Föstudagur 27.3.2015 - 20:52 - Ummæli ()

Gott kvöld fagra djúp!

Tomas Tranströmer er látinn, sænska ljóðskáldið og Nóbelsverðlaunahafinn. Hann er eitt af stórskáldum okkar tíma. Í þessu kvæði eftir hann, Sorgargondól nr. 2, er byggt á tónverki eftir Franz Liszt, La lugubre gondola. Upp úr þessu rís dásamlegur kveðskapur, en bakgrunnurinn er sá að Liszt var faðir Cosimu, eiginkonu Wagners. Hún dáði mann sinn ákaft, en milli tengdaföðurins og tengdasonarins var nokkuð stirt samband. Í raun má segja að Liszt hafi verið göfugmenni, en Wagner átti það til að vera ósvífinn og sviksamur. Liszt var frægasti píanóleikari 19. aldar, en tók líka prestsvígslu og var því Abbé Liszt eins og segir í kvæðinu.

Ljóðið kom út í bókinni Sorgargondóll árið 1996. Það var eftir að Tranströmer hafði fengið alvarlegt slag – enduróminn af því má líka nema í kveðskapnum. Hann átti erfitt með mál.

Hér er kvæðið í þýðingu Njarðar P. Njarðvík. Fyrir tveimur árum kom út heildarsafn ljóða Tranströmers í þýðingu hans – ómetanleg bók til að eiga og lesa.

Í skýringunum með kvæðinu stendur:

Um áramótin 1882/1883 heimsótti Liszt Cosima dóttur sína og mann hennar, Richard Wagner, í Feneyjum. Wagner dó fáum mánuðum síðar. Á þessum tíma samdi Liszt tvö píanóverk sem gefin voru út með heitinu Sorgargondóll.

 

Tomas_Transtromer_L

 

SORGARGONDÓLL NR. 2

I

Tveir karlar, tengdafaðir og tengdasonur, Liszt og Wagner,
búa við Canal Grande
ásamt eirðarlausu konunni sem er gift Mídasi konungi
honum sem breytir öllu sem hann snertir í Wagner.
Grænn kuldi hafsins þrýstist upp um gólfið í höllinni.
Wagner er tekinn, galgopasvipurinn frægi þreyttari en áður
andlitið hvítur fáni.
Gondóllinn er þunghlaðinn ævum þeirra, tvær báðar leiðir
og ein aðra leið.

II

Gluggi í höllinni feykist upp og menn gretta sig
af snöggum dragsúg.
Á síkinu fyrir utan birtist sorgargondóllinn
róinn tveimur einára þrjótum.
Liszt hefur skrifað nokkra hljóma sem eru svo þungir
að þá ætti að senda
steinarannsóknarstöðinni í Padova til athugunar.
Loftsteinar!
Of þungir til að dveljast, þeir geta bara sokkið og sokkið
gegnum framtíðina alveg niður
í ár brúnstakkanna.
Göndóllinn er þunghlaðinn samanhnipruðum steinum
framtíðarinnar.

III

Augu móti 1990

25. mars. Uggur vegna Litháen.
Mig dreymdi að ég kæmi í stórt sjúkrahús.
Ekkert starfsfólk. Allir voru sjúklingar.

Í sama draumi nýfædd stúlka
sem talaði í heilum setningum.

IV

Við hlið tengdasonarins sem er maður tímans
er Liszt mölétinn öldungur.
Það er grímubúningur.
Djúpið sem prófar og fleygir frá sér grímum
hefur valið einmitt þessa handa honum –
djúpið sem vill koma til manna án þess að sýna
andlit sitt.

V

Abbé Liszt er vanur að bera sjálfur ferðatösku sína
gegnum slyddu og sólskin
og þegar hann svo eitt sinn skal deyja tekur enginn
á móti honum á stöðinni.
Volgur andvari frá eðalkoníaki hefur hann
á brott í miðju verkefni.
Hann er sívinnandi.
Tvö þúsund bréf á ári!
Skólapilturinn sem skrifar rangstafaða orðið hundrað
sinnum áður en hann fær að fara heim.
Gondóllinn er þunghlaðinn lífi, hann er einfaldur og svartur.

VI

Aftur til 1990.

Mig dreymdi að ég ók tvö hundruð kílómetra til einskis.
Þá stækkaði allt. Spörvar á stærð við hænur
sungu svo að ég fékk hellu fyrir eyrun.

Mig dreymdi að ég teiknaði píanónótnaborð
á eldhúsborðið. Ég lék á það þegjandi.
Nágrannarnir komu inn til að hlusta.

