Fimmtudagur 11.2.2016 - 23:47 - Ummæli ()

Pútín er meiri ógn við Evrópu en Isis

George Soros, auðmaðurinn, rithöfundurinn og mannvinurinn, sem er ættaður frá Ungverjalandi, skrifar grein um ástand heimsmála sem birtist á Project Syndicate og síðan í Guardian. Soros heldur því fram að Vladimir Pútín sé meiri ógn við Evrópu en ISIS.

Nú þegar Rússar standa í árásum á Aleppo í félagi við her harðstjórans Bashirs Assad en Medvedev forsætisráðherra varar við nýrri heimsstyrjöld ef Saudar blanda sér í leikinn, er erfitt annað en að taka mark á greiningu Soros. Langafkastamestu morðingjarnir í Sýrlandi eru sveitir Assads, nú studdar af Rússum.

Soros segir að það sé algjör misskilingur að halda að Rússar geti verið bandamenn Vesturlanda í Sýrlandi. Markmið Pútíns sé að ala á upplausn innan Evrópusambandsins, besta leiðin til þess sé að sjá til þess að straumur flóttamanna flæði yfir álfuna. Pútín mun ekki taka við þeim flóttamönnum, varla einum einasta.

Sýrlenskir borgarar flýja hver sem betur getur undan árásum Assads og Rússanna. Her Assads notar hinar alræmdu tunnusprengjur sem valda geysilegu manntjóni og örkumlun. 70 þúsund manns er komnir að landamærum Tyrklands, víst er að mun fjölga í þeim hópi. Angela Merkel fór í misheppnaða ferð til Tyrklands til að reyna að fá Erdogan forseta til leyfa fólkinu að vera í Tyrklandi, svo mætti létta þrýstingi af Grikkjum í Eyjahafi. Grikkir eiga erfitt með að stöðva allt þetta fólk, og nú eru uppi hræðilegar hugmyndir um að loka norðurlandamærum Grikklands svo það komist ekki lengra.

Soros segir að Pútín sé kænn en hann sé sjái ekki langt fram í tímann. Þetta var ekki markmið hans þegar hann blandaði sér í Sýrlandsdeiluna. Þá var hann að reyna að sýna styrk Rússa, sem nú eru að festast í átökum sem sér ekki fyrir endann á. Það getur reynst dýrkeypt. Þetta hefur eyðilagt samskipti Rússa og Tyrkja sem eru mikilvæg fyrir báðar þjóðir.

En þegar Pútín sá hvað var að gerast í Evrópu greip hann tækifærið. Hann talar um að hann vilji berjast með Vesturlöndum gegn sameiginlegum óvini, Isis. Þetta er ekki nema hálfur sannleikurinn, rétt eins og þegar Rússar undirrita Minsk samkomulagið um Úkraínu en standa ekki við það. Það sé makalaust að sjá að sumir vestrænir leiðtogar virðast trúa Pútín, eða vilja trúa honum, skrifar Soros.

Rússland og Evrópusambandið eru í kapphlaupi við tímann, segir hann ennfremur. Það er spurning hvort hrynur fyrst. Rússland er á leiðinni í gjaldþrot sem verður líklega á næsta ári, þegar ýmis stór erlend lán eru komin á tíma. Lífskjör fara hríðversnandi vegna lækkaðs olíuverðs og viðskiptaþvingana. Fjárlagahallinn er 7 prósent, Soros segir að nauðsynlegt sé fyrir Rússa að ná honum niður fyrir 3 prósent. Annars fari verðbólga úr böndunum.

Besta leið Pútíns út úr þessu er ef Evrópa hrynur fyrr. Evrópusamband sem er að liðast í sundur mun ekki geta staðið á bak við viðskiptaþvinganir. Pútín græðir á því að ala á óeiningu innan álfunnar, hann mun geta ræktað viðskiptasambönd innan ýmissa ríkja og haldið áfram að ýta undir pópúlíska, and-evrópusinnaða stjórnmálaflokka innan álfunnar eins og hann hefur gert.

Hér má benda á aðra grein, hún er eftir sósíalistann Owen Jones, en þar skrifar hann um samkrull Rússa við hreyfingar hægriöfgamanna í Evrópu og hvernig þær líta til hans sem fyrirmyndar.

