Laugardagur 25.10.2014 - 17:57 - Ummæli ()

Krítíkleysi og ónæmi fyrir staðreyndum

Hvers vegna segir biskupinn yfir Íslandi að það sé sorglegt að þjóðfélagið sé þannig að lögreglan þurfi á hríðskotabyssum að halda?

Höfum við einhver dæmi úr sögu Íslands um að lögregluaðgerðir hefðu veri betur heppnaðar ef byssum hefði verið beitt?

Þurfti byssur í búsáhaldabyltingunni?

Hvaða gagn gerðu byssurnar þegar geðveikur maður var skotinn í Árbænum í fyrra?

Hvaðan kemur þetta algjöra krítíkleysi hjá biskupnum? Er þetta ósjálfráð hollusta einnar stofnunar – þjóðkirkjunnar – við aðrar stofnanir?

Það hefur margsinnis komið fram í umræðu síðustu daga að ofbeldisbrotum fer fækkandi.

Á Kirkjuþingi steig einnig á pall Hanna Birna Kristjánsdóttir og kvartaði undan óvæginni opinberri umræðu og sagði að þjóðin „þurfi að læra að treyst á ný“.

En traust er eitthvað sem maður ávinnur sér. Traust fær maður ekki eftir pöntun. Stjórnvöldum og stofnunum er ekki treyst nema þær verðskuldi það.

Laugardagur 25.10.2014 - 16:50 - Ummæli ()

Jack Bruce 1943-2014

Jack Bruce var bassaleikari, söngvari og lagahöfundur í þeirri sögufrægu hljómsveit Cream.

Sjaldan hafa jafn stórir og ráðríkir karakterar mæst í einu bandi og í Cream – Bruce, Eric Clapton og Ginger Baker.

Enda entist það ekki lengi. Hljómsveitin starfaði frá 1966-1968.

Jack Bruce er dáinn, 71 árs að aldri. Hann leit reyndar á sig sem djassista fremur en rokktónlistarmann.

Hér er lagið Tales of Brave Ulysses eftir hann. Þetta er býsna hrár flutningur – en það er gaman að horfa á þessa karla í aksjón.

Árið er 1968 – þá gátu menn leyft sér að vera með flottar húfur eins og Bruce og í rúskinnsstígvélum með kögri eins og Clapton.

Laugardagur 25.10.2014 - 12:14 - Ummæli ()

Icesave-klúður – hörð afstaða Sigmundar

Maður leggur við hlustir þegar Andri Geir Arinbjarnarson skrifar. Hann er óháður hagsmunaklíkunum hér heima og á ekki heldur neinna slíkra hagsmuna að gæta að hann þurfi að vera að endurskoða söguna.

Greining Andra á efnahagsmálum er yfirleitt mjög glögg og hann hlífir engum.

Andri skrifar hér á Eyjuna í dag um Icesave sem ennþá er meðal okkar, stendur í vegi fyrir afnámi hafta og getur leitt til verðbólgu og gengisfellingar – þrátt fyrir alþjóðlegt dómsmál sem Íslendingar unnu. Andri spyr hvers vegna þetta gat gerst?

Svar hans er að það hafi verið búið að klúðra Icesave áður en málið kom í þjóðartkvæðagreiðslu. Þá hafi verið gerð dýrkeypt mistök og Icesave komið á bak skattgreiðenda.

Fyrstu og stærstu mistökin voru að endurreisa Landsbankann sem ríkisbanka og fjármagna hann með sömu Icesave peningunum og felldu gamla bankann. Önnur mistök voru að breyta þessum ótryggðu Icesave innistæðum í sértryggð skuldabréf sem hafa forgang yfir innistæðueigendur nýja bankans, þvert á neyðarlögin. Þriðju mistökin voru að slíta þennan hluta Icesave frá restinni og setja ekki inn viðskiptalega varnagla til að tryggja hag ríkisins. Fjórðu mistökin voru að gæta ekki að gjaldmiðla jafnvægi eigna og skulda megin við kaup á eignum þrotabús gamla bankans.

