Fimmtudagur 23.11.2017 - 16:19 - Ummæli ()

Lilja segir að úrskurðurinn sé léttir

Lilja Mósesdóttir, sem sat á Alþingi frá 2009 til 2013, fyrst fyrir VG en síðan utan flokka, tjáir sig í athugasemdum hér á vefnum um niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Geirs Haarde. Lilja telur að úrskurðurinn sé ákveðinn léttir en liggur þungt hljóð til Samfylkingarinnar vegna þess hvernig málið þróaðist:

Atkvæðagreiðsla einstakra þingmanna Samfylkingarinnar gerði landsdómsmálið að einstaklega sorglegu máli. Við sem greiddum atkvæði með ákærum á hendur fjórmenningunum máttum í mörg ár þola afar harða persónulega gagnrýni og kröfu um afsökunarbeiðni fyrir að hafa brotið mannréttindi eins einstaklings með stuðningi okkar við pólitísk réttarhöld. Úrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu er því ákveðinn léttir.

 

 

Fimmtudagur 23.11.2017 - 10:26 - Ummæli ()

Ekki góð vika fyrir Geir – en hann má samt vel við una í Washington

Þetta hefur ekki verið góð vika fyrir Geir H. Haarde. Gamli yfirboðari hans, Davíð Oddsson, ákveður upp á sitt eindæmi að birta símtalið fræga milli þeirra frá því Geir var forsætisráðherra og hann seðlabankastjóri. Samtalið sýnir eitt og annað, meðal annars hvernig valdahlutföllin voru alltaf milli þeirra. Og stórar ákvarðanir eru þarna teknar í fáti – þetta verður seint talin góð stjórnsýsla. En þarna var auðvitað allt komið í óefni.

Í dag tapar hann svo málarekstri sínum fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Íslenskir valda- og fjármálamenn hafa verið að reyna að sækja þangað rétt sinn – bæðið Geir og félagi hans Baldur Guðlaugsson hafa farið þangað erindisleysu. Dómstóllinn er kannski frekar hugsaður fyrir þá sem standa höllum fæti gagnvart valdinu.

Þetta breytir því samt ekki að landsdómsmálið yfir Geir var klúður. Ákvæðin um landsdóm eru í íslenskum lögum – og rannsóknarnefnd Alþingis vísaði í þau í skýrslu sinni. Málið fór hins vegar út í móa í meðförum Alþingis þar sem stjórnarmeirihluti þess tíma passaði upp á að skjóta ráðamönnum úr Samfylkingunni undan en láta Geir sitja uppi einan með sinn beiska kaleik.

Réttarhaldið sýndi líka hversu erfitt er að dæma sjórnmálamenn fyrir vanhæfni og fúsk. Refsinguna fyrir slíkt taka þeir yfirleitt út hjá kjósendum.

Þarna voru líka stjórnmálamenn að setja aðra stjórnmálamenn fyrir dóm vegna athafna sinna. En það sýnir alvöruleysið sem oft einkennir íslensk stjórnmál að lögum um landsdóm hefur ekki verið breytt. Hann hangir ennþá inni í lögbókinni – kannski vonuðu einhverjir að þeir fengju í fyllingu tímans tækifæri til að draga sína andstæðinga fyrir dóm?

Það verður hins vegar að segja eins og er að Geir Haarde má vel við una eftir allt. Hann fékk ágæta uppreisn æru stuttu eftir hrun þegar hann var gerður að sendiherra í Washington af sama ríkinu og ákærði hann. Það er fínasta djobbið í íslenskri utanríkisþjónustu, ekki allir geta gengið inn í svo há embætti.

 

Miðvikudagur 22.11.2017 - 21:05 - Ummæli ()

Pied-à-terre – staður þar sem auðmenn geta tyllt niður fæti

Ég hef haft svolítið gaman að fjalla um Hafnartorg – það virðist snerta viðkvæmar taugar. Í einni grein var talað um „Hernað gegn Hafnartorgi“ – og þar var fullyrt að að verndunarsjónarmið í byggingarlist- og skipulagi væru „pópúlismi“. Mér er málið fyrst og fremst skylt vegna þess að ég er eiginlega næsti nágranni Hafnartorgs. Það blasir við þegar ég geng út um útidyrnar hjá mér. Ég hef líka fylgst með uppbyggingunni hröðu í Miðbænum í Reykjavík og séð hvernig borgayfirvöld hafa í raun misst stjórnina undan þrýstingi fjármagnsins. Í raun ræður það öllu þessi misserin.

