Miðvikudagur 4.3.2015 - 20:53 - Ummæli ()

Kínalífselexír og andalækningar

Blogg skurðlækninsins Björns Geirs Leifssonar inniheldur furðuleg dæmi um allt það sem reynt er að selja í lækningaskyni. Kannski er eitt vandamálið að þeir sem selja svona efni eiga ansi greiða leið að fjölmiðlum. Þannig er auðvelt að selja fólki vitleysu eins og að magnesíum sé allra meina bót eða fiskmatarlím – sem gengur reyndar undir öðru nafni.

En hitt er svo að þetta er ekki nýtt – því fer svo órafjarri. Trúgirnin er söm og áður og þeir eru alltaf til sem gera út á hana. Í þessu sambandi er talað um snákaolíusölumenn (óþjált orð) – en það á við mixtúrur sem voru seldar í Bandaríkjunum á 19. öld. Hér á Íslandi var til sölu það sem kallaðist kínalífselexír.

19516_10153149183424289_1705834006204200840_n

Á fyrri hluta tuttugustu aldar var spírítisminn mjög í tísku – hann er nánast horfinn miðað við það sem þá var. Þá voru til andalæknar sem komu jafnvel að handan til að lækna fólk. Þetta var líka kallað huldulækningar.

Frægastur andalækna var Friðrik, en hann starfaði í gegnum unga stúlku, Margréti Jónsdóttur, sem bjó á Öxnafelli í Eyjafirði. Hermt var að margir hefðu fengið bót meina sinna fyrir tilstuðlan þeirra – en aðrir efuðust.

Svo er það auðvitað vígða vatnið, en hér í föstudagsgrein á Vísindavef Háskólans er fjallað um hvort hægt sé að greina vígt vatn frá óvígðu.

Í bókinni um Góða dátann Sveik fékk söguhetjan hampolíu nr. 3 hjá herra Tauchen í járnvörubúð Poláks þegar hann var sendur eftir vígðri olíu til að veita síðustu smurningu.

 

Miðvikudagur 4.3.2015 - 17:16 - Ummæli ()

Tilraun Netanyahus og Repúblikana til valdatöku

Sjónvarpsmaðurinn og stjórnmálaskýrandinn Chris Matthews er ómyrkur í máli um ræðu Benjamins Netanyahu í Bandaríkjaþingi. Hann segir að leiðtogar Repúblikana, með Jay Bohner í fararbroddi, ásamt Netanyahu hafi reynt valdatöku – þeir séu að freista þess að taka utanríkismálin úr höndum forsetans. Það sé fáheyrt að leiðtogi erlends ríkis reyni slíkt.

Miðvikudagur 4.3.2015 - 13:13 - Ummæli ()

Landsbanki lánar Björgólfi rétt fyrir hrun

Í hinu víðlesna tímariti Forbes er stór grein um endurkomu Björgólfs Thors Björgólfssonar inn á lista ríkustu manna heims.

Í sjálfu sér er þetta ekki sérstaklega áhugavert, nema maður hafi þeim mun meiri áhuga á spákaupmennsku. Björgólfur getur orðið ríkari og ríkari, en honum tekst seint að endurheimta virðinguna.

Ein málsgrein er þó nokkuð athyglisverð fyrir okkur Íslendinga, ég birti hana á ensku.

To meet the margin call, Bjorgolfsson borrowed $230 million from his own bank, Landsbanki. He got the last of the cash on Sept. 30, 2008, a few days before Iceland’s collapse. The loan enabled Bjorgolfsson to hold onto his Actavis stake, but it is widely perceived as having weakened Lansbanki in its final days.

Miðvikudagur 4.3.2015 - 10:45 - Ummæli ()

Of stórir bankar – og Íslandsálagið

Við erum aftur að komast á þann stað að íslensku bankarnir eru of stórir fyrir hagkerfið. Það voru þeir á árunum fyrir hrun, þá fólst vandinn í því að

Nú er málið að bankarnir eiga alltof stóran hluta af atvinnulífinu í landinu, þeir taka of mikið til sín. Bjarni Benediktsson talaði um þetta fyrr í vikunni. Hvað er til ráða? Ný útrás eða skipulögð minnkun bankakerfisins? Bjarni segir að bankarnir þurfi að einfalda starfsemi sína og selja eignir.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er harðorður í garð bankanna. Hann fjallar líka um hinn mikla hagnað og bendir á að meirihlutinn af honum renni til erlendra kröfuhafa – Ísland ráði ekki við að greiða arð af hagnaðinum úr landi miðað við óbreytta gjaldeyrissköpun.

