Þriðjudagur 7.7.2015 - 18:03 - Ummæli ()

Grikklandskrísan og sósíaldemókratar

Eitt af því sem er áberandi við grísku kreppuna og afstöðu Evrópusambandsins er hversu ringlaðir sósíaldemókratar eru. Hverjum eiga þeir að fylgja? Nýja vinstrinu sem gerir uppreisn gegn linnulausum niðurskurði og aðhaldi, mönnum eins og Bernie Sanders, Thomas Pikkety og Jeffrey Sachs sem hvetja til skuldaafskrifta og segja að niðurskurðurinn hafi misheppnast, Sigmar Gabriel, leiðtoga þýskra sósíaldemókrata sem er mjög heiftúðugur í garð Grikklands eða kannski Jean-Claude Juncker, forseta fræmkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en hann er fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemborgar en þeir eru ótaldir milljarðarnir sem hafa sogast þar í svarthol skattaskjóls.

Tilvistarkreppan er eiginlega átakanleg, eiga kratar sem upp til hópa eru Evrópusinnaðir að verja hina hægri sinnuðu hugmyndafræði sem hefur orðið ofan á í Þýskalandi og Evrópu. Lotning krata fyrir ESB virðist stundum svo takmarkalaus að það er eins og ekki megi gagnrýna sambandið.

Pétur Gunnarsson blaðamaður orðar þetta svo í greinarstúf á Facebook. Hann segist ekki skilja hversu margt fólk sem telst til vinstri hefur samsamað sig Juncker og hinum hægri sinnuðu forkólfum ESB:

Það er skrítið að fylgjast með því hvað mikið af krötum virðast komnir í ógöngur í faðmi fjármálakerfisins og teknókrasíunnar, og einhverra lúxusmála mismunandi hópa valdsækins menntafólks, það hefur oft verið grunnt á því, en aldrei sem nú – það er eins og það sé alveg dottið hjartað úr þessari hreyfingu hérna megin Atlantshafsins. Ég man ekki í hvern var vitnað um daginn um að á erfiðum tímum sé eins og kratisminn dugi oft skammt og risti grunnt – kann best við sig í teknókratíunni og þegar flest er innan staðalfrávikanna. Þessu er ég farinn að hallast að, þegar maður fylgist með þessu aftur og aftur leysast upp í froðu, gamlar klisjur og sérgæsku andspænis háska og stórum spurningum.

Þriðjudagur 7.7.2015 - 12:01 - Ummæli ()

Hvaða skynsemi?

Jón Gunnarsson alþingismaður kallar eftir hávaðalausri skynsemi í umræðunni um náttúru Íslands, verndun og nýtingu.

Jón er einn eindregnasti stóriðju- og virkjanasinninn á Alþingi. Nú talar hann um að einungis örfáir hafi farið um „ósnortin víðerni landsins“ – en samt vilji fólk vernda þau.

En í raun er bara til ein skynsemi í þessu máli. Hún felst í því að við skiljum að við erum ekki síðasta fólkið sem býr í þessu landi.

Vonandi eiga eftir að búa hér margar kynslóðir á eftir okkur, vaxa og dafna.

Við erum til dæmis fyrst nú að átta okkur almennilega á því að jarðhitinn er ekki óþrjótandi, það er hægt að ganga á hann þannig að hann klárast, þetta sést glöggt á Hellisheiðarvirkjun en orkan þar er langt undir væntingum. Það hefur reyndar verið merkilegt að fylgjast með vísindamönnum sem hafa brugðist reiðir við þegar bent er á jafn sjálfsagðan hlut.

Nú ber okkur skylda til að skila jarðhitanum áfram til komandi kynslóða þannig að þær geti nýtt hann. Þarna er ekki einungis um að ræða börnin okkar og barnabörn – heldur líka fólkið sem kann að búa á Íslandi eftir þúsund ár.

Þetta er það eina sem getur talist skynsamlegt. Græðgi síðustu kynslóða og okkar sjálfra er það ekki. Og sýn okkar og þekking er takmörkuð þótt við hreykjum okkur hátt sem meistarar náttúrunnar.

Mánudagur 6.7.2015 - 22:57 - Ummæli ()

Grikkir, fordómarnir og lífsnautnin

Norður-Evrópubúum er tamt að líta niður á fólk sem býr syðst í álfunni. Þá sem búa á Suður-Ítalíu, Andalúsíumenn á Spáni – og Grikki. Þetta er ekkert nýtt. Bjarni Thorarensen orti í kvæðinu Þú nafnkunna landið um hið harðgera norðurfólk – sem er þá andstæða við meyra suðurlandabúa sem samkvæmt skáldinu stunda „læpuskaps ódyggðir“.

Norræni hrokinn lætur ekki að sér hæða – ég hef til sjaldan heyrt viðlíka fordóma gagnvart einni þjóð og ég hef upplifað gegn Grikkjum síðustu vikurnar. Hvarvetna les maður að þeir séu latir, spilltir og sérhlífnir – eigi ekkert gott skilið.

