Þriðjudagur 22.08.2017 - 10:45 - Ummæli ()

Á að taka niður gamlar styttur?

Við Íslendingar erum svo friðsöm og meinlítil þjóð að við höfum engar styttur af ógeðskörlum sem okkur gæti dottið í hug að taka niður. Við höfum okkar Jón Sigurðsson og Jónas, Bertel Thorvaldsen, Hannes Hafstein, jú og einn danskan kóng, Kristján níunda.

Í Bandaríkjunum geisa deilur um styttur. Menn fara meira að segja að næturþeli og fjarlægja styttur af foringjum úr þrælastríðinu – sem margir voru sannarlega illmenni. Viðbrögð Trumps voru kannski heldur taktlaus þegar hann nefndi að Washington og Jefferson hefðu líka iðkað þrælahald. Maður spyr samt hvort ekki sé heldur seint í rassinn gripið? Og svo virðist þetta líka geta virkað eins og olía á eld átaka.

Minnismerki um kommúnismann voru víða fjarlægð undireins og hann leið undir lok, þau er helst að finna í nokkuð afskekktum hornum gömlu Sovétríkjanna. Ég kom eitt sinn í myndastyttugarð í Moskvu sem var fullur af styttum af gömlum kommaleiðtogum, Lenín, Stalín og Brésnef. Það var eins og ruslahaugur sögunnar. Ég tók þessa mynd þar fyrir nokkrum árum.

 

 

Í Þýskalandi gættu bandamenn þess að fjarlægja öll minnismerki nasismans eftir heimsstyrjöldina. Það var ekki eftir ein einasta stytta af Hitler og fólk sem átti myndir af honum varð að farga þeim eða fela.

Afua Hirsch skrifar í Guardian og vill að Englendingar taki sig til og fjarlægi styttuna af Nelson flotaforingja á Trafalgartorgi. Hirsch segir að Nelson hafi verið fúlmenni sem varði þrælahald af krafti. Hann nefnir líka styttu af Cecil Rhodes, eins ákafasta landkönnuðar nýlendutímans, sem stendur í Oxford. Rhodes var rasisti sem óð yfir allt og alla.

Frakkar munu seint fjarlægja styttur af Napóleoni Bonaparte. Þeim er enn tamt að líta á þennan Korsíkumann sem hóf allsherjarstríð í Evrópu sem frelsishetju. Hann stendur á sínum stalli á Vendome torgi. Napóleon var reyndar svo hégómlegur að hann lét reisa hið háa minnismerki sjálfur. Listamaðurinn Gustave Courbet komst til skammvinnra áhrifa á tíma Parísarkommúnunnar 1871. Hann fór með lið manna og náði að fella súluna og styttuna ofan á henni.

Kommúnan entist ekki lengi, Courbet flúði, en í refsingarskyni var honum gert að borga viðgerðina á minnismerkinu. Honum entist ekki aldur til þess.

 

 

Sjálfum hefur mér verið mjög illa við styttur sem standa í Bretlandi og Frakklandi og sýna hershöfðingja úr fyrri heimsstyrjöldinni. Ég get varla ímyndað mér meiri drullusokka en þá sem sendu milljónir ungra manna út í vígvelli og í opinn dauða, eins og ekkert væri, á árunum 1914 til 1918, í því gjörsamlega tilgangslausa stríði. En stendur stytta af Haig á mjög fínum stað í London og af Foch í París. Ég verð að viðurkenna að ég hræki alltaf pínulítið á laun þegar ég sé styttur af þessu tagi.

 

 

 

Mánudagur 21.08.2017 - 10:26 - Ummæli ()

Gegn hatursáróðri á internetinu

Internetið er gróðrarstía haturs sem vissulega var til áður – en leyndist þá í skúmaskotum. Og internetið eflir þá sem hata, hjálpar þeim að finna aðra hatara, þeir geta rottað sig saman og fundið hljómgrunn fyrir hatur sitt sem áður var ekki til að dreifa.

Við sjáum þetta til dæmis á viðurstyggilegum haturspóstum sem eru sendir til Semu Erlu Serdar, ungrar konu sem er af tyrkneskum ættum og hefur talað máli flóttamanna.

 

 

Þessir póstar eru þess eðlis að maður furðar sig á því að nokkur maður skuli láta frá sér slík ummæli á opinberum vettvangi – sem Facebook er vissulega. Myndu þessir menn standa kokhraustir úti á götu og hrópa orð af þessu tagi að öðru fólki?

Það er hægt að hvetja til þess að þeir sem eru Fésbókarvinir þeirra sem hegða sér svona segi upp vináttunni – helst tafarlaust. En svo er líka spurning með lagalegu hliðina.

Í Guardian í dag má lesa frétt þar sem segir að embætti ríkissaksóknara á Englandi (Crown Prosecution Service) ætli að fara að beita sér af meiri hörku gegn hatursáróðri á internetinu – og að það muni birtast í fleiri ákærum, fleiri og þyngri dómum.

