Föstudagur 30.09.2011 - 12:46 - Ummæli ()

Aflvana ríkisstjórn

Ríkisstjórnin er að heykjast á kvótafrumvarpi Jóns Bjarnasonar. Vestfirðingarnir Lilja Rafney úr VG og Ólína úr Samfylkingu eru að setja fram tillögur þar sem eiga að koma í staðinn fyrir frumvarpið.

Fyrir ríkisstjórn er þetta náttúrlega meiriháttar ósigur, að einu stefnumáli hennar sé stefnt í algjört óefni vegna þess að ráðherra lagði fram frumvarp sem flestir telja að sé ónýtt.

Í flestum löndum væri ráðherranum varla sætt lengur í ríkisstjórn. Líklegast er úr þessu að óverulegar breytingar verði gerðar á fiskveiðistjórnuninni.

Annars eru þetta mjög skrítnir dagar í pólitíkinni. Það er ljóst að gömlu valdakerfin í þjóðfélaginu þola þessa ríkisstjórn mjög illa. Það er nánast eins og sé umsátur í kringum hana. Hún á ekki sjö dagana sæla. Það vantar sannfæringarkraftinn í foringjana Jóhönnu og Steingrím – samfélagið skröltir svosem áfram en þau hafa sáralítið afl til að koma stórum málum í gegn. Þau geta ekki einu sinni losað sig við ráðherra sem bakar þeim stöðug vandræði.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is