Í kvöld var ég í veislu að grískum hætti. Það var etið, drukkið, og dansað við þjóðlega tónlist  – Grikkir eiga afar fjölbreytilega tónlist, þeir þiggja hana ekki alla frá hinum enskumælandi heimi. Þarna var leikið á fiðlur, lútu og bousouki – lögin öll héðan frá eyjunum og fólk syngur með frá hjartanu.

Þegar færðist fjör í leikinn voru brotnir diskar og dansað á glerbrotunum. Hjá Grikkjum kynnist maður lífsnautn sem er miklu innilegri og dýpri en gengur og gerist í  Norður-Evrópu. Ungir og aldnir eru saman – kannski vegna þess að stóran hluta árs er hægt að njóta samveru á torgum úti. Sá sem leiddi dansinn var maður um sjötugt, yngsti dansarinn hefur varla verið eldri en tíu ára. Allt var þetta einhvern veginn af sjálfu sér – óþvingað.

Að mörgu leyti er þetta skemmtilegra fólk en við, það kann betur að njóta lífsins og þarf minna til.

Enginn skyldi halda Grikkir vinni ekki. Grikkir eru upp til hópa harðduglegt fólk. Það er minnst við almenning hér að sakast að landið hefur lent í skuldadíki. Hann hefur ekki fengið aurana í sinn hlut. Það er talað um Grikki sem lifi í vellystingum á eftirlaunum – en hætt er að margir í norðurálfu yrðu hissa ef þeir heyrðu hvaða upphæðir er um að tefla.

Og það er kannski ekki furða að hinum almenna Vassilis eða Yorgos bregði við þegar honum er tilkynnt að hann skuldi milljarða á milljarða ofan og það í evrum.

Maður láir honum varla þótt hann segi nei.

En við lifum auðvitað í heimi stórkapítalsins þar sem allt er að drukkna í skuldum, bæði einstaklingar og þjóðir – sjálft kerfið gengur út á það.

Hjá Grikkjum er líka stutt í angurværð, sorg og efa sem er tjáð í ótrúlega ríkri hefð söngva og ljóða, enda er að finna miklar hörmungar í sögu Grikklands. Þetta er lag og ljóð eftir söngvarann Sokratis Malamas og nefnist Fyrir Grikkland.

 

 

 

 

Mánudagur 6.7.2015 - 16:16 - Ummæli ()

Samstaða í Grikklandi, Varoufakis rekinn, en kommar og fasistar á móti

Það er mikil dramatík í grískum stjórnmálum. En hið stóra nei er að kalla fram samstöðu meðal Grikkja sem kemur nokkuð á óvart. Stjórnmál hér eru mjög hatrömm og heift milli fylkinga. Það er jafnvel talað um að þjóðstjórn gæti verið í burðarliðnum.

Alexis Tsipras er búinn að reka fjármálaráðherrann, Yannis Varoufakis – þótt hann hafi fengið færi til að segja af sér fyrst. Þetta er ekki bara sökum þess að ráðamenn í Evrópu eiga erfitt með að höndla Varoufakis, semsagt friðþæging, heldur vegna þess að Varoufakis sagði í viðtali við Daily Telegraph að Grikkir gætu farið að gefa út einhvers konar skuldaviðurkenningar í næstu viku.

Þá var Tsipras nóg boðið – samband hans og Varoufakis hefur verið fremur stirt.

Nú er jafnvel talað um þjóðstjórn í Grikklandi, formenn annarra flokka eru að fylkja sér að baki Tsipras og tillögum sem hann mun leggja fyrir Evrópusambandið. Tíminn er naumur, því gríska banka- og greiðslukerfið er við það að falla alveg saman.

Antonis Samaras, formaður gríska Sjálfstæðisflokksins, Nea Demokratia, studdi já-ið, hann er nú búinn að segja af sér. Nea Demokratia styður nú Tsipras, sem og gamli sósíaldemókrataflokkurinn Pasok og evrópusinnaði miðjuflokkurinn Potami.

Tveir flokkar eru svo á hliðarlínunni, gamli kommúnistaflokkurinn KKE og hægriöfgaflokkurinn Gyllt dögun.

 

Mánudagur 6.7.2015 - 12:03 - Ummæli ()

Össur: „Guð hjálpi þeim ef þeir vilja standa yfir höfuðsvörðum þessa kerfis“

Sem betur fer virðist málstaður Grikkja njóta skilnings hjá mörgum stjórnmálamönnum á Íslandi. Hér í Grikklandi eru líka margir sem vitna í atkvæðagreiðslur Íslendinga um Icesave og segja að þær hafi verið innblástur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sendi Grikkjum ágæta stuðningskveðju í gær.

Og Össur Skarphéðinsson, sem er öllum hnútum kunnugur hjá ESB eftir langa veru í utanríkisráðuneytinu, talaði af mikilli skynsemi í Morgunútgáfunni á RÚV í morgun. Össur segir að kominn sé tími til að lánardrottnar blæði:

Það er ekki hægt að bjarga Grikklandi öðruvísi en að þeir skeri verulega af sínum  skuldum.  Grikkland hefur tvær leiðir til þess að velja um núna, að halda áfram innan evrunnar eða taka hreinlega upp drökmuna. Það er alveg ljóst, eins og Varoufakis, sem var að segja af sér, og Tsipras forsætisráðherra sögðu; þetta er ekki kosning um evruna. 75% Grikkja vilja halda evrunni. Ef þeir vilja vera innan evrunnar þá eru lög ESB þannig að það er ekki hægt að sparka þeim út.

