Mánudagur 24.04.2017 - 16:48 - Ummæli ()

Upplýsingar og slúður

Vinkona mín sem rekur vefrit sagði mér ágæta sögu í morgun.

Hún fékk þekktan og virtan blaðamann til að skrifa fréttaskýringu um frönsku kosningarnar. Þar var skrifað af þekkingu og innsæi. Viðtökur við greininni voru hérumbil engar, það voru engir smellir.

En svo birti hún grein þar sem var fjallað um að eiginkona forsetaframbjóðandans Macrons sé miklu eldri en hann. Viti menn, þetta fékk fjórtán þúsund smelli á stuttum tíma.

Niðurstaðan: Þorri fólks vill frekar slúður en upplýsingar. Kannski er okkur ekki viðbjargandi?

 

Mánudagur 24.04.2017 - 11:38 - Ummæli ()

Skoðanakannanir stóðust í Frakklandi – Macron sigrar að líkindum en fylgi Le Pen er ógnvekjandi

Það er ýmislegt athyglisvert við fyrri umferð frönsku forsetakosninganna sem fór fram í gær. Undanfarið hefur verið mikil umræða um að ekkert sé að marka skoðanakannanir lengur, þessi tilfinning ágerðist eftir Brexit og sigur Trumps í Bandaríkjunum (þar sem hann vann þótt hann fengi fjórum milljónum færri atkvæði en andstæðingurinn, Clinton fékk tveimur prósentustigum meira en hann).

En frönsku kosningarnar staðfesta engan veginn þessa þróun. Skoðanakannanir stóðust nánast upp á punkt. Eins og sjá má á þessari vefsíðu er eiginlega makalaust hvað þær eru nákvæmar.

Og ef marka má skoðanakannanirnar vinnur Emmanuel Macron næsta auðveldan sigur á Marine Le Pen í seinni umferðinni. Munurinn er yfirleitt á bilinu frá 60-65 fyrir Macron, 35-39 fyrir Le Pen. Það er harla ólíklegt að verði stórar breytingar þarna á. En hins vegar er sannkallað áhyggjuefni fyrir Frakka og Evrópu að öfgaflokkur hjóti svo mikið fylgi líkt og raunin er með Le Pen og Þjóðfylkinguna.

Það hefur einu sinni áður gerst að fulltrúi Þjóðfylkingarinnar komist í seinni umferð forsetakosninganna, þetta var 2002. Þá var á ferðinni Jean Marie Le Pen, faðir Marine. Hann mætti hægrimanninum Jacques Chirac sem þá var heldur óvinsæll forseti. Þá reis mikil hreyfing til að tryggja kjör Chiracs, meira að segja vinstrið greiddi honum atkvæði í stórum stíl. Chirac fékk 82 prósent en Le Pen aðeins 18. Fylgi dótturinnar verður miklu meira að þessu sinni.

Það hefur reyndar lengi verið sterkur öfgaþráður í frönskum stjórnmálum. Nú er það Þjóðfylkingin sem er helsta birtingarmynd þessa, en frambjóðandinn sem er yst til vinstri Jean Luc Mélenchon fékk næstum tuttugu prósent í kosningunum í gær. Á það má minna að svo seint sem 1978 fékk hinn stalíníski kommúnistaflokkur Frakklands 20 prósent í kosningum. Bæði menntamenn og verkamenn aðhylltust hann – það er reyndar sérkennilegt að talsvert af fylgi gömlu kommanna færðist yfir til Þjóðfylkingarinnar með tíð og tíma. Milli ysta hægrisins og ysta vinstrisins eru kannski ekki gagnvegir en örugglega nokkuð greiðfærar bakdyr.

Annað sem er merkilegt er hrun flokkanna sem hafa haft yfirburði í frönskum stjórnmálum. Sósíalistaflokkurinn er í tætlum eftir valdatíð Hollandes. Forsetaferill hans hefur verið meira og minna raunasaga, áður fyrr báru franskir fjölmiðlar mikla virðingu fyrir forsetanum, umgengust hann eins og hann væri upphafin persóna, en í valdatíð Hollandes hefur það sannarlega breyst. Frá fyrsta degi var hann dreginn sundur og saman í háði.

