Þriðjudagur 21.10.2014 - 19:09 - Ummæli ()

Ljósmyndaverk Sigurðar, þrjár kynslóðir kvenna, Sauðlauksdalur

Í Kiljunni á miðvikudagskvöld fjöllum við um nýútkomna bók sem inniheldur öll ljósmyndaverk Sigurðar Guðmundssonar frá árunum 1970 til 1982. Þessi verk eru í senn ljóðræn og fyndin og hafa borið hróður Sigurðar víða um lönd.

Helga Guðrún Johnson segir frá bókinni Saga þeirra, sagan mín. Þarna er rakin saga þriggja kynslóða kvenna, sú elsta, Katrín Thorsteinsson, átti barn með Hannesi Hafstein, dóttir hennar, Ingibjörg Briem, giftist auðugum Breta en þjáðist af alkóhólisma – sagan er sögð af sjónarhóli dóttur hennar, Katrínar Stellu Briem.

Anton Helgi Jónsson flytur ljóð úr bókinni Tvífari gerir sig heimakominn. Við fáum að heyra hverjar eru uppáhaldsbækur Ásdísar Þórólfsdóttur spænskukennara. Í dagskrárliðnum Bækur og staðir förum við í Sauðlauksdal.

Gagnrýnendur þáttarins fjalla um þrjár bækur: Koparakur eftir Gyrði Elíasson, Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Stundarfró eftir Orra Harðarson.

 

8cb0c51421e13f5f1b8f6c1bfba6d2d4

Fjall eftir Sigurð Guðmundsson.

Þriðjudagur 21.10.2014 - 16:21 - Ummæli ()

Peningarnir eru ekki aðalatriði, heldur stefnan

Nú skilst manni að Norðmenn séu hikandi við að gefa okkur jólatré, en gefi vélbyssur mjög frjálslega.

Í hinu stóra samhengi skiptir engu máli hvort hríðskotabyssur voru keyptar af Norðmönnum eða hvort þær voru gjöf frá Norðmönnum.

Það sem skiptir máli er stefnan – og það er hún sem á ekki að vera leyndarmál. Vopnaburður hefur alltaf verið viðkvæmt mál á Íslandi – það er beinlínis partur af þjóðarímyndinni að við séum friðsöm, vopnlaus þjóð.

Marinó Gunnar Njálsson orðar þetta sérlega vel á Facebook:

Íslenska lögreglan skotvopnavæðir bíla sína vegna þess að Norðmönnum datt af óskiljanlegri ástæðu að gefa henni vopnin. Ræður þá norska lögreglan því að hér fari skotvopn í íslenska lögreglubíla?

Svona eru ákvarðanir ekki teknar af engum: 1. Einhver samþykkti að taka við gjöfinni. 2. Einhver ákvað að vopnunum yrði dreift út um allt land. 3. Einhver skipulagði þjálfun lögreglumannanna. Spurningin er: Hver er þessi einhver? Var það ráðherra, embættismaður í innanríkisráðuneytinu, ríkislögreglustjóri, lögreglustjórar/sýslumenn eða einhver annar. Hvaða verkferlum var fylgt við þessa ákvörðun? Hafði verið gert áhættumat sem studdi þessa aðgerð?

En ef ekki fást svör um þetta úr íslenska stjórnkerfinu, þá má kannski reyna að spyrja Norðmenn hvernig standi á þessari „gjöf“. Var hún að þeirra frumkvæði eða bað þá einhver um að gefa vopn?

Heckler_Koch_MP5

Þriðjudagur 21.10.2014 - 11:46 - Ummæli ()

Æ, nei snjór – og ekki kominn vetur

Veturinn er ekki einu sinni byrjaður samkvæmt tímatalinu, en það hefur snjóað í nótt.

Spáð frosti í dag svo varla tekur snjóinn upp.

Sums staðar úti á landi er enn meiri snjór – landsbyggðarfólki finnst alltaf að við Reykvíkingar séum að væla þegar við tölum um snjó.

Ég verð að segja eins og ég er að ég nenni þessu ekki, skaferíi og vangaveltum um hvort eigi að setja snjódekk undir bílinn.

Snjódekk fóru undir hann í fyrra eftir að hafði gert snjókomu snemma vetrar, en svo kom ekki mikið meiri snjór og maður ók um hálf skömmustulegur yfir því að spæna upp malbikið að óþörfu.

Mig minnir að þetta hafi verið svona, en ég er reyndar ekki sérlega veðurminnugur.

Þriðjudagur 21.10.2014 - 09:26 - Ummæli ()

DV: Leynileg vopnakaup lögreglu

DV skýrir frá því í morgun að hafin sé stórfelld vopnavæðing lögreglunnar. Að framvegis verði allir lögreglubílar búnir skammbyssum og hríðskotabyssum. Í fréttinni segir að keyptar hafi verið 200 hríðskotabyssur.

