Þriðjudagur 2.9.2014 - 21:43 - Ummæli ()

Frá Patró í Saurbæinn

Það er gaman að ferðast um Ísland – og ólíkt því sem sumir virðast halda hef ég gert heilmikið af því.

Við ókum í efnisöflunarferð fyrir Kiljuna vestur á Patreksfjörð í gær. Það var ausandi rigning mestalla leiðina, en stytti sem betur fer upp þegar við komum á áfangastað. Við tókum upp efni á Patreksfirði, Rauðasandi og í Sauðlauksdal.

Við gistum á nýju Fosshóteli á Patreksfirði síðustu nótt. Þar borðum við á veitingahúsi sem nefnist Fjall og fjara.

Maturinn var afbragð, ég fékk ljúffenga fisksúpu, fullkomlega eldaðan þorsk, ísinn sem var á eftir var heimatilbúinn. Og cappuccinoið var gott. Þjónustan fagmannleg í alla staði. Staðurinn er fallega innréttaður – maður horfir út á hafið sem var heldur dimmt að sjá í gærkvöldi.

Þetta eru framfarir. Jón Víðir kvikmyndatökumaður sem er með í för rifjaði upp að hann hefði verið á Patreksfirði fyrir mörgum árum og þá var ekki hægt að fá neitt nema sjoppufæði. Engan fisk í þessu mikla sjávarútvegsplássi.

Í dag ókum við til baka, fórum á Reykhóla og í Saurbæinn þar sem ég skrifa þetta. Vegirnir þarna á milli eru býsna vondir, en Vegagerðin stendur í miklum framkvæmdum. Maður þarf að þræða firðina. Við sáum yfir í hinn umdeilda Teigsskóg þar sem hefur verið fyrirhugað að leggja veg – ekki treysti ég mér til að hafa skoðun á því hvort það er skynsamlegt eða ekki.

Í Saurbæ gistum við á Hótel Ljósalandi sem stendur við þjóðveginn á leiðinni vestur á firði. Hér hafa ung hjón tekið yfir hótel og sjoppu og eru að endurbyggja af miklum myndarskap. Við fengum alvöru hamborgara, sem jafnast á við það besta sem maður fær í bænum – og herbergin eru rúmgóð og björt.

Saurbærinn er afskaplega falleg sveit. Flestir bruna þar í gegn á leið vestur, en hérna er mild náttúrufegurð og kyrrð. Stutt er að gamla höfuðbólinu Skarði á Skarðströnd. Hér hafa margir andans menn lifað, Steinn Steinarr, Stefán frá Hvítadal og sagnaritarinn mikli, Sturla Þórðarson.

IMG_5007

Kvöld í Saurbæ. Útsýni frá Hótel Ljósalandi.

Þriðjudagur 2.9.2014 - 08:24 - Ummæli ()

Sjálfstæðisflokkurinn vinnur á, Framsókn tapar

Tvær skoðanakannanir í röð benda til þess að hagur Sjálfstæðisflokksins sé að vænkast. Í þjóðarpúlsi Gallup er hann með 28 prósenta fylgi, en í könnun Fréttablaðsins fær hann 30,7 prósent.

Framsókn 11,8 hjá Gallup en 11,7 prósent hjá Fréttablaðinu. Fylgi hans stefnir í að verða þrefalt minna en Sjálfstæðisflokksins. Hann er næst minnsti flokkurinn í báðum könnunum, aðeins Píratar eru minni.

Bjarni Benediktsson segir við Fréttablaðið:

„Ég er ánægður með þetta, en tek tölunum með ró. Ég held að fólk sé farið að finna fyrir stöðugleika og kaupmáttaraukningu.“

En hví er Sjálfstæðisflokknum þakkað fyrir þetta en ekki Framsókn? Það er reyndar ekki ný saga í íslenskum stjórmálum að flokkar  sem vinna með Sjálfstæðisflokknum eiga í erfiðleikum, þeir fá að gjalda fyrir það sem miður fer. En nú á Framsóknarflokkurinn sjálfan forsætisráðherrann.

Önnur tíðindi eru að Samfylkingin er afgerandi stærri en Björt framtíð í báðum könnunum, með 19,3 prósent hjá Gallup og 20 prósent hjá Fréttablaðinu. Það hlýtur að vera ákveðinn léttir fyrir Samfylkinguna.

Mánudagur 1.9.2014 - 23:00 - Ummæli ()

Kammó við páfann

Þetta er eiginlega alveg stórkostleg mynd, íslenskur knattspyrnumaður fer og hittir páfann – og hann heldur utan um hann eins og þeir séu aldavinir. Eða eins og þeir séu að stilla sér upp fyrir instagram.

Einu sinni beygðu menn sig fyrir páfum og kysstu hring þeirra. Nú er greinilega runnin upp önnur tíð.

