Mánudagur 24.07.2017 - 15:20 - Ummæli ()

Kanada í miklum metum

Kanada er það ríki í heiminum sem hefur jákvæðust áhrif á heimsmálin. Ástralía kemur næst, svo Þýskaland, Frakkland og Bretland. Þá kemur Evrópusambandið en miklu neðar eru Bandaríkin og fyrir neðan þau Rússland.

Þetta eru niðurstöður úr könnun sem birt er á vef World Economic Forum. Skoðanakönnunin var gerð í 25 löndum, en í frétt sem fylgir með má lesa að Bandaríkin hafa hrapað niður á þessum lista. Evrópusambandið stendur í stað, en Bretland fellur um tíu prósentustig.

Svo má sjá að Ísrael er mjög neðarlega og líka Íran. Kannski ekki furða?

 

Sunnudagur 23.07.2017 - 21:08 - Ummæli ()

Er Big Lebowski bar í Reykjavík?

Við hittum þennan náunga á götu í Boston og síðan á kaffihúsi. Spjölluðum aðeins við hann – hann fann hjá sér þörf fyrir að segja okkur hvað hann gerði. Útlitið var semsagt ekki tilviljun. Það þurfti eiginlega ekki að skýra þetta út.

Svo spurði hann hvort það sé rétt að á Íslandi sé bar sem nefnist The Big Lebowkski. Við sögðum að svo væri. Það þótti honum áhugavert.

Veltum svo fyrir okkur hvort væri ekki rétt að bjóða The Dude að koma á þann bar – hann gæti setið þar einhverja hríð.

 

Laugardagur 22.07.2017 - 23:25 - Ummæli ()

London City Airport er ekki í miðborg Lundúna

Keflavíkurflugvöllur er sprunginn vegna mikillar flugumferðar. Það er ljóst að þarf að grípa til einhverra ráða til að stækka flugvöllinn verulega ef menn ætla að anna þeirri umferð sem nú er þar.

Þetta er eitthvað sem ekki verður komist hjá því að gera – sérstaklega í ljósi umræðu um Keflavík sem einhvers konar flugmiðstöð norðursins. Umferðin um hann er þegar orðin álíka mikil og á flugvöllum milljónaþjóða.

Þegar flugstöðin var byggð var umferðin um hana sáralítil miðað við það sem nú er – þá var meira að segja tuðað yfir því sem hún væri of stór. Auðvitað var erfitt að sjá fyrir þá gríðarlegu aukningu sem hefur orðið í farþegaflugi í heiminum – og um íslenska flugstjórnarsvæðið.

En nú skýtur upp þeirri undarlegu hugmynd að fara að nota Reykjavíkurflugvöll líka undir millilandaflug með þotum. Um þennn flugvöll hafa verið deilur áratugum saman, ólíklegt er að hann sé á förum á næstunni – rökin um innanlandsflug til Reykjavíkur og sjúkraflug hafa vegið nokkuð þungt í umræðunni.

Allt öðru máli gegnir um flug með þotum til dæmis frá Bretlandi en flug frá Akureyri og Ísafirði. Ein röksemdin sem er notuð er að London City Airport – þaðan sem British Airways ætla máski að fljúga til Keflavíkur – sé nú í miðborginni í Lundúnum. Og hví þá ekki að hafa miðborgarmillilandaflugvöll í Reykjavík?

En staðreyndin er sú að London City Airport er 15 kílómetrum frá þeirri miðborg Lundúna sem við þekkjum flest og þar sem flestir ferðamennirnir eru, þ.e. West End, Soho og Westminster, eins og sjá má á þessari mynd er drjúgur spölur á flugvöllinn frá þessum stöðum. Ætli þetta sé ekki álíka löng vegalengd og úr Reykjavík í Hvassahraun?

 

 

 

Laugardagur 22.07.2017 - 15:52 - Ummæli ()

Frábært sædýrasafn – gætum við kannski líka komið upp slíku safni?

Fórum í gær á hið stórkostlega sædýrasafn í Boston, New England Aquarium. Þetta er afar vinsælt safn og oft mikið fjölmenni þar, enda stendur það í vinsælu hverfi við höfnina. Safnið leggur eðlilega mikla áherslu á umhverfismál – maður upplifir ógnarfegurð og fjölbreytileika hafdjúpanna, en líka hvernig þeim er ógnað af umsvifum mannskepnunnar.

