Sunnudagur 30.04.2017 - 17:21 - Ummæli ()

CRISPR – úr Silfrinu í dag

Silfrið í dag endaði á viðtali við Ernu Magnúsdóttur, sem er dósent í lífeinda- og líffærafræði við læknadeild Háskóla Íslands. Við ræddum um erfðavísindi, nánar tiltekið CRISPR. Þetta eru uppgötvanir sem þykja marka mikil tímamót, inngrip í erfðaefnið sem gæti verið hægt að nota gegn krabbameini og ýmsum erfðasjúkdómum, en hugsanlega líka til að eiga við fósturvísa, jafnvel þannig að börn verði hærri, gáfaðari eða með bláan auglit.

Framfarirnar í þessari grein eru mjög hraðar og álitamálin mörg og stór, ekki síst þau siðferðislegu. Jennifer Doudna, sem er einn af frumkvöðlum þessarar tækni, hefur kallað eftir tímabundnu banni við því að þessi tækni verði notuð. Þessi tækni gæti orðið mjög útbreidd, hún þykir ekki ýkja dýr miðað við margt á þessu sviði, og það gæti verið erfitt að hefta framþróun hennar.

Í þættinum nefndi ég hlaðvarp sem er mjög áhugavert í þessu sambandi. Erna taldi reyndar að sumt í því væri dálítið ýkjukennt, en ljóst er að þarna erum við hugsanlega að komast út á svið sem hingað til hefur verið í vísindaskáldskapardeildinni. Hlaðvarpið er úr vinsælum vísindaþætti sem nefnist Radiolab og er framleiddur af almenningsútvarpsstöðinni WNYC í New York.

Í þættinum er meðal annars rætt um möguleikann á að nota svokölluð genadrif til að breyta moskítóflugum þannig að þær hætti að bera malaríusmit. En slíkt gæti haft ýmsar afleiðingar. Erna hafði þó efasemdir um að slíkt væri alveg á næsta leyti.

 

Sunnudagur 30.04.2017 - 10:07 - Ummæli ()

40 ár að villast stutta leið

Hér er nokkuð skemmtileg mynd. Sagan er auðvitað margslungin og við skulum ekki gera lítið úr hvað gæti verið táknrænt í henni. Gyðingaþjóðin veður villu og svíma þar til hún finnur fyrirheitna landið – og á leiðinni verða uppákomur eins og smíði Gullkálfsins. Þar var að verki Aron – nú vinsælasta nafn á Íslandi – bróðir Mósesar. Og svo lentu Ísraelsmenn í átökum á leiðinni. En Móses sjálfur komst ekki alla leið.

En þetta er óneitanlega nokkuð vel í lagt, að villast í fjörutíu ár á leið sem er álíka löng og frá Reykjavík til Egilsstaða. (Odysseifur villtist í tíu ár um Eyjahafið sem er ekki mjög stórt en þó allmikið víðfemara.) Þegar þetta er sett upp á nútíma korti eins og það birtist á símaskjá er þetta pínu spaugilegt. En við nútímafólk eigum náttúrlega ekki alltaf að setja okkur á háan hest.

Ein uppástunga með myndinni hljómar svo:

Móses var karl og hefur örugglega ekki spurt til vegar.

 

Laugardagur 29.04.2017 - 10:55 - Ummæli ()

Frakkar á Íslandi kusu Macron og Mélenchon

Frakkar sem búa á Íslandi kusu flestir Emmanuel Macron eða Jean Luc Mélenchon. Þetta má lesa á vefsvæði stórblaðsins Le Monde en þar er unnið úr kosningagögnum frá franska innanríkisráðuneytinu. Macron fékk 77 atkvæði kosningunni í Reykjavík, Mélenchon 69 atkvæði, Benoit Hamon 29 atkvæði, Francois Fillon 14 atkvæði en Marine Le Pen aðeins 11 atkvæði.

Upplýsingarnar eru birtar svona á vef Le Monde, þar má líka sjá prósentutölurnar.

 

 

Svo er nokkuð athyglisvert í þessu sambandi hvernig staðið er að utankjörstaðaatkvæðagreiðslu. Á Facebook bendir Jóhannes Hraunfjörð Karlsson, sem hefur verið búsettur í Frakklandi, á eftirfarandi:

Tekurðu eftir muninum á kosningaframkvæmdinni? Franska sendiráðið sér um að menn kjósi og síðan telur það atkvæði og birtir tölfræðina en þetta gerir hvert bæjarfélag fyrir sig þar. Íslenska sendiráðir sér ekki einu sinni um að senda atkvæðið fyrir þig til Íslands, m.ö.o., ef póstþjónustan nennir ekki að bera út atkvæðið þitt tímanlega glatast það.