Á Sigmundi má skilja að hann vilji fara í hart við bankana:

Í einfeldni telja sumir að unnt sé að komast hjá efnahagsáföllum með því að styggja engan og halda öllum góðum, en slíkt er ekki raunhæft. Þvert á móti þarf skýra sýn og sterka forystu þar sem hagsmunir íslensku þjóðarinnar eru hafðir að leiðarljósi.

En vandamálið hefur auðvitað margar hliðar. Sigmundur Davíð talar um aðgangshindranir sem valdi því að ólíklegt sé að nýir aðilar ryðjist fram á bankamarkaði með betri þjónustu og lægra verð.

Sigmundur nefnir umfangsmikið regluverk sem ástæðu fyrir þessu, en skýringarnar eru margþættari. Bankarnir eru lokaðir inni í íslenska krónuhagkerfinu og það eru neytendur þeirra líka. Samkeppnin er í raun lítil sem engin. Erlendir bankar hafa ekki útibú á Íslandi eins og tíðkast víðast í Evrópu. Vaxtamunur er óhemju mikill á Íslandi og lánakerfið að mörgu leyti mannfjandsamlegt. Þetta helgast meðal annars af því sem kallast Íslandsálagið og var fjallað um í skýrslu frá Viðskiptaráði fyrir tveimur árum.

 

 

Þriðjudagur 3.3.2015 - 23:50 - Ummæli ()

Spennandi og óvenjulegar kosningar í Bretlandi

Kosningarnar sem verða í Bretlandi í maí eru þær sérstæðustu í manna minnum. Kosningakerfið í Bretlandi byggir á einmenningskjördæmum, venjan var að annar hvor stóru flokkanna, Íhaldsflokkurinn eða Verkamannaflokkurinn næði þingmeirihluta án þess að þurfa til þess meirihluta atkvæða.

Nú er þetta kerfi í algjöru uppnámi. Eftir síðustu kosningar myndaði Íhaldsflokkurinn samsteypustjórn með hinum allnokkuð minni flokki Frjálslyndra demókrata. Þetta var eftir langa valdatíð Verkamannaflokksins sem aftur var eftir langa valdasetu Íhaldsflokksins.

Afar litlar líkur eru á að þessi ríkisstjórn nái endurkjöri. Frjálslyndir eru að upplifa það sem minni flokkar í samsteypustjórnum lenda oft í – algjört fylgishrun. Flokkurinn gæti hreinlega þurrkast út. Mjög mjótt er á mununum milli Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins, fylgið sveiflast á bilinu 32-35 prósent.

Þegar Íhaldsflokkurinn vann síðast hreinan meirihluta í þinginu í Westminster árið 1992 var hann með 42 prósent. Verkamannaflokkurinn fékk 43 prósent 1997 þegar Tony Blair varð fyrst forsætisráðherra.

Það sem er sérstakt – og í raun nokkuð óhugnanlegt – við stjórnmálin í Bretlandi er hversu svæðaskipt þau eru. Fylgi Íhaldsflokksins er aðallega í suðurhluta Englands. Þegar norðar dregur kýs fólk Verkamannaflokkinn. Skotland var líka sterkt vígi hans en nú virðist skoski Þjóðernissinnaflokkurinn endanlega ætla að ganga frá Verkamannaflokknum.

Græningjaflokkurinn hefur verið að mælast með 6 prósenta fylgi og tekur frá Verkamannaflokknum, en Íhaldsflokkurinn á hins vegar í vandræðum með UKIP, Breska þjóðernisflokkinn, það er flokkur sem er andsnúinn Evrópusambandinu og tortrygginn gagnvart innflytjendum og hjónaböndum samkynhneigðra. UKIP mælist með 14 prósenta fylgi.

Við þessar aðstæður gæti reynst mjög erfitt að mynda starfhæfan meirihluta í þinginu. Skosku þjóðernissinnarnir gætu komist í oddaaðstöðu, færu þá líklega í samstarf með Verkamannaflokknum, en heyrst hafa raddir, sérstaklega frá hægri, að ekki eigi að leyfa Skotunum að hafa síðasta orðið um ensk málefni. David Cameron hefur ekki viljað útiloka samsteypustjórn með UKIP. Stjórn með þeim flokki virðist þó ekki ýkja fýsileg, Cameron sagði eitt sinn að þetta væri samansafn „furðufugla, leiðindapúka og felu-rasista“.