Össur telur upptaka drökmu í Grikklandi sé afar vondur kostur og myndi leiða til mikilla hörmunga, þarna sé líka spurning um virðingu og álit Evrópusambandsins sjálfs:

Ef þeir yrðu knúðir til að taka upp drökmuna þá myndi það leiða til slíks álags á lífskjör ofan á allt annað að það er ekki kostur í stöðunni. Þannig að ef að ESB ætlar ekki að verða fyrir enn meiri álitshnekki en það hefur þegar orðið fyrir, þá verður það að knýja lánardrottnana, sem aðallega eru alþjóðlegar stofnanir, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Evrópusambandið sjálft, Evrópski seðlabankinn og síðan franskir, en aðallega þýskir bankar. Þetta er nokkuð sem Þjóðverjar verða að skilja. Ef að þeir vilja standa yfir höfuðsvörðum þessa kerfis, þá guð hjálpi þeim.

 

Sunnudagur 5.7.2015 - 22:28 - Ummæli ()

Bernie Sanders óskar Grikkjum til hamingju – hvernig er komið fyrir evrópska vinstrinu?

Bernie Sanders er besti forsetaframbjóðandi sem hefur sést í Bandaríkjunum um langa hríð. Hann talar enga tæpitungu, notar ekki spuna, svarar beint og án útúrsnuninga. Fylgi við Bernie Sanders fer mjög vaxandi og mikil aðsókn er að fundum hjá honum. Hann er alvöru, ekki gervi.

Bernie talar gegn ójöfnuði, ofurvaldi fjármálastofnana og stórfyrirtækja – sem í reynd eiga stjórnmálamenn með húð og hári. Því miður er keppinautur hans innan Demókrataflokksins, Hillary Clinton, dæmigerð fyrir þessa tegund af pólitíkusum.

Sanders talar líka gegn þeirri skuldaáþján sem nútíma fjármálakerfi leggja á fólk og þjóðir – skuldirnar eru orðnar alltumlykjandi enda framleiða fjármálastofnanir stöðugt peninga í formi skulda. Allir vita líka að stór hluti þessara skulda verður aldrei greiddur aftur.

Bernie Sanders segist vera sósíaldemókrati að skandinavískri fyrirmynd. Hann heldur reyndar uppi gildum sem margur kratinn á Norðurlöndunum virðist vera búinn að gleyma.

Kveðja Sanders til Grikkja á tíma hins stóra neis er í anda þessa. Hann óskar grískum almenningi til hamingju með að segja nei við meiri niðurskurði gegnvart fátæku fóki, börnum, sjúklingum og gamalmennum. Í heimi þar sem ójöfnuður er orðinn gríðarlegur þurfi Evrópa að hjálpa Grikkjum að byggja upp hagkerfi sem skapar fleiri störf og betri laun, en ekki meiri atvinnuleysi og þjáningar.

I applaud the people of Greece for saying ‘no’ to more austerity for the the poor, the children, the sick and the elderly.

“In a world of massive wealth and income inequality Europe must support Greece’s efforts to build an economy which creates more jobs and income, not more unemployment and suffering.

Sunnudagur 5.7.2015 - 17:47 - Ummæli ()

Stórt NEI

Fyrstu fréttir virðast benda til þess að Grikkir hafi sagt stórt NEI. Og að ekki sé eins mjótt á mununum og margir höfðu talið.

Kannski var fljótfærni í Tsipras forsætisráðherra að boða til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu, en niðurstaðan ætlar að verða ótvíræð. Það er gott að hún sé afdráttarlaus.

Grikkir voru heldur ekki að segja nei við evrunni, heldur við tilboði frá Troikunni sem var algjörlega óásættanlegt. Gerði ekki ráð fyrir neinni skuldaniðurfellingu, líkt og AGS segir að sé nauðsynleg, heldur einungis áframhaldandi niðurskurði og þjáningum. Sjúklingnum skal enn látið blæða – í þeirri furðulegu von að hann hjarni. En auðvitað var tilboðið ekki gert í góðri trú.

Það hefði verið niðurlægjandi fyrir Grikki að segja já – og ég held að margir sem hafi greitt atkvæði á þann veg hafi gert það með óbragði í munninum. Eitt stærsta blaðið hérna hvatti kjósendur til að segja já – en sagði um leið að Evrópa ætti að skammast sín.

Nú kemur í ljós hvað er varið í Evrópuhugsjónina og hvort lýðræði í Evrópu er einhvers virði. Þjóðverjum hefur ekki tekist að losna við Tsipras, eina ráðið er að búa til viðunnandi samning fyrir Grikkland sem getur leitt landið aftur á braut vaxtar. Það er bæði Evrópu og Grikkjum í hag.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is