Föstudagur 28.04.2017 - 19:17 - Ummæli ()

„Með hverju ári eru fleiri hlerar negldir þar fyrir glugga“

Í svonefndri Jóladagbók barnanna í Morgunblaðinu á sjálfan aðfangadag 1972 birtist þessi ljósmynd. Eins og sjá má var hún eftir tólf ára dreng, Torfa Hjaltason. Blaðið hafði haldið ljósmyndasamkeppni meðal barna og birti afraksturinn á þessum tíma. Þarna var ekki um það að ræða að taka myndir og hlaða inn í tölvu eða áframsenda beint, nei þær varð að framkalla á pappír. Í mörgum skólum störfuðu ljósmyndaklúbbar þar sem börn fengu aðgang að framköllunargræjum og myrkraherbergjum. Ég dáðist alltaf að börnum sem stóðu í þessu – einn bekkjarfélagi minn, Skúli Gautason, var ötull ljósmyndari og tók fínar myndir af okkur krökkunum. Annars var ekkert sérlega mikið verið að mynda mann í þá daga. Ég man eftir sirka fimm ljósmyndum af sjálfum mér á árunum frá 12-16 ára, það eru aðallega skólamyndir eða myndir sem voru teknar kringum íþróttamót.

En aftur að myndinni hér að neðan. Þetta er býsna glúrið sjónarhorn hjá hinum unga ljósmyndara. Það er ekkert sérstaklega verið að fegra borgina sem þarna birtist, þetta er býsna napurt raunsæi. Myndin er tekin í Grjótaþorpinu, í Fischersundi, það er dumbungsveður og niðurníðslan leynir sér ekki. Við sjáum hús sem nefnist Hákot – það var síðar gert fallega upp. Dökkmálaða húsið sem er til hægri í myndinni er var rifið.

Þetta var á árunum þegar enn voru horfur á að mestallt Grjótaþorpið yrði rifið, samkvæmt þágildandi aðalskipulagi sem lagði mesta áherslu á greiða bílaumferð gegnum bæinn. Frá þeim var horfið að endingu, og byggðin í Grjótaþorpinu öðlaðist nýja lífdaga. En á þessum tíma var hún skelfing illa farin. Ég var barnaskóla í Öldugötuskólanum svokölluðum, hann var í húsi gamla Stýrimannaskólans við Öldugötu. Hann sóttu börn sem bjuggu í Vesturbæ, norðan Hringbrautar. Þetta var dásamlega góður skóli.

Hann sóttu líka börn neðan úr Grjótaþorpi og það verður að segjast eins og er að þar þótti alls ekki fínt að búa. Það var ekki „gott hverfi“. Götur voru mjög illa farnar eins og sjá má, sums staðar voru ennþá malargötur- og plön. Björn Th. Björnsson skrifaði um Grjótaþorpið 1969:

Allt þetta þorp er í undarlegri kyrrstöðu. Það er eins og nýja tímanum hafi stirðnað höndin við að sópa því burt, en óvissan lagt á það sjálft sína dauðu hönd. Með hverju ári eru fleiri hlerar negldir þar fyrir glugga.

En það tók að breytast á þessu tímabili. Ungt fólk uppgötvaði sjarmann við Grjótaþorpið, settist að í húsunum þar og tók að gera það upp. Í þeim hópi voru líka útlendingar eins og Gérard Lemarquis sem síðar eignaðist Hildibrandshús sem er efst þarna í götunni, gegnt Hákoti, en sést ekki á myndinni. Frægt var þegar Gérard tók sér stöðu með barn í fangi framan við jarðýtu þegar átti að rífa eitt húsið í Grjótaþorpinu.

Kees Visser, hollenskur myndlistarmaður sem kom hingað fyrst á þessum tíma, talaði eitt sinn við mig um ljóðrænuna sem hann hefði upplifað í niðurníddu timburhúsabyggðinni í Reykjavík. Kannski var hún þar, hún er þá samofin æsku minni, en víst er að þau hús sem fengu að standa líta mun betur út nú en þá.

