Föstudagur 31.7.2015 - 16:59 - Ummæli ()

Björt framtíð borgarinnar

Sú Reykjavík sem nú er til er ólík þeirri Reykjavík sem ég ólst upp í. Hún er miklu skemmtilegri. Reykjavík var einhæf, daufleg og drungaleg. Þekktur rithöfundur sagði eitt sinn við mig að hann myndi einkum eftir rigningu og vondu molakaffi frá tímanum þegar hann var ungur.

Í skýrslu sem Velferðarsvið Reykjavíkur birtir kemur fram að í borginni er fólk með 131 ríkisfang. Það er heilmikið. 8,5 prósent borgarbúa eru með erlent ríkisfang. Og þá eru auðvitað ekki meðtaldir innflytjendur sem hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt.

Þetta sumar upplifir maður Reykjavík sem borg með alþjóðlegan svip – stað þar sem ríkir menningarleg fjölbreytni, borg sem er frjálslynd og dýnamísk. Þetta er umhverfi fyrir nýsköpun og grósku.

Ég var á Laugavegi áðan, bærinn iðaði af lífi. Þegar ég var kominn á móts við Vatnsstíginn sá ég sýn. Borg sem heldur áfram að batna með fleiri ferðamönnum, fleira fólki sem vill setjast hér að, fleiri tækifærum, meiri fjölbreytni. Kannski nær tala aðfluttra brátt 20 prósentum?

Þetta er björt framtíð, við þurfum ekki að óttast.

 

Föstudagur 31.7.2015 - 12:43 - Ummæli ()

Trúarbragðastríð – á 21. öld

Manni hefði þótt það algjörlega óhugsandi þegar maður var að alast upp á tíma kalda stríðsins, að fáum áratugum síðar snerust stríðsátök í heiminum um trúarbrögð. Nei, maður hefði ekki trúað því.

En nú, aldarfjórðungi eftir að kalda stríðinu lauk, horfir maður upp á túarbragðastríð og – átök út um allan heim. Það sem fær mesta athyglina er stríðið í Sýrlandi og Írak, en staðirnir eru miklu fleiri.

Eitt hræðilegasta stríðið geisar í Miðafríkulýðveldinu þar sem hersveitir kristinna manna ofsækja múslima af mikilli grimmd. Mörg þúsund manns hafa dáið og moskur hvarvetna verið brenndar.

En ofsóknirnar eru á báða bóga. Guardian fjallaði nýlega um hlutskipti kristins fólks víða um heim, aðallega í ríkjum þar sem íslam er við lýði en líka víðar. Það er skelfileg lesning.

Eins og ég segi – þegar ég var að alast upp hafði maður ekki haft hugmyndaflug til að ímynda sér að trú yrði í framtíðinni aðaluppretta styrjalda og manndrápa. Maður hélt einfaldlega að slíkt heyrði sögunni til.

religious war-1

Trúarbragðastríð geisuðu í Evrópu á 16. og 17. öld og léku álfuna grátt. Í þrjátíu ára stríðinu voru heilu sveitirnar lagðar í auðn og mannfallið var ógurlegt.

Fimmtudagur 30.7.2015 - 18:57 - Ummæli ()

Gervigreind, lúddítar og hin skilyrðislausa framfaratrú

Ég hef mörgum sinnum lent í því að vera uppnefndur lúddíti þegar ég hef birt greinar þar sem segir að tækniframfarir séu ekki skilyrðislaust af hinu góða. Luddítar voru andsnúnir iðnbyltingunni á 19. öld.

Skilyrðislaus framfaratrú og blind tæknihyggja þola illa að vera andmælt. Robert Oppenheimer, einn af höfundum atómsprengjunnar sagði að eðlisfræðingar hefðu kynnst syndinni þegar þeir þróuðu atómsprengjuna – og undan því gætu þeir ekki losnað.

Vísindin hafa fært okkur langlífi, heilsu, vellíðan og þægindi með áður óheyrðum hætti. En áhrif iðn- og tæknibyltinga eru að sumu leyti ekki komin fram. Það bíður óborinna kynslóða að takast á við þau. Það hefur tekist, með miklu alþjóðlegu átaki, að halda kjarnorkuvopnum í skefjum. Við vitum svosem ekkert um hvort það tekst áfram.

Loftslagsbreytingar eru sagðar vera einhver mesta vá sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Áhrif þeirra eru heldur ekki komin fram – þótt upphafið megi rekja allt aftur í iðnbyltingu. Hvaða hörmungar eiga afkomendur okkar eftir að upplifa vegna þess að við höfum eyðilagt loftslagið á jörðinni?

