Mánudagur 26.08.2013 - 20:01 - Ummæli ()

Orkubloggið: Hvaða álver á Íslandi lokar fyrst?

Ketill Sigurjónsson skrifar á Orkubloggið undir yfirskriftinni „Hvaða álver á Íslandi lokar fyrst?“

Ketill boðar greinarflokk um áliðnaðinn. Í þessari fyrstu grein rekur hann svartar horfur í honum, stórkoslega offramleiðslu og lækkandi verð. Hann segir að ekki sjái fyrir endann á þessari þróun. Eina ráðið virðist vera að draga úr framleiðslu, fresta nýjum verkefnum og loka álverum.

Ketill byrjar grein sína með svofelldum orðum:

„Í kosningabaráttunni fyrir Alþingiskosningarnar nú í vor virtist sem sumir þingframbjóðendur teldu það nánast formsatriði að koma framkvæmdum á fullt við byggingu nýs álvers í Helguvík. Þetta viðhorf var sérstaklega áberandi hjá frambjóðendum í Suðurkjördæmi, en innan kjördæmisins eru bæði Helguvík og margir virkjunarkostir.

Umrætt viðhorf stjórnmálamannanna bar ekki vott um mikið raunsæi eða skynsemi. Því hinn kaldi raunveruleiki er sá að áliðnaðurinn er í miklum vandræðum. Þess vegna er í reynd ólíklegt að nokkurt álfyrirtæki leggi í stórar fjárfestingar í nýju álveri hér á Íslandi á næstu árum.“

Stundum hefur verið varað við því í tengslum við uppbyggingu álvera að Íslendingar megi ekki „setja öll eggin í sömu körfuna“. Það er spurning hvort sá dagur renni upp að þau varnaðarorð reynist sönn. En það er ljóst að raforkuverðið sem álverin greiða á Íslandi er lágt og fylgir álverði. Það er sögð vera skýringin á tapi Landsvirkjunar.

Ketill endar grein sína með þessum orðum:

„Á komandi vikum mun ég fjalla nánar um horfurnar í áliðnaðinum. Þar verður m.a. sagt ítarlegar frá umræddri skýrslu BCG, sem dregur upp all hrikalega sýn á vestræna áliðnaðinn. Einnig verður fjallað um það hvernig Kína getur nánast leikið sér að því að ráða þróuninni í áliðnaðinum á næstu árum. Í þessari umfjöllun um áliðnaðinn kann líka að vera tilefni til að fjalla um ótrúlegan klaufaskap þáverandi stjórnenda og stjórnarmanna Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku þegar fyrirtækin gerðu orkusamninga við Norðurál vegna fyrirhugaðs álvers Century Aluminum í Helguvík. Auk þess verður sagt frá því hvernig álver Century Aluminum í Bandaríkjunum skila hagnaði þó svo raforkuverð sé um 33-35 USD/MWst. Á sama tíma greiðir álver fyrirtækisins í Hvalfirði líklega nálægt 25 USD/MWst. Sem er sennilega helsta ástæða þess hversu mjög Michael Bless, forstjóri Century, og aðrir stjórnendur þar á bæ eru duglegir að mæra álver fyrirtækisins í Hvalfirði. Loks verður spurningunni svarað; spurningunni sem sett var fram hér í titli greinarinnar: Hvaða álver á Íslandi lokar fyrst?“

ketill-sydney-ferry-litil

Ketill Sigurjónsson.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is