Fimmtudagur 29.09.2011 - 13:13 - Ummæli ()

Pólitísk upplausn

Það er skringilegt ástand í landinu á þessu hausti.

Þing er að hefjast á laugardag og það er boðað til mótmæla. Þau hafa fengið mikla athygli í fjölmiðlum, svo kannski má búast við fjölda fólks.

Fjárlög eru væntanleg í þingbyrjun – þar er að vænta niðurskurðar og skattahækkana. Það verður stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar næstu vikurnar að koma fjárlögunum í gegnum þingið.

Lögreglumenn mótmæla – og segja sig unnvörpum úr óeirðasveitum. Maður hafði reyndar frekar óljósa vitneskju um þessar sveitir, en þær virðast hafa verið starfandi út um allt land.

Það er mjög sérstakt ástand ef ekki er fullkomlega öruggt að lögregla standi vörð um stjórnvöld.

Á sama tíma hlaðast upp óveðursblikur úti í heimi. Það er jafnvel talað um að skelli á heimskreppa. Þá verður lítið úr efnahagsbatanum á Íslandi – við erum algjörlega háð því sem gerist í útlöndum. Þá skila sér ekki fjárfestingarnar sem við þurfum sárlega á að halda og þá minnkar eftirspurnin eftir útflutningsvörum okkar.

Efnahagsgóðæri áranna upp úr 2000 átti sér samsvörun annars staðar í heiminum – það hafði í raun sáralítið með hagstjórnina hérna að gera fyrr en við misstum okkur alveg í skuldsetningunni og braskinu með vaxtamuninn.

Um hvað snúast svo mótmælin á laugardag? Jú, sumir koma vegna skuldamála, aðrir vegna atvinnumála eða vegna bankanna, sumir kannski vegna ESB. En líklega er meginástæðan hið algjöra vantraust á stjórnmálunum sem birtist í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri.

Vegna þess hljóta þingið og ríkisstjórnin að hugsa sinn gang. Ástand eins og var í þinginu í september er ekki boðlegt. Þjóðin getur ekki sætt sig við það. Og ef heimskreppa nálgast er enn verra að sé ringulreið við stjórn ríkissins. Því er kannski ástæða að velta fyrir sér möguleikum eins og þjóðstjórn.

 

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is