Þriðjudagur 28.03.2017 - 20:12 - Ummæli ()

Olía á eld deilna um kvótann

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, fyrrum LÍÚ, hellir olíu á eld deilna um sjávarútveg með því að segja á sama degi og útgerðarrisinn HB Grandi tilkynnir um þau áform að loka fiskvinnslunni á Akranesi. Þetta gerir hún með þeirri yfirlýsingu að komi til greina að flytja fiskvinnslu úr landi vegna gengisþróunar.

Við þetta er eitt og annað að athuga. Það má vitna í lög um fiskveiðistjórnun nr. 116/2006. Þar segir í fyrstu greininni:

1. gr.:
Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.  Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson leggur út af þessu á Facebook og segir:

Ef handhafar aflaheimilda hagnýta ekki hinar úthlutuðu aflaheimildir í samræmi við tilgang laganna, þá ætti Fiskistofa að geta lokað á úthlutun aflaheimilda til viðkomandi. Og ef þetta er svona mikið vesen þá er miklu betra bara að hætta útgerð og þessu harmakvæli og leyfa öðrum sem eru tilbúnir að veiða fiskinn í sjónum og vinna hann fá aflaheimildirnar.

 

Þriðjudagur 28.03.2017 - 08:05 - Ummæli ()

Hauck & Aufhauser gegnum árin

Ég ætla að leyfa mér að endurbirta hér grein sem ég setti hér inn á vefinn árið 2010. Nú er að fara að birtast skýrsla um aðkomu þýska fjármálafyrirtækisins Hauck und Aufhauser að kaupunum á Búnaðarbanka. Það er gott að fá hlutina á hreint, en flest í þessu var löngu vitað. Greinin var svohljóðandi:

Því hefur verið haldið fram margsinnis á þessum síðum og í Silfri Egils í gegnum árin – allt frá tímanum að það var á Stöð 2 – að það hefði verið eintómt sjónarspil þegar þýska fjármálafyrirtækið Hauck und Aufhauser dúkkaði upp sem einn af kaupendum Búnaðarbanka. Áður hafði verið talað um að franski stórbankinn Societé Générale væri meðal kaupenda.

Ég man að við Vilhjálmur Bjarnason áttum tvö nokkuð ítarleg samtöl um þetta á sínum tíma.

Þessu var alltaf harðlega mótmælt – og það var meira að segja pöntuð skýrsla frá Ríkisendurskoðun þar sem staðhæft var að þetta væri allt í lagi.

Ýmislegt hefur reyndar komið á daginn sem bendir til þess að lítið hafi verið að marka þá stofnun. Kattaþvottur virðist hafa verið ein sérgrein hennar.

Nú staðfestir fyrrverandi viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, loks að rétt fyrir undirskrift hafi komið í ljós að kaupandinn var lítið og óþekkt þýskt fjármálafyrirtæki en ekki franskur stórbanki. Þetta hafi verið með ólíkindum, en samt hafi hún skrifað undir.

Sigurjón Árnason, sem á þeim tíma var yfirmaður hjá Búnaðarbankanum, segir um þessi viðskipti fyrir framan rannsóknarnefndina:

[Þ]essi útlenski banki sem átti að vera Hauck & Aufhäuser sem var einhver lítill prívatbanki í Þýskalandi sem enginn hafði heyrt á minnst og hafði í rauninni enga getu til þess að taka þátt í, jafnvel þó að Búnaðarbankinn væri ekkert sérstaklega stór. Þess vegna fannst okkur þetta alltaf skrýtið þegar þetta var að gerast. Upphaflega átti að vera Société Générale sem það þótti […] þetta var allt eitthvað rosalega skrýtið.

[…]og maður hitti hann og maður upplifði það að hann hefði alveg eins getað hafa verið að kaupa ísbúð, hann vissi ekkert hvað hann var að kaupa. Það var algjörlega sénslaust að hann hafi verið að leggja svona mikla peninga undir þannig að ég hef alltaf verið sannfærður um það að þetta var bara einhvers konar framvirkur samningur, eða eitthvað slíkt, sem að, eða einhvers konar útfærsla þar sem hann var bara fulltrúi fyrir aðra aðila.

