Föstudagur 22.09.2017 - 15:47 - Ummæli ()

Þegar ég þóttist sjá fljúgandi furðuhlut

Hér er stórkostleg loftmynd af Reykjavík eins og hún var 1977. Takið eftir því að þarna er trjágróðurinn enn ekki farinn að ná sér almennilega á strik. Það er skrítið hversu trjábyltingin gerðist hratt. Þetta er Hagatorg, Háskólabíó, Hótel Saga/Bændahöllin, Þjóðminjasafnið og horft yfir gamla kirkjugarðinn – nei, ekki Hólavallakirkjugarð, það nafn kann ég ekki að nota verandi alinn upp í hverfinu.

Bensínstöðin á Birkimelnum er ekki orðin það ferlíki sem hún varð síðar og Þjóðarbókhlaðan er ekki risin. Sjálfum hefur mér alltaf fundist það fremur ljót bygging, klunnaleg og undarlega breið – enda er einn helsti gallinn við hana að þangað inn berst aldrei frískt loft heldur andar fólk að sér í gegnum loftræstingakerfi sem ég held að geti ekki verðið hollt til lengdar.

Þarna eru nokkrir af fótboltavöllum æsku minnar. Þeir eru flestir horfnir. Við spiluðum á túninu við hliðina á Melavellinum, stundum inni á Melavellinum sjálfum og oft á túninu milli Þjóðminjasafnsins og Háskólans. Það eru ekki margir staðir í Vesturbænum lengur þar sem er hægt að sparka bolta.

Myndin er tekin rétt áður en Melavöllurinn var fjarlægður. Það þurfti svosem ekki meira en að rífa girðinguna í kringum hann, stúkuna sem var orðin hrörleg og smáhýsið þar sem búningsklefarnir voru. Mér sýnist að flóðljósin sem voru á Melavellinum séu á bak og burt þarna.

Einu sinni var ég að labba meðfram Melavellinum í myrkri og þóttist viss um að ég sæi fljúgandi furðuhlut. Ég var mjög spenntur, eiginlega fyr og flamme,  en á endanum reyndist þetta bara vera glampi efst í flóðljósinu sem var færst.

Ég var skotinn í stelpu sem bjó á Dunhaganum. Bjó á Ásvallagötu og labbaði oft þessa leið. Það var einmitt árið 1977. Svo ef ártal myndarinnar er rétt gæti vel verið að ég sé einhvers staðar á henni.

Myndin var sett inn á vefinn Gamlar ljósmyndir og sagt að hún væri úr tímaritinu Samvinnunni.

 

Fimmtudagur 21.09.2017 - 12:30 - Ummæli ()

Enn einu sinni óbundnir til kosninga – og líka óbundnir af kosningaloforðum

Mér dettur ekki margt í hug að skrifa um kosningarnar 28. október. Þó þetta:

Stjórnmálamennirnir (flokkarnir) fara í kosningar án þess að hafa hugmynd um hvað þeir ætla að gera eftir þær.

Þess vegna nægir að setja upp óljósa og loðna stefnu. Það er jafnvel hægt að nota aftur stefnumálin frá því síðast eða þarsíðast. Það varð hvort sem er ekkert úr þeim.

Þetta heitir að ganga óbundinn til kosninga. Menn reynast líka óbundnir af kosningaloforðum. Og þess vegna gengur kosningabaráttan mikið út á getsakir um hver muni vinna með hverjum eftir að atkvæðin hafa verið talin.

Eða hver muni lenda með hverjum að endingu? Það er hægt að gera því skóna að Sjálfstæðisflokkurinn og VG muni vinna saman – eða bara eitthvað…

Þetta er ótrúlega ófrjótt kerfi. Og tilfinningin sem maður hefur er að landsmenn langi lítið í kosningar.

 

Miðvikudagur 20.09.2017 - 21:05 - Ummæli ()

Siddi, Siggi, Pálsson – Sigurður Pálsson

Elsku Siggi Páls. Ég kynntist honum fyrst þegar ég var 18 ára strákur í París. Ég hafði varla hitt mikilsverðari mann – og enn er ég á því að ég hafi tæpast kynnst mikilsverðari manni á ævinni. Manni fannst alltaf eins og hann sæi dýpra en aðrir, hugsaði betur og skýrar og frumlegar, það voru alltaf nýir vinklar hjá Sigurði.

