Föstudagur 29.7.2016 - 18:29 - Ummæli ()

Það verður kosið

Hafi einhver efast um að séu að koma kosningar á næstunni, þá þarf ekki frekari vitnanna við.

Þrír ráðherrar mæta á þennan atburð og láta mynda sig í bak og fyrir undir fánum og borðum, það er ekki bara menntamálaráðherrann sem fer með málaflokkinn, heldur líka sjálfur forsætisráðherrann og formaður annars stjórnarflokksins og fjármálaráðherrann sem er formaður hins.

En þeir mættu alveg fara að koma með dagsetninguna á kosningunum, hún hlýtur að vera væntanleg á næstunni.

 

Screen Shot 2016-07-29 at 11.28.57

 

Föstudagur 29.7.2016 - 10:42 - Ummæli ()

Heimsóknir lukkuriddara til Íslands

Bæjarstjórinn í Mosfellsbæ segir að umræðan sem hefur skapað umhverfis byggingu einkaspítala í bænum gæti hugsanlega „drepið verkefnið“. Reyndar virðist bæjarstjórinn hafa rokið til með stuttum fyrirvara og skrifað undir úthlutun byggingalóðar – af fréttum má ráða að hann hafi sjálfur fengið afar litlar upplýsingar.

Síðustu dagana hafa birst ýmis tíðindi um hina væntanlegu byggjendur spítalans. Þetta virðast vera glæframenn, lukkuriddarar – minna dálítið á náunga eins og Huang Nubo með sín stóru plön á Grímsstöðum og Otto Spork, tannlækninn sem ætlaði að setja upp vatnsverksmiðjuna á Rifi. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði hafði þó vit á því að ginnast ekki þegar Hollendingurinn Henri Middeldorp vildi fá til umráða fjórfalt magn neysluvatns Hafnfirðinga, það gerðist bara nú í vor. Það reyndist jafnlítið að marka það þegar hann vildi gera baðlón við skíðaskálann í Hveradölum. Það virkar eins og mjög lítið verkefni, kannski bara brotabrot af einkaspítala, en það voru líka órar og ekki staðið við neitt.

Menn af þessu tagi virðast geta komið hingað og fengið furðulega mikla athygli og fyrirgreiðslu – allt þangað til að verður uppvíst að engin innistæða er fyrir áformunum. Það láta ýmsir blekkjast, bæjarstjórinn í Mosfellsbæ er ekki einn um það. Sjálfur forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, varð eins konar ábekkingur fyrir Huang Nubo og talað meðal annars um „hinn ágæta Kínverja“.

Ekki verður betur séð en að þetta sé tómt rugl. Umræðan í kringum einkaspítalann hefur þó verið býsna áhugaverð. Hollendingurinn var farinn að nota mynd af sér með Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra í auglýsingaskyni. Setti hana á netið eins og til að gefa verkefninu opinberan stimpil. Myndin var tekin af öðru tilefni, en í framhaldi af því gaf Kristján út þá yfirlýsingu að ekki mætti mismuna eftir efnahag í heilbrigðiskerfinu – menn mættu kalla sig „sósíalista“ fyrir þær skoðanir sínar.

Kári Stefánsson steig einnig fram á völlinn, var afar neikvæður í garð þessara hugmynda, og fékk á sig gusu frá ungum frjálshyggjumanni, Alexander Frey Einarssyni,  á vefsvæði sem nefnist Rómur. Kári tók hraustlega á móti, bæði hvað varðar áhrif á heilbrigðiskerfið og hugsanlega stéttaskiptingu í heilbrigðisþjónustunni. Um fyrra atriðið segir Kári:

Ég held því fram, andstætt Alexander, að þær ástæður séu fyrir hendi í íslensku heilbrigðiskerfi í dag. Það er illa mannað og mér skilst til dæmis á stjórnendum Landspítalans að hann þoli ekki að missa einn einasta hjúkrunarfræðing eða sjúkraliða án þess að af því hlytist slys. Í því samhengi má ekki heldur gleyma að á Landspítalanum vinna 800 hjúkrunarfræðingar sem komast á eftirlaunaaldur innan örfárra ára. Heilbrigðiskerfið hlúir að þeim sem eru sjúkir og meiddir og ef það er svo illa mannað að það geti ekki sinnt sínu hlutverki er hætta á því að fólk þjáist og jafnvel deyi þegar hefði verið hægt að koma í veg fyrir það. Mín skoðun er sú að rétturinn til lífs og umönnunar sé svo ríkur að rétturinn til meira starfsvals eigi í þessu tilfelli að víkja fyrir honum, í það minnsta tímabundið. Þessi skoðun nýtur töluverðs fylgis meðal þeirra sem ættu meira starfsval ef útlendingaspítalinn yrði reistur. Til dæmis hefur formaður félags hjúkrunarfræðinga látið hafa eftir sér að við yrðum fyrst að manna íslenskt heilbrigðiskerfi áður en við leyfðum svona spítala fyrir útlendinga.

