Föstudagur 21.11.2014 - 23:48 - Ummæli ()

Við þjóðina að sakast?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skriplar frekar illa á skötu í viðbrögðum sínum við afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Af frétt á mbl.is má helst ráða að þetta sé allt þjóðinni að kenna – „þjóðin“ læri af lekamálinu segir í fyrirsögn.

Á þessum tímapunkti hefur Sigmundur mestar áhyggjur af þjóðfélagsumræðunni.

Það má vel velta henni fyrir sér, en á þessum tíma upplifa fæstir stjórnmálamenn sem fórnarlömb heldur fremur sem gerendur.

Og hugsa að stjórnmálamennirnir þurfi kannski að læra sitthvað um meðferð valdsins af þessu máli. Hefði Sigmundur kannski getað sagt eitthvað í þá veru – eða hvenær er tími til að sýna smá auðmýkt?

Föstudagur 21.11.2014 - 21:17 - Ummæli ()

Er Ragnheiður ekki augljós kostur?

Bjarni Benediktsson segir að ekki sé „úrslitaatriði“ að eftirmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sé kona.

Það er nú svo.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn setur karl í ráðherraembættið verða kynjahlutföllin í ráðherraliði flokksins 4 á móti 1.

Og í ríkisstjórninni verður staðan 7 á móti 2.

Það þykir varla mjög gott á þessum jafnréttissinnuðu tímum.

Formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins er Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Hún hefur verið þingmaður síðan 2007, var áður bæjarstjóri í Mosfellsbæ. Hún er vinsæl og sat í öðru sæti á lísta Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í síðustu kosningum.

Hvað gæti verið því til fyrirstöðu að hún verði ráðherra?

4ae4bbc9f4-381x230_o

 

Föstudagur 21.11.2014 - 20:37 - Ummæli ()

Ekki svart og ekki hvítt

Það er algengt í stjórnmálum á Íslandi að menn séu  annað hvort alveg vondir eða alveg góðir. Hlutirnir eru annað hvort svartir eða hvítir.

Hanna Birna Kristjánsdóttir segir af sér ráðherraembætti. Yfirlýsingin sem hún gefur vegna afsagnarinnar er ekki góð, hún reynir enn að kenna öðrum um. Staðreyndin er sú að hún getur aðallega kennt sjálfri sér um og dómgreindarbresti sínum í máli sem hefði aldrei þurft að verða neitt neitt.

En það er ekki þar með sagt að Hanna Birna sé alslæm sem stjórnmálamaður.

Gísli Marteinn Baldursson vekur athygli á því að Hanna Birna hafi verið góður „bandamaður Reykjavíkur í ráðherrastóli“.

Vegna þessa dynja skammir yfir Gísla – hlutirnir eru annað hvort alvondir eða algóðir. En þetta er hárrétt hjá Gísla. Hanna Birna hefur ekki ljáð máls á þeirri fásinnu sem komin er upp á Alþingi að taka skuli skipulagsvaldið af Reykjavík. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig nýr innanríkisráðherra höndlar það.

Og svo eru það innflytjendamálin. Þar er ljóst að Hanna Birna vildi gera betur en forveri hennar, Ögmundur Jónasson. Ögmundur kemur úr flokki sem þykist vera mjög vinveittur innflytjendum. Samt er staðreyndin að á ráðherraferli Ögmundar varð afar lítið úr umbótum í málefnum innflytjenda og hælisleitenda.

Hanna Birna skipaði hins vegar nefnd til að vinna úr umbótum í útlendingamálum. Formaður nefndarinnar er stjórnarandstæðingur, Óttarr Proppé úr úr Bjartri framtíð. Svandís Svavarsdóttir situr líka í nefndinni, Össur Skarphéðinsson, Birgitta Jónsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir. Frumvarp frá nefndinni á að koma fram í vetur.

Ráðuneytið gaf líka út reglugerð um flýtimeðferð hælisumsókna nú í haust, það markmið hefur líka verið sett að stytta málsmeðferðartíma í hælisleitendamálum í 90 daga. Valinkunnur sómamaður, Hjörtur Bragi Sverrisson, fyrrverandi yfirmaður mannréttindamála hjá ÖSE í Kosovo, hefur verið skipaður nýrrar kærunefndar útlendingamála frá 1. janúar næstkomandi.