Með því að endurreisa Landsbankann meir á pólitískum forsendum en viðskiptalegum töpuðu Íslendingar fyrstu og mikilvægustu orrustu stríðsins við kröfuhafa. Með einu pennastriki voru kröfuhafar klipptir úr snörunni og eignir þeirra sem voru nær verðlausar fengu allt í einu áhugasaman kaupanda sem var tilbúinn að borga topp verð í gjaldeyri með góðum tryggingum.

Andri segir að á þessum tíma hafi verið best að reyna að bjarga málinu með samningum, það hafi verið fífldirfska að setja það fyrir dóm – en það blessaðist sem betur fer. Eftir sem áður sitji fyrsti hluti Icesave eftir og ógni fjármálastöðugleika landsins. Eigendahópur Icesave-skuldabréfsins hafi líka breyst.

Hollendingar hafa selt sínar kröfur og vogunarsjóðir sem eiga keppinauta ríkisbankans eru líklega að verða ráðandi í eigendahópnum. Þetta gerir alla samninga snúnari enda eru hagsmunir vogunarsjóðanna aðrir en ríkisstjórna Hollands og Bretlands.

Það er ekki öfundsverð staða sem ríkisbankinn er kominn í að verða að biðla til lánadrottna sinna, sem jafnframt eru meirihlutaeigendur hinna bankanna, um skilmálabreytingar á 230 ma kr. skuldabréfi sem er tryggt í bak og fyrir. Þar liggur flókin hagsmunaflétta sem gæti reynst ríkinu dýrkeypt, t.d. þegar kemur að sölu Landsbankans. Erfitt getur þá reynst að fá bókfært virði bankans tilbaka í ríkiskassann.

Líklega er þetta Icesave mál annað mesta klúður eftirhrunsáranna á eftir hruni heilbrigðiskerfisins. Hér liggja mikil lærdómstækifæri fyrir nýja kynslóð sem vonandi nær að lyfta sér upp úr hrunpytti kynslóðarinnar á undan.

Við þetta er svo að bæta að mjög erfitt getur reynst fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að samþykkja undanþágur á gjaldeyrishöftum vegna Landsbankans. Þetta mál gæti reynst mjög erfitt fyrir ríkisstjórnina, en það er liður í afnámi haftanna.

Sigmundur var mjög afdráttarlaus í ræðu á Alþingi 15. maí á þessu ári:

Það sem snýr hins vegar að stjórnvöldum í þessu máli er hvort forsvaranlegt sé að veita undanþágu frá gjaldeyrishöftunum bara fyrir þessa aðila á meðan aðrir verða áfram lokaðir hér innan hafta. Það getur ekki verið forsvaranlegt að veita undanþágu fyrir einn eða tvo tiltekna aðila til þess að sleppa út með gjaldeyri, jafnvel niðurgreiddan gjaldeyri, gjaldeyri sem yrði þá niðurgreiddur af þeim sem eftir sætu í höftum og þar með talið íslenskum almenningi, hugsanlega með varanlegri skerðingu á raungengi krónunnar sem þýðir einfaldlega lakari lífskjör í landinu til framtíðar. Slík niðurstaða væri alltaf óásættanleg og þar af leiðandi gætu stjórnvöld ekki heimilað undanþágu frá höftunum sem leiddi til slíks.

Margir lesendur síðunnar voru feikilega fróðir um Icesave á sínum tíma. Það væri forvitnlegt að heyra álit þeirra á þessari stöðu.

Föstudagur 24.10.2014 - 21:08 - Ummæli ()

Almannatengsl 101 – lögreglan í búsáhaldabyltingunni

Umræðan um vélbyssuvæðingu lögreglunnar heldur áfram að vera á furðulegum nótum. Ráðamenn halda áfram að svara í einhvers konar hálfkæringi, eins og þetta sé nú ekkert mál.

Staðreyndin er hins vegar sú að margt fólk upplifir þetta öðruvísi. Því finnst þetta vera grundvallarmál í okkar fámenna og friðsama landi þar sem vopnum er afar sjaldan beitt gegn fólki.

