Laugardagur 17.02.2018 - 15:45 - Ummæli ()

Frá vínskömmtun til kampavínsmökkunar

Frjálsræði í áfengisverslun hefur aukist mikið á Íslandi, þótt enn sé ekki heimilt að selja það í kjörbúðum. En áfengi er út um allt, og í raun upplifum við tíma mikillar áfengisdýrkunar, ólíkt því með tóbak sem má ekki lengur sjást í búðum. Tóbaksbúðir með ilmi af píputóbaki eru horfnar, en vín er eiginlega alls staðar þar sem við förum. Til dæmis er það svo í Mathöllinni við Hlemm að vín og bjór er miklu meira áberandi en maturinn þegar maður gengur þangað inn. Einhvern tíma hefðu menn kannski fett fingur út í það að áfengi væri selt á strætóbiðstöð – en við getum sagt að templarahreyfingin hafi algjörlega tapað baráttunni.

 

 

Þetta frjálsræði þekktist ekki þegar ég var ungur maður. Þá voru örfá útibú ÁTVR í bænum, frekar þungbúnir karlar í sloppum afhentu vöruna yfir búðarborð – viðmótið var þannig að maður fann til sektarkenndar. Það var ekki heimilt að selja bjór. Ekki mátti afgreiða vín á miðvikudögum – þá skyldu menn láta renna af sér. Veitingahúsin voru þannig að vínflöskur voru lítt sýnilegar. Þetta var semsagt eitthvað sem þótti rétt að pukrast með. Í Ríkinu voru flöskurnar settar í ljóta svarta plastpoka – engum gat dulist hvaðan maður var að koma þegar maður gekk með þá úti á götu. Þessi mynd er úr áfengisversluninni sem var á Snorrabraut – takið eftir að þarna voru tóbaksreykingar ekki enn orðnar tabú, það eru öskubakkar til reiðu fyrir reykjandi viðskiptavini (það er reyndar orð sem maður hefði seint notað í sambandi við þessar verslanir).

 

 

En svo var tími þegar frjálsræðið var ennþá minna. Einu sinni var auðvitað vínbann, en því var hnekkt þegar Spánverjar og Portúgalir sögðust ekki kaupa af okkur fisk nema við keyptum af þeim vín. Signý Guðbjartsdóttir setti þessar mjög fróðlegu myndir inn á vefinn Gamlar ljósmyndir.  Þetta er „Áfengisbók fyrir karla“ frá því á árum heimsstyrjaldarinnar síðari. Hún inniheldur skömmtunarseðla, eins og sjá má.

Þarna afhendist ein hálfflaska af sterkum vínum eða ein heilflaska af heitum vínum (líklega portvín og sherrý) eða tvær flöskur af borðvínum gegn afhendingu seðilsins og undirskrift.

Ýmiss konar höft hafa þekkst á áfengissölu. Til dæmis var lengi við lýði sú regla í Færeyjum að þeir fengu ekki að kaupa vín sem höfðu ekki borgað skattana sína.

 

 

 

Föstudagur 16.02.2018 - 09:59 - Ummæli ()

Hruninn húsnæðismarkaður fyrir ungt fólk í Bretlandi

Möguleikar ungs fólks á miðlungstekjum á því að eignast húsnæði í Bretlandi hafa minnkað um meira en helming á síðustu tveimur áratugum. Þetta er niðurstaða úttektar stofnunar sem nefnist Institute for Fiscal Studies. Guardian birtir frétt um þetta í morgun.

Skýringin er sú að verð húsnæðis hefur hækkað miklu meira en laun. Fyrir fólk sem er á aldrinum 25 ára til 34 ára og er með tekjur á bilinu 22.200 til 30.600 pund á ári. hefur hlutfall þeira sem eiga húsnæði sitt fallið niður í 27 prósent úr 65 prósentum fyrir tveimur áratugum.

Aðgöngumiðinn á húsnæðismarkaðnum er semsé orðinn alltof dýr. Ungt fólk þarf að vera komið úr efnuðum fjölskyldum til að geta keypt húsnæði. Ýmsar ráðstafanir hafa samt verið gerðar til að hjálpa fólki að kaupa sína fyrstu íbúð, meðal annars voru stimpilgjöld fyrir fyrstu íbúðarkaupendur afnumin. En afleiðing þess, eins og er gjarnan, var sú að húsnæðisverð hækkaði enn.

