Fimmtudagur 8.10.2015 - 13:08 - Ummæli ()

Stjórnarskrárklúðrið og ábyrgð Árna Páls

Árni Páll Árnason er stjórnmálamaður sem á ekki sjö dagana sæla – og líklega eru dagar hans í formannsembætti Samfylkingarinnar brátt taldir.

Það er afskaplega óþægilegt fyrir hann að fá það í andlitið frá Jóhönnu Sigurðardóttur að hann hafi eyðilagt stjórnarskrármálið. Líklega koma í kjölfarið fram háværar kröfur um afsögn hans.

En kannski er rétt að skoða þetta aðeins nánar.

Þegar Árni Páll tekur þá afstöðu síðla vetrar 2013 að ekki sé hægt að klára stjórnarskrána á Alþingi er hann kannski bara að viðurkenna orðinn hlut.

Það var eiginlega ráðgáta hversu illa var haldið á stjórnarskrármálinu fram að því. Stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum til Alþingis í júlí 2011. Kosningin um tillögurnar fór ekki fram fyrr en í október 2012, 15 mánuðum síðar.

Þar var spurt hvort kjósendur vildu að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu „lagðar til grundvallar“ nýrri stjórnarskrá. Það er býsna opið orðalag. Málið átti semsagt eftir að fara inn á Alþingi.

Það gerðist ekki fyrr 2013 þegar stutt var til kosninga. Stjórnarskrármálið var í nefndum fram á vorið og þá gáfust menn upp. Það vakti reiði stjórnarskrársinna og nú er það semsagt Árni Páll sem fær að sitja uppi með skömmina.

Sé ferill málsins skoðaður er samt ekki hægt að verjast þeirri tilhugsun að fleiri beri ábyrgð á því að málið klúðraðist, þar á meðal Jóhanna Sigurðardóttir.

Náðarhögg stjórnarskrárinnar nýju var þó sennilega hæstaréttarúrskurðurinn sem ógilti stjórnlagaráðskosningarnar. Hugsanlega var þessi úrskurður vondur og vitlaus – margt bendir til þess – en það var samt Hæstiréttur sem kvað upp úr með þetta og eftir það var ferlið orðið mjög berskjaldað, það vantaði einfaldlega skriðþungann sem þurfti til að klára það – leikurinn var of auðveldur fyrir andstæðinga þess.

 

Fimmtudagur 8.10.2015 - 09:57 - Ummæli ()

Kjósendaflokkurinn

Ég er að lesa nýja sjálfsævisögu Árna Bergmann, blaðamanns og rithöfundar, sem nefnist Eitt á ég samt. Við fjöllum um hana í Kiljunni innan tíðar. Bókin er full af þekkingu og mannviti eins og Árna er von og vísa. Hann rekur meðal annars fjóra þræði í lífi sínu, jafnaðarstefnu, kristindóm, þjóðernishyggju og bókmenntatrú – sterka trú á gildi bókmenntanna sem hann upplifði bæði á Íslandi og í Rússlandi þar sem hann dvaldi lengi.

Kaflinn sem ég gríp niður í úr bókinni er þessu allsendis óskyldur, en þarna er býsna skörp lýsing á samtíma okkar frá manni sem lengi starfaði við blaðamennsku og stjórnmálaskýringar. Árni segir frá leit sem reyndist árangurslítil þar sem var reynt að pússa saman lýðræði og sósíalisma. Þegar máttinn dró úr henni tók við draumurinn um „alræði markaðarins“. Grípum niður í þrjár málsgreinar úr greiningu Árna á stjórnmálunum:

Torg hinna himnesku viðskipta:

Sá draumur yfirtók pólitíska hugsun, í ríkasta hluta heims að minnsta kosti, og fór langt með að sannfæra almenning um að eiginlega væri tíma stjórnmála lokið. Þau væru óþörf og stjórnmálamenn ættu að láta sem minnst á sér kræla, nema þá helst til að semja nokkrar einfaldar umferðarreglur um Torg hinna himnesku viðskipta. Allir vita hvernig það fór: engum datt í hug að fara eftir þessum slöppu umferðarreglum, þeir ríkustu urðu geysiríkir og voldugir, drógu heil þjóðfélög á asnaeyrum með falskri velmegun um stund, svo hrundi allt. Og þar erum við.

