Laugardagur 25.03.2017 - 19:19 - Ummæli ()

Harðsoðin frásögn um dramatíska atburði

Þegar ég á rólega stund blaða ég stundum í Landið þitt Ísland, hinu mikla safni eftir Þorstein Jósepsson og Steindór Steindórsson. Þar er að finna margvíslegan fróðleik, sumt er skemmtilegt, annað nokkuð hrollvekjandi, og svo er maður steinhissa yfir ýmsu sem er að finna þarna um sögu þjóðarinnar.

Eins og til dæmis þessu litla broti um bæinn Efranes á Skaga. Þarna er sögð mikil saga í mjög fáum línum. Má með sönnu segja að þetta sé harðsoðin frásögn. En dramatíkina vantar ekki. Maður veit svo ekki alveg hvort maður á að trúa þessu.

Orðið „málgífur“ er býsna fágætt.

 

Laugardagur 25.03.2017 - 09:53 - Ummæli ()

Feðraveldið skýtur upp sínum ljóta kolli

„Hópur af miðaldra hvítum karlmönnum í ljótum jakkafötum er hrollvekjandi,“ las ég áðan.

Þessir menn telja sig vera þess umkomnir að ráða yfir lífi og limum og líkömum kvenna. Orðið feðraveldi kemur strax upp í hugann.

Ný útgáfa af The Handmaids Tale eftir Margaret Atwood verður frumsýnd í sjónvarpi í lok apríl.

 

 

Föstudagur 24.03.2017 - 19:35 - Ummæli ()

Kyrrlát vetrarstemming í Lækjargötu

Þessi dálítið angurværa vetrarmynd sýnir Lækjargötu á árunum eftir stríð. Myndin er greinilega tekin seint um kvöld eða um nótt, það er ekki hræða á ferli. Við tökum eftir því hvað bílarnir eru fáir.

Myndin er örugglega tekin eftir 1945, því þá var byrjað að reisa viðbyggingu við Nýja bíó sem sést við enda húsalengjunnar.

Húsin sem eru næst okkur eru horfin. Þarna er Lækjargata 12 b sem brann til kaldra kola 1967, þar bjó Bjarni dómkirkjuprestur ásamt frú Áslaugu. Þar hefur verið bílastæði síðan. Þá er hús sem stóð á lóðinni þar sem nú er hús Iðnaðarbankans/Íslandsbanka – nú er hægt og bítandi verið að rífa það.

Næstu hús eru hafa varðveist, Lækjargata 10 sem er hlaðið steinhús frá 1877, svo eru Lækjargata 8 og Lækjargata 6a og b. Húsið við Lækjargötu 4, þar sem Hagkaup var til húsa um tíma, var hins vegar flutt í Árbæjarsafn. Nýja bíó brann og þar var reist í staðinn hið svokallaða Iðuhús. Nú er veitingarekstur í nánast öllum húsum meðfram Lækjargötunni.

Lækjargatan er breiðgata með tveimur aðskildum akreinum. Hún var breikkuð árið 1950, manni sýnist að myndin sé tekin eftir það. Sérstaka athygli vekja ljósastaurarnir. Þeir eru sérlega gerðarlegir, með tveimur öflugum ljóskösturum.

 

 

 

Hér má svo sjá forsíðu Morgunblaðsins frá 11. mars 1967, eftir stórbrunann í Lækjargötunni. Þarna má sjá hvernig húsið næst okkur stendur í ljósum logum. Þetta er öllu dapurlegra. En það varð brátt um mörg fallegustu hús bæjarins á þessum árum.

 

Föstudagur 24.03.2017 - 11:36 - Ummæli ()

Fjölmiðlar hjálpa hryðjuverkamönnum

Fjölmiðlar hjálpa hryðjuverkamönnum með athyglinni sem þeir veita þeim. Þetta segir Simon Jenkins í viðtali við Newsnight hjá BBC. Við erum að auglýsa hryðjuverk í stórum stíl, segir hann, í tilefni af umfjölluninni um árásina við breska þingið í fyrradag.

Jenkins er fyrrverandi ritstjóri The Times og Evening Standard, mjög víðlesinn dálkahöfundur – frægur fyrir að hafa mjög sjálfstæðar skoðanir á málum.

Þetta er geysilega mikilvæg umræða. Jenkins skrifar grein um sama efni í Guardian þar sem hann segir að móðursýkisleg umfjöllun um hryðjuverk muni einungis hvetja fleiri til að fremja þau. Þar beinir Jenkins sjónum sínum bæði að fjölmiðlum og stjórnmálamönnum.

 

Fimmtudagur 23.03.2017 - 21:10 - Ummæli ()

Þarf að friða íbúa Miðbæjarins?

Hér segir frá því að íbúum Miðborgarinnar fækki mikið. Við förum að verða eins og geirfuglinn eða fólkið sem einu sinni bjó á Hornströndum.

En er ekki nauðsynlegt að halda Miðbænum í byggð? Þarf ekki að vera eitthvað fólk sem túristarnir geta fylgst með að starfi og leik. Fólk sem er ekki klætt í flís eins og það sé á leiðinni upp á jökul. Og til að segja þeim til vegar, aðstoða þá við innkaup í Bónus, hjálpa þeim við stöðumæla og segja þeim hvar er að finna hraðbanka.