 

 

Föstudagur 28.04.2017 - 08:23 - Ummæli ()

Lesið yfir hausamótunum á Victor Orbán

Belgíski stjórnmálamaðurinn Guy Verhofstadt er einhver mesti mælskumaður á Evrópuþinginu. Hér er brot úr ræðu sem hann hélt fyrr í vikunni í tilefni af komu Victors Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, á þingið. Það má segja að Verhofstadt beinlínis lesi yfir hausamótunum á Orbán sem er nokkuð órólegur undir ræðunni.

Orbán hefur verið að þrengja að lýðréttindum í Ungverjalandi, eins og Verhofstadt lýsir í ræðunni. En hann byrjar á því að lýsa þegar þeir hittust fyrst 1989 og þá var Orbán annars konar stjórnmálamaður. Verhofstadt biður Orbán um finna aftur manninn sem hann var á þeim tíma.

Þetta myndbrot kemur frá Der Spiegel. Ræða Vorhofstads, sem er á ensku, hefst á 0.32.

 

Fimmtudagur 27.04.2017 - 11:06 - Ummæli ()

Skrítin endurbygging Grand rokks og Sirkuss

Myndin hér neðst er af byggingaframkvæmdum í Reykjavík, nánar tiltekið við Klapparstíg. Þarna hefur á stórum reit sem nær niður að Hverfisgötu, upp á Laugaveg og út á Smiðstíg risið fjöldi bygginga þar sem eiga að vera hótel, íbúðir og verslanir. Margt er reyndar ágætlega heppnað þarna – betur en víða í uppbyggingunni í borginni.

En þetta er kannski það skrítnasta í framkvæmdinni. Þarna hefur verið byggt lítið hús sem í rauninni er inngangur í stóra blokk. Húsið minnir á nokkuð sögufræga byggingu sem stóð þarna áður, ún er eins í forminu, en úr öðru efni.

Húsið kallaðist Klapparstígur 30. Það var lágreist og úr hlöðnum steini. Þarna var matvöruverslun þegar ég man fyrst eftir húsinu. Svo var þarna bar sem hét Grand rokk. Það var einhver harðsvíraðasta drykkjubúlla sem um getur; athvarf fólks sem var staðráðið í að vera fullt oft og lengi. Hún var geysivinsæl um tíma, en staðurinn rúmaði í raun ekki sérlega margt fólk. Stundum stífluðust klósettin og þá óð maður elginn á gólfinu. En þarna varð til hið nafntogaða skákfélag Hrókurinn.

 

 

Síðar tók þarna til starfa bar sem hét Sirkus. Í aldurshópi sem er talsvert yngri en ég hefur hann goðsagnalega stöðu – svona líkt og Hótel Borg hjá mínum aldursflokki. Sirkus var hip og kúl – en var líka mikið drukkið. Söknuður eftir Sirkus hefur verið svo mikill hjá sumum að reynt hefur verið að endurskapa staðinn  á listsýningum. Og í Færeyjum mun einhver útgáfa af Sirkus vera starfandi. Sirkus hætti starfsemi 2007, þá voru komin fram áformin um að rífa húsið. Um tíma eftir það starfaði þarna tölvuverslunin Macland.

 

 

En svona lítur þetta út núna. Eigum við ekki að segja að þetta sé pínu skrítið? Myndina fékk ég af Facebook síðu Óttars M. Norðfjörð sem var fastagestur á Sirkus held ég örugglega. Hjá honum gerir athugasemd Hugleikur Dagsson sem skrifar og orðar ágætlega tilfinninguna gagnvart stöðum þar sem maður hefur stundað drykkju og drabb:

Ég elskaði Sirkus af öllu hjarta en hugsaði samt „thank fokking christ“ þegar hann lokaði.

 

Miðvikudagur 26.04.2017 - 08:29 - Ummæli ()

Leikhús hryðjuverkanna

„Hryðjuverkamennirnir vona að þrátt fyrir að þeim takist varla að hrófla við efnislegri stöðu og valdi óvinarins, þá muni ótti og ruglingur valda því að hann misbeiti styrk sínum.“

„Fólk snýr sér að hryðjuverkum vegna þess að það veit að það getur ekki efnt til stríðs. Í staðinn ákveður það að búa til leiksýningu. Hryðjuverkamenn hugsa ekki eins og hershöfðingjar; þeir hugsa eins og leikstjórar.“

„Líkt og hryðjuverkamennirnir ættu þeir sem berjast gegn hryðjuverkum líka að hugsa meira eins og leikstjórar og minna eins og hershöfðingjar. Ef við viljum sigrast á hryðjuverkum þurfum við fyrst og fremst að skilja að ekkert sem hryðjuverkamenn gera getur sigrað okkur. Við getum hins vegar sigrað okkur sjálf ef við bregðumst með röngum hætti við ögrunum hryðjuverkamanna.“

