Laugardagur 30.4.2016 - 18:44 - Ummæli ()

Frímínútur árið 1929

Sonur minn er í Landakotsskóla svo ég hef gaman af þessari mynd sem sýnir börn að leik við Landakotsskóla árið 1929. Flest er breytt, en ég hef séð börn leika sér á svipaðan hátt á þessu svæði. Þau eru þó ekki í matrósafötum lengur eins og tveir drengir á myndinni.

Myndin er tekin í vesturátt, við horfum út að sjónum og það er lítið búið að byggja þar sem nú eru Hofsvallagata, Hávallagata, Sólvallagata og Ásvallagata, hvað þá á Melunum eða Gröndunum.

Hann er dálítið merkilegur þessi steinveggur á myndinni, með stóru hliði. Það virkar eins og innan hans sé kálgarður. Kannski kunna einhverjir lesendur skil á þessu mannvirki?

Lengra má sjá lágreist timburhús á stangli. Það er erfitt að átta sig á því hver þeirra standa lengur, en þarna er enn að finna eitt og eitt timburhús innan um byggðina.

 

Screen Shot 2016-04-30 at 18.52.26

 

Laugardagur 30.4.2016 - 13:13 - Ummæli ()

Engin epli fyrir tíma Davíðs

Þetta er svo skemmtilegt að það er eiginlega ekki annað en hægt að vekja sérstaka athygli á því.

Úr grein stjórnmálafræðiprófessors um ritstjóra og fyrrverandi forsætisráðherra í Morgunblaðinu í dag.

 

13124787_10154169710470439_5964723436165046687_n

 

Mjólkurbúðunum var reyndar lokað 1976, bannið við sölu áfengis á miðvikudögum var afnumið 1979, þá var Steingrímur Hermannsson dómsmálaráðherra og kynnti breytingar á opnunartíma vínveitingahúsa, sjónvarpið fór að senda út á fimmtudögum 1987 en bjórinn var leyfður 1989 – í stjórnartíð Steingríms Hermannssonar.

Þá var íslenska neyslusamfélagið löngu komið á fullt og landsmenn drógu hvergi af sér. 1991 voru það ekki bara epli, heldur voru menn farnir að borða kiwi og mangó að staðaldri.

Laugardagur 30.4.2016 - 08:38 - Ummæli ()

Lofgjörð um ritstjóra

Morgunblaðið er borið í hvert hús í dag. Maður nýtur þess semsagt með morgunkaffinu á laugardegi.

En Morgunblaðið verður stöðugt skrítnari fjölmiðill – má jafnvel stundum sjá skoplegar hliðar á því.

Í dag birtist í blaðinu risastór lofgjörð um sjálfan ritstjóra blaðsins. Hún er á fjórum blaðsíðum og skrifuð af helsta skósveini ristjórans. Það er hvergi sparað til, með fylgja stórar og glæsilegar litmyndir.

Hugsanlegt er að slík sjálfsupphafning ritstjóra sé einsdæmi í vestrænum fjölmiðlum.

Það voru uppi bollaleggingar um að Davíð Oddsson hefði í hyggju að bjóða sig fram til forseta. Þessi greinaskrif hefðu líklega talist gott innlegg í þá baráttu.

 

Screen Shot 2016-04-30 at 08.35.56Screen Shot 2016-04-30 at 08.36.32

Screen Shot 2016-04-30 at 08.36.50
Screen Shot 2016-04-30 at 08.37.12

 

Föstudagur 29.4.2016 - 16:55 - Ummæli ()

Síðasti valsinn – besta tónleikamynd allra tíma

Bíó Paradís sýnir á næstunni The Last Waltz, kvikmynd sem kemur vel til álita sem besta tónleikamynd allra tíma. Myndin er gerð af sjálfum Martin Scorsese árið 1976 og setti ný viðmið í því hvernig tónlistarflutningur var kvikmyndaður. Í því tilviki er nánast hægt að tala um fyrir og eftir The Last Waltz.

List Scorseses felst í því hvernig hann undirbyggir tónlistina, spennuna og stígandina í lögunum, með klippingunni. Annað eins hafði varla sést áður. Kvikmyndavélin missir ekki af neinu. Það virkar eins og hann sé alltaf á réttum stað á réttum tíma, hann nær svipbrigðunum, tilþrifunum í hljóðfæraleiknum og söngnum – ólíkt því sem var til dæmis í hinni frægu Woodstock heimildarmynd þar sem kvikmyndatakan var bæði ómarkviss og flöktandi.

