Fimmtudagur 30.6.2016 - 11:31 - Ummæli ()

Aukin hernaðaruppbygging á Íslandi – viðbrögð við stefnu Pútíns

Sameiginleg yfirlýsing Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál sætir tíðindum, en hún var undirrituð í gær. Þarna er sagt að „umhverfi öryggismála í Evrópu og norðanverðu Atlantshafi hafi breyst á undanliðnum tíu árum“ – það dylst varla neinum að þetta eru viðbrögð við þróuninni í Rússlandi Pútíns, það var síðast í maí að Obama forseti varaði Rússa við aukinni hervæðingu sem hann sagði að beindist gegn Norður-Evrópu. Ennfremur má nefna hernaðaruppbyggingu Rússa á norðurheimskautssvæðinu.

Varnarliðið er ekki að koma aftur, þótt það sé ef til vill ekki svo fjarlægur möguleiki lengur,  en það er áréttað mjög skýrt að Ísland standi með Bandaríkjunum og sé á bandarísku áhrifasvæði. Það er tekið fram að þetta sé innan ramma varnarsamningsins frá 1951.

Við megum búast við meiri hernaðaruppbyggingu á Íslandi en verið hefur undanfarin ár, það fer ekki á milli mála.

Samkomulagið er undirritað af utanríkisráðherra úr Framsóknarflokknum. Áður en til undirritunar kom hafði ekkert heyrst um að þetta stæði til.

Það má auðvitað spyrja hvers vegna var engin umræða um þessa yfirlýsingu áður en hún var gerð opinber? Hver var aðdragandinn að þessu – hvernig voru ákvarðanir teknar? Með þessu er væntanlega loku fyrir það skotið að Íslendingar breyti t.d. afstöðu sinni gagnvart viðskiptabanni á Rússland – sem er fyrst og fremst að undirlagi Bandaríkjanna, ekki ESB, eins og sumir virðast halda.

Og svo má gera einn lítinn fyrirvara. Væntanlega skiptir dálitlu máli hver verður kosinn forseti Bandaríkjanna í byrjun vetrar. Vildum við eiga í nánari samstarfi við Bandaríki sem væru t.d. undir forystu Donalds Trump?

 

9uz3dtznLilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.

Miðvikudagur 29.6.2016 - 21:54 - Ummæli ()

Elsta hús Reykjavíkur komið í flísið

Aðalstræti 10, búið að fá nýtt hlutverk og nýtt skilti. Húsið var byggt 1762 og er elsta hús í borginni sjálfri – Viðeyjarstofa er aðeins eldri.

 

13529169_10154444583674369_4231994011038031528_n

Miðvikudagur 29.6.2016 - 08:48 - Ummæli ()

Orabaunir til Frakklands

Í eina tíð voru á kreiki sögur um Íslendinga sem fóru í sólarlandaferðir og fylltu töskur sínar með Bragakaffi og Ora niðursuðuvörum. Þeir voru vissir um að kaffið í útlöndum væri ódrekkandi, maturinn óætur og líklega eitraður.

Rifjast einhvern veginn upp við þessa tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Einhvern veginn finnst manni samt óþarfi að senda matvæli til mesta matarlands í veröldinni.

 

Screen Shot 2016-06-29 at 10.45.19

 

Við skulum svo vona að landsliðið freistist ekki til að borða kræsingarnar kvöldið fyrir leik – væri kannski frekar ráð að bjóða andstæðingunum í mat?  Frakkar eru miklir matmenn, kannski væri nóg að skilja kjötið eftir á tröppunum hjá franska liðinu – með skammti af brúnni sósu og sultu?

(Það má svo minna á að einn frægasti sigur íslensks fótboltaliðs var þegar hingað kom úrvalslið frá Kaupmannahöfn árið 1919. Lið Reykjavíkur náði að sigra danska liðið glæsilega, 4-1, og er skýringin talin vera sú að daginn fyrir leik var Dönunum boðið í langan reiðtúr – og voru að farast úr harðsperrum.)

Stuðningsmenn eiga að ganga fyrir

Nú þurfa menn að sjá til þess að stuðningsmenn Íslands í Tólfunni komist á leikinn í París. Annað gengur hreinlega ekki. Tólfan á að ganga fyrir. Það verður þá bara að hafa það þótt eitthvað fyrirfók eða stjórnmálamenn komist ekki á leikinn – þegar pólitíkusar fara að láta sjá sig á íþróttaleikjum er það hvort sem er yfirleitt í sjálfsupphafningarskyni, í von um að eitthvað af íþróttafrægðinni sáldrist yfir þá. En yfirleitt er almenningi alveg sama hvort þeir eru þarna eða ekki.

 

Þriðjudagur 28.6.2016 - 22:34 - Ummæli ()

Flýgur fiskisagan

Það gerist ýmislegt á svona eyju. Um daginn datt asni fram af grjótvegg og það þurfti hóp fílefldra karla til að draga hann upp. Ég er hræddur um að þeir hafi orðið að lóga dýrinu.

Lítill strákur sem heitir Elías og hleypur stundum eftir stærri strákum sem eru í fótbolta datt og braut á sér úlnliðinn, hann er kominn í fatla og ber sig vel. Þegar svona gerist þarf að leita læknishjálpar á næstu eyju. Elías er fallegur drengur með stór brún augu sem bræða alla sem horfa í þau.

