Mánudagur 20.11.2017 - 09:01 - Ummæli ()

Stjórnarkreppa í Þýskalandi – er tími Merkel að renna út?

Hér á Íslandi horfa menn nokkuð til Þýskalands varðandi stjórnarmyndun. Þar var kosið 24. september og engin ríkisstjórn komin enn. Menn töluðu um að Þjóðverjar væru ekkert að flýta sér.

Skýringin er komin núna, það hefur ekki gengið saman með flokkunum sem reyndu að mynda stjórn, Kristilegum demókrötum Merkels, Græningjum og Frjálslyndum demókrötum. Í morgun vart tilkynnt að slitnað hefði upp úr viðræðunum.

Leiðtogi Frjálslyndra, Christian Lindner, segir:

Það er betra að vera ekki í stjórn en að stjórna illa.

Sósíaldemókratar vilja ekki fara aftur í breiða ríkisstjórn með Merkel og því virðist varla annað í kortunum en að kosið verði aftur. Það gæti reynst erfitt fyrir Merkel sem tapaði atkvæðum í kosningunum í september. Staða hennar hefur ekki verið veikari í annan tíma. Hún gæti líka reynt að skrapa saman í minnihlutastjórn, en það telst varla góður kostur fyrir hana.

Tími Merkel í stjórnmálum gæti brátt verið á enda.

Skoðanakannanir sýna að AfD, rasistaflokkurinn sem enginn vill vinna með í Þýskalandi, muni frekar styrkjast en hitt í nýjum kosningum. Evran hefur líka tekið dýfu við þessar fréttir, enda er óstöðugleiki í Þýskalandi ekki góð tíðindi fyrir Evrópusambandið.

Svo er spurning hvort menn vilja draga ályktanir af þessu á Íslandi. Hvað myndu enn einar kosningar hérna hafa í för með sér? Hverjir kæmu best út úr þeim?

 

Sunnudagur 19.11.2017 - 09:50 - Ummæli ()

Óskiljanlega metnaðarlaust Breiðholt

Ég tók þessa mynd af ferlíkinu sem er að rísa við höfnina og fyrir neðan Arnarhól og hefur fengið heitið Hafnartorg. Torgsnafnið er reyndar dálítið skrítið í ljósi þess að þarna eru aðallega mjög stórar byggingar.

 

 

Myndin er tekin ofan af Arnarhóli. Hér er gömul mynd sem er tekin frá svipuðu sjónarhorni. Tekin um 1930.

 

Myndina fann ég á bloggi eftir Andra Snæ Magnason frá því 2009, í grein sem nefnist Hvað á að gera við Miðborgina? Þar er hann að velta fyrir sér framtíð þessa svæðiðs og skrifar:

Ég held að besta tillagan væri að byggja svæðið upp eins og það er á þessari mynd. Ekki eins og Borgartún, ekki eins og Kringluna, ekki eins og Smáralind, Korputorg – ekki eins og Vallarhverfið eða Norðlingaholt, ekki eins og við myndum gera það heldur með því að færa höfnina aftur nær Hafnarstræti og hafa lágreist hús í kringum höfnina. Þarna má sjá sjóinn ná langleiðina inn að Eimskipafélagshúsinu. Það mætti jafnvel flytja Árbæjarsafn niðureftir. Miðborgin er ekki borg – hún er þorp, eins og Seyðisfjörður, Hafnarfjörður, Ísafjörður og Stykkishólmur. Þorpið þarf höfn – sem sæmir þorpi.

En nú sjáum við, á hinum mikla uppbyggingarskeiði, hvernig veruleikinn verður. Andri Snær setti inn þessa athugasemd í umræðu nú í vikunni.

 

Föstudagur 17.11.2017 - 19:11 - Ummæli ()

Hvað gerðum við án Pólverjanna?

Pólsk yfirvöld biðla til Pólverja sem búa og starfa í Danmörku að snúa heim. Það er mikill uppgangur í Póllandi og næga atvinnu að hafa. Eins og lesa má í þessari frétt RÚV eru 40 þúsund Pólverjar á vinnumarkaði í Danmörku.

Á Íslandi eru Pólverjar um 14 þúsund talsins. Þeir eru víða í atvinnulífinu, má jafnvel segja að þeir haldi uppi heilu atvinnugreinunum. Þeir þykja upp til hópa góðir og áreiðanlegir starfsmenn. Ég hef heyrt úr hópi Pólverja sem ég þekki á Íslandi að sumir þeirra hyggi nú á heimferð. Ástæðan er sú sem stendur hér að ofan, það er nóg við að vera í Póllandi – og svo bætist við að húsnæðisástandið er mjög erfitt á Íslandi, til dæmis mjög dýrt og erfitt að leigja.

En hvað myndum við gera án Pólverjanna? Þeir eru bókstaflega orðnir ein meginstoðin í atvinnulífinu hérna.

Við getum eiginlega ekki án þeirra verið.

 

Föstudagur 17.11.2017 - 10:55 - Ummæli ()

Heimasíða Pírata er horfin – og líka vefsíða Sjálfstæðisflokksins

Maður heyrir af fólki og félögum og fyrirtækjum sem eru í stórkostlegum vandræðum vegna hrunsins hjá vefhýsingarþjónustunni 1984 (brandarinn í nafninu virkar hálf vandræðalega núna). Blaðamaðurinn og netverjinn Eiríkur Jónsson skrifar á Facebook.