Síðasti möguleikinn gæti verið stór samsteypustjórn eins og tíðkast til dæmis í Þýskalandi þegar þannig ber undir, stjórn Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins. Það virðist þó vera heldur fjarlægt – og raunar er spurning hvort ekki yrði gengið til annarra kosninga áður en slík stjórn yrði mynduð.

Kosningarnar verða 7. maí, eftir tvo mánuði.

Final_Miliband_and_3178057b

Auglýsing frá Íhaldsflokknum þar sem er varað við samsteypustjórn Verkamannaflokksins og Skoska þjóðernissinnaflokksins.

Þriðjudagur 3.3.2015 - 15:08 - Ummæli ()

Rattle tekur við LSO – áformað að reisa nýtt tónlistarhús í London

Nú er það frágengið, sem lengi hefur verið orðrómur um, að Simon Rattle verði aðalhljómsveitarstjóri London Symphony Orchestra þegar tíma hans í Berlín lýkur. Rattle hefur verið aðalhljómsveitarstjóri Berlínarfílharmóníunnar síðan 2002. Það er gjarnan álitið fínasta starfið í heimi klassískrar tónlistar.

Rattle er ætlað að verða lyftistöng fyrir tónlistarlíf í London. En það verður ekki ókeypis, því samkomulaginu við hann fylgir líklega að byggð verði ný tónlistarhöll í London. Rattle er þeirrar skoðunar að ekkert af tónlistarhúsunum í borginni sé nógu gott – hinn annars aðhaldssami George Osborne fjármálaráðherra styður þessi áform.

Undanfari Rattles í starfinu er Rússinn Valerí Gergiev. En Gergiev þykir bæði vera siðferðiðslega og listrænt gjaldþorota. Hann er sérstakur hiðrðmaður Pútíns og hefur líka verið gagnrýndur fyrir að koma fram á alltof mörgum tónleikum – það bitnar verulega á gæðunum.

Rattle kom hingað til Íslands með Berlínarfílharmóníunni fyrir tveimur árum. Tónleikarnir í Hörpu voru stórkostlegir, vægast sagt. En hver á að taka við af honum í Berlín. Það er stórmál fyrir borgarbúa, en það er hljómsveitin sjálf sem greiðir atkvæði um hljómsveitarstjórann. Ýmsir hafa verið nefndir, hinir ungu Andris Nelsons frá Lettlandi og Gustavo Dudamel frá Venesúela, sem báðir eru fjarska snjallir, Christian Thielemann er kandídat, hann stjórnar Staatskapelle í Dresden, en gamli maðurinn Daniel Barenboim þykir líka koma til greina. Hann er í fullu fjöri og er tónlistarstjóri í Staatskapelle og Staatsoper í Berlín.

Berliner_Philharmoniker_I

Stórkostlegt hús, sagði Sir Simon Rattle um Hörpu þegar Berlínarfílharmónían lék þar í nóvember 2012.

Þriðjudagur 3.3.2015 - 10:30 - Ummæli ()

Kjarabarátta: Í hvaða liði á forsætisráðherra að vera?

Alls staðar í samfélaginu heyrir maður að fólk er þess albúið að brýna kutana fyrir kjarabaráttu. Krafan hljóðar upp á allverulegar kauphækkanir. Hinir hæstlaunuðustu hafa gefið tóninn, forstjórar og læknar.

Skilaboðin sem berast frá stjórnvöldum eru þau að hér hafi orðið mikill vöxtur kaupmáttar, en samt er eins og fólk finni það ekki á eigin skinni.

Getur þetta verið satt? Hvert fara þá allir peningarnir?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur gefið baráttu launamanna undir fótinn með fullyrðingum um að kröfur um launahækkanir séu eðlilegar. Þetta fer í taugarnar á samstarfsflokknum og fulltrúum atvinnulífsins – ég hef meira að segja heyrt Sigmund sakaðan um vinstri pópúlisma – en spyrja má á móti hvort þetta sé ekki bara sjálfsögð hreinskilni í Sigmundi?

Eða er ekki í góðu lagi að forsætisráðherra taki sér stöðu með launafólki – á hann ósjálfrátt að vera í liði með atvinnurekendum?

b604f67a3a-380x230_o-1

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is