Miðvikudagur 26.07.2017 - 15:45 - Ummæli ()

Guðmennið – og hið óseðjandi tækniblæti

Við horfum upp á blinda framrás tækninnar. Tæknidýrkun og tækniblæti hefur slík völd í lífi okkar að talið er fráleitt að leggja nokkurs staðar stein í götu tæknilegrar þróunar – við tölum reyndar yfirleitt um „framþróun“ þótt ekki sé alltaf víst að það eigi við.

Hér er til dæmis athyglisvert viðtal við forstjóra hjá Mercedes Benz, mann sem skartar veglegu yfirvaraskeggi, þar sem hann talar um hluti sem munu óhjákvæmilega verða á næstu árum og áratugum.

Eitt af því er til dæmis hvernig störf munu hverfa. Þá erum við ekki bara að tala um störf bílstjóra, afgreiðslu eða verksmiðjufólks, heldur líka til dæmis störf lögfræðinga. Þarna er beinlínis varað við því að ungt fólk mennti sig í lögfræði.

Jú, svo er þarna talað um gervigreind sem verður miklu gáfaðri en mannkynið – sem í sjálfu sér er skelfileg tilhugsun – tæki sem greina heilsufar okkar á augabragði og stóraukið langlífi.

Langlífið verður örugglega mest fyrir þá sem hafa efni á því. Það er jafnvel talið að ríkasta fólkið geti nánast keypt sér eilíft líf þegar líður á þessa öld. Heilsufarsgreiningar geta haft það í för með sér að fólk með undirliggjandi eða arfgenga sjúkdóma verður annars flokks þegnar. Og þegar störfin leggjast af, hvað kemur þá í staðinn? Auðfyrirtæki munu sem fyrr hirða ágóðann – staða þeirra hefur aldrei verið sterkari en nú. Fólk sem getur ekki fengið neitt að starfa upplifir tilgangsleysi. Kannski verður því séð fyrir einhverri lágmarksframfærslu? Og hver mun borga skatta þegar engin eru störfin?

Margt í þessu er líka fagurt og gott, eins og framtíð þar sem við notum hreina orku, þar sem finnast lækningar við sjúkdómum sem nú eru banvænir, þar sem við sameinumst um sjálfkeyrandi bíla sem munu rýma til í borgunum (ég hygg reyndar að spádómur Mercedesmannsins um þá sé nokkuð reyfarakenndur, það mun taka langan tíma að losna við einkabílinn). En annað er bókstaflega dystópískt, það er framtíð sem er furðu lítið rædd í stjórnmálunum og í fjölmiðlum. Við sættum okkur við það að leyfa tækninni að æða áfram á sjálfstýringu. Það þykir beinlínis hallærislegt að andæfa henni.

Í þessu framhaldi má nefna bók eftir einn merkasta hugsuð samtímans, ísraelska sagnfræðinginn Yuval Noah Harari. Bókin nefnist Homo Deus og er framhald af bók hans sem heitir Sapiens. Í Homo Deus segir frá því hvernig mannkynið hefur að talsverðu leyti frelsast undan hungri, sjúkdómum og stríði sem hrjáði það áður, en um leið drottnar það yfir náttúrunni, eyðileggur hana og hefur gert önnur dýr undirgefin sér – og meðferðin á sumum tegundum er vægast sagt hryllileg.

Um leið er spáð í framtíð mannsins meðal annars, hvernig „Guðmennið“ mun í skjóli tækninnar teygja sig í átt til enn meiri drottnunar yfir jörðinni og til ódauðleika, hinn skelfilega ójöfnuð og óréttlæti sem því getur fylgt þegar maðurinn líkt og rennur saman við tæknina. Hugsanlegt er að þá eigum við eftir að sjá stéttaskiptingu sem er meiri en hefur þekkst í langan tíma – og auðstétt sem verður sífellt meira óseðjandi, ekki bara í peninga heldur líka meiri tækni og lengra líf. Margt af þessu er hrollvekjandi aflestrar.

