Mánudagur 22.05.2017 - 20:09 - Ummæli ()

Íslenski Brexit-brandarinn sem misskildist

Þetta er orðið að frétt í breskum fjölmiðli – nánar tiltekið The Independent. Íslensk ferðaskrifstofa svarar breskum túrista varðandi ferð að flugvélaflaki – og segir að ferðirnar séu ekki nema fyrir þá sem eru í Evrópusambandinu.

Svo rofnar sambandið – og síðar er reyndar beðist afsökunar á þessu. En túristinn, Jenny Skates, móðgast og málið kemst í pressuna.

 

 

 

Þetta verður svo að löngum umræðuþræði þar sem er deilt um Brexit, EES, afstöðu Íslendinga til Breta – og er þar að finna marga vitleysuna og misskilninginn.

En svona er fyrirsögnin í Independent. Íslenski Brexit-brandarinn sem mislukkaðist.

 

Mánudagur 22.05.2017 - 16:18 - Ummæli ()

Sjálfstæðismenn og öryggið

Í eina tíð var það svo að engum þótti treystandi fyrir öryggi Íslands nema Sjálfstæðismönnum. Svona var það á tíma Kalda stríðsins. Sjálfstæðismenn stóðu næstir Bandaríkjamönnum sem tryggðu varnirnar. Þetta var sjálf kjölfestan í utanríkispólitíkinni – og verður að segjast eins og er að allt er miklu ruglingslegra nú en þá.

Í dag kom nýskipað Þjóðaröryggisráð Íslands saman í fyrsta sinn. Svona lítur frétt RÚV af þessum atburði út. Mætti ætla að aftur sé runninn upp tíminn að Sjálfstæðismönnum einum sé treystandi fyrir örygginu.

 

Mánudagur 22.05.2017 - 13:36 - Ummæli ()

Norðmenn rafbílavæðast en Íslendingar ekki

Þetta eru athyglisverðar tölur. Í Noregi vex stöðugt hlutfall rafmagnsbíla og fyrr á þessu ári náði það 37 prósentum af bílasölu. Þetta eru meðal annars bílar frá Hyundai, BMW, Volvo, Volkswagen og Tesla. Jafnvel er talið að innan skamms verði meirihluti bifreiða sem eru seldar í Noregi rafknúnar.

Á sama tíma eru Íslendingar í skýjunum vegna opnunar nýrrar bensínstöðvar þar sem dropinn er ódýrari en áður hefur þekkst í landinu.

Til samanburðar við þetta birti vinur minn á Facebook þessa töflu um nýskráningar bifreiða á Íslandi. Af 2551 nýjum bílum eru sárafáir raf- og tvinnbílar. Þetta eru upplýsingar Samgöngustofu frá 1. maí. Bensín og díselbílar eru í algjörum meirihluta – það er ljóst að þarna erum við miklir eftirbátar Norðmanna. Hlutfall hinna mengandi díselbíla er furðulega hátt.

Samt er, eins og Fésbókarvinurinn bendir á, raforka hræódýr hér og vegalengdir stuttar milli staða.

 

Sunnudagur 21.05.2017 - 23:40 - Ummæli ()

„Af hverju erum við að missa?“

Það verður varla auðvelt lífið fyrir Framsóknarmenn að eiga yfir höfði sér flokksþing í janúar þar sem líklega skerst í odda. Þangað til eru heilir þrír ársfjórðungar sem óánægja og tortryggin getur haldið áfram að grafa um sig í flokknum. Reyndar er dálítið óvenjulegt að halda flokksþing svona um hávetur þegar dagurinn er stystur og allra veðra von – það er vel hugsanlegt að verði illfært og gildir framsóknarbændur komist ekki leiðar sinnar á fundinn. Þetta er altént einn óvissuþátturinn.

Tæplega verður séð að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigi möguleika á að endurheimta formannssætið, slíkt myndi magna upp hjaðningavíg í flokknum. Sigurður Ingi Jóhannsson var auðheyrilega að beina orðum til hans á miðstjórnarfundinum í gær. Sigmundi hefur orðið tíðrætt um breytingar sem hafa orðið á stjórnmálunum, en Sigurður Ingi sagði ekki tilefni til að breyta stefnunni þótt einhverjir segðu að heimurinn væri að breytast:

En hver er sú stefna, hverjir eru þeir straumar, af hverju erum við að missa; vilja menn feta sig á slóð forseta Bandaríkjanna eða Le Pen í Frakklandi og fleiri úr þeim ranni? Er einhver í þessum sal sem telur að þar liggi tækifæri Framsóknarflokksins? Er einhver sem telur að með því að víkja frá hefðbundnum gildum flokksins muni fylgið sópast að honum?

