Fimmtudagur 23.02.2017 - 13:11 - Ummæli ()

650 þúsund fermetrinn

Menn skeggræða hvort sé fasteignabóla á Íslandi. Tölur tala sínu máli.

Hér er til sölu raðhús í Fossvogi, byggt 1971, það er 184 fermetar, þar með talinn innbyggður bílskúr.

Verðmiðinn á húsinu er 120 milljónir króna (fasteignamat 61 milljónir).

Gott hús, sýnist manni, og allt það, í góðu hverfi. En þetta gera um 650 þúsund krónur á fermeta.

Fasteignabóla?

 

Miðvikudagur 22.02.2017 - 21:19 - Ummæli ()

Andstaða við áfengisfrumvarp úr höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins

Það hefur verið sagt að Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi geti sett kartöflupoka í framboð en samt unnið kosningar þar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf stjórnað á Nesinu – og mun sennilega alltaf stjórna á Nesinu. Fátt getur hnikað því.

En það vekur athygli þegar sjálf bæjarstjórnin á Seltjarnarnesi ályktar gegn áfengisfrumvarpi sem lagt er fram meðal annars af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, nýtur mikils stuðnings meðal Sjálfstæðismanna – það hefur reyndar verið samþykkt á landsfundum Sjálfstæðisflokksins að áfengi skuli selt í almennum verslunum.

Nú kemur þessi harða andstaða úr einu höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins. Það er vísað til þess að meirihluti þjóðarinnar sé á móti frumvarpinu, læknar og heilbrigðisstarfsfólk vari við því og að aukið aðgengi að áfengi leiði til meiri neyslu, börn og ungmenni séu þar í hættu. Einnig segir að neysla vímuefna meðal barna og ungs fólks sé mjög lítil á Seltjarnarnesi.

Við eigum að láta hagsmuni og velferð barna og ungmenna njóta forgangs í allri stefnumörkun. Aukið aðgengi að áfengi og áróður í formi áfengisauglýsinga gengur gegn því sjónarmiði.

Þeir hafa sitt Ríki á Seltjarnarnesi sem er talsvert sótt af Vesturbæingum líka, og finnst það greinilega nóg.  Margir töldu að á nýju þingi þar sem eru margir nýir þingmenn, sumir ungir að árum, myndi áfengisfrumvarpið eiga greiða leið í gegn. En reyndin virðist ætla að verða önnur – mótstaðan er mikil og þarna úr nokkuð óvæntri átt.

 

 

Miðvikudagur 22.02.2017 - 09:14 - Ummæli ()

Bókmenntalegar götur í bænum

Strax og menn tóku að nefna götur í Reykjavík með skipulögðum hætti leituðu þeir fanga í bókmenntum þjóðarinnar. Við erum jú bókaþjóð. Grettisgata og Njálsgata fá nöfn um aldamótin 1900. Á því svæði urðu til fleiri götur með nöfnum fornsagnapersóna.

Stuttu seinna fer að byggjast svonefnt Goðahverfi í suður- og vesturhlíðum Skólavörðuholts. Þar er elst Óðinsgatan frá 1906, en svo koma Þórsgata, Lokastígur, Freyjugata og fleiri götur. Þetta mun stundum hafa verið kallað Heiðna hverfið.

Við Háskólann, í svonefndu Prófessorahverfi, urðu til Aragata og Sæmundargata. Hluti Hringbrautar breyttist í Snorrabraut, en handan hennar byggðist Norðurmýrin með götuheitum úr Njálu, Laxdælu og landnámi Ingólfs.

Það er hægt að fara enn lengra, upp í Grafarvog, þar sem er að finna mjög skáldleg götuheiti, komin úr kvæðum Bjarna Thorarensen, og alla leið upp í Mosfellsbæ þar sem nú er að rísa hverfi með götuheitum sem eru komin úr verkum Halldórs Laxness. Þarna eru meðal annars Ástu Sólliljugata og Vefarastræti.

Um þetta fjöllum við í Kiljunni í kvöld. Myndin er frá Njálsgötu.

 

Þriðjudagur 21.02.2017 - 14:19 - Ummæli ()

Svíagrýlan númer tvö

Þegar ég var yngri var mikið talað um Svíagrýluna. Meiningin var að Svíþjóð væri í rauninni eins konar laumu kommúnista- og alræðisríki. Þetta rímaði reyndar ekki alveg við raunveruleikann, sænska velferðarkerfið var vissulega nokkuð alltumlykjandi en einkaframtakið blómstraði líka í Svíþjóð í líki kapítalískra fyrirtækja sem mörg störfuðu líka á alþjóðavettvangi og náðu miklum árangri.