Tæknihyggjuútópía úr vonarbanka:

Almenningur er skrýtinn: hann kann ekki að reiðast til lengdar þeim sem peningum velta um heim allan og síðan í eigin vasa, miklu heldur reiðist hann stjórnmálamönnum fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir ósköpin með framsýni og því stranga eftirliti sem fyrir skömmu var talið óþörf frelsisskerðing. Kannski komast þeir til valda eftir hrunin miklu sem áður voru í stjórnarandstöðu, en frelsi þeirra til athafna er sorglega lítið, ráðleysi þeirra mikið, ekki síst vegna þess að margir hafa gleymt því að þeirra hlutverk í tilverunni er að halda lífi í þokkalega útfærðum hugmyndum um aðra kosti en þá sem hægrið nýja hafði dembt yfir þjóðirnar. Enn tekur við vonbrigðabylgja og enn fjölgar þeim sem vilja helst enga pólitík. Í vonabanka sækja menn helst þá tæknihyggjuútópíu að eina færa leiðin á okkar tíma sé bein aðkoma allra sem á tölvur pikka að öllum ákvörðunum.

Formæla andskotans pólitíkusunum:

Og „hinn almenni maður“ eins og Guðmundur jaki komst að orði, hann kemur helst ekki auga á það hvernig hann sjálfur stendur sig í stefnumótun. Stærsti flokkur landsins er ekki til, samt nefni ég hann og kalla Kjósendaflokkinn. Stuðningsmenn hans eiga það sameiginlegt að í hverjum þeirra rúmast andstæðar skoðanir á helstu stórmálum án þess að þeir geri sér sérstaka rellu út af því. Þeir telja brýnt að lækka skatta og álögur – en um leið vilja þeir auka opinber útgjöld til hvers merkilegs málaflokks fyrir sig (nema eins eða tveggja sem hver og einn hefur persónulega andúð á). Þeir vilja að einstaklingar beri ábyrgð á sjálfum sér – en finnst líka sjálfsagt að þeir flýi með rekstur sinn og skuldahala undir pilsfald ríkisins þegar á bjátar. Þeir vilja gjarnan bæði vernda óbyggðir landsins og virkja á hálendinu. Þessi mikli flokkur, Kjósendaflokkurinn, byggir á óttanum við að kjósa sér hlut, eiga sér sannfæringu sem eitthvað má kosta í fé og fyrirhöfn. Og fyrst dæmin geta ekki gengið upp hjá fylgismönnum hans formæla þeir andskotans pólitíkusunum sem hafa ekki getað höggvið á þann hnút.

 

Miðvikudagur 7.10.2015 - 20:44 - Ummæli ()

Tími klíkuráðninga ætti að vera liðinn

Það vakti nokkra undrun þegar greint var frá hinni nýju Stjórnstöð ferðamála að líka var tikynnt að ráðinn hefði verið forstjóri fyrir hana – án þess að staðan hafi verið auglýst. Það vakti svo ekki minni undrun þegar kom í ljós að nýi forstjórinn hefur enga reynslu af ferðaþjónustu.

Jú, hann er vissulega forstjóratýpa, sagður vera þungavigtarmaður, hefur unnið hjá  Actavis – en er það nóg? Eiginlega finnst manni það furðuleg hugmynd að ráða í slíkt starf mann sem þekkir ekki til fagsins – sem er bæði flókið og víðfemt – hefur unnið við að selja samheitalyf, og fá svo að heyra að reynsluleysið er jafnvel talið honum til tekna.

Stundin greinir frá því í dag nýi forstjórinn, Hörður Þórhallsson, sé fulltrúi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn verður síðar í mánuðinum og birtir mynd af honum með flokksbroddum. Getur verið að menn séu ennþá í því gamla og vonda fari að láta pólitísk tengsl hafa áhrif á ráðningar af þessu tagi? Og ef hann er slíkur þungavigtarmaður, hefði þá ekki verið meira traustvekjandi fyrir hann og aðra ef starfið hefði verið auglýst?

Það vekur líka athygli að ráðgjafavinnan fyrir stofnun Stjórnstöðvar ferðamála er unnin af fyrirtæki sem er í eigu Guðfinnu S. Bjarnadóttur, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Komið hefur fram að Guðfinna hefur þegið stórar fjárhæðir fyrir þetta verkefni.

Þetta virkar eins og frekar óburðug byrjun. Maður hefði satt að segja haldið að tími klíkuráðninga ætti að vera liðinn á Íslandi.