Laugardagur 19.08.2017 - 18:28 - Ummæli ()

Samansafn af veitingastöðum en ekki matarmarkaður

Mathöllin við Hlemm lítur ágætlega út, það ég náði að sjá í troðningi fyrr í dag. Svæðið virðist vera ágætlega hannað.  Kannski er nokkur bjartsýni að hafa þetta á stað þar sem eru svo fá bílastæði? Svo er náttúrlega er vitlaust að tala um Mathöll – á íslensku myndi það heita Matarhöll.

En þetta er hins vegar ekki matarmarkaðurinn sem margir hafa talað um að mætti koma upp í Reykjavík. Mathöllin – látum okkur hafa það að nota orðið – er samansafn, þyrping, nokkurra veitingahúsa og svo nokkuð af borðum þar sem hægt er að neyta fæðunnar. Sum veitingahúsanna eru þekkt og hafa starfsemi annars staðar.

Þetta er það sem kallast á ensku food court, líkt og við höfum í Kringlunni og Smáralind, matartorg, ekki matarmarkaður, food market. Veitingastaðirnir eru þó ólíkt lystugri en tíðkast í verslunarmiðstöðvunum.

En maður fer semsagt ekki á Hlemm til að kaupa ferskan fisk, kjöt eða grænmeti – heldur er seldur þar tilbúinn matur.

Það verður semsagt enn bið eftir matarmarkaði – og kannski er ekki heldur gundvöllur fyrir slíkt á sama tíma og Costco er að valda usla í matvöruversluninni. Komandi heim eftir sumarlanga dvöl erlendis sér maður beinlínis hvernig vandi matvörubúðanna blasir við þegar maður kemur inn í þær.

Margir staðirnir á Hlemmi virka líka nokkuð dýrir, þetta er ekki lægsti flokkur af veitingastöðum. Þarna er líka bakaríið sem selur afar gott brauðmeti – en á uppsprengdu verði.

Í framhaldi af því spyr maður sig hvað verður um strætófarþegana sem fara um Hlemm. Munu þeir geta fengið athvarf fyrir veðri og vindum í allri þessari fínimennsku? Ég hef ákveðnar efasemdir um að þeir muni upp til hópa sjá sér fært að kaupa veitingar þarna inni.

Veitingastaðirnir í Mathöllinni líta margir prýðilega út, það vantar ekki. Þar verður ábyggilega mikið gúrme. Tveir af uppáhaldsveitingastöðunum mínum eru meira að segja með útibú þarna. Ég kvarta ekki undan því. En það má líka spyrja hvort það sé í verkahring borgaryfirvalda að greiða sérstaklega og með þessum hætti fyrir opnun fleiri veitingastaða í bænum.

 

Laugardagur 19.08.2017 - 12:09 - Ummæli ()

Sjálfsagt að skipta um nafn

Samfylkingin var alltaf mjög vont nafn á stjórnmálaflokki. Það var líka hugsað til algjörra bráðabirgða á sínum tíma. Samfylking minnir á eitthvað frá því á millistríðsárunum, þá voru alls konar „fylkingar“ í gangi. Það var meira að segja ómur af gamalli sögu, sem einhverjir mundu ennþá fyrir aldamótin, í nafninu – frá því þegar kommar og kratar gerðu tilraunir til að fylkja sér saman.

En svo fórst fyrir að breyta nafninu – og flokkurinn sat uppi með þetta heiti. Það vekur engar sérstakar kenndir, segir ekkert um stefnuna eða viðhorfin, er innantómt.

Nú þegar fylgið er í nokkru lágmarki, virðist þó aðeins vera að rísa, ætti að vera tilvalið tækifæri til að breyta. Það er ekki þar með sagt að flokkurinn verði stór á ný, en hann á þó ákveðin sóknarfæri nú þegar Björt framtíð og Viðreisn eru undir hælnum á Sjálfstæðisflokknum.

Flokksmenn geta svo skeggrætt um það hvort nafnið á að vera Jafnaðarmannaflokkur eða Jafnaðarflokkur.

 

Föstudagur 18.08.2017 - 11:03 - Ummæli ()

Má berja fasista?

Það er deilt um sveitir sem kalla sig antifa (antifascist). Mæta á staði þar sem hægriöfgamenn fara í göngur – og telja réttlætanlegt að lumbra á þeim. Og hægriöfgamennirnir eru líka til í slagsmál, það vantar ekki. Maður sér meira að segja fólk, og sumt telur maður yfirleitt skynsamt, deila færslum á Facebook þar sem er talið réttlætanlegt að berja hægriöfgamenn. Það eru meira að segja birtar skýringarmyndir um hvernig eigi að lemja fasista.