Útkoman er undarlega skemmtileg – og eiginlega má segja að önnur eins tónleikamynd hafi ekki verði gerð síðan. Þetta er meistaraverkið í greininni, enda leikstjórinn náttúrlega einn helsti kvikmyndagerðarmaður sögunnar – og mikill unnandi tónlistar í þokkabót.

Scorsese var með sjö 35 millimetra kvikmyndavélar og á þeim voru meðal annarra meistarar eins og Michael Chapman, Laszlo Kovacs og Vilmos Zigismond. Hann teiknaði upp handrit upp á 300 blaðsíður. Hann einbeitti sér að tónlistarmönnunum, það sjást engar myndir af áhorfendum. Sjálfur sagði hann: „Hver þarf að sjá áhorfendurna eftir Woodstock?“

The Last Waltz var tekin á kveðjutónleikum hinnar sögufrægu hljómsveitar The Band í Winterland danshöllinni í San Fransisco 25. nóvember 1976. Meðlimir sveitarinnar voru þá búnir að vera á stanslausu hljómleikaferðalagi í mörg ár, þeir hljóma í viðtölum eins og gamlir og lífsreyndir menn – þótt í rauninni væru þeir kornungir ennþá.

Allir meðlimir The Band voru minnistæðir karakterar – þrír þeirra eru látnir – og þegar þarna var komið höfðu þeir haft gríðarleg áhrif með blöndu sinni af rokki og þjóðlegum stefjum, með textum sem oft rúmuðu furðu stórar frásagnir. Þetta hljómar mjög amerískt, eins og leit að amerískum rótum, en samt voru allir í hjómsveitinni frá Kanada utan einn.

Svo koma þarna líka fram stórstjörnur vinir þeirra, Joni Mitchell söng Coyote, lag sem er fullt af ólgandi kynferðisþrá. Bob Dylan var næstum hættur við að koma fram. Van Morrison mætti í mjög sérkennilegum samfestingi en tók salinn með trompi, gat varla hætt.  Ringo Starr var á fylleríi með Ron Wood og kom undir lokin. Emmylou Harris var glæsilegust með rödd eins og silfurfljót (hvernig sem það svo hjómar). Enginn vissi hvað Neil Diamond var að gera þarna, en Neil Young kynnti sig fyrir honum og sagðist heita Neil Sedaka.

Kvikmyndin skilar því hvað andrúmsloftið í tónleikasalnum var rafmagnað. Flutningurinn er mjög tilfinningaþrunginn, The Band spilar í síðasta skipti saman eins og það eigi lífið að leysa.

Hér eru tvö brot úr myndinni. Levon Helm syngur The Night They Drove Old Dixie Down.

 

 

Og þetta er uppáhaldið mitt, Stage Fright, sungið af Rick Danko. Ósvikið.

 

 

Föstudagur 29.4.2016 - 10:50 - Ummæli ()

Fjárgræðgin knýr þá áfram…

Jónas frá Hriflu var umdeildasti stjórnmálamaður Íslands á 20. öld. Hann átti þátt í að stofna bæði Alþýðuflokkinn og Framsóknarflokkinn – ef við teljum að Samfylkingin sé afsprengi Alþýðuflokksins má segja að báðir þessir flokkar séu í miklum vandræðum um þessar mundir.

Spillingarmál skekja Framsóknarflokkinn, en Samfylkingin er að fara að kjósa sér nýjan formann – en almennt áhuga- og stemmingsleysi virðist ríkja í kringum kosninguna.

Jónas var ekki mikið fyrir að skafa af hlutunum. Hér er brot úr grein eftir hann sem birtist í Skinfaxa, riti Ungmannafélaganna, árið 1913. Þá var Jónas ungur kennari við Kennaraskólann, en stjórnmálin snerust enn að miklu leyti um sjálfstæðismál – en við stofnun Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins hefst tíð stjórnmálabaráttu þar sem hagur almennings var í fyrrúmi.

Hugmynd Jónasar var að flokkarnir skyldu vinna saman, Alþýðuflokkurinn sem fulltrúi alþýðu bæjanna en Framsóknarflokkurinn sem fulltrúi sveitafólks. Höfuðandstæðingurinn var peningavaldið og stórgróðamenn.

