Föstudagur 28.11.2014 - 16:43 - Ummæli ()

Spiegel: Kort um uppruna ISIS

Der Spiegel birtir þetta kort þar sem koma fram tölur um fjölda þeirra sem hafa farið til að berjast með ISIS samtökunum í Írak og Sýrlandi.

Þetta er býsna skuggalegt. ISIS eru fasísk stjórnmálasamtök sem byggja á draumum um tortímingu og kúgun. Þetta er einhver viðurstyggilegasta óværa sem hefur sést í heimspólitíkinni í langan tíma.

Hvað er það sem rekur ungt fólk frá Vesturlöndum til að fara og berjast með svona félagsskap? Hvað á að gera við þetta unga fólk ef og þegar það snýr aftur til heimalanda sinna? Er hægt að koma í veg fyrir að það komist aftur inn? Er hægt að dæma það, loka það inni, koma vitinu fyrir það?

Og svo er stóra spurningin – hversu mikil hætta stafar af því heimkomnu?

Kortið sýnir hversu nauðsynlegt er að ráða niðurlögum þessarar hreyfingar.

image-782535-galleryV9-okhv

 

Föstudagur 28.11.2014 - 13:17 - Ummæli ()

Hefðbundnir stjórnmálaflokkar í kreppu

Stjórnmálaflokkarnir íslensku hafa verið í sjálfheldu allt frá hruni, segir Styrmir Gunnarsson í pistli á heimasíðu sinni.

Það er margt til í þessu hjá morgunblaðsritstjóranum fyrrverandi, hann nefnir að Sjálfstæðisflokkurinn sé fastur í 25-30 prósenta fylgi, Framsókn tapi líka fylgi,en stjórnarandstaðan sæki samt ekki á.

En eins og Styrmir nefnir er þetta alþjóðlegt fyrirbæri. Staðreyndin er sú að gamlar pólitískar elítur, hvort sem er á vinstri eða hægri væng eiga í vök að verjast.

Í staðinn sækja fram flokkar eins og UKIP í Bretlandi, Þjóðarflokkurinn í Danmörku og Þjóðfylkingin í Frakklandi, pópúlískir flokkar á hægri væng, en af vinstri vængnum koma flokkar eins og Syriza í Grikklandi og Podemos á Spáni – og eru kannski ekki síður pópúlískir. Og svo eru þjóðernissinnar eins og í Skotlandi og Katalóníu.

Enn er mjög takmarkað hvað þessir flokkar eru komnir til valda, en það gæti auðvitað breyst. Hins vegar hafa þeir áhrif á aðra flokka, skýrt dæmi er hvernig UKIP er að sveigja stefnu Íhaldsflokksins í Bretlandi.

Styrmir spyr hvers vegna þessar breytingar séu ekki ræddar á fundum íslensku flokkanna, en Ísland er ekki sér á báti fremur en endranær.

Skýringanna er að leita á ýmsum stöðum. Hefðbundnir flokkar eru alls staðar að missa atkvæðahlutdeild sína. Fólk er ekki lengur jafn handgengið flokkum og áður, kjósendur eru miklu óráðnari. Starfandi flokksmönnum hefur fækkað mikið. Kosningaþátttaka minnkar. Upplýsingaflæðið gegnum samskiptamiðla hefur sín áhrif, en ekki síður ákveðin magnleysiskennd – sú  tilfinning að stjórnmálin séu langt frá almenningi, að akvæði hans og framlag skipti engu máli, því hin raunverulegu völd liggi hjá fámennum klíkum.

Hið sorglega er svo að flestir hinna nýju flokka eru heldur ógeðfelldir, gera út á ónánægju og reiði, en hafa fátt uppbyggilegt til málanna að leggja. Þannig að vonin um betri stjórnmál er býsna fjarlæg.

Föstudagur 28.11.2014 - 10:15 - Ummæli ()

Verðmætar innréttingar

Fatabúðin var verslun sem rakti sögu sína til 1916. Seldi sængurföt og slíkt – það er einhver mesti lúxus sem hægt er að hugsa sér að leggjast til svefns í brakandi hreinum sængurfötum úr góðu efni.

Fyrir stuttu hætti verslunin, en hún var til húsa í stóru fallegu húsi sem er á gatnamótum Skólavörðustígs, Klapparstígs og Njálsgötu. Húsnúmerið er Skólavörðustígur 21.

