Sunnudagur 26.4.2015 - 20:19 - Ummæli ()

Endurvekjum geirfuglinn

Fór á nýju sýninguna í Safnahúsinu í dag. Hún fyllir allt húsið – virðist vera hugsuð sem ein heild. Mestanpart virkar þetta samt hippsum happs, eins og skrítinn samtíningur. En kannski hef ég misskilið – var aldrei hugmyndin að sýna þarna verk og hluti sem standa upp úr í íslenskri menningu?

Nú mun þetta vera samvinnuverkefni Listasafns Íslands, Þjóðminjasafns, Árnastofnunar, Þjóðskjalasafnsins og Náttúruminjasafnsins. Einhvern veginn hefði maður haldið að þessar stofnanir hefðu upp á meira og betra að bjóða til að setja í þetta glæsilega hús – sem er eiginlega aðalstjarna sýningarinnar. Aldrei hefur Landsbókasafnið gamla virst fegurra og nú getur maður gengið frjálst um allar hæðir. Það hefði samt mátt taka stóla og borð út úr fundarherbergjum.

Í mínum huga var það reyndar glæpur þegar klósettin í anddyrinu voru fjarlægð. Þar voru stærstu pissuskálar landsins, bak við skyggða glerglugga. Dengur sem fór þangað til að pissa varð alveg pínulítill – og það gleymist aldrei. Vandalar fjarlægðu klósettin þegar húsið var endurbyggt – á sama tíma og settur var hornsteinn þar sem stóð að Davíð Oddsson hefði byggt húsið, hundrað árum eftir að það reis.

Langflottasti gripurinn á sýningunni eitt af fáu sem nýtur sín og er gaman að skoða, er geirfuglinn. Þetta er fuglinn sem var keyptur á uppboði í London 1971 fyrir 17 milljónir að undangenginni söfnun meðal landsmanna. Hann hefur síðan verið í varðveislu Náttúruminjasafnsins. Síðustu geirfuglarnir voru veiddir í Eldey 1844.

Við Kári, sonur minn, vorum með tárin í augunum og kökk í hálsi þegar við hugleiddum örlög geirfuglsins.

Hann var stór og stirður, ófleygur, en góður, höldum við.

Við vorum báðir þeirrar skoðunar að rétt sé að taka erfðaefni úr geirfuglinum – og hann verði þannig endurvakinn til lífs, þessi góði fugl.

 

19094_10153317797685439_3732015550403483749_n

 

Sunnudagur 26.4.2015 - 13:35 - Ummæli ()

Aldrei samstaða um sæstreng

Eitt af því sem sagt er að geti orðið íslensku hagkerfi til mikils framdráttar er sæstrengur til Bretlands. Landsvirkun rekur áróður fyrir þessari hugmynd og hagfræðingar hafa fullyrt að þetta verði eins og að mala gull. Það getur vel verið að þetta sé bráðsniðugt.

Samt held ég að ekkert verði af þessu.

Það eru nokkur mál sem kljúfa hina deilugjörnu íslensku þjóð í fylkingar. Eitt þeirra er nýting orkuauðlinda. Þeim sem vilja sem minnsta nýtingu vatns- og jarðhitaorku vex stöðugt ásmegin. Friðunarhugsunin er orðin svo sterk að maður heyrir hvarvetna fussað og sveiað þegar talað er um veg yfir íslenska hálendið. Svo er líka að koma í ljós að fráleitt er að nota jarðhita í þeim mæli sem þarf til að afla orku fyrir stóriðju eða sæstreng.

Framhjá þessu verður ekki komist – og svo eru reyndar aðrir sem telja að orku sem yrði seld í gegnum sæstreng ætti að nota hér heima. Sumir myndu jafnvel frekar vilja álver – en eins og staðan er í heimsviðskiptum er nær útilokað að rísi fleiri álver.

Ég ætla semsagt að leyfa mér að spá að verði aldrei samstaða um að leggja þennan sæstreng.

Laugardagur 25.4.2015 - 19:54 - Ummæli ()

Furðulegar hugmyndir um réttindi vinnandi fólks

Fólk sem ræður sig í vinnu  er í raun að selja vinnuafl sitt. Oft er vinnan það eina sem það á til að selja, það á ekki eignir eða hluti í fyrirtækjum eða gjaldeyri.

Sjálfsagður réttur fólks sem selur vinnu sína með þessum hætti er að neita að selja hana þegar borgunin er of léleg. Í siðmenntuðu samfélagi dettur engum í hug að taka þennan rétt af launafólki.

Viðhorfi sem birtast hjá Pétri Blöndal alþingismanni í viðtali í Morgunblaðinu í dag eru eins og úr grárri forneskju. Hann talar um að sækja skaðabætur til stétta sem fara í verkföll og taka launahækkanir af fólki með skyldusparnaði.