Þetta bendir eindregið til þess að Franz sé miklu betri páfi en forverar hans. Sem hann næstum örugglega er.

10559654_710934308960247_5724996506685872113_nEmil Hallfreðsson fótboltamaður og Franz páfi. Myndin er af Facebook-síðu knattspyrnufélagsins Hellas Verona.

Mánudagur 1.9.2014 - 21:06 - Ummæli ()

Á Rauðasandi

Þessi mynd er tekin nú undir kvöld á Rauðasandi, einum magnaðasta stað á Íslandi, á gönguleiðinni út að Sjöundá og Skor. Við komum þangað í upptökuferð fyrir Kiljuna. Það ringdi alla leiðina úr bænum og þangað til við komum yfir Kleifaheiði. Þá stytti upp. Það er ekki gott að búa til sjónvarp í rigningu.

 

10649747_10152744978305439_7005304289479195872_n

Mánudagur 1.9.2014 - 08:02 - Ummæli ()

Hin tvöfalda innrás í Pólland

Í dag eru 75 ár liðin frá upphafi seinni heimstyrjaldarinnar – innrás Þjóðverja í Pólland. Hún var 1. september 1939.

Minna má á að hún var gerð undir því yfirskini að Þjóðverjar væru að koma til aðstoðar þýskættuðu fólki innan pólsku landamæranna sem væri hrakið og smáð.

Og líka má minna á að annar her gerði ekki síður freklega innrás inn í Pólland stuttu síðar, 17. september 1939. Það var Sovétherinn.

Þetta var gert í skjóli griðasáttmála Hitlers og Stalíns. Og Stalín hélt áfram landvinningum sínum með því að fyrst heimta herstöðvar í Eystrasaltsríkjunum sama haust, Sovétherinn réðst svo inn í Eistland, Lettland og Litháen í júní 1940.

Það vill semsagt gleymast að árásaraðilarnir í seinni heimstyrjöldinni voru tveir. Ekki hentaði að ræða um það þegar Sovétríkin voru komin í bandalag við Breta og Bandaríkjamenn síðar í stríðinu. Og þess vegna hefur árásarstefna Sovétríkjanna á þessum tíma legið í þagnargildi – en meira talað um að þau hafi komið og frelsað Evrópu undan oki nasismans.

En Pólverjar þjáðust mikið. Á báðum hernámssvæðunum, því þýska og því sovéska, hófust feikileg grimmdarverk. Nasistar reistu sínar fanga- og útrýmingarbúðir en Sovétmenn myrtu fólk en sendu aðra í þrælkunarbúðir í austri. Árið 1940 í Katynskógi drápu þeir svo blómann af liðsforingjasveit og menntastétt Póllands.

spotkanie_sojusznikw

Þýskir og sovéskir hermenn heilsast í Póllandi – eftir innrás þýsku og sovésku herjanna 1939. Jafnóðum hófust hryllileg grimmdarverk á báðum hernámssvæðunum.

Sunnudagur 31.8.2014 - 11:59 - Ummæli ()

Sjoppukallarnir og Helgarpósturinn – hver vill taka við af Reyni?

Þegar ég var ungur blaðamaður vann ég á Helgarpóstinum. Núorðið er ljómi yfir nafni þess blaðs – og það er ekki skrítið. Þarna voru fetaðar nýjar slóðir í íslenskri blaðamennsku á tíma þegar öll blöðin voru undir hæl stjórnmálaflokka. Þarna var stunduð rannsóknarblaðamennska, flett ofan af spillingu, efnistökin voru fersk, í blaðið skrifuðu margir frábærir ungir pennar, rithöfundar og menntamenn. Blaðið kom út á fimmtudögum – fyrst var það þannig að ungt fólk í Reykjavík beið í ofvæni eftir því að fá blaðið í hendur. Þetta var í rauninni málgagn þess.

En það var ekki auðvelt að halda úti blaðinu. Oft fékk maður seint og illa útborgað. Framkvæmdastjórinn kom til manns á föstudegi og spurði hvort 2000 kall myndi duga yfir helgina. Þetta var rétt eftir myntbreytingu. Og það var sífellt vesen með eigendur.

Í fyrstu var Helgarpósturinn reyndar tengdur Alþýðuflokknum, en það var á tíma Vilmundar Gylfasonar, svo það hefti ekki frelsið – það var eiginlega þveröfugt. Svo voru þau tengsl rofin og þá fóru að koma inn í hópinn menn sem við kölluðum stundum „sjoppukalla“.