George Soros segir að eins og málin standa sé hætta á að Evrópa leysist upp. Síðan í fjármálakreppunni 2008 hafi Evrópa naumlega reddað sér í gegnum hverja krísuna á fætur annarri. En nú blasi við fimm til sex krísur í einu. Það gæti reynst of mikið. Eins og Merkel hafi bent á, geti flóttamannakrísan eyðilagt ESB.

Í þessu kapphlaupi um að lifa af er Evrópa á öndverðum meiði við Rússland. Isis sé vissulega ógn, en hana megi samt ekki ofmeta. Árásir hryðjuverkamanna, hversu hræðilegar sem þær eru, jafnist ekki á við ógnina sem stafar af Rússlandi. Isis skilji vel hvað vekur ótta og öryggisleysi á Vesturlöndum, rétt eins og al-Qaida áður.  Með því að magna upp óvild gegn múslimum og ótta við íslam, vonast samtökin til að sannfæra unga múslima um að terrorismi sé eina leiðin fyrir þá. Við þessu sé einfalt mótefni: Að neita að hegða sér eins og óvinurinn ætlast til.
article-3433423-30E8163B00000578-61_636x404

Flóttafólk á leið frá Aleppo undan árásum Rússa og sveita Assads.

Fimmtudagur 11.2.2016 - 17:14 - Ummæli ()

Afar síðbúið bréf þar sem hvatt er til uppgjörs

Bréf Árna Páls Árnasonar til flokksmanna í Samfylkingunni þar sem eru játuð alls kyns mistök í ríkisstjórninni 2009 til 2013 kemur náttúrlega ansi seint. Stjórnmálaflokkur með góðu og heilbrigðu starfi hefði farið í svona endurskoðunarvinnu strax eftir að hann beið afhroð í kosningunum 2013.  Í staðinn settist nokkuð aldraður og móður flokkur inn á þing, mun smærri en áður, og gerði voða lítið í „sínum málum“.

Nú er komið árið 2016, formaðurinn hefur setið í þrjú ár.

Þessi mál hefði líka mátt ræða á landsfundinum í fyrra, þegar Árni var endurkjörinn formaður með einu atkvæði, en í stað snerist hann um mótframboð frá þingmanninum Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem dúkkaði upp á síðustu stund, umræðu- og undirbúningslaust, og líktist fremur tilraun til hallarbyltingar. Það var flokknum ekki til framdráttar.

Nú er Árni kominn alveg út í horn og boðar til umræðu um mistök varðandi ESB, Icesave, skuldamál heimilanna, endurreisn banka, kvótann og stjórnarskrá. Öll stóru málin frá síðasta kjörtímabili. Syndaregistrið virkar langt og stórt og hann setur flokksfélaga í ansi erfiða stöðu með þessu – þegar er innan við ár áður en baráttan fyrir næstu kosningar byrja og þangað til verður stillt upp á framboðslista. Þetta er sannarlega ekki upptakturinn sem flokkur vildi vera í fyrir kosningar, naflaskoðun með tilheyrandi sálarangist.

Fylgi Samfylkingarinnar er lítið núna, og það er alveg möguleiki á að það lækki enn. Það er afar ólíklegt að þrátt fyrir þetta útspil nái Árni að vera formaður áfram. Sagt er að nýir vendir sópi best, en það er lítið af þeim í sjónmáli í Samfylkingunni. Hugsanlega þarf Katrín Júlíusdóttir að taka að sér djobbið, en hún var líka í hópnum sem gerði öll þessi mistök samkvæmt Árna Páli. Og það er alls ekki víst að fylgið aukist þótt hún verði formaður.

Að sumu leyti má samt segja að þetta sé klókt útspil hjá Árna frá sjónarhóli innanflokksátaka. Hann beinir sjónum að félögum sínum í flokknum í stað þess að sitja einn uppi með skömmina eins og hann hefur gert um hríð. Það er svo annað mál hvernig þetta virkar útávið. Væri kannski hægt að segja að þarna staðfestist illur grunur um Samfylkinguna – og að kannski sé allt rétt sem Sigmundur Davíð hefur sagt um flokkinn? Formaðurinn sé barasta sammála því.

 

728683d976-380x230_o

Fimmtudagur 11.2.2016 - 08:45 - Ummæli ()

Frábær ljósmynd af skautafólki á Tjörninni

Þetta er frábær ljósmynd sem birtist á vefnum Gamlar ljósmyndir og er sagt að hún sé eftir Alidu Visscher Schinn.