Þetta eru tíðindi – og líka það að þarna hafi ríkt leynd.

Ísland er jú eitt friðsælasta land í heimi og státar sig af því að vopnaburður er mjög fátíður.

Um stefnubreytingu af þessu tagi þarf að vera umræða í samfélaginu, sé þörf á þessum vopnum eiga yfirvöld lögreglumála að skýra það út fyrir almenningi. Þetta hlýtur að byggja á einhverju mati.

Hvað er það sem útheimtir þessi vopn? Þurfa lögreglumenn að beita þeim eða er nægilegt að hótunin sé til staðar? En þarf þá ekki að segja frá tilvist vopnanna?

Hver er hættan, hefur vopnaeign farið vaxandi í undirheimum eða óttast menn hryðjuverkaárásir?

Hefðu vægari úrræði dugað, eins og til dæmis rafbyssur?

Og hví þessi leynd?

Mánudagur 20.10.2014 - 15:49 - Ummæli ()

Afstýrum verkfalli tónlistarkennara

Ég ætla ekki að trúa því upp á sveitarfélögin í landinu að þau láti viðgangast að tónlistarkennarar fari í verkfall sem gæti orðið langt og strangt. Verkfallið á að hefjast á miðvikudaginn.

Því tónlistarkennarar hafa kannski ekki ýkja mikinn slagkraft í verkfalli – það gerist jú ekki annað en að börn og unglingar missa af spilatímum og tímum í tónfræði.

En gleymum því ekki að tónlistarkennslan í landinu er afar verðmæt. Hún hefur orðið þess valdandi að Íslendingar – sem áttu sama og enga tónlist á árum áður – eru nú mikil tónlistarþjóð. Tónlistin ber hróður okkar víða um álfu – ekkert bætir heldur geð landans eins og hún.

Góðir tónlistarskólar hafa verið stolt sveitarfélaga. Það eru dæmi um að fólk vilji ekki flytja á staði þar sem er ekki almennilegt tónlistarnám.

En því miður hefur verið þrengt að tónlistarnáminu á undanförnum árum. Kennslan hefur minnkað – og laun tónlistarkennara hafa dregist aftur úr.

Manni heyrist að hvorki gangi né reki í samningaviðræðunum – og að uppi séu hægræðingarhugmyndir sem gætu stórskaðað tónlistarnámið. Það er ekki hægt að skera meira án þess að það bitni á gæðum námsins.

Maður vonar að það sé ekki satt, að sveitarfélögin nálgist þessa samninga af jákvæðni og sanngirni – studdir vonandi dyggilega af tónelskum menntamálaráðherra sem sjálfur leikur vel á hljóðfæri eftir að hafa notið tónlistarnáms í æsku.

 

10305039_10152425233173587_6411641709163378943_n

 

 

Mánudagur 20.10.2014 - 12:20 - Ummæli ()

Vesturfarar 9. þáttur – horfið hér

Hér má sjá 9. þátt Vesturfara sem sýndur var í sjónvarpinu í gærkvöldi.

Þarna erum við komin til Alberta, undir Klettafjöllin, en þar nam skáldið Stephan G. Stephansson land og þar búa afkomendur hans enn.

Horfið á þáttinn með því að smella hérna.

9 tattur

Mánudagur 20.10.2014 - 10:08 - Ummæli ()

Gáttin er opin

Því miður hefur fjölgað mjög í hópnum Mótmælum mosku á Íslandi. Síðast þegar ég tékkaði voru meðlimir um 2000, nú eru þeir 5026.

Samhliða því er vefurinn orðinn miklu harðari, orðbragðið er orðið ljótara en áður, stafsetningin verri, hatrið meira – og allt saman ógeðfelldara.

Það er vísast alveg rétt sem sagt var, það var opnað fyrir gátt síðastiðið vor og óhroðinn streymir út, samanber þessa færslu sem virðist vera komin frá sjálfum ritstjóra vefsins – hver sem hann er.

 

10015169_10204385244849764_810676855483747167_n

Það er spurning hvernig á að tækla svona. Guðfræðingurinn Bjarni Randver Sigurvinsson reynir malda í móinn, en fær yfir sig skammir. Bjarni er formaður Starfshóps þjóðkirkjunnar um samskipti við önnur trúarbrögð. Hann spyr:

Kæru vinir úr samtökunum Mótmælum mosku á Íslandi, hvernig getið þið stutt hatursboðskapinn sem þau standa fyrir og boða upp á hvern einasta dag?

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is