Það er spurning hvort þyrfti að setja ráðamenn einfaldlega á námskeið í almannatengslafræðum, barasta í almannatengsl 101, kenna þeim að vera ekki að tjá sig um svona mál að Facebook, að bíða aðeins með svör þangað til þeir finna hjá sér rósemd hugans, að reyna að svara hreinskilnislega – og framar öllu að tala eins og þeir skilji áhyggjurnar, skilji umbjóðendur sína, vilji koma til móts við það. Líka þá sem eru ekki endilega í sama flokki.

Á ensku mundi það heita að virka concerned.

Annars er víðar verið að ræða lögreglumál. Það er búið að birta skýrslu um framgöngu lögreglunnar í búsáhaldabyltingunni. Að flestu leyti stóð lögreglan sig með prýði þessa erfiðu daga. Tókst að halda valdbeitingu í lágmarki. Einnig má finna í Skemmunni meistararitgerð Huldu Maríu Mikaelsdóttur þar sem má lesa um aðgerðir lögreglunnar í búsáhaldabyltingunni. Eitt af þvi sem má ráða af ritgerðinni er hvílíkur afburða löggæslumaður Stefán Eiríksson er.

Í úrdrætti úr ritgerðinni stendur:

Það skipulag sem fylgt var í meginatriðum frá upphafi, þ.e. að vinna verkefni lögreglu með lágstemmdum og yfirveguðum hætti, var líkt og rauður þráður í gegnum aðgerðir lögreglu á tímabilinu. Leitast var við eftir fremsta megni að lögregla skapaði ekki verra ástand á vettvangi aðgerða en það sem hún var komin til að leysa úr.

Föstudagur 24.10.2014 - 12:05 - Ummæli ()

Alvarleg bilun í vélarrúmi kapítalismans

Í nýju hefti Der Spiegel er fjallað um það hvernig kapítalisminn hefur farið af hjörunum. Við lifum tíma þegar kapítalistar eru í raun verstu óvinir kapítalismans.

Einn helsti vandi kapítalismans í dag – og sumum þeim sem mest auðgast er kannski skítsama um þetta – er að auðurinn er ekki að dreifast um hin ýmsu lög samfélagsins. Spiegel segir að meira að segja sé farið að ræða þetta á fundum auðmanna í Davos og í höfuðstöðvum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Þetta eru aðrir tímar en var eftir hrun Berlínarmúrsins þegar hraðlest kapítalismans virtist óstöðvandi og Francis Fukuyama spáði „endalokum sögunnar“. Nú lifum við tíma mikillar óvissu þar sem vantraust á stjórnmál er útbreitt og grunsemdir um að við lifum í raun við auðræði – eða í „eins prósents samfélaginu“ eins og er líka farið að kalla það.

Stöðnun blasir við í efnahag Vesturlanda. Seðlabankar hafa ekki meira fé til að örva hagkerfin – alls staðar blasa við skuldafjöll. En á sama tíma hækkar húsnæðisverð og verð á hlutabréfamörkuðum – semsagt á sviðum þar sem er stunduð spákaupmennska. Kannski getur það ekki endað með öðru en nýju hruni.

En þeir sem eiga fjármagn verða ríkari, þeir sem geta látið peningana vinna fyrir sig, auðurinn safnast á færri hendur. En sjálf framleiðslan er ekkert að aukast, laun lækka eða standa í stað, hefðbundið sparifé gefur ekkert af sér.

Der Spiegel segir að þetta sé til marks um alvarlega bilun í vélarrúmi kapítalismans. Bankar og fjárfestingafélög tryggðu hér áður fyrr að sparifé væri breytt í tækninýjungar, vöxt og ný störf. Í dag gegna þau því hlutverki að færa fjármagn frá neðri lögum samfélagsins upp í þau efstu.

Þetta er eins og að búa í blokk þar sem þakíbúðin verður sífellt stærri, á neðstu hæðunum er alltof margt fólk og mikil þrengsli, en miðhæðirnar eru tómar og lyftan virkar ekki lengur.

