Mánudagur 18.05.2009 - 23:59 - Ummæli ()

Ríkið gaf og ríkið tók

Gunnlaugur Sigmundsson er einn af spillingarmönnunum sem auðguðust á gráa svæðinu milli stjórnmála og viðskipta.

Kögunarhneykslinu var sópað undir teppi – en það er ekki gleymt.

Gunnlaugur naut þess að tengjast Framsóknarflokknum. Flokkurinn gerði hann ríkari, nánast gaf honum fyrirtæki sem hann stórauðgaðist á. Í reynd má segja að hann hafi verið í þeirri stöðu að selja sjálfum sér fyrirtækið.

Hið sama má segja um annan gosa, Finn Ingólfsson, sem nú virðist vera um það bil að tapa hlut sínum í Icelandair. Hann varð ríkur af þátttöku sinni í stjórnmálum – á þessu sama gráa svæði.

Það er ankanalegt – og ámáttlegt – að heyra mann eins og Gunnlaug kvarta undan því viðskiptalífið að færast í hendur ríkisins. Hann er vond heimild um það.

Í frétt AMX sem er vísað í hér stendur orðrétt að Finnur Ingólfsson hafi verið „ráðherra Framsóknarflokksins og Giftar“.

Þetta er freudískt mismæli – en auðvitað alveg hárrétt.

Svo má nefna að ef gegnsæið fer ekki að aukast í skilanefndum bankanna, og ef ekki verða settar almennar og skýrar reglur um útdeilingu verðmæta úr þeim, þá er hætt við að við sitjum uppi með ansi mikið af mönnum af sauðahúsi Gunnlaugs og Finns næstu áratugina.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is