Þriðjudagur 25.10.2016 - 11:27 - Ummæli ()

Syrtir í álinn hjá Sjálfstæðisflokknum

Maður hefur heyrt þá kenningu að Sjálfstæðisflokkurinn muni aðeins rétta úr kútnum í kosningunum miðað við síðustu skoðanakannanir en Píratar dala. Þetta er fyrst og fremst byggt á því að kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu líklegri til að skila sér á kjörstað en þeir sem geta hugsað sér að kjósa Pírata. Má vera að þarna verði einhverjar tilfæringar á prósentum.

En útlitið er að sönnu ekki gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Staða hans er veikari en virtist þegar var fyrst farið að ræða haustkosningar. Í síðustu skoðanakönnun sem birtist, frá Félagsvísindastofnun 21. október, var flokkurinn með 21,1 prósents fylgi. Hann er á svipuðu róli í fimm síðustu skoðanakönnunum, þó með 23,7 prósent hjá Fréttablaðinu 19. október. Það er sama og kjörfylgið var 2009, eftir hrun, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk verstu kosningu í sögu sinni.

Það er líka eins og vanti baráttuandann. Flokkurinn hefur í nánd við sig sveit manna sem er í óða önn að dreifa neikvæðum áróðri; þetta er hópur sem kann þá íþrótt upp á hár, en sumstaðar er gengið svo langt að áhrifin gætu verið öfug, það talar altént bara til þeirra sem eru sannfærðir fyrir.

Bjarni Benediktsson byrjaði kosningabaráttuna ágætlega, en síðan hefur hann farið að virka pirraður, líkt og hann skilji ekki að þetta gangi ekki betur hja sér. Að sumu leyti erum við náttúrlega að fara gegn því sem var viðtekið i kosningum, það er ágætt ástand í efnahagsmálum – eitt sinn hefði það skilað sér til ríkisstjórnar í kosningum. Í eina tíð hefði Sjálfstæðisflokkurinn verið með þriðjungsfylgi eða jafnvel meira í svona árferði.

En ástæðurnar fyrir hinu laka fylgi liggja dýpra og flokkurin hefur í raun aldrei endurheimt fylgið sem þó var farið að safnast aftur til hans á tíma ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur en hvarf svo snögglega yfir til Framsóknar á tíma Icesave-dómsins og skuldaleiðréttingarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn geldur líka fyrir hvað hann á fáa öfluga málsvara núorðið, maður hefur í raun ekki séð annað eins ástand í þeim efnum. Varaformaðurinn, Ólöf Nordal, er frá vegna veikinda en fyrir aftan þau Bjarna er bekkurinn frekar þunnskipaður. Illugi Gunnarsson er á braut sem og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þau lentu bæði í erfiðum málum en voru feikisterk í stjórnmálaumræðum þegar þeirra naut við. Hinn frjálslyndi, alþjóðasinnaði armur flokksins er að miklu leyti kominn yfir í Viðreisn en þjóðlegir íhaldsmenn hafa styrkt tökin verulega. Skírskotun flokksins er þrengri en áður.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 26,7 prósent í kosningunum 2013, nái hann svipuðu fylgi má kynna það sem varnarsigur. Miðað við sögu flokksins er það samt ekki góð útkoma, í sögulegu ljósi ætti hann að vera að bæta við sig. En verði flokkurinn á þeim slóðum sem skoðanakannanir benda til er það mjög slæm er það mjög slæm útkoma og hlýtur að kalla á einhvers konar uppgjör innan hans.

Þarna vakna spurningar um forystumálin. Mun Bjarni kæra sig um að sitja áfram sem formaður ef kosningaúrslitin verða svona óhagstæð og flokkurinn kemst ekki í ríkisstjórn? Það er náttúrlega mögulegt að ný ríkisstjórn endist ekki lengi, en Sjálfstæðisflokksins gætu líka beðið fjögur ár í stjórnarandstöðu þangað til að hann fær næst tækifæri. Það á varla vel við Bjarna sem hefur notið sín vel í fjármálaráðuneytinu.