 

 

 

Miðvikudagur 7.10.2015 - 14:00 - Ummæli ()

Hundadagar Einars Más

Í nýrri bók sem nefnist Hundadagar fjallar Einar Már Guðmundsson um Jörund hundadagakonung. Hann fer reyndar um víðan völl í bókinni og skrifar líka um Jón Steingrímsson eldklerk og fræðimanninn Finn Magnússon.

En Jörundur er aðalpersónan – aldrei hefur maður skynjað jafn glöggt hvað þetta er ótrúlegur náungi og í bók Einars. Hann er náttúrlega bullandi ofvirkur, eins og það er kallað í dag, en hann er líka barn samtíðar sinnar, Napóleonstímans, þegar ruddu sér til rúm miklar frjálsræðishugsjónir. Þetta er tími sinfónía Beethovens og söguhetja Stendahls.

Áður en Jörundur kom til Íslands hafði hann kornungur maður farið um Kyrrahafið, komið til Tahiti og siglt fyrir hið ógnarlega Horn. Og eftir að hann var á Íslandi stundaði hann njósnir fyrir Breta í Evrópu, fór í undarlegan njósnaleiðangur um Evrópu. Endaði svo ævina lengst suður í Tasmaníu þangað sem hann hafði verið fluttur sem fangi.

Jörundur er snjall og framtakssamur, yfir honum er ákveðinn hetjuljómi, en hann er líka ótrúlega laginn við að koma sér í vandræði.

Einar Már miðlar þessu efni af mikilli frásagnagleði, fer vítt og breitt og er skemmtilega útúrdúrasamur – við fáum að heyra meira um það í Kiljunni í sjónvarpinu klukkan 20.45 í kvöld.

 

Einar-mar-gudmundsson-1

Miðvikudagur 7.10.2015 - 11:00 - Ummæli ()

Fimmtugur dr. Gunni

Fimmtugir menn teljast kornungir í dag – og það er svosem ekki ástæða til að skrifa langar mærðargreinar um þá. Að minnsta kosti ekki eins og Þjóðviljinn á sínum tíma þegar fimmtugsafmæli Einars Olgeirssonar var forsíðuuppsláttur. Svoleiðis gera menn ekki lengur, persónudýrkunin er ekki alveg svona öfgakennd.

En Gunnar Lárus Hjálmarsson á fimmtíu ára afmæli í dag – það er semsagt hann dr. Gunni.

Doktorsnafnbótina tók hann sér reyndar sjálfur, hún hefur ekki verið viðurkennd af neinni háskólastofnun, en á mörgum sviðum er Gunni ígildi doktors.

Hann var í hrikalega skemmtilegri pönkhljómsveit sem nefndist Svarthvítur draumur. Hann gerði eina bestu rokkplötu Íslands með hljómsveitinni Unun. Hann hefur líka gert frábærar barnaplötur með dálítið óhefluðum húmor sem krakkar kunna vel að meta.

Gunni er feikilega góður stílisti – meinfyndinn og hugmyndaríkur eins og sjá má á bloggi hans. Hann er helsti skrásetjari íslenskrar tónlistarsögu og hefur unnið ómetanlegt starf við söfnun heimilda, upptaka og myndefnis. Popppunktur, spurningaþættir hans um tónlist voru dágóð skemmtun, þeir voru fyrst á Skjá einum og síðan á RÚV.

Nú sýnir sjónvarpið heimildarþáttaröð eftir Gunna og félaga hans sem fjallar um popp- og rokksögu Íslands. Við höfum fengið að sjá tvo þætti og þeir lofa afar góðu. Þeir byggja á bókinni Stuð vors lands. Ég spái Edduverðlaunum.

Ég man fyrst eftir Gunna þegar hann var dálítið sérkennilegur bankagjaldkeri sem fékkst við pönk, ég næ ekki alveg aftur í skiptistöðina í Kópavogi þar sem þetta byrjaði víst allt. Við þekkjumst ekki sérstaklega vel – en ég ber ómælda virðingu fyrir honum.

Hér eru svo Lög unga fólksins af plötunni Æ með Unun, þarna eru dr. Gunni, Þór Eldon og Heiða. Samkomulagið í hljómsveitinni var víst ekki alltaf gott, meikið tókst ekki, en þetta stendur fyrir sínu.