Hann var gagnmenntaður og með alþjóðlega sýn, með tilvísanir í franskar bókmenntir og leikhúsið, heimspeki og klassík, en hann kunni líka Rolling Stones. Einu sinni sátum við heila nótt yfir nýrri Rolling Stones plötu og Siggi útskýrði snilldina.

Hann skrifaði minningar frá því hann var barn, unglingur og ungur maður. Þær komu út í ekkert alveg réttri röð. Þarna var ungi maðurinn nýkominn til Parísar, pilturinn sem flutti í bæinn úr sveit og leigði herbergi til að ganga í Hagaskóla, barnið sem ólst upp í sveitinni í Öxarfirði. Mér fannst það ótrúlega skemmtilegt að heyra að þá hefði hann verið kallaður Siddi, ekki Siggi Páls. Í París var hann frekar einfaldlega Pálsson.

Sigurður hafði einstaka nærveru. Yfirbragð visku, rólegt á yfirborðinu, en undir niðri var merkilegur kraftur í þessum netta manni. Talsmátinn var einstakur, ekki bara orðin, heldur líka þagnirnar, hvernig hann sagði hlutina  – eftir fund með Sigga fann maður stundum að maður var ósjálfrátt farinn að herma eftir honum, ekki bara því sem hann sagði, heldur hvernig manni fannst hann hugsa. Auðvitað tókst það sjaldnast vel

Siggi var ljóðskáld út í gegn. Með einstakt næmi fyrir hinu skáldlega í tilverunni. Hann trúði líka á gildi skáldskaps og lista fyrir veröldina. Það er rauður þráður hjá honum. Því miður er það ekki svo algengt lengur.

Síðasta ljóðabókin hans, Ljóð muna rödd, var meistaraverk. Þar tókst hann á við dauðann og dauðleikann með ótrúlegri … göfgi liggur mér við að segja. Hann var líka atgervismaður hann Sigurður. Ljóðið heitir Hvít nótt:

Ekki var hún svefnlaus
þessi nótt

Samt var hún hvít
alveg snjakahvít

Að morgni er blað
á borðinu
með bókstöfum

Sá sem sat við borðið
er horfinn

Sigurður Pálsson. Þessar myndir eru rammar úr skólakvikmynd eftir Viðar Víkingsson. Árið er 1979.

Þriðjudagur 19.09.2017 - 21:56 - Ummæli ()

Lágfóta á bílastæði við ferðamannastað

Tveir yrðlingar voru að þvælast við bílastæðin við Djúpalón á Snæfellsnesi nú þegar hallaði undir kvöld. Fyrst kom annar, það er spurning hvort hann venji komur sínar þarna til að sníkja mat af túristum. Erlendis eru refir víða farnir að leita inn í þéttbýli. Ég átti ekkert að gefa honum. Það kannski heldur ekki gott að venja þessi villtu dýr á slíkar matargjafir.

 

 

Svo koma annar yrðlingur og þeir fóru að hlaupa um allt og leika sér eins ungviði gerir. Merkilegt að sjá þá skottast um með mikilli snerpu og hraða. Þeir komu alveg upp að fótum manns, það er ekki oft að maður sér refi sem eru svo gæfir.

 

 

Ég er ekki mikill náttúrufræðingur, en mér finnst alltaf jafngaman að segja útlendingum frá því að rebbi hafi verið eina spendýrið á Íslandi þegar maðurinn nam land þar, konungur í sínu ríki. Enda er þekkt hversu mörg nöfn þessi skepna hefur á íslensku, eins og t.d.:

Djangi, djanki, dratthali, dýr, fjallarefur, fjallrefur, gráfóta, heimskautarefur, holtaþór, lágfóta, melrakki, rebbali, rebbi, refur, skaufhali, skolli, tóa, tæfa, vargur, vembla

Þetta er innan þjóðgarðs svo líklega eru refirnir óhultir þarna.

 

Þriðjudagur 19.09.2017 - 07:50 - Ummæli ()

Miðjan skreppur saman – pattstaða?

Sæmkvæmt skoðanakönnuninni sem birtist í Fréttablaðinu í dag eiga þrír flokkar, sem eru á miðjunni eða nærri henni, á hættu að þurrkast út. Þetta eru Samfylkingin, Björt framtíð og Viðreisn. Allir með fylgi á bilinu 5-7 prósent.

