Fimmtudagur 22.02.2018 - 11:54 - Ummæli ()

Tossamiði Trumps og kennarar með byssur

Það hefur verið sagt að Trump Bandaríkjaforseti sé ófær um að sýna samkennd með öðru fólki. Og þá verður að grípa til annarra ráða, í þessu tilviki er það nokkurs konar samkenndarmiði, tossamiði það sem er skrifað með fáum og einföldum orðum hvað forsetinn skuli segja við fólk sem hefur gengið í gegnum þjáningar. Þetta getur ekki verið einfaldara, forsetinn á að segja eftirfarandi hluti við nemendur og kennara Majory Douglas Stoneman skólans þar sem sautján manns dóu í skotárárás um daginn.

Hvað viljið þið að ég fái að vita um reynslu ykkar? Hvað getum við gert til að láta ykkur líða betur? Og loks stendur: Ég heyri hvað þið hafið að segja.

Þetta eru ekki aðstæður sem henta Trump sérlega vel, ónei. Hann leggur svo til að ráðist verði gegn vandanum með því einfaldlega að láta kennara bera skotvopn. Þá kæmi upp eins konar vígbúnaðarkapphlaup í skólum, miklu eftir að slægjast fyrir byssusala og miklil hátíð hjá samtökum byssusala. Skólar yrðu ekki lengur byssufrí svæði.

Við þurfum sem betur fer ekki að óttast það á Íslandi að börnin okkar verði skotin með byssu í skólanum.  En við getum svo ímyndað okkur hvernig skólaganga okkar hefði verið ef kennararnir hefðu verið vopnaðir – og hvernig þeir hefðu höndlað það. Ég er ekki viss um að það hefði hentað öllum kennurnum.

 

Miðvikudagur 21.02.2018 - 18:26 - Ummæli ()

Dálkahöfundur Moggans deyr

Predíkarinn Billy Graham er látinn, níutíu og níu ára að aldri. Hann var gríðarlegur mælskumaður sem Bandaríkjaforsetar ráðfærðu sig við eða þótti að minnsta kosti gott að hafa nálægt sér. Til dæmis eru til ótal myndir af honum með Richard Nixon. Sonur hans, Franklin, fylgdi í fótspor föður síns – en hann er ekki annað en léleg eftirlíking af pabbanum og skortir alveg kennivald hans.

 

 

Billy Graham var líka frægur á Íslandi. Það helgast ekki síst af því að hann var fastur dálkahöfundur í Morgunblaðinu um langt árabil. Þar birtust reglulega pistlar hans undir heitinu Svar mitt. Ég er ekki viss um hvenær birting þessa efnis byrjaði, en það var í blaðinu frá því ég byrjaði að lesa það á sjöunda áratugnum og ábyggilega langt fram á þann níunda. Hér reynir Graham að svara spurningu sem honum hefur greinilega þótt erfið.

 

 

Þriðjudagur 20.02.2018 - 22:50 - Ummæli ()

Séra Árni og Ásta Sig

Í Kiljunni annað kvöld sýnum við innslag sem ég er svolítið ánægður með – undir liðnum Bækur og staðir. Við fórum vestur á Snæfellsnes, innst á nesið, þetta er handan við Eldborg, við Löngufjörur. Þarna bjó á bæ sem kallast Stóra-Hraun séra Árni Þórarinsson. Það var sá mikli sögumaður sem sat lengi á tali við Þórberg Þórðarsson, en Þórbergur skrásetti af mikilli smásmygli úr varð Ævisaga Árna Þórarinssonar í mörgum bindum – það frægasta kallast Hjá vondu fólki.

Við segjum frá Árna, sem gekk í Lærða skólann, var þingsveinn á tíma Jóns Sigurðssonar, þótti góður í klassískum málum, en varð prestur í sveit og afar sérvitur. Um samstarf hans og Þórbergs var sagt að þar hefði hraðlygnasti maður landsins hitt þann trúgjarnasta.

Og svo er það Ásta. Hún uppfóstraðist á Litla-Hrauni, litlum bæ sem stendur eilítið austar en hús séra Árna. Ásta bjó þarna þar til hún var unglingur en húsið stendur enn. Það er farið í eyði – en innanstokks er nánast eins og fólkið hafi kvatt í skyndi. Þetta er magnaður staður, fáfarinn, og þarna er mikil náttúrufegurð. Sögur eru af því að Ásta hafi hlaupið berfætt um tún og móa og í textum eftir hana má finna einstakt næmi fyrir náttúrunni og frábæran orðaforða tengdan henni. Hún hefur semsagt fleiri hliðar en hið háskalega borgarkvendi – og í raun má greina að hún hefði getað skapað býsna víðfemt höfundarverk ef henni hefði enst aldur til.