 

539387_10151238804920358_1633526034_n

 

Síðan hefur þar starfað reglulega falleg búð sem selur skyrtur. Það sem er mikilvægast er að innréttingarnar úr Fatabúðinni halda sér enn. Þær munu vera síðan 1947.

 

Screen Shot 2014-11-28 at 10.04.28

Nú skilst manni að standi til að opna asískan veitingastað í þessu húsnæði. Annar vinsæll veitingastaður, Noodle Station, er þar fyrir. Það væri afar vont ef það þýddi að menningarverðmætin sem eru fólgin í innréttingunum myndu hverfa.

Því hús eru ekki bara ytra byrði. Fágætar innréttingar hafa verið skemmdar á undanförnum árum, eins og til dæmis Naustið, búð Egils Jacobsens í Austurstræti og Mímisbar á Hótel Sögu.

Eins og einn vinur minn á Facebook orðar það:

Maður bíður með öndina í hálsinum að Mokka verði breytt í lopapeysubúð.

Fimmtudagur 27.11.2014 - 23:18 - Ummæli ()

Stórhneyksli í breskum matvælaiðnaði – mikill meirihluti kjúklinga sýktur

Hneyksli skekur matvælamarkaðinn í Bretlandi.  Prófanir sýna að 8 af 10 kjúklingum í breskum stórmörkuðum eru smitaðir af kampýlóbakter.

18 prósent af kjúklingunum höfðu kampýlóbakter í miklum mæli, í 6 prósentum tilvika fannst þessi ófögnuður á umbúðum.

Þetta kom í ljós eftir prófanir sem voru gerðar á sex mánaða tímabili.

Verst kom verslanakeðjan Asda út, en hlutfallið var aðeins lægra í Marks & Spencer og Tesco. Þó var kamfplóbakter í meira en tveimur þriðju kjúklinga í þessum verslunum.

Steve Wearne, sem er forstjóri FSA, matvælaeftirlitisins í Bretlandi segir að framleiðendur verði að taka sig verulega á og að neytendur þurfi að vera á verði. Um 280 þúsund manns sýkjast af kampýlóbakter í Bretlandi á hverju ári.

Tim Lange, sem er prófessor í matvælafræði við London City University og ráðgjafi stjórnvalda varðandi matvælaeftirlit, gengur lengra. Hann segir að almenningur eigi að hætta að kaupa kjúklinga. Það þurfi að bregðast hart við þessari fráleitu stöðu. Þetta sé sé eitt stærsta hneyksli í sögu matvælaiðnaðarins í Bretlandi, ekki minna en þegar menn voru að setja alls kyns aukaefni í mat á 19. öld.

 

001_boerderij-image-1473287

Fimmtudagur 27.11.2014 - 20:22 - Ummæli ()

Samningafíkillinn sem fór inn í Ísland

Björgólfur Thor Björgólfsson lýsir sjálfum sér sem samningafíkli – deal junkie.

Þetta er annað orð yfir spákaupmennska eða hreinlega braskara.

Það  er hreinskilnislegt hjá Björgólfi að tala um sjálfan sig með þessum hætti. Braskarar eru meinsemd í alþjóða hagkerfinu – og því miður eru það þeir sem hafa orðið ofan á frá og eru á sinn hátt að eyðileggja kapítalismann innan í frá. Þeir eru verstu óvinir hans.

Við lifum líkt og risastóru spilavíti. Spákaupmennskan tekur ekkert mið af hag fólks eða fyrirtækja.

Svo er Björgólfur búinn að finna ýmis atriði til að afsaka stjórn þeirra feðga, Björgólfs eldri og hans á Landsbankanum.

Það var í raun týpískt braskdæmi – eða samningafíkn, eins og Björgólfur kýs að kaupa það.

Íslenskur ríkisbanki er keyptur, hann er gíraður upp út fyrir allt sem skynsamlegt getur talist – og stórum fjárhæðum veitt til samningafíklanna.

Skítt með að bankinn hafi verið ein undirstaða íslensks samfélags og þúsundir Íslendinga hafi reitt sig á að hann væri heilbrigður.

En Björgólfur veit hverjum þetta var að kenna. Það var „íslenska kerfið“, það „tók“ meira að segja pabba hans „niður“. Það hefur líklega neytt upp á hann allar þessar skuldir, þegar það var búið að láta hann hafa banka á spottprís og útvega lán fyrir honum.

