Miðvikudagur 16.08.2017 - 10:09 - Ummæli ()

Elvis est mort

Í dag eru liðin fjörutíu ár frá andláti Elvis Presley.  Við Jakob Bjarnar vinur minn göntuðumst með það einu sinni að þegar við færum á elliheimili myndum við efna til ritdeilu um Elvis Presley. Ég ætlaði að skrifa greinar í Velvakanda undir nafninu „Einn á Grund“. Átti að halda því fram að Elvis hefði verið asnalegur. Jakob ætlaði að svara og segja að hann hefði verið frábær.

Annars væri ekki erfitt fyrir mig að halda fram þessum málstað – þegar ég var að alast upp var Elvis með því hallærislegasta sem hugsast gat. Eins og ofvaxinn hani á sviði í Las Vegas. Nýkominn úr hernum. Hafði leikið í mörgum leiðinlegum kvikmyndum.

Breska bítlið feykti þessu öllu burt. Og enn finnst mér að Elvis sé fyrst og fremst sætsúpusöngvari. En hann tók tónlist svarta fólksins og gerði hana húsum hæfa fyrir hvíta fólkið Það voru margir svartir tónlistarmenn sem voru miklu betri en Elvis – einn þeirra, Chuck Berry, dó nýskeð í hárri elli. Chuck samdi sín eigin lög, það gerði Elvis ekki.

Þegar Elvis dó var ég í frönskuskóla í Grenoble í Frakklandi. Ég var tiltölulega saklaus unglingur og bókmenntahneigður. Þetta var sami dagur og ég kynntist Matthíasi Viðari. Man að ég sá fréttina á forsíðum blaða þegar ég fór út í búð að kaupa rósavínsflösku til að drekka um kvöldið. Elvis est mort  stóð í blöðunum. Ég var penn í drykkjunni þá. Matthías Viðar kom með fulla flösku af Pernod á stúdentagarðinn til mín – gerðist nokkuð drukkinn. Ég var ekki alveg undirbúinn undir það. En Matthías var ógleymanlegur maður og ég sakna hans.

 

Þriðjudagur 15.08.2017 - 13:41 - Ummæli ()

Fögur náttúra og skemmtilegt mannlíf á Nýja-Englandi

Við fjölskyldan höfum verið að ferðast um Nýja-England undanfarna viku. Þetta er fjarskalega heillandi svæði með mikili náttúrufegurð og ágætu mannlífi. Við komum hingað sökum þessa að Kári Egilsson sem er fimmtán ára piltur fór hingað á fimm vikna sumarnámskeið í hinum frábæra Berklee College of Music í Boston. Það gekk afar vel, skólinn er mjög stór en sérlega vel skipulagður og kennslan góð – hann fékk svo styrk eftir áheyrnarpróf til að koma aftur í skólann að ári.

Við höfum ekið inn í land og dvalið í Berkshires þar sem er mikið skóglendi og litlir afar þokkafullir bæir. Fórum þar á tvenna tónleika með Boston Symphony Orchestra sem leikur þar á sumarsviði í júlí og ágúst. Síðan fórum við út að ströndinni og gistum á Cape Ann, höfða þar sem eru meðal annars bæirnir Gloucester og Rockport. Víðast hvar er mikil menning, bókabúðir, leihús, tónleikasalir, gallerí – og mikil starfsemi á sumrin og fólk sem er albúið að segja manni frá henni. Fólk er almennt mjög vingjarnlegt þegar kemur út í litlu bæina, þetta er eitthvert frjálslyndasta svæði Bandaríkjanna og margir skýra frá því gagngert að þeir hafi ekki kosið Trump.

Hér eru frábærar strendur sem vita út á sjálft Atlantshafið – sjórinn er frískandi, voldugur og fallegur, talsverður munur á flóði og fjöru.

Í gær snæddum við í Gloucester. Það er mikill sjávarútvegsbær, með stórum flota og frystihúsum. Það var frekar vinalegt fannst okkur að lyktin í bænum minnti helst á Vestmannaeyjar. Líklega fær maður hvergi í heiminum betri humar – og alls kyns skelfisk. Maður gæti sjálfsagt leiðst út í að borða humar í hvert mál, því ekki er hann sérlega dýr.