Bjarni gæti þá staðið frammi fyrir því að vera fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur aldrei orðið forsætisráðherra, á tíma þegar gætu liðið heil tólf ár án þess að Sjálfstæðisflokkurinn kæmist í forsætisráðuneytið. Það er met í stjórnmálasögunni.

En arftakar eru ekki á hverju strái, það vantar einfaldlega „þungaviktina“ sem eitt sinn var að finna í Sjálfstæðisflokknum. Miðað við stöðuna nú eru það Guðlaugur Þór Þórðarson og Kristján Þór Júlíusson sem eru líklegustu formannsefnin ef Bjarni teldi að þetta væri orðið gott hjá sér.

 

 

Mánudagur 24.10.2016 - 21:37 - Ummæli ()

Fjórum dögum fyrir kosningar

screen-shot-2016-10-24-at-21-31-03Í Guardian er sagt frá því að Ísland sé besti staður í heimi fyrir konur. Það er tilkynnt að sýndur verði sjónvarpsþáttur um þetta á ITV sjónvarpsstöðinni á þriðjudagskvöld. Á vef Business Insider má fræðast um að á Íslandi séu næstmest lífsgæði í veröldinni, á eftir Noregi.

Bloomberg segir frá því að erlendir fjárfestar kunni að hafa varann á gagnvart Íslandi og jafnvel láta sig hverfa héðan ef verða stjórnarskipti sem gætu getið af sér „eitraða blöndu róttækni og pólitísks óróa“. Spákaupmenn munu semsagt hugsa sig um tvisvar.

En það er ekkert sem getur bjargað ríkisstjórninni. Hún er ekki að ná í gegn með málflutning sinn – og síðustu dagana hefur þetta dálítið mikið verið að snúast upp í hræðsluáróður eins og sjá má á þessari síðu sem ber yfirskriftina Kosningar 2016 . Þar sem birtast myndir eins og þessi hér að neðan.

Ætli svona bullugangur virki?

 

14700773_1338810159471228_2159242516232949448_o

Mánudagur 24.10.2016 - 12:19 - Ummæli ()

Klukkan 14.38

Konur ætla að leggja niður vinnu í dag klukkan 14.38 til að mótmæla launamun kynjana. Það er 24. október, 41 ár frá kvennafrídeginum mikla 1975.

Reyndar voru deilur dagana áður um hvort þetta væri kvennafrí eða kvennaverkfall. En það einhvern veginn skipti ekki máli þegar á hólminn var komið, samstaðan og einurðin sem birtist á útifundinum þann dag var einstök. Það þurfti þetta til að ná saman konum sem voru róttækar og þeim sem voru meira hægfara, en milli þeirra var talsverð gjá á þessum árum.

Þegar maður hugsar aftur er þetta einn af stórum sögulegum atburðum á Íslandi á 20. öld. Dagur af því tagi að það muna hérumbil allir hvar þeir voru.

Sjálfur var ég piltur í 3. bekk í MR. Maður fagnaði því náttúrlega að kennsla félli niður, mig minnir að það hafi verið danska hjá Ólöfu Ben. Ég fór út á skólalóðina, þar sem er útsýni yfir bæinn,  og sá að  fólk var farið að safnast saman á Lækjartorgi. Auðvitað mestanpart konur, en það voru líka karlar innanum. Þá skynjaði ég að eitthvað stórt var að gerast. Svo óx fjöldinn og þetta varð mannhaf. Annar eins fundur hefur ekki verið haldinn á Íslandi.

Ég var þarna einhvers staðar í mannfjöldanum og heyrði  flest sem fór fram á fundinum. Ræða Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur er ógleymanleg, hún talaði með sinni rámu og lífsreyndu rödd beint inn í hjarta þeirra sem hlýddu. Þessi baráttukona varð þjóðhetja á samri stund.

En þetta hafði líka sínar óvæntu hliðar. Ég fór í Vesturbæjarlaugina síðdegis. Þar voru þá engar konur, enda búnings- og sturtuklefar kvenna lokaðir. Karlar í hópi fastagesta völsuðu um naktir og fundu frekar til sín. Var reyndar hálf fáránlegt.

