Mánudagur 15.06.2009 - 14:24 - Ummæli ()

Íslenska efnahagsundrið, skyldulesning

Bókin Íslenska efnahagsundrið, flugeldahagfræði fyrir byrjendur er afar merkileg heimild um hrunið og aðdraganda þess.

Höfundurinn rekur þetta nokkuð langt aftur í tímann, byrjar á svikamyllunni í kringum Decode á gráa markaðnum og staldrar lengi við hina hörmulegu spillingu í kringum einkavæðingu bankanna.

Þarna eru bankarnir skoðaðir, eignarhaldsfélögin, lífeyrissjóðirnir, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn, fjölmiðlarnir, sparsjóðirnir, peningamarkaðssjóðirnir, endurskoðendurnir, Stím og Gift, hinn fáránlega útblásni hlutabréfamarkaður, lítilþægir stjórnmálamenn sem voru til í að taka við góðgjörðum og og jafnvel peningum frá fjármálafurstum, litlu verðbréfafyrirtækin sem ætluðu að græða feitt, auðmenn sem náðu að stinga af með milljónir og miljarða, endalaus vina-, frænd- og klíkutengsl sem teygja sig gegnum viðskiptalífið og stjórnkerfið – og skýra kannski tregðuna við að rannsaka hrunið almennilega – draumar um útþenslu og heimsyfirráð sem virka núorðið eins og sjúkir órar.

Höfundurinn Jón F. Thoroddsen er innanbúðarmaður, fyrrverandi verðbréfamiðlari, sem gerþekkir heiminn sem hann er að lýsa, enda er bókin skrifuð frá sjónarhóli viðskiptalífsins.

Jón er heldur ekkert að fegra hlutina. Í eftirmála segir meðal annars:

„Ef til vill var aðeins meiri þörf fyrir gagnrýna hugsun í landi viðskiptasnillinga sem reyndust þegar á reyndi vera líkari sjoppueigendum og mafíósum en nokkurn tíma bankamönnum.“

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is