Föstudagur 23.03.2018 - 22:15 - Ummæli ()

Hefði ég fengið kosningaréttinn 16 ára

Það er deilt um hvort lækka eigi kosningaaldur í 16 ár. Þetta þýðir í raun að hann færist niður í grunnskólann, því elstu börnin þar útskrifast úr tíunda bekk þegar þau eru orðin sextán ára. Til dæmis væri sonur minn einn þeirra sem fengi kosningarétt í vor ef frumvarpið yrði að lögum. Ég hef reyndar ekki orðið var við að hann hafi neinn áhuga á pólitík.

Bent er á alls kyns misræmi í þessu. Börn fermast þegar þau eru 13-14 ára, það er alveg viðtekinn siður. Þau aka bíl þegar þau eru 17 ára. Þau mega ekki kaupa sígarettur fyrr en þau eru 18 ára. Þá eru þau líka sjálfráða og mega giftast, þurfa ekki lengur að hlýða skipunum frá foreldrum. En þau mega ekki kaupa áfengi fyrr en þau eru 20 ára. Fulla skatta þurfa þau að borga þegar þau eru 16 ára.

Ég hef orðið var við að ýmsir sem eru orðnir fullorðnir eru að máta sig við þetta. Hvað hefðu þeir kosið þegar þeir voru 16 ára? Hvert voru þeir komnir i þroska?

Sjálfur hafði ég brennandi áhuga á stjórnmálum þegar ég var barn, í kringum tíu ára. Þekkti alla alþingismenn með nafni, hafði klippt út myndir af þeim úr kosningabæklingi og hélt ímyndaðar alþingiskosningar upp úr kattartungupakka. Já, þetta var nördalegt.

Stuttu síðar var ég búinn að missa allan áhuga á pólitík, þá komst ekkert annað að en íþróttir. Þannig var það öll árin í gagnfræðaskóla. Ég var meira og minna allan sólarhringinn við borðtennisborð, annað hvort í kjallara Hagaskóla, heima hjá mér eða í KR-heimilinu.

Um sextán ára fékk ég aftur áhuga á pólitík, hafði þá mjög vondar skoðanir um tíma. Las Karl Marx og Lenín. Það gekk þó aldrei svo langt að ég gengi í litlu kommúnistahópana sem þá störfuðu. En 16 ára hefði ég líklega kosið Fylkinguna. Þetta var frekar stutt tímabil. Átti ekki alveg við mig.

Þetta rjátlaðist semsagt sem betur fer fljótt af mér. Ég missti eiginlega alveg áhugann á stjórnmálum. Þá fékk maður kosningarétt tvítugur og Í fyrsta sinn sem ég mátti kjósa var í forsetakosningunum 1980. Á þeim tíma var svo mikill mótþrói í mér að ég kaus frambjóðandann sem mér fannst fáránlegastur.

Ég man eiginlega ekki hvað ég kaus árin eftir eða hvort ég fór yfirleitt á kjörstað. Tók varla eftir því hverjir voru í ríkisstjórn. Í blaðamennsku minni fjallaði ég aðallega um menningu. Það var ekki fyrr en undir þrítugt að ég fór aftur að fá áhuga á stjórnmálum, held ég aðallega vegna þess að ég datt í að fara að lesa ævisögur stjórnmálamanna.

Ég hef svo einsett mér að missa áhuga á stjórnmálum aftur fyrr eða síðar. Það er margt annað til í lífinu en pólitík.

 

16 ára unglingur í Keflavíkurgöngu 1976. Þetta er á Kópavogshálsi, þarna hafði verið gengið alla leiðina frá herstöðinni. Skömmu síðar missti ég áhugann á pólitík aftur. Að sumu leyti er ég þakklátur fyrir að ég hafði ekki kosningarétt þarna, hefði líklega kosið Fylkinguna.

Föstudagur 23.03.2018 - 17:23 - Ummæli ()

Tekist á um kosningarétt fyrir 16 ára

Frumvarpið um að færa kosningaaldurinn niður í 16 ár í sveitarstjórnarkosningum er farið að valda óróa eftir að hafa verið í hálfgerðu þagnargildi í vetur. Það hefur í gegnum tvær umræður í þinginu, eftir þá þriðju verður það að lögum. Sjálfstæðismenn eru á móti og þeir og Miðflokkurinn hafa í dag verið í einhvers konar málþófi vegna þessa.

Sjálfstæðismenn eru ekki hrifnir af frumvarpinu efnislega, Brynjar Níelsson lét að því liggja í þinginu í dag að annarlegar hvatir kynnu að liggja að baki, eða eins og segir í frásögn mbl.is.