„Hryðjuverkamenn reyna hið ómögulega: að breyta pólitískum valdahutföllum án þess að hafa nokkurn hernaðarmátt. Til að ná markmiðinu setja þeir ómögulegan þrýsting á ríkisvaldið: að það sanni að það geti verndað alla borgara sína fyrir pólitísku ofbeldi, alls staðar, alltaf.“

„Við og við missa ríki stjórn á skapi sínu og bregðast við með alltof harkalegum og áberandi hætti – um leið spila þau upp í hendurnar á hryðjuverkamönnunum.“

„Nauðgarar og eiginmenn sem misþyrma konum sínum eru hins vegar ekki taldir ógna tilvist ríkisins – sögulega byggir ríkið ekki tilvist sína á loforðinu um að útrýma kynferðisofbeldi. Hin miklu sjaldgæfari hryðjuverk eru hins vegar talin hræðileg ógn sökum þess að á á undanförnum öldum hafa vestræn ríki smátt og smátt byggt lögmæti sitt á loforðinu um að líða ekkert pólitískt ofbeldi innan landamæra sinna.“

„Þversögnin er semsagt sú að það er einmitt sökum þess að nútímaríkjum gengur svo vel að afstýra pólitísku ofbeldi að þau eru mjög viðkvæm fyrir hryðjuverkum. Hryðjuverk sem enginn hefði tekið eftir í konungsríki á miðöldum getur skekið sjálfar undirstöður nútímaríkja sem eru miklu sterkari.“

„Ef heimurinn árið 2050 er fullur af kjarnorku- og efnavopnahryðjuverkamönnum munu fórnarlömb þeirra horfa aftur á heiminn eins og hann er í dag með vantrú: hvernig gat fólk sem lifði svo öruggu lífi  upplifað slíka ógn?“

 

Um daginn birti ég hér á vefnum þetta myndbrot með ísraelska sagnfræðingnum Yuval Noah Harari, höfundi metsölubókanna Sapiens og Homo Deus. Tilvitnanirnar hér að ofan eru í grein sem Harari skrifaði árið 2015 og birtist meðal annars í The Guardian. Greinin ber yfirskriftina Leikhús hryðjuverkanna. Hún fjallar um magnleysi hryðjuverkamanna, viðbrögð ríkja við þeim, ríki sem missa stjórn á sér vegna hryðjuverka og hvernig ástæðan fyrir velgengni hryðjuverkamanna er sú að okkur hefur nánast tekist að útrýma pólitísku ofbeldi. Hryðjuverk eru eins og leikhús og ef við spilum með hafa hryðjuverkamennirnir fengið drauma sína uppfyllta.

Hér er grein Hararis í heild sinni í íslenskri þýðingu.

— — —

 

Eins og merking orðsins gefur til kynna eru hryðjuverk hernaðaraðgerðir þar sem ætlunin er að breyta pólitískum aðstæðum með því að breiða út ótta fremur en með því að valda efnislegum skaða. Þessi hernaðaraðgerðir eru yfirleitt alltaf framkvæmdar af aðilum sem eru mjög veikir og geta ekki skaðað óvini sína efnislega nema að litlu leyti. Auðvitað vekja allar hernaðaraðgerðir ótta. En í hefðbundnu stríði er óttinn afleiðing af efnislegu tjóni og er yfirleitt í samræmi við styrkleika aflanna sem tjóninu valda. En þegar hryðjuverk eiga í hlut er óttinn í raun sagan öll, það er ótrúlegt misræmi milli raunverulegs styrks hryðjuverkamannanna og óttans sem þeim tekst að vekja.

Það er ekki auðvelt að breyta pólitískum aðstæðum með ofbeldi. Á fyrsta degi orrustunnar við Somme, 1. júlí 1916, biðu 19.000 breskir hermenn bana, 40.000 særðust. Þegar orrustunni lauk í nóvember höfðu meira en milljón hermenn orðið fyrir sárum beggja megin víglínunnar, þar af létust 300.000. En þessi mikla slátrun breytti ekki pólitískum valdahlutföllum í Evrópu. Það tók önnur tvö ár og útheimti milljónir mannslífa í viðbót, þá fyrst brast eitthvað.