Það er ljóst að ef hugmyndir af þessu tagi næðu fram værum við að þokast nálægt afnámi sjálfs verkfallsréttarins. Eða hver á að ákveða hver borgar skaðabætur?

Væri hægt að láta atvinnurekendur sem tíma ekki að borga almennilegt kaup greiða skaðabætur líka? Við höfum dæmi um að grunnlaun dugi ekki fyrir framfærslu – og þá þarf verkafólk jafnvel að leita aðstoðar hjá ríki eða sveitarfélögum.

Frjálsir samningar á vinnumarkaði eru ein grunnstoð þess lýðræðiskerfis sem við búum við.

Pétur hefur reyndar lengstum verið talsmaður auðvalds á Alþingi og menn hafa kunnað að meta að hann er grímulaus hvað það varðar. En það sem hann talar um þarna minnir fremur á þjóðfélagskerfi eins og tíðkaðist á Ítalíu á tíma Mussolinis og Spáni á tíma Francos.

Það er svo með ólíkindum að sjá Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, hrósa Pétri fyrir þennan málflutning. Hún segir að hann „hafi alltaf haft skýra sýn á verkfallsréttinn“. Hvað segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson við þessu? Eða Eygló Harðardóttir?

 

 

Í þessu viðtali skýrir Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz í stuttu máli hvað hefur gerst varðandi dreifingu auðsins í Bandaríkjunum, landi þar sem verkalýðsfélög eru lömuð eða dauð. Auðurinn safnast á hendur hinna örfáu ofurríku en laun standa í stað eða lækka.

 

 

 

Laugardagur 25.4.2015 - 14:28 - Ummæli ()

Bruninn mikli í frásögn alþýðukonunnar Elku

Úr dagbók Elku Björnsdóttur verkakonu 1915: 1. sunnud. í sumri, 25. apr.

Þegar ég var á leiðinni til Stínu í morgun kl. langt gengin 7, frétti ég að stórbruni stæði yfir í miðbænum, gas-sprenging hefði orðið í Hótel Reykjavík, brunnið til ösku og fleiri nálæg hús. Þetta reyndist því miður satt. Davíð hafði ekki elju í að vinna heldur fór ofan í bæ að reyna að hjálpa til við björgun o.s.frv. Hann kom heim um kl. 10, þá  fór ég í laugar, notaði mér það, að hann var heima; ég kom ekki fyr en kl. hálf – 9, hafði hjólbörur, vond færð. Hjörtur kom til mín seinast. Hann hafði vaknað rétt strax er eldurinn kom upp, um kl. tæplega 4 og tók að hjálpa til við björgun; G. Ólsen húsbóndi hans er slökkviliðsstjórinn. Þrettán hús er talið að brunnið hafi, Hótel Reykjavík, vefnaðar- og fataverslun Th. Thorsteinsson áfast við og svo nefnt Herdísarhús, fyrir vestan hótelið (verslun Hj. G.) en Ísafold tókst að verja. Úr stórhýsunum læsti sig eldurinn yfir Austurstrætið og í Landsbankann og brann hann, alt sem brunnið gat en peningar og skjöl urðu þó, sem betur fór, lítt skemmd í eldtraustum skápum. Ennfremur brunnu Edinborgarhúsin öll, í gegn, kjötbúðin og hús og verslun Gunnars Gunnarssonar, skrifstofa Eimskipafélags Íslands og Ingólfshvoll stórskemmdist og brann þar inni eigandinn Guðjón Sigurðsson úrsmiður. Í Pósthússtræti brann Godthaab, en nýju pósthúsbygginguna tókst að verja, þó var farið að loga í henni. Í Hótel Reykjavík brann inni vinnumaður frú Zöega, Runólfur Steingrímsson. Sama sem engu varð bjargað úr húsunum sem brunnu nema Gunnars; manntjón varð ekki fyrir guðs náð nema þessi 2 og var það auðvitað nóg.

Dagbækur Elku eru stórmerkileg heimild um líf alþýðufólks á fyrstu áratugum 20. aldar. Dagbækurnar hélt hún á árunum 1915-1923 og komu þær út fyrir nokkrum árum hjá Háskólaútgáfunni í ritröðinni Sýnisbækur íslenskrar alþýðumenningar. Hér er síða úr dagbókunum, þarna segir Elka frá sumardeginum fyrsta, 22. apríl 1915, fyrir hundrað árum.

 

bccbce381d76c5677e8d39f85fdb1a0a

Laugardagur 25.4.2015 - 10:59 - Ummæli ()

Þingmaður LÍÚ

Merkilegur er hann þingmaðurinn sem tilkynnti eftirfarandi og það á aðalfundi LÍÚ:

Ég reyni að gera eins og ég mögulega get. Ég lofa ykkur því. Ég er búinn að lýsa því yfir, meira að segja úr pontu Alþingis, að ég sé bara fulltrúi útgerðarmanna.