Hverjar eru skaðabætur fyrir að klúðra og týna fréttum fjölmiðils til næstum sex ára auk auglýsinga sem greitt hefur verið fyrir en sjást ekki lengur?….eirikurjonsson.is

Það eru ekki bara vefir sem eru horfnir heldur líka tölvupóstur sem finnst ekki og ekki heldur hægt að senda. Það er vægast sagt óþægilegt.

Vefsíða Pírata er horfin. Og líka vefsíða Sjálfstæðisflokksins. Þess  má  geta að 1984 er í eigu manna sem hafa starfað með Pírataflokknum.

 

 

Annars þarf maður kannski að hugsa sinn gang. Ég hef skrifað á vefinn síðan snemma árs 2000. Fyrst á Strikið – já, munið þið eftir þeim bráðskemmtilega vef – síðan á Vísi en síðustu tíu árin á Eyjuna.

Ég á greinarnar af Strikinu hvergi nema í útprenti. Vísisgreinarnar voru færðar yfir á Eyjuna og þar er ennþá hægt að finna pistlana. En það er óþægileg tilhugsun að þetta geti allt horfið eins og dögg fyrir sólu.

Fimmtudagur 16.11.2017 - 17:13 - Ummæli ()

Máltöfrar Jónasar

Það er dagur íslenskrar tungu og afmæli Jónasar Hallgrímssonar. Sá maður var ótrúlegt séní. Hann elskaði tunguna – eða kannski er réttara að segja að tungan hafi elskað hann. Allt sem Jónas kom nærri var svo furðulega kliðmjúkt og þokkafullt. Það á jafnt við um kvæðin hans og öll nýyrðin sem hann bjó til.

Því Jónas var einn helsti nýyrðasmiður íslenskunnar – þessa tungumáls þar sem auðvitað vantaði orð yfir ýmsa hluti þegar þjóðin komst loks í tæri við nútímann og umheiminn.

Vissuð þið að Jónas bjó til orðin páfagaukur og mörgæs? Hann bjó reyndar líka til orðið framsókn sem síðar varð nafnið á stjórnmálaflokki.

Og svo eru orð eins og aðdráttarafl, almyrkvi, dýrafræði, efnafræði, einstaklingar, fábrotinn, geislabaugur, haförn, himingeimur, knattborð, líffæri, lífvörður, ljóshraði og ljósvaki, munaðarleysingi, sjónauki, skjaldbaka, sólmyrkvi, sólmiðjaspendýr, stjörnuþoka, svarthol, undirgöng, þjóðkjörinn, æðakerfi.

Allt hljómar svo fallega – þetta eru svo fín íslensk orð og einhvern finnur maður fyrir töfrasnertingu Jónasar.

Loks má nefna orðið þjóðareign. Það er komið úr smiðju Jónasar. Sumir hafa viljað halda því fram í seinni tíð að ekki sé til neitt sem heiti þjóðareign. En það er eins og hver önnur þrætubók.

 

 

Fimmtudagur 16.11.2017 - 11:30 - Ummæli ()

Hugmyndaauðgi, skáldskapur og listræn sýn í arkítektúr – og skortur á þessu

Þessar ljósmyndir eru af stórkostlegu nýju bókasafnið sem hefur risið í borginni Tianjin í Kína, Byggingin hefur þegar vakið heimsathygli og maður skilur hvers vegna. Höfundar byggingarinnar starfa á arkitektastofunni MVRDV í Rotterdam í Hollandi.

 

 

 

MVRDV er ein af leiðandi arkitektastofum í heiminum og teikna mannvirki út um allan heim. Það er gaman að skoða heimasíðuna. Maður rekst þar á ýmis hús og skipulagsverkefni sem gleðja augað eins og markaðsbygginguna í Rotterdam frá 2014.

 

 

Og hér er svo líkan að svokölluðum framtíðargarði sem stendur til að reisa í Pudong hverfinu í Shanghai. MVRDV vann samkeppni með þessum tillögum að menningarmiðstöð og lystigarði sem verða alls 100 þúsund fermetrar.

 

 

Hér í Reykjavík erum við á gríðarlegu uppbyggingarskeiði. En hér gengur allt út á að byggja sem mest og sem hraðast, húsin beinlínis þrýstast upp úr jörðinni og varla að maður skynji að neitt sé hugsað um samræmi eða fagurfræði.

Það virðist líka vera sár vöntun á því að ímyndunarafl og sköpunargáfa fái að njóta sín í þessum nýbyggingum. Þær eru kassalaga, virka skelfing praktískar, aðallega þó fyrir það sem byggja og fjármagna, en það mun enginn leggja á sig nein ferðalög til að skoða þær.

Einhvern veginn finnst manni eins og þarna sé spurning um glötuð tækifæri. Við höfðum möguleika á að byggja upp glæsilega í Miðborginni en þá hvarf úr okkur allur skáldskapur og listræn sýn. Excel-ið tók völdin.

 

 

 

Fimmtudagur 16.11.2017 - 08:00 - Ummæli ()

Glundroði á skrifborði

Samstarfskona mín Ragnheiður Thorsteinsson var beðin um að taka svart/hvíta ljósmynd af einhverju hversdagslegu myndefni og setja á netið.

Þetta valdi hún.

Bókahaugurinn á skrifborði umsjónamanns Kiljunnar. Virkar eins og algjör glundroði.

 

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is