Mánudagur 29.05.2017 - 00:41 - Ummæli ()

Merkel með varann á gagnvart Trump

Það er tímanna tákn þegar kanslari Þýskalands lýsir því yfir að Evrópa geti ekki lengur treyst á Bandaríkin. Þetta segir Angela Merkel, virtasti þjóðarleiðtogi í heimi sem er búin að sitja á valdastóli í tólf ár og bætir líklega við öðrum fjórum eftir kosningar í haust. Aðrir heimsleiðtogar eru nýgræðingar miðað við hana. En hún er svo skekin eftir fundinn með Donald Trump að hún segir að undanfarna daga hafi hún upplifað að Evrópuríki verði að taka örlögin í eigin hendur. Umræðurnar hafi verið svo erfðar og ófullnægjandi.

Trump fer í flæmingi undan Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál. Og ein krafa hans er að bandalagsríkin í Nató eyði tveimur prósentum af landsframleiðslu sinni í hernað og varnir. Bandaríkin eru náttúrlega eitt hervæddasta samfélag í gervallri sögu mannkyns svo væntanlega munu margir vera hikandi að feta þá braut.

Gunnar Smári Egilsson er með ábendingu um hvað þetta kynni að þýða fyrir okkur Íslendinga.

Ég missti af viðbrögðum Bjarna Ben við kröfu Trump um að Nató-þjóðir leggi 2% af landsframleiðslunni til Atlandshafsbandalagsins; það gera um 50 milljarða fyrir okkur árlega, 150 þús. kr. á hvern íbúa, 600 þús. kr. á fjögurra manna fjölskyldu. Sagði Bjarni honum ekki örugglega á temmilega kurteisan máta að gleyma þessu, það mætti draga verulega úr kostnaði við þetta félag með því að láta af stríðsrekstri?

 

Sunnudagur 28.05.2017 - 23:48 - Ummæli ()

Ætti David Lynch að gera mynd um Geirfinnsmálið?

David Lynch snýr aftur með nýja seríu af Twin Peaks, sem er furðuleg og skemmtileg, í hans anda. Það er rifjað upp að Lynch vildi bjarga Íslendingum eftir hrun eins og kom fram í viðtali í Silfri Egils á sínum tíma. Lynch stundar innhverfa íhugun – það er ekki ofmælt hvað slíkt er gott fyrir sálina á þessum ruglingslegu tímum.

Viðar Víkingsson kvikmyndagerðarmaður hefur verið að horfa á Twin Peaks og skrifar þessa hugleiðingu. Þar heldur hann því fram, sem líklega er rétt, að David Lynch væri rétti maðurinn til að gera mynd um Geirfinnsmálið.

Það er deginum ljósara hversu margt er líkt með Íslendingasögum og samúrajakúltúr Japana. Upp úr miðri síðustu öld spurði Thor Vilhjálmsson í kjölfar þess að hafa séð Rashomon og Yojimbo hvort ekki væri réttast að fá Kurosawa til að koma Njálu og öðrum Íslendingasögum sem best til skila á hvíta tjaldinu. – Nú vaknar hliðstæð spurning upp varðandi Geirfinnsmálið. Eftir að hafa séð nýju Twin Peaks þættina finnst mér liggja í augum uppi að David Lynch sé eini maðurinn sem hefði innsýn í hvað raunverulega gerðist í því máli og gæti gert því sómasamlega skil á myndrænan hátt.

 

 

Laugardagur 27.05.2017 - 17:27 - Ummæli ()

Breytileg sýn á skipulag Reykjavíkur

Reykjavík á tímamótum heitir ný bók um skipulagsmál í höfuðborginni, ritstjóri er Bjarni Reynarsson, en nokkur fjöldi höfunda á efni í bókinni.

 

 

Í bókinni má meðal annars lesa að tvö aðalskipulög Reykjavíkur megi teljast sérlega byltingarkennd. Annað er bílaskipulagið mikla frá því í byrjun sjöunda áratugarins. Þetta var sýnin á borgin sem þá var uppi á teningnum.  Breið umferðargata með stórum helgunarsvæðum í kring, ekki margt fólk á ferli, en allt frekar stílhreint.

 

 

En svo breytast tímarnir og þetta er skipulagið sem nú er í gildi og þykir líka byltingarkennt eftir því sem má lesa í bókinni. Enn hefur þetta ekki verið byggt, en þarna er göngugata inni í hinu svokallaða Hafnartorgi.

 

 

Föstudagur 26.05.2017 - 18:18 - Ummæli ()

Jákvæð upplifun í Costco

Það var dálítið merkileg reynsla að koma í Costco áðan. Nú hef ég lesið um þetta fyrirtæki og skilst að það sé frekar vel þokkað í Bandaríkjunum, borgar skikkanleg laun, veitir starfsmönnum sínum tryggingar og réttindi – er semsagt nokkur andstæða við hið andstyggilega WalMart.

Það var fjöldi manns við búðina, en ekki vandamál að fá stæði eða innkaupakerru. Við þurftum að bíða í röð eftir að fá skírteini, en hún gekk greiðlega fyrir sig. Það var dálítil hátíðarstemming og reyndar var áberandi hvað allir lögðu sig fram um að vera tillitssamir og kurteisir í mannfjöldanum. En almennt voru viðbrögði undrun yfir vöruúrvali sem maður hefur ekki séð á Íslandi áður.