Íslendingar ferðast mikið til Boston, þarna er svæði sem er stutt frá þeirri merku borg – og óhætt að mæla með til sumarfría. Og reyndar er gott að koma hér á öðrum tímum, því Nýja England er frægt fyrir mikla haust- og vetrarfegurð. Sjálf höfum við aðallega haldið okkur í Massachusetts en skroppið aðeins til New Hampshire og Maine – en hér er eru líka ríki eins og hið fjöllótta og skógi vaxna Vermont.

Læt hér fylgja með myndband þar sem Kári spilar tvö lög með skólafélögum í Berklee.

 

Mánudagur 14.08.2017 - 13:02 - Ummæli ()

Vertu ekki asni

Þetta er mynd sem er farin að dreifast um veraldarvefinn í kjölfar aðgerða nýnasista í Charlottesville í Virginíu. Myndin heitir Don´t Be a Sucker og var gerð á vegum bandarískra stjórnvalda rétt eftir heimsstyrjöldina – til að vara við uppgangi fasisma. Þetta á merkilega vel við enn þann dag í dag.

 

 

Föstudagur 11.08.2017 - 14:18 - Ummæli ()

Til hvers að ferðast?

Það er mikið rætt þetta sumarið um ófremdarástand sem hefur skapast á ferðamannastöðum vegna átroðnings. Þar er Ísland ekki nefnt, ekki enn, heldur staðir eins og Feneyjar, Barcelona, San Sebastia, Dubrovnik og Flórens. Meira að segja frá eyjunni Skye við strendur Skotlands heyrast kvartanir. Sums staðar má sjá fólk með spjöld þar sem stendur: Burt með túristana!

Við erum öll partur af vandamálinu, það er að segja við sem ferðumst, eins og Martin Kettle bendir á í ágætri grein í Guardian. Þar segir að massatúrisminn sé komin út á ystu nöf.

Viðar Víkingsson kvikmyndagerðarmaður kafar hins vegar dýpra í litlum greinarstúf á Facebook. Hann spyr einfaldlega til hvers fólk sé að ferðast í nútímanum?

Til hvers er fólk að ferðast milli landa? Eftir endalausa bið og stympingar á flugvöllum er komið í nýja borg. Hér áður fyrr fór maður í bóka- og plötubúðir til að uppgötva hvað framandi menning hefði upp á að bjóða. Nú hefur þeim búðum fækkað mjög enda kaupa flestir bækur, tónlist og kvikmyndir gegnum netið. Söfn: Það kostar sömu biðina og á flugvöllunum að komast inn í þau og síðan taka við nýr troðningur og stympingar. Og verkin í stóru söfnunum, Prado, Louvre,… er hægt að skoða í miklum smáatriðum á netinu og án þess að verða fyrir olnbogaskotum. Fara út að borða? Flestir veitingastaðir eru komnir í eigu keðja sem allsstaðar selja sama matinn. Byggingar, ok, kannski hægt að skoða þær og taka selfie. Kynnast heimafólki? Það hefur flúið túrismann út í úthverfin. Einu ferðalögin af viti eru sennilega á mjög fráhrindandi og hættulega staði til að eiga þess kost að spyrja sjálfan sig: Hvað í fjandanum er ég að gera hér?

 

 

Fimmtudagur 10.08.2017 - 05:16 - Ummæli ()

14995 kjarnorkusprengjur – í höndum Trumps, Kims Jong Un og Pútíns

Það er satt að segja ansi langt síðan maður velti kjarnorkuógninni fyrir sér í alvöru. Hún var til staðar á unglingsárum mínum, á tíma kalda stríðsins, en samt fannst manni eins og kerfið sem kallaðist MAD héldi alltaf – MAD var mutual assured destruction, gagnkvæm örugg eyðilegging. Ógnarjafnvægi var það nefnt. En kjarnorkuvopnunum hélt samt áfram að fjölga og fleiri ríki eignuðust þau. Maður trúði því samt að leiðtogar heimsins væru svo skynsamir menn, eða að minnsta kosti nokkurn veginn, að þeir myndu ekki beita þessum hræðilegu vopnum. Þótt Brésnef og Nixon væru slæmir ætlaði maður þeim ekki slíka vitleysu.

