Mánudagur 23.10.2017 - 22:37 - Ummæli ()

Er hægri stjórn að skjóta upp kollinum?

Miðflokkurinn tekur fylgi frá Framsókn og Sjálfstæðisflokki og fer með himinskautum í nýrri skoðanakönnun MMR með 12,3 prósenta fylgi (það verður reyndar að segjast eins og er að skoðanakannanirnar eru óþolandi misvísandi). En samkvæmt könnuninni eru þessir þrír flokkar samanlagt með 44 prósenta fylgi.

Flokkur fólksins er aftur í færi að komast inn á þing, vantar sáralítið upp á, og verður að teljast sennilegt að það gerist sökum þess að fylgismennirnir eru mestanpart eldra fólk sem skilar sér fremur á kjörstað en hið yngra.

Vinstri græn eru hins vegar að gefa verulega eftir og verða máski ekki stærsti flokkurinn eins og stefndi í um tíma. Það má jafnvel spyrja hvort nú séu ekki álíka miklar líkur á hægri og vinstri stjórn. Ef í harðbakkann slær ættu Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Framsókn og FF að ná saman. Það verða þá frekar persónur sem standa í veginum og sært stolt en málefni. En Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru ekki stjórnmálaöfl sem gefa eftir stjórnarsetu ef hún er á annað borð í boði.

Fyrir Katrínu Jakobsdóttur er pólitísk nauðsyn að komast í stjórn. Því hefur verið spáð hér áður að það takist ekki með þremur flokkum. Samkvæmt skoðanakönnun MMR hafa VG, Samfylking og Píratar minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Framsókn. Til að Katrínu megi takast að mynda stjórn þarf Framsóknarflokkurinn líka að vera með – eða kannski myndi Viðreisn duga. En þetta gæti verið erfið stjórnarmyndun. Þarna eru býsna ólík sjónarmið sem þarf að sætta.

Þær ríkisstjórnir sem eru nefndar hafa allar tæpan meirihluta – nema verði beinlínis farið út í fimm flokka stjórn. Til tals hefur komið möguleikinn á minnihlutastjórn, til dæmis stjórn Vinstri grænna með hlutleysi nokkurra flokka. Það verður satt að segja að teljast ólíklegt. Engin hefð er fyrir minnihlutastjórnum á Íslandi og líklegt að slík stjórn yrði mjög ótraust og ekki nema til bráðabirgða. Það er heldur ekki líkt íslenskum stjórnmálaflokkum að taka ábyrgð á ríkisstjórnum án þess að fá ráðuneyti í sinn hlut.

 

Mánudagur 23.10.2017 - 15:25 - Ummæli ()

Förum með kjörstaðina þangað sem fólkið er

Morgunblaðið birtir þessa litlu frétt á forsíðu í dag. Hún er mjög athyglisverð. Kjörsókn í utankjörstaðaatvkæðagreiðslu er miklu meiri en hún hefur verið áður.

 

 

Ég held að skýringin á þessu sé tiltölulega einföld. Ég átti leið í Smáralind þar sem kosningin fer fram um daginn. Kjörstaðurinn blasir við öllum sem fara um ganga verslunarmiðstöðvarinnar. Hann lítur í raun út eins og ein af verslununum. Það er ómögulegt að láta hann fara fram hjá sér. Mín var næstum því freistað að fara inn og kjósa, ég sleppti því samt.

Það er kvartað undan lélegri kjörsókn og menn óttast að hún versni. En lausnin er þarna og hún er einföld. Fara með kjörstaðina út til fóksins. Það væri líka hægt að kjósa í Kringlunni, við Laugaveginn, í Spönginni, á Glerártorgi á Akureyri.

Það er algjör óþarfi að fólk þurfi að leita uppi einhverjar skrifstofur til að kjósa – slíkt er bara gamaldags. Þessa kjörstaði væri hægt að hafa opna í nokkrar vikur fyrir hinn eiginlega kjördag, um að gera að hafa þá nógu áberandi – og sjá, kjörsóknin mun batna.

 

Mánudagur 23.10.2017 - 11:54 - Ummæli ()

Áhugaverður sósíalismi – eða hvað?

Það hefur verið dálítið sérstakt að horfa upp á nokkuð eindreginn stuðning vinstri manna á Íslandi við sjálfstæði Katalóníu. Kannski stafar eitthvað af því af vanþekkingu, en þess má geta að Birgitta Jónsdóttir fór til Barcelona í kosningaeftirlit en endaði nánast uppi á götuvígjunum.

