Miðvikudagur 1.10.2014 - 00:01 - Ummæli ()

Rauðasandur, Grímur Thomsen, Mamie og elliglöpin

Kiljan sem verður sýnd á Rúv í kvöld er afar fjölbreytt.

Við fjöllum um Grím Thomsen í tilefni af útkomu bókar um hann eftir Kristján Jóhann Jónsson. Grímur hefur á sér það orð að hafa verið heldur grályndur, en Kristján telur hann hafa verið meiri frjálsræðismann en sagan segir. Á unga aldri skrifaði Grímur til dæmis ritgerð um skáldið Byron.

Við förum í göngutúr á Skólavörðuholti með Úlfari Þormóðssyni. Úlfar er miðbæjarmaður – bókin Uggur eftir hann gerist mikið á göngu um Miðbæinn.

Sally Magnusdottir segir frá bókinni Handan minninganna, en þar lýsir hún móður sinni, Mamie Baird Magnusson, og hvernig hún varð elliglöpum að bráð.

Kristín Svava Tómasdóttir segir frá uppáhaldsbókum sínum, en í dagskrárliðnum Bækur og staðir er farið á Rauðasand.

Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær bækur: Þegar dúfurnar hurfu eftir Sofi Oksanen og Náðarstund eftir Hannah Kent.

 

Islande_plage_Raudisandur

Í dagskrárliðnum Bækur og staðir fjöllum við um Rauðasand, þar gerist Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson.

Þriðjudagur 30.9.2014 - 15:14 - Ummæli ()

Verður áfengisfrumvarpinu hleypt áfram?

Þingskjal númer 17 á yfirstandandi þingi fjallar um að heimila skuli sölu áfengis í matvörubúðum. Þetta er mál sem fékk talsvert umtal áður en það var lagt fram. Aðalflutningsmaðurinn er hinn ungi þingmaður Vilhjálmur Árnason úr Sjálfstæðisflokki, en meðflutningsmenn eru úr fjórum flokkum, Sjálfstæðisflokki, Bjartri framtíð, Framsóknarflokki og Pírötum. Þeir eru:

Björt Ólafsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Willum Þór Þórsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Birgir Ármannsson, Pétur H. Blöndal, Jón Gunnarsson,
Brynhildur S. Björnsdóttir, Karl Garðarsson, Haraldur Einarsson.

Margt bendir til þess að frumvarpið verði samþykkt ef það kemur til kasta þingsins. Líklega yrðu Vinstri græn eini flokkurinn sem væri alfarið á móti. Sjálfstæðisflokkurinn yrði sennilega allur með, sem og Píratar, hluti af Framsókn og Bjartri framtíð og einhverjir úr Samfylkingu.

En svo er spurning hvort ríkisstjórni kæri sig um að efna til svo róttækrar og umdeildrar breytingar í vímuefnamálum? Ríkiseinkasala á Víni er í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Þessar þjóðir hafa lagt mikla áherslu á að halda þessu fyrirkomulagi í viðskiptum sínum við Evrópusambandið.

Ein leiðin til að þetta verði ekki er einfaldlega sú að hleypa málinu ekki á dagskrá þingsins eða tefja það í nefndum. Það væri svosem ekkert einsdæmi, því þingmannamál daga einatt uppi.

 

Þriðjudagur 30.9.2014 - 11:23 - Ummæli ()

Ráðalaust ríkisvald – meðan heilbrigðiskerfið hrynur

Læknaskorturinn hefur verið að magnast á Íslandi mörg undanfarin ár. Það er náttúrlega erfið staða að vera láglaunaland við hliðina á löndum þar sem er meira ríkidæmi og laun miklu hærri.

Það er vandséð hvað hægt er að gera. Nú er yfirvofandi verkfall skurðlækna og mikill fjöldi unglækna lýsir því yfir að hann ætli ekki að snúa aftur heim úr framhaldsnámi. Ekki er hægt að skylda þá til þess.

En undireins og farið verður að hækka laun lækna hressilega, mun koma upp sú krafa að aðrar stéttir fá líka leiðréttingu launa sinna. Ófriður magnast upp á vinnumarkaði – verðbólga fer í gang og verðtryggð lán hækka.

Nú ber reyndar svo við að bæði heilbrigðisráðherrann og forstjóri Landspítalans segjast skilja kröfur lækna – sem formaður félags skurðlækna segir að séu nauðvörn fyrir heilbrigðiskerfið á Íslandi.

En einhvern veginn virkar það eins og ríkisvaldið sé alveg ráðalaust gagnvart þessu – og telji sig eiginlega ekki geta keppt um þetta eftirsótta vinnuafl lengur.

Það er í raun ekki hægt að kenna einni ríkisstjórn um þetta fremur en annarri. Við erum í slæmu ferli sem hefur staðið yfir í mörg ár. Í raun þyrfti einhvers konar þjóðarsátt til að bjarga heilbrigðiskerfinu, en ekkert slíkt virðist á döfinni. Frekar eins og hver höndin sé upp á móti annarri, sumir telja að einkavæðing sé allra meina bót, aðrir vilja meiri skattheimtu. En við skulum muna að með lélegu og úrsérgengnu heilbrigðiskerfi getur Ísland orðið óbyggilegt fyrir stóra hópa fólks.

 

Mánudagur 29.9.2014 - 21:48 - Ummæli ()

Að fá eitthvað fyrir sinn snúð

Fólk sem starfar lengi í stjórnmálaflokkum er svolítið öðruvísi en við hin sem höfum varla komið inn fyrir dyr í flokkunum.