Í samanburði við orrustuna við Somme eru hryðjuverk frekar lítilfjörleg. Flestir hryðjuverkamenn ná ekki að drepa nema örfáar manneskjur. 2002, þegar hryðjuverkaherferð Palestínumanna gegn Ísrael stóð sem hæst, þegar strætisvagnar og veitingahús urðu fyrir árásum á hverjum degi, var fjöldi látinna 451. Sama ár dóu 542 Ísraelsmenn í bílslysum. Í einstaka hryðjuverkaárasum, eins og til dæmis sprengjunni sem sprakk í Pan Am flugvélinni yfir Lockerbie 1988, deyja nokkur hundruð manns. Árásirnar 11/9 settu nýtt met, þar létu næstum 3000 manns lífið. En í samanburði við hefðbundin stríð er þetta í raun sáralítið. Við getum lagt saman alla sem hafa dáið og særst í hryðjuverkaárásum í Evrópu síðan 1945 – og talið með fórnarlömb þjóðernissinna, ofstækistrúarmanna, vinstri og hægri hópa – þá er það miklu lægri tala en þeirra sem féllu í orrustum í fyrri heimsstyrjöld sem afar fáir þekkja. Við getum nefnt þriðju orrustuna við Aisne (250.000 fallnir) eða tíundu orrustuna við Isonzo (225.000 fallnir).

Að sigra óvininn með krafti hans sjálfs

Hvernig geta hryðjuverkamenn þá vænst þess að ná svo miklum árangri? Að loknu hryðjuverki heldur óvinurinn áfram að hafa sama fjölda hermanna, skriðdreka og skipa og áður. Samskiptaleiðir óvinarins eru mestanpart heilar og líka vegir og járnbrautir. Verksmiðjur, hafnir og herstöðvar hafa varla verið snertar. En hryðjuverkamennirnir vona að þrátt fyrir að þeim takist varla að hrófla við efnislegri stöðu og valdi óvinarins, þá muni ótti og ruglingur valda því að hann misbeiti styrk sínum. Hryðjuverkamenn berjast eins tai-chi meistarar; þeir stefna að því að sigra óvininn með krafti hans sjálfs. Þannig voru Frakkar í Alsír á sjötta áratugnum ekki sigraðir af FNL, frelsishreyfingu Alsírs, heldur af vanhugsuðum viðbrögðum við hryðjuverkum FNL. Hrakfarir Bandaríkjanna í Írak og Afganistan voru afleiðing þess að Bandaríkin misbeittu sínu mikla valdi, en ekki þess að al-Qaida hnykklaði sína rýru vöðva.

Hryðjuverkamenn ætla sem svo að þegar óvinurinn reiðist og notar sitt mikla vald gegn þeim, þá  muni það magna upp hernaðarlegan og pólitískan storm, miklu ofsafengnari en nokkuð sem hryðjuverkamennirnir sjálfir gætu nokkurn tíma skapað. Í slíkum stormviðrum gerast hlutir sem ekki er hægt að sjá fyrir. Það verða mistök, óhæfuverk eru framin, almenningsálitið rásar, það er farið að spyrja spurninga, fólk sem er hlutlaust breytir um afstöðu og valdahlutföll raskast. Hryðjuverkamennirnir sjá ekki fyrir hver útkoman verður, en möguleikar þeirra við að fiska í svo gruggugu vatni eru miklu meiri en þegar hið pólitíska haf er lygnt.

Sem hernaðarlist eru hryðjuverk lítt aðlaðandi, allar mikilvægu ákvarðanirnar eru í höndum óvinarins. Hryðjuverkamenn geta ekki valdið alvarlegu efnislegu tjóni og því eru allir valkostirnir sem óvinurinn hafði fyrir hryðjuverkaárásina enn til staðar eftir hana, óvinurinn getur valið milli þeirra. Í hernaði reyna menn að forðast slíka stöðu. Þegar þeir gera árás er tilgangurinn ekki að ögra óvininum svo hann grípi til aðgerða, heldur frekar að minnka getu óvinarins til að svara í sömu mynt, að granda vopnum hans og fækka valkostunum. Sem dæmi má nefna að þegar Japanir réðust á bandaríska Kyrrahafsflotann í Pearl Harbor í desember 1941, þá gátu þeir verið vissir um að hvað sem Bandaríkin tækju til bragðs myndu þau ekki geta sent flota til Suðaustur-Asíu 1942.

Að ögra óvininum án þess að útrýma neinum af vopnum hans eða valkostum er verknaður sem ber vott um örvæntingu, þetta gerist þegar er ekki önnur leið. Þegar mögulegt er að valda alvarlegu efnislegu tjóni fer enginn að beita hryðjuverkum í staðinn. Það hefði verið óðs manns æði ef japanski flotinn hefði grandað farþegaskipi í desember 1941 til að ögra Bandaríkjunum og látið Kyrrahafsflotann í Pearl Harbour óskaddaðan.