Í Bretlandi, og ekki síst eftir tíma Margaret Thatcher, hefur verið lögð mikil áhersla á að fólk eignist sitt eigið húsnæði, ekki ósvipað og er á Íslandi. Í Þýskalandi eru viðhorfin allt önnur, þar er lítil hefð fyrir því að ungt fólk basli við að kaupa húsnæði, enda er þar mjög sterkur leigumarkaður.

En hvernig er þetta á Íslandi?

 

Fimmtudagur 15.02.2018 - 11:19 - Ummæli ()

Ef hefðu verið átta hryðjuverkaárásir á þessu ári…

Byssuárásin í Marjory Stoneman Douglas skólanum í Parkland í Florida var sú áttunda í röðinni á þessu ári. Það eru liðnir 45 dagar af árinu. Ég endurtek, sú áttunda á skóla. Börn og ungmenni í Bandaríkjunum þurfa að sæta því að fara á stöðugar æfingar þar sem er farið yfir viðbrögð við byssumönnum sem ráðast á nemendur – með það yfirleitt fyrir augunum að drepa sem flesta. Þeim er kennt hverju eigi að henda í ódæðismenn – til að reyna á síðustu stund að bjarga lífi sínu.

Ef hefðu verið átta hryðjuverkaárásir í Bandaríkjunum á þessu ári væri allt vitlaust. Stjórnkerfið væri gjörsamlega komið á hvolf. Líklega væri búið að skerða borgaraleg réttindi talsvert. Kannski væri byrjað stríð á erlendri grund. En viðbrögð bandarískra stjórnmálamanna við fjöldamorðum í skólum eru helst þau að fólk eigi að fara með bænirnar sínar.

 

 

Unglingurinn sem drap að minnsta kosti sautján samnemendur sína var vopnaður AR-15 hríðskotabyssu. Þetta er sama vopn og hefur verið notað í ýmsum skotárásum, í Sutherland Springs kirkjunni í Texas í nóvember og í Las Vegas mánuði fyrr. Í fyrrnefndu árásinni dóu 26, í þeirri síðarnefndu 58. Mikill fjöldi særðist eða örkumlaðist. Hvernig í ósköpunum getur unglingspiltur náð sér í svona vopn?

 

Frelsið til byssueignar í Bandaríkjunum finnst manni vera algjör fjarstæða. Þegar stjórnarskráin var samin voru byssurnar framhlaðningar. Nú er um að ræða vopn sem geta drepið tugi manna á örskotsstundu. Og það hlýtur að vera ömurlegt fyrir foreldra að geta ekki verið vissir um öryggi barna í skólum andspænis slíku brjálæði.

Miðvikudagur 14.02.2018 - 22:27 - Ummæli ()

Nei, þetta snýst ekki um borg á móti sveit

Það er náttúrlega gömul brella sem Ásmundur Friðriksson notaði í Kastljósinu í kvöld að stilla upp akstursmálum sínum og viðbrögðum við þeim sem einhvers konar togstreitu milli borgar- og landsbyggðar. Þegar málin eru komin í þann farveg er hægt að fara að þrasa endalaust um aukaatriði. Borg á móti sveit.

Og annað kunnuglegt bragð er að segja að maður sé lagður í einelti af fjölmiðlum.

En auðvitað snýst þetta ekki um landsbyggðarfólk annars vegar og 101-rottur hins vegar (Ásmundur hefur væntanlega ætlað að nota orðið „miðbæjarrottur“ sem er þekkt, hitt hefur ekki heyrst fyrr, hliðstæða væri að tala um „sveitavarginn“).

Heldur einfaldlega að fara að settum reglum.

„Viljum við hafa þingmenn á landsbyggðinni eða viljum við bara að allir séu 101-rottur?“ spurði Ásmundur. En staðreyndin er sú að Alþingi gerir margvíslegar ráðstafanir til að auðvelda landsbyggðarfólki að sitja á þingi, eins og lesa má í reglum um þingfararkostnað.

