Þriðjudagur 23.8.2016 - 22:42 - Ummæli ()

Hin gljáfægða kaffivél

Hér eru tvær ljósmyndir sem báðar tengjast þeim fræga veitingastað Hressingarskálanum. Önnur er af vefnum Gamlar ljósmyndir og sýnir garð Hressingarskálans. Myndin er sýnist manni tekin á fjórða áratug síðustu aldar, fatatískan bendir til þess, sérstaklega má benda á gengilbeinu með kappa í hári sem er neðst til vinstri á myndinni. Þetta virkar eins og góður dagur – þegar ég var að alast upp í Reykjavík löngu síðar þótti nær óhugsandi að bera fram veitingar undir beru lofti.

Eins og sjá má er stórhýsi Eymundssonar ekki risið á myndinni, þarna eru í bakgrunni hús sem þurftu að víkja fyrir steinsteypu, en í bakgrunni má sjá Pósthúsið og Útvegsbankahúsið eins og það leit út áður en byggt var ofan á það.

 

245_001

 

Hressingarskálinn var stofnaður 1929 af Birni Björnssyni stórkaupmanni og konditor, sbr. Björnsbakarí. Hann var fyrst til húsa í Pósthússtræti, í húsi Natans & Olsens,  í rými þar sem eitt sinn var snyrtivöruverslun, en inn um dyrnar sem voru skáhallt á móti var gengið inn í Reykjavíkurapótek.

Veitingahúsið var svo flutt í Austurstræti 1932 og hefur verið þar síðan. Þarna er það í einu af elstu húsum Reykjavíkur, það er byggt 1805 og gekk undir nafninu Landfógetahúsið. Síðar eignaðist KFUM húsið – vegna þess stóð nokkur styrr þegar vínveitingar hófust á Hressó, eins og staðurinn hét þá, í kringum 1990. Það þótti ekki samrýmast kristilegum gildum.

Um tíma var svo McDonalds staður rekinn í húsinu – maður er satt að segja næstum búinn að gleyma þeim kafla í sögu þess – það var á árunum 1995 til 2003. Sjálfur forsætisráðherra þjóðarinnar, Davíð Oddsson, borðaði fyrsta borgarann þegar þessi keðja tók til starfa á Íslandi – slík var ánægjan. Það var næstum eins og í Sovétríkjunum þar sem fólk notaði umbúðir frá McDonalds til að skreyta heimili sín fyrst eftir að var opnað í Moskvu.

Nú kallast staðurinn Hressingarskálinn á nýjan leik. En það verður að segjast eins og er að ekki er sami ljóminn af honum og á árum áður. Garðurinn ert til dæmis í niðurníðslu.

En hér er önnur mynd sem er líka tekin á Hressingarskálanum. Ég rakst á hana á skrifstofu þar sem ég kom í dag, smellti af henni mynd á símann, gæðin mættu vera meiri.

Í texta með myndinni stendur:

Björn Björnsson, konunglegur hirðbakari, t.h., og ítalskur aðalsmaður í Hressingarskálanum sem Björn rak þegar myndin var tekin um 1930. Skálinn var þá til húsa í Natans & Olsenshúsinu. Kaffivélin á boðinu var nýlunda á Íslandi um 1930.

Það er einmitt kaffivélin sem maður rekur augun í – og að auki glæsilegar kökurnar í borðinu. Þetta er kaffivél af nýjustu sort á þessum tíma, að öllum líkindum ítölsk að gerð. Það væri forvitnilegt að vita um sögu þessarar vélar. Hún er stór og glæsileg og gljáfægð og með mörgum handföngum líkt og vélar frá framleiðendum eins og  La Marzocco og La Pavoni  – og spurning hvernig kaffið var sem kom úr henni? Var þetta einhvers konar pressukaffi? Er þarna áður ókönnuð vídd í kaffidrykkjusögu þjóðarinnar?

 

14081467_10154470482090439_589217261_n

 

Þriðjudagur 23.8.2016 - 19:51 - Ummæli ()

Hægri svipur á Viðreisn

Viðreisn er að fá til sín mjög öfluga liðsmenn í framboð, því verður ekki neitað. Pawel Bartozsek og Þorsteinn Víglundsson eru báðir afburðaklárir menn. Það vekur líka athygli að framkvæmdastjóri SA, helsta félagsskapar atvinnulífsins, skuli fara í framboð fyrir annan flokk en Sjálfstæðisflokkinn. Á árum áður hefði það verið óhugsandi.