Myndin mun vera tekin 1941 og sýnir mikinn fjölda fólks á skautum á Tjörninni. Í mínu ungdæmi var Tjörnin ennþá þessi samkomustaður á vetrum, börn flykktust þangað á skauta, það var leikin tónlist úr hátölurum og ef ég man rétt var hægt að kaupa kakó í kjallara húss sem stóð þar sem Ráðhúsið er núna.

Þarna fór maður með vinum sínum – og kynntist börnum úr öðrum hverfum.

Þetta er mestanpart liðin tíð, borgin lætur reyndar einstöku sinnum hefla lítið skautasvell á Tjörnina, en það hefur ekki verið mikil stemming í kringum það. Í vetur hefur verið óvenju margir dagar sem er ís á Tjörninni, en reyndar er bent á það í umræðum um þessa mynd að meira ryk setjist á ísinn en áður – skýringin gæti þá verið sú að bílum hefur fjölgað og nagladekk þyrla upp ryki og skít.

En það þarf líka að halda við svellinu. Slökkviliðið var eitt sinn í Tjarnargötu og það sá stundum um að sprauta vatni á ísinn til að slétta hann fyrir skautafólk.

Það er gaman að rýna í myndina. Ekki sést bíll á ferð á Fríkirkjuveginum, en húsalengjan þar hefur nákvæmlega ekkert breyst. Það hefur tekist betur að varðveita byggðina við Tjörnina en annars staðar. Svo má sjá að börnin eru ekki bara á skautum, heldur eru margir á skíðasleðum eins og voru mjög vinsælir í eina tíð.

 

12705687_10201255100015580_1805939444665473983_n

 

Miðvikudagur 10.2.2016 - 20:03 - Ummæli ()

Vantar metnað til að gera Kvosina að fögru umhverfi?

Byggingar sem nú eru sýndar í fjölmiðlum og eiga að standa við norður-suður öxul Miðbæjarins, vestan megin lækjar, hafa hvorki þennan persónuleika, svipmót né fínlegt aðlögunargildi. Að mínu áliti er mjög ólíklegt að þær veki hrifningu. Hver veit? Kannski munu þær svara þörfum og allir verða ánægðir. En ef til vill vantar hér metnað og vilja til gera Kvosina að fögru umhverfi.

Þetta skrifar Björn Ólafs, arkitekt í París, í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Greinin er hófstillt en þó er ljóst að höfundi er talsvert niðri fyrir. Hann ræðir um hversu viðkvæmt er að byggja í Kvosinni í Reykjavík, á þessum litla bletti sem borgarbúum þykir þrátt fyrir allt afar vænt um.

Björn segir að austanmegin Lækjargötu séu falleg gömul hús og svo styttan af Ingólfi, sem syngi „hvert með sínu nefi en saman í bráðfallegum kór“. Byggingar vestanmegin götunnar séu hins vegar ekki eins vel heppnaðar, þar muni nú rísa 5 til 6 hæða hús.

Í „aðalatriðum“ er ekkert við þetta að athuga. Um er að ræða lóðir sem betra er að byggja á en standi auðar. En aðalatriði sem ekki er ákveðið í deiliskipulagi er hvernig þessi hús líti út og hvernig þau gætu myndað fallega heildarmynd með byggðinni hinum megin við götuna. Það er kallað byggðarmynstur á lélegri íslensku, en er yfirleitt ekki hluti af skilmálum deiliskipulaga í Reykjavík, því miður.

Björn segir einnig að auðvelt ætti að vera að sýna með þrívíddarmyndum hvernig þessi hús falla að umhverfi sínu. Það sé hins vegar ekki gert.

Myndefni sem ég hef séð birt sýnir það ekki. Eðlilegt er að jafn mikilvægt borgarlandslag sé sýnt almenningi í sjónvarpi en ekki aðeins í illlæsilegum smámyndum í skrifstofuhúsi í Borgartúni.