Svo er heldur ekkert sem bendir til þess að Íslendingar vilji ekki hafa landsbyggðarfólk á þingi. Fjarri því.  Til dæmis er atkvæðavægi þannig á Íslandi að landsbyggðin hefur meiri þingstyrk en íbúafjöldinn gefur til kynna – misvægið er allt að tvöfalt. Fátt bendir til að þetta sé að fara að breytast.

 

Miðvikudagur 14.02.2018 - 12:25 - Ummæli ()

Drottningarmaðurinn með fölsku greifanafnbótina

Nú er Hinrik prins, drottningarmaðurinn í Danmörku, horfinn á vit feðra sinna. Einu sinni vissum við Íslendingar allt um ráðahag Margrétar Þórhildar og Hinriks. Það var þegar við fylgdumst stöðugt með frægðarfólkinu í Danmörku í gegnum dönsku blöðin.

Þetta voru vikublöð eins og Hjemmet, Familje Journal og Alt for damerne. Mig minnir að þau hafi komið í búðirnar á Íslandi á þriðjudögum, líklega hafa þau verið gefin út fyrir helgina í Danmörku. Þá var sett upp tilkynning sem mátti lesa fyrir framan bóka- og blaðabúðir, það stóð einfaldlega: Nýdönsk.

Íslendingar vissu allt um Margréti prinsessu frá unga aldri, systur hennar Önnu Maríu sem giftist Konstantín konungi Grikklands – sem Grikkir hentu síðar út í  hafsauga –  og leikara og revíustjörnur eins og Helle Virkner-Kragh og Dirch Passer.

Á þessum tíma var heldur ekki mikill vandi að kenna dönsku, flestir Íslendingar kunnu talsvert í málinu eftir blaðalesturinn, börnin lásu auðvitað Andrés Önd. Nú er nánast ómögulegt að koma dönsku inn í hausinn á íslenskum ungmennum, enda hafa þau enga snertingu við tungumálið.

En aftur að Hinrik. Það einkenndi hann lengi hvað hann var vansæll með hlutskipti sitt. Honum fannst Danir ekki virða sig. Sambandið milli hans og dönsku þjóðarinnar var frekar stirt. Og undir andlátið sagðist hann ekki vilja láta grafa sig með drottningunni í dómkirkjunni í Hróarskeldu, heldur suður í Frakklandi.

Líklega byrjaði það með umræðunni sem ég man eftir þegar ég var barn. Þá var mikið um það rætt að Hinrik væri ekki alvöru aðalsmaður. Kannski þótti heldur ekki jafneftirsóknarvert þá og áður að tengjast kóngaættum í smáríkjum, ekki eins og á tímanum þegar prinsar og prinsessur af dönskum ættum voru út um allt í konungshöllum Evrópu – allt austur til Rússlands. Það var erfiðara að finna nógu fín mannsefni þegar drottningin tilvonandi var að vaxa úr grasi.

Hinrik var ágætlega menntaður maður og kúltíveraður, hafði stundað nám við Sorbonne-háskóla, talaði austurlandamál eftir veru sína í Vietnam og Hong-Kong og lærði þau reyndar líka í háskóla. Hann var mjög góður píanóleikari, orti kvæði, stundaði höggmyndalist og vínrækt. Hann hafði barist í Alsírstríðinu. Áður en hann kvæntist Danaprinsessu var hann ritari í franska sendiráðinu í London, hann hefði líklega getað orðið sendiherra. Að mörgu leyti var hann fremri dönsku fjölskyldunni sem hann giftist inn í.

En Dönum fannst lítið í hann varið. Þeir fyrirgáfu honum ekki að vera ekki af nógu fínum aðalsættum. Hann var af fjölskyldu sem kallast Laborde de Monpezat frá hinu fræga vínhéraði Gironde. Með ættarnafninu fylgdi greifanafnbót, en hún var ekki ekta, eins og mátti komast að í Almanach de Gotha sem er bókin um það hverjir eru alvöru aðall.

 

 

Þriðjudagur 13.02.2018 - 15:58 - Ummæli ()

Eyrarkarlar í gömlu Reykjavík

Þetta er stórkostleg ljósmynd úr gömlu Reykjavík. Höfundur hennar mun vera Guðni Þórðarson, sá merki blaðamaður, ljósmyndari og ferðamálafrumkvöðull. Guðni hafði einstaklega næmt auga, til dæmis hef ég mikið dálæti á myndum sem hann tók í vesturheimi og mátti sjá nokkrar þeirra í þáttunum Vesturfarar.