Og hið seinna, stéttaskiptingu í heilbrigðisþjónustu:

Alexander lítur svo á að heilbrigðisþjónusta sé eins og bílar og föt og hús og þeir sem séu ríkir eigi að geta keypt sér betri heilbrigðisþjónustu en þeir sem eru fátækir. Ég er þessu einfaldlega ósammála vegna þess að ég lít svo á að rétturinn til lífs eigi að vera sá sami hjá öllum, jafnt fátækum sem ríkum. Það má nefnilega leiða að því rök að sá sem geti keypt sér betri heilbrigðisþjónustu hafi ríkari rétt til lífs en sá sem getur það ekki. Þar af leiðandi á það ekki að vera hægt. Þetta er skoðun sem byggir á tilfinningum frekar en rökhugsun. Þessa skoðun telur Alexander einnig vera hræsni af því sé nægilega fjáður til þess að geta keypt mér betri heilbrigðisþjónustu. Ég viðurkenni fúslega að gamall sósíalisti sem vaknar dag einn sem auðugur maður býður upp á þann möguleika að það sé hæðst að honum fyrir jafnréttishugmyndir hans og eins gott fyrir hann að taka öllum bröndurunum þar að lútandi með bros á vör. Það breytir því ekki að ég sæki mína heilbrigðisþjónustu, sem hefur verið meiri en ég hefði viljað á síðustu árum, í hið laskaða heilbrigðiskerfi okkar og ég hef nýtt aðgang minn að fjármagni til þess að hlúa að því.

Sjálfur var ég aðeins að íhuga þessi mál um helgina. Þá var ég á ferðalagi um Suðurland og dvaldi dagpart á Sólheimum í Grímsnesi. Átti þar meðal annars samtöl við íbúa sem sögðu mér dálítið frá lífshlaupi sínu. Þar var til dæmis kona sem hafði komið á Sólheima tólf ára en sagðist nú vera sextíu og sex. Ég hafði orð á því hvað hún liti vel út, væri ungleg, dafnaði vel í þessu umhverfi. Hún varð glöð yfir því. Þetta var gott spjall.

Sólheimar byggja á hugsjónum um mannúð og heilnæmt umhverfi. Það er í raun ævintýri að heimilið hafi verið stofnað þarna strax 1930 – við getum rétt ímyndað okkur hvernig aðbúnaður þroskahefts fólks hefur verið á þeim tíma, bæði í borgum og sveitum. Ef það fékk einhvers staðar inni var það á „fávitahælum“ en dæmi voru um að það væri geymt í útihúsum.

Einhvern veginn gat ég varla hugsað mér meiri andstæður,  Sólheima eins og þeir birtust mér á sunnudaginn, með þessari merku sögu, og áformin um spítalann í Mosfellsbæ. Það er ágætt að komast að því að þetta er „allt í plati“. Á Sólheimum græða menn sár og græða landið, en á hinum staðnum ætla menn bara að græða – það er gróðabrask. Við lifum því miður í samfélagi þar sem peningar eru viðmið alls, þeir hafa orðið að hinum endalega mælkvarða hlutanna, og þegar er tæpt er á því að aðrir hlutir kunni að ráða gjörðum fólks og hugmyndum heyrast ásakanir um hræsni eins og hjá unga frjálshyggjumanninum.

Fimmtudagur 28.7.2016 - 19:22 - Ummæli ()

Fegursti dagurinn í Eyjum

Í gær fór ég til Vestmannaeyja. Ég hef þá kenningu að þetta sé besti dagur í Vestmannaeyjum fyrr og síðar, hef ég þó oft komið þangað og stundum dvalið lengi.

Hitinn var yfir 20 stig, það var blankalogn, sjórinn spegilsléttur, meira að segja á Stórhöfða hreyfði ekki vind, á einhverjum vindasamasta stað á norðurhveli.