Það er enginn sérstakur sáttatónn í þessu hjá Sigurði – en Sigmundur býður heldur ekki upp á sættir við hann. Á meðan styrkist staða Lilju Alfreðsdóttur sem margir horfa til sem framtíðarformanns í flokknum. Lilja var handgengin Sigmundi þegar hann var forsætisráðherra en nú verður reyndar ekki annað séð en ágætt samband sé milli hennar og Sigurðar Inga. Má kannski segja að hún sitji líkt og klofvega í flokknum. Lilja var í Silfrinu hjá Fanneyju Birnu Jónsdóttur í dag, vildi ekki segja af eða á um hvort hún gefi kost á sér til formanns. Það er skiljanlegt á þessum tímapunkti, enda getur margt gerst þangað til í janúar. En Lilja, líkt og Sigurður Ingi, er ætti að geta unnið hvort tveggja til hægri og vinstri.

 

Sunnudagur 21.05.2017 - 10:59 - Ummæli ()

Trump færir Saudum vopn

Það hljómar eins og sturlun að Bandaríkin og Saudi-Arabía skuli gera með sér vopnasamning upp á 55 milljarða dollara. Saudi-Arabía er auðvitað ekkert annað en fasískt trúræði þar sem makráð yfirstétt hefur hreiðrað um sig í miklu ríkidæmi, réttindi kvenna eru fótum troðin, innfluttir verkamenn hafa engan rétt, fólk er pyntað og tekið af lífi – mannréttindi eru öll í skötulíki en Saudar eru í óða önn við að breiða út sína ömurlegu heimssýn um veröldina. Fátt er rót meiri ófriðar í heiminum en hinn skelfilegi wahabbismi.

En fyrir Kanana er þetta náttúrlega business as usual, snýst um olíu og vopn – og svo það að vígbúast gegn höfuðóvininum í Íran. En það verður trauðla séð að Íranir séu eitthvað verri en Saudar. Obama mátti þó eiga það að hann reyndi að stilla til friðar gagnvart Íran. En Trump fer í sína fyrstu opinberu heimsókn til Saudi-Arabíu. Það segir sína sögu um prinsíppleysi mannsins.

Það segir líka sitt að Rex Tillerson, olíukarlinn sem er utanríkisráðherra Trump, sagði á blaðamannafundi í Riyadh í gær að Íranir þyrftu að taka sig á í mannréttindamálum. Það er örugglega rétt, en við hlið Tillersons á fundinum stóð Jubeir sem er utanríkisráðherra Saudi-Arabíu. Tillerson svaraði ekki spurningu um mannréttindin þar.

 

Laugardagur 20.05.2017 - 14:07 - Ummæli ()

Lyfin heim, sími 24045

Utan á gamla Laugavegsapóteki sem nú heitir Lyfja. Lyfin heim, ókeypis heimsendingarþjónusta á lyfjum og snyrtivörum. Laugavegs Apótek, sími 24045.

Það er athyglisvert að veggjakrotararnir sem hafa haft fyrir því að klifra þarna upp – nánast með óskiljanlegum hætti – bera virðingu fyrir gamla skiltinu og hafa alveg látið vera að spreyja á það.

Hvað ætli skiltið sé gamalt? Þetta er frá því símanúmerin voru enn þá fimm stafa.

 

Laugardagur 20.05.2017 - 09:38 - Ummæli ()

Allt annað áfengisfrumvarp

Menn eru ekki á því að gefast upp með áfengisfrumvarpið. Fylgið við það fer reyndar stöðugt dvínandi. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun eru 70 prósent landsmanna á móti því að áfengi verði selt í matvöruverslunum. Það er býsna afdráttarlaust.

Frumvarpið fer varla í gegn á þessu þingi – meirihlutinn á þingi fyrir því er reyndar óviss. En þá er tekið upp á því að breyta frumvarpinu svo mikið að það er nánast óþekkjanlegt. Þetta er gert á milli fyrstu og annarrar umræðu í þinginu.

Það dylst varla neinum heldur að þetta er orðið allt annað mál en lagt var upp með og í raun eðlilegast að leggja fram nýtt frumvarp á öðru þingi, til umræðu bæði á Alþingi og úti í samfélaginu.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is