Lýðræðið er líka í kreppu vegna þessa. Er ríkjum stjórnað af þjóðþingum og ríkisstjórnum – eða er það peningavaldið sem hefur síðasta orðið. Bankarnir geta í raun hegðað sér eins og sjálfmorðssprengjumenn. Sé hagur þeirra ekki í fyrrirúmi og þeim bjargað, þá býr undir hótunin um að draga allt kerfið niður með sér.

Hinn þekkti fjármálablaðamaður á Financial Times, Martin Wolf, kallar þetta ofurvald fjármálamarkaðanna „samning við djöfullinn“. Meira að segja sannfærðum markaðshyggjumönnum er illa brugðið.

image-765069-thumbflex-cqsi

Föstudagur 24.10.2014 - 09:49 - Ummæli ()

Dæmi um litla stjórnvisku

Sérkennilegt er það stóra byssumálið sem gaus upp í þessari viku.

Þarna er ljóslifandi dæmi um hvernig mál, sem þarf í sjálfu sér ekki að vera svo stórt, blæs upp vegna þess að stjórnsýslan gerir hverja vitleysuna á fætur annarri.

Þegar DV birtir fréttina um lögregluna og byssurnar vill enginn eða getur enginn gefið skýr svör. Mótsagnirnar verða himinhrópandi – tilfinningin fyrir því að þarna sé á ferðinni leynimakk ágerist.

Sumir ráðamenn tjá sig með hótfyndni þegar miklu nær hefði verið að segja einfaldlega að málið verði athugað, engu verði leynt – það verði lögð fram skýrsla um málið á Alþingi.

Þingmaður úr stjórnarliðinu stígur fram með furðulegan málflutning þar sem hann segir meðal annars:

Af hverju sagði ríkislögreglustjóri já við þessu? Af því að hann er með Glock skammbyssur útum allt. Og það er erfiðara að miða, þú ert kannski að fara inn í skóla þar sem er attack, og þá viltu hitta réttan mann.

Þingmaðurinn, sem áður starfaði í lögreglunni, notar meira að segja gælunafn um byssutegundina – kallar hana „Glockinn“.

Yfirlögregluþjónn kemur í viðtal og talar um Gúttóslaginn 1932. Tengingin er óljós en manni finnst helst að maðurinn sé að segja að þá hefði verið betra ef lögreglan hefði getað beitt byssum á verkafólk.

Nú kemur fyrrverandi dómsmálaráðherra með furðulega samsæriskenningu um að tilgangurinn með birtingu fréttarinnar hafi verið að kanna „styrk og veikleika Íslands“.

Þingmenn fimbulfamba um hinar miklu ógnir sem við eigum að standa frammi fyrir – þegar staðreyndin er sú að glæpatíðni fer lækkandi.

Eins og segir, þetta hefði aldrei þurft að verða svona mikið mál ef hefði verið svarað af stillingu og hreinskilni í upphafi, reynt að lægja öldur fremur en að kasta olíu á eldinn með vanhugsuðum yfirlýsingum. Þetta er eiginlega skólabókardæmi um hvernig á ekki að bregðast við – dæmi um litla stjórnvisku.

Föstudagur 24.10.2014 - 08:21 - Ummæli ()

Vesturfarar, síðasti þáttur – Kyrrahafsströndin

Síðasti þáttur Vesturfara er á dagskrá Rúv á sunnudagskvöldið.

Í þessum þætti förum við vestur á strönd Kyrrahafsins og fræðumst um Íslendingabyggðir þar.

Við förum til fjölþjóðaborgarinnar Vancouver, til Victoria sem er á Vancouvereyju, og til Point Roberts, en það er skagi sem tilheyrir Bandaríkjunum þótt hann sé landluktur inni í Kanada. Þar er merkileg byggð Íslendinga sem hófst í upphafi 20. aldar.

Margt merkilegt fólk kemur við sögu eins og stjórnmálamaðurinn Boss Johnson, prófessor Ríkharður Beck, flugkappinn og Ólympíuverðlaunahafinn Frank Fredrickson og landar sem voru svo þakklátir Teddy Roosevelt Bandaríkjaforseta að þeir sendu honum sauðargæru að gjöf.

egill ferja 2

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is