Nú eru sjálfsagt einhverjir sem munu upplifa reiðitilfinnngu þegar þeir lesa þessa grein. En þarna er ráðherra sem er að reyna að standa sig í stykkinu. Þeim mun sorglegra er að Hanna Birna skuli falla með þessum hætti – og varla sjá neitt athugavert við framgöngu sína þegar hún hættir. Þar er hún á valdi þess sem Grikkir kölluðu hubris.

Annars er smá lærdómur þarna fyrir ráðherra, nokkuð praktískur: Ekki ráða töskubera og stólaraðara úr flokknum sem aðstoðarmenn. Ekki jámenn, skotgrafafólk, ekki heldur skoðanasystkin, heldur fólk sem getur lagt eitthvað gott af mörkum, fólk sem getur bætt ráðuneytið og hjálpað ráðherranum að komast lengra og hærra.

f9836261a3-380x230_o

Föstudagur 21.11.2014 - 14:44 - Ummæli ()

Afsögn Hönnu Birnu

Fjölmiðlar skýra frá því að Hanna Birna Kristjánsdóttir ætli að segja af sér sem innanríkisráðherra í dag – ári eftir að lekamálið kom fyrst upp. Það er þá endirinn á sorgarsögu hennar í ráðherraembætti.

Málið sem fellir hana er eiginlega kennslubókardæmi um hvernig vond og vitlaus viðbrögð geta gert smámál að svo stóru máli að það felli ráðherra – eins óvenjulegt og það er nú á Íslandi.

Til hvers var ráðuneytið yfirleitt að skipta sér af máli Tony Omos – var það til að mæta fáeinum mótmælendum sem von var á fyrir utan innanríkisráðuneytið fyrir réttu ári síðan?

Þetta er dæmi um míkróstjórnun eins og hún verður verst. Og hvers vegna var sannleikurinn ekki sagður þegar upp komst að lekinn var frá ráðuneytinu? Hvers vegna var sett í gang málamyndarannsókn innanhúss? Hvaða dómgreindarskortur réði því að ráðherrann var sífellt að amast við lögreglurannsókn?

Mótsagnirnar eru svo margar og ósannsöglin hefur verið svo margháttuð að margir trúa ekki öðru en að Hanna Birna hafi vitað af málinu frá fyrstu stund. Dapurlegur leikþáttur Gísla Freys Valdórssonar breytir engu þar um. Það blasti við að einlægni hans var uppgerð.

Eins og segir – það er  hægt að nota þetta sem kennsluefni í stjórnunar og pr-fræðum, um það hvernig á ekki að gera.

Það sem er ekki síst sorglegt við þetta er að Hanna Birna lofaði góðu sem ráðherra. Manni sýndist hún vera einlæg í því að vilja bæta meðferðina á málum hælisleitenda. Forveri hennar, Ögmundur Jónasson, gerði ekki mikið í því vegna sífellds pólitísks ófriðar. Því voru vonir bundnar við Hönnu. Hugsanlega hlaut hún vont pólitískt uppeldi sem fór að segja illa til sín – bak við hana glittir í heldur óráðvanda menn.

Hugmyndin er að ráðherrar skuldi helst engum svör, að ráðuneyti séu einhvers konar lén sem stjórnmálamenn fái afhent til varðveislu. „Ég á þetta, ég má þetta“, er viðhorfið.

Loks þekkti Hanna Birna sinn vitjunartíma, seint og um síðir. Hefði hún brugðist við fyrr, hefði hún getað bjargað miklu meira af stjórnmálaferli sínum. Hún hefði jafnvel getað orðið ráðherra aftur. Nú er líklegt að hún sitji ekki lengi sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Það eru innan við tvö ár síðan að talið var líklegt að hún yrði formaður flokksins – gæti velt Bjarna Benediktssyni og stóraukið fylgið.