 

Screen Shot 2016-02-10 at 08.01.27

Miðvikudagur 10.2.2016 - 10:29 - Ummæli ()

Trump og Sanders og reiðu kjósendurnir

Bernie Sanders og Jeremy Corbyn eru gamlir karlar, en þeir eru fulltrúar breytinga sem eru að verða á vinstri væng stjórnmálanna. Vinstrið hefur lengi verið upptekið af því sem á ensku kallast identity politics, það eru stjórnmál sem snúast um kynferði, kynhneigð, kynþætti, fjölmenningu og réttindi minnihlutahópa.

Sanders og Corbyn færa stjórnmálin nær hefðbundnari vinstri áherslum sem snúast um kaup og kjör og ójöfnuð, nær tímanum sem sem var þegar verkalýðshreyfingin var mjög fyrirferðarmikil á vinstri vængnum. Þegar Blair tók við völdum í Bretlandi með sinn Nýja Verkamannaflokk lýsti helsti hugmyndafræðingur hans, Peter Mandelson, því yfir að sér væri alveg sama hversu ríkt annað fólk yrði – það truflaði sig ekki neitt. Blair og félagar höfðu engan áhuga á verkalýðsstjórnmálum.

Nú þegar vaxandi ójöfnuður er sífellt að verða meira ásteytingarsteinn, þætti flestum holur hljómur í slíkri yfirlýsingu frá forystumanni í vinstri flokki.

Eitt af því sem er áberandi er hvernig láglaunafók, verkalýðsstéttin eins og það var eitt sinn kallað, og lægri millistétt, hefur orðið viðskila við hefðbundna vinstri flokka og hinar félagspólitísku áherslur þeirra. Í Evrópu hallar þetta fólk sér í auknum mæli að pópúlískum hægri flokkum. Í Bandaríkjunum ryðjast Bernie Sanders og Donald Trump fram á sviðið og sprengja í loft upp allar væntingar sem menn höfðu til forsetakosninganna á þessu ári.

Þar er þess að gæta að þótt Trump tali eins og pópúlisti eða hægriöfgamaður um innflytjendamál, þá eru áherslur hans í efnahagsmálum nokkuð til vinstri (og það er reyndar líka hægt að segja um pópúlistaflokka í Evrópu). Hann segist vilja hækka skatta á ríkt fólk, létta álögum af millistéttinni, minnka möguleika stórfyrirtækja á skattaundanskotum og setja tolla á innfluttan varning. Að nokkru leyti snýst þetta um að snúa til baka hjólum hnattvæðingarinnar – sem hið nýja blairíska vinstri var svo hrifið af.

Fulltrúar „kerfisins“ eru í mestu vandræðum með þetta. Hægra megin hefur Jeb Bush ekki náð neinu flugi í kosningabaráttunni, en vinstra megin er farið að tala um Hillary Clinton sem forréttindakonu og yfirstéttarkerlingu. Hún er partur af „elítunni“, meira að segja femínistar eru að snúast gegn henni og á sveif með hinum 74 ára gamla Sanders. Í anda þeirra stjórnmála sem var lýst hér fyrst í greininni hefði verið í hæsta máta eðlilegt að kona tæki við af blökkumanninum  Obama – og það var draumur margra. En hann er óvinsæll og hún er enn óvinsælli.

Kjósendur í Bandaríkjunum eru reiðir – og það á náttúrlega við um Evrópu líka. Alls staðar má greina vantraust á hefðbundnum stjórnmálamönnum og löngun til að refsa þeim. Það er ýmislegt sem veldur þessari reiði sem breiðist út meðal almennings. Tekjur hafa staðið í stað, það er allt í einu ekki einboðið að börnin muni hafa það betra en foreldrarnir.

Kostnaður við heilbrigðisþjónustu fer vaxandi en þjónustan batnar ekki endilega. Störf flytjast burt vegna hnattvæðingar – innflytjendum fjölgar og þeir verða sýnilegri. Ódýrt innflutt vinnuafl er mjög í þágu hins kapítalíska kerfis, en hefðbundinni verkalýðsstétt og lægri millisétt finnst sér ógnað. Fjármálastofnanir verða sífellt ráðríkari – og þeim er bjargað þegar þær koma sér í vandræði með græðginni. Auðhringar eru utan og ofan við lög og flytja fjármagn milli landa að vild. Reiðin beinist líka gegn fjölmiðlum og meintri elítu menntamanna.