 

 

Þriðjudagur 25.07.2017 - 21:08 - Ummæli ()

Pópúlískur flokkur í bullandi séns?

Við erum að upplifa afskaplega tíðindalítið pólitískt sumar. Það er sannkölluð gúrkutíð. En Inga Sæland og Flokkur fólksins fá þá hugmynd að nota hana til að koma sér á framfæri, halda fund og fylla Háskólabíó. Og sjá – allt í einu er flokkurinn kominn í heil 6 prósent í skoðanakönnunum. Þetta verður ennþá meira áberandi sökum þess að FF mælist stærri en tveir flokkar sem sitja í ríkisstjórn Íslands, Viðreisn og Björt framtíð.

Fyrir þá er þetta býsna pínlegt en fyrir stjórnmáaafl sem hefur verið á jaðrinum eins og Flokk fólksins getur verið ómetanlegt að fá svona könnun. Hún eflir sjálfstraustið og sýnir kjósendum að þetta kann að vera kostur sem skiptir máli. Og í næstu könnun gæti fylgið orðið enn meira.

Inga Sæland er kokhraust í viðtali við Ríkisútvarpið. Segist ætla að bjóða sig fram í efsta sæti FF fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Gefur stór fyrirheit um húsnæðismál, ókeypis máltíðir í skólum og hjúkrunarheimili, og svo vill hún byggja stærri umferðargötur og hverfa frá áherslu á „vistvænan ferðamáta“ eins og það er kallað í fréttinni.

Allt þetta gæti fengið nokkurn hljómgrunn – og maður heyrir spurt hvort þarna sé kominn fyrsti pópúlistaflokkur Íslands sem eigi einhvern séns?

 

Þriðjudagur 25.07.2017 - 03:14 - Ummæli ()

Verslunarpistill frá Ameríku

Það er merkileg reynsla að versla í Bandaríkjunum, landi ofneyslunnar og ofgnóttarinnar. Hér er allt verslunarfrelsið sem Íslendinga dreymdi um á tíma haftanna – og prísarnir eru oft fáránlega lágir miðað við það sem við þekkjum. Whole Foods sem nú er að komast í eigu Amazon er samt ekki ódýr búð, það skal tekið fram. En margt kaupir maður hér á miklu lægra verði en heima.

Maður sér breytingar á verslunarháttum í fólki sem er á þönum um borgina með sendingar. Verslun hefur færst að nokkru leyti á netið og neytendur láta senda sér heim. Samkvæmt Business Insider er þetta þó ekki enn í jafn miklum mæli og margir virðast halda. Netverslun hefur verið kennt um hrun í hefðbundinni verslun í Bandaríkjunum og ekki síst lokun mikils fjölda verslunarmiðstöðva.

Business Insider segir að þó sé ekki nema 8,5 prósent af verslun í Bandaríkjunum á netinu, 91,5 prósent af varningi sé enn keyptur í búðum sem hafa veggi, gólf og þak. Meginskýringin á þessum mikla samdrætti sé gríðarleg offjárfesting í verslunarhúsnæði sem hófst á síðasta áratug 20. aldarinnar og náði fram undir kreppu 2008. Alls staðar risu stórar og smáar verslunarmiðstöðvar. Í Bandaríkjunum séu 23,5 ferfet af verslunarhúsnæði á hvern einstakling, það sé vonlaust að öll sú fjárfesting geti skilað arði. Því þurfi að loka miklu af þessu verslunarrými.

Það eru einkum hinar dýrari verslanir sem neyðast til að skera niður. Fyrirtæki eins og Sears þarf að loka helmingi af verslunum sínum til að ná sömu nýtingu húsnæðisins og var 2006. Hins vegar dafna afsláttarbúðir eins og Marshalls og TJ Maxx.