Brynj­ar Ní­els­son þingmaður Sjálf­stæðis­flokks lét að því liggja í ræðu sinni áðan að þeir sem berðust fyr­ir því að þetta frum­varp færi í gegn væru helst þeir sem teldu sig geta grætt póli­tískt á því – þeir sem teldu sig hafa mik­inn stuðning á meðal þess ald­ur­hóps sem öðlast myndi kosn­inga­rétt við breyt­ing­arn­ar.

Semsé að aldurshópurinn sem bætist við muni kjósa aðra en Sjálfstæðisflokkinn. Hver veit?

En það hjálpar ekki að fyrsti flutningsmaður þess er Andrés Ingi Jónsson, VG-þingmaðurinn sem ekki styður ríkisstjórnina. Hann er ekki ofarlega á vinalista Sjálfstæðismanna. Margir í röðum þeirra hugsa honum þegjandi þörvina.

Hugsanlega ber að taka alvarlega viðvaranir embættismanna um að of skammur tími sé til stefnu til að þessi breyting geti orðið að veruleika fyrir sveitrstjórnarkosningarnar í lok maí. Dómsmálaráðuneytið telur að þetta sé óráð.

Þetta mál klýfur ríkisstjórnarflokkana. Það er reyndar ekki allt eins og sýnist, því einn af flutningsmönnum frumvarpsins með Andrési var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins. Og þar er líka Vilhjálmur Árnason, þingmaður flokksins.

Það er ekki auðvelt fyrir Katrínu Jakobsdóttur að setja sig á móti afgreiðslu frumvarpsins nú því fyrir fáum árum var hún sjálf fyrsti flutningsmaður frumvarps um að færa kosningaaldur niður í 16 ár. Hún styður því frumvarp Andrésar, vandræðagemlingsins í flokknum, þvert á vilja stóra samstarfsflokksins. En hugsanlega tekst Sjálfstæðismönnum að koma í veg fyrir að það fari í gegnum þingið, þrátt fyrir að frumvarpið hafi meirihlutafylgi.

 

 

En eins og bent hefur verið á mætti, ef frumvarpið yrði samþykkt, einstaklingur kjósa þegar hann er 16 ára, giftast þegar hann er 18 ára og kaupa áfengi þegar hann er 20 ára.

Föstudagur 23.03.2018 - 10:29 - Ummæli ()

Með réttu ráði?

Donald Trump hefur rekið þjóðaröryggisráðgjafa sinn, hershöfðingjann McMaster. Hann var talinn dálítil trygging fyrir því að ekki yrði öllu hleypt í bál og brand í Hvíta húsinu. Í staðinn er ráðinn John Bolton, sem eitt sinn var sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.

Bolton hefur verið þeirrar skoðunar að Bandaríkin þurfi endilega að beita meira vopnavaldi á alþjóðavettvangi. Hann hefur mælt með því að varpa sprengjum á Íran og Norður-Kóreu.

Það virðist reyndar spurning hvort maðurinn er með réttu ráði. Hér er myndband frá 2013 þar sem hann hvetur Rússa til að fylgja fordæmi Bandaríkjanna og koma byssum í hendur hverrar fjölskyldu og inn á  hvert heimili.

 

 

Fimmtudagur 22.03.2018 - 21:43 - Ummæli ()

Boris missir tökin

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, er einkennilegur fýr – og sumpart einhver mest ótraustvekjandi stjórnmálamaður á Vesturlöndum. Er þó af nógu af taka.

Hann var fréttaritari í Brussels í eina tíð og hafði þá þann sið að skálda upp fréttir um Evrópusambandið sem margar höfðu mikil áhrif. Frægust var sú um bognu bananana. Á endanum var Boris rekin, skáldskapurinn hafði tekið völdin.

Hann hefur þráð að verða formaður Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands. Til að reyna að koma því í kring söðlaði hann um í afstöðu til Evrópusambandsins. Hann var á móti útgöngu Breta úr ESB, en birtist svo sem einn leiðtogi útgöngusinna. Þar komst hann nálægt forsætisráðuneytinu, en þó ekki alla leið.

Nú er Boris Johnson í sviðsljósinu vegna eiturefnaárásarinnar sem hefur spillt svo mjög samskiptum Breta og Rússa. Bretar eru ekki í sérlega sterkri stöðu, en þeim hefur þó tekist að fá nokkurn stuðning frá gömlum bandalagsþjóðum. Þá gengur Boris fram fyrir skjöldu og líkir heimsmeistaramótinu í knattspyrnu næsta sumar við Ólympíuleikana í Hitlers-Þýskalandi 1936.

