinna, en hinir innfæddu líta helst ekki við. Það hefur ekki þurft að kosta neinu til að mennta þá – og þeir taka þátt í að borga skuldirnar sem liggja eins og farg á Evrópu.

Þetta eru köld en áhrifamikil rök. Þau bætast við mannúðarrökin sem við höfum heyrt síðustu dagana. Á Íslandi er staðan reyndar slík að menn telja að hér verði skortur á starfsfólki næstu árin.

Laugardagur 29.8.2015 - 15:35 - Ummæli ()

Bóklestur, bylting Gutenbergs og stafræna byltingin

Það er ágætt að fara í lestrarátök, og þau geta kannski aukið bóklestur tímabundið á einhverju svæði, en það breytir ekki þeirri staðreynd að lestur bóka er hverfandi fyrirbæri. Bókin var stórkostleg bylting þegar Gutenberg fann leið til að fjölfalda hana á 15. öld. Þarna var kominn grundvöllur að því að almenningur yrði læs og ótrúlega öflugt tæki til að dreifa hugmyndum. En framþróun var hæg á þeim tíma, það tók mörg hundruð ár áður en uppfinning Gutenbergs náði almennri dreifingu.

Internetið náði alheimsútbreiðslu á örfáum áratugum og á fáum árum er milljarður jarðarbúa kominn á Facebook. Þetta er alveg nýr veruleiki. Nú er enn uppi talsvert af fólki sem man tímann fyrir internetið – það er tíminn þegar bækur voru enn mjög öflugur fjölmiðill. Á næstu áratugum mun þetta breytast, þá þekkir fólk ekki annað en hin stöðugu samskipti internetsins. Netið virkar allt öðruvísi en bækur, maður er sífellt að fara úr einu í annað, maður les vissulega en textarnir eru stuttir, oftast ekki nema brot, maður þarf lítið að muna –  reyndar er líklegt að netnokun valdi því að minninu hrakar. Og kannski er ekki þörf á að muna þegar maður þarf ekki annað en að smella til að ná í allar upplýsingar heimsins.

Þetta umhverfi er mjög andsnúið bóklestri – og ekki furða að mörgum börnum og unglingum þyki það vera algjör tímaskekkja að lesa bækur. Lestur af gamla taginu þar sem maður er einn með bók er á hröðu undanhaldi. Sá sem er á stöðugu flökti um internetið á líka erfitt með að einbeita sér að lengri texta.

Ein kenningin er að bylting Gutenbergs hafi rutt burt þeirri list að muna sögur og ljóð. Internetbyltingin – eða stafræna byltingin – er líklega ennþá stærri og hefur meiri áhrif á hvernig við notum heilann okkar, minnið og hvernig við upplifum heiminn.

Hætt er við að lestrarátök geti litlu breytt um þetta, ekki einu sinni þótt reynt sé að borga börnum fyrir að lesa, eins og Jón Gnarr leggur til í ágætri grein í Fréttablaðinu.

Föstudagur 28.8.2015 - 18:58 - Ummæli ()

Nýja vinstrið steytir á skeri í Grikklandi

Kosningar í Grikklandi 20. september munu ekki leysa neinn vanda – líklega fremur auka á hann. Nú situr bráðabirgðastjórn undir forystu Vassiliki Thanou, hún er hæstaréttardómari og fyrsta kona til að verða forsætisráðherra í Grikklandi. En hún ræður auðvitað ekki neinu, vandinn verður að mynda stjórn eftir kosningarnar.

Alexis Tsipras er enn vinsæll, flokki hans Syriza er spáð flestum atkvæðum í kosningunum, en þó ekki nema 23 prósentum, sem þýðir að hann er langt frá því að geta myndað stjórn. Þeir sem klufu sig úr flokki hans, og mynduðu flokk sem má kalla Sameiningarflokk alþýðu, rétt slefast yfir 3 prósentin sem þarf til að komast á þing.

Vinstrið er aftur margklofið eftir að hafa náð saman í Syriza. Panagiotis Lafazanis var ráðherra uppbyggingar og umhverfis í ríkisstjórn Syriza, en er nú leiðtogi Sameiningarflokksins. Zoe Konstantinopolou, þingforseti sem líka var í uppreisnarliðinu í Syriza, er líka þar, hyggst stofna sinn eigin flokk en ætlar þó að vera í kosningabandalagi með Lafazanis. Hugsanlega er hún þó brunnin inni á tíma með það.

Mikill meirihluti Grikkja er óánægður með þá ákvörðun að halda kosningar og telja þær ótímabærar. Líklegt er að margir kjósi að sitja heima. Þetta eru fimmtu kosningarnar á sex árum. Eftir þær verður ekki annað til ráða en að mynda samsteypustjórn sem varla situr lengi – og hefur tæplega afl til að koma í gegn umbótum sem eru svo nauðsynlegar.

Tsipras segist ekki munu vinna með hægri flokknum Nea Demokratia né hinum uppdáttarsjúka jafnaðarmannaflokki Pasok – það eru hinir hefðbundnu valdaflokkar Grikklands. Hann vill heldur ekki vinna með Potami sem er eins konar Björt framtíð Grikklands. Slitin milli Tsipras og fyrrverandi fjármálaráðherrans, Yannis Varoufakis, eru algjör. Tsipras sagði í sjónvarpsviðtali í fyrradag að Varoufakis hefði tapað trúverðugleika sínum. Hann hafi talað við viðsemjendur Grikkja enginn hafi hlustað á hann lengur.

Fyrir vinstrið er þetta meiriháttar áfall. Ríkisstjórn Syriza kom engu í verk af því sem hún lofaði að gera. Uppi voru vangaveltur um að Syriza gæti verið fyrirmynd fyrir „nýtt vinstri“ í Evrópu. Sú von virðist vera orðin að engu. Nýja vinstrið hefur steytt á skeri í Grikklandi.

alexis-tsipras1

Alexis Tsipras nýtur enn vinsælda, enda fáir aðrir leiðtogar í sjónmáli. En grískur almenningur vill ekki nýjar kosningar, enda er líklegasta útkoman veik samsteypustjórn.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is