Staðreyndin er nefnilega sú að neysla hefur ekki náð sér á strik aftur eftir kreppuna. Fólk kaupir minna, ódýrara, vandar valið betur – og virðist heldur ekki eins áfjáð í að sanka að sér hlutum. Eins og stendur í greininni fer meiri peningur en áður í „upplifanir“. Vissulega hefur netið sín áhrif – en því verður langt í frá einu kennt um vanda verslunarfyrirtækja.

Svo er annað sem maður tekur eftir. Víða eru í verslunum komnar upp stöðvar þar sem viðskiptavinir geta afgreitt sjálfa sig – gera þannig afgreiðslufólk óþarft. Oftast er þó líka afgreiðslufólk af holdi og blóði og áberandi að viðskiptavinirnir leita áfram til þess.

Því hver er eiginlega ánægjan í því að þurfa sjálfur að skanna strikamerki á vörum til að komast út úr búð – líkt og maður sé farinn að vinna á kassa í Bónus? Einhverjum kann að finnast þetta voðalega nútímalegt – en maður fyllist aðallega depurð yfir því hvað þetta er leiðinleg hugmynd og útfærsla, sjá mynd hér að neðan.

Það er reynt að selja neytendum þá hugmynd að þarna sé á ferðinni sé einhvers konar frelsi, en í raun snýst þetta allt um fyrirtæki sem eru að spara aur – og losa sig við starfsfólk. Kannanir sýna að fólki er upp til hópa er meinilla við slíka sjálfsafgreiðslu. Það er rík tilhneiging í samfélagi tækninnar að vanmeta mannleg samskipti – maðurinn er þrátt fyrir allt félagsvera.

 

Mánudagur 24.07.2017 - 15:20 - Ummæli ()

Kanada í miklum metum

Kanada er það ríki í heiminum sem hefur jákvæðust áhrif á heimsmálin. Ástralía kemur næst, svo Þýskaland, Frakkland og Bretland. Þá kemur Evrópusambandið en miklu neðar eru Bandaríkin og fyrir neðan þau Rússland. Merkilegt er að Kína er fyrir ofan bæði Bandaríkin og Rússland.

Þetta eru niðurstöður úr könnun sem birt er á vef World Economic Forum. Skoðanakönnunin var gerð í 25 löndum, en í frétt sem fylgir með má lesa að Bandaríkin hafa hrapað niður á þessum lista. Evrópusambandið stendur í stað, en Bretland fellur um tíu prósentustig.

Svo má sjá að Ísrael er mjög neðarlega og líka Íran. Kannski ekki furða?

 

Sunnudagur 23.07.2017 - 21:08 - Ummæli ()

Er Big Lebowski bar í Reykjavík?

Við hittum þennan náunga á götu í Boston og síðan á kaffihúsi. Spjölluðum aðeins við hann – hann fann hjá sér þörf fyrir að segja okkur hvað hann gerði. Útlitið var semsagt ekki tilviljun. Það þurfti eiginlega ekki að skýra þetta út.

Svo spurði hann hvort það sé rétt að á Íslandi sé bar sem nefnist The Big Lebowkski. Við sögðum að svo væri. Það þótti honum áhugavert.

Veltum svo fyrir okkur hvort væri ekki rétt að bjóða The Dude að koma á þann bar – hann gæti setið þar einhverja hríð.

 

Laugardagur 22.07.2017 - 23:25 - Ummæli ()

London City Airport er ekki í miðborg Lundúna

Keflavíkurflugvöllur er sprunginn vegna mikillar flugumferðar. Það er ljóst að þarf að grípa til einhverra ráða til að stækka flugvöllinn verulega ef menn ætla að anna þeirri umferð sem nú er þar.

Þetta er eitthvað sem ekki verður komist hjá því að gera – sérstaklega í ljósi umræðu um Keflavík sem einhvers konar flugmiðstöð norðursins. Umferðin um hann er þegar orðin álíka mikil og á flugvöllum milljónaþjóða.