Okkur hefur miðað áfram síðan þá varðandi jafnrétti kynjanna. En það er ennþá talsvert í land og þar speglast öfugsnúið gildismat í samfélaginu. Það er alltaf jafn óþolandi að „kvennastörf“ skuli vera svo hraksmánarlega illa launuð – meðan „karlastörf“ sem eru síst merkilegri gefa vel í aðra hönd.

 

Kvennafrídagurinn 24. október 1975. Fjöldafundur á Lækjartorgi.

Sunnudagur 23.10.2016 - 20:58 - Ummæli ()

Ekki samkeppnishæf lífskjör

Kosningabaráttan er farin að snúast mjög mikið um hvernig mynda eigi ríkisstjórn, hreyfingar á fylgi og hver vill vera með hverjum. Það verður að segjast eins og er að málefnin eru farin að falla dálítið í skuggann. Hinir svokölluðu stjórnmálaskýrendur eru dálítið slæmir með þetta – og ég sjálfsagt ekki barnanna bestur. Við höngum alltof mikið í skoðanakönnunum.

Á sinn hátt er þetta dálítið andlaust – og það verður að segjast eins og er að kosningabaráttan hefur mestanpart verið skelfing andlaus, maður hefði búist við meiri tilþrifum á tíma þegar blasa við stjórnarskipti og mesta fylgisleysi fjórflokksins fyrr og síðar. Það blása nýir vindar en þeir virka ekkert sérlega hvassir.

Það er á sinn hátt hressandi að sjá að Viðreisn heldur blaðamannafund beinlínis til að árétta málefnastöðuna, hann þarf sumpart að gera þetta til að brjótast út úr herkví umræðunnar um stjórnarmyndanir – og kannski kemst flokkurinn einmitt að kjarna málsins þegar hann segir brýnasta málið sé einfaldlega lífskjörin hérna:

Helsta vandamál íslensks samfélags er að lífskjör hér eru ekki samkeppnishæf við það sem býðst í nágrannalöndunum. Það er meginástæða þess að brottfluttir íslendingar umfram aðflutta eru 6000 frá 2010. Á sama tíma eru glögg merki þess að landið glími við spekileka.

Og þetta:

Kostnaðurinn af því að vera Íslendingur er of hár. Ein meginorsök þess eru háir vextir sem eru afleiðing af sveiflukenndu hagkerfi og óstöðugum gjaldmiðli. Íbúðakaupandi á Íslandi má væntast þess að greiða tvisvar – þrisvar sinnum fyrir eign sína í formi vaxta, á meðan íbúðakaupandi á Norðurlöndum greiðir einu sinni fyrir sína.

Viðreisn leggur meðal annars til myntráð til að lækka vexti, skattkerfisbreytingar, aukna innheimtu auðlindagjalda, en um leið meiri útgjöld til uppbyggingar heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og innviða – og minni skerðingar í almannatryggingakerfinu.

Getur hugsast að þetta séu málin sem við ættum að vera að tala um fyrst og fremst nú þegar einungis fimm dagar eru til kosninga, en aðeins minna um það hverjir eru með hvaða fylgi?

 

3fc5fa23b1-3456x2304_o-380x230

Sunnudagur 23.10.2016 - 12:53 - Ummæli ()

Að ná völdum, halda þeim en glutra þeim ekki niður

Stóra fréttin þessa dagana eru samræður stjórnarandstöðuflokkana stjórnarmyndun. Þetta eru flokkarnir sem hafa setið saman á þingi undanfarið þrjú og hálft ár í andstöðu við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, svo að einhverju leyti hafa þeir þegar verið að vinna saman.

Reyndar virðist þetta vera dálítið viðkvæmt mál, því maður sér að sumir stuðningsmenn þessara flokka ítreka að þetta sé „samtal“ en ekki stjórnarmyndun, einhvers konar kaffispjall semsé.

Það má vera, en Viðreisn vill ekki vera með – hún er opin í báða enda, eins og eitt sinn var sagt, og á kannski heldur ekki samleið með öllum flokkunum sem þarna funda. Af þeim flokkum sem eiga möguleika að fá mann á þing eru kannski mestu andstæðurnar milli Viðreisnar og VG.

