Föstudagur 31.10.2014 - 12:13 - Ummæli ()

Dagur ljóðsins – og afmæli Einars Ben

Í dag eru liðin 150 frá fæðingu skáldsins og athafnamannsins Einars Benediktssonar.

Einar var mjög stór persóna í hugum Íslendinga lengi eftir andlát sitt – hann reis hátt en dó snauður og afskiptur – öll sú saga er mjög ævintýraleg.

Ævisaga Einars eftir Guðjón Friðriksson er mjög vinsæl bók.

Sem skáld stendur Einar aðeins veikar. Lengi kunnu menn að þylja upp úr verkum hans, það var grínast með að þetta gerðu fyrst og fremst íslenskir athafnamenn, útgerðarmenn og bisnessmenn, á fylleríum. Fulli kallinn á barnum á Borginni sem þylur upp úr Einari er sterkt minni í íslenskri menningarsögu.

Ákveðið hefur verið að 31. október – afmælisdagur Einars – verði framvegis Dagur ljóðlistarinnar.

Jú, hún má vel eiga sinn dag, satt að segja stendur ljóðlistin dálítið höllum fæti á upplýsingaöldinni. En ég sá á Facebook að einhverjir voru að gera athugasemd við að þessi dagur væri valinn en ekki einhver annar.

Hví ekki afmælisdagur Steins, 13. október, Snorra Hjartarsonar, 22. apríl, Tómasar Guðmundssonar, 6. janúar – nú eða einhverrar skáldkonu?

Kristján B. Jónasson bókaútgefandi skrifar á Facebook:

Ég verð að viðurkenna að mér finnst það ákaflega undarlegt að gera fæðingardag skálds sem enginn les og skipti nánast engu máli í þróun íslenskra bókmennta að Degi ljóðlistar. Ég tek jafnan dæmi af því að þótt höfundarverk Einars Benediktssonar hafi dottið úr rétti 1. jan. 2011 hefur enn enginn gefið það út, enda vita menn sem er að það er engin eftirspurn eftir kvæðum hans.

Annars skiptir kannski ekki svo miklu máli hvaða dagsetning þetta er nákvæmlega. Dagur Sigurðarson sem var fæddur 6. ágúst taldi það vera Dag ljóðsins og orti svona:

Dagur
Dagur
Dagur
Dagur
Dagur
ljóðsins

 

dagur

Föstudagur 31.10.2014 - 10:11 - Ummæli ()

Hervæðing lögreglunnar

Eitt má ekki gleymast í sambandi við vopnavæðingu lögreglunnar á Íslandi.

Eftir 11/9 urðu Vesturlönd full af óöryggi og það hefur beinlínis verið gert út á þetta óöryggi.

Heimurinn er ekki hættulegri en hann var, nei, hann er líklega öruggari fyrir flesta íbúa Vesturlanda, sem njóta ferðafrelsis og áður óheyrðs langlífis.

En tilfinningin er að þetta sé allt á heljarþröm. Það er ýmislegt sem stuðlar að þessu, fjölmiðlarnir, internetið, orðræða stjórnmálamanna.

Í þessu dæmi er náttúrlega ofboðslegur peningur. Alls kyns öryggisfyrirtæki og fyrirtæki sem framleiða öryggisbúnað maka krókinn eins og aldrei áður.

Ísrelar er mestu sérfræðingar heims í öryggisbisnessnum – þar var mikill uppgangur eftir 11/9 þegar aðilar út um allan heim fóru að kaupa af Ísrelum öryggisbúnað og öryggisráðgjöf.

Á sama tíma hafa stjórnvöld stundað að fylgjast með þegnum sínum í gegnum netsamskipti og myndavélar sem aldrei fyrr.

Æ fullkomnari vopn – sem upphaflega voru framleidd fyrir hermenn – eru farin að rata til lögreglu. Þetta eru oft afgangsvopn – rétt eins og í tilfelli vonpnanna sem Norðmenn seldu/gáfu Landhelgisgæslunni.

Í Bandaríkjunum hefur verið mikið rætt um hervæðingu lögreglunnar og hvernig hún getur leitt af sér hörmulegar aðferðir í löggæslu – getur verið að hið sama sé á ferðinni hér á Íslandi, í aðeins minna mæli?

Við erum jú ekki ónæm fyrir alþjóðlegum straumum, þótt við virðumst stundum halda að við séum algjörlega einstök í veröldinni.

url-5

Föstudagur 31.10.2014 - 01:16 - Ummæli ()

Gleymdist Ísland?

Frá því er skýrt í Haaretz, besta dagblaði í Ísrael, að Svíar séu fyrsta Evrópuþjóðin til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu.

Ísraelsmenn eru stórmóðgaðir, og segir öfgamaðurinn Avigdor Liberman, utanríkisráðherra Ísraels, að utanríkispólitík sé flóknari en að skrúfa saman Ikea-húsgögn.

Þetta er svosem nokkuð fyndið hjá honum, en líklega ekki rétt.

En auðvitað er farið rangt með í þessari frétt – eða hvað?

Ísland viðurkenndi sjálfstæði Palestínu í desember 2011, eins og lesa má í þessari tilkynningu utanríkisráðuneytisins.

