Fimmtudagur 24.4.2014 - 10:49 - Ummæli ()

Hvers vegna hætti Guðni við? Hvað gerir Framsókn?

Frétt Eyjunnar frá því í gærkvöld, þess efnis að Guðni Ágústsson væri hættur við að fara fram í Reykjavík, kom eins og sprengja.

Lesendur voru forviða – og þeir eru það enn. Það hefur ekki komið fram nein almennileg skýring á því hvað gerðist.

Það var búið að boða til kjördæmisfundar sem átti að fara fram í dag og svo var áformaður blaðamannafundur á sjálfum Reykjavíkurflugvelli.

Þetta virtist allt klappað og klárt. En hvað gerðist? Hvers vegna skeði þetta svo snögglega?

Framboð Guðna hefur verið aðalfréttin síðustu vikuna – og aðalumræðuefnið á Facebook.

Reyndar verður að segjast eins og er að margir fóru algjörlega fram úr sér – sjaldan hefur maður séð jafn illa talað um mann á þessum umræðuvettvangi og Guðna síðustu vikuna.

Óhroðinn var eiginlega með eindæmum.

En Framsóknarflokkurinn er í alvarlegum vandræðum. Það er ekki gott að geta ekki mannað framboðslista í sjálfri höfuðborg landsins – og einungis 35 dagar til kosninga.

Guðni gat verið leiðin til að bjarga flokknum – sem er sá næst stærsti á landsvísu – frá afhroði í borginni. Nú er vandséð hvaða ráða flokkurinn getur gripið til. Það getur ekki verið auðvelt fá fólk til að ganga til liðs við framboð sem hefur sama og ekkert fylgi og enga málefnastöðu – og þá allra síst eftir þessa furðulegu atburðarás.

gudni-1

Guðni var ataður auri á Facebook, en ekki veit maður hvort það olli því að hann hætti við.

Miðvikudagur 23.4.2014 - 22:03 - Ummæli ()

Miklar vinsældir Katrínar – en tortryggni í garð Sigmundar, Bjarna og Árna Páls

Könnun MMR á áliti almennings á persónuleika stjórnmálamanna gefur ýmsa möguleika á vangaveltum.

Í fyrsta lagi er það staða Katrínar Jakobsdóttur. Hún algjörlega rústar samkeppninni. Hún er talin vera heiðarleg, gædd persónutöfrum, hún er sögð standa við sannfæringu sína, vera í tengslum við almenning og hún er talin ákveðin og sterk.

Sá eini sem getur keppt við hana er Jón Gnarr sem er á leið út úr stjórnmálum. Og jú – Ólafur Ragnar Grímsson er talinn vera sterkur og ákveðinn, fæddur leiðtogi, en hann skorar ekkert sérlega hátt í heiðarleikanum.

Ef marka má þetta ættu Katrínu að vera allir vegir færir í stjórnmálum. Það virkar eiginlega eins og það sé félagsskapurinn – flokkurinn sem hún veitir forystu – sem dregur hana niður.  Í öðrum hópi gæti Katrín orðið forsætisráðherra – eða hvað?

Karlmennirnir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Árni Páll Árnason, og Bjarni Benediktsson, veita forystu flokkum sem njóta talsvert meira fylgis en VG. En þeir koma allir mjög illa út úr þessari könnun, sérstaklega hvað varðar mat fólks á heiðarleika þeirra, sannfæringu og skilningi á kjörum almennings.

Það mætti næstum álykta að þar sé öfugt farið en með Katrínu – að þeir þrír dragi flokka sína niður.

katrin-jakobsdottir-menntamalaradherra

Ef marka má könnun MMR ber Katrín Jakobsdóttir höfuð og herðar yfir þá sem eru í landsmálapólitíkinni. Hvers vegna nær hún þá ekki meiri árangri?

Miðvikudagur 23.4.2014 - 20:09 - Ummæli ()

Verðlaunaþýðing Ingunnar – og hinar sem eru líka frábærar

Ingunn Ásdísardóttir er feikilega vel að Íslensku þýðingarverðlaununum komin. Þau hlýtur hún fyrir bókina Ó – sögur um djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen. Bókin er þýdd úr færeysku – þetta er stór bók bæði í sniði og hugsun, það var ekki áhlaupaverk að þýða þennan texta.

En það gerir Ingunn af feikilegri list.

Annars er þetta eiginlega hálf sorglegt – eða kannski gleðilegt.

Þarna voru nefnilega tilnefndar aðrar þýðingar sem hefðu verið mjög verðugar þessara verðlauna. Jú, það er sorglegt að þær séu ekki verðlaunaðar, en gleðilegt að slíkar afbragðsbókmenntir skuli birtast í góðum íslenskum þýðingum.

Þarna er hið mikla rit Rannsóknir eða Istoriai eftir Heródótos, verkið sem segir frá stríðunum milli Grikkja og Persa. Stefán Steinsson gerði þá þýðingu.