Á þessu eru ákveðnir meinbugir. Til dæmis hið sögulega fordæmi. Það gafst ekkert sérlega vel á millistríðsárunum, þegar uppgangur fasista var sem mestur, að mæta þeim í götubardögum. Fasistar náðu völdum víða í Evrópu, ekki bara á Ítalíu, Þýskalandi og Spáni, heldur líka nokkuð snemma í Grikklandi, Rúmeníu, Ungverjalandi, Austurríki og Portúgal. Ofbeldi milli stjórnmálahópa var notað sem átylla til að koma á einræðisstjórnarfari.

Öfgarnar mögnuðust vinstra og hægra megin, nasistar og kommúnistar sóttu að lýðræðinu og réttarríkinu, hvorir úr sinni átt, allt endaði það með skelfingu eins og þekkt er.

Það er líka spurningin hvar skal draga mörkin, hverja má berja og hverja ekki? Hver á að meta hvenær er rétt að antifa-hópar mæti með kylfur og hnúajárn, í hettupeysum og með klúta fyrir andlitinu? Hvenær á að sleppa svona hópum lausum? Hvenær endar vörnin fyrir mannréttindum og ofbeldisdýrkun tekur við?  Nú eru það íslamistar sem valda ógn og skelfingu með hryðjuverkum víða um lönd. Má þá líka berja þá sem liggja undir grun um að vera hallir undir íslamisma?

 

Fimmtudagur 17.08.2017 - 09:03 - Ummæli ()

Hrun í bóksölu – og horfurnar ekki bjartar

Það má lesa á forsíðu Morgunblaðsins að þriðjungur bóksölu hafi gufað upp síðan 2010. Tölur í þessa veru hafa verið á kreiki um nokkra hríð, en þarna er staðfesting á þessu. Þetta er í raun hrun í sölu og þá væntanlega líka lestri bóka – hjá bókaþjóðinni, eins og hún hefur verið kölluð.

Bækur eru enn keyptar og gefnar á jólum – en manni skilst að það verði æ sjaldgæfara að fólk kaupi bækur til eigin nota. Í lífsstílsþáttum sjónvarps, þar sem farið og skoðað inn á heimilum fólks, sjást aldrei bækur. Þeim hefur verið útrýmt.

Skýringarnar á þessu eru varla svo flóknar. Það er alls ekki svo að skrifaðar séu eða gefnar út verri bækur. Það eru komnir aðrir miðlar sem ryðja bóklestri burt. En ef miðað er við árið 2010 þá er það tíminn þegar fólk fór að ánetjast samskiptamiðlum. Þessir miðlar eru býsna andsnúnir bóklestri – þeir bjóða upp á annars konar örvun heilabúsins og hún hefur reynst vera býsna ávanabindandi.

Fátt bendir heldur til annars en að bóklesturinn haldi áfram að dragast saman. Þeim fjölgar sífellt sem líta aldrei í bók. Lestrarátök munu lítt duga gegn þessu.

 

 

Miðvikudagur 16.08.2017 - 10:09 - Ummæli ()

Elvis est mort

Í dag eru liðin fjörutíu ár frá andláti Elvis Presley.  Við Jakob Bjarnar vinur minn göntuðumst með það einu sinni að þegar við færum á elliheimili myndum við efna til ritdeilu um Elvis Presley. Ég ætlaði að skrifa greinar í Velvakanda undir nafninu „Einn á Grund“. Átti að halda því fram að Elvis hefði verið asnalegur. Jakob ætlaði að svara og segja að hann hefði verið frábær.

Annars væri ekki erfitt fyrir mig að halda fram þessum málstað – þegar ég var að alast upp var Elvis með því hallærislegasta sem hugsast gat. Eins og ofvaxinn hani á sviði í Las Vegas. Nýkominn úr hernum. Hafði leikið í mörgum leiðinlegum kvikmyndum.

Breska bítlið feykti þessu öllu burt. Og enn finnst mér að Elvis sé fyrst og fremst sætsúpusöngvari. En hann tók tónlist svarta fólksins og gerði hana húsum hæfa fyrir hvíta fólkið Það voru margir svartir tónlistarmenn sem voru miklu betri en Elvis – einn þeirra, Chuck Berry, dó nýskeð í hárri elli. Chuck samdi sín eigin lög, það gerði Elvis ekki.

Þegar Elvis dó var ég í frönskuskóla í Grenoble í Frakklandi. Ég var tiltölulega saklaus unglingur og bókmenntahneigður. Þetta var sami dagur og ég kynntist Matthíasi Viðari. Man að ég sá fréttina á forsíðum blaða þegar ég fór út í búð að kaupa rósavínsflösku til að drekka um kvöldið. Elvis est mort  stóð í blöðunum. Ég var penn í drykkjunni þá. Matthías Viðar kom með fulla flösku af Pernod á stúdentagarðinn til mín – gerðist nokkuð drukkinn. Ég var ekki alveg undirbúinn undir það. En Matthías var ógleymanlegur maður og ég sakna hans.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is