Laugardagur 24.9.2016 - 17:00 - Ummæli ()

Pandóruaskja Framsóknar

Það stefnir í blóðugan slag hjá Framsóknarflokknum fram að flokksþinginu um næstu helgi þegar verður kosið um formanninn. Samstaða sem virtist vera á yfirborðinu í flokknum er gufuð upp og reyndist vera tálsýn ein.

Eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson tilkynnti framboð sitt hafa allar gáttir opnast. Þingmennirnir Karl Garðarson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Eygló Harðardóttir hafa lýst yfir stuðningi við hann – Eygló segist vilja verða varaformaður, en aðeins ef Sigurður Ingi vinnur.

Sigurður Ingi fær 100 prósent atkvæða, öll atkvæðin með tölu, í kosningu um efsta sætið á framboðslista Framsóknar í Suðurkjördæmi – daginn eftir að hann tilkynnti ákvörðun sína. Ef marka má þetta gæti róðurinn orðið þungur fyrir Sigmund Davíð.

Sigmundur á hins vegar hauk í horni þar sem er Vigdís Hauksdóttir. Hún er óbilandi í stuðningi við hann. En Vigdís er auðvitað að hætta á þingi og er ekki í framboði í kosningunum. Það sama á við um þingmanninn Þorstein Sæmundsson sem er í stuðningsliði Sigmundar.

Á samskiptamiðlunum gengur á með svikabrigslum og hnýfilyrðum milli Framsóknarmanna. Þetta er eins og Pandóruaskja – og nú er búið að taka lokið af.

 

Laugardagur 24.9.2016 - 00:49 - Ummæli ()

Mikill fjöldi sveitarfélaga – en íbúum fækkar í flestum

Þetta er merkilegt kort sem Sigurður Á. Snævarr hagfræðingur birti á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær.

Kortið sýnir mannfjöldaþróun í sveitarfélögum á Íslandi milli 2002 og 2016.. Eins og sjá má fjölgar fólki Suðvestanlands og alls staðar þegar nær dregur höfuðborgarsvæðinu.

Það er fjölgun á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu og austur á Fljótsdalshéraði og í Fjarðabyggð. Alls fækkar fólki í 42 sveitarfélögum en fjölgar í 32.

Sigurður sagði á ráðstefnunni:

Langvarandi fækkun á ákveðnum landsvæðum er grafalvarlegur hlutur. Þar er hætta á að sveitarfélögin verði ekki sjálfbær, hvorki fjárhagslega né félagslega.

Það er annað á kortinu sem vekur spurn – nefnilega fjöldi sveitarfélaganna. Það er feikilega vel í lagt að hafa 74 sveitarfélög í svo fámennu landi. En tregðulögmál valda því að erfitt reynist að fækka sveitarfélögunum.

 

 

MANNFJ0LDAKORT

 

Föstudagur 23.9.2016 - 18:45 - Ummæli ()

Sigurvegarar formannaþáttarins

12669677_578185945667868_3859100138302386560_nÞað er merkileg niðurstaða úr fjölmennum foringjaþætti í sjónvarpi, upphafsþætti kosningabaráttunnar, að sigurvegarinn hafi verið miðaldra kona sem enginn þekkir og úr allsendis ókunnum flokki.

En það virðist vera samdóma álit að Inga Snæland hafi borið af í þættinum. Hún talaði vafningalaust, án tæpitungu. Það rann allt í einu upp fyrir mér hvenær ég hafði séð hana áður á sjónvarpsskermi, jú, í Idol söngkeppninni fyrir löngu. Inga virkaði eins og venjuleg manneskja, og það er kostur, hún er öryrki og að miklu leyti blind. Hún talar fyrir Flokk fólksins – ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki heyrt minnst á hann áður.

Annars varð það Bjarni Benediktsson sem kom sterkast út úr þættinum. Hann er stór og mikill á velli, er vanur að hafa völd, og getur talað með ákveðnum myndugleika. Hann vantaði í flesta aðra þátttakendurna og þeir virkuðu dálítið eins og kraðak í kringum hann. Uppstillinginn hentaði Bjarna semsagt afar vel.