Þarna er heildarsafn ljóða Tomasar Tranströmer, Nóbelsverðlaunahafans sænska, í þýðingu Njarðar P. Njarðvík.

Og þarna er eitt af höfuðverkum bandarískra bókmennta, As I lay dying, Sem ég lá fyrir dauðanum, en það þýddi Rúnar Helgi Vignisson.

Það hefur ekki verið auðvelt að velja milli þessara þýðinga, hver þeirra sem er hefði getað hreppt verðlaunin. Lesendur síðunnar eru hvattir til að kynna sér þessar bækur.

ImageHandler

Miðvikudagur 23.4.2014 - 13:10 - Ummæli ()

Rússar í úfnum ham auka hernaðarumsvif sín í Norðurhöfum

Sænska stórblaðið Dagens Nyheter birti frétt í gær þar sem segir frá auknum hernaðarumsvifum Rússa í Norðurhöfum. Þar er vitnað í orð Pútíns forseta þess efnis að byggt verði upp kerfi hafna fyrir rússnesk herskip en að auki sé í smíðum ný kynslóð kafbáta sem muni sigla þarna um.

Tilgangurinn er að verja hagsmuni Rússa.

Rússar hafa að stefnu að færa út hafsvæði sín í Norðurhöfum – sjá greinina Norðurskautið er rússneskt sem birtist hér á vefnum í mars.´Þeir gera tilkall til stærri svæða og auðlinda – með hervald að baki.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri sem saup marga fjöruna í Kalda stríðinu, skrifar á Evrópuvaktina að þetta boði að enginn friður verði á Norðurslóðum. Hann horfir auðvitað til atburða í Úkraínu og hefur rétt fyrir sér þegar hann skrifar:

Einræðissinnað stjórnvald, sem byggir fyrst og fremst á auðmönnum, leynilögreglu og herafla er í eðli sínu árásargjarnt. Við, og önnur aðildarríki Norðurskautsráðsins, eigum eftir að upplifa það á næstu árum.

Það er mikilvægt fyrir íslenzka hagsmuni að skýr og útffærð stefna komi fram af hálfu núverandi ríkisstjórnar um uppbyggingu Norðurslóða. Náið samstarf við Bandaríkin og Kanada er lykilatriði.

Styrmi yfirsést þó að heimskautaríkin eru fleiri, Íslendingar eru ekki í innsta hring, hinu svokallaða Arctic 5, þar sem eru Rússland, Bandaríkin, Kanada, Noregur og Danmörk  - vegna Grænlands. Við erum hins vegar í Norðurheimskautsráðinu, en þar bætast líka við Svíþjóð og Finnland.

Þarna eru fjögur ríki sem teljast til Norðurlandanna og þrjú Evrópusambandsríki. Stefna Evrópusambandsins gagnvart Norðurskautinu er Íslandi hagfelld, hún gengur út á öryggi í siglingum, hóflega nýtingu auðlinda og umhverfisvernd, Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, hefur túlkað þessa stefnu í heimsóknum sínum til Íslands.

Þrátt fyrir ruglingslega utanríkispólitík síðustu ára, blasir við að meginstoðirnar í utanríkisstefnunni verða eins og áður lýðræðisríki vestursins og samtök þeirra Bandaríkin, Nató, Evrópa og EES/ESB plús Norðurlandasamstarfið.

 

Miðvikudagur 23.4.2014 - 10:27 - Ummæli ()

Framboð Guðna og F-in fjögur

Eitt má Guðni Ágústsson eiga nú í aðdraganda þess að hann tilkynnir framboð sitt – á sumardaginn fyrsta. Hann er að leiða umræðuna fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Skyndilega eru kosningarnar komnar í hámæli – hingað til hefur ósköp lítið verið rætt um þær.

Það er reyndar stór spurning hvað Guðni hefur fram að færa í borgarmálunum sjálfum. Hingað til hefur hann ekki sýnt þeim sérstakan áhuga. Kannski þarf hann ekki annað en að halla sér aftur og læða út úr sér sniðugum athugasemdum. Það er spurning hversu ágengir fjölmiðlar verða við hann. Merkilegt er að Guðni, sem sat á þingi í tuttugu og eitt ár og var lengi ráðherra og loks formaður Framsóknarflokksins, skuli virka eins og utanaðkomandi afl í þessum kosningum – það sem á ensku heitir outsider.

Frétt Stöðvar 2 frá því í gærkvöldi er nokkuð athyglisverð. Þar kemur í ljós að þegar Guðni var í framboði í Suðurkjördæmi (að Reykjanesi meðtöldu) var hann þeirrar skoðunar að miðstöð alls flugs ætti að vera í Keflavík.

Hann talaði um F-in fjögur sem væru stærstu tækifæri Suðurnesja.

Hinn fjórbreiði vegur til Keflavíkur gefur nýja möguleika og styrkir mjög að miðstöð alls flugs verði hér í Keflavík. Ég hef nefnt stærstu tækifæri Suðurnesjanna F-in fjögur: Flugið, flugvöllinn, ferðamennina og flugstöðina. Anddyri Íslands er Keflavíkurflugvöllur. Þar liggja ómæld ný tækifæri.