VII

Píanóið hefur þagað gegnum allan Percifal (en hlustað)
fær loks að segja eitthvað.
Andvörp … sospiri …
Þegar Liszt spilar í kvöld heldur hann hafspedalanum
föstum niðri svo að grænn kraftur hafsins þrýstist upp
gegnum gólfið og flýtur inn í alla steina í húsinu.
Gott kvöld fagra djúp!
Gondóllinn er þunghlaðinn lífi, hann er einfaldur og svartur.

VIII

Mig dreymdi að ég ætti að byrja í skóla en kæmi of seint.
Allir í herberginu höfðu hvítar grímur fyrir andlitinu.
Ekki varð séð hver var kennarinn.

Föstudagur 27.3.2015 - 16:43 - Ummæli ()

Ómæld tækifæri í landbúnaði

Veruleikinn sem blasir við íslenskum landbúnaði er allt annar en hann var, nú þegar árleg tala ferðamanna á Íslandi kemst yfir milljón. Það er miklu meiri eftispurn eftir mat, ekki síst gæðahráefni sem sem er nógu gott til að selja á veitingahúsum. Sagt er að ferðamannafjöldinn stefni í tvær milljónir á ári.

Í raun má segja að tími varnarbaráttunnar í landbúnaðinum ætti að vera á enda – nú gæti runnið upp tímabil stórsóknar. Ef vel er haldið á málum ætti að vera fjarska bjart framundan í landbúnaði. Það á að vera hægt að framleiða meiri mat og betri mat. Sú er krafa tímans.

Samt erum við ennþá föst í viðjum gamallar hugsunar, ótta við innflutning á landsbúnaðarvörum, fákeppni og einokun sem veldur því að úrvalið er miklu lakara en það þyrfti að vera, vöruþróun léleg, átakanlegur skortur á upprunamerkingum og rekjanleika – vöntun á tengslum afurða við landið sem þær uxu upp úr.

Við erum ennþá föst í kerfi framleiðslustyrkja, sem festa í sessi ákveðna tegund af afurðum, þegar þróunin ætti að vera í átt til betri og hagkvæmari nýtingar landsins. Þannig má auka fjölbreytnina, minnka miðstýringuna.

Það er mjög gaman að koma á bændamarkaði sem haldnir eru í Hörpu, en þar er enginn sérstakur fjöldi framleiðenda. Því miður finnst manni stundum eins og landbúnaðarafurðir á Íslandi séu settar í eina stóra kvörn og út úr þeim komi: Kjöt, mjólk, ostur.

Allt vakúmpakkað.

Og það er heldur ekki eins og bændur hafi það svo ofsalega gott í þessu kerfi – nei, þeir eru upp til hópa láglaunastétt.

Fjölgun ferðamanna á að geta breytt þessu rækilega. Þegar maður ferðast til landa vill maður njóta þess besta sem þau hafa upp á að bjóða – þannig er um flesta ferðamenn. Maður borðar pylsur í Þýskalandi, osta í Frakklandi, nautakjöt í Bandaríkjunum, skinku í Danmörku, fetaost í Grikklandi. Ekki myndi maður vilja skipta því út fyrir innflutt dót.

Þarna liggja ómæld tækifæri íslensks landbúnaðar á tíma þegar ferðamenn dreifast um landið. Það eru fleiri munnar að metta, og meira af vandlátum neytendum – enda er farið að gæta skorts á ýmsum landbúnaðarafurðum, svo mjög að menn hafa verið að stelast til að flytja inn landbúnaðarvörur án þessa að geta þess að þær séu útlenskar.

41c3301c5cbd78c1c944225523707aad_frimerki

 

 

Föstudagur 27.3.2015 - 13:51 - Ummæli ()

Það þarf að semja

Það er skammgóður vermir þótt takist að fresta einhverjum verkföllum vegna mistaka í verkfallsboðun. Fjármálaráðuneytið boðar málsókn ef verður af verkföllum sem hafa verið boðuð hjá BHM.

Þetta breytir því ekki að takast verður á við óróann sem er á vinnumarkaði. Meira að segja forsætisráðherra sjálfur hefur viðurkennt að laun séu of lág á Íslandi.

Í sumum greinum virðist einfaldasta mál að hækka kaupið, eins og í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Fyrirtækin þar njóta lágs gengis og stjórnvalda sem eru þeim afar hliðholl. Eins og komið hefur fram borgar Grandi eigendum sínum 2,7 milljarða króna í arð sama dag og boðað er verkfall fiskverkafólks.

Það eru semsagt til nægir fjármunir til að bæta kjör þess.

Ferðaþjónustan veltir milljörðum á milljarða ofan og straumur túrista eykst sífellt. Þar verður reyndar vart við háskalegt græðgishugarfar, en launin eru afar lág. Það ætti ekki að vera neitt tiltökumál að hækka þau.

