Föstudagur 09.03.2012 - 14:17 - Ummæli ()

Kirkjan og aðskilnaðurinn

Ég læt mig ekki miklu varða hver verður biskup yfir Íslandi, þarna er ágætt fólk innanum í framboði.

En um daginn spurði dagblað eitt – ég man ekki hvaða – biskupsefnin nokkurra spurninga. Það sem vakti mesta athygli var spurning hvort þeir vildu taka þátt í gleðigöngu samkynhneigðra.

En það var önnur spurning sem mér fannst ekki síður forvitnileg.

Biskupsefnin voru spurð hvort þau vildu skilja milli ríkis og kirkju.

Flest þeirra svöruðu eitthvað í þá áttina að það væri í raun búið að skilja á milli. Þetta hefði gerst með samningnum þar sem ríkið fékk kirkjujarðir og lofaði á móti að borga laun presta.

Þessi samningur er frá 1997. Mig rekur ekki minni til þess að mikil umræða hafi farið fram um hann á sínum tíma. En ríkið er semsagt að borga hinni lútersk-evangelísku þjóðkirkju fyrir jarðir sem komust í eigu kirkjunnar í gegnum aldirnar – margar reyndar á tíma kaþólsku. Ekki veit ég betur en að þetta samkomulag sé frekar ónákvæmt – verði því ekki rift teygir það sig lengst inn í ókomna framtíð og svo er nátturlega spurning hvaða verðmat liggur að baki hvað varðar kirkjueignirnar.

Það er ansi hæpið að slík samningsgerð, þar sem er fundið ákveðið form á greiðslur ríkisins til kirkjunnar, teljist ígildi aðskilnaðar.

En þetta er svosem í anda stjórnarskrárinnar þar sem stendur í 62. grein:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Nú situr Stjórnlagaráð og leggur væntanlega síðustu hönd á stjórnarskrárdrög sem ríkisstjórnin vill að fari í þjóðaratkvæði. Í þessum drögum forðast Stjórnlagaráðið að takast á við spurninguna um þjóðkirkju. Kannski helgast það að einhverju leyti af því að nokkrir prestar sitja í Stjórnlagaráðinu – hugsanlega hefur ekki náðst niðurstaða í málið?

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is