Sú eyðilegging er sorglegri en tárum taki, en söfn eins og þetta eru mjög gagnleg til að vekja mann til vitundar um umhverfið.

Ég hef stundum skrifað um að það væri þjóðráð að Íslendingar kæmu sér upp sædýrasafni – það yrði varla jafn stórt og fjölbreytt og það í Boston, að minnsta kosti tekur tíma að koma upp slíku hágæðasafni. En safn með norðlægum fiskum og sjávavarlíffverum gæti haft mikið aðdráttarafl, degið að sér mörg hundruð þúsund manns á ári – og svo gæti það nýst afar vel í skólastarfi.

Það er náttúrlega erfitt að taka myndir inni á sædýrasafni, enda er auðvitað best að njóta þess án þess að vera sífellt að flagga myndavélasímanum, en hérna eru nokkur sýnishorn.

 

Piranhafiskur.

 

Sæhestur.

 

 Ekki man ég hvað þessir hétu, ein þeir stinga sér líkt og jurtir upp úr sandinum, með mjóan búk og haus, líta dálítið út eins og hattífattarnir í Múmínálfunum. Frekar sætir á sinn hátt.

 

Þessi er ekki beint góðlegur. Þetta er moray-áll sem lifir víða um heimshöfin. Við Kári höfum rekist á svona kvikindi þegar við erum að snorkla við Grikklandsstrendur en þá eru þeir brúnir og gulir á litinn, en ekki síður ófrýnilegir. Smerna er gríska nafnið.

Þetta eru pterois eða lionfish á ensku. Þykja frekar til óþurftar. Eru upprunnir í Indlandshafi og Kyrrhafi og hafa breiðst út til Atlantshafsins og inn í Miðjarðarhaf. Eru eitraðir og lítt velkomnir.

Föstudagur 21.07.2017 - 03:09 - Ummæli ()

Shostakovits á Íslandi – með tvískipta og hrellda sál

Í bók breska rithöfundarins Julians Barnes um Dmitri Shostakovits segir frá því þegar flugvél sem tónskáldið er í þarf að lenda í Reykjavík. Þetta er árið 1949, Shostakovits er á leiðinni ásamt sovéskri sendinefnd frá friðarþingi sem var haldið í Bandaríkjunum. Það fékk reyndar fremur snubbóttan endi. En þingið og þessi ferð gegnir nokkuð stóru hlutverki í bókinni sem nefnist The Noise of Time.

Stalín skikkaði Shostakovits til að fara til Bandaríkjanna, þar var honum gert að lesa upp ræðu þar sem hann meðal annars gekkst einu sinni enn við syndum sínum frá því á tíma hreinsananna miklu, hann hafði samið óperu sem harðstjóranum mislíkaði mjög. Og í ræðunni þurfti hann líka að fordæma hinn landflótta Rússa Igor Stravinsky – sem Shostkovits taldi til mestu tónskálda aldarinnar. Þetta var semsagt sorgarsaga eins og margt í lífi Shostakovits, þessa taugaveiklaða tónsnillings sem lifði svo hörmulega tíma.

Í bók Barnes segir frá því að flugvélin hafi verið biluð og Shostakovits þurft að dvelja tvo daga á Íslandi.

When the reached Iceland, the plane had broken down, and they waited two days for a replacement.

Ég hef lengi talið mig aðdáanda Shostakovits, en verð að viðurkenna að ég kannaðist ekkert við þetta. Það var ekki mikið sem kom upp við leit, þar til ég fann á vefnum góða timarit.is blað sem var gefið út skamma hríð 1948 til 1949. Það kallaðist Musica, var afar menningarlegt, en útgefandinn var Tage Ammendrup, síðar hljómplötuútgefandandi og útsendingarstjóri í sjónvarpinu.

Þarna er að finna grein í 1. tölublaði 1949. Hún er skrifuð af Alan Moray Williams. Það var Breti sem dvaldi löngum á Íslandi, en hann var bróðir listakonunnar góðkunnu Barböru Moray Árnadóttur. Greinin er feiki skemmtilega skrifuð, lýsir tíðarandanum og hinu tortryggna andrúmslofti kringum Sovétmennina sem voru á Keflavíkurflugvelli (ekki í Reykjavík eins og Barnes skrifar.) Williams kunni líklega rússnesku.