En það er líka verið að gera kjarasamninga sem vit er í, eins og til dæmis í Norðuráli á Grundartanga þar sem var gerður samningur sem gildir til fimm ára.

Vandinn er samt alltaf sá að kauphækkunum á Íslandi er jafnskjótt velt út í verðlagið. Þá hækkar vísitalan og verðbólgan fer af stað og verðtryggingin og svo hækka lánin og sjá – hækkanirnar hverfa eins og dögg fyrir sólu. Þetta er svipan sem atvinnurekendur geta alltaf haldið á lofti og það reyndar með nokkrum rétti. En er kannski ekki sérlega kraftmikið þegar horft er á óstöðvandi sjálftöku forstjórastéttarinnar.

 

Fimmtudagur 26.3.2015 - 12:30 - Ummæli ()

Auðvitað á að lækka kosningaaldurinn

Mitt í tíðindalitlu þingi þar sem vaða uppi dellumál og fátt kemur frá ríkisstjórninni, lítur dagsins ljós frumvarp sem mikið vit er í – hefur það að marki að bæta lýðræðið í landinu.

Þetta er frumvarp sem kveður á um að kosningaréttur verði lækkaður í 16 ár.

Sjálfsagt mál. Það er engin ástæða til annars en að fólk á þessum aldri fái að kjósa. Þarf ekki að hafa mörg orð um það.

Þetta unga fólk er ekki vitlausara eða vanhæfara til að kjósa en við sem eldri erum. Það er heldur ekki eins og okkur hafi tekist sérlega vel upp.

 

 

Fimmtudagur 26.3.2015 - 07:52 - Ummæli ()

Landspítalinn – hægt að hætta við

Enn er komin til umræðu staðsetning Landspítala á lóðinni við Hringbraut. Kemur í ljós að mikill meirihluti lækna er mótfallinn henni. Kemur ekki á óvart. En allt skipulag þessa svæðis í langan tíma hefur miðað við að þarna yrði spítalinn, meðal annars lega hins einkennilega hraðbrautarspotta sem sker Vatnsmýrina. Eftir að hann var lagður viðurkenndu sumir borgarfulltrúar að þetta hefðu verið mistök.

Spítalinn er ekki risinn enn, þrátt fyrir að áform um hann séu kominn nokkuð til ára sinna. En eftir því sem tíminn líður virðist staðsetningin óhentugri. Þarna verður risastór vinnustaður með tilheyrandi umferð til og frá – það er öruggt að ekki koma allir á hjólum. Þrengslin í kringum lóðina eru mikil, þarna er flugvöllurinn rétt hjá sem veldur því að ekki er hægt að byggja hátt upp í loft – umhverfið leyfir það heldur ekki, því byggðin allt í kring er lágreist. Og svo er auðvitað spurningin hvort allur spítalinn þurfi að vera á einum stað.

Landspítalinn gamli er heldur ekki miðsvæðis í á höfuðborgarsvæðinu, því fer fjarri. Hann er úti á nesinu þar sem miðborgin er vissulega og verður áfram um ókomna tíð. En það getur verið afar tafsamt að komast þangað frá ytri byggðum sem liggja nær hinni eiginlegu miðju höfuðborgarsvæðisins – í því sambandi er jafnvel hægt að horfa norður á Akranes, austur á Selfoss og suður til Keflavíkur. Fólk þarf líka að komast þaðan á spítala.

Fossvogur og Vífilsstaðir virðast heppilegri kostir, en einnig er nefndur Elliðaárvogur.

Afar glöggur maður, Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, skrifar um spítalann á Facebook:

Hrikaleg mistök eru í uppsiglingu með því að byggja nýjan Landspítala við Hringbraut. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leiðir verkefnið um nýjan Landspítala enda verður það fjármagnað af ríkinu – lesist skattgreiðendum – og ber því ábyrgð á að í sögubókum framtíðarinnar verður verkefnið metið sem ein stærstu mistök Íslandssögunnar. Enginn virðist hafa áhyggjur af því að skattgreiðendur eiga að greiða að lágmarki 70 milljarða (endar líklega í 100 milljörðum) fyrir þetta skrímsli. Liðleskjurnar í borgarstjórn hafa síðan hvorki þor né dug til að stöðva málið frekar en ríkisstjórnin.