Hryðjuverk eru leikhús

Fólk snýr sér að hryðjuverkum vegna þess að það veit að það getur ekki efnt til stríðs. Í staðinn ákveður það að búa til leiksýningu. Hryðjuverkamenn hugsa ekki eins og hershöfðingjar; þeir hugsa eins og leikstjórar. Minning almennings um árásirnar 11/9 ber vott um þetta: ef spurt er hvað gerðist 11. september 2001 svarar menn líklega að al-Qaida hafi eyðilagt tvíburarturnana í World Trade Center. En það var ekki bara ráðist á turnana, heldur líka tvo aðra staði. Þar má sérstaklega nefna nokkuð árangursríka árás á Pentagon. Hví muna svo fáir eftir því? Ef árásin 11/9 hefði verið liður í hefðbundnum hernaðaraðgerðum hefði árásin á Pentagon fengið mesta athygli. Þarna tókst al-Qaida að eyðileggja hluta af höfuðstöðvum óvinarins, þarna dóu háttsettir foringjar. Hví er það að í minni fólks er eyðilegging tveggja borgaralegra bygginga miklu mikilvægari og drápin á verðbréfasölum og endurskoðendum?

Er það vegna þess að Pentagon er flöt og ekki sérlega áhugaverð bygging má meðan World Trade Center var stórt reðurtákn  – hrun þess var gríðarlegt sjónarspil? Enginn sem sá myndir af falli þess gleymir þeim nokkurn tíma. Líkt og af eðlisávísun skiljum við að hryðjuverk eru leikhús, og þess vegna dæmum við þau út frá áhrifum þeirra á tilfinningarnar fremur en efnislegum skaða. Það má jafnvel vera að Osama bin Laden hefði í raun kosið að senda flugvélina sem lenti á Pentagon á meira áberandi skotmark, eins og til dæmis Frelsisstyttuna. Færra fólk hefði látið lífið og engin hernaðarmannvirki hefðu eyðilagst, en hin leikræna tjáning hefði verið framúrskarandi.

Líkt og hryðjuverkamennirnir ættu þeir sem berjast gegn hryðjuverkum líka að hugsa meira eins og leikstjórar og minna eins og hershöfðingjar. Ef við viljum sigrast á hryðjuverkum þurfum við fyrst og fremst að skilja að ekkert sem hryðjuverkamenn gera getur sigrað okkur. Við getum hins vegar sigrað okkur sjálf ef við bregðumst með röngum hætti við ögrunum hryðjuverkamanna.

Ríki sem missa stjórn á skapi sínu

Hryðjuverkamenn reyna hið ómögulega: að breyta pólitískum valdahutföllum án þess að hafa nokkurn hernaðarmátt. Til að ná markmiðinu setja þeir ómögulegan þrýsting á ríkisvaldið: að það sanni að það geti verndað alla borgara sína fyrir pólitísku ofbeldi, alls staðar, alltaf. Hryðjuverkamennirnir vona að þegar ríkinu tekst ekki að uppfylla þessa ómögulegu kröfu, muni það stokka upp hin pólitísku spil og afhenda þeim ás sem ekki var hægt að sjá fyrir.

Vissulega tekst ríkjum stundum að sigrast á hryðjuverkum þegar þau reynir að mæta kröfunni um að vernda borgarana fyrir pólitísku ofbeldi. Mörg hundruð hryðjuverkahópar hafa verið þurrkaðir út síðustu áratugina af ýmsum ríkjum. Á árunum 2002-2004 sannaði Ísrael að það er hægt að mæta hryðjuverkaherferð með harðri valdbeitingu. Hryðjuverkamennirnir vita vel að í slíkum átökum eiga þeir í sjálfu sér litla von. En vegna þess að þeir eru veikir, og hafa ekki möguleika á að efna til alvöru hernaðaraðgerða, hafa þeir litlu að tapa og mikið vinna. Það gerist stundum að hið pólitíska ofviðri sem er magnað upp til að kveða niður hryðjuverk reynist vera hryðjuverkamönnunum mjög til framdráttar – veðmál þeirra borgar sig. Hryðjuverkamaður er líkur fjárhættuspilara sem er með sérlega vond spil á hendi en reynir að fá andstæðinga sína til að stokka upp spilin sín. Hann getur ekki tapað neinu, en hann getur unnið allt.