Maður getur spurt hverju sætir. Ein tilgáta sem mætti setja fram er að íslenska vinstrið var alltaf fram úr hófi þjóðernissinnað, einkum vegna herstöðvabaráttunnar. Það var löngum með þjóðernisáherslur á oddinum, í raun frekar en stéttaáherslur. Getur verið að eimi enn eftir af þessu?

Óttar Norðfjörð rithöfundur, sem er búsettur í Katalóníu, veltir þessu fyrir sér í grein sem hann setti á Facebook í dag. Þar útskýrir hann að sjálfstæðismálin í héraðinu eru miklu flóknari en kann að virðast í íslensku fjölmiðla- og stjórnmálaumhverfi. Óttar nefnir til dæmis nýlega skoðanakönnun sem sýnir að sjálfstæðissinnar eru enn í minnihluta í Katalóníu.

Meira um Katalóníu. Viðbrögð íslensks listafólks, vinstrafólks og menningarforkólfa hafa verið eitt það áhugaverðasta í öllu þessu máli að mínu mati, ótrúlegt en satt. Skilyrðislaus stuðningur þess við sjálfstæði Katalóníu hefur verið á pari við allra hörðustu sjálfstæðissinna hérna í Katalóníu. Enginn efi, alveg 100% í sannfæringu sinni. Það hefur mér þótt merkilegt. Og líka að þessi hópur, á eyju lengst uppi í Atlantshafi, virðist þekkja sögu Spánar betur en flestir hér og geta sett sig fullkomlega í aðstæðurnar hérna, í sumum tilvikum betur en lókal fólk.

Því þetta er það sem hefur heyrst frá lókal fólki. Svo gott sem ALLAR kannanir hafa sýnt yfirgnæfandi andstöðu við sjálfstæði, þótt það virðist etv. ekki svo skv. fréttamiðlum sem eru áhugasamari um að birta æsimyndir af átökum og mótmælum minnihluta. Könnun sem var gerð fyrir helgi sýndi að 55% Katalóna vill EKKI sjálfstæði byggt á kosningunni 1. október, þrátt fyrir hin hörðu og hrikalega slæmu viðbrögð Spánarstjórnar við öllu þessu sorglega máli.

Og svo má kannski bæta við, þótt það varði reyndar meira efnahagslegt líf fólks hérna og veldur mörgum miklum áhyggjum, að ýmislegt sem leiðendur sjálfstæðishreyfingarinnar höfðu sagt vikurnar fyrir kosninguna hefur reynst tóm vitleysa – fyrirtæki hafa ekki „slegist um að vera áfram í Katalóníu“, eins og einn orðaði það, heldur hafa 1200 fært lagalegar höfuðstöðvar sínar til Spánar. Alþjóðasamfélagið og ESB hafa ekki stutt sjálfstæðistilburðina, heldur þvert á móti gaf ESB út að þau styddu Spán í þessu mál. Velta í Katalóníu frá 1. október dróst saman um 20%, færri ferðamenn komu til Barselóna, íbúar eyddu minna, það er talað um billjón evru tap út árið (sem mun auðvitað bara halda áfram á meðan þetta ástand varir). Það er Brexit-lykt af þessu (og kannski kemur ekki á óvart að helsti stuðningsmaður Katalóna á Evrópuþinginu hefur einmitt verið Nigel Farage!).

En nei, samt hafa þessir Íslendingar, margir hverjir þekktir í samfélaginu, m.a. viljað að ríkisstjórn Íslands styðji sjálfstæði Katalóníu – og þá í raun að meirihluti Katalóna sé neyddur undir sjálfstæði sem þeir vilja ekki (ástæðan fyrir því að 90% kaus með sjálfstæði 1. október, þar sem kosningaþátttakan var einungis 43% nota bene, var sú að andstæðingar mótmæltu kosningunni með því að mæta ekki á kjörstað, enda sögðu þeir hana ólöglega þar sem henni var þröngvað í gegnum katalónska þingið án 2/3 stuðnings þingmanna eins og þarf með slík stór mál).

