Laugardagur 21.10.2017 - 17:59 - Ummæli ()

Tvö kosningapróf

Það eru a.m.k. tvö kosningapróf á netinu sem hægt er að spreyta sig á – og væntanlega fá vísbendingu um hvern maður ætti að kjósa í kosningunum 28. október.

Smá tilraun: Ef maður gefur upp hlutleysi við öllum spurningunum í kosningaprófi RÚV fær maður Sjálfstæðisflokkinn efst með 69 prósenta samsvörun. Viðreisn og Miðflokkurinn koma næst með 68 og 67 prósent en VG og Alþýðufylkingin neðst með 62 og 58 prósent.

Hitt prófið er á vef Stundarinnar. Þar prófaði ég líka að vera hlutlaus í öllum málum, í spurningunum 63. Þar gefur hlutleysið manni Miðflokkinn. Hann er semsagt default flokkurinn, þótt samsvörunin sé reyndar ekki nema 40 prósent. BF er með sama hlutfall, en Samfykingin ekki með nema 13 prósent og VG með 17 – ef maður skilar auðu í öllum málum.

Í kosningaprófi Stundarinnar er að finna þessa spurningu. Maður hlýtur að spyrja, á vondri íslensku – í box hvaða flokks tikkar það ef maður segist vera fjarskalega sammála þessari fullyrðingu?

 

Laugardagur 21.10.2017 - 12:21 - Ummæli ()

Framsókn eða Viðreisn í oddaaðstöðu?

Hver skoðanakönnunin á fætur annarri bendir til þess að mjög erfitt verði að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar. Menn gefa sér að Vinstri græn, Samfylking og Píratar muni vinna saman ef flokkarnir fá meirihluta á þingi. En í raun er ólíklegt að svo verði, meirihlutinn yrði þá í mesta lagi einn þingmaður.

Á hægri vængnum er þetta enn flóknara. Þar er í raun ekki hægt að sjá neina ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn getur tæplega unnið með Miðflokknum og Viðreisn myndi vera mjög hikandi að setjast í ríkisstjórn með honum.

Eina von Sjálfstæðisflokksins um að komast í ríkisstjórn er að Vinstri græn fari með honum. Það er fjarlægur draumur – og enn fjarlægari eftir lögbannið sem sett var á Stundina og fréttaflutninginn af Bjarna Benediktssyni í blaðinu. Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson eru í ágætu sambandi en hún getur varla tekið þá áhættu að stuttu eftir að hún myndar ríkisstjórn með honum fari að birtast fleiri fréttir af fjármálavafstri hans.

Í baklandi VG í Reykjavík er fullkomin andstaða gegn því að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokki, þótt önnur viðhorf kunni að vera uppi úti á landi.

Þetta veldur því að tveir litlir flokkar verða máski í oddastöðu eftir kosningarnar. Bæði Framsóknarflokkur og Viðreisn eiga eftir að tapa illa og ná kannski ekki nema fáum mönnum inn á þing.  En tilurð ríkisstjórnar gæti oltið á öðrum hvorum flokknum.

Hvor þeirra er tilbúinn að fara í ríkisstjórn undir forsæti Kötu Jak?

Föstudagur 20.10.2017 - 13:21 - Ummæli ()

Rætnar og nafnlausar auglýsingar

Eitt af því sem einkennir kosningabaráttuna nú, fyrir utan frekar daufleg átök um málefnin, eru auglýsingar sem ganga ljósum logum á netmiðlum.

Þessar auglýsingar eru neikvæðar, þeim er beint gegn ákveðnum frambjóðendum og flokkum, þeir eru sýndir í neyðarlegu ljósi, hæðst að þeim, niðurstaðan er sú þeir séu með öllu marklausir, ef ekki bara hættulegir fyrir land og þjóð.

Nokkuð kvað að slíkum auglýsingum í kosningabaráttunni í fyrra, en í ár keyrir um þverbak. Það er varla hægt að opna fyrir samskiptamiðil án þess að auglýsingar af þessu tagi dúkki upp.

Auglýsingarnar eru nafnlausar, það kemur hvergi í ljós hver gerir þær eða borgar brúsann. Það er náttúrlega  hneisa og á ekki að líðast í kosningabaráttu. Fjölmiðlar hljóta að reyna að grafa upp í hvaða skúmaskotum þeir leynast sem standa fyrir þessu.

Og svo er spurningin – er þetta að virka? Og þá hvernig og á  hverja?

Hér eru tvö dæmi um auglýsingar af þessu tagi.

 

 

Fimmtudagur 19.10.2017 - 16:07 - Ummæli ()

Ég er kominn í leitirnar sko

Í spjalli okkar í Kiljunni – sem stóð yfir um sjö ára skeið – ræddum við Bragi Kristjónsson stundum um Guðmund Haraldsson rithöfund. Guðmundur var sérstæður og skemmtilegur karakter sem setti svip á miðbæinn um áratuga skeið. Hann drakk kaffi á Prikinu og átti oft erindi í áfengisverslunina á Lindargötu.

