Þriðjudagur 16.9.2014 - 13:14 - Ummæli ()

Stórhýsið við Hlemm

Facebook vinkona mín setti þessa mynd af Hlemmtorgi á vefinn, mér sýnist hún vera tekin nálægt 1970. Þarna er biðstöðin á Hlemmi ekki risin og hið nokkuð einkennilega stórhýsi sem gnæfir yfir torgið nýtur sín ágætlega.

Húsið telst vera Laugavegur 105 og er elsti hluti þess frá 1926, teiknaður af Einari Erlendssyni, sem síðar varð húsameistari ríkisins. Það er í fúnkísstíl, en var upprunalega byggt sem bifreiðasmiðja af Sveini Egilssyni.

Margháttuð starfsemi hefur verið þarna í gegnum tíðina, banki, náttúrusafn – en nú er að flytja þarna inn alls kyns menningartengd starfsemi.

Þau svæði miðborgarinnar þar sem er að finna líf eru að stækka og breiðast út. Í kringum Hlemm eru ýmsir vaxtamöguleikar, enda mun íbúum í grenndinni fjölga mikið á næstu árum – fyrir utan ferðamennina. Í horninu á Laugavegi 105 þar sem áður var bankaútibú er nú kominn bar sem nýtur vinsælda.

Hér á myndinni sést gamla strætóskýlið við Hlemm. Það er í rauninni dálítið fallegt í laginu, þótt líklega hafi það verið óhentugt. Að minnsta kosti er það betra en hryllingurinn sem reis 1977-1978 og var eins og sérhannaður til að hýsa félagsleg vandamál.

Enda reyndist húsið vera annar af tveimur stöðum á Íslandi sem var nógu óvistlegur til að pönk gæti sprottið þar upp – hinn var skiptistöðin í Kópavogi.

 

10620465_10204636431972042_2183211146349077436_o

Mánudagur 15.9.2014 - 23:25 - Ummæli ()

Ekki smekklegt

Hvernig tekst leiðarahöfundi Fréttablaðsins, sem er Fanney Birna Jónsdóttir, lögfræðimenntuð kona, að ná að tengja annars vegar allsendis ósannaðar ásakanir á hendur sérstökum saksóknara – bornar fram af manni sem á harma að hefna gagnvart embættinu og – jú, Geirfinns- og Guðmundarmál?

Í málunum sem sérstakur saksóknari fæst við eru hinir grunuðu upp til hópa sterkefnaðir menn með her lögfræðinga á sínum snærum – og fjölmiðla líka. Brotin tengjast flest bönkum sem almenningur neyddist til að treysta á. Í Geirfinns- og Guðmundarmálunum voru ungmenni sem áttu ekkert undir sér, mjög líklega saklaus, lokuð inni í einangrun svo mánuðum skipti, beitt alls kyns harðræði og dæmd á grundvelli vafasamra játninga.

Þetta er vægast sagt ósmekklegt og eykur ekki tiltrúna á blaðinu þegar nýbúið er að gera stórfelldar breytingar á ritstjórninni – að því er virðist til að beygja hana frekar undir vald eigenda blaðsins.

 

Mánudagur 15.9.2014 - 19:51 - Ummæli ()

Reynt var að útiloka kommúnista frá ríkisstjórnum, hví ekki hægriöfgamenn?

Björn Bjarnason skrifar grein á Evrópuvaktina þar um kosningarnar í Svíþjóð. Hann vitnar í dönsku stjórnmálakonuna Piu Kjærsgaard – sem kvartar undan því að stjórnmálaflokkar í Svíþjóð ætli að hafa úrslit kosninganna að engu með því að útiloka Svíþjóðardemókrata frá stjórnarþátttöku. Þar sé verið að halda næstum „áttunda hverjum kosningabærum Svía utan dyra“.

Björn Bjarnason sleit sínum pólitísku bernskuskóm í Kalda stríðinu. Má segja að þar hafi hann verið í liði haukanna.

Eitt þótti alveg fráleitt í liði hans – og það var að hleypa kommúnistum að völdum. Samt náðu þeir oft feiki góðum árangri í kosningum í Evrópu. Í Frakklandi náði flokkurinn fjórðungs fylgi, á Ítalíu þriðjungsfylgi. Á Norðurlöndunum voru kommúnistaflokkar yfirleitt ekki í ríkisstjórnum nema í stuttan tíma eftir seinni heimstyrjöldina, áður en Kalda stríðið hófst.