Francois Fillon var frambjóðandi hreyfingar lýðveldissinna – hún byggir á arfleifð De Gaulles forseta. Það var hann sem skóp fimmta lýðveldið franska, þetta er í grunnin stjórnarskrá sem tryggir forsetanum mikil völd. Margir hafa talað um að nauðsyn sé að breyta þessari stjórnarskrá sem var samin utan um þennan sterka leiðtoga sem De Gaulle var. Fillon lenti í hneykslismálum – annars hefði hann hugsanlega verið á leiðinni í forsetastólinn.

En á sama tíma og kosið er um forseta Frakklands er líka kosið til þings. Og þar vandast málið aðeins. Macron hefur ekki á bak við sig stjórnmálaafl sem á eftir að ná tökum í þinginu. Þar verður hann háður atbeina annarra stjórnmálaflokka. Það getur gert honum erfiðara fyrir að stjórna.

Árni Snævarr sem þekkir afar vel til franskra stjórnmála skrifar:

Macron-Le Pen í seinni umferð eftir tvær vikur – ekki óvænt út af fyrir sig. En það verða líka þingkosningar. Forseti sem hefur þingmeirihluta að baki sér í Frakklandi hefur gríðarleg völd, en hafi hann þingið á móti sér er það allt annað mál. Francois Hollande lætur nú af völdum. Fyrir fimm árum lofaði hann öllum öllu og stóð nánast ekki við neitt. Þrír frambjóðendur sem höfðu setið í ríkisstjórn hans; Macron, Mélenchon og Hamon, fengu hins vegar samanlagt um það bil helming atkvæða. Hamon og Mélenchon hafa svipaðar skoðanir og það er freistandi að segja að vinstrihreyfingin hefði fengið 26% og komið frambjóðanda í seinni umferð, ef hún hefði fylkt sér að baki einum frambjóðanda. Þetta er þó einföldun því margt af Melenchon-liðinu er sannarlega „loony left“, og skilar frekar auðu en að sætta sig við málamiðlanir. Ekki víst heldur að fylgimenn Hamon hefðu kosið Mélenchon. Hægrimenn eru í sárum og Fillon sætir mikilli gagnrýni, ekki bara fyrir spillingu, heldur einnig fyrir örvæntingarfullar tilraunir til að toga Lýðveldissinna-flokkinn til hægri á síðustu metrunum.

 

Mánudagur 24.04.2017 - 00:12 - Ummæli ()

Merkileg fiskvinnsluhús hverfa

Ég var í Vestmannaeyjum um helgina. Talaði þar á fundi í Safnahúsinu sem var haldinn á vegum félagsskapar sem nefnist Eyjahjartað. Þarna voru aðkomumenn sem hafa tengsl við Eyjar og rifjuðu upp minningar, flestir unnum við þar á einhverjum tímapunkti í fiski. Það var fjölmenni og þetta var hinn besti fundur. Guðmundur Andri sagði frá tíma sínum í Ísfélaginu, Ómar Valdimarsson talaði um ættingja sína í Eyjum, Bubbi hefur frá mörgu að segja varðandi Eyjatengsl sín – þar varð sjálft gúanórokkið til – og ég talaði meðal annars um fólk sem ég kynntist þarna fyrir mörgum áratugum, sérstaklega fólkið sem bjó í Suðurgarði.

 

 

Allt er í heiminum hverfult. Ég sé að það er verið að rífa hús Ísfélagsins og Fiskiðjuna þar sem ég vann. Ég heyrði á nokkrum Eyjamönnum að þeir voru aðeins með í maganum yfir þessu, bæði húsin hafa verið mjög áberandi við höfnina og jafnvel nokkurs konar tákn í bæjarmyndinni.

En þeir sögðu mér líka að húsin væru meira og minna ónýt, sérstaklega efri hæðirnar, þau hefðu kannski ekki verið sérlega vel byggð og steypan sem var notuð í þau léleg og það myndi vera kostnaðarsamt og máski tilgangslítið að gera við þau.

Hér eru myndir af Ísfélaginu og Fiskiðjunni eins og húsin litu út í björtu og köldu veðri í dag.