Við stöndum frammi fyrir heimi þar sem vinnuafl mannsins gæti að miklu leyti orðið óþarft, þar sem vélar geta unnið megnið af störfunum. Fær þá mannkynið að njóta þess að vinna lítið og fást við uppbyggjandi hugðarefni? Eða færist ójöfnuður enn í aukana eins og hann hefur verið að gera – verða það fáir útvaldir eigendur sem njóta afrakstursins af þessari byltingu? Hvernig heimur verður það?

Og nú er rætt um gervigreind. Ljóst er að gríðarlegar framfarir geta orðið á því sviði. Nú vara vísindamenn með Stephen Hawking í fararbroddi við þróun gervigreindar og sérstaklega við því að framleidd verði vopn sem byggja á henni. Hawking hefur reyndar sagt að gervigreindin geti þýtt endalok mannkynsins.

En líklega halda menn áfram að þróa gervigreindina – alveg butséð frá afleiðingunum. Hvers vegna – ef það er hættulegt? Jú, vegna þess að það er hægt. Og vegna þess að enginn vill vera lúddíti.

 

 

 

 

 

Fimmtudagur 30.7.2015 - 11:33 - Ummæli ()

Er einhver við?

Það stendur yfir leiðtogakjör í Verkamannaflokknum breska. Í Guardian skrifar Frankie Boyle meinhæðna grein þar sem segir að eins og stendur gæti flokkurinn eins verið rekinn af tölvupóstfangi þar sem enginn er við vegna fría.

Einhvern veginn á þetta ágætlega við vinstri vænginn í íslenskri pólitík, allt frá Bjartri framtíð um Samfylkingu yfir í Vinstri græna.

Hvers vegna er engin umræða á vinstri væng stjórnmálanna um hluti sem skipta máli – já, einfaldlega hvernig samfélagi við viljum búa í ? Engin umræða um stefnu, um hugmyndir, um þróun í stjórnmálum á alþjóðavísu?

Hví þessi ótrúlega værukærð – eða á maður að kalla það leti?

Þessir stjórnmálaflokkar eru kreppu allir með tölum, BF og Samfylking virðast við dauðans dyr, VG getur kannski haldið áfram svona upp á gamlan vana. Vinstri vængurinn í íslenskum stjórnmálum er lamaður – hann hefur orku til handa uppi smá andspyrnu á þingi, aðallega í formi málþófs, en frá honum koma engar hugmyndir.

Reið stjórn Jóhönnu og Steingríms vinstrinu að fullu? En eftir hana var kosið nýtt forystufólk – og samt hefur fylgið haldið áfram að minnka.

Kannski er heldur ekki við foringjana að sakast. Er fólk eftir í þessum flokkum til að halda uppi stjórnmálastarfi, til að reisa þá upp aftur? Eða svo vitnað sé aftur í greinina í Guardian – er einhver við?

 

 

Miðvikudagur 29.7.2015 - 19:44 - Ummæli ()

Kúrdar sviknir enn einu sinni – og Nató lætur sennilega gott heita

Það eru Kúrdar sem hafa borið hitann og þungann af baráttunni gegn hinum viðurstyggilegu sveitum ISIS. Við höfum séð hetjulegar myndir frá þessu stríði þar sem ungir Kúrdar, bæði karlar og konur, eru í fremstu víglínu gegn ófögnuðinum. Það voru Kúrdar sem björguðu þúsundum yazida sem ISIS-liðar ætluðu beinlínis að slátra í fyrra.

Maður skyldi ætla að heimsbyggðin kynni Kúrdum þökk fyrir þetta. En klækjastjórnmálin láta ekki að sér hæða. Líkt og blaðamaðurinn Robert Fisk orðar það – Kúrdar voru fæddir til að láta svíkja sig.

Þeir fengu ekki að eiga sitt eigið ríki sem þeim hafði verið lofað eftir fyrri heimsstyrjöldina, heldur lentu í því að vera skipt milli ríkja sem öll fjandsköpuðust við þá – Tyrklands,  Írans, Íraks og Sýrlands. En stundum hefur hentað Vesturlöndum að nota Kúrda, eins og nú í baráttunni gegn ISIS. Bandaríkjamenn notuðu Kúrda líka til að berjast gegn Saddam Hussein – sem alltaf var ótrauður við að myrða Kúrda – en einatt urðu kaldrifjaðir stórveldahagsmunir til þess að Kúrdarnir sátu á endanum uppi með sárt ennið – og mikið mannfall.