Á þessum árum var líka mikið rætt um „sænsku mafíuna“. Þetta var fólk sem hafði dvalið í Svíþjóð, starfað þar eða stundað nám, og var grunað um að vilja dreifa sænskum áhrifum um landið og sérstaklega í menningarlífinu. Sænska mafían var semsagt eins konar fimmta herdeild í valdasókn rauðliðanna í Svíþjóð.

Nú er Svíagrýlan aftur komin á kreik. Nú í líki kenningar um að í Svíþjóð sé allt í kalda koli vegna innflytjenda, aðallega múslima. Jú, einhver vandamál eru þar á ferðinni, en þetta rímar ekki sérlega vel við veruleikann sem er sá að Svíþjóð ríkir ótrúleg velmegun, hagkerfið þar er í mjög góðu ástandi, nýsköpun er þar mikil og byggir mjög á virkjun hugvits, ójöfnuður er minni en víðast  hvar í heiminum.

Í nokkuð einkennilegum umræðum sem finna mátti um Svíþjóð á netinu í gær setti ég inn þessa athugasemd:

Fólk í landi eins og Svíþjóð býr við betri kjör en nokkuð fólk nokkurn tíma í mannkynssögunni. Það hefur ekki bara nóg að bíta og brenna, heldur hefur það mikinn frítíma, vinnan er ekki sérlega erfið eða slítandi, vinnutími hefur verið að styttast, það hefur nægan tíma fyrir afreyingu, það getur ferðast til útlanda að vild, það hefur málfrelsi og athafnafrelsi, það lifir lengra og heilbrigðara lífi en hefur nokkurn tíma þekkst. Kannski verður það bráðum hundrað ára? Ofbeldi ógnar því ekki, því það lifir í fjarskalega öruggu umhverfi. Allar lífskjaravísitölur eru eins hagstæðar og nokkurn tíma hefur þekkst. En svo er eitthvað óþol, frumstætt liggur manni við að segja, sem brýst fram í tortryggni og hatri eins og við erum að upplifa og þá mega staðreyndir sín lítils. En við vitum aldrei, máski á mannkynið aldrei eftir að upplifa jafn vel megandi og farsæl samfélög og Norðurlöndin eru? Það er alls ekki víst að þetta vari að eilífu. Kannski er þetta „as good as it gets“?

 

 

Þriðjudagur 21.02.2017 - 09:46 - Ummæli ()

Sjávarútvegurinn ekki lengur aðal?

Þröstur Ólafsson hagfræðingur birtir athyglisvert sjónarhorn um lok sjómannaverkfallsins. Hann segir að ríkisstjórnin hafi staðið sig vel í málinu og ekki látið stilla sér upp við vegg

Niðurstaða sjómannadeilunnar er merkileg fyrir ýmsar sakir. Ég hef ekki séð eða kynnt mér samninginn sjálfan, enda er það aukaatriði í því samhengi sem ég ætla að ræða. Tíu vikna kjaradeila er langt reiptog. Þótt deiluaðilar væru orðnir sáttir með samninginn, þá var þó reynt að sýna styrk og knýja ríkisvaldið til hlýðni, sýna hver réði. Það var ekki í fyrsta skiptið sem deiluaðilar ýttu svarta Pétri til ríkisins. Þar skyldi knúið á um sérlausn fyrir „illa launaða sjómenn“sem kröfðust vildarlausar fyrir sig eina. Það verður að segja að Þorgerður Katrín og reyndar ríkisstjórnin hélt vel á þessu máli. Hún lét aldrei stilla sér upp við vegg; hlustaði ekki á ábyrgðarlausa frekjuhunda úr Vestmannaeyjum.

Þröstur skrifar líka um áhrif verkfallsins á þjóðarbúið og þykir þau vera til marks um að mikilvægi sjávarútvegsins í íslensku hagkerfi hafi minnkað, það sé komið á meira jafnvægi milli atvinnugreina.