 

Horft yfir Litla-Hraun, æskuheimili Ástu Sigurðardóttur, í átt að Snæfellsjökli. Hún skrifaði sérlega glæsilega lýsingu á jöklinum og viðhorfi fólks í sveitinni til hans.

 

Þriðjudagur 20.02.2018 - 10:08 - Ummæli ()

Eyþór og flokkurinn stilla upp á lista

Ef marka má Fréttablaðið standa hreinsanir nú fyrir dyrum í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Nýi oddvitinn, Eyþór Arnalds, virðist eiga að fá að móta hópinn eftir sínu höfði. Þetta þýðir, samkvæmt Fréttablaðinu, að  borgarfulltúarnir Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon, sem voru númer tvö og þrjú í leiðtogaprófkjörinu, verða færð neðar á lista. Kannski svo neðarlega að þau eiga ekki séns á sæti í borgarstjórn.

Þetta hlýtur að teljast nokkuð stór höfnun fyrir bæði Áslaugu og Kjartan sem eiga sterkar rætur í Sjálfstæðisflokknum og hafa starfað lengi þar.

Rætt er um að í annað sæti listans, á eftir Eyþóri, veljist Vala Pálsdóttir, en hún er formaður Landsambands sjálfstæðiskvenna. Hún tengist líka Morgunblaðinu líkt og Eyþór, tengdamóðir hennar er Guðbjörg Matthíasdóttir í Vestmannaeyjum, sem hefur mikið komið við sögu Moggans síðustu ár.

Svo er einnig talað um að Marta Guðjónsdóttir muni halda sinni stöðu á listanum. Hún var varaborgarfulltrúi en varð aðalmaður í borgarstjórn þegar Hildur Sverrisdóttir settist á þing – þaðan sem hún datt aðeins ári síðar. Ólíkt til dæmis Áslaugu hefur Marta tekið mjög harða, maður getur sagt morgunblaðslega, afstöðu í skipulagsmálum.

Það er svo spurning hvað þetta gagnast til að hífa upp fylgi Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismenn telja sig sjá sóknarfæri í því hversu óvinsæll Dagur B. Eggertsson er hjá vissum hópi borgarbúa. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 25,7 prósent borgarstjórnarkosningunum 2014, en 33,6 prósent árið 2010. Þá var Hanna Birna Kristjánsdóttir í forystu – var borgarstjóri og naut vinsælda.

Flokkurinn er náttúrlega ekki nema svipur hjá sjón í Reykjavík miðað við það sem var á árum áður og spurning hvort hann á einhverja möguleika á að fara ofar í fylginu. Það hjálpar kannski ekki að við hlið Sjálfstæðisflokksins kemur upp Miðflokkurinn með Vigdísi Hauksdóttur í feikilegu stuði – talandi um sömu mál og Eyþór en bara á aðeins kröftugri hátt. En ef út í það er farið er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn hljóta að vinna saman að loknum kosningum.

 

 

Mánudagur 19.02.2018 - 11:24 - Ummæli ()

Innflytjendur sem inflúensa og flóttamannastraumurinn frá Ungó 1956

Fyrir nokkru eyddi ég kvöldstund með einum nánasta pólitíska ráðgjafa Viktors Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands. Orbán er núorðið nær einráður í landinu – hann hefur þaggað niður í fjölmiðlum sem hafa uppi gagnrýni. Og þegar hann stígur fram og heldur ræður er það aðallega tvennt sem hann beinir spjótum sínum að – innflytjendur og George Soros. Áróðurinn gegn honum hljómar eins og gamaldags gyðingahatur.

Það var óskaplegt að heyra það sem rann upp úr ráðgjafanum. Mikið af því snerist um múslima og sígauna og að lönd í vestri eins og til dæmis Frakkland væru ónýt. Ég sagði ekki margt yfir málsverðinum, leyfði ráðgjafanum að tala, en að honum loknum hélt ég litla tölu um frelsi, umburðarlyndi og mannúð.