Hví ættu ríki að fara þá leið að stokka upp spilin? Sökum þess að efnislegt tjón sem hryðjuverk valda er svo lítið, gætu ríki hugsanlega ákveðið að gera ekkert við þeim, eða þá gripið til sterkra en leynilegra aðgerða fjarri myndavélum og hljóðnemum. Oft gera þau einmitt það. En við og við missa ríki stjórn á skapi sínu og bregðast við með alltof harkalegum og áberandi hætti – um leið spila þau upp í hendurnar á hryðjuverkamönnunum.

Loforðið um ekkert pólitískt ofbeldi

Hví eru þau svona viðkvæm fyrir ögrunum hryðjuverkamanna? Vegna þess að lögmæti nútímaríkisins byggir á loforðinu um að líða ekkert pólitískt ofbeldi í almannarýminu. Ríkisstjórn getur lifað af hræðilegar hamfarir, og jafnvel aðhafst lítið sem ekkert gegn þeim, sé lögmæti hennar ekki byggt á því að koma í veg fyrir þær. En á hinn bóginn getur ríkisstjórn fallið vegna minniháttar vandamáls ef það virðist grafa undan lögmæti hennar. Á 14. öld drap Svarti dauði milli fjórðung og helming íbúa Evrópu. Enginn kóngur missti hásæti sitt vegna þessa – enginn kóngur reyndi heldur sérlega mikið til að sigrast á plágunni. Á þeim tíma var ekki talið að það væri á valdsviði kónga að koma í veg fyrir drepsóttir. Á hinn bóginn áttu leiðtogar sem leyfðu trúvillu í ríkjum sínum á hættu að missa kórónu sína og jafnvel höfuðið.

Í dag getur ríkisstjórn snúið blinda auganu að heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi, það grefur ekki undan lögmæti hennar. Í Frakklandi er tilkynnt um fjölda nauðgana á hverju ári – og svo er mikill fjöldi nauðgana sem komast hvergi á skrá. Nauðgarar og eiginmenn sem misþyrma konum sínum eru hins vegar ekki taldir ógna tilvist ríkisins – sögulega byggir ríkið ekki tilvist sína á loforðinu um að útrýma kynferðisofbeldi. Hin miklu sjaldgæfari hryðjuverk eru hins vegar talin hræðileg ógn sökum þess að á á undanförnum öldum hafa vestræn ríki smátt og smátt byggt lögmæti sitt á loforðinu um að líða ekkert pólitískt ofbeldi innan landamæra sinna.

Á miðöldum var almannarýmið fullt af pólitísku ofbeldi. Getan til að nota ofbeldi var reyndar eins og aðgöngumiði inn í hinn pólitíska leik, sá sem ekki hafði þessa getu hafði enga pólitíska rödd. Ekki aðeins höfðu aðalsfjölskyldur sitt eigið herlið, heldur líka bæir, iðngildi, kirkjur og klaustur. Þegar ábóti dó og deilt var um hver skyldi taka við af honum, notuðu andstæðar fylkingar, munkar, héraðshöfðingjar og ýmsir nágrannar vopnavald til að gera út um málið.

Í slíkum heimi var ekkert rými fyrir hryðjuverk. Sá sem gat ekki valdið alvöru efnislegu tjóni hafði engin áhrif. Ef nokkrir íslamskir öfgamenn hefðu myrt óbreytta borgara í Jerúsalem árið 1150 og heimtað að krossfararnir yfirgæfu Landið helga, hefði það vakið hlátur fremur en ótta. Ef menn vildu láta taka sig hátíðlega á þessum tíma þurftu þeir að hafa yfirráð yfir að minnsta kosti einum vígbúnum kastala. Hryðjuverk trufluðu ekki forvera okkar á miðöldum, þeir höfðu stærri vandamál til að fást við.

Lítil mynt í stórri tómri krukku

Í nútímanum hafa hin miðstýrðu ríki smátt og smátt dregið úr hinu pólítíska ofbeldi og á síðustu áratugum hafa vestræn ríki hérumbil náð að útrýma því með öllu. Borgararnir geta tekist á um yfirráðin yfir bæjum, fyrirtækjum, félögum og yfir ríkisstjórninni sjálfri án þess að grípa til valdbeitingar. Völd yfir mörg hundruð milljörðum evra, mörg hundruð þúsund hermönnum, mörg hundruð skipum, flugvélum og kjarnorkueldflaugum færast frá einum hópi stjórnmálamanna til annars án þess að hleypt sé af einu skoti. Þessu hefur fólk vanist og það álítur að þetta sé náttúrulegur réttur þess. Og af þessu leiðir að pólítísk ofbeldisverk þar sem deyja kannski ekki nema fáir tugir manna, eru talin mikil ógn við lögmæti og jafnvel sjálfa tilvist ríkisins. Lítil mynt í stórri tómri krukku getur framleitt mikinn hávaða.