Hér er mynd af Finni Ingólfssyni og Ólafi Ólafssyni þar sem þeir aka sigri hrósandi burt með Búnaðarbankann. Myndin er eftir Þorkel Þorkelsson ljósmyndara og birtist í Morgunblaðinu, ein af merkustu fréttamyndum síðari ára á Íslandi.

 

 

Hér er hlekkur í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem getið er í greininni. Framganga Vilhjálms Bjarnasonar í málinu er svo kapítúli út af fyrir sig. Hann hélt því gangandi í gegnum árin, líka á tímanum fyrir hrun þegar fáir höfðu áhuga á að heyra neina gagnrýni á fjármálakerfið.

Mánudagur 27.03.2017 - 15:55 - Ummæli ()

Heia Norge!

„Martraðarbyrjun Lagerbäcks“ les ég á íslenskum vefmiðli. Lars okkar Lagerbäck er búinn að taka við þjálfun norska landsliðsins. Það tapaði 0-2 fyrir Norður-Írlandi, kannski ekki martröð, en það er ekki gaman að tapa. Þetta var samt bara fyrsti leikur liðsins undir stjórn Lars.

Norðmenn virðast ekki eiga neina afburðaleikmenn núna, þeir spila flestir með miðlungsliðum og þar undir, Hull er svona sirkabát eins langt og þeir komast. Þeir eiga semsagt engan Gylfa til að halda liðinu á floti, eins og miðjumaðurinn snjalli gerði í síðasta leik íslenska liðsins.

Það er nokkuð um liðið síðan Norðmenn áttu leikmenn eins og John Arne Riise, Ole Gunnar Solskjær og Tore Andre Flo – menn sem spiluðu með toppliðum í Englandi og Evrópu. Norðmenn unnu sinn fræknasta sigur í fótbolta 1998 þegar þeir sigruðu Brasilíu 2-1 í úrslitum heimsmeistaramótsins.

Ég sé mér til furðu að á samskiptamiðlum fagna margir þessum úrslitum. Annað hvort hafa þeir horn í síðu Norðmanna, vilja veg þeim í íþróttum sem minnstan, ellegar þeir eru sárir út í Lars Lagerbäck fyrir að hætta að þjálfa íslenska liðið og vilja að honum gangi illa með Noregi. Já, maður sér að það hlakkar í mörgum.

Þetta er skrítið. Við eigum Lars það að þakka að Ísland náði sínum langbesta árangri í fótbolta – og verður tæplega jafnaður. Og Norðmenn eru vina- og frændþjóð og koma yfirleitt fram við okkur af stakri alúð – halda meira að segja með okkur í íþróttakeppnum ef þannig ber undir.

Og þetta segi ég ekki bara af því ég er af norsku bergi brotinn. Heia Norge!

 

Sunnudagur 26.03.2017 - 23:30 - Ummæli ()

Eyðibyggð inni í Reykjavík – þegar Lindbergh gisti í Viðey

Hér er innslag úr Kiljunni sem ég er nokkuð ánægður með. Þarna er fjallað um Viðey, eyjuna hérna úti á Sundunum, sem er furðu fáfarin miðað við hvað hún er nálægt okkur. Í Viðey er engin búseta nú, en það er nokkuð nýtilkomið. Þarna var klaustur á miðöldum, síðar mikið höfðingjasetur, þarna reis glæsilegasta hús landsins – og á fyrri hluta síðustu aldar var þorp í austurhluta Viðeyjar þar sem var mikil fiskvinnsla.

Þorpið kallaðist Sundabakki, það fór endanlega í eyði á stríðsárunum, en rústir þess eru enn sýnilegar. Það er merkilegt að sjá eyðibyggð inni í höfuðborg landsins.

Í innslaginu í Kiljunni koma meðal annarra við sögu Jón Arason, Diðrik frá Minden, Skúli Magnússon, Magnús Stephensen og Charles Lindbergh. Þegar flugkappinn mikli kom til Íslands að leita að lendingarstöðum á leiðinni yfir Atlantshafið lenti hann flugvél sinni á sjónum við Viðey og gisti þar í svokölluðu Björnshúsi.

Það er svo smá neðanmálsgrein í þessari sögu, eins og kemur fram í innslaginu, að í skáldsögunni The Plot against America ímyndar Philip Roth sér að Lindbergh verði forseti Bandaríkjanna og geri griðasátmála við Adolf Hitler. Hann er undirritaður í Reykjavík 1941 og kallaður Reykjavíkursamkomulagið.