Eyjarnar skörtuðu sínu fegursta og ég söng innra með mér lag Oddgeirs við texta Ása í Bæ og stundum reyndar við raust.

Hún rís úr sumarsænum
í silkimjúkum blænum
með fjöll í feldi grænum
mín fagra Heimaey.
Við lífsins fögnuð fundum
á fyrstu bernskustundum
er sólin hló á sundum
og sigldu himinfley.

Ég gekk um bæinn, fór upp á hraun, út á Skans, í Stórhöfða, í Herjólfsdal þar sem undirbúningur undir þjóðhátíð stóð sem hæst. Það vekur athygli hversu vel er hugsað um allt, allt er fjarska hreint og mannvirkjum vel við haldið.

Reyndar var gríðarmikið af ferðamönnum og fjarri því allt vegna þjóðhátíðar, tvö farþegaskip í höfn og fjölmargir litlir bátar að sigla með ferðamenn kringum eyjarnar. Þetta er mikil gróska, frá því ég kom síðast í Eyjarnar fyrir tveimur árum hafa bæst við ferðaþjónustuaðilar og veitingastaðir.

Einhvern veginn gladdist ég mikið þegar ég gekk yfir Stakkagerðistúnið og rakst á jafnöldru mína úr eyjunum, hún var að vinna í fiski á sama tíma og ég, stuttu eftir gos, hún man eftir mér og ég eftir henni. Við vorum ung þá og erum ekki jafn ung lengur, en þetta voru fagnaðarfundir.

Um kvöldið borðuðum við á því sem ég held að hljóti að teljast besti veitingastaður á Íslandi. Það er Slippurinn sem Gísli Matthías Auðunsson og fjölskylda hans reka saman í gömlu atvinnuhúsnæði þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja. Við fengum að smakka ýmislegt, steinbít, kola, humar, hrefnu, þang, krap úr hundasúrum, rababaragraut og margt fleira sem ég man ekki að nefna. Frumleg, skemmtileg en um leið á einhvern hátt blátt áfram matseld, margt sem kemur skemmtilega á óvart, gleður bæði vegna hugmyndaflugsins og tengslanna við náttúruna og staðinn, en er þó laust við sýndarmennskuna sem er svo algeng á veitingahúsum núorðið.

Í dag tilkynnti Elliði Vignisson að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér til þingsetu. Það kemur í raun ekki á óvart. Til hvers að fara í þingframboð upp á von og óvon þegar maður getur verði bæjarstjóri á svona flottum stað?

(Myndirnar eru teknar af mér og samferðafólki mínu.)

 

CoYSzO4W8AAR03i

 

CoYWup6WcAAGgYX

 

13781899_10154391606290439_4799804844870290016_n

 

CoYcEwlXYAAHTC_

 

CoZogAJWAAA93DD

 

Screen Shot 2016-07-28 at 13.55.06
13770476_274956212862007_4654498210715182257_n

 

13880265_274956199528675_6934676223405900880_n

 

Fimmtudagur 28.7.2016 - 13:20 - Ummæli ()

Varla sjálfsstæðisstefnan

Ein ástæða þess hversu Sjálfstæðisflokknum gengur illa er sú sterka tilfinning meðal landsmanna að hann gangi erinda sérhagsmunaafla fyrst og fremst. Sumir sjá í hillingum gamlan Sjálfstæðisflokk sem hafði að leiðarljósi atvinnufrelsi og frjáls viðskipti, var flokkur smáatvinnurekenda og þeirra sem vildu komast í álnir af eigin rammleik og hugviti. Þetta var það sem kallaðist sjálfstæðisstefnan – um sjálfstæða menn í frjálsu landi.

Kannski var þessi flokkur aldrei til, en hugmyndin um hann lifir meðal margra Sjálfstæðismanna – sem sumir hafa yfirgefið flokkinn eða örvænta um hann. Ummæli tveggja frammámanna í flokknum hljóta að vekja ákveðnar áhyggjur hjá þessu fólki.