Þetta voru kaupsýslumenn sem vildu eignast hlut í blaði, ekki til að hagnast á því, heldur til þess að ná áhrifum og stöðu í samfélaginu sem þá dreymdi um. Kannski var þetta of óvirðulegt heiti, það voru auðvitað þessir menn sem gerðu blaðinu kleift að koma út. Oft heyrði maður af einhverjum átökum bak við tjöldin, við blaðamennirnir vissum í sjálfu sér minnst af því.

Ég var hættur á Helgarpóstinum þegar varð hart stríð milli hópa sjoppukalla um blaðið, blaðamennirnir urðu svo skelkaðir að þeir fóru í verkfall – og viti menn, blaðið lagði upp laupana. Þetta var 1988. Helgarpósturinn lifði í 9 ár. Hann var endurvakinn 1994 til 1997, en það var allt annað blað.

Nú eru atburðir í kringum DV sem minna dálítið á þetta. Ritstjórinn og einn eigandinn, Reynir Traustason, virðist hafa gengið ansi langt í að halda blaðinu á floti. Hann hefur þegið lán frá mjög umdeildum útgerðarmanni. Með fylgja ásakanir um að blaðinu hafi verið beitt í átökum milli útgerðarmanna í Vestmannaeyjum. Manni skilst að einn af fyrrverandi blaðamönnum DV ætli að upplýsa um þessi mál fyrir fjölmiðlanefnd eftir helgina.

Auðvitað veikir þetta traustið til blaðsins og stöðu ritstjórans – á sama tíma og verið er að herða eigendatökin á Fréttablaðinum og Morgunblaðið er í höndum stórútgerðarfólks sem beitir því grimmt í sínu áróðursstríði.

Maður saknar tíma þegar blöð voru í höndum sómamanna eins og Haraldar Sveinssonar, sem var stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og þeirra sem áttu blaðið á tíma hans. Og flokksblöðin – ja, að minnsta kosti vissi maður hver stefnan var og hvað lá að baki skrifunum.

Einn af „sjoppuköllunum“ sem ásælist DV virðist aðallega vera í hefndarleiðangri gegn Reyni Traustasyni. Það boðar ekki gott. Hvað eiga blaðamennirnir að gera? Eiga þeir að fara í verkfall eins og blaðamennirnir á Helgarpóstinum í eina tíð eða eiga þeir að bíða átekta? Reynir Traustason hverfur líklega úr ritstjórastóli á DV á næstu dögum – við þessar aðstæður getur ekki verið spennandi að taka við starfi hans? Eða hver vill gera það?

 

Laugardagur 30.8.2014 - 16:11 - Ummæli ()

Léleg lestrarkunnátta – hvað er til ráða?

Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að birta í heild sinni grein eftir Sölva Sveinsson, skólamann og fræðimann, sem er prentuð í Morgunblaðinu í dag. Sölvi var gestur hjá mér í Viðtalinu á RÚV í vetur, en í þessari grein fjallar hann um lélega lestrarkunnáttu og orsakir þess að henni hrakar:

PISA-rannsóknin tekur til ákveðinna þátta í námi unglinga, einkum bóklegra, og lesskilningur er þar ofarlega á baugi, enda varðar það miklu að skólinn skili samfélaginu þegnum sem bæði geta lesið hratt og vel og skilið það sem þeir lesa. Á þetta skortir. Í síðustu PISA-könnun gátu einungis 79% 15 ára unglinga lesið sér til gagns. Af Norðurlandaþjóðum sátu einungis Svíar aftar á merinni. Þetta er óviðunandi og býður heim ófarsæld þegar börnin skrá sig í framhaldsskóla eða fara að eiga með sig sjálf, en kunna þá ekki fótum sínum forráð. Þetta er einnig fráleitt í ljósi þess að á hvert stöðugildi kennaramenntaðra starfsmanna í grunnskólum voru einungis 9,3 nemendur árið 2012, skv. Skólaskýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 
Snemmsumars gaf Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra út Hvítbók þar sem hann markar brýnustu áherslur fyrir skólakerfið næstu ár og þeirra á meðal er, að í PISA-rannsókn, sem fyrirhuguð er 2018, hafi 90% nemenda góðan lesskilning. Þessu á að ná með því m.a. að styrkja móðurmálsnám, setja viðmið um lestur og lesskilning og fylgja þessu eftir af festu.

