Föstudagur 24.02.2017 - 19:36 - Ummæli ()

Staðreyndir um Svíþjóð

„Íbúar Svíþjóðar vita að ég hef rétt fyrir mér,“ segir Donald Trump. Svíagrýlan heldur áfram að fara ljósum logum um fjölmiðla heimsins.

Svíar leiðrétta þetta sjálfir og ýmsir aðrir reyndar. Aftonbladet birtir tölur þar sem meðal annars er gerður samanburður á Bandaríkjunum og Svíþjóð.

Morðtíðni á hverja 100 þúsund íbúa.

 

 

Malmö á móti hættulegum borgum í Bandaríkjunum. Malmö er sögð vera mjög vararasamur staður.

 

 

Hefur straumur innflytjenda undanfarin ár skapað glæpabylgju? Þetta eru tölur um ofbeldisglæpi.

 

 

Svo er hér athyglisvert rit. Á yfirborðinu kann að virðast að nauðganir séu fleiri í Svíþjóð en annars staðar. Nigel Farage segir að Svíþjóð sé nauðganahöfuðstaður Evrópu. En staðreyndin er sú að Svíar skilgreina nauðganir víðar en gert er í flestum löndum, þolendur njóta þar meiri verndar og eru hvattir til að kæra.

 

 

Það eru ýmis fleiri athyglisverð gögn í þessari umræðu. Á vef sænsku ríkisstjórnarinnar má sjá þessa umfjöllun um fólksflutninga og glæpi. Þarna leiðréttir utanríkisráðuneytið alls kyns hæpnar fullyrðingar, eins og það að sænsk stjórnvöld séu að fela umfang vandans og um að í Svíþjóð séu svæði þar sem lögreglan fari ekki.

Svo er tekin fyrir sú staðhæfing sem má sjá sums staðar að Svíþjóð stefni í eitt allsherjar hrun. Staðreyndirnar eru alveg þveröfugar eins og sjá má á vef World Economic Forum sem þarna er vísað í. Fyrirsögnin þar er svohjóðandi. Svíþjóð sigrar aðrar þjóðir í hérumbil öllu.

Þarna má lesa að Svíþjóð sé nú það land í heiminum þar sem auðveldast er að stunda viðskipti. Bandaríkin eru í 23ja sæti. Svíþjóð sé afar samkeppnishæft land, heimili fyrirtækja eins og IKEA, Electrolux, Ericsson og H&M.

Svíþjóð sé í sjötta sæti yfir samkeppnishæfni í heiminum. Hagvöxtur sé þar mjög öflugur, hafi verið 3,7 prósent árið 2016. Vinnumarkaðurinn virki vel og atvinnuleysi sé lítið.

Svíþjóð er í fjórða sæti í heiminum þegar mælt er jafnrétti kynjanna. Spilling sé mjög lítil, Svíþjóð er í fjórða sæti á lista Transparancy International yfir minnst spilltu lönd í heiminum.

Svíþjóð er í fyrsta sæti í Evrópu þegar litið er til nýsköpunar og notkunar hugvitsins. Það byggir meðal annars á góðri menntun starfsfólks og gæðum háskólarannsókna. Í raun er ekki ólíklegt að Svíþjóð sé þarna líka í fyrsta sæti þegar horft er til heimsins alls.

Einnig segir að Svíþjóð sé einhver besti staður í heimi til að eldast, en um leið sé atvinnuþáttaka eldra fólks mikil, og einnig sé það góður staður til að ala upp fjölskyldur með löngu fæðingarorlofi, enda sé alþjóðlegt orðspor landsins framúrskarandi.

Föstudagur 24.02.2017 - 12:44 - Ummæli ()

Mörg dómsmorð – 17 ár í varðhaldi

Nú er farið að berast út hvað endurupptökunefnd ákveður í Geirfinns- og Guðmundarmálum. Þetta verður formlega tilkynnt seinna í dag. Í fjölmiðlum segir að mál Tryggva Rúnars Leifssonar og Sævars Cisielskis verði bæði tekin upp aftur – væntanlega gildir það sama um mál hinna.

Morgunblaðið birtir sláandi úttekt á málsmeðferðinni. Þar segir að sakborningarnir sex í málinu hafi samtals setið 17 ár í gæsluvarðhaldi. Sævar í 1533 daga. Tryggvi í 1532 daga.

Tryggvi sætti einangrun í 655 daga, Sævar í 615 daga. Nú eru þeir báðir látnir, dóu fyrir aldur fram. Þeir fengu hvorugur að lifa þetta.

Hér rifjast upp orð sem Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, lét falla á Alþingi 1998 eftir að Hæstiréttur hafði hafnað beiðni um endurupptöku málsins. Það segir sína sögu að svo háttsettur maður skuli hafa talað af svo miklum þunga á þeim tíma.

