Þriðjudagur 20.03.2018 - 22:50 - Ummæli ()

Krónan veldur búsifjum

Þá er dollarinn kominn niður fyrir 100 kall. Það er ekki mikið umræða um gjaldmiðilsmálin núna, Bjarni Benediktsson segir að við skulum byggja á krónunni – væntanlega er öll ríkisstjórnin sammála um það. Svo verður umræða tekin eftur eftir næstu kollsteyptu.

Pétur Óskarsson, sem starfar í ferðaþjónustu, setti þessi orð inn á Facebook ásamt meðfylgjandi mynd:

Við sem erum að selja íslenska ferðaþjónustu erlendis finnum flest fyrir því að íslenska krónan er að valda miklum búsifjum í ferðaþjónustunni sem eru að koma uppá yfirborðið á þessu ári. Það er mikill samdráttur í kortunum frá okkar kjarnamarkaði í Mið-Evrópu, það mun bitna harkalega á landsbyggðinni. Þrátt fyrir þessi alvarlegu viðvörunarmerki heldur krónan áfram að styrkjast.

Jú, það er reyndar heilmikið af ferðamönnum á Íslandi, en maður hefur á tilfinningu að stór hluti þeirra staldri afar stutt við og þori varla að taka upp veskið.

 

Þriðjudagur 20.03.2018 - 09:35 - Ummæli ()

Katrín vekur athygli í Þýskalandi

Heimsókn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til Þýskalands verkur óvenju mikla athygli miðað við opinbera heimsókn af þessu tagi. Víðlesnasta blað Þýskalands, Bild, birtir þessa frétt um fund Katrínar og Angelu Merkel kanslara í Berlín. Nýtt andlit á stjórnmálasviðinu, segir þar. Í myndatextanum segir að þarna hittist tvær konur og þjóðarleiðtogar. En í fyrirsögn eru lesendur hvattir til að taka vel eftir því hverjum Merkel heilsar þarna.

Það er sagt frá því í blaðinu að báðar leiði þær stórar samsteypustjórnir. Merkel starfar með flokki Sósíaldemókrata, en Katrín hafi myndað stjórn með íhaldsmönnum og flokki sem þeir kalla á þýsku Fortschrittspartei.

Svo er athyglisvert að sjá hvað Merkel er léttari á myndunum með Katrínu en þegar hún hittir Trump og Pútín.

 

Mánudagur 19.03.2018 - 22:46 - Ummæli ()

Svaraðu nú Zuckerberg!

Þetta er forsíða danska blaðsins Politiken frá því í dag. Zuckerberg á að skýra út pólitíska misnotkun á Facebook upplýsingum. Hvað annað?

Því hefur verið ljóstrað upp að 50 milljón Facebook prófílar hafi verið teknir traustataki og notaðir af hinu vafasama fyrirtæki Cambridge Analytics.

Forstjóri þess og hugmyndafræðingur hélt um daginn fyrirlestur í Reykjavík í boði Advania. Honum var víst vel fagnað enda er það því miður oft þannig í viðskptalífinu að vafasamt athæfi þykir flott – þ.e. ef menn komast upp með það. En þar sem Alexander Nix er annars vegar er ljóst að fundargestir hafa klappað fyrir siðleysingja. Samkvæmt nýjustu fregnum virðist hann líka vera glæpamaður.

Zuckerberg svarar auðvitað ekki neinu. Risafyrirtækið Facebook hafði heldur ekki fyrir því að tilkynna um þessa misnotkun. Það þarf uppljóstararann Christopher Wylie til að segja frá því. Zuckerberg felur sig bak við milljarða sína.

Samskiptamiðlar eru því miður að breytast í forarvilpu. Fyrirtæki sitja um að komast yfir upplýsingar um notendurna, flestir í hagnaðarskyni en sumir í pólitískum tilgangi. Facebook er útbíuð í fölskum fréttum og samsæriskenningaþrugli. Hún ruglar en upplýsir ekki.

Enn bætist svo við áreitið. Það eru svokallaðir áhrifavaldar. Þetta er fólk sem stundar misjafnlega dulda auglýsingastarfsemi á samskiptamiðlunum. Þannig þurrkast út mörkin milli mannlegra samskipta, auglýsinga og sölumennsku. Þetta gætu verið bestu vinir þínir sem eru að þiggja laun, þjónustu eða sporslur fyrir að segja þér að fara á ákveðinn veitingastað, versla við símafyrirtæki eða kaupa föt af einhverju tilteknu merki.