Guðmundur var yfirleitt vel klæddur, með hatt eða húfu á höfði og skjalatösku. Gat verið snöggur og skemmtilegur í tilsvörum.

Nú er komið í leitirnar myndskeið sem sýnir Guðmund koma í Lindargöturíkið. Þetta er tekið á síðasta opnunardegi þess árið 1992. Afgreiðslumennirnir ákveða að gera vel við Guðmund af þessu tilefni. Hann fékk sér yfirleitt „eina litla laglega“ flösku eins og hann kallar það í myndbandinu, en þurfti ekki að borga í þetta sinn.

Myndirnar eru teknar af Friðriki Geirdal Júlíussyni sem gaf mér góðfúslegt leyfi til að birta þær.

 

Fimmtudagur 19.10.2017 - 12:26 - Ummæli ()

Illa lesinn sýslumaður

Í nútímasamfélagi finnst manni fátt tilgangslausara en þóttafullir embættismenn. Á árum áður var landið fullt af slíkum mönnum, en almennt held ég að ástandið hafi skánað í þessum efnum.

Sýslumaðurinn í Reykjavík kemur á fund þingnefndar vegna lögbannsins á Stundina. Hann er spurður um álit sitt á erindi sem barst um lögbannið frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Íslendingar eru aðilar að þessari stofnun.

Sýslumaðurinn segist ekki hafa séð yfirlýsinguna – af því hún var ekki send honum sérstaklega. Því segist hann ekki vita hvað var í þessu skjali. Það virkar á mann eins og honum þyki þetta voða flott hjá sér.

Fréttir af yfirlýsingu ÖSE voru í öllum fjölmiðlum í gær. Það er ekki beinlínis erfitt að finna þær á netinu. Með einum til tveimur smellum hefði sýslumaðurinn getað kynnt sér málið – og búið sig þannig undir fundinn með nefndinni.

 

Miðvikudagur 18.10.2017 - 11:52 - Ummæli ()

Jónas Kristjánsson, Hallgrímur og Gunni Helga, Guðrún Pé, Biggi lögga og fleira frægt fólk á framboðslistum

Það er gaman að renna augunum yfir framboðslista til að sjá hvort maður þekkir fólk á þeim, jafnvel einhverja sem maður átti ekki von á að væru í framboði. Fréttablaðið birti í morgun tólf blaðsíðna aukablað sem er auglýsing frá landskjörstjórn um framboðslista við kosningarnar 28. október. Þar er að finna nöfn allra frambjóðenda.

Við skulum láta þá sem eru efst á listum liggja milli hluta, þeir hafa verið kynntir, en skoða aðeins hvaða fólk er neðar á listunum.

Maður tekur til dæmis eftir því að Jónas Kristjánsson, ritstjóri og einn helsti blaðamaður á Íslandi í marga áratugi, er í framboði fyrir Pírata. Hann er í heiðurssætinu í Suðvesturkjördæmi. Í heiðurssætinu hjá Pírötum í Reykjavík norður er skáldkonan og forsetaframbjóðandinn Elísabet Jökulsdóttir.

Það leynir sér ekki að Vinstri græn höfða vel til listamanna. Ragnar Kjartansson myndlistarmaður er í 9. sæti í Reykjavík norður og sama lista er söngkonan Sigríður Thorlacius í 19. sæti. Skáldið og rapparinn Kött Grá Pje, eða Atli Sigþórsson, er í 14. sæti í Reykjavík suður en þar er rithöfundurinn Úlfar Þormóðsson í 21. sæti.

Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur og formaður Rithöfundasambands Íslands, er í 13. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi en þar er kvikmyndaleikstjórinn Grímur Hákonarson í 24. sæti. Gunnar Þórðarson tónskáld er svo að finna í 8. sæti í Suðurkjördæmi.

Hjá Samfylkingunni er Hallgrímur Helgason í 8. sæti í Reykjavík norður, þar er Edda Björgvinsdóttir leikkona í 11. sæti, Birgir Þórarinsson eða Biggi veira úr Gusgus í 12. sæti en Dr. Gunni í 20. sæti. Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsisn er í 8. sæti í Reykjavík suður.

Gunnar Helgason, rithöfundur, leikari og bróðir Hallgríms,  er í 7. sæti í Suðvesturkjördæmi og þar er Hjálmar Hjálmarsson leikari í 10. sæti. Hann leiddi eitt sinn Næst besta flokkinn í Kópavogi.

Hjá Viðreisn vekur athygli Guðrún Pétursdóttir, líffræðingur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, en hún er í heiðurssæti í Reykjavík norður. Þar er Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara, í 8. sæti. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, er í heiðurssætinu í Reykjavík suður. Söngkonan Ólöf Kolbrún Harðardóttir er í 25, sæti hjá Viðreisn í Suðvesturkjördæmi og þar er athafnakonan Kristín Pétursdóttir í 21. sæti.