Óttar nefnir í lok greinarinnar kosningu á Norður-Ítalíu þar sem ríkustu héruð landsins eru óviljug að borga fyrir hin fátækari. Á Ítalíu hefur lengi verið dregin lína milli norðurs og suðurs og hið hálf-fasíska Norðurbandalag hefur gert út á þessi skilþ

 Í gær kusu Norður-Ítalir með aukinni sjálfstjórn í Langbarðalandi og Feneyjarhéraði. Þetta ríka svæði sér um 1/3 þjóðarframleiðslu Ítalíu og vill borga miklu minni skatt til fátækari héraða Ítalíu. Hægri flokkurinn Lega Nord fer með völdin í þessum tveimur héruðum og mun nú notfæra sér kosninguna til að „semja um aukið sjálfstæði gagnvart landstjórninni í Róm“ eins og RÚV orðar þar. Ég geri ráð fyrir að íslenska vinstrið og fleira menningarfólk lýsi yfir stuðningi sínum með þetta. Áhugaverður sósíalismi þar á ferð, að styðja það að ríkustu héruð Evrópu fái meira sjálfstæði og hætti að þurfa að borga til fátækari landssvæða. Kannski ætti þessi sami hópur að stofna sjálfstæðishreyfingu fyrir Reykjavík, svo við getum líka losað okkur frá Íslandi og hætt að halda landsbyggðinni uppi?

 

Sunnudagur 22.10.2017 - 21:15 - Ummæli ()

VG með langmest fylgi meðal ungra kvenna en Sjálfstæðisflokkurinn meðal eldri karla

Hér eru ansi merkilegar upplýsingar sem eru unnar upp úr skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar um fylgi flokkanna sem birtist 13. október. Upplýsingarnar eru greindar á vef sem kallast Datasmoothie – það er hægt að gramsa í þessum gögnum á ýmsa vegu eftir kyni, aldri og búsetu.

 

 

 

Fyrst er áhugavert að sjá fylgi flokkanna eftir kyni. Hjá konum eru Vinstri græn langhæst, með 38,6 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn höfðar miklu síður til kvenna, hann er með 19,6 prósent.

 

Þvínæst er fylgið meðal karla. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn efstur, með 25,5 prósent en VG ekki með nema 18,7 prósent. Við tökum líka eftir því að bæði Miðflokkurinn og Píratar hafa mun meira fylgi meðal karla en kvenna.

 

Svo er að skoða aldursskiptinguna. Þetta eru kjósendur sem eru komnir yfir sextugt. Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn mest fylgi, 25,9 prósent og þar er Samfylkingin líka sterk með 21,8 prósent. Píratar hafa afar lítið fylgi meðal eldri kjósenda, en þarna er Flokkur fólksins sterkastur.

 

 

Þetta er aldurshópurinn 30 til 44 ára. Það er þarna að Sjálfstæðisflokkurinn stendur veikast samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar með 17,3 prósent. VG er með 33,7 prósent.

 

 

Hér má sjá fylgi meðal ungra kvenna á aldrinum 18 til 29 ára. Þarna fer VG langleiðina með að ná helmingsfylgi, er með 43,1 prósent en Sjálfstæðisflokkurinn með 17,8.

 

Loks má hér sjá fylgi flokkanna meðal karla sem eru komnir yfir sextugt. Þarna er sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins, samkvæmt könnuninni. Hann er með 27,3 prósent en VG með 17,8 prósent, og lægri en Samfylkingin sem er með 19,9 prósent.

Sunnudagur 22.10.2017 - 13:41 - Ummæli ()

Cui bono – Katalónía?

Sjálfsákvörðunarréttur þjóða – þetta var boðskapur sem Wilson Bandaríkjaforseti kom með til Evrópu eftir hildarleik fyrri heimsstyrjaldarinnar, þetta var partur af fjórtán punktunum hans sem hann lagði á borðið í Versalasamningunum. Þetta virðist afar skynsamlegt við fyrstu sýn. Að þjóðir fái að ráða sjálfar sínum málum?

En hvað er þjóð? Austurríki-Ungverjaland brotnaði upp í mörg smáríki eftir fyrra stríð. Innan flestra þeirra voru óánægðir minnihlutar – annarar þjóðar en þeirrar sem var ráðandi í ríkinu. Fyrsta hernaðaraðgerð Hitlers var að leggja undir sig héruð Súdeta-Þjóðverja í Tékkóslóvakíu undir því yfirskini að þeir sættu ofsóknum.

Í Grikklandi og Tyrklandi urðu gríðarlegar hörmungar sem eru furðulega lítt þekktar í norðurálfu. Grikkir sem bjuggu í Tyrklandi voru reknir burt harðri hendi, á móti voru Tyrkir sem bjuggu Grikklandsmegin flæmdir burt. Borgir sem höfðu verið fjölþjóðlegar miðstöðvar verslunar og mannlífs urðu einsleitar – Smyrna var brennd en Saloniki missti sinn margbreytileika. Eftir þessar þjóðernishreinsanir urðu til tvö nokkuð „hrein“ ríki. En þetta var skelfilegur harmleikur.