Nú standa kosningar fyrir dyrum í Ungverjalandi. Orbán verður örugglega kosinn í eitt kjörtímabil í viðbót. Hann heldur ræðu á fjöldafundi og líkir innflytjendum við inflúensu.

Þetta stingur aðeins í stúf við söguna. Einn mesti flóttamannastraumur í Evrópu á tuttugustu öld var einmitt frá Ungverjalandi. Þá var fólkið að flýja kúgun og ofbeldi kommúnista. Meira en 200 þúsund Ungverjar forðuðu sér úr landi. Til Íslands komu 52 Ungverjar árið 1956. Flestir reyndust hinir nýtustu borgarar og eiga afkomendur hér – sem eru Íslendingar. Þeir voru ekkert í líkingu við inflúensu eða aðrar farsóttir.

Annars hef ég orðið var við að Íslendingar flykkjast nú til Ungverjalands í túristaferðir. Gæti verið að sé kominn tími til að hætta því?

 

Ungverjar flýja land árið 1956.

Sunnudagur 18.02.2018 - 22:18 - Ummæli ()

Frekir karlar í fréttunum – en líka vottur af von

Ungverskur forsætisráðherra líkir innflytjendum við inflúensu.

Forseti Bandaríkjanna finnur sér skálkaskjól í því að lögregla í landinu hafi verið of upptekin við að rannsaka hann til að taka eftir fjöldamorðingja í Flórida.

Pólskur ráðherra segir að gyðingum sé líka sjálfum um að kenna að þeir voru myrtir í helförinni.

Silvio Berlusconi er aftur kominn á kreik á Ítalíu og fær sennilega mest fylgi allra í kosningum, aðferð hans núna er að hafa í hótunum við innflytjendur.

Forsætisráðherra Ísraels, sem er í vandræðum vegna spillingarmála, hefur uppi stór orð um að fara í styrjöld við Íran.

Þessir freku og andstyggilegu karlar eru fréttaefni helgarinnar.

En hér er að finna eitthvað sem vekur með manni von og bjartsýni – og það er ungt fólk sem tekur til sinna ráða gegn freku körlunum.

 

Sunnudagur 18.02.2018 - 11:34 - Ummæli ()

Umskurðarfrumvarpið verður svæft í þinginu

Guardian birtir grein um íslenska frumvarpið um bann við umskurð drengja. Greinin hefur þann kost að hún setur hlutina í alþjóðlegt samhengi. Hins vegar ber hún þess vott að greinarhöfundur þekkir ekki aðstæður á Íslandi.

Frumvarpið er flutt af þingmönnum. Hér á landi er algjörlega undir hælinn lagt hvort slík frumvörp komast yfirleitt á dagskrá þingsins. Og ef það gerist, þá eru þau gjarnan sett í nefnd og daga þar uppi – eru svæfð eins og það heitir á máli stjórnmálanna.

Hér skal því spáð að þetta gerist með umskurðarfrumvarpið. Það mun gleymast. En það er aðeins farið að hitna í kolunum þegar þetta er komið í heimspressuna og trúarleiðtogar úr ýmsum söfnuðum eru farnir að tjá sig um málið.

Hér á Íslandi eru þessar aðgerðir mjög fátíðar. Manni heyrist líka að íslenskir læknar vilji helst ekki taka þær að sér. Þeir hafa líka nóg annað að gera – eins og allir þekkja sem reyna að komast til læknis á Íslandi. Hins vegar er umskurður mjög algengur víða um heim. Í Bandaríkjunum eru 58 prósent karla umskornir – og það er langt í frá alltaf vegna trúarbragða, heldur hefur það álit verið útbreitt að þetta sé heilsufarsmál. Eitthvað hefur tíðni umskurðar þó farið minnkandi vestanhafs.

En eins og segir, þá kemur þetta mál okkur ekkert sérstaklega mikið við. Við erum svo langt frá heiminum í þessum efnum með okkar örfáu gyðinga og múslima. Það er auðvelt fyrir okkur að taka voða harða prinsíppafstöðu á Facebook. En það flökrar að manni að þetta sé slagur sem við þurfum ekkert endilega að taka. Og líklega mun það birtast í starfi Alþingis – þegar umskurðarfrumvarpið sofnar þar. Það er til dæmis afar ólíklegt að ríkisstjórnin hafi nokkurn áhuga á að þurfa að svara fyrir þetta mál.

Og við höfum kannski um margt þarfara að rífast á netinu….

 

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is