Nú heyrir kommúnisminn mestanpart sögunni til í Vestur-Evrópu. Drjúgur hluti fylgis þeirra byggðist á megnri óánægju með ríkjandi þjóðfélagsskipan. Og fylgið sem flokkar eins og Svíþjóðardemókratar fá er líka tilkomið vegna óánægju.

Hér er myndband þar sem Jimmie Akesson, formaður Svíþjóðardemókratarna, syngur lag um morðið á Olof Palme.

Mánudagur 15.9.2014 - 15:42 - Ummæli ()

Svört forsíða

Þetta er töff forsíða – en fjallar um alvörumál.

Þetta er sænska dagblaðið Expressen og segir:

Í gær kusu 781120 Svíar hægriöfgaflokk.

BxjpUXhIcAAaO3H

Mánudagur 15.9.2014 - 11:55 - Ummæli ()

Hvert er umhugsunarefnið?

Það er að sönnu rétt að vinstri menn unnu engan sigur í Svíþjóð í gær, þótt líklega verði þeir næstir til að stjórna landinu.

Það sem gerðist var að fylgi færðist frá hófsömum hægriflokki, Moderaterna, yfir á hægriöfgaflokk, Svíþjóðardemókratana.

Það eru uggvænleg tíðindi – og margir Svíar eru í sjokki í dag.

Moderaterna, Hófsama flokknum, hefur tekist ágætlega upp við stjórn Svíþjóðar síðustu átta árin. Meðal ríkja heims er Svíþjóð algjörlega í fremstu röð. Ríkisstjórnin stóð fyrir lækkun skatta og einkavæðingu.

Þannig togast þetta á í Svíþjóð – samfélagið var á tíma komið alltof langt á braut forsjárhyggju og ofurskattlagningar undir stjórn Sósíaldemókrata. Nú þykir mörgum í Svíþjóð að hallist of langt í hina áttina.

Það er ekkert óeðlilegt við þetta.

En framgangur Svíþjóðardemókratanna setur strik í reikninginn – innan þess flokks eru öfl sem beinlínis má telja fasísk. Og maður er líka hugsi yfir sumum viðbrögðunum.

Til dæmis skrifar Hannes Hólmsteinn Gissurarson í grein í Pressuna:

Þessi þróun hýtur að vera íslenskum hægri mönnum umhugsunarefni. Skilaboðin eru skýr.

Hvert er umhugsunarefnið? Eiga hægri menn á Íslandi að fara að elta Svíþjóðardemókratana?

Hér má sjá unga fólkið í Svíþjóðardemókrötum. Varúð, þetta er býsna ógeðfellt – og þá ekki bara hinn málhalti Íslendingur sem þarna talar.

 

Sunnudagur 14.9.2014 - 22:43 - Ummæli ()

Sandy Bar – höfuðkvæði Nýja Íslands

Í fjórða þætti Vesturfara var fjallað um kvæðið Sandy Bar eftir Guttorm J. Guttormsson. Við heyrðum meðal annars höfundinn flytja brot úr því. Þetta er réttnefnd höfuðkvæði Nýja Íslands. Eins og kom fram í þættinum var Guttormur, sem var allt sitt líf bóndi, hámenntaður maður, þótt hann gengi einungis þrjú ár í barnaskóla.

Á Sandy Bar við Winnipegvatn var byggð sem fór hæðilega illa út úr bólusótt sem herjaði árin 1876 og 1877. Skáldið gengur niður að vatninu, það gerir þrumuveður og svipir fortíðarinnar birtast. Ég ætla reyndar að fullyrða að þetta sé með magnaðri ljóðum á íslensku – og lokalínurnar, þær eru stórfenglegar, eins og ég sagði í þættinum í kvöld.

Það var seint á sumarkveldi
sundrað loft af gný og eldi,
Regn í steypistraumum felldi,
stöðuvatn varð hvert mitt far.
Gekk ég hægt í hlé við jaðar
hvítrar espitrjáaraðar,
Kom ég loks að lágum tjaldstað
landnemanna’ á Sandy Bar,
Tjaldstað hinna löngu liðnu
landnámsmanna á Sandy Bar

Þögnin felur þeirra heiti.
Þeir voru lagðir hér í bleyti.
Flæddi þá um laut og leiti
lands, við norðan skýjafar.
Andi dauðans yfir straumi
elfar, sveif í hverjum draumi.
Var þá sem hans vængjaskuggi
vofði yfir Sandy Bar.
Skuggablik hans fálkafjaðra
félli yfir Sandy Bar.