Pawel og Þorsteinn eru báðir hægri menn, markaðssinnaðir og alþjóðasinnaðir. Það er í þessum tveimur atriðum sem skilur helst milli þeirra og Sjálfstæðisflokksins eins og hann er nú um stundir. Það hefur verið talað um Viðreisn sem einhvers konar miðjuflokk, en þarna hallast hann til hægri. Með þessa menn í forystu er hann skeinuhættari Sjálfstæðisflokknum en manni hefur virst, en ólíklegri til að skaða Samfylkinguna. En hún á náttúrlega nóg með að verjast ógninni frá Pírötum.

Á móti sýnist manni Píratarnir hallast lengra til vinstri en horfur voru á. Áherslur þeirra eru býsna kratískar. Þetta gæti minnkað líkurnar á að Píratar og Viðreisn nái saman í ríkisstjórn.

 

 

Þriðjudagur 23.8.2016 - 13:15 - Ummæli ()

Hræringar í bókaútgáfu

Merkilega lítið hefur farið fyrir því í fjölmiðlum en miklar hræringar eru í bókaútgáfu þessa dagana. Þar er reyndar eitthvert óstöðugasta rekstarumhverfi sem þekkist á Íslandi – og er þó af nógu að taka í því efni.

Eins og áður er komið fram er Guðrún Vilmundardóttir hætt hjá Bjarti, en Páll Valsson hefur tekið við starfi hennar sem útgáfustjóri. En Guðrún ætlar að stofna nýtt forlag og er hermt að Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur fari með henni og hugsanlega Jón Kalman Stefánsson líka.

Þorgerður Agla Magnúsdóttir hefur starfað hjá Miðstöð íslenskra bókmennta en mun nú ætla að stofna sitt eigið útgáfufélag. Þess má geta að sambýlismaður Þorgerðar Öglu er Hallgrímur Helgason rithöfundur, en sagan segir að hún muni fyrst um sinn einbeita sér að útgáfu barnabóka.

Svo er líka talað um hræringar hjá stórveldinu í bókaútgáfunni, sjálfu Forlaginu. Það hefur verið ráðandi á markaði um nokkurt skeið, eða lengst af frá því hinni misheppuðu tilraun með útgáfurisann Eddu. Sagan segir að þar hugsi Jóhann Páll Valdimarsson sér til hreyfings og vilji selja hlut sinn. Undanfarin ár hafa þeir stjórnað útgáfunni Jóhann og sonur hans Egill.

Gamla Mál & menning, eða það sem eftir er af því félagi, á stóran hlut í Forlaginu á móti feðgunum. Ekki er vitað til þess að sá hlutur sé til sölu né að sá aðili sé þess fýsandi að stækka eignarhlut sinn.

Það myndi sæta tíðindum ef Jóhann Páll hyrfi úr bókaútgáfunni. Enginn íslenskur forleggjari á jafn litríkan feril og hann. Á unga aldri stjórnaði Jóhann Páll útgáfufélagi föður síns, Iðunni, á miklum stórveldistíma. Síðan stofnaði hann Forlagið sem óx og dafnaði, gaf út bækur eftir öndvegishöfunda, en rann loks saman við Mál & menningu og  Eddu. Eftir það héldu margir að Jóhanni væri öllum lokið, en hann reis upp eins og fuglinn Fönix og byggði á skömmum tíma upp það veldi sem JPV/Forlagið er nú.

Og það má Jóhann Páll eiga að yfirleitt gefur hann út góðar bækur – það er gæðastimpill að gefa út bók hjá honum, mikill metnaður hefur alltaf einkennt starf hans í bókaútgáfu og hann hefur kunnað að velja góða höfunda og góða samstarfsmenn.

Ein kenning er reyndar sú að einhver skemmtilegasta bók sem gæti verið völ á sé ævisaga Jóhanns sjálfs – sögur úr bókaútgáfunni og af samskiptum við höfunda.

 

d81ba026b430bcba1913f24382170d94

Mánudagur 22.8.2016 - 20:33 - Ummæli ()

Undir áhrifum – Ragnar Aðalsteinsson

Hér er útvarpsþátturinn Undir áhrifum frá því á laugardaginn. Gestur minn í þættinum var Ragnar Aðalsteinsson lögmaður.

Ragnar sagði meðal annars frá því að hann væri kominn af miklu félagsmálafólki, áhuga á kvikmyndum sem hann hafði sem ungur maður og kynnum að Þorgeiri Þorgeirsyni. Svo fátt eitt sé nefnt. Og hann þreytti auðvitað Proust-prófið eins og aðrir gestir í þessum þáttum.

Hlustið með því að smella hér.

 

a7dbb07f2c-380x230_o-1

Mánudagur 22.8.2016 - 12:18 - Ummæli ()

Toots svífur

Belgíski munnhörpusnillingurinn Toots Thielemans er látinn í hárri elli. Þetta er maður sem spilaði með Miles, Oscar, Ellu, Bird og Bill Evans.