Sigmundur Davíð fékk tækifæri til að svara fyrir sig í upphafi þáttar. Hann talaði þannig að þeir sem fylgja honum að málum styrktust í sannfæringu sinni – aðrir hafa varla skipt um skoðun. Einhvers staðar stóð að hann hefði lifað af. Sigmundur virðist líka hafa lifað af fund með þingmönnum Framsóknar í dag. Atburðarásin innan flokksins er þannig að það er mjög erfitt að skilja hvað er að gerast.

Svo er annað sem er sláandi – nefnilega að margt af þessu fólki gæti sem hægast verið í sama flokki. Hví er það að dreifast á öll þessi framboð?

Föstudagur 23.9.2016 - 08:22 - Ummæli ()

Leonard Cohen í Reykjavík 1988 – og 28 árum síðar með nýtt lag

Meðal þess sem við sýnum í þætti sem verður sýndur annað kvöld og fjallar um menningu í sjónvarpi í 50 er brot frá sögufrægum tónleikum Lenonards Cohen í Laugardalshöll 1988. Cohen kom til Íslands og var einstaklega örlátur á sjálfan sig og tónlist sína. Spilaði langa tónleika og áhorfendur kunnu fjarska vel við hann. Það er gaman að sjá lagalistann, Cohen hafði nýlega sent frá sér plötuna I’m Your Man og lék lög eins og First We Taka Manhattan og Take This Waltz af henni, en líka stóran hluta af eldri katalóg sínum, lög eins og Bird on a Wire, Sisters of Mercy, Hallelujah, Susanne, So Long Marianne og Famous Blue Raincoat.

Þetta voru stórkostlegir tónleikar.

Cohen er orðinn 82 ára. Hann hefur er náttúrlega skáld ekki síður en tónlistarmaður, enda hóf hann feril sinn sem rithöfundur.  Í næsta mánuði sendir hann frá sér nýja plötu sem nefnist You Want It Darker – titillagið hefur þegar verið birt á YouTube. Hann syngur þarna með kór úr bænahúsi gyðinga, dauðinn er nálægur, það er myrkur í laginu, heimurinn er í vondu ástandi, og Cohen, orðinn gamall maður, glímir við guð.

 

 

 

Hér er svo Hallelujah – af tónleikunum frægu í Laugardalshöll. Sýnishorn af því sem áheyrendur fengu að njóta þennan sumardag, 24. júní 1988. Hvað varðar innihald er Hallelujah ekki svo langt frá nýja laginu – í báðum tilvikum er viðureign við guð gyðinga og Gamla Testamentisins.

 

Fimmtudagur 22.9.2016 - 16:37 - Ummæli ()

Stenst ekki vitsmunalegar kröfur

Ein þversögnin í íslenskri pólitík er hversu við erum andsnúin Evrópusambandsaðild en ræðum um leið hérumbil aldrei um allt sem fylgir því að vera aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Það stenst til dæmis varla neinar vitsmunalegar kröfur að nota fullveldistap sem rök á móti ESB-aðild en vera um leið fylgjandi EES og horfa framhjá fullveldisafsalinu þar.

Reyndar er þetta umræðuefni sem pólitíkin barasta almennt forðast. Tilskipanirnar streyma án afláts í gegnum EES og þær eru samþykktar á færibandi.

En stundum getum við varla litið framhjá þessu. Nú þarf fyrrverandi utanríksráðherra, Össur Skarphéðinsson, til að benda á að EES tilskipun sem felur í sér að úrskurðarvald varðandi fjármálaþjónustu færist til stofnunar á veggum ESB rúmist ekki innan stjórnarskrárinnar.

En þetta mál virðist hafa átt að fara þegjandi og hljóðalaust gegnum þingið með samþykki ríkisstjórnar sem annars telst hafa horn í síðu Evrópusambandsins.

Össur segir að þetta sé klárt stjórnarskrárbrot en það er ráðherra úr Framsóknarflokknum sem segir að svo sé ekki. Það hentar ekki ríkisstjórninni á þessum tímapunkti að láta öðruvísi. Best að láta eins og ekkert sé.

