Laugardagur 31.1.2015 - 14:02 - Ummæli ()

Hví opnar ritstjórinn ekki bloggsíðu?

Það er sætir undrum að eigendur Morgunblaðsins – aðaleigandinn var að fá sérstaka viðurkenningu – skuli umbera það að blaðið skuli lagt undir persónulega hagsmuni eins manns.

Þetta á að talsverðu leyti við um fréttaskrifin, en að öllu leyti um ritstjórnarefnið. Hin forðum virðulegu Reykjavíkurbréf – þar sem var fjallað vítt og breitt um landsins gagn og nauðsynjar – eru undirlögð af persónulegum harmatölum og karpi annars ritstjórans og tilraunum hans til að endurskrifa stjórnmálaferil sinn.

Þetta er einstakt í seinni tíma fjölmiðlasögu Íslands. Í árdaga blaðamennskunnar voru til blöð sem snerust meira og minna um einn einstakling, en þau yrðu ekki langlíf. Ritstjórinn hefur vissulega verið fyrirferðarmikill í íslensku þjóðlífi lengi, en sæjum við fyrir okkur DV sem snerist mestanpart um persónu Kolbrúnar Berþórsdóttur eða Fréttablað þar sem Sigurjón Magnús Egilsson væri sífellt að rifja upp gamlar ávirðingar á  hendur sér?

Mogginn bar sig einu sinni saman við heimsblöð. Myndi svona eiga sér stað á Daily Telegraph, Washington Post eða Berlingske Tidende?

Þetta er furðuleg tegund af blaðamennsu og sem leiðaraefni – takið eftir orðinu „leiðari“ – er það ónothæft. Eitt af því sem er ankanalegt er að þarna er ritstjórinn sífellt að skrifa um sjálfan sig í þriðju persónu. Það hlýtur að vera óþægilegt til lengdar.

Eiginlega er furða að stjórn blaðsins skuli ekki stinga upp á því að hann opni bloggsíðu, skili inn aðsendum greinum eða gerist virkur í athugasemdum – og svo kemur náttúrlega til greina að nota bókarformið.

Laugardagur 31.1.2015 - 09:58 - Ummæli ()

Hin óþjóðholla kvikmynd Leviathan

Ég horfði í annað sinn á hina stórkostlegu mynd Leviathan í gær. Myndin er rússnesk, tilefnd til Óskarsverðlauna. En hún fæst varla sýnd í Rússlandi. Þykir óþjóðholl og bera vott um hugarfarsspillingu. Hún hefur orðið tilefni til umræðu um að banna óþjóðlegar myndir. Og það rifjar upp langa hefð ritskoðunar í Rússlandi – allt frá Púshkín til Tarkovskí.

Á sama tíma berast ýmislegar fréttir um rússnesk málefni. Um að Pútín ætli að láta einkavin sinn byggja risastóra brú til Krímskaga. Um rannsóknina á Litvinenko morðinu í London þar sem útsendarar rússnesku leyniþjónustunnar eltu fórnarlamb sitt með ofurgeislavirku poloniumi út um allan bæ.

Þetta er eins og að lesa njósnasögu sem manni finnst ótrúverðug, lögfræðingur ekkju Litvinenkos segir að Pútín sé eins og „ótíndur glæpamaður í gervi þjóðarleiðtoga“.

Leviathan gerist í magnaðri náttúru norður við Barentshaf. Minnir sumpart á Ísland, en húsin eru hrörlegri. Myndin segir frá baráttu vanmáttugs einstaklings við héraðsstjóra sem vill komast yfir húsið hans – til þess eins að rífa það.

Héraðsstjórinn hefur á sínu bandi allt kerfið, lögregluna, dómstólana – og kirkjuna. Þetta er samtvinnuð spilling og húseigandinn og fjölskylda hans eiga aldrei séns. Ádeila myndarinnar er undirstrikuð með myndinni af Pútín á vegg héraðsstjórans – og með myndum úr kirkjulegum athöfnum.