Það er hraustum heilsubrestur:
hugboð um að verði gestur
kallið handan, höndum frestur
hlotnist ei að smíða far,
þá til ferðar yfir álinn
ei er reiðubúin sálin, –
og á nálaroddum voru
iljar manna, á Sandy Bar,
voru á nálum óljóss ótta
allir menn á Sandy Bar.

Að mér sóttu þeirra þrautir,
þar um espihól og lautir,
fann ég enda brenndar brautir,
beðið hafði dauðinn þar.
Þegar elding loftið lýsti,
leiði margt ég sá, er hýsti
landnámsmanns og landnámskonu
lík – í jörð á Sandy Bar,
menn, sem lífið, launað engu
létu fyrr á Sandy Bar.

Heimanfarar fyrri tíða
fluttust hingað til að líða,
sigurlaust að lifa, stríða
leggja í sölur heilsufar,
falla, en þrá að því að stefna
þetta heit að fullu efna:
meginbraut að marki ryðja
merkta út frá Sandy Bar,
braut til sigurs rakleitt, rétta
ryðja út frá Sandy Bar.

ég varð eins og álft í sárum,
og mér þótti verða, að tárum
regn af algeims augnahárum –
ofan þaðan grátið var,
reiðarslögin lundinn lustu,
lauftrén öll hin hæstu brustu,
sem þar væru vonir dauðra
veg að ryðja, á Sandy Bar,
ryðja leiðir lífi og heiðri
landnemanna á Sandy Bar.

Vonir dána mikilmagnans
mega færa áfram vagn hans,
verða, að liði, vera gagn hans,
vísa mörgum í hans far.
Rætast þær í heilum huga
hvers eins manns, er vildi duga,
og nú kenndur er við landnám
allt í kringum Sandy Bar,
hefir lagt sér leið að marki
landnemanna á Sandy Bar.

Hafin verk og hálfnuð talin
helgast þeim, sem féllu’ í valinn.
– Grasnál upp með oddinn kalinn
óx, ef henni leyft það var,
en þess merki í broddi bar hún
bitru frosti stýfð að var hún.
Mér fannst græna grasið kalið
gróa kringum Sandy Bar,
grasið kalið ilma, anga
allt í kringum Sandy Bar.

Ég fann yl í öllum taugum,
og mér birti fyrir augum.
Vafurloga lagði af haugum
landnámsmanna nærri þar.
Gullið var, sem grófst þar með þeim,
gildir vöðvar, – afl var léð þeim, –
þeirra allt, sem aldrei getur
orku neytt á Sandy Bar.
Það, sem ekki áfram heldur,
er í gröf á Sandy Bar.

Stytti upp og himinn heiður
hvefldist stirndur, meginbreiður
eins og vegur valinn, greiður,
var í lofti sunnan far. –
Rofinn eldibrandi bakki
beint í norður var á flakki.
Stjörnubjartur, heiður himinn
hvelfdist yfir Sandy Bar,
himinn, landnám landnemanna,
ljómaði yfir Sandy Bar.

guttormsson_gj

Guttormur J. Guttormsson við leiði Betsy Ramsey, en hún kom einnig við sögu í Vesturförum í kvöld. Maður hennar, indíáninn John Ramsey, dró steininn á ís langa leið og setti hann þarna niður. Betsy dó í bólusóttinni sem herjaði við Winnipegvatn við upphaf íslenska landnámsins.

Hér má svo sjá þáttinn síðan í kvöld.

Sunnudagur 14.9.2014 - 15:29 - Ummæli ()

Vesturfarar í kvöld

Hér er mynd úr Vesturförum í kvöld. Þátturinn er á Rúv klukkan 20.10.

Myndin er tekin í Árborg við Winnipegvatn.

Þarna eru David Gislason, skáld og bóndi, og Bragi Simundsson.

Þeir kveða saman í þættinum Lækjarvísur eftir Gísla Ólafsson.

Þátturinn fjallar annars að miklu leyti um skáldskapinn og bókmenntirnar á Nýja Íslandi.

bragi og david

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is