Fimmtudagur 31.7.2014 - 09:57 - Ummæli ()

Áhugi Kínverja á íslenskum banka – hví þá?

Einar Benediktsson sendiherra ritar mjög athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag, þar sem hann leggur út af áhuga kínverska risabankans, ICBC, á að kaupa dvergbankann Íslandsbanka á Íslandi. Hvað gengur kínverska bankanum til? Hann er að öllu leyti í eigu kínverska ríkisins – sem aftur er svo undirlagt af klíku sem nefnist kommúnistaflokkur Kína.

Vestrænir bankar, sem ganga fyrir hagnaðarsjónarmiðum, virðast ekki hafa sérstakan áhuga á að eignast banka á Íslandi, eins og Einar bendir á, en nú erum við örþjóðin komin í „furðulegt fríverslunarfélag“ við langfjölmennustu þjóð í heimi, svo orðalag Einars sé notað.

Hvað þessum heimsrisa, ICBC, kann að ganga til á Íslandi, verður að skoða í ljósi þess að um er að ræða banka í 100% eigu kínverska ríkisins. Og ef það er ekki bankagróði í okkar örlitla hagkerfi með ónýta mynt, sem þá rekur hingað yfir hálfan hnöttinn, hvað þá? Verður ekki að byrja á því að tala í hreinskilni um stefnu Kínverja á norðurslóðum, á Íslandi, á Grænlandi. Ég segi það blindni eða annarlega afneitun, að litið sé fram hjá því að langtímastefna Kína er nýting auðæfa með víðtækum námarekstri á Grænlandi, nýting olíu á hafsbotni eins og á Drekasvæðinu okkar. Þar gegnir Ísland sýnilega lykilhlutverki með risahöfn í Finnafirði vegna siglinga um norðausturleið heimskautsins, til að þjóna atvinnurekstri á Grænlandi og í olíuvinnslu við Austur-Grænland og á íslenska hluta Drekasvæðisins. Þar hefur kínverski olíurisinn CNOOC komist að í leitinni með 60% hlut en þar hið pínulitla Eykon með 2%. Getur verið að þar sé verið að tengja erlendan yfirgang minningu vinar míns, Eyjólfs Konráðs Jónssonar? CNOOC gekk um skeið erinda gróflegrar yfirráðastefnu sinna stjórnvalda gegn Víetnam í Suður-Kínahafi.

Að lokum skal minnt á að Kína er ekki lýræðisríki. Síðuhaldari hér er viðskiptavinur Íslandsbanka. En hann mun snimendis færa viðskipti sín annað ef bankinn kemst í eigu aðila sem stunda bisness á vegum kínverska kommúnistaflokksins.

ICBC_Tianjin

 

Miðvikudagur 30.7.2014 - 20:12 - Ummæli ()

Tveir sendiherrar – úr röðum pólítíkusa

Ekki kemur sérlega á óvart að Geir Haarde sé skipaður sendiherra. Það hlaut eiginlega að koma að því. Það er, eins og segir, eftir öðru.

Hins vegar kemur aðeins meira á óvart að Árni Þór Sigurðsson úr röðum Vinstri grænna sé gerður að sendiherra. Árni er alþingismaður – var reyndar um tíma formaður utanríkismálanefndar. Hann rússneskumælandi, en þykir nokkuð hallur undir ESB.

Varð Árni sendiherra til að dempa gagnrýnina á skipun Geirs? Í eina tíð var stundum notað orðið samtrygging.

Svo er spurning hvaða verkefni verða fundin fyrir þessa góðu menn – og alla hina sendiherrana í utanríkisþjónustun.

En það virðist vera að Steinunn Þóra Árnadóttir verði þingmaður í stað Árna.

Miðvikudagur 30.7.2014 - 15:01 - Ummæli ()

Ég var heima hjá mér

Kröftug skilaboð á Twitter.

„Ég vonast til að lifa af. Ef ekki, munið þá að ég var ekki í Hamas og ekki bardagamaður og ég var ekki notaður sem mannlegur skjöldur. Ég var heima hjá mér.“

10500564_805288889491154_1524433346718197973_n

Miðvikudagur 30.7.2014 - 12:04 - Ummæli ()

Hittir naglann á höfuðið

Jón Steinar Gunnlaugsson kemst að kjarna máls í grein sem hann skrifar hér á Eyjuna í dag.

Þessa sér staði í því hvernig við tökum á málum og líka í því hvernig við tökum ekki á málum – og að sumu leyti er þetta erfiðara fyrir okkur í flóknu nútímasamfélagi sem krefst mikillar sérhæfingar og sérþekkingar.

Mér hefur stundum dottið í hug að kannski séum við Íslendingar of fáir og smáir til að geta haldið uppi samfélagi, þar sem stofnanir standa undir nafni og gegna því hlutverki sem við ætlum þeim. Smæðin hefur meðal annars þau áhrif að þeir sem starfa við þessar þjóðfélagsstofnanir eiga svo marga vini og kunningja að þess sér merki í afstöðu til verka þeirra.

Þriðjudagur 29.7.2014 - 20:46 - Ummæli ()

Dálítið villandi prósentureikningur

Merkileg er tölfræðin í frétt frá Samtökum atvinnulífsins – þar sem brugðist er við óánægju vegna mikils launaskriðs forstjóra.