Það getur líka verið áhugavert að skoða tilgang þessara bygginga sem stórt fasteignafélag ræðst í, hefur nánast sjálfdæmi um útlitið, og nýtinguna. Reginn er að langmestu leyti í eigu íslenskra lífeyrissjóða – og þeir vilja náttúrlega fá góðan arð af sínum fjárfestingum. Ef verður slaki á fasteignamarkaði og gengur treglega að leigja út eða selja pláss á Hafnartorgi er hætt við að gæti orðið tap á þessu öllu. Nú spá margir afturkipp í íslensku efnahagslífi – telja það eiginlega óhjákvæmilegt. En það eru miklir peningar sem lífeyrissjóðirnir þurfa að koma í vinnu fyrir sig, ekki síst eftir að inngreiðslurnar voru hækkaðar.

 

 

Það hefur komið fram að eigendur Hafnartorgs vilji hafa búðir sem trekkja að í hinu 8600 fermetra verslunar- og veitingarými. Það útheimtir reyndar talsverða breytingu á verslun í miðbænum þar sem fátt er eftir nema túristabúðir. Verslanir sem einbeita sér að innfæddum þrífast ekki vel – jólaverslun í Miðbænum er til að mynda ansi dræm. Það eru fremur veitingahúsin sem laða að en verslanirnar, enda er gríðarlegt framboð af þeim. Það virðist hafa komið hik á H&M sem hugðist opna búð á Hafnartorgi.

Hafnartorg er rækilega auglýst sem lúxus – við getum skoðað vef ÞG verk sem sér um framkvæmdirnar. Þar eru engin tvímæli. Orðið lúxus kemur fyrir aftur og aftur. Hérna, reyndar í dálítið óskýrum texta, að kaupendum sé boðið upp á „lúxus“ og „einkarétt“.

 

 

 

Og aftur segir hér að efri hæðirnar séu fráteknar fyrir lúxusinn. Í framhaldi af því má spyrja hvert verði verðið á þessum íbúðum? Verður það í stíl við hið uppsprengda verð í blokkunum við Skúlagötuna?

 

 

Svo kemur annar kafli sem er enn athyglisverðari. Þar er enn talað um lúxus – tvisvar sinnum – „á þröskuldi hinnar íslensku arfleifðar“ eins og segir.  Og svo kemur það sem á kannski að vera mest söluörvandi – „pied-à-terre í hjarta borgarinnar“.

„Pied-à-terre“ er franska, en þetta hefur orðið alþjóðlegt hugtak um íbúðir þar sem fólk sem býr annars staðar getur tyllt niður fæti. Getur verið annað eða þriðja, fjórða eða fimmta heimili. Yfirleitt er þetta notað um auðmenn – fáir aðrir hafa efni á því að eignast íbúðir víða um lönd. Reyndar er það svo að hin síðari ár hefur orðið mjög vinsælt meðal ríks fólks að eiga íbúðir og hús í mörgum löndum. Borgir eins og London og París eru fullar af slíkum húsakynnum sem eru ekki notuð nema brot úr ári. Þetta keyrir líka upp húsnæðisverð – aðeins lítið brot af hinum innfæddu hafa efni á að kaupa íbúðir á kjörunum sem bjóðast.

Víða er rætt um þetta sem vandamál, þannig hefur nýja vinstri stjórn Jacindu Arden  á Nýja Sjálandi áform um að banna íbúðakaup ríkra útlendinga.

En þetta telja eigendur Hafnartorgs semsagt vera markað sinn. Það skal svo ósagt látið hvort skortur er á slíkum íbúðum í Reykjavík. Raunar hefur fremur verið talað um að vanti litlar og ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk og þá sem eru efnaminni.