 

Screen Shot 2016-04-29 at 10.59.34

Fimmtudagur 28.4.2016 - 20:20 - Ummæli ()

„Fæstir virðast hafa gert nokkuð rangt“

Við erum að horfa upp á uppgjör við hrunið númer 2. Nú beinist það að þeim sem dældu peningum frá Íslandi í aflandsfélög. Það var vitað að þetta hafi gerst, en Panamaskjölin sýna þetta atferli svart á hvítu. Við sjáum hvernig fjármagnseigendur kepptust við að koma peningum í skattaskjól á löngu tímabili og hvernig bankarnir reru ákaft undir. Og við sjáum líka dæmi þess að auðfólk sem varð algjörlega gjaldþrota hér heima, svo ofboðslega að ekki eru dæmi um annað eins, hefur komið stórfé undan og getur flutt það aftur til landsins á frábærum kjörum og notað það til fjárfestinga.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, skrifaði fyrir stuttu grein sem birtist í Kjarnanum. Það fór lítið fyrir greininni, enda voru hörð átök í stjórnmálunum daginn sem hún birtist. En þarna koma fram athyglisverð sjónarmið, Páll veltir fyrir sér vantrausti almennings á viðskipta- og atvinnulífinu. Hann telur að við forsvarsmenn viðskiptalífsins sé að sakast, því þeir hafi ekki verið afdráttarlausir í að fordæma þá afleitu viðskiptahætti sem tíðkuðust fyrir hrun.

Páll segir að alvarleg lögbrot hafi verið framin, til dæmis stórkostleg markaðsmisnotkun sem hafi eyðilagt trúna á markaðshagkerfið, en mest heyrist gagnrýni á dómstóla og ákæruvaldið frá atvinnulífinu:

Að mínu mati ber opin­ber umræða þess ­merki að almenn­ingi er ekki ljóst hvaða skoðun er ríkj­andi í atvinnu­líf­inu á þeim vafasömu starfs­háttum sem við­geng­ust fyrir hrun. Þar með hlýtur að ríkja vafi á því í huga fólks að atvinnu­lífið rýni mark­visst eigin starfs­hætti. Umræða um þá dóma sem fallið hafa í málum tengdum hrun­inu ein­kenn­ist af harðri gagn­rýn­i á ákæru­valdið og dóm­stóla af hálfu þeirra sem hafa verið sak­felld­ir. Fæst­ir, ef nokkrir, virð­ast telja sig hafa gert nokkuð rangt. Á meðan aðrir blanda sér­ ekki í umræð­una er hættan sú að litið verði á þessa sömu menn sem málsvara við­skipta­lífs­ins. Að mínu mati má færa sterk rök fyrir því að for­svars­menn í ís­lensku við­skipta­lífi eigi að láta sig þessa umræðu varða til þess að ekki ­leiki nokkur vafi á við­horfi meg­in­þorra atvinnu­lífs­ins á við­skipta­háttum í að­drag­anda hruns­ins.  Alvar­leg lög­brot voru fram­in.  Afleitir við­skipta­hættir kostuð­u gríð­ar­lega fjár­muni og mikla þján­ingu. Stór­kost­leg mark­aðs­mis­notkun átti sér­ ­stað. Trú á mark­aðs­hag­kerfið og hið frjálsa fram­tak hefur beðið hnekki. ­Starfs­um­hverfi atvinnu­lífs­ins hefur laskast af þessum sök­um. Mikið er í húfi. Þörf er á skýrum skila­boð­um.

 

Fimmtudagur 28.4.2016 - 11:44 - Ummæli ()

Trump ræðst á matarvenjur Kasich

Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum verða stöðugt fáránlegri. Donald Trump gerir atlögu að John Kasich vegna þess hvernig hann borðar.

Trump segist aldrei hafa séð mann neyta matar á jafn ógeðslegan hátt.

 

 

Þetta er árás Trumps á bandalag Cruz og Kasich – sem virkar raunar ekki betur en svo að Trump sigraði í öllum ríkjum sem var kosið í á þriðjudaginn.

Kasich hefur reyndar virkað skástur hjá Repúblikönunum, en kannski er eitthvað til í þessu með hann og matinn.

 

kasicheating

John Kasich, governor of Ohio and 2016 Republican presidential candidate, eats pasta at Mike's Deli during a campaign stop in the Bronx borough of New York, U.S., on Thursday, April 7, 2016. Kasich, the third Republican in the race, has only won his home state and was lagging well behind Trump and Cruz in Wisconsin polls. Photographer: John Taggart/Bloomberg via Getty Images

973460_1_0331-John-Kasich-pizza_standard

 

Það er kannski hægt að viðurkenna að þetta sé smáfyndið, á sinn ömurlega hátt – svona ef maður lítur framhjá því að þarna eru frambjóðendur til valdamesta embættis í heimi.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is