 

 

Miðvikudagur 7.10.2015 - 07:53 - Ummæli ()

Er Stjórnstöð ferðamála svarið við mikilli fjölgun ferðamanna?

Satt að segja er maður dálítið tvístígandi gagnvart hinni nýju Stjórnstöð ferðamála. Vissulega er rík þörf á stefnumótun innan ferðaþjónustunnar – hún hefur eiginlega ekki verið til fram að þessu. Í þessari stofnun mætast ríki, sveitarfélög og hagsmunaaðilar, en í stjórninni sitja hvorki meira né minna en fjórir ráðherrar, fjórir hagsmunagæslumenn og tveir frá sveitarfélögunum.

Þetta virkar eins og dálítið skringilegt samkrull – og forstjóri þessa batterís er ráðinn án þess að starfið hafi verið auglýst. Það hefur líka sýnt sig, eins og varðandi hinn misheppnaða Náttúrupassa, að það getur verið varasamt að láta hagsmunaöflin ráða of miklu.

En það á væntanlega eftir að skýrast hverjar valdheimildir þessarar stofnunar verða og hvernig fjárveitingum verður háttað.

Þó er ekki hægt að efast um knýjandi þörf á að bregðast við ferðamannastraumnum. Ferðavefurinn turisti.is birtir tölur um umsvif á Keflavíkurflugvelli í september en þar kemur fram að ferðirnar eru helmingi fleiri en í hittifyrra. Það vekur líka athygli að hlutur erlendra flugfélaga eykst stöðugt.

Skúli Mogensen, forstjóri Wow, hefur verið mjög djarfhuga í yfirlýsingum um nauðsyn uppbyggingar vegna aukinnar ferðamennsku. Sumum finnst kannski vel í lagt hjá Skúla, en þegar betur er að gáð virðist flest vera rétt og sjálfsagt hjá honum. Það þarf líklega að byggja hraðar upp á Keflavíkurflugvelli og vegakerfið er allsendis ófullnægjandi. Skúli leggur til að ráðist verði í að tvöfalda hringveginn sem er löngu tímabært. Þar æða áfram á þröngum vegum stórir vöruflutningabílar innan um túrista í bíldósum.

Það er líka rétt hjá Skúla að aldrei hefur vantað vilja eða fé til að hlaða undir stóriðju á Íslandi, en þegar ferðaþjónusta er annars vegar ganga hlutirnir býsna hægt.

 

stjornstod

Fimm ráðherrar voru mættir þegar tilkynnt var um Stjórnstöð ferðamála. Vonandi ber það vott um eindreginn vilja til að gera betur.

Þriðjudagur 6.10.2015 - 14:53 - Ummæli ()

Vel í lagt að hafa tvær umferðir í forsetakjöri

Ef forseti Íslands er bara táknrænn, þá er satt að segja ansi vel í lagt að kjósa hann í tveimur umferðum eins og Björt framtíð leggur til nýju frumvarpi um breytingar á stjórnarskrá. Það myndi þýða tvöfaldar kosningar, líklega með svona hálfum mánuði á milli.

Þetta fyrirkomulag er til dæmis notað í Frakklandi, en það verður að segjast eins og er, þar er ansi mikið meira í húfi en í íslenskum forsetakosningum. Íslendingar hafa alltaf gert meira úr forsetaembættinu en tilefni er til miðað við völdin.

Reyndar má efast um að Vigdís Finnbogadóttir hefði nokkurn tíma orðið forseti ef þetta hefðu verið lög þegar hún var kjörin 1980 með aðeins 33 prósentum atkvæða.

Það er náttúrlega möguleiki að hægt sé að verða forseti með enn minna fylgi ef nógu margir bjóða sig fram.

Ólafur Ragnar Grímsson fékk 41 prósent árið 1996, en hins vegar voru aðeins tveir í framboði 1968 og þá fékk Kristján Eldjárn ríflegan meirihluta, 67 prósent.

En við vitum í raun ekki hver verða völd forsetans framvegis, Ólafur Ragnar hefur vissulega virkjað málskotsréttinn, eins og það hefur verið orðað. En stjórnarskrárbreytingar gætu í raun gert hann úreltan, þ.e. ef sett eru inn ákvæði um að viss prósenta landsmanna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskriftum.

Þess má svo geta að í tillögum Stjórnlagaráðs var gert ráð fyrir um að kjósendur fengu að raða upp frambjóðendum í forsetakosningum í forgangsröð.

 

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is