Ég ætla ekki að blanda mér sérstaklega í umræðuna um verð, en manni sýnist að margt sé hægt að fá ódýrara í Costco en annars staðar, sérstaklega ef maður kaupir í miklu magni. Og búðin gengur náttúrlega dálítið út á magninnkaup. Vöruúrvalið er amerískt. Innflutt grænmeti virðist miklu ferskara en maður á að venjast í íslenskum búðum og það sama má segja um ávexti. Það er hægt að gera feykilega góð innkaup á allskyns pakkavöru, að því leyti minnir þetta á Hagkaup eins og var í upphafi. Í dag virkar það eins og Costco sé staðurinn þar sem Íslendingum finnst „skemmtilegast að versla“.

Maður sér því haldið fram að innkoma Costco á íslenskan markað snúist bara um markaðssetningu. En það er ekki rétt. Þessi verslun er öðruvísi en við Íslendingar eigum að vegnjast. Kona sem ég hitti í búðinni var himinlifandi og sagði að næst vonaði hún að hingað kæmi erlendur banki.

Eiginlega fær maður á tilfinninguna eftir að hafa verið í Costco að engin raunveruleg samkeppni hafi verið á íslenskum matvörumarkaði. Verslanakeðjurnar hafi verið ánægðar með að hafa fast og óbreytt ástand, þar sem hver búð hefur sinn stað og sinn verðflokk – og þar sem varla er keppt í úrvali eða gæðum.

Almennt myndi ég segja að það hafi verið jákvæð reynsla að fara í Costco. Ég á eftir að fara aftur, stærðin er slík að ég náði engan veginn að skima yfir allt vöruúrvalið. En þetta er ekki að öllu leyti lágverðsverslun, heldur ægir öllu saman. Ég sá til dæmis Omegaúr á eina og hálfa milljón. Og það sem er hér fyrir neðan myndi kallast lúxusvarningur. (Í framhaldi má benda á vinsælustu Facebook-síðu þessa vors sem nefnist Keypt í Costco – myndir og verð, nú er hún með meira en 37 þúsund fylgjendur.)

 

Heilt spænskt skinkulæri.

 

Kavíar.

Vænt stykki af enskum Stiltonosti.

 

Haloumi ostur frá Kýpur.

Föstudagur 26.05.2017 - 12:21 - Ummæli ()

Viss samhljómur milli Smára og Sigmundar

Það er ákveðinn samhljómur milli þess sem Píratinn Smári McCarthy og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segja um starfsemina á Alþingi. Þeir eru þó varla á sama máli um aðra hluti, það er stutt síðan Sigmundur tók feil á Smára og taldi að hann væri varaþingmaður.

En Smári skrifar í grein sem birtist á Eyjunni.

En stærsta atriðið sem virðist vanta á Alþingi er einhverskonar samkennd. Ég á ennþá eftir að upplifa það, sitjandi í þingsalnum, að allir séu að vinna að sama markmiði ─ að betrumbæta Ísland í þágu allra. Mig langar til að trúa því, en ég bara get það ekki. Vandinn er nefnilega sá að allt of oft heyrast raddir slíkra sérhagsmuna að manni líður eins og óboðnum gesti í þjófabæli.

Og Sigmundur segir í viðtali við Ríkisútvarpið:

Ég held að það geri sér nú flestir grein fyrir því sem fylgjast með stjórnmálum að þingið er ekki besti vettvangurinn til að koma málum hratt í framkvæmd eða vera vettvangur frumlegrar umræðu,“ segir Sigmundur. Eðli málsins séu þar fyrst og fremst afgreidd mál sem verði til í kerfinu og hjá ríkisstjórninni. „Reynsla mín er sú að nýjar og frumlegar hugmyndir verða iðulega til utan þingstarfanna.

Föstudagur 26.05.2017 - 12:06 - Ummæli ()

Norðmenn í biðröð eftir vegabréfum

Við lifum á tíma friðar, frjálsræðis og velmegunar – þótt annað mætti stundum ráða af umfjöllun í fjölmiðlum og umræðum á spjallsíðum.

Eitt sem er til marks um þetta er hvernig ferðalög um heiminn fara sívaxandi. Fólk ferðast ekki á tíma ófriðar, ófelsis og fátæktar.

Það hafa verið fréttir af því að sýslumaður anni ekki útgáfu vegabréfa á Íslandi. Hér á vef NRK sjá að hið sama er uppi á teningnum í Noregi. Eftirsókn eftir vegabréfum er svo mikil að yfirvöld hafa ekki undan og biðtími er kominn í heila tvo mánuði.

 

Miðvikudagur 24.05.2017 - 17:54 - Ummæli ()

Ónefni fékk ömurlegt

Þórarinn Eldjárn setti saman þessa vísu og birtir hana á veraldarvefnum:

Flugfélag Íslands frægt og þekkt
forðum tíð í prakt og mekt
ónefni fékk ömurlegt,
Air Iceland Connect.

Þetta er hið gamla merki Flugfélags Íslands. Það er afskaplega fallegt, enda mun það vera teiknað af sjálfum Halldóri Péturssyni:

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is