En í þessu felst auðvitað nokkuð sterk skuldbinding gagnvart stjórnarsamstarfi. Sjálfstæðisflokkurinn mun vikuna fram að kosningum hamast á því að hér sé í uppsiglingu vinstri stjórn undir forystu Pírata og VG – því verður ekki neitað að þarna glittir í ásjónu vinstri stjórnar.

Í bókum Sjálfstæðismanna hefur vinstri stjórn ævinlega þýtt glundroða. „Varist vinstri slysin“ er frægt slagorð Sjálfstæðisflokksins, og í eina tið var oft vísað í svokallaða „glundroðakenningu“ þegar vinstri flokkar eru annars vegar.

Svo er spurning hvernig þetta virkar núorðið. Það er ekkert í hendi með að stjórnarndstöðuflokkarnir fjórir nái meirihluta – kannski þyrftu þeir líka á Viðreisn að halda til að mynda starfhæfa stjórn? Fyrirfram virkar stjórn fjögurra til fimm flokka heldur ótraust, en það gekk þó á árunum 1988 til 1991, þá lifði stjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Borgaraflokks til enda kjörtímabils og þótti ágætlega starfhæf.

Gunnar Smári Egilsson skoðar fall ríkisstjórna síðan 1980.

Frá 1980 hafa setið ellefu ríkisstjórnir. Þar af hafa þrjár ekki dugað út kjörtímabilið. Þær eru ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar (D+B+A), ríkisstjórn Geirs H. Haarde (D+S) og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar/Sigurðar Inga Jóhannessonar (B+D). Aðrar ríkisstjórnir hafa setið út sín kjörtímabil þótt einhverjar mannabreytingar hafi orðið. Það er erfitt að meta hvað einkennir þessar þrjár sem féllu en þó er eitt augljóst. Sjálfstæðisflokkurinn átti sæti í þeim öllum.

Það er alveg rétt hjá Gunnari Smára að síðustu stjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í hafa ekki verið stöðugar. Hann reyndar ekki að áratuginn á undan, 1970 til 1980 sátu tvær vinstri stjórnir sem féllu báðar fyrir lok kjörtímabils, sú fyrri sat í þrjú ár, hin síðari ekki nema í eitt ár. Það var þá að glundroðakenningin var í fullu gildi.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur náði að lafa fram að lokum kjörtímabils, en hún var í raun búin að missa meirihlutann og var lömuð til flestra verka, en hún er þó fyrsta vinstri stjórn á Íslandi sem hefur náð að sitja heilt kjörtímabil, frá upphafi til enda.

En svo má líta þetta frá öðrum sjónarhóli. Í stjórnmálum skiptir ekki bara máli að ná völdum, heldur þarf líka að halda þeim. Í sögu lýðveldisins hefur það ekki enn gerst að vinstri stjórn hafi lifað af kosningar (ef undanskilið er að minnihlutastjórn Jóhönnu sem tók við völdum í febrúar 2009 náði að sigra í kosningum í apríl sama ár).

Þetta er kannski eitthvað sem stjórnarandstöðuflokkarnir sem nú eiga „samtal“ þurfa að íhuga. Þeir fá kannski ekki mikinn tíma til að koma málum sínum í framkvæmd – hvernig geta þeir haldið völdum? Hvernig kemur til dæmis hugmyndin um stutt kjörtímabil þar sem aðaláherslan er á stjórnarskrá út í því sambandi?

 

Laugardagur 22.10.2016 - 14:20 - Ummæli ()

Gömlu (ekki endilega góðu) dagarnir í Ríkinu

Þessi ljósmynd er stórkostlegur vitnisburður um liðna en þó ekki svo fjarlæga tíma á Íslandi. Myndin birtist á vefnum Gamlar ljósmyndir. Þarna bíður fólk eftir afgreiðslu í einu útibúi ÁTVR, Ríkinu eins og það var kallað, líklega er þetta fremur við Snorrabrautina en Lindargötu. Ég er þó ekki alveg viss.