Einhver tenging er þarna við Jobsbók, húseigandinn missir að lokum allt, líka frelsið, og að lokum er lítil huggun í  kirkjunni sem er full af hræsni né vodkanu sem fólkið þambar í myndinni til að komast burt frá veruleikanum.

leviathan-movie-official-trailer

Föstudagur 30.1.2015 - 21:34 - Ummæli ()

Má nota Skype?

Svandís Svavarsdóttir spyr í framhaldi af fyrirspurn um ferðir forseta Íslands hvort forsetaembættið sé óþarft – og nóg sé að láta handhafa forsetavalds um það?

Fékk í gær þessi fróðlegu svör við fyrirspurn minni um ferðir forseta Íslands. Forsetinn reynist hafa verið 200 daga í burtu frá síðustu forsetakosningum og handhafar forsetavalds á þeim tíma hafa fengið 22 milljónir króna í laun. Spurningin er hvort embættið sé ekki óþarft og nóg að handhafarnir sinni því? Eða bara forseti þingsins.

En eru utanferðir forsetans svo mikið vandamál? Má ekki snúa þessu við og spyrja hvort það séu handhafar forsetavaldsins sem eru óþarfir. Samgöngur hafa jú batnað allmikið síðan þessi lög voru sett – símasamband hefur batnað líka og síðan þá hafa orðið til fyrirbæri eins og internet, tölvupóstur, jú, og jafnvel Skype.

Föstudagur 30.1.2015 - 08:13 - Ummæli ()

Guðný á Mokka

Það er vel til fundið hjá Félagi kvenna í atvinnurekstri að veita Guðnýju Guðjónsdóttur á Mokka viðurkenniningu. Mokka hefur nú starfað í 56 ár – þau Guðný og Guðmundur Baldvinsson, eiginmaður hennar, voru frumkvöðlar í veitingahúsarekstri á Íslandi.

Mokka er náttúrlega menningarstofnun – sígildur staður. Innréttingarnar þar eru í dásamlegum módernískum stíl frá því á sjötta áratugnum og hefur aldrei verið breytt; ég veit ekki hvort þær eru komnar á minjaskrá. Og þögnin þar inni er svo einstaklega þægileg – Guðný og Guðmundur  settu víst upp hátalara þegar þau opnaði staðinn og ætluðu að spila klassíska músík en þeir voru aldrei notaðir.

Þegar ég var í menntaskóla var Mokka ennþá eini staðurinn á Íslandi þar sem var hægt að fá alvöru ítalskt kaffi, espresso og capuccino. Nú hafa tímarnir breyst, út um allan bæ eru kaffihús sem selja prýðilegt kaffi. Flest eru þau samt karakterlaus miðað við hið sögufræga Mokka. Og þau verða ábyggilega ekki jafn langlíf.

Ég var fastagestur á Mokka árum saman og mannlífsflóran var stórbrotin. Minnisstæðir eru Thor Vilhjálmsson, Sigfús Daðason, Karl Kvaran, Jón Gunnar Árnason, Dagur Sigurðarson, Gylfi Gíslason, Guðrún Pétursdóttir, Þorsteinn frá Hamri, Inga Bjarnason, Andrés Kolbeinsson óbóleikari og Jörundur Hilmarsson málfræðingur. Svo voru líka minni spámenn, ekki síður eftirminnilegir. Bundu kannski ekki allir bagga sína sömu hnútum og samferðamennirnir.

Aldrei varð ég var við að Guðný og Guðmundur á Mokka færu í manngreinarálit. Þau voru einstaklega umburðarlynd gagnvart mislitum gestahóp. Líka gagnvart mér og vinum mínum sem stundum vorum svo miklir bjánar að móðir eins okkar kallaði okkur tortímingarsveitina.

En eftir árin á Mokka er ég svo snobbaður að ég drekk aldrei annað kaffi en ítalskt.

FKA-vidurkenningarhatid-29.-januar-2015-(3)

Fimmtudagur 29.1.2015 - 18:56 - Ummæli ()

Stöðvum jihadismann

Hér er franskt plakat, gefið út af hinu opinbera, til að vara við jihadisma svokölluðum. Stöðvum jihadismann, bregðumst við hryðjuverkaógninni, stendur þarna.

Fyrstu merkin vekja grun, segir á plakatinu.