 
En af hverju er svona komið fyrir „bókaþjóðinni“ og hvað er til ráða? Ástæðurnar eru margar og bíta í skottið hver á annarri. Lítum fyrst á grunnskólana. Mjög víða er formlegri lestrarkennslu hætt eftir 4. bekk þótt lestur og lesskilningur séu á námskrá fyrir eldri bekki og við blasi að margir hafi ekki náð settum markmiðum í lok vertíðar í 4. bekk. Þetta gengur ekki upp. Í öðru lagi hafa nemendur líklega of margar greinar undir fyrstu árin þegar öllu máli skiptir að ná traustum tökum á lestri, skrift og reikningi. Í þriðja lagi hætta of margir ungir og efnilegir kennarar þegar þeir hafa sýnt sig og sannað; það er nefnilega svo að kennari, sem hefur fulla stjórn á 25 6-10 ára börnum og kemur þeim til nokkurs þroska, er eftirsóttur til ýmissa starfa sem skila fleiri aurum í pyngjuna. Gleði góða kennarans eykst heldur ekki þegar samkennari hans sinnir starfinu með hangandi hendi, en sama upphæð blasir við á launaseðlum beggja. Í fjórða lagi er það svo að ávallt mun eitthvert brot af hverjum árgangi eiga í erfiðleikum með lærdóm, ekki einungis í lestri, heldur yfirleitt.

 
Því næst má líta til menntunar kennara sem nú tekur fimm ár að loknu stúdentsprófi. Mörgum finnst sem þar megi leggja meiri áherslu á þjálfun í starfi, ekki síst kennslu í lestri. Lestrarhæfni er grunnur að velferð barnsins á því ferðalagi sem fyrir því liggur upp í gegnum skólakerfið. Kennaranám þarf að vera eftirsóknarvert fyrir öfluga námsmenn.

 
Þá beinast spjótin að foreldrum og forráðamönnum – og þar liggur lykillinn að farsælli niðurstöðu í samvinnu við skólana. Nú eru börn 180 daga á ári í grunnskólanum, en þau eru 365 daga með foreldrum sínum og degi betur í hlaupári. Æfingin skapar meistarann, segir málshátturinn. Í skólanum læra börnin tæknina til að lesa og þar lesa þau daglega á skólatíma, en einungis lítill hluti barna verður fluglæs ef þau lesa einungis daga skólaársins. Næðisstund foreldra og barna yfir bók – allt árið – eflir í senn lestrarhraða, skilning, orðaforða og einbeitingu. Foreldrar verða að forgangsraða tíma sínum með þetta í huga. Ýmsar athuganir sýna að fyrsta verk margra foreldra þegar heim kemur er að opna tölvupóst, vafra á neti, lesa fésbókina o.s.frv. áður en sest er að matborði. Þá er lítill tími til lestrar. Barni sem verður bókin töm hlekkist miklu síður á í skólagöngu sinni; hins vegar er bóklaus maður blindur, svo vísað sé í málshátt.

 
Það er líka á valdi foreldra að stjórna tölvunotkun barna sinna, en þráseta barna við tölvur eykur þeim eirðarleysi, dregur úr samskiptahæfni og þegar verst lætur bitnar tölvunotkun á svefni og heilnæmri hvíld – og ýtir undir ólæsi. Ég þekki marga unglinga sem eyða 3-6 klukkustundum á dag við tölvu að skóla loknum. Strákar eru þar í meirihluta og stunda mest leiki, stúlkurnar eru að jafnaði nær þremur klukkustundum en sex og eru fremur á samskiptasíðum en í leikjum. Tölvunotkun á þessum mælikvarða er fíkn. Í raun réttri er ákaflega mikið efni á netboðstólum sem á alls ekkert erindi við börn og unglinga. Vinsælustu leikir ungra drengja eru margir í þeim flokki og hlaðnir ofbeldi.
En hvaða ábyrgð ber þá samfélagið í heild? Andi þess er ekki beinlínis hlynntur lestri og bókum nú um stundir. Framboð á hvers konar afþreyingu er svo mikið að bóklestur á í harðri samkeppni. Elstu kynslóðirnar í landinu leituðu í bókina, hún var eiginlega það eina sem bauðst til dægradvalar. Öll tækni nútímans var langt inni í framtíðinni þegar sá sem hér skrifar var á sokkabandsárum, einungis Ríkisútvarpið rauf kyrrðina með einni rás. Plötuspilarar voru fágætir – og síminn einungis tæki á borði eða festur á vegg. Nú er hver einstaklingur gangandi tækniundur í krafti snjallsíma og spjaldtölva. Nokia – connecting people, hljómar kunnuglega. Finnar bættu við slagorðið: Disconnecting families.

 
Of margir horfa fram hjá þeim voða sem fjórðungs ólæsi er fyrir hverja kynslóð. Lestur og málskilningur er forsenda fyrir eðlilegri og farsælli þátttöku í lífi hverrar þjóðar, lykilhæfni til þess að koma sér vel fyrir í samfélagi við aðra. Því er brýnt að markmiðum Hvítbókar verði náð, en því miður eru feiknstafir á lofti: Útgáfa bóka fyrir börn og unglinga hefur snarminnkað undanfarin ár. Þýðir það ekki að býsna margir séu hættir að gefa börnum bækur? Þá erum við komin í háskalegan vítahring sem verður að rjúfa.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is