Lindbergh þótti hallur undir nasista og var í fararbroddi þeirra sem vildu alls ekki að Bandaríkin blönduðu sér í heimsstyrjöldina.

Stundum hefur verið rætt um Sundabyggð, og þar með að aftur verði búseta í Viðey. Þar verði reist íbúðarhverfi. Þetta gæti komið í kjölfar þess að lögð verði brú yfir Sundin. Í raun er engin sérstök ástæða fyrir því að hafa eyjuna óbyggða, þótt náttúrlega verði að gæta að svæðinu í kringum sjálfa Viðeyjarstofu.

Innslagið úr Kiljunni má sjá hérna á vef RÚV.

 

Mannlíf í þorpinu Sundabakka í Viðey á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þarna eru nú rústir einar.

Laugardagur 25.03.2017 - 19:19 - Ummæli ()

Harðsoðin frásögn um dramatíska atburði

Þegar ég á rólega stund blaða ég stundum í Landið þitt Ísland, hinu mikla safni eftir Þorstein Jósepsson og Steindór Steindórsson. Þar er að finna margvíslegan fróðleik, sumt er skemmtilegt, annað nokkuð hrollvekjandi, og svo er maður steinhissa yfir ýmsu sem er að finna þarna um sögu þjóðarinnar.

Eins og til dæmis þessu litla broti um bæinn Efranes á Skaga. Þarna er sögð mikil saga í mjög fáum línum. Má með sönnu segja að þetta sé harðsoðin frásögn. En dramatíkina vantar ekki. Maður veit svo ekki alveg hvort maður á að trúa þessu.

Orðið „málgífur“ er býsna fágætt.

 

Laugardagur 25.03.2017 - 09:53 - Ummæli ()

Feðraveldið skýtur upp sínum ljóta kolli

„Hópur af miðaldra hvítum karlmönnum í ljótum jakkafötum er hrollvekjandi,“ las ég áðan.

Þessir menn telja sig vera þess umkomnir að ráða yfir lífi og limum og líkömum kvenna. Orðið feðraveldi kemur strax upp í hugann.

Ný útgáfa af The Handmaids Tale eftir Margaret Atwood verður frumsýnd í sjónvarpi í lok apríl.

 

 

Föstudagur 24.03.2017 - 19:35 - Ummæli ()

Kyrrlát vetrarstemming í Lækjargötu

Þessi dálítið angurværa vetrarmynd sýnir Lækjargötu á árunum eftir stríð. Myndin er greinilega tekin seint um kvöld eða um nótt, það er ekki hræða á ferli. Við tökum eftir því hvað bílarnir eru fáir.

Myndin er örugglega tekin eftir 1945, því þá var byrjað að reisa viðbyggingu við Nýja bíó sem sést við enda húsalengjunnar.

Húsin sem eru næst okkur eru horfin. Þarna er Lækjargata 12 b sem brann til kaldra kola 1967, þar bjó Bjarni dómkirkjuprestur ásamt frú Áslaugu. Þar hefur verið bílastæði síðan. Þá er hús sem stóð á lóðinni þar sem nú er hús Iðnaðarbankans/Íslandsbanka – nú er hægt og bítandi verið að rífa það.

Næstu hús eru hafa varðveist, Lækjargata 10 sem er hlaðið steinhús frá 1877, svo eru Lækjargata 8 og Lækjargata 6a og b. Húsið við Lækjargötu 4, þar sem Hagkaup var til húsa um tíma, var hins vegar flutt í Árbæjarsafn. Nýja bíó brann og þar var reist í staðinn hið svokallaða Iðuhús. Nú er veitingarekstur í nánast öllum húsum meðfram Lækjargötunni.

Lækjargatan er breiðgata með tveimur aðskildum akreinum. Hún var breikkuð árið 1950, manni sýnist að myndin sé tekin eftir það. Sérstaka athygli vekja ljósastaurarnir. Þeir eru sérlega gerðarlegir, með tveimur öflugum ljóskösturum.

 

 

 

Hér má svo sjá forsíðu Morgunblaðsins frá 11. mars 1967, eftir stórbrunann í Lækjargötunni. Þarna má sjá hvernig húsið næst okkur stendur í ljósum logum. Þetta er öllu dapurlegra. En það varð brátt um mörg fallegustu hús bæjarins á þessum árum.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is