Það má vel vera að Rússar hafi staðið að eiturefnaárásinni. Böndin berast að þeim. En með blaðri sínu gengur Johnson alltof langt – og veikir stöðu ríkisstjórnar sinnar. Vissulega hafa einræðisstjórnir mikla ánægu af því að setja á svið stór íþróttamót, líkt og til dæmis þegar Kínverjar héldu Ólympíuleikana 2008. En Pútín er ekki Hitler og líkingin er sérlega ógagnleg.

 

Fimmtudagur 22.03.2018 - 21:25 - Ummæli ()

Starfshópur um miðlæga stefnumótun – erindisbréf

Þetta er alveg skýrt – er það ekki? Lagt fyrir borgarráð. Ætli þau skilji sjálf hvað þetta þýðir?

Miðvikudagur 21.03.2018 - 23:00 - Ummæli ()

Götuþvottur á Siglufirði

Siglufjörður síðdegis í dag. Horft eftir Aðalgötunni og upp að kirkjunni.

Hér sópa þeir göturnar og þvo.

 

Miðvikudagur 21.03.2018 - 09:11 - Ummæli ()

Alræmdasta tölvuþrjóti heims fagnað í Hörpu

Alexander Nix, forstjóri Cambridge Analytica, hefur verið rekinn. Það var ekki annað hægt í gjörningaveðrinu sem gengur yfir Facebook vegna framferðis þessa fyrirtækis. Cambridge Analytica hefur þakkað sér að Trump náði kosningu sem forseti Bandaríkjanna. Nú kemur í ljós að það var með siðlausum og hugsanlega glæpsamlegum hætti.

En það er merkilegt að hugsa til þess að Nix var sérstakur gestur á ráðstefnu tölvufyrirtækisins Advania nú í haust. Hann kom í Hörpu og var ákaft fagnað. Hér má sjá stutt viðtal við hann, mjög faglega unnið . en um fundinn sagði á síðu íslenska fyrirtækisins:

Alexander Nix, forstjóri Cambridge Analytica, hélt magnað erindi á Haustráðstefnu Advania og skildi marga gesti eftir orðlausa. Hann fjallaði um umdeilda markaðstækni sem fyrirtækið hans hefur þróað og gerir viðskiptavinum þess kleift að sérsníða skilaboð til neytenda og kjósenda með mun nákvæmari og áhrifaríkari hætti en áður hefur þekkst.

Þetta er merkilegt að lesa nú þegar hefur fengist staðfest að menn eins og Nix standa í raun fyrir algjörri eyðileggingu og úrættun þess sem eitt sinn töldust vera hugsjónir upplýsingabyltingarinnar, að hún myndi færa okkur meiri og betri tengsl, upplýsingar og umræðu. Þannig er Nix í raun að boða hreinræktaða siðspillingu og mikið áhyggjuefni að svona mikill hljómgrunnur sé fyrir boðun hans.

Ef við fylgjum mönnum eins og Nix er ljóst að upplýsingasamfélagið breytist í hreina martröð þar sem engin leið er að vita hverju er hægt að treysta. (Það er þó verið að sporna á móti, sérstaklega innan ESB, og síðan má benda á löggjöf sem Bretar hyggjast setja þar sem verða hertar reglur um starfsemi svokallaðra áhrifavalda.)

Gísli Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður og rithöfundur, segir svo frá fundinum með Nix.

Það var einn besti fyrirlestur dagsins enda sýndi hann fram á að það er í raun ekkert sem heitir „frjálst val“ ef rétt er staðið að því að „velja fyrir fólk“. Cambridge Analytica var með 5 milljón $ á mánuði þegar þeir voru ráðgjafar í kosningabaráttu Trump. Þeir hafa líka unnið fyrir stofnanir eins og NRA.

Setti í mann óhug og maður fékk það óneitanlega á tilfinninguna að Alexander Nix væri ekki þjakaður af samfélagslegri ábyrgð þegar hann þeystist áfram á nýja dýra sportbílnum sínum.

Í Biblíunni stendur:

Þá sagði höggormurinn við konuna: „Vissulega munuð þið ekki deyja! En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“

En Cambridge Analytica hefur fundið leið framhjá því.

Frjálst val, gagnrýnin hugsun og frjáls vilji er ofmetinn. Það eru meiri peningar í því að taka „réttar“ ákvarðanir fyrir fólk með að höfða til tilfinninga þeirra, ótta, hrifnæmi og svoleiðis.

 

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is