Allir eru sammála um að nýjan spítala þarf að reisa. Margir betri staðir eru til reiðu – allir margfalt betri en þessi. Staðir sem hægt er að nefna eru m.a. 1) vestan við Elliðavog (Dugguvogshverfi), 2) austan við Elliðavog (þar sem malbikunarstöðin, Björgun og fleiri aðilar eru nú). 3) Vífisstaðasvæðið er einn kostur eins og nefndur var í fréttum í kvöld og aðrir hafa nefnt. 4) Keldur. Einnig hafa margir bent á 5) Fossvoginn þar sem gamli Borgarspítalinn er og mikið autt landrými er allt í kring þó sá kostur sé ekki eins augljós í mínum huga og hinir fjórir. Ávinningur við þessa kosti er að á öllum þessum stöðum væri hægt að byggja nýtt frá grunni án þess gríðarlega viðbótarkostnaðar að prjóna við eldri byggingar fyrir utan þann mikla aukakostnað að þurfa að grafa, byggja, sprengja í þröngu umhverfi. Skv. frumvarpi um verkefnið þá er áætlun á verðlagi í okt. 2012 61,5 miljarðar króna (Hér er hlekkur á frumvarp til laga um þessi miklu mistök https://dl.dropboxusercontent.com/…/Log%20um%20byggingu%20n…). Þá er eingöngu miðað við byggingarkostnað en ekki tækjakaup (áætluð 12 milljarðar) enda má reikna með að sömu tæki þyrfti að kaupa þó byggt væri annarsstaðar. Í fyrrgreindum tölum er EKKI reiknað með fjármagnskostnaði en hann má áætla einhverja tugi milljarða, því hærri fjármagnskostnaður sem stofnkostnaður er hærri vegna rangrar staðsetningar.

Ekki er því óvarlegt að áætla að á verðlagi dagsins í dag, rúmlega tveimur árum seinna, sé áætlun 70 milljarðar. Vegna erfiðleika við að byggja á þessum stað og hefðbundinnar vanáætlunar opinberra framkvæmda yrði ég ekki hissa á því að áætlun á verðlagi ársins í dag ætti að vera nær lagi 100 milljarðar. Lílkega væri hægt að spara um 30% ef byggt væri á nýju svæði frá grunni. Gríðarlegur óbeinn sparnaður myndi líka fylgja staðsetningu á fyrrgreindum stöðum, t.d. sparnaður vegna samgangna (ódýrara að ferðast til og frá vinnu ef staðsetning er valin miðsvæðis og nær svæðum sem starfsmenn búa á). Öll fyrrgreind svæði eru betri hvað það varðar og gríðarlegur sparnaður og þægindi myndi fylgja öðrum staðsetningum. Það ER HÆGT að hætta við áður en búið verður að henda meira af skattpeningum í verkefnið.

Pages_from_NLSH03_UPPDR_29_mid.8_mid.11-minni-2_mid

Miðvikudagur 25.3.2015 - 20:17 - Ummæli ()

Að skeina sig með handritum

Hér segir frá handriti frá þriðju öld e. Kr. sem fannst við uppgröft á fornum egypskum stað sem nefnist Oxyrhynchus. Á handritinu er texti skrifaður með fallegri rithönd, þetta mun vera úr Ilionskviðu Hómers, er semsagt á grísku.

Við rannsóknir kom í ljós að handritið hefur verið notað á heldur óvirðulegan hátt – einhver hefur semsagt skeint sig með því. Þetta hefur verið efnagreint og kemur í ljós að brúna klessan á papýrusblaðinu inniheldur hveitihýði. Rit Hómers voru vinsæl, svo þetta hefur í raun verið lúxusskeinipappír.

Sagt er að Íslendingar hafi notað gömlu handritin meðal annars til að gera úr þeim skó eða skóbætur. Fólk til forna var að mestu án þæginda sem við teljum sjálfsögð í dag. Er hugsanlegt að einhverjir hafi skeint sig með handritum? Hafa þau verið rannsökuð með tilliti til þessa? Eða hvað notuðu menn til þessara þarfa? Papýrus er þó líklega þægilegri sem salernispappír en skinnblöð.

7106394_orig

Miðvikudagur 25.3.2015 - 14:34 - Ummæli ()

Fjarskalega mikilvæg mál

Alþingismenn eru með puttann á púlsinum.

Nú lítur dagsins ljós frumvarp um að leyfa hina blóðugu bardagaíþrótt MMA – þar sem meðal annars tíðkast mikil höfuðhögg.

Af öðrum sérlega áberandi þingmálum vetrarins má nefna frumvarpið um að leyfa sölu áfengis í kjörbúðum.

Og frumvarpið sem gengur út á að afnema íslensku mannanafnalögin svo allir megi heita það sem þeir vilja.

Jú, og svo er það frumvarpið sem gengur út á að seinka klukkunni.

Þetta er allt fjarskalega mikilvægt. Eða má kannski segja að þingmenn séu á harðahlaupum á undan vandamálunum sem hrjá þessa þjóð?

 

ufc99_02_stojnic_vs_struveLO-thumb-500x295-15742

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is