Þau eru til dæmis að hafna gömlum vinum – vegna þess að þeir eru óhreinir. Hafna fjölskyldu sinni. Snöggar breytingar á mataræði.

Að hætta í skóla eða í vinnu, því það er allt partur af samsærinu, að hætta að hlusta á tónlist, að hætta að horfa á sjónvarp eða kvikmyndir.

Að hætta í íþróttum – því þar er blöndun kynja – að breyta um klæðaburð og að leita á vefsíður öfgamanna.

Í lokin er tekið fram að hvert tilfelli sé einstakt – og birt símanúmer sem hægt er að hringja í.

radicalisation

Fimmtudagur 29.1.2015 - 08:07 - Ummæli ()

Christiansen og gjaldmiðlamálin

Danski hagfræðingurinn Lars Christiansen er ekki ýkja þekktur í heimalandi sínu, en hér á Íslandi er hann eins og rokkstjarna. Hann er það sem Danir kalla slagfærdig.

Christiansen spáði fyrir um íslenska bankahrunið, álit hans birtist í íslenskum fjölmiðlum og þá urðu íslenskir banka- og stjórnmálamenn æfir yfir þessari fásinnu.

Christiansen var á athyglisverðum fundi í Reykjavík í gær og eins og endranær er hann óhræddur í greiningum sínum.

Eitt er það sem maður staldrar við. Greinandinn segir að til álita komi fyrir Íslendinga að taka upp gjaldmiðla Noregs eða Kanada, meðal annars vegna þess að íslenska hagkerfið sé líkara því sem þar er.

Vandinn er samt sá að Norðmenn hafa engan áhuga á að leyfa Íslendingum að taka upp norska krónu – þeim finnst það fáránleg hugmynd – en Kanadamenn fara kurteislega undan í flæmingi þegar minnst er á að Íslendingar noti Kanadadollar.

Bæði Noregur og Kanada eru olíuríki sem eiga hag sinn undir því að verð á olíu sé sem hæst. Nú hefur það lækkað og efnahagshorfur eru ekki jafngóðar og áður. Fyrir Íslendinga er hins vegar best að olíuverð sé sem lægst.

Miðvikudagur 28.1.2015 - 19:02 - Ummæli ()

Moggahúsið ekki rifið

„Hverfur hann kastalinn, Aðalstræti 6″ – söng Spilverk þjóðanna í lagi sem hét Græna byltingin.

Það var á grænu plötunni, þessari með frábærlega flotta umslaginu sem var hannað af Gylfa Gíslasyni. Pramma sem var eins og Ísland í laginu var fleytt út í Reykjavíkurtjörn. Það var almennilegt.

846218

Aðalstræti 6 er Moggahöllinn, stórhýsið sem stendur fyrir enda Austurstrætis. Þar stóð reyndar eitt sinn til að reisa Þjóðleikhúsið, eins og lesa má um í bókinni Reykjavík sem ekki varð.

ImageHandler

En Mogginn dafnaði vel í Aðalstrætinu og þegar ég var ungur blaðamaður öfundaði maður blaðamennina á Mogganum að vinna á svona flottum stað. Alveg miðsvæðis. Svo flutti Mogginn í Kringluna og síðar í Hádegismóa – leiðin lá niður á við og liggur enn.

Þarna var líka eitt sinn lítil verslunarmiðstöð á neðstu hæðunum, kallaðist Vesturver (sbr. Suðurver og Austurver, Norðurver reis aldrei) þar var Hjóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur og seldi hljómplötur, bókabúð og leikfangabúð og um tíma var afar smart tískuvöruverslun sem kallaðist Adam í kjallaranum, með mjög nútímalegum stólum og lýsingu.

278775_470242389660451_1730070355_o

Í dag var svo engu líkara en að væri verið að rífa Morgunblaðshúsið. Það er líklega misskilningur. Nú er það líka löngu hætt að vera kastalinn sem Spilverkið söng um, það hefur litla pólitíska merkingu lengur, heldur er búið að innrétta þar hótel líkt og í svo mörgum byggingum í Miðbænum.

10689539_10153108059695439_1790926713914632761_n

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is