Miðvikudagur 16.4.2014 - 11:35 - Ummæli ()

Aðrar skýringar en nýfrjálshyggja

Það er mikið til í því hjá Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni að íslenska hrunið hafi ekki stafað af „nýfrjálshyggju“.

Aðrar skýringar eru nærtækari.

Eins og að bankar voru einkavæddir í hendurnar á klíkubræðrum sem höfðu hvorki vit né siðvit til að reka banka með samfélagslega ábyrgum hætti, heldur notuðu þá sem miðstöðvar fyrir brask.

Eins og að ekki er hægt að byggja alþjóðlega fjármálamiðstöð á örgjaldmiðli eins og krónunni.

Og því að fölsk kjör, viðskipti og væntingar byggðust upp á alltof hátt skráðu krónugengi sem var óhugsandi að entist.

Þannig að skýringarnar eru frekar græðgi, fyrirhyggjuleysi, siðspilling, vinahygli og klíkuskapur og kannski bara hrein heimska.

Miðvikudagur 16.4.2014 - 08:18 - Ummæli ()

Guðni fram í Reykjavík?

Guðni Ágústsson býr í blokk við Lindargötu. Þegar hann sat á þingi átti hann heima á Melunum og var tíður gestur í Vesturbæjarlauginni.

Þannig að það er ekki eins og Guðni hafi ekki komið til Reykjavíkur.

Hins vegar er hann í hugum flestra landsbyggðarmaður. Talsmaður bænda, mjólkur og kúa.

Guðni er skemmtilegur, orðheppinn og sjarmerandi. Það vantar ekki.

En það er spurning hvort hann nái að heilla kjósendur í Reykjavík eða verði sannfærandi þegar hann fer að tala um borgarmálefnin – á tíma þegar hinn stjórnarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, teflir líka fram manni af landsbyggðinni. Halldór Halldórson var beinlíns kallaður í bæinn þessara erinda – það er þó nóg að fara niður í Skuggahverfi til að ná í Guðna.

gudni

Þriðjudagur 15.4.2014 - 14:43 - Ummæli ()

Borgarstjórnarkosningar – stóru línurnar

Það er sjálfsagt alveg rétt hjá Gunnari Helga Kristinssyni að kosningabaráttan í Reykjavík sé galopin.

Gunnar Helgi segir að varla sé hægt að álykta að Samfylkingin sé endilega stærsti flokkurinn í borginni þótt  hún hafi nokkuð forskot í síðustu könnun. Þar er hún með 27,6 prósent.

En Sjálfstæðisflokkur er með 25,5 prósent og Björt framtíð með 24,3 prósent.

Allmjög styrkir það þó stöðu Samfylkingarinnar að langflestir aðspurðir í nýrri skoðanakönnun segjast vilja Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra. Hann er semsagt búinn að byggja upp mikið persónufylgi – sem leiðtoga Samfylkingarinnar á landsvísu skortir alveg.

Ákveðnar línur sem eru skýrar.

Núverandi meirihluti Samfylkingar og BF á mjög góða möguleika á sitja áfram. Ef hann fellur getur hann hæglega boðið VG eða þá Pírötum í samstarfið. Stjórnarskipti í borginni eru mjög ólíkleg.

Sjálfstæðisflokkurinn er 8 prósentustigum lægri en hann var í síðustu borgarstjórnarkosningum. Þá var það minnsta fylgi sem flokkurinn hefur haft í borginni.

Öll sund virðast vera lokuð fyrir Vinstri græn, flokkurinn er einungis með 6,5 prósent.

Píratar eru talsvert hærri, með 10,5 prósent og gætu farið að setja stefnuna á tvo borgarfulltrúa.

Það breytir afar litlu um fylgi Framsóknar þótt flokkurinn hafi engan frambjóðanda í fyrsta sæti.

Samanlagt eru stjórnarflokkarnir með 28,5 prósenta fylgi í borginni.

Ekki virðist vera brennandi áhugi á kosningunum. Kosningar voru dálítið öðruvísi þegar Sjálfstæðisflokkurinn og vinstri flokkarnir háðu grimmilega baráttu um borgina. Nú virðist það vera liðin tíð. Það verður forvitnilegt í því sambandi að sjá kjörsóknina. Í Reykjavík var hún 77 prósent í kosningunum 2006,  83,9 prósent 2002 en aðeins 73,4 prósent 2010.

Er hægt að spá því að kjörsóknin verði ennþá minni í ár?

 

Þriðjudagur 15.4.2014 - 10:06 - Ummæli ()

Glatt á hjalla í Mónakó

Hér er myndband sem eldist ekki sérlega vel. En er góð heimild um ákveðinn tíðaranda sem er horfinn – að minnsta kosti um sinn.