 

Þriðjudagur 21.11.2017 - 20:44 - Ummæli ()

Þegar skorin var upp herör gegn sjoppuhangsinu

Árni Helgason skrifar skemmtilega grein um sjoppur – og dauða þeirra – á vef Kjarnans. Það vill svo til að fyrir næstum þrjátíu árum gerði ég sjónvarpsþátt um sjoppur – og dauða þeirra. Þetta var ein frumraun mín í sjónvarpi. Þá talaði ég meðal annars um bensínstöðvar sem hefðu fengið mikilmennskuæði og væru að breytast í sjoppur. Sú þróun hefur haldið eindregið áfram síðan þá. Núorðið er erfiðara að fá bensín en sælgæti og pylsur á bensínstöðvum.

Árni segist muna eftir níu sjoppum í Vesturbænum en þær séu allar horfnar. Ég get bætt um betur. Ég man eftir þeirri tíð að voru fimm sjoppur bara við Ásvalla- og Sólvallagötu. Svo voru tvær rétt fyrir sunnan, við Hringbrautina, á Bræðraborgarstígnum voru tvær en á Vesturgötunni þrjár – ef ég man rétt. Líklega hafa þær skipt tugum í Vesturbænum. Sú sögufrægasta var Simmasjoppa sem var í skúr við Suðurgötuna. Hún kemur fyrir í Punktur punktur komma strik og í Táningabók Sigurðar Pálssonar:

Það voru reyndar tvær aðrar sjoppur við Fálkagötu en þær voru kidstöff miðað við Simma. Símon var svarthærður hnallur, hafði skoðanir á öllu og kom þeim til skila formálalaust. Við ögruðum honum og hann reif kjaft, við rifum kjaft.

Simmasjoppa var bara ein af mörgum frægum sjoppum bæjarins, það voru líka til Círó, Flórída, Krónan, Árnasjoppa og margar fleiri. Víðast voru við afgreiðslu þreyttir og svolítið úrillir karlar – eða þá unglingsstúlkur sem þeir höfðu í vinnu. Þetta voru litlar holur, ekki jafn hátimbraðar og sjoppur sem nú tíðkast, en með öllu meiri karakter.

Þessar sjoppur eru horfnar og líka Simmasjoppa. Þórarinn Eldjárn, annar gestur sjoppunnar, orti um hana erfiljóð í bókinni Grænmeti og átvextir.

Frekjulega gín hún þessi gloppa
á Grímstaðaholti, eins og vanti tönn.
Ég minnist þess að hér stóð Simmasjoppa
sælureitur mitt í dagsins önn.

Fyrir utan gatið sat hann Simmi
saldi kók og prins og lakkrísrör.
Fyrir utan: Önni, Krummi, Vimmi
og allir hinir: Spurningar og svör.

Skýli lenti í skipulagsins hvolfti
skyndilega var hér allt á brott.
Fölgrátt sýnist frímerki úr lofti
en fornrar dýrðar sjá menn engan vott.

Og til hvers að láta strætisvagna stoppa
á staðnum áfram? Hér er engin sjoppa.

Þegar ég var að alast upp þótti sjoppuhangs mikið vandamál. Það voru ekki bara unglingar sem héngu í sjoppunum, öllum til vandræða og ama, heldur kom það líka fyrir að fullorðið fólk lagðist í sjoppuhangs – gjarnan eldri einhleypir karlmenn. Svo rammt kvað að þessu að talin var nauðsyn að grípa til aðgerða til að stemma stigu við sjoppuhangsinu. Og það varð að vera eitthvað sem virkaði, því vandinn var meðal annars sá að fólkið átti ekki í önnur hús að venda en sjoppurnar. Það var ekki mikil kaffihúsa- eða kráarmenning í bænum á þeim árum.

Loks voru settar reglur sem kváðu á um að eftir sex á kvöldin mættu sjoppur ekki selja nema út um þar til gert söluop eða lúgu. Þetta er úr Vísi frá 25. apríl 1964. Má ráða af fréttinni að þessar hörðu aðgerðir hafi þegar verið farnar að virka.