Lagalegur grunnur þessa er reyndar býsna óviss – en það eru haldnar fjöldasamkomur þar sem starfsemi af þessu tagi er kynnt sem eitthvað sérstaklega frábært og æskilegt, líkt og það sé partur af trúboði.

Hvað er til ráða? Auðvitað ætti maður að eyða Facebook-reikningnum eins og er lagt til í þessari grein og líka Instagram og Messenger enda ljóst að réttindi notenda eru virt algjörlega að vettugi.

 

Mánudagur 19.03.2018 - 12:14 - Ummæli ()

Landsfundurinn: Skattalækkanir, niðurskurður, einkavæðing og sprengja undir EES

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var mjög friðsamur, það virðist ríkja eindrægni í flokknum. Formaðurinn var endurkjörinn með gríðarlegum meirihluta og nýr varaformaður fékk líka feikilega góða kosningu.

En það er eitt og annað sem er athygli vert af fundinum, og ekki bara hin nokkuð óskýra málsgrein um Landspítalann í stjórnmálaályktuninni. Menn eru þegar farnir að þrátta um hvað hún þýðir.

Í fjárlaganefnd landsfundarins var ályktað að útgjöld hins opinbera verði ekki meira en 35 prósent af landsframleiðslu árið 2025. Þau eru nú um 45 prósent af landsframleiðslu sem er minna en víða í nágrannalöndum.

Þetta myndi því þýða gríðarlegan niðurskurð – og kannski ekki líklegt að það verði að veruleika. Þarna er líka að finna tillögur að mikilli einkavæðingu.

Sjálfstæðisflokkurinn telur að selja eigi ákveðnar ríkiseignir s.s. eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, Landsbanka, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Íslandspósti og annan samkeppnisrekstur. Öll söluferli verða að vera opin og leikreglur skýrar. Þá er rétt að leggja niður ÁTVR og RÚV í núverandi mynd.

Í framhaldi af þessu kemur svo ályktun úr efnahags- og viðskiptanefnd fundarins þar sem segir að stefnt skuli að því að tekjuskattur og útsvar einstaklinga lækki á næstu árum og verði 25 prósent árið 2025.

Raunsætt mat – það verður að segjast eins og er að fæst af þessu er líklegt til að verða að veruleika í ríkisstjórnarsamstarfi með Vinstri grænum. Samt mátti skilja á fundinum að Sjálfstæðismenn væru þokkalega ánægðir með það.

Í ályktun utanríkismálanefndar landsfundarins er hvatt til þess að gerð verði úttekt á reynslunni af EES samningum. Það er örugglega tímabært. En svo má nefna ályktun atvinnuveganefndar þar sem er hafnað

Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.

Þetta síðasta hefur vakið athygli út fyrir landsteinana en í Noregi er nú mikið um þetta fjallað. Segir á vefnum Abc Nyheter að Íslendingar hafi sprengt sprengju undir Acer, orkustofnun Evrópusambandsins. Norðmenn tengjast raforkukerfi ESB og er hugsanlegt að þeir missi að einhverju leyti forræði yfir orkumálum sínum. Ísland tengist ekki orkukerfinu en við yrðum þó væntanlega sett undir þessa tilskipun.

Það er heldur ekki ólíklegt að í þessu máli geti Sjálfstæðisflokkurinn fundið samhljóm með hinum stjórnarflokkunum, ólíkt málunum sem eru nefnd ofar í pistlinum.

 

Sunnudagur 18.03.2018 - 16:41 - Ummæli ()

Hvað þýðir ályktun Sjálfstæðisflokksins um spítalann?

Sjálfstæðisflokkurinn ályktar á landsfundi um byggingu Landspítalans. Það segir að ljúka eigi uppbygginguá Landspítalalóð sem er komin á framkvæmdastig og tengist núverandi starfsemi. En að farið verði tafarlaust í staðarvalsgreiningu fyrir framtíðaruppbyggingu sjúkrahúsþjónustu.

 

 

Nú áttar maður sig ekki alveg á því hvað þetta þýðir. Þetta er frekar óskýrt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til verið hlynntur spítalabyggingunni við Hringbraut. Eftir því plani var unnið í tíð Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra. Er þetta stefnubreyting? Er Sjálfstæðisflokkurinn að færa sig yfir á línu Miðflokksins sem er harður á móti því að spítalinn rísi við Hringbrautina?

Hvað þýðir að lokið verði uppbyggingu „sem er komin á framkvæmdastig og tengist núverandi starfsemi“? Hvar á þá að setja punkt aftan við framkvæmdirnar? Tafarlaus staðarvalsgreining yrði þá fyrir hvaða hluta sjúkrahúsþjónustunnar?