Þegar flugstöðin var byggð var umferðin um hana sáralítil miðað við það sem nú er – þá var meira að segja tuðað yfir því sem hún væri of stór. Auðvitað var erfitt að sjá fyrir þá gríðarlegu aukningu sem hefur orðið í farþegaflugi í heiminum – og um íslenska flugstjórnarsvæðið.

En nú skýtur upp þeirri undarlegu hugmynd að fara að nota Reykjavíkurflugvöll líka undir millilandaflug með þotum. Um þennn flugvöll hafa verið deilur áratugum saman, ólíklegt er að hann sé á förum á næstunni – rökin um innanlandsflug til Reykjavíkur og sjúkraflug hafa vegið nokkuð þungt í umræðunni.

Allt öðru máli gegnir um flug með þotum til dæmis frá Bretlandi en flug frá Akureyri og Ísafirði. Ein röksemdin sem er notuð er að London City Airport – þaðan sem British Airways ætla máski að fljúga til Keflavíkur – sé nú í miðborginni í Lundúnum. Og hví þá ekki að hafa miðborgarmillilandaflugvöll í Reykjavík?

En staðreyndin er sú að London City Airport er 15 kílómetrum frá þeirri miðborg Lundúna sem við þekkjum flest og þar sem flestir ferðamennirnir eru, þ.e. West End, Soho og Westminster, eins og sjá má á þessari mynd er drjúgur spölur á flugvöllinn frá þessum stöðum. Ætli þetta sé ekki álíka löng vegalengd og úr Reykjavík í Hvassahraun?

 

 

 

Laugardagur 22.07.2017 - 15:52 - Ummæli ()

Frábært sædýrasafn – gætum við kannski líka komið upp slíku safni?

Fórum í gær á hið stórkostlega sædýrasafn í Boston, New England Aquarium. Þetta er afar vinsælt safn og oft mikið fjölmenni þar, enda stendur það í vinsælu hverfi við höfnina. Safnið leggur eðlilega mikla áherslu á umhverfismál – maður upplifir ógnarfegurð og fjölbreytileika hafdjúpanna, en líka hvernig þeim er ógnað af umsvifum mannskepnunnar.

Sú eyðilegging er sorglegri en tárum taki, en söfn eins og þetta eru mjög gagnleg til að vekja mann til vitundar um umhverfið.

Ég hef stundum skrifað um að það væri þjóðráð að Íslendingar kæmu sér upp sædýrasafni – það yrði varla jafn stórt og fjölbreytt og það í Boston, að minnsta kosti tekur tíma að koma upp slíku hágæðasafni. En safn með norðlægum fiskum og sjávavarlíffverum gæti haft mikið aðdráttarafl, degið að sér mörg hundruð þúsund manns á ári – og svo gæti það nýst afar vel í skólastarfi.

Það er náttúrlega erfitt að taka myndir inni á sædýrasafni, enda er auðvitað best að njóta þess án þess að vera sífellt að flagga myndavélasímanum, en hérna eru nokkur sýnishorn.

 

Piranhafiskur.

 

Sæhestur.

 

 Ekki man ég hvað þessir hétu, ein þeir stinga sér líkt og jurtir upp úr sandinum, með mjóan búk og haus, líta dálítið út eins og hattífattarnir í Múmínálfunum. Frekar sætir á sinn hátt.

 

Þessi er ekki beint góðlegur. Þetta er moray-áll sem lifir víða um heimshöfin. Við Kári höfum rekist á svona kvikindi þegar við erum að snorkla við Grikklandsstrendur en þá eru þeir brúnir og gulir á litinn, en ekki síður ófrýnilegir. Smerna er gríska nafnið.

Þetta eru pterois eða lionfish á ensku. Þykja frekar til óþurftar. Eru upprunnir í Indlandshafi og Kyrrhafi og hafa breiðst út til Atlantshafsins og inn í Miðjarðarhaf. Eru eitraðir og lítt velkomnir.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is