 

 

Um þetta má svo fræðast aðeins betur í innslagi úr Kiljunni frá því 2015, en þar var fjallað um Grímstaðaholtið og Simmasjoppu.

 

 

 

Þriðjudagur 21.11.2017 - 08:31 - Ummæli ()

Gleymið ekki smáfuglunum

Gleymið ekki smáfuglunum. Svona orðaðar auglýsingar birtust stundum að vetrarlagi í blöðunum í gamla daga.

 

 

Þeim finnst best að fá eitthvað með fitu í, og þannig ná þeir vonandi að lifa veturinn. Sjálfur næ ég mér stundum í fuglafóður í Kjöthöllina í Skipholti. Það hverfur eins og dögg fyrir sólu.

Myndina tók Stefán Karl Stefánsson í morgunkaffi á Skólavörðustíg í gær.

 

Mánudagur 20.11.2017 - 19:27 - Ummæli ()

Á skyrtunni að grilla pylsur í tíu stiga frosti

Það er nokkuð kalt úti. Spáð frosti alla vikuna, á að bæta í vind þannig að það gæti orðið allnokkur kæling.

Fyrir tæpum hundrað og fimmtíu árum tóku Íslendingar að flykkjast til Kanada. Þeir fóru frá hinu kalda og blauta landi á svæði þar sem voru miklu meiri kuldar. Frost sem getur farið niður í mínus 50 stig. Loftslagið hlýtur að hafa komið þeim í opna skjöldu. Svo komu sumur, þau voru mjög heit og mikið um skordýr.

Svæðið sem nefndist Nýja Ísland verður seint talið einhver verðurfarsparadís.

Vinur minn, rithöfundurinn Bill Valgardson, skrifar frásögn af veðurfari í Gimli sem ég birti hér að neðan. Þess má geta að nýlega kom út á íslensku bókin Ævintýri og sögur frá Nýja Íslandi eftir Bill, í þýðingu Böðvars Guðmundssonar. Sjálfur er Bill alinn upp í Gimli, en býr nú í mildara loftslagi í Victoria við vesturströnd Kanada.

Frásögnina birti hann á Facebook. Hún er á ensku, þarna segir frá skóladrengjum sem eru karlar í krapinu og eru á skyrtunni í 10 stiga frosti, þykir það ekkert tiltökumál.

Heard some people say that it was really cold in Gimli today. It was only -10. When I was a boy, -10 was considered the end of summer. We walked to school with our jackets open, our galoshers open. Some guys went to school in their shirt sleeves. We used to go down to the beach in -10 and have driftwood fires so we could roast wieners. When it was -30, we still had recess. The principal made us play soccer. We raced full speed after the ball. If you stopped, you froze in place and the teachers had to come and carry you into the school and thaw you out over the radiators. We had so many layers of clothes by then that we were forty teletubbies chasing a frozen soccer ball. If someone fell down, he couldn’t get up because of all the layers of clothes. Friends had to stand him up so he could start running again before he solidified. When it got to -40 we weren’t supposed to have to go out for recess. However, our principal was from Siberia. He didn’t think it was cold. Sissys, he used to say as we bunched up at the door looking at the air which had turned white. On really cold days, our mothers wrapped our heads in long scarves so only our eyes showed. So that we wouldn’t freeze our lungs, they wrapped the scarves over our mouth and nose. To make sure the scarf wouldn’t come undone, t hey stapled it to our forehead. When we got to school, just inside the door was a teacher with a staple puller who pulled out the staples. Otherwise, sitting in class, steam started rising from our heads and we made gurgling sounds. If there were a lot of -40 days, our foreheads looked like we’d been shooting up and not getting it right or had been put in a snake pit with only our foreheads exposed. We were thrilled when the school suggested our mothers use tape. -10 Pshaw! A walk in the park. A dip in the lake. A roll in the snow.