Annars vegar er það Jens Garðar Helgason, en hann er formaður samtakanna sem eitt sinn hétu LÍÚ. Jens Garðar svarar þannig gagnrýni á nýliðun í sjávarútvegi – þá staðreynd að ungt og framtaksamt fólk á erfitt með að hasla sér völl þar en eignarhaldið færist sífellt á færri hendur:

Að baki þess­arra hug­mynda er sú róm­an­tíska sýn að ungir frjáls­huga menn geti farið á litlum bátum og róið til sjávar – nýliðar í sjáv­ar­út­veg­i. Þessi hug­mynda­fræði átti kannski við fyrir nokkrum árum eða ára­tugum síðan – alveg eins og orfið og ljár­inn voru eitt sinn helstu verk­færi íslenskra bænda eða konur og karlar að salta síld undir berum himni á síld­arplönum um allt land.

Hins vegar er það Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar. Ari tók upp á því að dreifa grein eftir Ögmund Jónasson þegar mestur styrrin stóð um Mjólkursamsöluna fyrir stuttu. Ari hefur verið formaður formaður atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins. Ari sagði að þetta væri einhver besta grein sem hann hefði lesið lengi.

Lykilorð í grein Ögmundar var „frelsiskreddukjaftæði“, semsagt að þeir sem vildu auka frelsi í viðskiptum með búvörur væru haldnir vitlausum og vondum kreddum.

Fimmtudagur 28.7.2016 - 09:11 - Ummæli ()

Vopnin streyma frá Evrópu til Sýrlands – en fólkið fer í öfuga átt

Hér er hræsnin í heiminum með stóru H-i. Á meðan átökin í Sýrlandi eru að valda miklum usla og ójafnvægi í Evrópu, flóttamenn streyma þangað, neyð þeirra er hræðileg, en óvild og hatur innfæddra magnast gegn þeim – já, á sama tíma er í gangi stórfelld sala á vopnum til stríðsaðila.

Guardian greinir frá vinnu rannsóknarblaðamanna sem rekja slóð vopnasölu í gegnum ríki í Austur-Evrópu og á Balkanskaga, Tékkland, Króatíu, Serbíu, Rúmeníu, Bosníu, Montenegro, Búlgaríu og Slóvakíu. Mörg þessara ríkja eru í Evrópusambandinu. Það er greint frá því að upphæðirnar sem um er að tefla nemi meira en milljarði breskra punda, það eru hátt í tvö hundruð milljarðar íslenskra króna. Þetta eru árásarriflar, vélbyssur, sprengivörpur og fleira slíkt.

Vopnin streyma í til Miðausturlanda en fólkið streymir þaðan. Sjúkt ástand.

 

1072704625

Þriðjudagur 26.7.2016 - 09:16 - Ummæli ()

Hinn stórhættulegi Repúblikanaflokkur – njósnarar Pútíns og vandræði Demókrata

Þetta er sumarið þegar sá ótti magnast upp hjá manni að mannkynið standi á hættulegum tímamótum. Þjóðfélagsrýnirinn Noam Chomsky segir í viðtali við Amy Goodman á sjónvarpsstöðinni Democracy Now (þau voru bæði gestir í Silfrinu hjá mér á sínum tíma!) að Repúblikanaflokkurinn eins og hann er í dag geti talist vera hættulegustu samtök í sögu mannkynsins. Bókstaflega, segir Chomsky.

Tökum bara afstöðu þeirra til tveggja stórmála sem blasa við okkur í dag: Loftslagsbreytinga, kjarnorkustríðs. Varðandi loftslagsbreytingarnar þarf ekki einu sinni að ræða það. Þeir segja: „Æðum alla leið út að brúninni. Tryggjum að barnabörnin okkar eigi vont líf.“ Varðandi kjarnorkuvopn þá heimta þeir aukna hervæðingu. Hún er þegar alltof mikil, meiri en efni eru til. „Skjótum þessu upp úr öllu valdi,“ segja þeir. Annað munu þeir skera niður meðfram því að þeir lækka skatta á ríkt fólk, svo það verður ekkert eftir. Ef maður hugsar um það, þá hefur annað eins ekki ógnað mannkyninu fyrr og síðar. Við ættum að horfast í augu við það.

Þetta eru stór orð. Varnaðarorð frá einum helsta stjórnmálaspekingi samtímans. Ekki að hann hrósi Demókrataflokknum sem hann segir að sé um þar sem hófsamir Repúblikanar voru áður.