Hefðbundnum stjórnmálamönnum er kennt um, en völd þeirra eru í raun afar takmörkuð. Þegar nýir menn eru kosnir og ætla að hreinsa til mistekst þeim yfirleitt hrapallega – Obama boðaði nýja von 2008, það reyndist tálsýn. Árni Bergmann orðar það svo í lítilli grein á Facebook:

Þetta verður forsenda grimmrar vanmáttarkenndar og reiði sem sífellt leitar sökudólga – og finnur þá auðveldlegast í pólitískum hreyfingum og foringjum. Þeir sem mestu ráða í reynd – þeir sem eiga landið og miðin og fyrirtækin – eru líka mjög snjallir við koma því inn hjá fólki að einmitt hjá pólitíkusum séu svikin stærst og mest við þær eilífu framfarir sem menn vilja helst líta á sem sín mannréttindi.

Kerfið er svo fast fyrir að það þarf mikið til að hnika því. Reiðin og rótttæknin vex – og allt í einu eru forsetaframbjóðendurnir Trump og Sanders, ekki Bush og Clinton eins og búist var við.

 

ct-bernie-sanders-donald-trump-megyn-kelly-per-001

 

 

Þriðjudagur 9.2.2016 - 22:34 - Ummæli ()

Viljum við Kanann aftur?

Bandaríkjaher kemur aftur með herflugvélar á Keflavíkurflugvöll. Þett kemur vissulega nokkuð á óvart, en það eru auðvitað viðsjár í heimsmálunum. Bandaríkin vilja að Evrópa taki stöðu gegn vígvæðingu í Rússlandi. Íslendingar eru ennþá meðlimir í Nató, í Keflavík hefur verið starfrækt „loftrýmisgæsla“ á vegum bandalagsins með erlendum herþotum – og já, varnarsamningurinn er enn í gildi.

Allt í einu rifjast upp gamlar átakalínur í íslenskri pólitík – gjáin sem var milli hægri og vinstri í marga áratugi. Víglínan sem var dregin í gegnum huga þjóðarinnar. Deilur sem hafa virst svo fjarlægar – og að sumu leyti óraunverulegar í seinni tíð.

En tímarnir eru breyttir. Línurnar eru orðnar óskýrar. Það er ekkert kalt stríð, heldur bara kraumandi átök hér og þar í veröldinni. Bandaríkin er ekki vinsæl lengur, meira að segja innan núverandi stjórnarflokka – sem eitt sinn voru kenndir við hermangið – er mörgum alveg meinilla við þau. Samúð með Rússlandi og Pútín nær frá hægri til vinstri, líklega er hún minnst svona um miðbik stjórnmálanna. Það kæmi á óvart ef sérstök stemming væri fyrir því að fá Kanann aftur.

Hugurinn leitar samt til alls þess sem hægt er að endurnýta. Allra slagorðanna, plakatanna, söngvanna og ljóðanna.

 

12658039_10153459045668041_9090704724896223383_o

Svo eru hér tvær forsíður, frá því í maí 1951. Nokkuð ólíkar, en sýna hörkuna sem var í herstöðvamálinu. Takið eftir að þetta var á mánudegi og þá voru yfirleitt engin dagblöð. En bæði Morgunblaðið og Þjóðviljinn gáfu út aukablöð.

 

Screen Shot 2016-02-09 at 22.43.54
Screen Shot 2016-02-09 at 22.41.18

Þriðjudagur 9.2.2016 - 19:25 - Ummæli ()

Svellaveturinn mikli

Ef það er eitthvað sem hefur einkennt þennan vetur þá er það endalaus hálka. Það snjóar, hlánar aðeins, frystir aftur, út um allar grundir eru gömul skítug svell. Eftir síðustu snjókomu og blota eru þau mjög þykk – og í frostinu í dag virka þau hörð eins og demantar.

Maður skilur vel hvers vegna landið er stundum kallað Klakinn.

Við höfum tiplað yfir svellin síðan í nóvember. Það hafa verið örfáir dagar sem ekki er hálka síðan þá. Og líklega heldur þetta áfram svona fram í mars. Maður má þakka fyrir að sleppa óbrotinn í vetur.

Og það verð ég að viðurkenna að ekki skil ég túrista sem nenna að koma í þetta hérna um hávetur. Maður sér þá klöngrast hérna yfir svellbunkana. Ætli þeir viti af allri hálkunni áður en þeir koma?

 

94b406533642a28394016359ad85ab13

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is