Þessi mynd mun vera tekin stuttu eftir 1950. Hún var sett inn á vefinn Gamlar ljósmyndir. Þarna má sjá verkamenn af því tagi sem einkenndu þennan bæjarhluta í eina tíð. Þeir eru í bláum nankinsfötum, með sixpensara á höfði, eyrarkarlar voru þeir stundum kallaðir. Á þessum tíma var öll hafnarstarfsemin niðri í bæ, hafnarverkamennnirnir settu svip á borgina – en stundum gat verið stopult um vinnuna hjá þeim.

Það er rigning, dumbungur, og báðir mennirnir, sá með hjólið og hinn, virka heldur vinnulúnir. Maður ímyndar sér að þeir séu á leið heim eftir vinnudag. Á hjólinu hangir nestistaska.

Reiðhjól eru ekki nýtt fyrirbæri í Reykjavík. Í Kiljuinnslagi um sögu Dagsbrúnar fyrir nokkrum árum sagði Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur frá því hvernig verkakarlarnir komu heim í hádeginu á hjólunum í verkamannabústaðina við Hringbraut. Þeir fengu að borða, en út um hvern glugga ómuðu fréttir Ríkisútvarpsins, svo lögðu þeir sig aðeins, og hjóluðu svo aftur í vinnuna.

Myndin er tekin í Mýrargötunni. Til hægri má sjá Hamarshúsið, þar var vélsmiðjan Hamar, en því var síðar breytt í íbúðir. Til vinstri er Café Skeifan, en þar hafði áður verið gamla hafnarvogin. Á þessum tíma og lengi síðar var þetta verkamannakaffihús, en nú er þarna Hamborgarabúllan. Og nánast hvert einasta hús sem sést á myndinni er orðið að veitingastað.

 

Þriðjudagur 13.02.2018 - 11:49 - Ummæli ()

Frelsið Ahed Tamimi!

Ahed Tamimi er stúlka frá þorpinu Nabi Saleh í Palestínu. Svæðið er hersetið af Ísraelum, landránsbyggðirnar halda áfram að þenjast út. Hún hefur verið í varðhaldi í Ísrael um nokkurra mánaða skeið, og nú verður hún dregin fyrir herdómstól (takið eftir: lokaðan herdómstól) fyrir að hafa ráðist að ísraelskum hermönnum á landi sínu. Árásirnar voru gerðar með berum hnúum og fótum, semsagt unglingsstúlka algjörlega vopnlaus gegn hermönnum í brynvörðum búningum og alvæpni.

Ísraelskir stjórnmálamenn segja að hún sé ekki ung stúlka heldur hryðjuverkamaður og eigi að vistast í fangelsi.

Þorpið er stutt frá Ramallah á Vesturbakkanum. Ætt Ahed hefur búið á svæðinu í mörg hundruð ár. Ísraelar stela gæðum landsins fyrir byggðir sínar, meðal þess sem er deilt um eru vatnslindir. Ættingjar Ahed hafa fallið fyrir kúlum Ísraela. Hún er fulltrúi enn einnar kynslóðar Palestínumanna sem elst upp við hernám og stöðugar ofsóknir með sama og enga von um að geta lifað eðlilegu lífi.

Amnesty International hefur krafist þess að Ahed verði látin laus, í áliti samtakanna segir að hún og fjölskylda hennar hafi af hugrekki andæft hernáminu. En ísraelski dómstóllinn gæti dæmt hana í margra ára fangelsisvist.

Ahed hefur orðið sterkt tákn fyrir frelsisbaráttu Palestínumanna. Það ruglar sýstemið svolítið hvernig hún lítur út. Hún gæti þess vegna verið bandarískur eða evrópskur táningur með sitt mikla ljósa hár. Þetta virkar þannig að það er ekki jafn auðvelt að framandgera hana og setja hana í hina stöðluðu mynd sem heimurinn hefur af Palestínumönnum og sem Ísraelar vilja halda að okkur. Eins dapurt og það í rauninni er.

 

 

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is