Ég segi það fyrir mig persónulega að mér urðu mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki séð sig geta haft lagaskilyrði til að taka Geirfinnsmálið upp á nýjan leik. Ég hef fyrir mitt leyti kynnt mér þetta mál rækilega í gegnum tíðina og tel að þar hafi mönnum orðið á í messu í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins. Ég held að þó það hefði verið mjög sársaukafullt fyrir íslenska dómstólakerfið, þá hefði það verið gott og nauðsynlegt, hundahreinsun fyrir okkur ef nota má það óvirðulegt orð, að fara í gegnum það mál allt og með hvaða hætti það var unnið. Þeir sem hafa kynnt sér það mál rækilega geta ekki annað en sagt að þar var víða pottur brotinn […] Það var ekki aðeins eitt dómsmorð framið á allri þessari vegferð, þau voru mörg dómsmorðin sem framin voru á þessari vegferð allri og það er mjög erfitt fyrir okkur að búa við það.

 

Myndin sem fylgir sláandi umfjöllun Sunnu Óskar Logadóttur um málsmeðferðina í Geirfinns- og Guðmundarmálum á mbl.is. Hún er skyldulesning í dag, þar er lýst hrikalegri meðferð á sakborningunum.

 

Hér er svo til upprifjunar brot úr dagbók sem Tryggvi Rúnar hélt meðan hann sat í varðhaldi. „Sannleikurinn kemur alltaf í ljós þó seint verði.“

Fimmtudagur 23.02.2017 - 23:21 - Ummæli ()

Ruglumræðan – Kjararáð og áfengið

Það er framundan mikill órói á vinnumarkaði – og þar eru hinar stórstígu launahækkanir til þingmanna og ráðherra eins og olía á eld. Píratar leggja fram frumvarp um að vinda ofan af úrskurði Kjararáðs sem magnar upp ófriðarhorfurnar. Kjarasamningar verða brátt lausir hjá stórum hluta launþega.

Þeir fá þau viðbrögð úr stjórnarliðinu að þetta sé „ruglumræða“ og að það sé „óþolandi að taka umræðu“ um þetta. Málið fæst ekki á dagskrá, en það er hægt að verja tíma þingsins í umræðu um frumvarp um að setja áfengi í almennar verslanir, leyfa áfengisauglýsingar og selja áfengi langt fram á kvöld í búðum.

Píratar birta þetta línurit sem sýnir ágætlega hver þróunin hefur verið á vinnumarkaðnum – og hvað hækkanirnar til stjórnmálamanna eru úr takt við annað. En það er greinilega enginn vilji til að grípa inn í, þótt margir hafi verið þeirrar skoðunar á tíma úrskurðarins að slíkt væri nauðsynlegt. Forseti Íslands afsalaði sér launahækkuninni – sem líka er farið að sjá staði í sveitarstjórnum landið um kring.

Nú segir forsætisráðherra – sem hefur verið mikill talsmaður Salek samkomulagsins svokallaðs – að vinnumarkaðsmódelið sé mölbrotið.

Það þurfti ekkert kjararáð og úrskurð frá því til þess að læknar tækju hér skurðstofur í gíslingu. Það þurfti heldur ekkert kjararáð eða úrskurði frá því til þess að loka hér skólastofum í marga mánuði og ég hef enga trú á því að það fáist einhver sanngirni í þessa umræðu eins og vinnumarkaðsmódelið er í dag. Það er einfaldlega mölbrotið.

 

Fimmtudagur 23.02.2017 - 13:11 - Ummæli ()

650 þúsund fermetrinn

Menn skeggræða hvort sé fasteignabóla á Íslandi. Tölur tala sínu máli.

Hér er til sölu raðhús í Fossvogi, byggt 1971, það er 184 fermetar, þar með talinn innbyggður bílskúr.

Verðmiðinn á húsinu er 120 milljónir króna (fasteignamat 61 milljónir).

Gott hús, sýnist manni, og allt það, í góðu hverfi. En þetta gera um 650 þúsund krónur á fermeta.

Fasteignabóla?

 

Miðvikudagur 22.02.2017 - 21:19 - Ummæli ()

Andstaða við áfengisfrumvarp úr höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins

Það hefur verið sagt að Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi geti sett kartöflupoka í framboð en samt unnið kosningar þar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf stjórnað á Nesinu – og mun sennilega alltaf stjórna á Nesinu. Fátt getur hnikað því.

En það vekur athygli þegar sjálf bæjarstjórnin á Seltjarnarnesi ályktar gegn áfengisfrumvarpi sem lagt er fram meðal annars af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, nýtur mikils stuðnings meðal Sjálfstæðismanna – það hefur reyndar verið samþykkt á landsfundum Sjálfstæðisflokksins að áfengi skuli selt í almennum verslunum.

Nú kemur þessi harða andstaða úr einu höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins. Það er vísað til þess að meirihluti þjóðarinnar sé á móti frumvarpinu, læknar og heilbrigðisstarfsfólk vari við því og að aukið aðgengi að áfengi leiði til meiri neyslu, börn og ungmenni séu þar í hættu. Einnig segir að neysla vímuefna meðal barna og ungs fólks sé mjög lítil á Seltjarnarnesi.