Stóru tíðindin við uppgjör deilunnar eru þau að verkfall sjómanna gat staðið í 10 vikur án þess að hafa áberandi áhrif á efnahagslíf landsmanna. Fiskútflutningur lagðist að mestu leyti af. Enginn gjaldeyrir kom frá sjávarútveginum í 10 vikur. Fyrir ca. 20 árum síðan hefði þetta sett (gjaldeyris)viðskipti landsmanna í miklar kröggur. Háværar kröfur um þörf á lagasetningu hefðu dunið á ráðamönnum. Ekki núna. Enginn bað um neitt (nema tveir kröfuhanar), ekkert fór úr skorðum, nema störf fiskvinnslufólks, sem, því miður, lögðust af á meðan. Nægur gjaldeyrir var til staðar því ferðaiðnaðurinn fyllti gjaldeyrishirslur bankakerfisins nægiilega ríflega.Verkfallið sýndi svart á hvítu að ofurmikilvægi sjávarútvegsins í efnahagslífi Íslendinga er liðinn tíð. Kverkatakinu er lokið. Jafnvægi hefur skapast á milli atvinnuvega. Það eru góð tíðindi.

Það verður samt að slá varnagla við þetta. 2007 var líka sagt að sjávarútvegurinn væri hættur að vera aðalatvinnugrein landsmanna. Á þeim tíma birtust fréttir um slæma stöðu fiskistofna og sókn í þá var minnkuð. Þetta hefði að öllu jöfnu valdið samdrætti, en þá var uppgangurinn í viðskiptalífinu slíkur að ekki sást högg á vatni, hlutabréfavísitölur héldu áfram að hækka. Þetta þóttu talsverð tíðindi og einmitt sagt að sjávarútvegurinn væri ekki jafn mikilvægur og áður.

En svo hrundi bankakerfið og sjávarútvegurinn varð aftur aðal. Ítök útgerðarinnar eftir hrunið voru geysilega sterk. En það er rétt hjá Þresti að eins og stendur er túrisminn miklu stærri en hann.

Mánudagur 20.02.2017 - 18:16 - Ummæli ()

Fleiri morð á staðnum þar sem Trump talaði en í allri Svíþjóð

Ætli megi ekki segja að Carl Bildt, fyrrverandi forsætis og -utanríkisráðherra Svíþjóðar, komist að kjarna málsins varðandi ummæli Donalds Trump um Svíþjóð? Í Bandaríkjunum er miklu meira ofbeldi en nokkurn tíma í Evrópu og ofbeldið kemur innan. Það berst ekki yfir nein landamæri.

En í öllu því sjónarpspili sem er bandarísk pólitík er ekkert gert til að ráða bót á því. Hræsnin ræður ferð.

 

Mánudagur 20.02.2017 - 10:34 - Ummæli ()

Undarlegar framkvæmdir – og aðeins meira um lundakofa

Einar Benediktsson hefur verið maður einstaklega forvitri. Hann sá fyrir að Íslendingar myndu selja norðurljós og ef til vill líka lundabúðir í Miðbænum.

Í grein sem ég skrifaði um helgina sagði ég að Páll Líndal skrifaði um það í verki sínu Reykjavík, sögustaður við Sund, að Einar færi háðulegum orðum um byggð við Laugaveginn og talaði um „lundakofa“. Ég fann ekki þessa tilvitnun, en nú er hún komin í leitirnar, gleggri maður en ég fann hana, hún er í blaði Einars, Dagskrá, 24. apríl 1898, undirrituð einfaldlega „Reykjavíkurbúi“.

 

 

Annars vakti greinin um Einar talsverð viðbrögð. Maður hafði samband við mig sem sagði að afi hans hefði verið svikinn um laun þegar hann starfaði sem blaðamaður á Dagskrá hjá Einari, ekki laust við að örlaði fyrir beiskju. En afinn hafði sagt að menn gætu kennt sjálfum sér um ef þeir létu Einar svindla á sér.

 

 

 

En hér er svo ljósmynd af byggingunum á Laugavegi 4-6 sem talað er um í fyrri greininni. Þarna keypti borgarstjórnin í Reykjavík tvö illa farin timburhús. Þau voru svo gerð myndarlega upp. Allt kostaði það mikið fé. Húsin voru svo seld aftur fyrir miklu lægri upphæð en samanlagt kaupverðið og viðgerðakostnaðinn, en með fylgdi ógurlegur byggingaréttur.

Þarna er búið að byggja stórt mannvirki, en gömlu húsin eru felld inn í það, en að auki bætist við kjallari sem var boraður niður í gegnum klöppina, heila sjö metra og var vart líft í nágrannahúsum langan tíma meðan á framkvæmdinni stóð. Framkvæmdaaðilar náðu meira að segja að bora sig inn í næstu hús. Miðað við þróunina í bænum er líklegt að þarna verði vegleg lundabúð.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is