Björgólfur segir þó hreinskilnislega – í viðtali sem virkar nánast eins og skopstæling bæði vegna hugmyndanna og orðfærisins – að það hafi verið mistök hjá sér að „fara aftur inn í Ísland“.

Það eru mjög margir sammála því.

 

Fimmtudagur 27.11.2014 - 13:29 - Ummæli ()

Bjartmarz ekki af baki dottinn

Eftir mikil undanbrögð þar sem hver vísaði á annan, voru hríðskotabyssurnar frá Noregi sendar heim. Það kom á daginn þær voru ekki gjöf – og þá vildi Landhelgisgæslan nota peningana í annað.

En yfirlögregluþjónninn Jón Bjartmarz er ekki af baki dottinn. Nú vill hann fá vélbyssur eftir öðrum leiðum – og ber við ógninni sem starfar af íslömsku hryðjuverkasamtökunum ISIS.

Nú eru þetta að sönnu ógeðsleg samtök, en ekkert hefur þó komið á daginn sem bendir til þess að þau starfi hér. Vissulega er rétt að fylgjast með því.

Frétt af þessu í DV vekur athygli, en þó ekki síst myndskreytingin, þetta er samsett mynd. Þarna er hinn byssuglaði Jón Bjartmarz með vélbyssu. Fyrir aftan hann er ISIS-liði í Ninja-búningi veifandi svörtum fána. Í bakgrunni er svo sjoppa á Vesturgötunni.

Hún hefur verið í eigu erlendra aðila, en ekki er vitað til að hún sé gróðrarstía fyrir íslamska fasismann.

Lögreglan þarf sjálfsagt einhver vopn, þótt ljóst sé að okkur stafar miklu meiri hætta af náttúrunni á tíma þegar geisar eldgos. Það er komið í ljós að örstutt er þar ofan í möttul jarðar, manni líður allt í einu eins og maður gangi ofan á þunnu skæni með glóandi eld undir.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki sannfærður um að við Íslendingar séum nógu vel búnir undir hamfaragos.

Eins og áður hefur verið margsinnis bent á hefur ofbeldisglæpum fækkað á Vesturlöndum. Enn höfum við í vestrinu heldur ekki upplifað hryðjuverk af völdum ISIS.
2bd4662f4a6d2ce74a86e7cf9ff4ee1c

Hin samsetta mynd úr DV sem getið er í greininni.

Miðvikudagur 26.11.2014 - 22:47 - Ummæli ()

Ný fasteignabóla?

Spá um að fasteignaverð hækki um 24 prósent á næstu árum virkar ótrúlega. En sé þetta rétt erum við að horfa upp á sérkennilegan veruleika – og í raun nýja fasteignabólu. Þarna eru hækkanir í svipuðum dúr og var fyrir hrun, en nú í hagkerfi sem er bundið í höft og þar sem lífeyrissjóðir og fjármagnseigendur eru í linnulausri leit að einhverju til að fjárfesta í.

Það er spáð lágri verðbólgu, stór hluti fasteignaeigenda er að fá leiðréttingu á „forsendubresti“. Ef þetta er rétt stefnir í hina áttina, eignarhluti í húsnæði mun vaxa verulega.

Þá er reyndar spurning hvort verðbólgan haldist lengur lág ef svona fer – meðfram slíkum hækkunum gætum við horft upp á stóraukna neyslu.

En vandi hinna lægst launuðu, ungs fólks, leigjenda og þeirra sem eiga ekki eigið húsnæði eykst. Leiga hækkar, það verður erfiðara að kaupa í fyrsta sinn.

Stjórnmálafræðingurinn Birgir Hermannsson setur fram þessar vangaveltur á Facebook:

„Fasteignaverð hefur nú þegar hækkað um rúm 6% að nafnvirði frá upphafi ársins og ætla má að hækkunin milli áranna 2013 og 2014 verði 8,5%. Við reiknum með að fasteignaverð haldi áfram að hækka mikið, um 9,5% á árinu 2015, 6,5% á árinu 2016 og 6,2% á árinu 2017.“ Þetta segir Landsbankinn í spá sinni. Munu laun hækka til samræmis eða verður fólki sagt að taka hærri lán? Verður ungu fólki sagt að éta það sem úti frýs á meðan þeir eldri smjatta á leiðréttingunni?

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is