Reyndar er því haldið fram að skýringin kunni að vera sú að launalækkanir forstjóranna á hruntímanum séu að ganga til baka.

Eins og aðrir hafi ekki þurft að þola kjaraskerðingu þá!

Svo er birt línurit – sem maður veit svosem ekki hvað er mikið að marka – en á því kemur fram að launahækkanir forstjóra frá 2006 hafi verið 43,6 prósent en hækkanir á almennum vinnumarkaði 45,2 prósent.

Tökum launamann sem hafði 200 þúsund krónur á mánuði 2006. Laun hans hafa hækkað í 290 þúsund á þessum árum.

Tökum forstjóra sem hafði 2 milljónir á mánuði 2006. Laun hans hafa hækkað í 2,9 milljónir á þessum árum.

Sé þetta reiknað yfir í árslaun hefur launamaðurinn hækkað um rétt rúma 1 milljón, en forstjórinn hefur hækkað um 10 milljónir.

Prósentureikningurinn segir semsagt ekki alla söguna.

arsbreyting-heildarlauna-a-vinnumarkadi-2006-2013

 

Þriðjudagur 29.7.2014 - 13:57 - Ummæli ()

Hópast á Þingvöll – fyrir fjörutíu árum

Á tuttugustu öld tíðkaðist mjög að Íslendingar hópuðust á Þingvöll – þar voru haldnar fjöldasamkomur til að minnast ýmissa tímamóta.

Fyrst var Alþingishátíðin 1930, þá var þess minnst að þúsund ár voru frá því Alþingi kom fyrst saman við Öxará, svo var það lýðveldishátíðin 1944, síðan 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974, 50 ára lýðveldisafmælið 1994 og loks kristnitökuafmælið árið 2000.

Síðan þá hefur ekki heyrst neitt af hátíðum á Þingvöllum, kannski hafa heldur ekki verið tilefni til.

Í dag eru nákvæmlega 40 ár síðan afmæli Íslandsbyggðar var fagnað, það var 28. júlí 1974. Þetta var fremur þyngslaleg hátíð, að þeirra tíma hætti, Tómas Guðmundsson flutti kvæði, Halldór Laxness hélt ræðu sem og Matthías Johanessen. Það var mikið um kórsöng.

En veðrið var gott – ólíkt því sem var 1944, þegar var hellirigning og margir forkældust. Það var líka tekið til þess að „ekki sást vín á nokkrum manni“. Það var ekki bara tilviljun, því ríkisstjórnin hafði ákveðið að loka Áfengisversluninni í einhverja daga fyrir hátíðina. Menn gátu semsagt ekki birgt sig upp.

Flestir skildu þó líklega að þetta var lélegur vettvangur til að fara á fyllerí. Nokkrum dögum síðar var haldin hátíð í Reykjavík – og þá var aðeins meira stuð.

Einn óskundi varð á hátíðinni. Herstöðvaandstæðingar mættu upp á brún Almannagjár með borða þar sem var mótmælt veru Bandaríkjahers á Íslandi og aðildinni að Nató. Þeir voru snimendis handteknir og fluttir til Reykjavíkur. Síðar kom reyndar í ljós að meðferðin á þeim var ekki alveg lögum samkvæmt – en ekki var talið forsvaranlegt að þeir spilltu hátíðarhelginni.

Afmæli Íslandsbyggðar hefur verið fagnað tvisvar, 1874 og 1974. Heldur ólíklegt verður að teljast að það verði gert aftur. Þá verðum við mörg hver ekki lengur meðal lifenda, en nýlegar rannsóknir benda til þess að mannabyggð á Íslandi sé allmiklu eldri en frá 874.

image332

Þriðjudagur 29.7.2014 - 13:06 - Ummæli ()

Getur DV rennt stoðum undir fréttina?

DV er í vondum málum ef forsíðuuppsláttur blaðsins um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Stefán Eiríksson er ekki réttur.

Blaðið segir að Stefán hafi verið beittur þrýstingi af Hönnu Birnu vegna leikamálsins – það hafi leitt til þess að hann hafi ákveðið að hætta sem lögreglustjóri.

Maður skyldi ætla að blaðið hefði góðar heimildir fyrir þessu, greinin þar sem er sagt frá þessu er merkt blaðamönnunum Jóhanni Páli Jóhannssyni og Jóni Bjarka Magnússyni og Reyni Traustasyni ritstjóra. Þetta er semsagt ekkert sem hefur verið sett fram í bríaríi – heldur að vel athuguðu máli.

Eða hvað? Getur DV rennt stoðum undir fréttina?

Stefán segir í færslu á Twitter í morgun:

Sótti um nýtt og áhugavert starf fyrir stuttu og fékk, enda tímabært að skipta um starfsvettvang. Ekkert annað réð þeirri ákvörðun.

Þetta er frekar stutt, upplýsingarnar eru ekki miklar, og svarar auðvitað ekki öllum spurningum. Stefán „blæs“ ekki á fréttaflutning DV eins og segir á Mbl.is, en því fer líka fjarri að hann staðfesti hann.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is