 

 

Föstudagur 21.04.2017 - 20:23 - Ummæli ()

Blómaskeið Ummarans

Lúgusjoppan við Umferðarmiðstöðina hefur lokað í hinsta sinn. Hún heyrir til fortíðinni. Kannski var tími hennar löngu liðinn? Nú eru opnar búðir alla nóttina um allan bæ. En einu sinni var Umferðarmiðstöðin einn um hituna. Þangað streymdi fólk eftir lokun skemmtistaða. Út um lúguna voru seldar samlokur með hangikjötssalati, bland, sígarettur – og sviðin sem urðu tákn þessa staðar.

Planið fyrir framan Umferðarmiðstöðina var mjög líflegt þegar leið á nóttina. Þangað kom fullt fólk slangrandi innan úr bæ, aðrir komu í leigubílum, þarna voru holur og pollar, það verður seint sagt að næturlífið í kringum BSÍ hafi verið sérlega fágað.

Við fjölluðum um Umferðarmiðstöðina og bókmenntirnar í síðustu Kilju. Þar koma við sögu höfundar eins og Einar Kárason, Böðvar Guðmundsson, Bragi Ólafsson og Sigfús Bjartmarsson sem orti þetta kvæði um Ummarann, eins og hann kallaði hann. Þetta er mjög sannferðug lýsing á staðnum eins og hann var í kringum 1980, á blómaskeiði sínu.

Leigubílarnir aka
fólkið tínist burt
yfir ruslið og slabbið
fáeinir krakkar úr stuði
og þreyttir menn og feitar konur
af eldri sortinni
andlitin eins og klæðnaðurinn
svolítið hjárænulegt í morgunbirtunni
og ummarinn er að loka

Hér er svo innslagið úr Kiljunni.

 

.

Föstudagur 21.04.2017 - 11:10 - Ummæli ()

Frönsku forsetakosningarnar og hryðjuverkin

Það er draumur íslamskra fasista að til valda komist Evrópulöndum stjórnmálamenn eins og Marine Le Pen. Það eru einmitt viðbrögðin sem þeir vonast eftir. Og það hefur löngum verið vitað að einn helsti möguleiki Le Pen til að sigra í forsetakosningunum í Frakklandi er fólginn í því að íslamistar nái að vinna nógu stórt ódæði dagana fyrir kosningarnar.

Í gær var lögreglumaður skotinn til bana við Champs Elysées. Þetta er strax orðið vatn á myllu Le Pen. Horfurnar fyrir fyrri umferð kosninganna á sunnudag eru tvísýnar. Le Pen virðist örugg að komast í seinni umferðina – og það er möguleiki að þangað fari líka vinstrimaðurinn Mélanchon. Það væru þá ysta hægrið og ysta vinstrið sem tækjust á í kosningunum. Enn er þó líklegast að það verði miðjumaðurinn Emmanuel Macron sem keppir við Le Pen í seinni umferðinni. Hann leiðir í flestöllum skoðanakönnunum, en varla er nema sjónarmunur á honum og Le Pen.

Það er athyglisvert að ekkert þeirra þriggja kemur úr hinum hefðbundnu fylkingum sem hafa átt forsetann í Frakklandi allan tíma fimmta lýðveldisins, eða frá 1958. Repúblikanahreyfingin sem byggir á arfleifð De Gaulles býður fram Francois Fillon, en hann er mjög veiklaður vegna spillingarmála. Sósíalistaflokkurinn, sem er í algjörri rúst eftir valdatíð Francoise Holland, býður fram Benoit Hamon. Fillon hefur aðeins náð að rétta hlut sinn í skoðanakönnunum, er með í kringum 20 prósent, en Hamon er ekki með nema 7-8 prósent.

En eins og áður segir var viðbúið að íslamistar reyndu að fremja hryðjuverk í aðdraganda kosningana. Þau gætu orðið fleiri. Viðbúnaður lögreglunnar er mikill en það tókst ekki að koma í veg fyrir ódæðið í gær. Nú er það yfirgnæfandi í allri kosningaumfjölluninni.

Það er gott að hafa í huga þessi orð ísraelskra sagnfræðingsins Yuval Noah Harari, þau birtust í fréttaskýringaþættinum Newsnight á BBC. Bækur Hararis Sapiens og Homo Deus hafa náð metsölu víða um heim, langt út fyrir samfélag fræðanna. Þetta er einstaklega höfundur sem sér hluti í stóru samhengi.  Þeir sem ala á ótta eru hættulegri en hryðjuverkamennirnir og sagan sýnir okkur að viðbrögðin við hryðjuverkum eru háskalegri en ódæðin sjálf.