Ekki man ég til þess hér á árum áður að neinn þingmaður hafi tilkynnt að hann væri til dæmis fulltrúi SÍS – eða Kolkrabbans.  Og er þó víst að ýmsir þingmenn gengu erinda þessara aðila.

Sumir kunna að segja að það sé betra að hafa þetta grímulaust. En fólkið sem kaus Pál Jóhann Pálsson á Alþingi, vissi það hvað það var að kjósa?

 

 

Föstudagur 24.4.2015 - 19:26 - Ummæli ()

Frosti kennir Kristjáni Möller um

Við horfum upp á tvær stórar samgönguframkvæmdir, sem ráðist hefur verið í undanfarin ár, og virðast hafa klúðrast illa.

Landeyjahöfn sem er dásamleg þegar hún er opin – en því miður er hún það ekki nema hluta úr ári. Gunnlaugur Kristjánsson, forstjóri Björgunar, segir í viðtali við Morgunblaðið að það sé alvarlegt ef enn er verið að telja Vestmannaeyingum trú að hægt sé að halda Landeyjahöfn opinni yfir veturinn.

Í fyrra opnuðum við höfn­ina í byrj­un mars en þá var ein­munatíð. Það er ekki til sú aðferð í heim­in­um sem hefði getað haldið höfn­inni op­inni í vet­ur. Þá er ég ekki bara að tala um fyr­ir Herjólf. Ég er líka að tala um nýja ferju. Þarna var 5-6 metra öldu­hæð viku eft­ir viku. Af hverju er ekki komið dælu­skip eða aðferð til að halda þessu opnu? Það er vegna þess að það er ekki til. Ég verð manna fegn­ast­ur ef það finnst aðferð til að halda höfn­inni op­inni.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokks, fer ekki í grafgötur með hvern hann telur ábyrgan fyrir Landeyjahöfn. Hann skrifar á Facebook:

Lög um Landeyjahöfn voru samþykkt í maí 2008 eða korter í kreppu. Kristján L. Möller, þá samgöngumálaráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, stóð að þessu og fer fremstur í flokki þeirra sem bera pólitíska ábyrgð á mistökunum. Það var búið að vara við að höfn myndi aldrei ganga á þessum stað en áfram var haldið. Síðan hafa margir milljarðar hafa farið í súginn.

Frosti bendir líka á þá sem hann telur bera ábyrgð á Vaðlaheiðargöngum. Þau voru samþykkt í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingrímur J. Sigfússon var þá fjármálaráðherra, Ögmundur Jónasson samgönguráðherra, en Kristján Möller var einn hvatamaður að byggingu ganganna:

Í júní árið 2012 varaði ég við því að lítið mætti út af bera til að eigið fé þess félags sem stendur að gerð Vaðlaheiðargangna myndi þurrkast út og þá væri tjónið komið á ríkið. Nú er heilmikið búið að fara úrskeiðis og ríkið hlýtur að vera orðið eini eigandinn að þessum ótímabæru jarðgöngum Jóhönnu- og Steingríms – ríkisstjórnarinnar. Eru þeir sem standa að þessari „einkaframkvæmd“ reiðubúnir til að koma með þá viðbótar milljarða sem til þarf?

caeacba97e-380x230_o-1

ae51b9688d-300x200_o

Föstudagur 24.4.2015 - 11:29 - Ummæli ()

Rússar yggla brýrnar í norðurhöfum

Við horfum upp á brostna drauma í norðurhöfum. Þar virðast Rússar ætla að velja leið átaka og ófriðar. Fyrir fáum dögum kom Dimitri Rogozin til Svalbarða, í óþökk Norðmanna. Rogozin er vara-forsætisráðherra Rússlands, feiki áhrifamikill stjórnmálamaður.

Rogozin er á bannlista í Evrópu og Bandaríkjunum vegna hernaðar Rússa í Úkraínu. Hann er líka mjög valdamikill innan raða hersins og hergagnaiðnaðarins eins og lesa má í frétt Barentsobserver. Sem vara-forsætisráðherra hefur hann einkum farið með málefni hersins auk þess sem hann hefur haft geimferðir á sinni könnu.

Það þykir vera tímanna tákn að nú hefur hann verið skipaður formaður nýstofnaðs heimskautaráðs Rússlands.

Hvað ætlast Rússar fyrir á heimskautasvæðinunum? Rogozin svaraði því í viðtali við rússneska sjónvarpsstöð:

Á síðasta ári upplifðum við sögulega sameiningu við Sevastopol og Krímskaga. Á þessu ári setjum við fram nýja sýn á þróun heimskautasvæðana. Í grundvallaratriðum snýst þetta um sama hlutinn.

rogozindmitry-rogozin-twitter

Útþenslusinninn Rogozin er orðinn formaður heimskautaráðs Rússlands – og sparar ekki stóru orðin.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is