Sunnudagur 10.12.2017 - 18:42 - Ummæli ()

Gamla Flugstöðin og Loftleiðir

Nú stendur til að rífa gömlu flugstöðina í Keflavík. Hún hefur sjálfsagt ekkert notagildi – hefði kannski mátt varðveita hana sem leikmynd fyrir bíó, til dæmis fyrir myndir sem eiga að gerast austantjalds í kalda stríðinu.

En það var líka ljómi yfir flugferðum á tíma hennar. Þetta var fyrir þann tíma að meirihluti þjóðarinnar fór til útlanda á hverju ári, þegar túristarnir voru ekki nema örfá þúsund, áður en fólk fór að troðast eins og sardínur í dós í lágfargjaldaflugvélar.

Á myndinni má sjá Douglas DC-8 flugvél frá Loftleiðum. Það var ástsælt flugfélag á sínum tíma. Stofnendur þess voru frumkvöðlar í flugi, karlar í krapinu.

Eftirfarandi las ég á umræðuþræði: Þetta var á þeim tíma að hægt var að þekkja Íslendinga sem fóru til útlanda úr, þeir töluðu með hreim.

 

 

Laugardagur 09.12.2017 - 22:12 - Ummæli ()

Hinn norræni eftirréttur Risalamande – eða Riz à l’amande

Mér varð á að skrifa Ris a la mande á alnetið og fékk á mig harða gagnrýni fyrir svo lélega frönsku. Á því tungumáli myndi þetta heita Riz à l’amande. En þetta er ekki alveg svo einfalt. Í Danmörku skrifa menn einfaldlega Risalamande. Þetta er danskur réttur, hafður á jólaborðum þar í landi, og barst hingað frá Danmörku eins og svo margt annað í matargerð og menningu. Þetta er til dæmis eftirréttur með hinum vinsæla jóladisk á Jómfrúnni.

Samkvæmt upplýsingum sem má finna á Wikipedia hefur dönsk málnefnd kveðið upp úr um að rétturinn heiti Risalamande og að hann hafi orðið til á seinni hluta 19. aldar, en eftir seinni heimsstyrjöldina jukust vinsældir hans. Stundum hefur tíðkast að elda hrísgrjónagraut á lillejuleaften (sem við köllum Þorláksmessu) og blanda svo við hann rjóma og nota sem eftirrétt á aðfangadagskvöld.

Í Wikipedia segir að í Svíþjóð nefnist svipaður réttur ris à la Malta. Það hefur ekkert með eyjuna Möltu að gera, heldur er þetta afbökun af danska heitinu. Norska útgáfan heitir riskrem.

Rétturinn er svo yfirleitt borinn fram með sósu sem er ýmist úr kirsuberjum, jarðarberjum eða hindberjum. Stundum eru möndlur saxaðar og settar í bland við rjómann og grjónin, en það tíðkast líka að setja heila möndlu – sá sem hana hreppir fær möndlugjöf. Það er siður sem tíðkast víða á Norðurlöndunum.

Svo verður að segjast eins og er að þessi greinarstúfur er hálfgerð auglýsing. Sigurveig kona mín býr til rómað Risalamande í Matarkistu sinni og selur fyrir jólin. Tekur við pöntunum. Hún býr líka til sósur með – og svo eggjapúns eins og sjá má í flöskunni og glasinu á myndinni. Allt er þetta hrikalega gott.

 

 

 

Laugardagur 09.12.2017 - 18:44 - Ummæli ()

John Hughes og gullöld grínsins

Sjónvarpið sýnir í kvöld, undir dagskrárliðnum Bíóást, kvikmyndina Planes, Trains & Automobiles. Það er Sigurjón Kjartansson, grínisti og handritshöfundur, sem velur myndina. Það er skemmst frá því að segja að þetta er einhver besta grínmynd allra tíma. Tilheyrir hinni vinsælu en nokkuð vanmetnu grein eighties-gamanmyndum.