Við höfum dæmi um hræðileg þjóðernisátök þegar Júgóslavía liðaðist sundur í lok kalda stríðsins. Þar var háð stærsta styrjöld í Evrópu eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari með tilheyrandi fjöldamorðum og nágrönnum sem allt í einu sátu um að drepa hver aðra. Á endanum urðu til sex ný ríki. Það er fjarri því að eintóm hamingja ríki í þeim.

Þetta er eitur þjóðernishyggjunar. Samuel Johnson sagði: Patriotism is the last refuge of the scoundrel. Það er einfalt að stofna þjóðríki þar sem allir eru eins og hafa sama uppruna eins og á Íslandi. Í þjóðahrærigraut eins og er á Spáni er það öðruvísi. Þar færir þjóðremban sig stöðugt upp á skaftið og maður bíður þess, með sorg í hjarta, að blóðsúthellingar hefjist á stöðum þar sem hefur ríkt friður og velsæld.

Hver hefur gagn af því? Cui bono?

 

Laugardagur 21.10.2017 - 17:59 - Ummæli ()

Tvö kosningapróf

Það eru a.m.k. tvö kosningapróf á netinu sem hægt er að spreyta sig á – og væntanlega fá vísbendingu um hvern maður ætti að kjósa í kosningunum 28. október.

Smá tilraun: Ef maður gefur upp hlutleysi við öllum spurningunum í kosningaprófi RÚV fær maður Sjálfstæðisflokkinn efst með 69 prósenta samsvörun. Viðreisn og Miðflokkurinn koma næst með 68 og 67 prósent en VG og Alþýðufylkingin neðst með 62 og 58 prósent.

Hitt prófið er á vef Stundarinnar. Þar prófaði ég líka að vera hlutlaus í öllum málum, í spurningunum 63. Þar gefur hlutleysið manni Miðflokkinn. Hann er semsagt default flokkurinn, þótt samsvörunin sé reyndar ekki nema 40 prósent. BF er með sama hlutfall, en Samfykingin ekki með nema 13 prósent og VG með 17 – ef maður skilar auðu í öllum málum.

Í kosningaprófi Stundarinnar er að finna þessa spurningu. Maður hlýtur að spyrja, á vondri íslensku – í box hvaða flokks tikkar það ef maður segist vera fjarskalega sammála þessari fullyrðingu?

 

Laugardagur 21.10.2017 - 12:21 - Ummæli ()

Framsókn eða Viðreisn í oddaaðstöðu?

Hver skoðanakönnunin á fætur annarri bendir til þess að mjög erfitt verði að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar. Menn gefa sér að Vinstri græn, Samfylking og Píratar muni vinna saman ef flokkarnir fá meirihluta á þingi. En í raun er ólíklegt að svo verði, meirihlutinn yrði þá í mesta lagi einn þingmaður.

Á hægri vængnum er þetta enn flóknara. Þar er í raun ekki hægt að sjá neina ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn getur tæplega unnið með Miðflokknum og Viðreisn myndi vera mjög hikandi að setjast í ríkisstjórn með honum.

Eina von Sjálfstæðisflokksins um að komast í ríkisstjórn er að Vinstri græn fari með honum. Það er fjarlægur draumur – og enn fjarlægari eftir lögbannið sem sett var á Stundina og fréttaflutninginn af Bjarna Benediktssyni í blaðinu. Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson eru í ágætu sambandi en hún getur varla tekið þá áhættu að stuttu eftir að hún myndar ríkisstjórn með honum fari að birtast fleiri fréttir af fjármálavafstri hans.

Í baklandi VG í Reykjavík er fullkomin andstaða gegn því að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokki, þótt önnur viðhorf kunni að vera uppi úti á landi.

Þetta veldur því að tveir litlir flokkar verða máski í oddastöðu eftir kosningarnar. Bæði Framsóknarflokkur og Viðreisn eiga eftir að tapa illa og ná kannski ekki nema fáum mönnum inn á þing.  En tilurð ríkisstjórnar gæti oltið á öðrum hvorum flokknum.

Hvor þeirra er tilbúinn að fara í ríkisstjórn undir forsæti Kötu Jak?

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is