Reyndar er spurning hvort þetta er ekki bara eitt F? Flug, flugvöllur, ferðamenn og flugstöð – jú, þetta er eiginlega það sama.

Blaðamannafundur Guðna á morgun er sagður munu verða á Reykjavíkurflugvelli. Það verður heilmikið fjölmiðlafár. Guðni er klókur í kosningabaráttu og Framsókn á það vissulega til að sýna mikil tilþrif í fyrir kosningar.

Það verður svo athyglisvert að sjá hversu mikils fylgis Guðni aflar fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík – og hvaðan það kemur? Þurfa ráðandi meirihlutaflokkar að hafa áhyggjur– eða kannski Sjálfstæðisflokkurinn? Er hugsanlegt að fylgi hans fari enn neðar?

Svo er spurning hvaða fólk sest með Guðna  á listann? Það virðist vera að Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sem nú skipar annað sætið, sé ekki inni í myndinni. Hún hefur látið heyra í sér í fjölmiðlum vegna þessa, en auðvitað er Guðrún ekki innvígð í Framsóknarflokkinn – hún starfaði með Hægri grænum áður en hún gekk til liðs við Framsókn.

Þriðjudagur 22.4.2014 - 22:36 - Ummæli ()

Bollaleggingar um nýjan flokk og fylgi hans

Menn eru að vitna í alls kyns kannanir um nýjan hægri sinnaðan Evrópuflokk – að hann myndi taka fylgi frá hinum eða þessum.

Frá Samfylkingu, Bjartri framtíð og Sjálfstæðisflokki.

Stundum er reyndar erfitt að greina milli Samfylkingar og Bjartrar framtíðar, þar er jafnvel hægt að tala um höfuðból og hjáleigu. Og atkvæði frá Sjálfstæðisflokki kæmu náttúrlega á tíma þegar fylgi hans er í algjöru lágmarki.

En þetta eru auðvitað ekki annað en bollaleggingar. Það er erfitt að spá í svona hluti – þegar hlutirnir fara loks að gerast getur farið í gang atburðarás sem ekki var hægt að sjá fyrir.

Þannig var til dæmis um Besta flokkinn í Reykjavík. Hver hefði nokkurn tíma spáð því í upphafi árs 2010 að hann næði 35 prósenta fylgi í borgarstjórnarkosningunum 2010 og yrði stærsti flokkurinn?

Við höfum líka dæmi um að hlutirnir geti þróast í þveröfuga átt. Á síðasta kjörtímabili stofnaði Lilja Mósesdóttir sem nefndist Samstaða. Þegar flokksstofnunin var fyrst orðuð sögðu skoðanakannanir að hann gæti fengið allt að 20 prósenta fylgi. En flokkurinn lognaðist út af og náði ekki einu sinni að bjóða fram til þings.

Þannig að skoðanakannanir eru heldur ótryggur leiðarvísir í þessu. Þetta er spurning um mannval, málefni og tímasetningar – að ná að koma fram og springa út á réttum tíma.

Ein breytan í þessu er líka sú að það getur verið erfitt að stofna flokk snemma á kjörtímabili, þegar heil þrjú ár eru til þingkosninga – að því gefnu að ríkisstjórnin falli ekki. Það getur verið ansi erfitt að halda dampi í stjórnmálastarfi svo langan tíma án þess að eiga fulltrúa á þingi.

Það sem er hins vegar athyglisvert er að flokkshollusta er miklu minni en áður fyrr – og fleiri sem eru tilbúnir að kjósa eitthvað annað en fjórflokkinn.

Þriðjudagur 22.4.2014 - 20:39 - Ummæli ()

Þegar hertoginn kom til Íslands

Pathé kvikmyndafyrirtækið í Bretlandi hefur sett á netið talsvert af efni sem tengist Íslandi og má finna það á YouTube. Það nær alveg aftur til áranna fyrir stríð, en svo er líka yngra efni eins og frá heimsókn Filippusar hertoga af Edinborg til Íslands 1964.

Ég man eftir því að hafa verið barn á Austurvelli þegar hertoganum, eiginmanni Elísabetar drottningar, var fagnað. Hann kom út á svalir Alþingishússins með Ásgeiri Ásgeirssyni forseta. Þetta má sjá á myndunum og einnig þar sem Ásgeir og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra taka á móti Filippusi í Reykjavíkurhöfn.

Þetta hefur verið mikil viðhöfn fyrir ekki meiri valdamann, en kannski hefur heimsóknin þótt mikilvæg í ljósi þess að ekki var langt síðan að lauk öðru þorskastríðinu, þegar Íslendingar færðu landhelgina út í 12 mílur. Filippus kom siglandi til Íslands og í myndinni eru einmitt sýndir breskir sjómenn á togara við Íslands – vinnubrögðin eru býsna fornleg.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is