Á sama tíma grasserar nýlendustefna Ísraels áfram í Jerúsalem. Gideon Levy, ísraelskur blaðamaður, kallar hana höfuðborg apartheid og spáir því að uppreisn brjótist út í borginni. Bandaríkjastjórn er alveg að gefast upp á Netanyahu og liðinu í kringum hann, í nýlegu viðtali kallaði háttsettur embættismaður í Washington hann „heigul“ og „hænsnaskít“. Bandaríkjastjórn hefur reynt að fjarlægja sig frá þessum ummælum, en samt er talið að þau sýni hvernig ráðamenn þar hugsi í rauninni um Ísraelsstjórn.

Fimmtudagur 30.10.2014 - 19:52 - Ummæli ()

Hvort á það að vera?

Að fara byggja hér nýjan steinsteypukubb upp á 60-80 milljarða á meðan starfsfólk er að ganga út af Landspítalanum – það er ekki nokkuð einasta vit í því. Við Framsóknarmenn höfum talað skýrt; þjóðin hefur ekki efni á nýjum spítala í dag, það eru alveg hreinar línur.

- Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins, 31. júlí 2013.

Eða?

Bygging nýs Landspítala verður að hefjast fljótlega. Við getum ekki sætt okkur lengur við þann húsakost sem fyrir hendi er. Það er nóg af peningum í þjóðfélaginu til að hefjast handa þó að ríkissjóður sé tómur. Bankar og lífeyrissjóðir eru vel aflögufærir. Það er okkar að ná í þessa peninga og hefja framkvæmdir.  Skammtímahugsun er því miður ríkjandi í íslenskri pólitík og því gerist lítið. Menn benda á forganginn – fyrst þurfi að tryggja að heilbrigðisstarfsfólk vilji starfa hérlendis. Þetta tvennt fer hins vegar saman. Kjör og vinnuaðstaða.

- Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, 30. október 2014.

 

Fimmtudagur 30.10.2014 - 15:06 - Ummæli ()

Lífskjarabylting – með eða án sæstrengs?

Afar margir hafa deilt á Facebook viðtali við Jón Steinsson hagfræðing sem flutt var á Rás 2 í gær.

Þar sagði Jón að tækifæri væru til að stórbæta lífskjör á Íslandi.

Jón nefndi tvennt í þessu sambandi:

Uppboð á aflaheimildum sem gæti skilað 10 til 30 milljörðum króna í ríkiskassann árlega.

Og sæstreng til Bretlands sem gæti skilað 50 milljörðum í ríkissjóð á ári. Hann segir að nú séu álfyrirtæki að fá orkuna á „tombóluverði“.

Í samantekt um viðtalið segir:

Það er til staðar tækifæri til að gjörbylta lífskjörum á Íslandi vegna þess að Íslendingar búa yfir verðmætum náttúruauðlindum. Norðmenn eru ríkasta þjóð í heimi, við búum yfir náttúruauðlindum sem eru ekki ósvipaðar að verðmætum á hvern íbúa. Við gætum alveg eins verið jafn rík og Norðmenn.“

Jón segir fjársterka hagsmunaaðila standa í vegi fyrir þessum breytingum; þeir hafi tögl og haldir í umræðunni og beiti „linnulausum áróðri“.

Það er samt svo skrítið að þegar bent var á að þessi lífskjarabylting Jóns fæli í sér umræddan sæstreng – kannski lásu menn aldrei lengra en fyrirsögnina – þá reyndust flestir sem deildu fréttinni eða tjáðu sig vera á móti slíkri framkvæmd.

Og ekki heyrði ég betur í viðtalinu en að Jón mælti með einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu…

Fimmtudagur 30.10.2014 - 12:03 - Ummæli ()

Tyrkjaránið, taka tvö

Skip með fullfermi af öfgasinnuðum múslimum – á Miðbakka Reykjavíkur?

1601482_787104321335331_8335531736313983086_n

Fimmtudagur 30.10.2014 - 10:14 - Ummæli ()

Bandaríkjamenn steinhissa á dönskum skyndibitastöðum

Hér er furðuleg frétt – í New York Times.

Segir þar frá því að starfsmenn á skyndibitastöðum í Danmörku geti faktískt lifað af launum sínum.

Það virðist vera óþekkt í Bandaríkjunum.

Í fréttinni segir frá hinum 40 ára gamla Hampus Elofsson. Laun hans eru um 20 dollarar á tímann. Um 2400 krónur. Vinnudagur hans er átta tímar.

Eftir vinnu fer hann og fær sér bjór með vinum sínum, fer í bíó, og honum tekst að leggja fyrir – hann á semsagt sparifé.

Bandaríkjamönnum finnst þetta undarlegt – og blaðið talar við álitsgjafa sem telja að óhugsandi sé að hafa þetta svona vestra.

En ef stórfyrirtæki geta ekki borgað laun sem fólk nær að lifa af – hver borgar þá mismuninn? Hvað með gróða hluthafanna? Er forsenda fyrir því að selja vöru sem getur ekki staðið undir mannsæmand launum þeirra sem framleiða hana eða bera hana fram?

Varla – þetta virkar að minnsta kosti eins og mjög öfugsnúinn kapítalismi, þar sem ríkið er hugsanlega að niðurgreiða starfsfólk fyrir stórfyrirtæki.

 

DSC_0045

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is