Biggi lögga, eða Birgir Örn Guðjónsson, er í 3. sæti hjá Framsóknarflokknum í Reykjavík suður, en það vekur athygli að Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismaður, er í heiðurssætinu í Reykjavík suður. Hann fór semsagt ekki með Sigmundi. Það gerðu heldur ekki fyrrverandi alþingismennirnir Haraldur Einarsson og Páll Jóhann Pálsson sem eru neðarlega á lista í Suðurkjördæmi.

Knattspyrnumaðurinn Davíð Þór Viðarsson er í 11. sæti í Suðvesturkjördæmi hjá Sjálfstæðisflokknum, en annar fótboltamaður, Rúrik Gíslason, er í 13. sæti í Reykjavík suður. Þar er Illugi Gunnarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra, í heiðurssæti, en hann leiddi listann í síðustu kosningum. Ragnheiður Ríkharðsdóttir er í heiðurssæti í Suðvesturkjördæmi.

Guðlaugur G. Sverrisson, fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur sem einnig hefur setið í stjórn RÚV, er í öðru sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík norður. Þar er Jón Hjaltalín Magnússon í 7. sæti, en hann er gamall handboltakappi og fyrrverandi formaður Handknattleikssambands Íslands. Atli Ásmundsson, fyrrverandi ræðismaður sem eitt sinn var hægri hönd Halldórs Ásgrímssonar, er í heiðurssætinu.

Í Suðurkjördæmi er að finna á lista Miðflokksins Sigurð Þ. Ragnarsson sem gat sér gott orð fyrir að flytja veðurfréttir í sjónvarpi, en í 14. sæti í Reykjavík suður er kvikmyndaleikstjórinn Hjálmar Einarsson.

Leikkonan Guðlaug Elísabet Ólafdóttir er í heiðurssætinu hjá Bjartri framtíð í Suðurkjördæmi, en í Suðvesturkjördæmi er grínistinn og handritshöfundurinn Sigurjón Kjartansson í 24. sæti fyrir flokkinn. Þeir Óttarr Proppé eru saman í Ham. Annar Ham-ari, Sigurður Björn Blöndal borgarfulltrúi, er í heiðurssætinu í Reykjavík norður.

Það verður að segjast eins og er að ekki er mikið af frægu fólki í framboði fyrir Flokk fólksins – kannski er alþýðan þar? En þar má nefna Ásgerði Jónu Flosadóttur, formann Fjölskylduhjálpar Íslands, sem er í 4. sæti í Reykjavík suður, veitingamanninn Margeir Margeirsson sem er í 16. sæti á sama lista, Svein Guðjónsson, blaðamann sem eitt sinn var í hljómsveitinni Roof Tops, sem er í 5. sæti í Reykjavík norður og Karl Berndsen hárgreiðslumann sem er í 7. sæti á sama lista.

Miðvikudagur 18.10.2017 - 11:13 - Ummæli ()

Valdamesti maður heims

Einhver sérstæðasta og áhugaverðasta samkoma í heimi hefst í dag, það er 19. þing kínverska Kommúnistaflokksins. Síðasta þingið var haldið fyrir fimm árum. Tímaritið The Economist birtir forsíðugrein af þessu tilefni og fullyrðir að aðalritari flokksins og forseti Kína, Xi Jinping, sé valdamesti maður í heimi.

Yfirleitt hefði maður ætlað að þessi titill væri frátekinn fyrir forseta Bandaríkjanna. En Economist fullyrðir að Donald Trump sé forseti af því taginu að hann eigi það ekki skilið. Hann njóti einskis álits á alþjóðavettvangi og gangi illa að koma stefnumálum sínum í gegn heimafyrir.

Kerfið í Kína er að mörgu leyti ráðgáta. Kommúnistaflokkurinn, flokkur Maós, er einráður en hefur komið upp kapítalísku hagkerfi þar sem hefur orðið til fjölmenn og auðug millistétt sem nú hefur efni á því að ferðast um heiminn. Efnahagslega hafa verið tekin gríðarlega stór skref, en mannréttindi eru enn virt að vettugi í Kína.

Kommúnistaflokkurinn þorir ekki að lina tökin sem hann hefur á kínversku þjóðinni. Economist segir að Xi Jinping hafi verið góður leiðtogi fyrir kommúnistaflokkinn en síður fyrir Kína. Hann sé gríðarlega valdamikill, hafi hert tökin innanlands meðal annars með aukinni ritskoðun. Hins vegar nýtur hann álits á alþjóðavettvangi þar sem hann virkar nánast eins og skynsemis- og hófsemdarmaður við hliðina á Trump.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is