Annars virðist stefna í pattstöðu þar sem jafn erfitt – eða erfiðara – verður að mynda ríkisstjórn en síðast. Það hjálpar varla að samkvæmt könnuninni eru átta flokkar á þingi. Fylgi Sjálfstæðisflokksins er lélegt í könnuninni og Vinstri græn eru jafnstór þeim. Tveggja flokka stjórn sem Bjarni Benediktsson lætur sig dreyma um er eins og fjarlægur draumur en stjórn þriggja flokka með VG og einum flokki til er möguleg. Það virðist þó ekki sérlega raunhæft – VG fer seint í slíkan leiðangur.

Samkvæmt þessu eru einu flokkarnir sem uppskera í kosningunum VG og Flokkur fólksins sem í könnuninni kemur stormandi inn með 11 prósenta fylgi og 7 þingmenn. Framsókn og Píratar halda sínu, en hvorugur flokkur var sérlega ánægður með úrslitin síðast.

Vinstri stjórn er ekki möguleg samkvæmt könnuninni nema þá með Framsókn og/eða Flokk fólksins innanborðs.

En kosningabaráttan er auðvitað ekki byrjuð og spurning um hvað verður í raun kosið? Sjálfstæðisflokkurinn boðar staðfestu og svo eru flokkar sem tala um gegnsæi. En Flokkur fólksins talar um aldraða og öryrkja og fátækt fólk – og spurning hvort hann gefi ekki tóninn að einhverju leyti?

 

Mánudagur 18.09.2017 - 10:50 - Ummæli ()

Kosningarnar 28. október – hverjir eru í stuði?

Ef kosið verður 28. október verður kjörtímabilið sem nú stendur yfir innan við eitt ár – en það munar bara einum degi, kosningarnar 2016 voru 29. október.

Þetta er ansi bratt. Það eru ekki nema fjörutíu dagar sem flokkarnir hafa til að koma saman framboðslistum og heyja sína kosningabaráttu.

Flokkarnir eru misvel undirbúnir. Sjálfstæðisflokkurinn setur sína vél í gang með nokkurn veginn óbreyttum listum frá því síðast. Vinstri græn eru til í kosningar, þau telja að þau geti bætt hressilega við sig. Framsóknarflokkurinn hefur verið í hálfgerðu reiðileysi á þessu kjörtímabili en gæti bætt við sig fylgi og styrkt stöðu sína aðeins.

Aðrir flokkar segjast vilja kosningar, en manni finnst hljóðin frá þeim ekki mjög sannfærandi. Píratar eru undanskildir, þeir lýsa opinberlega yfir efasemdum um að kjósa aftur. Björt framtíð sprengdi ríkisstjórnina og flokksmenn vona sjálfsagt að þeir njóti þess. Viðreisn þarf að reyna að marka sér sérstöðu frá Sjálfstæðisflokknum eftir ríkisstjórnartímann. Sjálfstæðismenn munu hamast á því að þetta séu smáflokkar sem ekki eru traustsins verðir.

Nánast öll forysta Samfylkingarinnar heltist úr lestinni í síðustu kosningum. Það er varla vænlegt til árangurs að reyna aftur með sama fólk. En hverjir koma þá í staðinn?

Munu kosningar breyta einhverju? Bjarni Benediktsson segist vilja tveggja flokka stjórn eftir kosningar. Ekki er sérlega líklegt er að það gangi eftir. Sennilegast er er að aftur þurfi að mynda a.m.k. þriggja flokka stjórn. Flokkur fólksins gæti skipt sköpum. Og svo mega flokkarnir á vinstri vængnum kannski ekki við því að styggja Framsóknarflokkinn ef þeir ætla að eiga möguleika á að komast í ríkisstjórn.

Gunnar Smári Egilsson veltir því fyrir sér á Facebook hvaða flokkar séu í stuði (ætlar Sósíalistaflokkur hans að bjóða fram?) En er þjóðin í stuði fyrir kosningar?

 

 

 

 

Mánudagur 18.09.2017 - 00:34 - Ummæli ()

Fjörugt Silfur

Hér er Silfur sunnudagsins. Þáttur sem var lengri en venjulega, en nokkuð fjörugur og áhugaverður held ég megi segja. Gestir voru Helgi Hrafn Gunnarsson, Svandís Svavarsdóttir, Páll Magnússon, Björt Ólafsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Kristinn Hrafnsson, Stefanía Óskarsdóttir, Jón Trausti Reynisson og Sigmundur Erni Rúnarsson.

Svo vek ég sérstaka athygli á viðtalinu við sagnfræðinginn bandaríska, Timothy Snyder, sem er í lok þáttarins.

Silfrið má sjá með því að smella hér á vef RÚV.

 

 

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is