Svo er það fiskurinn skrítni sem kom á land. Hann er hérna á myndinni. Það var fiskimaður, Vassilis að nafni, sem fékk hann í netið hjá sér og lagði hann þarna á hafnarbakkann til sýnis.

Fiskurinn er ekki bara óætur, hann er líka baneitraður, þótt hann virðist sakleysislegur. Á grísku kallast hann λαγοκεφαλος, latneska fræðiorðið er lagocephalus sceleratus, á ensku er heitið silver cheeked toadfish. Íslenskt heiti finn ég ekki.

Ef fiskurinn er étinn getur hann valdið lömun í vöðvum, hjartastoppi og köfnun. Þekkt eru dæmi um að fólk hafi dáið af neyslu hans.

Grikkirnir sem ræddu við mig um þennan furðufisk nefndu Súezskurðinn. Ég vissi ekki alveg hvað þeir áttu við. Alnetið fræðir mig um að þessi fisktegund sé ekki upprunaleg í Miðjarðarhafi, heldur teljist hún vera lessepsíkskur flakkari. Það er dálítið stórt orð, en skilst auðveldlega þegar rifjað er upp að Ferdinand de Lesseps var aðal hvatamaðurinn að því að Súezskurðurinn var grafinn.

Fiskurinn barst semsagt ásamt fleiri tegundum úr Rauðahafinu yfir í Miðjarðarhafið eftir að Súezskurðurinn varð til. Flakk tegundanna er yfirleitt í þá áttina og stendur ennþá yfir – hefur verið sjávarlíffræðingum nokkuð áhyggjuefni.

 

IMG_0420

Þriðjudagur 28.6.2016 - 09:03 - Ummæli ()

Sigurdsson, Sigthorsson?

Steve McClaren, fyrrverandi landsliðsþjálfari Englendinga, er með þetta. Þetta var á Sky Sports í gærkvöldi. Í Englandi er farið að tala um þetta sem besta sjónvarpsaugnablik ársins. Maður horfir á manninn gleypa orð sín.

 

 

Nágranni okkar hérna kom og þakkaði okkur í morgun. Hann hafði veðjað á Ísland á netinu. Græddi vel. Fékk 9,5 evrur fyrir hverja evru sem hann lagði fram.

Mánudagur 27.6.2016 - 22:51 - Ummæli ()

Lofaði heimsreisu

Ég missti mig yfir leiknum, eins og kannski fleiri, gat ekki alveg horft, fór frá, stóð álengdar, færði mig nær og svo aftur burt. Tók meira að segja einn stuttan göngutúr. Ekki hægt að sitja kyrr yfir svona.

Svo var ég alveg búinn að missa það og lofaði fjölskyldu minni heimsreisu ef Ísland myndi vinna. Það voru meira að segja vitni að því. Þau rukka mig kannski um þetta seinna.

En það var ekki eins og við værum ein. Íslenska liðið var hér dyggilega stutt af Grikkjum, Ítölum, Svíum, Norðmönnum – og meira að segja konu frá Færeyjum. Sigrinum var vel fagnað og alls staðar fengum við hamingjuóskir.

Maður er enn eins og skringilega léttur í höfðinu og getur ekki farið að sofa. Verður einhver bið á því.

Það er fallegt að sjá hvað íslenska liðið er samstillt, yfirvegað og prúðmannlegt. Það er einfaldlega mikil reisn yfir því. Það var dæmigert þegar Aron Einar Gunnarsson átti skot að marki undir lok leiks, það mistókst, og hann fór að skellihlæja.

13439023_10154248034073232_3734802268664606542_n

 

Og þetta getur eiginlega ekki verið sætara – ensku fjölmiðlarnir eru lagstir í ógurlegar sjálfsásakanir, en vinur minn breskur blaðamaður sem fylgist vel með segir að þeir nefni fæstir hvað Íslendingar séu í raun góðir.

Fantastic performance, great story, you will have the whole world supporting you now. I hope the journey continues, and I hope you have a great party. The TV coverage here is embarrassing. It’s all about how crap England were, and nothing about how good Iceland were.  You all must be so proud. Keep up the good work.

Svo má bæta því við að eftir að hafa horft á leiki dagsins tel ég mig hafa séð tvo bestu markmenn heims: Gianlugi Buffon og Hannes Halldórsson. Hannes er reyndar líka kvikmyndagerðarmaður, eins og skýrt hefur verið frá í erlendum fjölmiðlum, það segir sitt um liðið.

 

Screen Shot 2016-06-28 at 00.45.27(Myndin er af Facebook-síðu Dags B. Eggertssonar.)

Screen Shot 2016-06-28 at 00.55.19

En svona lítur þetta út. Ekki alveg slæmur staður til að vera á!

13502823_10154377795521995_5038256617601804261_o

Hér er svo forsíða Verdens Gang, víðlesnasta dagblaðs Noregs.

Mánudagur 27.6.2016 - 16:12 - Ummæli ()

Áfram Ísland

Hér halda allir með Íslandi. Kannski býst maður ekki við sigri í kvöld, en þetta er allt mjög frækilegt.

 

13490718_10154313375642718_2929274938710183150_o

Uppstilling: Sigurveig.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is