 

Föstudagur 21.04.2017 - 08:24 - Ummæli ()

Fjólublár þríhyrningur

Það eru sjálfsagt ekki margir tilbúnir að taka upp hanskann fyrir Votta Jehóva. Þetta er umdeildur söfnuður.

Nú hefur hann verið bannaður í Rússlandi og tilkynnt að eigur söfnuðarins verði gerðar upptækar. Hermt er að 170 þúsund Vottar séu í Rússlandi.

En á það má minna að önnur ríkisstjórn bannaði Votta Jehóva og ofsótti þá grimmilega.

Það voru nasistar í Þýskalandi. Vottarnir voru merktir sérstaklega með fjólubláum þríhyrningi, eins og þessum hér.

 

Fimmtudagur 20.04.2017 - 10:11 - Ummæli ()

Gleðilegt sumar!

Sumardagurinn fyrsti lifir í minningunni sem kaldur en oft bjartur dagur. Eitt sinn norpaði ég með skátum í sem gengu fylktu liði af Skólavörðuholti á þessum degi. Maður man eftir stelpum í sportsokkum og pilsum. Nú er mér sagt að skrúðgangan sem átti að vera vestur í bæ hafi verið felld niður vegna veðurs. Það er heldur aumt. Ég heyrði í heimilisföður í Vesturbænum sem var óánægður með þetta, sex ára dóttur hans langaði í skrúðgöngu.

Það var meiri viðhöfn á sumardaginn fyrsta í  gamla daga. Hátíðarhöldin fóru fram í Miðbænum nú hefur þetta verið meira fært út í félagsmiðstöðvar. Það er leiðindaveður, verður víst þannig fram yfir mánaðarmót, líklega er réttnefni að kalla þetta sumardaginn frysta eins og farið er að gera. En fólk á samt betri skjólflíkur en var á árum áður. Sumir fara varla út úr húsi eins og þeir séu klæddir eins og þeir séu að fara í fjallgöngu.

Sumardaginn fyrsta ber alltaf upp á vikuna frá 19.-25. apríl. Þetta er fyrsti dagurinn í mánuðinum sem ber hið fagra nafn Harpa. Út frá því hef ég stundum velt fyrir mér hvort sé ekkert vor á Íslandi. Við köllum þetta sumardag en vorið er auðvitað rétt að byrja. Ég elska vorið eins og Stefán frá Hvítadal:

Þér sem hefur þunga borið,
þráða gleðifregn ég ber:
Bráðum kemur blessað vorið,
bráðum glaðnar yfir þér.

Æskan heillar, augu skína,
eyru fyllast glöðum klið.
Syngur vor í sálu þína,
Svanakvak og vatnanið.

Ég sé að sumardagurinn fyrsti var gerður að lögbundnum fríðdegi 1971, en þá var 40 stunda vinnuvika líka sett í lög. Björt framtíð lagði fram tillögu á þingi á síðasta kjörtímabili um að veitt yrði frí föstudaginn eftir sumardaginn fyrsta. Það þætti mörgum óneitanlega þægilegt, en aðrir telja sjálfsagt að nóg sé af frídögum á þessum árstíma.

 

Börn safnast saman í Miðbæjarskólaportinu á sumardaginn fyrsta. Þarna sést í hús sem standa við Miðstræti.

 

Auglýsing um ýmsar góðar sumargjafir frá Thomsens magasíni, hinni glæsilegu verslun sem stóð við Lækjartorg og Hafnarstræti, allt frá harmónikum, boltum og yfir í smíðatól amerísk.

 

Þetta er af vef barnavinafélagsins Sumargjafar, en það stóð löngum fyrir margvíslegri starfsemi tengdri sumardeginum fyrsta. Hátíðarhöld í bænum á árunum eftir stríð.

 

Önnur mynd af vef Sumargjafar, þarna er mikill mannfjöldi samankominn á Fríkirkjuveginn og teygir sig alla leið út á Tjarnarbrúna.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is