Þetta er árið 2007. Þá var reyndar marga farið að gruna að allt væri að hrynja. En menn fundu enn tíma til að gleðjast – og það svo um munar.

Skemmtikraftarnir eru ekki af verri endanum: Tina Turner, Little-Britain félagarnir, sjónvarpsmaðurinn Jonathan Ross og svo Malcholm Gladwell, höfundur sem tókst að selja milljónir eintaka af bók sem nefnist The Tipping Point.

Þetta fer fram í spilavítisborginni Mónakó – það er mjög viðeigandi. Reyndar er smá kaldhæðni þarna líka, því fyrstu orð kynnisins eru:

Welcome to this amazing event here in Monaco, the glittering heart of Europe’s TAX EVASION district.

Til að setja þetta í samhengi þá var í fréttum í gær að samþykktar kröfur í þrotabú Baugs væru 100 milljarðar króna, en í heild var lýst kröfum upp á 400 milljarða í búið.

Heimturnar eru 1 prósent.

 

Mánudagur 14.4.2014 - 22:37 - Ummæli ()

Aðeins meira um öndvegisbækurnar

Guðmundur Andri Thorsson skrifar ágæta grein í Fréttablaðið í morgun þar sem hann veltir fyrir sér vali Kiljunnar á íslenskum öndvegisbókum.

Það er alveg rétt hjá Guðmundi Andra að þetta er ekki kanón eða kanóna. Það orð hefur á sér yfirvaldskenndan blæ, það vísar í verk sem einhvers konar stofnun (bókmenntastofnunin?) segir fólki að það eigi að lesa. Víða erlendis hafa orðið miklar deilur þegar velja á slíka kanónu.

Það sem um ræðir í Kiljunni er auðvitað viðhorfskönnun sem nær til þeirra sem horfa bókmenntaþátt í sjónvarpi. Einnig voru send tilmæli til bókavarða, starfsfólks í bókaverslunum og hjá bókaforlögum og rithöfunda um að kjósa. Úrtakið er semsagt fólk sem les og hefur áhuga á bókum. Ég gerði ekki nákvæma úttekt á því, en ég hygg að konur hafi verið meirihuti svarenda.

Þetta er samt ekki vinsældakönnun, heldur var fólk beðið um að nefna verk sem því þykir merkileg, sem skara fram úr. Fyrir nokkrum árum reyndum við að láta þartilgert fyrirtæki gera skoðanakönnun um svipað efni – reyndar voru spurningarnar fleiri. Niðurstöðurnar voru út og suður og við höfum ekki birt þær. Fólkið sem haft var samband við í könnuninni reyndist upp til hópa óviðbúið að svara.

Við höfum tekið saman lista sem inniheldur 200 bækur – og svo 100 titla í viðbót. Þegar svo neðarlega er komið eru ekki ýkja mörg atkvæði að baki hverri bók. Nýlegar bækur eru auðvitað of margar á listanum til þess að þetta geti talist vera kanóna. En þó eru þarna fornsögurnar sem enn eru lesnar, skáldsögur Kiljans eins og þær leggja sig, Eddukvæðin, Hávamál og Völuspá, Lilja, Sólarljóð og Passíusálmar.

Það hringdi í mig blaðakona af DV og spurði hvers vegna væru svona fáar konur. Ég sagði að þvert á móti sýndi listinn að konur stæðu mjög sterkt í bókmenntunum. Það væru afar fá dæmi um bókmenntaverk eftir konur fyrr en á tuttugustu öld. En listinn sýnir að höfundar eins og Svava Jakobsdóttir, Jakobína Sigurðardóttir og Fríða Á. Sigurðaróttir eru mjög hátt skrifaðar – kvenhöfundar sem eru fæddar á árunum fyrir stríð. Ég hélt að þær væru frekar gleymdar, nei, það eru frekar örlög karla eins og Guðmundar G. Hagalín og Kristmanns Guðmundssonar.

Guðmundur Andri saknar ýmissa hluta eins og stakra ljóða. Við sögðum reyndar að þátttakendur gætu nefnt þau, en það gerðu fáir. Fólki fannst greinilega vissara að nefna ljóðabækur eða ljóðasöfn. Það væri reyndar gaman að kanna einhvern tíma hvaða ljóð lesandi Íslendingar halda mest upp á – aftur yrði  það auðvitað ekki nema samkvæmisleikur. Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að sá smekkur sé mjög mótaður af bláu Skólaljóðunum – sem einmitt skoruðu nokkuð hátt hjá okkur í Kiljunni.