Níundi áratugurinn var nefnilega gullöld í gerð grínmynda. Fæstar þeirra fengu sérstaka viðurkenningu á sínum tíma, þær voru ekki tilnefndar til Óskarsverðlauna og ekki heldur leikararnir eða leikstjórarnir. En frá þessum tíma eru myndir eins og áðurnefnd Planes, Trains & Automobiles, Ferris Bueller’s Day Off, Back to the Future, Home Alone  og Ghostbusters. Grínmyndir sem gerðar eru í dag eru yfirleitt ekki í þessum klassa.

Planes, Trains & Automobiles er gerð af leikstjóranum John Hughes. Hann lést 2009, en á níunda áratugnum átti hann ótrúlegan sprett og gerði hverja snilldarmyndina á fætur annarri. Sumar þeirra voru unglingamyndir eins og The Breakfast Club og Pretty in Pink, en Hughes gerði líka Ferris Bueller, Home Alone og skrifaði handritið að þeirri vinsælu jólamynd National Lampoon’s  Christmas Vacation.

Í Planes, Trains & Automobiles hefur hann með sér Steve Martin og hinn óviðjafnanlega grínsnilling John Candy. Candy var frá Kanada, fékk alltof fá aðalhlutverk, en hann fer á kostum í þessari mynd. Hann lést fyrir aldur fram fáum árum síðar. Myndin gerist rétt fyrir þakkargjörðarhátíðina – er yfirleitt sýnd í Ameríku á þeim tíma – og segir frá tveimur mönnum sem eru að reyna að komast heim til sín en lenda í alls kyns óhöppum. Annar er vel efnum búinn, fínn með sig og ekkert sérlega alúðlegur, hinn er elskulegur klaufabárður, skítblankur, sem setur allt í uppnám hvar sem hann kemur.

Hinn hlægilegi og sorglegi Del Griffith myndarinnar í túlkun Candys er óborganleg persóna og í gegnum hann kemur Hughes að hinum hlýja og manneskjulega boðskap sem gjarnan einkennir myndir hans – um vináttu og virðingu fyrir þeim sem eru öðruvísi.

 

 

Laugardagur 09.12.2017 - 09:47 - Ummæli ()

Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn – nú er hún Snorrabúð stekkur

Einu sinni var það reglan í Sjálfstæðisflokknum að ungir karlmenn úr Reykjavík, gjarnan menntaðir í Menntaskólanum í Reykjavík og í lagadeildinni í Háskólanum, uppfóstraðir í Heimdalli, yrðu borgarstjórar í Reykjavík. Það var svo áfangi á leið þeirra til að að komast alla leið í forsætisráðuneytið.

Svona var þetta með Bjarna Benediktsson, Geir Hallgrímsson, Gunnar Thoroddsen og Davíð Oddsson. Jón Þorláksson var reyndar fyrst forsætisráðherra, svo borgarstjóri í Reykjavík.

En nú er hún Snorrabúð stekkur. Sjálfstæðisflokkurinn er hvergi veikari en í Reykjavík – sínu gamla höfuðvígi. Og nú virðist flokkurinn ekki hafa önnur ráð varðandi borgina en að að sækja fólk út á land til að stilla upp í borgarstjórnarkosningum. Flokkurinn í Reykjavík virðist ekki skila nógu góðum efnivið og máski eru tækifærin sem felast í setu í borgarstjórn ekki svo heillandi lengur.

Fyrir síðustu kosningar var Halldór Halldórsson sóttur vestur á firði. Það gafst mátulega vel og nú er Halldór að hætta. Páll Magnússon hefur verið nefndur oftar en einu sinni, hann er Vestmananaeyingur sem býr í Garðabæ. En nú er oftast talað um Unni Brá Konráðsdóttur. Hún er dottin út af þingi eftir að hafa verið forseti Alþingis um stutt skeið,  var um hrið sveitarstjóri í Rangárþingi eystra og svo þingmaður Suðurlandskjördæmis.

Leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fer fram 27. janúar næstkomandi. Enn hefur ekki frést hverjir af borgarfulltrúm Sjálfstæðisflokksins sem nú sitja ætla að vera í kjöri. En þeir koma ekki vel út úr þessari umræðu.