Við eigum að láta hagsmuni og velferð barna og ungmenna njóta forgangs í allri stefnumörkun. Aukið aðgengi að áfengi og áróður í formi áfengisauglýsinga gengur gegn því sjónarmiði.

Þeir hafa sitt Ríki á Seltjarnarnesi sem er talsvert sótt af Vesturbæingum líka, og finnst það greinilega nóg.  Margir töldu að á nýju þingi þar sem eru margir nýir þingmenn, sumir ungir að árum, myndi áfengisfrumvarpið eiga greiða leið í gegn. En reyndin virðist ætla að verða önnur – mótstaðan er mikil og þarna úr nokkuð óvæntri átt.

 

 

Miðvikudagur 22.02.2017 - 09:14 - Ummæli ()

Bókmenntalegar götur í bænum

Strax og menn tóku að nefna götur í Reykjavík með skipulögðum hætti leituðu þeir fanga í bókmenntum þjóðarinnar. Við erum jú bókaþjóð. Grettisgata og Njálsgata fá nöfn um aldamótin 1900. Á því svæði urðu til fleiri götur með nöfnum fornsagnapersóna.

Stuttu seinna fer að byggjast svonefnt Goðahverfi í suður- og vesturhlíðum Skólavörðuholts. Þar er elst Óðinsgatan frá 1906, en svo koma Þórsgata, Lokastígur, Freyjugata og fleiri götur. Þetta mun stundum hafa verið kallað Heiðna hverfið.

Við Háskólann, í svonefndu Prófessorahverfi, urðu til Aragata og Sæmundargata. Hluti Hringbrautar breyttist í Snorrabraut, en handan hennar byggðist Norðurmýrin með götuheitum úr Njálu, Laxdælu og landnámi Ingólfs.

Það er hægt að fara enn lengra, upp í Grafarvog, þar sem er að finna mjög skáldleg götuheiti, komin úr kvæðum Bjarna Thorarensen, og alla leið upp í Mosfellsbæ þar sem nú er að rísa hverfi með götuheitum sem eru komin úr verkum Halldórs Laxness. Þarna eru meðal annars Ástu Sólliljugata og Vefarastræti.

Um þetta fjöllum við í Kiljunni í kvöld. Myndin er frá Njálsgötu.

 

Þriðjudagur 21.02.2017 - 14:19 - Ummæli ()

Svíagrýlan númer tvö

Þegar ég var yngri var mikið talað um Svíagrýluna. Meiningin var að Svíþjóð væri í rauninni eins konar laumu kommúnista- og alræðisríki. Þetta rímaði reyndar ekki alveg við raunveruleikann, sænska velferðarkerfið var vissulega nokkuð alltumlykjandi en einkaframtakið blómstraði líka í Svíþjóð í líki kapítalískra fyrirtækja sem mörg störfuðu líka á alþjóðavettvangi og náðu miklum árangri.

Á þessum árum var líka mikið rætt um „sænsku mafíuna“. Þetta var fólk sem hafði dvalið í Svíþjóð, starfað þar eða stundað nám, og var grunað um að vilja dreifa sænskum áhrifum um landið og sérstaklega í menningarlífinu. Sænska mafían var semsagt eins konar fimmta herdeild í valdasókn rauðliðanna í Svíþjóð.

Nú er Svíagrýlan aftur komin á kreik. Nú í líki kenningar um að í Svíþjóð sé allt í kalda koli vegna innflytjenda, aðallega múslima. Jú, einhver vandamál eru þar á ferðinni, en þetta rímar ekki sérlega vel við veruleikann sem er sá að Svíþjóð ríkir ótrúleg velmegun, hagkerfið þar er í mjög góðu ástandi, nýsköpun er þar mikil og byggir mjög á virkjun hugvits, ójöfnuður er minni en víðast  hvar í heiminum.

Í nokkuð einkennilegum umræðum sem finna mátti um Svíþjóð á netinu í gær setti ég inn þessa athugasemd:

Fólk í landi eins og Svíþjóð býr við betri kjör en nokkuð fólk nokkurn tíma í mannkynssögunni. Það hefur ekki bara nóg að bíta og brenna, heldur hefur það mikinn frítíma, vinnan er ekki sérlega erfið eða slítandi, vinnutími hefur verið að styttast, það hefur nægan tíma fyrir afreyingu, það getur ferðast til útlanda að vild, það hefur málfrelsi og athafnafrelsi, það lifir lengra og heilbrigðara lífi en hefur nokkurn tíma þekkst. Kannski verður það bráðum hundrað ára? Ofbeldi ógnar því ekki, því það lifir í fjarskalega öruggu umhverfi. Allar lífskjaravísitölur eru eins hagstæðar og nokkurn tíma hefur þekkst. En svo er eitthvað óþol, frumstætt liggur manni við að segja, sem brýst fram í tortryggni og hatri eins og við erum að upplifa og þá mega staðreyndir sín lítils. En við vitum aldrei, máski á mannkynið aldrei eftir að upplifa jafn vel megandi og farsæl samfélög og Norðurlöndin eru? Það er alls ekki víst að þetta vari að eilífu. Kannski er þetta „as good as it gets“?

 

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is