 

Mánudagur 20.11.2017 - 12:22 - Ummæli ()

Verri þjónusta er betri þjónusta

Ef eitthvað er idjótískt í nútímanum – og er í rauninni angi af þeirri nauðhyggju að öll tækniþróun sé skilyrðislaust af hinu góða – þá er það þegar reynt er að sannfæra mann um að lakari þjónusta sé í raun betri þjónusta.

Þetta höfum við séð bankana gera. Nú er það í raun svo að maður sinnir mestallri bankaþjónustu sjálfur í gegnum netið – og það er eins og maður eigi að vera þakklátur fyrir það.  Maður er meira að segja látinn greiða gjöld fyrir að hreyfa peningana sem maður á sjálfur. Í auglýsingum er þetta kynnt eins og stórkostlegar framfarir.

Það er líka látið eins og það séu framfarir að hætta að hafa sérstaka starfsmenn sem dæla bensíni á bifreiðar, tékka á olíunni, hella á rúðuvökva og þurrka af framrúðum. Þetta er eitthvað sem mörgum þykir þægilegt, ekki síst þeir sem eru aldraðir eða heilsuveilir – margir eru til í að borga aðeins meira fyrir þetta. Fyrir utan að sumir bensínafgreiðslumenn eru beinlínis frægir fyrir hvað þeir eru liðlegir og vingjarnlegir.

En nú er þessari þjónustu hætt á bensínstöðvum Orkunnar, sem áður var Skeljungur. Það er reynt að koma inn hjá neytendum þeirri hugmynd að það sé einhvers konar frelsi að fá að gera þetta allt sjálfur. Bensínstöðvar selja pylsur, Prins Póló, dömubindi og mjólk – en fást helst ekki lengur við það sem var tilgangur þeirra í upphafi.

Ég tek fram að ég hef tekið bensín  hjá Skeljungi í áraraðir. Nú fer ég á BP (afsakið Olís) þar sem er enn hægt að láta afgreiðslumann dæla bensíni. Á sama tíma og fjöldi starfsmanna var rekinn frá gamla Skeljungi borguðu forstjórarnir sér 200 milljón krónur í kaupauka.

Þórarinn Þórarinsson, sá brakandi snjalli pistlahöfundur, skrifar grein sem nefnist Dauði útimannsins í Fréttablaðið á laugardaginn. Sjálfur vann hann sem dælumaður á bensínstöð.

Allt hefur sinn tíma og útimaðurinn heyrir brátt sögunni til. Úreltur, óþarfur og beinlínis bannaður í breyttum heimi. Lífið verður fátæklegra þegar sá síðasti slíðrar byssuna í hinsta sinn en efnahagsreikningur olíufélaganna verður feitari. Er það ekki það eina sem skiptir raunverulegu máli?

Nú les maður að þessi þróun muni teygja anga sína inn í verslanir – og enn er manni sagt að þetta sé alveg óhjákvæmilegt. Tæknin býður upp á þetta og þá getur það ekki verið öðruvísi. Og enn er reynt að segja manni að þetta sé í þágu viðskiptavinarins.

Forstjóri fyrirtækis sem nefnist Advania segir í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2.

Með sjálfsafgreiðslukerfi er bæði hægt að spara og veita betri þjónustu, að sögn Ægis. Samkeppni á matvörumarkaði sé mikil. „Þá er það þetta sem mönnum dettur helst í hug, að bæta upplifun viðskiptavina þegar þeir eru komnir inn í verslunina.“

Ég dvaldi nokkuð lengi í Bandaríkjunum í sumar þar eru hinir sjálfvirku afgreiðslukassar víða komnir. Og, nei, afsakið, maður fór miklu frekar á kassana þar sem er fólk að afgreiða. Það er ekki bara spurning um hin mannlegu samskipti, heldur er það einfaldlega þægilegra – og miklu betri þjónusta. Hví ætti maður sjálfur að fara að renna vörum í gegnum skanna til að stórfyrirtæki geti sparað í starfsmannahaldi? Það er víst alveg öruggt að ávinningurinn af þessu mun ekki renna í vasa neytendanna.

 

Þórarinn Þórarinsson á þeim árum þegar hann var bensínafgreiðslumaður hjá Esso.

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is