 

Föstudagur 08.12.2017 - 16:45 - Ummæli ()

ESB tekur forystuna í heimsviðskiptum

Þetta eru stærstu fréttirnar úr viðskiptalífinu í heiminum. Evrópusambandið og Japan gera risastóran fríverslunarsamning. Hann nær yfir svæði sem nemur 30 prósentum af heimsviðskiptum. Japanir opna meðal annars fyrir matvörur frá Evrópu, Evrópa opnar fyrir japanska bíla og tæknibúnað. Ekki ólíklegt að EFTA geti fylgt í kjölfarið, aðildarríki EES-samningsins.

Með fylgir yfirlýsing Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og Abe, forsætisráðherra, um að þeir aðhyllist frjáls viðskipti í veröldinni. Á vefnum Politico birtist grein af þessu tilefni þar sem segir að Evrópusambandið sé orðið leiðandi í heimsviðskiptunum nú þegar Bandaríkin hafa gefið slíkt hlutverk frá sér.

Á síðustu tveimur árum hefur ESB gert viðskiptasamninga við Vietnam og Kanada. Í uppsiglingu er líka viðskiptasamningur við ríki í Suður-Ameríku.

Það er náttúrlega athyglisvert að Bretland verður fyrir utan þessa samninga þegar Brexit gengur endanlega í garð. Ríkisstjórn Theresu May er í standandi vandræðum vegna Brexit. May dró svokölluð rauð strik vegna Brexit í fyrra – nú virðist eins og hún sé að hörfa bak við þau flestöll.

 

 

Föstudagur 08.12.2017 - 08:37 - Ummæli ()

Kópavogsbíó til sölu

Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að selja gömlu bæjarskrifstofurnar. Um þetta má lesa á Vísi.  En fréttin segir í raun ekki neitt, eins og Fjalar Sigurðarson, sem alinn er upp í Kópavogi, bendir á. Þetta er nefnilega sögufrægt hús sem stendur þarna uppi á Kópavogshálsinum.

Þetta  var á sínum tíma Félagsheimili Kópavogs. Þarna var rekið Kópavogsbíó. Þarna hafði aðsetur Kópavogsleikhúsið sem setti upp margar sögufrægar sýningar. Margir þekktir leikarar stigu fyrstu skref sín þar, þetta var sérlega metnaðarfullt leikfélag. Þarna voru haldnir tónleikar, má segja að þarna sé vagga íslenska pönksins – ég hygg að ekki ómerkari sveit en Fræbblarnir hafi komið þarna fram. Og ýmsar fleiri.

Gunnar Marel Hinriksson, sem hefur starfað við skjalavörslu í Kópavogi, upplýsir að þarna hafi sjálfur Bobby Fischer farið í bíó og hjómsveitin Kinks. Fischer mun hafa séð kvikmyndina Gunga Din skömmu eftir að hann lagði Spasskí.

Sjálfur man ég eftir hópferð vina úr Vesturbænum í Kópavogsbíó til að sjá kvikmyndina Catch 22, hana höfðum við vinirnir í Hagaskóla lengi þráð að sjá. Svo var hún allt í einu sýnd á föstudagskvöldi í Kópavogsbíói.

Hér er önnur mynd sem var sýnd í Kópavogsbíói. Lítur býsna vel út. Frönsk, en komin til Íslands með millilendingu í Danmörku. Frou – Frou, en Pariserindes liv.

 

 

Svo er hér mynd af Kópavogsbíói eins og það leit út á velmektarárunum. Bíó, leikhús, félagsheimili, pönkmiðstöð. Geri önnur hús betur.

 

Fimmtudagur 07.12.2017 - 12:12 - Ummæli ()

Mikil óvissa hjá flokkunum í borginni

Það er einkennilega mikil óvissa fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík sem verða haldnar eftir hálft ár.

