Miðvikudagur 13.04.2011 - 21:14 - Ummæli ()

Ólafur Margeirsson: Hagfræðin

Ólafur Margeirsson, doktorsnemi í hagfræði, er höfundur þessarar greinar.

— — —

Sæll Egill

Ég sá að þú varst að skjóta á hagfræði og hagfræðinga á netinu hjá þér. Datt því í hug að senda þér línu.

Það hefur alltaf verið einkenni hagfræðinga – líkt og mannlegt eðli er – að viðurkenna ekki fyrr en í fulla hnefanna að hafa rangt fyrir sér. Það var John Kenneth Galbraith sem sagði eitthvað á þá leið að fólk hefði þann náttúrulega eiginleika að leita út í hið óendanlega að merkjum þess að það hafi rétt fyrir sér frekar en að viðurkenna að það hafi rangt fyrir sér.

Það gildir sannarlega um hagfræðinga. Það var Keynes sem var líklega með fyrstu mönnum – Kalecki var samt á undan en hann skrifaði á pólsku svo hann var ekki lesinn jafn víða – til að átta sig á að classical hagfræði væri meingölluð. Keynes komst samt aldrei að niðurstöðu yfir sínum eigin hugleiðingum, hluta til vegna þess að hann „var bundinn af hinum venjulega og ranga hugsunagangi sem einkennir classical hagfræði“ (hans eigin orð) sem hann var á sama tíma að reyna að berjast undan. Hann komst þó ótrúlega nálægt því með „General Theory of Employment, Interest and Money.“

Margir segja að Keynes hafi verið misskilinn því General Theory er þungur og flókinn lestur, sérstaklega ef þú þarft að tileinka þér nýja aðferðafræði í hagfræðilegum hugsanahætti um leið og þú lest hana. Þá var enskan hans Keynes allra síst af einfaldara taginu. Því var Keynes aldrei treyst og eftir að Hicks hélt sig setja fram hugmyndir hans í classical formi – framboðs- og eftirspurnarföll sem enda í yndislegu, eilífu og stöðugu jafnvægi – þá var Keynes rifinn í tætlur og samlagaður classical hagfræði. Hicks var hampað. Módel hans, í kompaníi með Hansen, um heildarframboð og -eftirspurn er í hverri einustu BS námsbók í þjóðhagfræði. Hicks áttaði sig síðar – 50 árum síðar – á því að hann hafði haft rangt fyrir sér. Hann baðst afsökunar og dró módelið sitt sumpart til baka. Enginn hlustaði á hann og módelið var áfram kennt sem „hið sanna Keynesíska módel.“

Hugmyndir Keynes um að það væri aldrei væri hægt að gera fullkomið hagfræðimódel vegna óvissunnar sem innifalin er í mannlegri hegðun var aldrei samþykkt. Hugsun hans um að það væri ekki hægt að magngera „óvissu“ (e. uncertainty) heldur aðeins „áhættu“ (e. risk) komst aldrei inn í BS námsbækur í hagfræði. Eina hugmynd hans sem lifði, sem raunar var líka misskilin, var að hægt væri að „stilla af“ hagsveiflu. Sú hugmynd var óðum tekin upp af pólitíkusum sem þannig fengu hagfræðilega ástæðu fyrir því að auka ríkisútgjöld hvenær sem þeim hentaði til að sigra næstu kosningar. Eftir óðaverðbólguna sem náttúrulega átti sér stað í kjölfarið á slíku (7. og 8. áratugurinn) steig Friedman fram og sagði lausnina vera gömlu góðu classical hagfræðikenningarnar um peningamagn. Hagfræðin var komin í hring – neo-classical hagfræði varð mainstream hagfræði og tröllreið öllum BS kúrsum í hagfræði alls staðar í heiminum.