Á sama tíma gerist það að Demókratar eru í miklum vandræðum vegna tölvupósta sem hafa lekið út af skrifstofum flokksins. Þar eru komin upp sú skrítna staða að Rússar virðast hafa brotist inn í tölvukerfi Demókrataflokksins. Píratinn Smári McCarthy deilir þessari grein af vefnum Motherboard og segist telja niðurstöður hennar mjög sennilegar. Þar er talað um tvo aðila í Rússlandi sem hafi verið að reyna að komast inn í tölvurnar, bæði gamla KGB, sem nú heitir FSB, og GRU, sem er leyniþjónusta hersins. Njósnarar Pútíns stela semsagt upplýsingum frá Demókrötum til þess að hjálpa Donald Trump. Vísbendingarnar um aðkomu Rússa eru sagðar mjög sterkar, þótt reynt sé að láta líta út á nokkuð klaufalegan hátt að hakkari á eigin vegum hafi verið að verki.

Það hefur ekki farið dult að Pútín er hrifinn af Donald Trump og vill að hann verði forseti. En gögnunum er síðar komið til WikiLeaks og Julians Assange sem hefur ekki farið dult með óbeit sína á Hillary Clinton. Milli Assange og Pútínsstjórnarinnar eru þræðir og Assange var um tíma með þátt á rússnesku áróðursstöðinni Russia Today. Gögnin eru birt beint ofan í flokksþing Demókratanna.

Thomas Rid, höfundur greinarinnar, er prófessor í öryggisfræðum við King’s College í London. Hann segir að með þessu sé farið yfir stóra rauða línu og sett afar hættulegt fordæmi.

Bernie Sanders lýsir yfir stuðningi við Hillary Clinton, en stuðningsmenn hans púa á hann. Stjarna Demókrataþingsins til þessa hefur í raun verið forsetafrúin, Michelle Obama, sem hélt þessa glæsilegu ræðu í gær. Það er líka hægt að tala um stjórnmál þannig að maður skynji von og uppörvun.

 

 

Mánudagur 25.7.2016 - 17:06 - Ummæli ()

Friðsemdartímanum að ljúka?

Það hefur verið óvenjulega friðsamlegt í íslenskum stjórnmálum upp á síðkastið – eiginlega alveg síðan stormurinn vegna Panamaskjalanna gekk yfir. Forsetakosningarnar fóru mjög friðsamlega fram, mætti jafnvel segja að þær hafi verið dauflegar. Því sem af er sumrinu hafa Íslendingar eytt í að fylgjast með fótbolta, þrasa smá um ferðamenn, og svo hafa borist tilkynningar frá stjórnmálamönnum um að þeir séu að hætta.

Yfirleitt er þeim tilkynningum tekið með nokkru jafnaðargeði. Það koma sjálfsagt einhverjir og fylla í skörðin. Enginn er ómissandi.

Skoðanakannanir sem hafa birst um fylgi flokka benda til dálítið sérstakrar stöðu. Það gæti orðið erfitt að mynda ríkisstjórn vegna þess hversu fylgið dreifist víða. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem MMR birtir eru engin afgerandi stjórnarmynstur í kortunum, hvorki til hægri né vinstri. Eina tveggja flokka stjórnin sem er möguleg er ef Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn tækju upp samstarf.

Fylgið getur auðvitað farið á talsverða hreyfingu frá þessum niðurstöðum, en þarna er ríkisstjórnin kolfallin og það myndi ekki einu sinni duga henni þótt Viðreisn kæmi inn sem þriðji flokkur í stjórn.

Á stjórnarandstöðuvængnum er sundrungin ekki minni. Píratar eru stærsti flokkurinn, en fylgi þeirra, VG og Samfylkingar nægir varla til að mynda stjórn. Það yrði að koma til fjórði flokkurinn. Viðreisn, nú eða þá Framsókn.

Nú tilkynnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson endurkomu sína í stjórnmálin. Hann ætlar þá að leiða Framsóknarflokkinn í kosningunum – sem verða í haust þótt hann sé mótfallinn því. Allt bendir til þess að framsóknarmenn muni leyfa honum það. Flokkurinn kemst ekki mikið neðar í skoðanakönnunum. Það er alltaf ógurlegur titringur í kringum Sigmund. Hann mætir aftur með herópið „Íslandi allt“!  Framsókn undir forystu hans er ekki líkleg til að vinna með vinstri flokkunum. Og stjórnmálin verða varla jafn friðsamleg með hann inni á vellinum.

Screen Shot 2016-07-25 at 16.43.45

Niðurstöður  nýrrar skoðanakönnunar MMR.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is