Nú eru Tyrkir aftur byrjaðir að herja á Kúrdana. Þetta er sérkennilegt laumuspil, Tyrkir láta eins og þeir séu að berjast gegn ISIS en sprengja stöðvar Kúrda í leiðinni. Í þessu felast ótrúleg óheilindi, því Tyrklandsstjórn hefur ekki getað tekið af skarið í því að sporna gegn ISIS. Í gegnum Tyrkland streyma sjálfboðaliðar til að berjast með sveitum hinna íslömsku fasista.

En Tyrkland er mikilvægur bandamaður Vesturlanda, eitt af aðildarríkjum Atlantshafsbandalagið. Nató óttast að Tyrkland fari enn lengra út á braut íslamsvæðingar – eins og það hefur að nokkru leyti gert undir stjórn Erdogans. Í því samhengi skipta Kúrdar litlu máli, þeim má gleyma eftir hentugleikum og svíkja þá. Og því munu Tyrkir komast upp með að ráðast gegn þeim, á sama tíma og þeir leika báðum skjöldum gagnvart ISIS.

 

kurdish-women-fighters-against-isis

Kúrdískar konur tóku þátt í að berjast gegn ISIS í umsátrinu um Kobani. Robert Fisk segir að orrustan hafi verið eins konar mini-Stalíngrad.

Miðvikudagur 29.7.2015 - 11:08 - Ummæli ()

Ferðamannahægðir

„Ferðamannahægðir“ er líklega orð sumarsins – orð sem lýsir vel umræðunni og tíðarandanum sumarið 2015.

DV skýrir frá því að slökkvilið hafi verið kallað út til að hreinsa „ferðamannahægðir“ af bílastæði við Leifsstöð – til að bíta höfuðið af skömminni var þetta bílastæði fatlaðra.

Fyrir nokkrum árum kom ég út af heimili mínu, það var sumarmorgunn. Þá voru einmitt svona „hægðir“ á stétt í garðinum.

Ég tók á það ráð að ná í garðslöngu til að spúla „hægðirnar“ burt – kom ekki í hug að kalla á slökkviliðið.

En ég veit ekki hvort þetta voru „ferðamannahægðir“. Úr því fæst væntanlega aldrei skorið.

Þriðjudagur 28.7.2015 - 23:40 - Ummæli ()

Götur við hús sem verða líklega aldrei til

Óvíða er dýrmætt pláss jafn illa nýtt og á Vatnsmýrarsvæðinu í Reykjavík – nei, flugvöllurinn er ekki aðalatriði í þessari grein þótt hann komi við sögu.

Ég hef farið um þarna á hjóli undanfarna daga og það er merkileg upplifun. Í fyrsta lagi botnar maður ekkert í skipulaginu, hvers vegna allar akbrautirnar liggja eins og þær gera. Svo fattar maður að líklega eru þær skipulagðar út frá byggingum sem hafa ekki risið – og munu kannski aldrei rísa.

Stór bílabraut sker Vatnsmýrina þvera – og yfir hana er afskaplega erfitt að komast nema á sérstökum brúm. Staðsetning þeirra er hins vegar ekki alltaf mjög hentug. Þetta er það sem er kallað stofnbraut – það þýðir að helst ekkert mannlíf fær að þrífast í nánd við götuna. Mér hefur verið tjáð að um H.C. Andersen boulevard í Kaupmannahöfn og Sveavägen í Stokkhólmi fari fleiri bílar en um Vatnsmýri – við téðar götur er bæði hús og gangstéttir.

En þrátt fyrir bílagötuna stóru er gamla Hringbrautin ennþá til. Hún er á sínum stað, mestanpart óbreytt. Og þar fyrir neðan er ennþá til gamli vegurinn sem lá framhjá Umferðarmiðstöðinni. Hinum megin við hraðbrautina eru svo nýlegur og afar fáfarinn vegur sem liggur út í Nauthólsvík – þegar maður fer hann kemur maður að miklum gatnamótum og umferðarmannvirkjum en sér varla hræðu á ferli.

Og þá skilur maður: Þessi vegur átti að liggja að Samgöngumiðstöðinni sem til stóð að risi við Reykjavíkurflugvöll. Hún verður væntanlega aldrei að veruleika.

Og eins er það með allar göturnar nær borginni, þær taka mið af spítalanum stóra sem stendur til að reisa í og við Landspítalalóðina. En staðreyndin er að svo miklar efasemdir eru um þessa spítalabyggingu að hún rís varla nokkurn tíma á þessum stað.

Við höfum semsagt götur sem liggja að húsum og í kringum hús sem verða líklega aldrei til. Og jú, það er skelfing að klöngrast gangandi eða á hjóli yfir þetta allt.

umferdarmannvirki-245-bo8b61

Hluti af gatnafjöldinni í Vatnsmýri. Það vantar reyndar akbrautina sem liggur út í Nauthólsvík. Hún er engin smásmíð.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is