Á þessum tíma var Shostakovits afar frægur, hann hafði verið á forsíðu Time í stríðinu og var mjög hampað í Sovétríkjunum. Staðreyndin var hins vegar sú – og það er ein frægasta saga um samskipti listamanns og harðstjórnar á tuttugustu öld – að tónskáldið þjáðist undan Sovétvaldinu sem jafnframt hlóð hann viðurkenningum eins og Stalínverðlaunum og Lenínorðum.

Greinarhöfundurinn nefnir einmitt óperuna Lafði Makbeð af Mtsensk sem kom honum í mest vandræði hjá stalínistum á tíma ógnarinnar miklu. Hún fékk þá dóma að hún væri „moð en ekki músík“ og það er merkilegt að í hinu stutta viðtali fer Shostakovits með sömu tuggur og ávallt þegar hann var spurður um þetta verk – að gagnrýnin hafi hjálpað honum og fært hann nær fólkinu. Barnes segir frá því að á tíma þessarar gagnrýni hafi Shostakovits sofið alklæddur með föt og tannbursta í tösku fyrir framan lyftuna í húsi sínu – svo fjölskyldan yrði ekki fyrir áfalli þegar NKVD-lögreglan kæmi að sækja hann.

Alan Moray Williams hefur verið glöggur blaðamaður, því hann lýkur greininni um Shostakovits á Íslandi með svofelldum orðum sem ríma afar vel við það sem síðar hefur orðið uppvíst um hið mikla tónskáld:

Er við kvöddum Shostakovich, höfðum við á tilfinningunni, að hann væri maður með tvískifta og hrelda sál.

 

Fimmtudagur 20.07.2017 - 16:27 - Ummæli ()

Íslenska krónan enn og aftur

Nú er aftur deilt um íslensku krónuna. Ég ræddi um daginn við erlendan fjárfesti sem þekkir vel til á Íslandi.

Hann sagðist ekki skilja hvað Íslendingar væru að enn að burðast með krónuna. Nú væri hún að koma okkur í vandræði aftur.

Íslendingar gætu þess vegna tekið upp dönsku krónuna. Og þá yrði ekki þörf fyrir Seðlabankann.

En, sagði ég, bjargaði krónan okkur ekki eftir hrunið?

Án krónunnar hefði ekki orðið slíkt hrun, svaraði hann.

 

Miðvikudagur 19.07.2017 - 21:33 - Ummæli ()

Plastpláneta

Ég furða mig oft á því hvað er hægt að troða miklu af matvælum og alls kyns varningi í plast. Hlutir eru vafðir í plast, klæddir í plast, settir utan um þá plastfilma, látnir í plastpoka og svo eru allar plastflöskurnar.

Ég man nefnilega eftir heimi sem var ekki svona. Þegar ég var að alast upp voru plastumbúðir enn tiltölulega sjaldgæfar. Plastflöskur utan um drykki voru varla til og plastpokar fágætir.

Mikið af þessari plastnotkun er algjörlega tilgangslaus. Við könnumst öll við að taka hluti úr plastumbúðum sem okkur þykja fáránlega miklar og óþarfar. Við tuðum kannski, en látum gott heita.

Í nýrri bandarískri rannsókn er því haldið fram að magn plasts sem hefur verið framleitt í heiminum sé 8,3 milljarðar tonna. Þetta hefur gerst á síðustu 65 árunum – og framleiðslan hefur aukist eftir því sem tíminn líður. Helmingur plastsins hefur verið framleiddur síðustu 13 árin.

Mikið af plastinu hefur mjög stuttan notkunartíma þannig að það endar með einhverjum hætti úti í náttúrunni. Plastið er sett í uppfyllingar. Plastagnir er að finna alls staðar í heimshöfunum, líka við heimskautin. Plastið eyðist ekki. Og aðeins örlítill hluti af því fer í endurvinnslu. Því er spurt hvort við ætlum að sætta okkur við að búa á plastplánetu.

Plast getur verið mjög gagnlegt efni og það er ódýrt í framleiðslu. Það er ekki flókið hvers vegna svo mikið er notað af því. En allt þetta plastsukk er  líka skelfileg umhverfisvá sem við erum varla farin að takast á við.

Það dugir heldur skammt að koma bara í veg fyrir notkun plastpoka þótt það láti okkur kannski líða aðeins betur.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is