Af klæðaburðinum að dæma er myndin tekin í kringum 1980.

Örtröðin bendir til þess að þetta sé síðdegis á föstudegi. Úrvalið í þessum búðum var ekkert til að hrópa húrra fyrir en þarna fengust þó ýmsar tegundir af rauðu og hvítu, vodka, viskí, sénever og gin, en markmið margra á árunum áður en bjórinn var leyfður – þetta er fyrir þann tíma – var að fá sem mestan vínanda fyrir sem minnstan pening.

Þá var annað hvort að kaupa bara brennivín eða tegundir sem töldust vera í milliflokki. Þar komu til sögunnar drykkir eins og Campari, Martini Bianco og Twenty-One. Þeir áttu það sameiginlegt að vera dísætir og klístruðust mikið, en magnið í flöskunni reyndist drjúgt.

Vekja má athygli á öskubökkunum sem standa upp við vegginn hægra megin á myndinni. Tóbaksvarnir höfðu þarna ekki náð þeim hæðum sem síðar varð.

 

14702495_10211165950694830_4037314632163284660_n
Fyrir utan Ríkið var oft líf og fjör. Þar var oft fólk að selja happdrættismiða, merki og annað smálegt, enda staðirnir mjög fjölfarnir. Eftirminnilegasta er þó unga fólkið sem stóð þarna á síðari hluta áttunda áratugarins og seldi blöð sem boðuðu byltingu á Íslandi – Neista, Stéttabaráttuna og Verkalýðsblaðið.

Neisti var málgagn Fylkingarinnar en það voru trotskíistar, Stéttabaráttan var blað KSML sem voru maóistar, Verkalýðsblaðið var gefið út af EIK(ml) sem voru líka maóistar, bara á aðeins annarri línu. Stundum skarst í odda milli þeirra sem voru að selja blöðin, enda blæbrigðamunur á skoðunum þeirra, og þurfti þá stundum að vísa hinum byltingarsinnuðu ungmennum burt svo þau trufluðu ekki verslunina með áfengið.

Í sumum af þessum samtökum ríkti slíkur agi að flokksmönnum var bannað, að viðlagðri harðri gagnrýni á sellufundum eða hreinlega brottrekstri, að sjást drukknir á almannafæri. Það var jafnvel sett bann við því að vera á ferli með poka úr áfengisversluninni, það var talið geta stuðað alþýðuna og latt hana til byltingar.

Hér má sjá forsíðu Verkalýðsblaðsins frá því í ágúst 1979. Þar kemur fram eindreginn stuðningur við Pol Pot sem hafði verið settur af sem leiðtogi Kambódíu fyrr um árið.

 

screen-shot-2016-10-22-at-14-16-55

 

 

Laugardagur 22.10.2016 - 00:23 - Ummæli ()

Ragnar græðir og grillar – Pírataskutlið

Í kosningabaráttu sem er ekki beint að kveikja elda í hugum kjósenda og þar sem mikið ber á neikvæðum áróðri stendur þessi auglýsing upp úr. Ragnar Kjartansson, myndlistarstórstjarna sem skipar 9. sætið á lista VG í Reykjavík norður, græðir og grillar á sinn hátt.

 

 

Hér er annað sem gæti virkað vel, Píratar skutla á kjörstað. Langmest fylgi Pírata er meðal yngra fólks sem skilar sér illa í kosningum. Í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar frá því í gærmorgun er fylgið 39 prósent meðal fólks sem er 18-29 ára. Þetta gæti verið svo stór breyta að það lækki fylgi Pírata um nokkur prósentustig. Eldra fólk, sem t.d. styður Sjálfstæðisflokkinn í miklu meira mæli, lætur sig ekki vanta, passar sig að mæta tímanlega á kjördag.

Ríkisstjórnin undir forystu Pírata og VG sem virtist vera í kortunum í skoðanakönnun í gærmorgun kann að reynast tálsýn. Píratar þurfa altént að hafa fyrir því að ná í atkvæðin. En það er kannski ekki nóg að vera bara á ferðinni frá 10 til 14?

 

14680976_917021975098220_6982128319552235428_o

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is