Og svo nefnir hann bókmenntagrein sem var afar vinsæl langt frameftir síðustu öld en hefur ekki verið fyrirferðarmikil síðustu áratugina. Það eru sagnaþættirnir sem menn eins og Sverrir Kristjánsson, Tómas Guðmundsson og Jón Helgason ritstjóri kunnu öðrum betur að semja. Þessi grein var gjarnan flokkuð sem „þjóðlegur fróðleikur“. Maður spyr hvort ekki megi taka saman sýnisbók með þessum skrifum – margt í þeim var alveg magnað.

Fyrir sjálfan mig var mjög gaman að vinna þetta. Eins og komið hefur fram voru svörin 620. Miklu fleiri einstaklingar eru þó þarna að baki því vinnustaðir og hópar tóku sig saman um að senda inn lista og einnig var talsvert um að hjón sendu svör saman. Birtir hafa verið titlarnir 300 sem voru efstir. En þar fyrir neðan var margt skemmtilegt, enda var fjöldi tilnefninganna mikill. Fólki var gert að nefna 20-30 titla, ef við margföldum 30 með 620 fáum við 18600 tilefningar.

Ég get af handahófi nefnt eftirfarandi titla sem voru nefndir oftar en einu sinni:

Ólafs saga Þórhallasonar – Eiríkur Laxdal Eiríksson

Bragfræði og háttatal – Sveinbjörn Beinteinsson

Svipþing – Sveinn Skorri Höskuldsson

Sveppabókin – Helgi Hallgrímsson

Vér Íslands börn – Jón Helgason

Hrakningar og heiðavegir – Pálmi Hannesson/Jón Eyþórsson

Grasnytjar – Björn í Sauðlauksdal

Söguþættir landpóstanna – Helgi Valtýsson tók saman

Mannfækkun af hallærum á Íslandi – Hannes Finnsson

Árbækur Espólíns – Jón Espólín

Íslenska þjóðríkið – Guðmundur Hálfdánarson

Hornstrendingabók – Þórleifur Bjarnason

Fagrar heyrði ég raddirnar – Einar Ól. Sveinsson tók saman

Litla gula hænan – Steingrímur Arason

Stúlka – Júlíana Jónsdóttir

Íslensk þjóðlög – Bjarni Þorsteinsson

Minningar – Guðrún Borgfjörð

Um haf innan – Helgi Guðmundsson

Reisubók Ólafs Egilssonar

Sálmabókin

Markaskráin

Fyrsta málfræðiritgerðin

Íslensk sjónabók

Grágás

Íslenskt fornbréfasafn

Íslenska hómilíubókin

Flóra Íslands

Árbækur Ferðafélags Íslands

Eiríkur frá Brúnum, ævisaga

5dd5b44edd5eed297b128d73b9c61632

 

 

Mánudagur 14.4.2014 - 12:12 - Ummæli ()

Elf hneykslið, Afríkuspillingin og Eva Joly

Hér er mjög skýr og góður þáttur frá Al Jazeera þar sem er farið í saumana á franska olíufélaginu Elf og tengslum þess við Afríku.

Elf var kjarninn í því hvernig Frakkar héldu ítökum í gömlum nýlendum sínum í Afríku og hvernig þeir héldu harðstjórum sem voru þeim þóknanlegir við völd.

Í kringum Elf var líka gríðarlegt spillingarkerfi sem teygði anga sína út um frönsk stjórnmál.

Það var Eva Joly sem var rannsóknardómari í Elf málinu þegar hneykslið kom upp á yfirborðið á tíunda áratug síðustu aldar. Því lauk í raun með því að Elf var leyst upp – það var lykillinn að því að margir sluppu úr klóm réttvísinnar.

Þetta er merkilegur þáttur í heild sinni – hann er partur af stærri þáttaröð sem nefnist The French African Connection.

Elf þátturinn er númer tvö í röðinni. Um rannsókn Evu Joly er fjallað frá 39du mínútu – en í raun er fróðlegt að sjá þáttinn allan.

francafrique7

 

 

Mánudagur 14.4.2014 - 11:03 - Ummæli ()

Lóaboratóríum Lóu

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, myndskreytir, myndasöguhöfundur og söngkona, er með sýningu á Facebook. Yfirskriftin er Lóaboratoríum.

Hún gerir eina myndasögu á dag – og hefur nú gert í 38 daga. Sögurnar eru flestar úr daglega lífinu í Reykjavík – og margar bráðsniðugar eins og hennar er von og vísa.

Hér er sýnishorn, en sýninguna er hægt að finna með því að smella hérna.

1960903_643449375742421_260827111_o-1

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is