Fimmtudagur 28.06.2007 - 10:16 - Ummæli ()

Afríka, íhlutunarstefna og Kínverjar

Der Spiegel gaf út stórmerkilegt sérhefti um Afríku. Þarna eru ýmsar merkilegar spurningar. Til dæmis er spurt að hve miklu leyti ástandið í Afríku sé hvíta manninum að kenna? Í skoðanakönnun sem gerð var í álfunni nýskeð kom í ljós að íbúar hennar töldu Robert Mugabe þriðja merkasta afríkumanninn – í fyrsta sæti var Mandela.

Mugabe hefur unnið sér það til frægðar að hrekja hvíta bændur af jörðum sínum. Um leið hefur hann steypt landi sínu í fátækt. Simbabwe var eitt sinn sagt vera aldingarður Afríku, þar eru merki um gamla og merkilega siðmenningu – nú ríkir þar glundroði og hörmungar.

Mugabe er talinn merkur af því hann gefur hvíta manninum langt nef. Með því skapar hann sér vinsældir í Afríku. En uppbyggileg er þessi stefna ekki. Það er líka erfitt að horfa framhjá því að flestu hefur hnignað í Afríku síðan nýlenduþjóðirnar slepptu takinu. Fimmtíu árum síðar er varla vit í að halda áfram að veifa ritum Franz Fanon og kenna Vesturlöndum um allt illt.

— — —

Annað sem er spurt um er íhlutunarstefna. Að hve miklu leyti eiga ríki heims að grípa inn í málefni þjóða sem teljast fullvalda? Þegar þar ríkja styrjaldir, kúgun, hungur, morðæði. Að sumu leyti hafa Bush og Blair komið vondu orði á íhlutunarstefnu með stríðinu í Írak. Því má samt ekki gleyma að Saddam Hussein var ógeðslegur harðstjóri, morðhundur sem dáði Stalín. Stríðið við hann var kannski háð á röngum forsendum, en það hefði þurft að steypa honum fyrir löngu.

Hefði ekki þurft að grípa miklu oftar inn í málefni Afríku líkt og gert var í Sierra Leone fyrir nokkrum árum? Vestrið hefur látið eins og stórstyrjaldir í Afríku komi því varla við. Í Kongó hefur geisað það sem kallað er fyrsta afríska heimstyrjöldin. Ófriðurinn hefur annað slagið breiðst út til landanna í kring. Alþjóðasamfélagið horfði undrandi og aðgerðarlaust á fjöldamorðin í Rúanda. Nú er hið sama uppi á teningnum í Darfur – þar er fólk brytjað niður í þúsundatali. Í Spiegel er talað um að jafnvel þurfi að taka hluta af Afríku í einhvers konar gjörgæslu – trauhand er það kallað í blaðinu.

Það er sagt að svona aðgerðir þurfi að hafa samþykki Sameinuðu þjóðanna. Annars séu þær ekki lögmætar. En innan SÞ eru þjóðir sem sjá sér hag í að vera á móti slíkri íhlutun. Nú telja Bandaríkjamenn Súdan stuðningsríki sitt í baráttunni gegn hryðjuverkum. Sjónir manna beinast líka að Kína. Kínverjar hafa í stórum stíl verið að vingast við Afríku. Þeir eru sólgnir í olíu og náttúruauðlindir álfunnar. Það er sagt að Kínverjar sjái Afríku sem tækifæri, ekki sem vandamál eins og Vesturlönd.

— — —

Kínverjar spyrja heldur engra spurninga. Þeim er sama hvernig stjórnarfarið er í þeim ríkjum sem þeir versla við. Þeir kunna ágætlega við sig í félagsskap harðstjóra og einræðisherra sem njóta góðs af vináttunni, styrkja tök sín, auðgast. Kínverjar eru líka skeytingarlausir um hvernig farið er með vinnandi fólk – heima hafa þeir sjálfir byggt upp samfélag sem reiðir sig á þrælavinnuafl og er á góðri leið með að verða hið mest mengandi í veröldinni.

Kínverjar eru út um allt í Afríku. Það er ábyggilega ekki góðsemi sem býr þar að baki. Der Spiegel telur að til langs tíma geti áhrif þeirra reynst mjög varasöm.

«
»

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is