Föstudagur 21.11.2014 - 08:17 - Ummæli ()

Stefnir í miklar deilur

Það verður seint sagt að nýs frumvarps um stjórn fiskveiða sé beðið með óþreyju, frekar að maður skynji kvíða gagnvart því.

Líklegt er að frumvarpið verði uppspretta mikilla deilna.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur einsetti sér að breyta fiskveiðistjórnuninni, en mistókst það hrapallega. Samfylkingin og Vinstri græn voru ekki sammála og stjórnin hafði einfaldlega ekki pólitískan styrk til þessa.

Nú eru komir til valda eindregnustu kvótasinnar landsins og það er stefnt í allt aðra átt. Kvótahöfum skulu tryggð yfirráð yfir auðlindinni til langs tíma – og veiðigjöld skulu lækkuð. Þetta eru meginlínurnar.

Hætt er við að samfélagið muni loga þegar þetta verður kynnt nú innan tíðar. Ekki hjálpar þá að við lifum tíma þegar stór útgerðarfélög skila ótrúlegum hagnaði til eigenda sinna.

Fimmtudagur 20.11.2014 - 23:17 - Ummæli ()

Fræðsla um sorgarviðbrögð og kynlíf

Kári kom heim úr skólanum í dag og kvartaði undan því að dagurinn hefði verið ótrúlega erfiður.

Fyrst var fræðsla um sorg og sorgarviðbrögð.

Síðan var kynfræðsla. Hann sagði að hún hefði verið mjög nákvæm og hreinskilin. Ekkert dregið undan.

Óþarflega svo – bekkurinn var í flisskasti.

Þegar hann kom heim sagðist hann vilja horfa á mynd um sætar mörgæsir.

Ég held hann hafi átt við Magga mörgæs, ekki myndirnar um mök mörgæsa og sela sem hafa birst á veraldarvefnum undanfarið.

 

PinguQuarrelsWithHisMother2

Við þetta rifjaðist upp skólaganga mín.

Það datt engum í hug að kenna okkur sorgarviðbrögð, en hvað varðar kynfræðsluna þá var hún á blaðsíðu 82-84 í heilsufræðinni. Öll börn vissu hvað var átt við þegar þetta blaðsíðutal var nefnt. Alkunna var að margir kennarar slepptu þessum síðum.

Þegar ég var í tólf ára bekk í Melaskóla beið hópurinn í ofvæni eftir því hvort kennarinn okkar myndi fara í þessar síður. Spenningurinn magnaðist eftir því sem nær þeim dró – en, vonbrigðin voru nokkur, reyndar blandin dálitlum létti, þegar kennarinn hljóp yfir þessar frægu blaðsíður.

Lét eins og þær væru ekki til.

Ég þekkti reyndar dæmi um börn sem var svo ofboðið að þau heftu síðurnar aftur eða límdu þær saman – nema foreldrarnir hafi gert það.

Og það þrátt fyrir að ekki mætti skemma bækurnar sem við fengum afhentar frá Ríksútgáfu námsbóka.

Maður varð semsagt að hafa önnur ráð með að fræðast um kynlífið. Og líklega lærði maður aldrei almennilega.

 

 

Fimmtudagur 20.11.2014 - 10:10 - Ummæli ()

Bankamenn hafa tilhneigingu til að ljúga ef þeir græða á því

Ný rannsókn sem sagt er frá í stórblaðinu Financial Times í dag sýnir að bankamenn hafa tilhneigingu til að ljúga ef það veitir þeim fjárhagslegan ábata.

Þetta er niðurstaða hóps vísindamanna við háskólann í Zürich í Sviss. Tvö hundruð bankamenn voru rannsakaðir.

Niðurstaðan er sú að ríkjandi viðhorf innan bankageirans veikja og grafa undan heiðarleika – átaks sé þörf til að endurvekja heiðarleg gildi.

Eitt af því sem er lagt til er að bankamenn sverji eið, svipaðan Hippókratesareiði lækna, sem myndi láta þá hugleiða afleiðingar gjörða sinna fyrir samfélagið allt en ekki bara fyrir skammtíma ávinning.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is