Því finnst að þeir sem hafa verið í flokknum eigi að fá eitthvað fyrir sinn snúð – einhverja umbun fyrir ómakið.

Hvort sem þeir verðskulda það sérstaklega eða ekki. Á ensku er þetta kallað a sense of entitlement. Ótal alvöru verkefni geta blasað við (til dæmis heilbrigðisþjónusta sem er að hrynja), en stjórnmálaflokkarnir gleyma ekki sínum.

Í velflestum starfsgreinum eiga menn ekki sérstaklega von á neinni slíkri umbun.

Þannig er Geir H. Haarde nú gerður að sendiherra í Washington. Hann er settur beint í toppdjobbið í utanríkisþjónustunni.

Erfitt er að sjá að neitt sérstakt tilefni sé til þessa – nema það sem stendur hér fyrir ofan, hann hefur verið í stjórnmálaflokki og þarf að fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Geir getur sjálfsagt orðið ágætis sendiherra, en fyrir þá sem horfa á utanífrá virkar þetta svo innilega tilgangslaust.

Mánudagur 29.9.2014 - 11:46 - Ummæli ()

Þáttur 6 – Winnipeg, menningin og deilurnar

Sjötti þáttur Vesturfara var sýndur í gærkvöldi. Hann má sjá hér á vef Ríkisútvarpsins.

Þátturinn fjallar um líf íslensku innflytjendanna í Winnipeg, þar var um tíma stærsta þéttbýli Íslendinga í heiminum.

Menningarlífið var fjörugt, en Íslendingarnir stóðu líka í deilum um aðskiljanleg mál. Þrasgirni landans er semsagt ekki ný.

Um þetta orti vísnaskáldið góðkunna Káinn, en hann bjó í Vesturheimi.

Þetta er ekki þjóðrækni
og þaðan af síður guðrækni
heldur íslensk heiftrækni
og helvítis bölvuð langrækni.

Þáttinn má sjá með því að smella hér.

 

songkona

Meðal efnis í 6. þætti Vesturfara var mögnuð túlkun kanadísk/íslensku söngkönunnar Christine Antenbring á hinu vinsæla söngljóði Draumalandinu – sem einmitt fjallar um heimþrá og land sem birtist í hillingum, líkt og Ísland í hugum margra Vestur-Íslendinga.

Mánudagur 29.9.2014 - 10:49 - Ummæli ()

Sofi Oksanen og örlög Eistlands

Magnað er að lesa skáldsögu eftir Sofi Oksanen sem er nýkomin út undir íslenska heitinu Þegar dúfurnar hurfu.

Sofi Oksanen er höfundur hinnar víðlesnu bókar Hreinsun, hún er hálf eistnesk – líkt og Hreinsun fjallar nýja bóki um fólk frá Eistlandi.

Þarna er sagt frá atburðum sem ekki mega gleymast – en hafa þó lengi marað í hálfu kafi gleymskunnar.

Fjandsamlegur her réðst þrívegis inn í Eistland í heimsstyrjöldinni.

Fyrst voru það Sovétmenn sem hertóku landið 1940, fóru um með morðum, ofbeldi og handtökum – sendu mikinn fjölda manns til Síberíu.

Svo voru það Þjóðverjar sem hertóku landið 1941, ráku Sovétmenn burt, og fóru um með morðum, ofbeldi og handtökum. Fyrst fögnuðu þó margir Eistar Þjóðverjum sem frelsurum, frá Rauða hernum og lögreglusveitum NKVD.

1944 kom önnur innrás, þá voru það Sovétmenn sem ráku Þjóðverja á brott. Eistum fannst það ekkert sérstakt fagnaðarefni, þeir voru milli steins og sleggju. Enda fóru Sovétmenn um með morðum, ofbeldi og handtöku, og aftur var fjöldi manns sendur til Síberíu.

Um þetta fjallar Sofi Oksanen í skáldsögu sinni. Aðalpersónan er maður sem nær að fljóta alltaf ofan á, hann starfar fyrir Rússa, svo Þjóðverja og svo aftur Rússa – ekki síst við að svíkja gamla félaga sína og vopnabræður.

Í bókinni eru Rússarnir og þýsku nasistarnir lagðir fullkomlega að jöfnu. Báðum fylgir skelfilegt ofbeldi og spilling hugarfarsins.

sofi

Sunnudagur 28.9.2014 - 11:45 - Ummæli ()

Með Fjallkonum í kaffiboði hjá Jóhönnu Wilson

Í sjötta þætti Vesturfara förum við til borgarinnar Winnipeg. Þar var blómlegt samfélag Íslendinga með blaða- og bókaútgáfu, alls kyns verslunum, félögum og trúarhópum – en líka miklum og þrálátum deilum um ýmsa hluti.

Við segjum frá lífi Íslendinganna í svokölluðum Hreysabæ og í hverfinu Point Douglas. Meðal annars eru nefnd til sögunnar rithöfundurinn Laura Goodman Salversen sem náði miklum vinsældum og meistaranjósnarinn William Stevenson, en hann getur gert tilkall til að vera áhrifamesti Íslendingur allra tíma.

Við njótum leiðsagnar Stefáns Jónassonar, sem er prestur í söfnuði Únítara, og förum í kaffiboð til Jóhönnu Wilson, en segja má að hún sé eins konar doyenne í samfélagi Íslendinga í Winnipeg – hún hefur semsagt náð háum aldri og nýtur mikillar virðingar. Afi hennar var í fyrsta hópnum sem kom til nýja Íslands, en faðir hennar barðist í fyrri heimstyrjöld.

Í kaffiboðinu fáum við íslenskar veitingar og hittum margar Fjallkonur.

johanna 2

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is