Og hvað segir Svandís heilbrigðisráðherra hinnar fárra mánaða gömlu ríkisstjórnar?

 

Sunnudagur 18.03.2018 - 13:27 - Ummæli ()

Fallegt hús í Hafnarstræti – en nokkur þyngsli við hliðina á

Þessi mynd sem var tekin í morgun sýnir hús sem hefur verið endurbyggt við austurenda Hafnarstrætis. Hluti þess er nýr, framlengingin sem teygir sig inn í Tryggvagötuna. Þarna var lengi Rammagerðin til húsa. Egill Aðalsteinsson, tökumaður á Stöð 2, er höfundur myndarinnar og gaf mér leyfi til að nota hana.

Þetta er sérlega fallegt – svo einfalt er það. Húsið sem var fyrir var orðið mjög hrörlegt. Þarna hefur það verið gert mjög laglega upp og viðbæturnar eru einstaklega skemmtilegar, bæði viðbyggingin sem minnir dálítið á svokallaða Flatiron byggingu  í New York og svo þakbyggingin með svölum sem vísa í suður.

Þarna á víst að vera lúxushótel – gott og vel. Húsið er bæjarprýði og þarna svífur yfir vötnunum andi steinsteypuklassíkurinnar sem er að finna hér og þar í Reykjavík, til dæmis í húsi Eimskipafélagsins sem er þarna innar í götunni. Mikil gæfa hefði það verið ef fleiri byggingar hefðu risið í þeim stíl í bænum.

Maður hefur hins vegar nokkrar áhyggjur af byggingunum sem eru að rísa þarna norðanvið, á hinu svonefnda Hafnartorgi. Þær virka ennþá stærri en þær sýndust á myndum arktitektanna. Og við hliðina þessu þokkafulla og glaðlega húsi virka þær býsna þunglamalegar.

 

Laugardagur 17.03.2018 - 19:13 - Ummæli ()

Einræðið sækir í sig veðrið

Það gerðist um daginn og fór ekkert sérlega hátt að forseti Kína hefur tekið sér einræðisvald. Það eru ekki lengur nein takmörk á því hvað Xi Jinping getur setið lengi í embætti – hann getur verið þar eins lengi og honum sýnist nema klíkubræður hans í Kommúnistaflokknum ákveði að gera hallarbyltingu.

Heimurinn er ekki beint að þokast í átt til lýðræðis.

Á morgun verður Vladimir Pútín endurkjörinn forseti Rússlands í kosningum sem eru í raun ekki annað en skrípaleikur. Það hefur verið komið í veg fyrir að pólitískir andstæðingar Pútíns nái að bjóða fram. Þeir fá heldur ekki tíma í fjölmiðlum. Þetta er svo öruggt að Pútín hefur varla nennt að reka kosningabaráttu.  Hin eina sem er óljóst í þessum kosningum er hversu margir greiða atkvæði. Lítil kjörsókn gæti reynst pínleg fyrir forsetann. En eftirlitið með kosningunum er mjög lélegt, svo tölunum er tæplega treystandi.

Erdogan, forseti Tyrklands, gerist sífellt ófyrirleitnari. Hann er nú kominn í stríð gegn Kúrdum inni í Sýrlandi. Það er ójafn leikur. Tyrkland býr yfir miklum hernaðarmætti. Fjöldi blaðamanna situr í fangelsi í Tyrklandi, sumir hafa meira að segja fengið lífstíðardóma. Það er sagt að ferðamannaiðnaðurinn í Tyrklandi muni ná sér aftur fullkomlega á strik á þessu ári, en miðað við fréttirnar sem berast frá landinu er erfitt að trúa því.

Við höfum hinn skelfilega Donald Trump í Hvíta húsinu. Mestur tími hans virðist reyndar fara í að hreinsa burt þá sem honum mislíkar við – rétt eins og þegar hann var með sjónvarpsþáttinn The Apprentice. Þannig virka bandarísk stjórnmál þessa dagana eins fjarstæðukennt raunveruleikasjónvarp. Verri auglýsingu fyrir lýðræðið er varla hægt að hugsa sér.

Það er líka merkilegt að margir þeirra sem hrífast af Trump eru snoknir fyrir leiðtogunum sem sækjast eftir einræði – þar er ákveðið sniðmengi. Tiltrúin á lýðræðinu er svo lítil að óvinir þess eiga sér furðulega marga formælendur á Vesturlöndum, sama hvaða fantaskap og fúlmennskubrögðum þeir beita.

 

 

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is