Ég get varla hugsað mér neitt betra með honum en þetta fallega lag eftir Pat Metheny, Always and Forever frá 1992.

Toots kemur ekki inn fyrr en á 3.53. En hvílík innkoma – lagið svífur eins og inn í eilífðina.

 

Sunnudagur 21.8.2016 - 12:32 - Ummæli ()

Óhefðbundin íþróttalýsing slær í gegn

Ólympíuleikunum lýkur í Ríó í dag. Þeir virðast hafa farið ágætlega fram – að minnsta kosti hefur keppni í þeim greinum sem ég hef fylgst með verið ljómandi skemmtileg. Af því sem ég hef séð finnst mér frjálsíþróttafólkið frá Jamaica standa upp úr. Það er ótrúlegt hvað þessi fámenna þjóð (aðeins 2,7 milljón íbúa) á mikið af frábærum íþróttamönnum. Það er líka gaman að sjá hvað íþróttafólkið frá þessari eyju í Karíbahafinu er glaðlegt, brosandi og jákvætt.

Mér fannst eiginlega flottasta augnablikið sem ég sá í sjónvarpinu gerast úti á æfingavellinum fyrir fáum dögum. Þá hittust þau hinn tröllvaxni Usain Bolt og hin agnarsmáa Vivian Cheruiyot frá Kenía. Þau ræddust við og maður sá síðan að þau kvöddust með faðmlagi. Cheruiyot sigraði sama kvöld óvænt í 5000 metra hlaupi, Bolt er að fara á spjöld sögunnar sem einn mesti íþróttamaður allra tíma.

Nú sest maður spenntur niður og horfir á síðasta viðburð leikanna samkvæmt hefð – það er maraþonið. Skemmtilegt sjónvarpsefni? Jú, getur það ekki bara verið? Meðfram sér maður göturnar í Ríó í rigningu.

 

CqUKpLiWYAAsao0

 

En þetta er ekki allt jafn skemmtilegt eða auðskiljanlegt. Maður þekkir ekki haus né sporð á sumum íþróttagreinum, þótt þær séu örugglega frábærar fyrir iðkendur þeirra. Lýsendurnir eru líka misjafnir, þeim tekst ekki alltaf að kveikja hjá manni áhuga, og fátt er leiðinlegra en langar verðlaunahafhendingar.

Þessi írski lýsandi er býsna óhefðbundinn, en honum tekst að gera siglingar á smábátum nokkuð áhugaverðar með því í raun að misskilja allt. Þetta myndskeið hefur slegið í gegn. Þetta er reyndar mjög írskur húmor.

 

 

Föstudagur 19.8.2016 - 17:08 - Ummæli ()

Píratar og Samfylkingin

Það boðar varla gott fyrir Samfylkinguna þegar hún er á leið í kosningar að þrír af hverjum fjórum kjósendum skuli segja að ekki komi til greina að kjósa flokkinn. Þetta má lesa úr skoðanakönnun sem greint er frá hér á Eyjunni í dag.

Staðreyndin er sú að engum stjórnmálaflokki stafar meiri hætta af Pírötum en Samfylkingunni. Gangi Pírötum vel í kosningunum er öruggt að Samfylkingunni gengur illa. Sveifla Samfylkingarinnar niður fyrir 10 prósentin gerist á sama tíma og uppsveifla Pírata.

Vandi Samfylkingarinnar er ekki síst fólginn í því að Píratar virka eins og yngri og frískari útgáfa af flokknum, með stefnumál sem Samfylkingin hefur lengi haft, eins og endurskoðun kvótakerfisins og stjórnarskrá (og að auki jafnrétti sterka áherslu á eflingu velferðarkerfisins). En þetta eru mál sem hefur hvorki gengið né rekið með hjá Samfylkingunni þrátt fyrir að hún hafi aðild að tveimur ríkisstjórnum síðasta áratuginn. Ímynd Samfylkingarinnar er mjög illa löskuð – meðan ára Píratanna er hrein og fersk.

Píratar eru sumpart eins og uppfærð og nútímalegri útgáfa af Samfylkingunni – Samfylking 2.0 með viðbættri áherslunni á internetið. Þeir eiga núorðið afskaplega lítið skylt með hinni upprunalegu Píratahreyfingu í Svíþjóð og Þýskalandi, pólitísk markmið hennar voru miklu þrengri. Kannski eru íslensku Píratarnir vísbending um hvert jafnaðarmannahreyfing í kreppu getur haldið? Um leið eru það þeir sem geta orðið þess valdandi að Samfylkingin verður að algjörum smáflokki eða jafnvel hverfur. En á hinn bóginn má segja að Samfylkingin sé lang eðlilegasti samstarfsflokkur Pírata í ríkisstjórn – og öfugt.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is