Aðrir hagfræðiskólar en hinn neo-classíski voru vart inni í myndinni. Austurríski skólinn féll í dá eftir að Schumpeter, Von Mises og Hayek dóu. Marxistar náði aldrei að gera nokkurn skapað hlut, sérstaklega eftir að ljóst var að kommúnisminn myndi renna sitt skeið. Sannir Keynesistar, sem töldu sig skilja Keynes og hugmyndir hans um að það væri ekki hægt að koma fram með stöðugt hagfræðimódel vegna óutreiknanlegrar mannlegrar hegðunar, voru sem hróp í eyðimörkinni. Öllum neo-classical hagfræðingum var sama. Friedman var hrósað sem kóngi og Reagan og Thatcher gerðu allt eftir neo-classical bókinni. Sigurinn á verðbólgu í kjölfarið, sem hafði verið afleiðing mistúlkunnar á Keynes, undirstrikaði að neo-classísk hagfræði var hin eina rétta. Enn einu sinni héldu hagfræðingar að þeir væru komnir með hina einu sönnu lausn í hagfræði.

Síendurteknar og sífellt alvarlegri fjármálakrísur á 9. áratugnum, sérstaklega skuldakrísur í Suður Ameríku, sem síðan urðu enn algengari eftir hrun múrsins urðu hins vegar til þess að það var byrjað að hlusta örlítið á austurríska skólann og Keynesistana.

Sjálfur kynntist ég aldrei hagfræði af viti fyrr en ég flutti frá Íslandi haustið 2008. Fyrir mér var hrunið algjörlega óhugsandi. Mér hafði verið kennt í BS náminu að kreppan mikla hafi verið „freak of nature“ og myndi aldrei gerast aftur með seðlabanka sem gæti verið þrautalánveitandi, stóran og sterkan ríkissjóð sem gæti bjargað öllu sem bjarga þyrfti og þar fram eftir götunum. Í flestum hagfræðimódelum sem ég lærði var allt keyrt áfram í rauntölum. Nafnvextir og nafngreiðslur skiptu ekki máli, að sjálfsögðu í fullkomnu samræmi um þá ályktun neo-classískrar hagfræði að peningar séu „hlutlausir.“ Ef eitthvað fór af sporinu vegna „ytra áfalls sem ekki hafði verið gert ráð fyrir“ þá myndi hagkerfið allt falla aftur í ljúfa löð og fullkomið jafnvægi eftir svolítinn tíma. Þvílík steypa!

Það sem ég sé mest eftir úr hagfræðinni heima frá Háskóla Íslands er skorturinn á almennri hagsögu. Í þriggja ára hagfræðinámi var aldrei minnst á skuldakrísur Suður Ameríku á 9. áratugnum. Asíukreppan, gjaldþrot ríkissjóða ótal landa í gegnum söguna, Long Term Capital Management, internetbólan og aðrar bólur, hrun og gjaldþrot Argentínu, óðaverðbólgan í Þýskalandi, Austurríki, Ungverjalandi og ótal fleiri löndum og ástæðurnar fyrir henni, gullfóturinn og hví hann virkaði meðan allir áttu gull, kreppan mikla, hrun Bretton Woods sambandsins, þróun myntsamstarfa í Evrópu og heiminum öllum og áfram mætti telja. Allt þetta var aldrei nokkurn tímann minnst á. Fílabeinsturninn var fullkominn.

Í fjögur ár var mér kennt hagfræði sem ég álít í dag í besta falli svo gott sem gagnslausa og í versta falli skaðlega. Það eina sem ég get huggað mig við er að HÍ var aðeins einn háskóli af þúsundum annarra í heiminum öllum sem gerðu nákvæmlega sömu vitleysurnar.

Blessunarlega þá eru hagfræðingar almennt að átta sig á að eitthvað er að. Þótt kennsla hafi ekki breyst mikið – eftir því sem ég a.m.k. best veit – þá er meiri vitund meðal alþjóðlegra hagfræðinga að þeirra eigin neo classísku kenningar eru beinlínis rangar og ganga ekki upp í raunveruleikanum.

Sem dæmi má nefna eftirfarandi póst eftir James Galbraith, son John Kenneth Galbraith sem líklega er með betri hagsagnfræðingum sem uppi hafa verið.
http://rwer.wordpress.com/2010/05/18/i-write-to-you-from-a-disgraced-profession/

Það væri óskandi að íslenskir hagfræðingar, sérstaklega þeir sem kenna hagfræði, áttuðu sig á göllum neo-classískrar hagfræði. Því fleiri, því betra.

Bestu kveðjur,
Ólafur M

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is