Þetta er ástæða þess að leikhús hryðjuverkanna er svo áhrifamikið. Ríkið hefur búið til stórt rými þar sem er ekki að finna neitt pólitískt ofbeldi. Þetta rými er eins og risastórt endurvarp sem magnar upp áhrif vopnaðra árása, hversu smáar sem þær eru. Þeim mun minna sem stjórnmálaofbeldið er í hverju landi, þeim mun harkalegar bregður almenningi. Þegar 17 manns eru drepin í París vekur það miklu meiri athygli en mörg hundruð dauðsföll í Nígeríu eða Írak. Þversögnin er semsagt sú að það er einmitt sökum þess að nútímaríkjum gengur svo vel að afstýra pólitísku ofbeldi að þau eru mjög viðkvæm fyrir hryðjuverkum. Hryðjuverk sem enginn hefði tekið eftir í konungsríki á miðöldum getur skekið sjálfar undirstöður nútímaríkja sem eru miklu sterkari.

Ríkið hefur lagt svo mikla áherslu á að það umberi ekki pólitískt ofbeldi að það hefur ekkert annað val en að þola ekki nein hryðjuverk, hversu smávægileg sem þau eru. Fyrir sitt leyti eru borgararnir orðnir svo vanir því að pólitískt ofbeldi viðgangist ekki að leikhús hryðjuverkana magnar upp í þeim djúprættan ótta um stjórnleysi – þá ágerist sú tilfinning að þjóðfélagsskipanin sjálf sé við það að hrynja. Eftir margar aldir þar sem ríkti stöðug og blóðug barátta, höfum við skriðið út úr svartri holu ofbeldisins, en við óttumst að svarta holan sé ennþá þarna og bíði eftir því að gleypa okkur á nýjan leik. Eftir fáein óhæfuverk ímyndum við okkur að við séum að detta aftur þangað inn.

Til að lægja þennan ótta þarf ríkið að svara með sínu eigin leikhúsi, leikhúsi öryggisins. Besta ráðið gegn hryðjuverkum er góð öflun upplýsinga og leynilegar aðgerðir, ekki síst gegn peningaflæði sem fjármagnar hryðjuverk. En þetta geta borgararnir ekki séð í sjónvarpi. Þegar borgararnir hafa upplifað hið mikla hryðjuverkasjónarspil þar sem World Trade Center hrynur, þarf ríkið að svara með sýningu sem er ennþá mikilfengleglegri, með ennþá meiri eldi og eimyrju. Svo í staðinn fyrir að taka á málunum með hljóðum og árangursríkum hætti magnar það upp mikið fárviðri sem uppfyllir stærstu drauma hryðjuverkamannanna.

Hvað með kjarnorkuhryðjuverk?

En hvað með hryðjuverk sem yrðu framin með kjarnorkuvopnum, efnavopnum eða líftækni? Hvað ef bölspámennirnir hafa rétt fyrir sér og hryðjuverkasamtök koma sér upp gereyðingarvopnum sem gætu valdið skaða á við styrjaldir? Ef og þegar þetta gerist verður ríkið eins og við þekkjum það úrelt. Og hryðjuverk eins og við þekkjum þau hætta líka að vera til, líkt og sníkjudýr sem deyr með hýsli sínum.

Ef fámenn samtök ofstækismanna geta eytt borgum og drepið milljónir manna verður ekki lengur til almenningsrými sem er laust við pólitískt ofbeldi. Stjórnmálin og samfélögin munu taka grundvallarbreytingum. Það er erfitt að sjá fyrir hver yrðu pólitísk átök á slíku tímaskeiði, en þau verða mjög ólík hryðjuverkaherferðum á fyrri hluta 21. aldar og aðgerðum sem hefur verið beitt gegn þeim. Ef heimurinn árið 2050 er fullur af kjarnorku- og efnavopnahryðjuverkamönnum munu fórnarlömb þeirra horfa aftur á heiminn eins og hann er í dag með vantrú: hvernig gat fólk sem lifði svo öruggu lífi upplifað slíka ógn?

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is