En nú er aftur talað um kjarnorkuvána, eins og hún vofi yfir. Myndin hér að neðan er úr The Independent, hún sýnir hvaða ríki í heiminum ráða yfir kjarnorkuvopnum. Þau eru óhugnanlega mörg. Þarna eru ekki bara stórveldi kalda stríðsins, Bandaríkin og Rússland með brjálæðisleg kjarnorkuvopnabúr, um 7000 sprengjur hvort ríki, óg til að þurrka mannkynið af jörðinni, heldur eru þarna líka ríki eins og Norður-Kórea, Ísrael, Pakistan – og auðvitað Kína. Með alþjóðlegu samkomulagi reyndi Obama forseti að girða fyrir að Íranir kæmust yfir kjarnorkuvopn.

Þetta eru alls 14995 kjarnorkusprengjur, samkvæmt þessari talningu. Og nú eru tveir kolvitlausir valdamenn komnir á fullt í meting um hvor geti farið að sprengja hinn. Donald Trump lætur engan úr stjórnkerfi Bandaríkjanna vita þegar hann allt í einu fer að hóta að láta rigna eldi og eimyrju yfir Norður-Kóreu. Einræðisherrans Kim Jong Un hefur uppi digurbarkalegar yfirlýsingar um að senda sprengjur á nágrannaríki  – það er erfitt að segja hvaða innistæða er fyrir hótunum þessa fáráðlings.

Kerfið í Bandaríkjunum er hannað þannig að vald forsetans yfir kjarnorkuvopnatakkanum er óskorað. Ef forsetinn vill sprengja einn morguninn, eða eftir sjónvarpsgláp um kvöld, er varla nein leið að koma í veg fyrir það. Hvað gera þá hinir, vilja þeir ekki nota sprengjurnar sínar líka? Heimsbyggðin þarf að treysta á stillingu þessara náunga, og manna eins og Vladimirs Pútín, það er heldur vond tilhugsun.  Miðað við þetta upplifði maður öryggiskennd í kalda stríðinu, að minnsta kosti á seinni hluta þess.

 

 

Miðvikudagur 09.08.2017 - 14:02 - Ummæli ()

Ari Eldjárn slær í gegn á Edinborgarhátíðinni

Ekki að maður eigi von á öðru, en Ari Eldjárn fær stórgóðan dóm fyrir sýningu sína á hinni frægu leiklistarhátíð í Edinborg. Þetta birtist í morgun í dagblaðinu The Scotsman. Þarna er sýningu Ara lýst, hvernig hann gerir grín að Íslendingum og ýmsum Norðurlandaþjóðum, bregður fyrir sér tungumálum og mállýskum, en svo er sagt að þegar á líði verði hann skrítnari og súrrealískari.

Skemmtilegastar eru lokalínurnar þar sem segir að þessi maður, sem virðist frekar hógvær, hafi mörg afar sterk grínbrögð uppi í erminni.

Til hamingju Ari!

 

Miðvikudagur 09.08.2017 - 03:38 - Ummæli ()

Lífeyrissjóðirnir verða að fjárfesta sem víðast um heiminn og í sem margvíslegastri starfsemi

Gengi Haga hríðfellur. Á þessum lista getum við séð hverjir eru helstu eigendur þessa félags sem hefur sent frá sér tvær afkomuviðvaranir að undanförnu. Þetta eru mestanpart lífeyrissjóðir sem eru í eigu launafólks. Sumir lífeyrissjóðanna eiga meira að segja stóra hluti.

Það eru semsagt þeir sem greiða í lífeyrissjóði sem tapa. Á sama tíma er verið að hækka iðgjöld í lífeyrissjóðina – og ljóst að aldur til lífeyristöku mun fara hækkandi.

En þetta er sterk áminning um að það er brjálsemi að íslensku lífeyrissjóðirnir, sem bólgna af fé í hverjum mánuði, séu að fjárfesta mikið á Íslandi. Eina skynsamlega leiðin til að ávaxta þessa fjármuni er að dreifa þeim nógu víða um heiminn og í alls konar starfsemi. Að binda peningana við fá íslensk fyrirtæki sem eiga það jafnvel til að hækka úr öllu valdi einmitt vegna fjárfestinga lífeyrissjóðanna er einfaldlega vond meðferð á fé almennings. Jú, þannig er hægt að sýna fram á hækkandi virði – en það er eins og að pissa í skóinn sinn. Þetta var eitt af því sem við lærðum á tíma hrunsins – og það er alveg ljóst að við getum átt von á nýju bakslagi.

Svo má minna á að stjórnendur Haga voru sjálfir að selja hluti sína í fyrirtækinu í fyrrra, eftir að ljóst var að Costco kæmi hér inn á markaðinn.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is