Miðvikudagur 21.03.2012 - 14:13 - Ummæli ()

Ný stjórnarskrá og afrekalisti ríkisstjórnarinnar

Eins og staðan er núna virðist ríkisstjórnin ákveðin í að koma í gegn atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá samhliða forsetakosningum.

Þetta er eitt af stóru málum stjórnarinnar – sem setti sér afar metnaðarfulla dagskrá í upphafi kjörtímabils.

Það er þó ekki víst að ný stjórnarskrá verði að veruleika þrátt fyrir þetta – þing sem verður kosið í næstu kosningum þarf líka að samþykkja stjórnarskrána, sem og þingið sem nú situr, það er ekkert gefið með að svo verði.

Evrópusambandsaðildin er í algjöru uppnámi – einfaldlega vegna þess að fylgið við hana fer stöðugt minnkandi. Evrópa er í efnahags- og stjórnarfarskreppu og er ekkert á leiðinni út úr henni. Nú er ljóst að ekki verður hægt að klára samningana við ESB fyrir næstu þingkosningar, þá verður hugsanlega komin hér stjórn sem er algjörlega andsnúin ESB aðild.

Það yrði sérkennilegt að vera með aðildarsamning í höndunum en enga ríkisstjórn til að mæla með honum.

Enn eru boðuð ný lög um fiskveiðistjórnun, síðasta tilraun rann út í sandinn því enginn skildi tillögur Jóns Bjarnasonar. Þá fór Steingrímur J. í sjávarútvegsráðuneytið – það virðist algjörlega ljóst að það sem er að koma úr úr þessu er óralangt frá því sem lagt var upp með í byrjun stjórnarsamstarfsins.

Orkumálin eru í uppnámi – það er ljóst að enga sátt er að finna í rammaáætlun um orkunýtingu. Undir eins og VG fer úr stjórn hefjast tilraunir til að virkja út og suður.

Afrekalisti hinnar metnaðarfullu ríkisstjórnar sem tók við fyrir þremur árum er orðin býsna ruglingslegur. Þegar bætast við Icesave og skjaldborgin um heimilin sem ekki varð – þá er ný stjórnarskrá kannski ekki svo mikil sárabót.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is