Þetta eru nokkur af verkefnunum sem íbúarnir hérna í Miðbænum sinna. Við lendum líka mjög oft í því að vera á mynd hjá ferðamönnum, hvort sem við kærum okkur um það eða ekki.

Það er semsagt spurning hvort ekki þurfi að vernda íbúa Miðbæjarins. Slá um þá skjaldborg. Friða þá jafnvel.

Mætti jafnvel hugsa sér einhvers konar búsetustyrki – eða staðaruppbót?

 

Fimmtudagur 23.03.2017 - 08:00 - Ummæli ()

Erfiðir dagar hjá Viðreisn og Bjartri framtíð

Fylgishrun Viðreisnar og Bjartrar framtíðar gerist afar hratt, ekki eru nema tveir mánuðir síðan ríkisstjórnin var mynduð. Samkvæmt könnun Fréttablaðsins í dag eru flokkarnir með – ná hvorugur manni inn á þing. Viðreisn er með 3,1 prósent í könnuninni, Björt framtíð með 3,8 prósent.

Þetta hefur margvísleg áhrif. Það staðfestist rækilega sem sagt er að stjórnmálaflokkar gjalda þess oft þegar þeir fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, hann eykur fylgi sitt, hinir tapa. Þeir sitja oft uppi með erfiðu málin og óstöðugt fylgi, meðan Sjálfstæðisflokknum vex ásmegin. Hann fær 32 prósent í könnuninni og má vel við una. Og líf stjórnar sem hefur aðeins eins þingsætis meirihluta virkar ótryggara en fyrr. Stuðningsmennirnir ókyrrast, það er líklegra en fyrr að einhverjir úr þingliðinu hlaupi út undan sér, í slíku fylgisleysi þverr sannfæringarkrafturinn og sjálfstraustið.

Að öllu óbreyttu ættu að vera fjögur ár eftir í stjórnarsamstarfinu. En það er sálrænt erfitt að hafa svo lítið fylgi. Getur reynst afar torvelt að endurheimta það, þótt það sé náttúrlega ekki óhugsandi – sbr. Bjarta framtíð fyrir kosningarnar. Það grefur um sig vantraust og óvissa. Maður skynjar nokkuð sterkt að sumir þingmennirnir úr Viðreisn og BF eru líkt og á nálum. Umræðan um flokkana er hörð og óvægin og erfitt fyrir marga þeirra að höndla hana.

Það er ýmislegt sem er að reynast Viðreisn og Bjartri framtíð erfitt í upphafi stjórnarsamstarfsins. Umræða um fátækt, um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, sala á bönkum – og svo sú útbreidda kenning að flokkarnir hafi samið frá sér stefnumálin í stjórnarmyndunarviðræðunum.

Á sama tíma er fylgi Vinstri grænna komið í hæstu hæðir, er heil 27 prósent. Miðað við könnunina færu VG, Píratar og Samfylkingin létt með að mynda ríkisstjórn. En það er kannski dálítið til í því sem Marinó G. Njálsson segir um VG, þegar flokkurinn gerir lítið bætir hann við sig, fylgið leitar frekar burt þegar þingmenn flokksins beita sér.

En svo er athyglisvert að talsverður samhljómur virðist vera að myndast milli Framsóknarflokksins og VG eftir ýfingar undanfarinna ára.

 

Miðvikudagur 22.03.2017 - 23:56 - Ummæli ()

Sven Ingvars – alltaf í útvarpinu

Frændi minn einn átti plötur með hljómsveit Sven Ingvars. Hann átti líka plötur með Savanna tríóinu. Þegar ég fór í heimsókn til hans vildi ég frekar hlusta á Savanna. Hann átti engar Bítlaplötur.

Sven Ingvars hljómaði í útvarpinu í tíma og ótíma. Fæstum börnum eða unglingum fannst þetta skemmtileg músík. Þau vildu fekar Bítlana eða Stones, en lítið framboð var af þeim í útvarpinu. Það var of villt. Sven Ingvars þótti nokkuð „seif“, eins og ein vinkona mín orðar það. Þetta var málamiðlun – og fæstum finnst þær skemmtilegar.

Nokkur laga Sven Ingvars voru tekin upp af íslenskum hjómsveitum og leikin með íslenskum textum, eins og tíðkaðist í þá daga.

Þetta var á tíma þegar Ísland var nær Norðurlöndunum. Við lásum dönsku blöðin, Hjemmet og Familie Journal, skandinavískar myndir eins og Karlsen stýrimaður nutu mikilla vinsælda, norrænir leikarar og söngvarar voru líkt og heimilisvinir – eða hver man ekki eftir Snoddas?

En forsprakki þessarar vinsælu sænsku hjómsveitar, Sven-Erik Magnusson, er nú látinn. Hann lék ásamt sveitinni í Austurbæjarbíói 14. mars 1967, fyrir fimmtíu árum semsagt. Þá var Sven Ingvars kynnt sem „vinsælasta hljómsveit Norðurlanda“.

 

 

Afar líklegt er að Sven Ingvars hafi í Austurbæjarbíói leikið þetta lag, eitt hið vinsælasta sem sveitin flutti, Jag ringer på fredag, Þetta hljómaði oft í útvarpinu, en upptakan er frá Noregi.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is