Sjálfstæðisflokkurinn heldur leiðtogaprófkjör í janúar. Innan borgarstjórnar eru þau þrjú sem hafa augastað á sætinu, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, hefur verið nefndur og Eyþór Arnalds, en þessa dagana er mikið rætt um Unni Brá Konráðsdóttur. Hún nýtur virðingar sem stjórnmálamaður, en samt er spurning hversu sterkt það er fyrir flokkinn að ná í borgastjórarefni austur í Rangárvallasýslu – og það fallkandídat úr síðustu Alþingiskosningum.

Dagur B. Eggertsson segist vilja halda áfram sem borgarstjóri. Það hafa verið sögur um að Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður flokksins, vilji reyna að fella dag úr fyrsta sætinu hjá Samfylkingunni, en það virðist nokkuð langsótt. Annað sætið er væntanlega tryggt fyrir Heiðu, sem hefur verið mikið í sviðsljósinu vegna metoo umræðunnar. Það er frekar spurning með Hjálmar Sveinsson sem er feikilega umdeildur sem formaður umhverfis- og skipulagsráðs.

Sigurður Björn Blöndal, sem var nánasti samstarfsmaður Jóns Gnarrs í Besta flokknum og síðar oddviti Bjartrar framtíðar, ætlar að hætta. Þá er einfaldlega spurning um hvort BF takist að koma lista í borginni. En því má reyndar ekki gleyma að BF náði mikilli fótfestu í bæjarstjórnum í síðustu kosningum, er í meirihluta í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.

Framsóknarflokkurinn hefur misst fyrir borð báða borgarfulltrúana sem náðu kjöri í síðustu kosningum, Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur og Guðfinnu J. Guðmundsdóttur. Flokkurinn þarf semsagt að manna sína lista upp á nýtt. Allsendis óvíst er hverjir gætu tekið þar sæti – það er ekki í fyrsta sinn sem Framsókn á í erfiðleikum með að stilla upp lista í borginni.

Vinstri græn eru komin í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Það breytir ásýnd flokksins allverulega. En líklegast er að í borginni vilji hann  halda áfram að starfa með Samfylkingunni. Ýmislegt gæti  hins vegar oltið á því hvort VG eða Samfylkingin verður stærri flokkur eftir kosningarnar. Ef VG kæmist yfir Samfylkingu gætu þau gert tilkall til borgarstjórastólsins. Líf Magneudóttir er í efsta sætinu hjá VG eftir að Sóley Tómasdóttir hvarf af vettvangi. Hún getur þó varla verið örugg með sæti sitt. Og Sóley hefur verið að hvetja til stofnunar nýs kvennaframboðs.

Viðreisn er óskrifað blað í borginni. Flokkurinn hefur aldrei boðið fram í bæjar- og sveitastjórnakosningum. Ekki er vitað hvort það er á dagskránni eða hvort flokkurinn hefur bolmagn til þess. Viðreisn virðist vera ágætlega skipulagður flokkur, en fylgi hans er takmarkað og eins fjöldi flokksmanna. Flokkurinn þyrfti að koma með býsna sterkan kandídat til að eiga möguleika á að ná inn í borgarstjórnina.

Inga Sæland ætlaði fyrst að bjóða sig fram í borginni fyrir Flokk fólksins. Svo sprakk ríkisstjórn og hún endaði inni á þingi. En væntanlega vill FF komast inn í borgarstjórn með sinn málflutning um fátækt, misskiptingu og skort.

Borgarfulltrúinn og Píratinn Halldór Auðar Svansson ætlar að hætta eftir þetta kjörtímabil. Píratar hafa alveg runnið inn í borgarstjórnarmeirihlutann undir stjórn Dags. Eins og hefur annars staðar verið sagt á þessari síðu er varla hægt að sjá mun á Samfylkingunni og Pírötum núorðið.

Loks er það Miðflokkurinn. Hann ætlar sér sjálfsagt einhvern hlut í borgarstjórn. Formaðurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur brennandi áhuga á skipulagsmálum og borgarþróun. Kannski væri hann sjálfur heppilegasti frambjóðandinn í borginni?

 

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is