Laugardagur 26.01.2008 - 09:21 - Ummæli ()

Á Laugaveginum

Sjálfur er ég miðbæjarmaður. Bý steinsnar frá Laugaveginum. Fer þar um annað hvort akandi eða gangandi flestalla daga. Ég veit hvernig gatan lítur út vetur, sumar, vor og haust. Það er ekki hægt að segja að hún sé falleg – en hún er samt eina þokkalega miðbæjargatan.

Það er talsvert af litlum sætum verslunum við Laugaveg. Veikleiki hennar er að það vantar slatta af stórum flottum búðum sem draga að sér fleira fólk. Það hefur ekkert að gera með Oxford Street-væðingu; við höfum fyrirmyndirnar í Sautján efst á Laugavegi, Máli og menningu og verslun Sævars Karls.

Það er sorglegt að þegar peningamenn áttu nóg af aur til að fá aftur áhuga á Laugaveginum eftir áratuga niðurníðslu var borgarstjórnin vanbúin. Hún hafði reyndar látið gera deiliskipulag, en hún hafði ekki hugleitt að líka þyrfti að setja einhver viðmið um hvernig hús á þessu svæði skyldu líta út til að þau féllu inn í borgarmyndina.

Með síðustu aðgerðum í húsfriðunarmálum er líklegt að fjárfestar forði sér úr miðbænum. Það gæti líka verið að koma kreppa.

Tvo menn hef ég aldrei séð á Laugaveginum, það get ég staðhæft: Hvorki Ólaf F. Magnússon né Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is