Miðvikudagur 21.9.2016 - 22:21 - Ummæli ()

Stóra skýrslumálið – formannaslagur í sjónvarpinu

Það verður ekki annað sagt en að Vigdís Hauksdóttir kveðji stjórnmálin með hvelli. Allt nötrar vegna stóra skýrslumálsins – líka embættismannakerfið. En Vigdís er að hætta, líklega þarf hún brátt að eftirláta sviðið þeim Framsóknarmönnum sem sækjast eftir að halda áfram í pólitík. Lilja Alfreðsdóttir tekur við efsta sætinu á framboðslista flokksins í Reykjavík suður af Vigdísi. Ætli megi ekki segja að hún sé annarrar gerðar sem pólitíkus?

Vigdís vill lemja á kerfinu, Lilja kemur innan úr kerfinu.

Guðlaugur Þór fjarlægist óðum skýrsluna sem reyndar er búið að breyta mikið frá upprunalegri gerð. Hann vill væntanlega eiga möguleika á að verða ráðherra eftir kosningar – það er ekki víst að skýrslan sé sérlega gott vegarnesti á þeirri leið.

Einkennilegasta uppákoman er svo frásögn sjálfstæðismannsins og alþingismannsins Haraldar Benediktssonar um embættismanninn sem hótaði honum. Haraldur er bændahöfðingi, býr á jörð sjálfs Jóns Hreggviðssonar, og lætur sér varla margt fyrir brjósti brenna. Embættismaðurinn, Guðmundur Árnason, á að hafa hótað Haraldi eignamissi.

Það er reyndar vandséð hvernig embættismaður, hversu háttsettur hann er, getur orðið valdur að slíku. Hafi Guðmundur haft í hótunum um þetta eru það orðin tóm. Hann getur hins vegar höfðað meiðyrðamál fyrir dómstólum og farið fram á bætur – sem gætu lýst sér í einhvers konar eignamissi séu þær nógu háar.

En það er svo angi af sögunni að milli Guðmundar Árnasonar, sem er ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins er sagður ríkja mikill trúnaður. Þeir hafa starfað náið saman síðustu árin – frægt er í heimi stjórnmálanna að Bjarni kann miklu betur við sig innan um embættismenn en í hópi félaganna í þingflokknum.

Nú á fimmtudagskvöld verða formannaumræður í sjónvarpinu (Steinsteypuöldin frestast vegna þeirrra). Það er ólíklegt annað en að skýrslumálið beri á góma – þótt kannski séu ýmis önnur mál brýnni. Bjarni Benediktsson verður þar og líka Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem fær tækifæri til að láta ljós sitt skína – og jafnvel styrkja stöðu sína í átökum um formannssætið í Framsóknarflokknum.

 

25b53a39d9-400x268_o

Bjarni Benediktsson og Guðmundur Árnason. Sagður er ríkja mikill trúnaður milli þeirra.

Miðvikudagur 21.9.2016 - 17:31 - Ummæli ()

Bankastjóri fær yfirhalningu

Þetta er besta efnið á internetinu í dag.

Öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren, sá stjórnmálamaður bandarískur sem hefur gengið harðast fram í gagnrýni á bankakerfið, tekur John G. Stumpf, forstjóra Wells Fargo bankans, algjörlega til bæna.

Bankinn gerir sig sekan um sviksamlegt athæfi, og viðbrögð stjórnenda hans er að reka lægra setta starfsmenn. Warren segir forstjóranum að hann eigi að segja af sér sjálfur.

Svikin voru til þess fallin að þrýsta upp hlutabréfaverði í bankanum. Stumpf sjálfur hagnaðist gríðarlega á þessu. En starfsmönnum bankans var gert að taka þátt í svikamyllunni. Warren spyr:

Ef þú hefur enga skoðun á mestu svikum í sögu þessarar bankastofnunar, hvernig geturðu þá haldið áfram að þiggja laun frá henni?

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is