Fimmtudagur 24.04.2014 - 10:49 - Ummæli ()

Hvers vegna hætti Guðni við? Hvað gerir Framsókn?

Frétt Eyjunnar frá því í gærkvöld, þess efnis að Guðni Ágústsson væri hættur við að fara fram í Reykjavík, kom eins og sprengja.

Lesendur voru forviða – og þeir eru það enn. Það hefur ekki komið fram nein almennileg skýring á því hvað gerðist.

Það var búið að boða til kjördæmisfundar sem átti að fara fram í dag og svo var áformaður blaðamannafundur á sjálfum Reykjavíkurflugvelli.

Þetta virtist allt klappað og klárt. En hvað gerðist? Hvers vegna skeði þetta svo snögglega?

Framboð Guðna hefur verið aðalfréttin síðustu vikuna – og aðalumræðuefnið á Facebook.

Reyndar verður að segjast eins og er að margir fóru algjörlega fram úr sér – sjaldan hefur maður séð jafn illa talað um mann á þessum umræðuvettvangi og Guðna síðustu vikuna.

Óhroðinn var eiginlega með eindæmum.

En Framsóknarflokkurinn er í alvarlegum vandræðum. Það er ekki gott að geta ekki mannað framboðslista í sjálfri höfuðborg landsins – og einungis 35 dagar til kosninga.

Guðni gat verið leiðin til að bjarga flokknum – sem er sá næst stærsti á landsvísu – frá afhroði í borginni. Nú er vandséð hvaða ráða flokkurinn getur gripið til. Það getur ekki verið auðvelt fá fólk til að ganga til liðs við framboð sem hefur sama og ekkert fylgi og enga málefnastöðu – og þá allra síst eftir þessa furðulegu atburðarás.

gudni-1

Guðni var ataður auri á Facebook, en ekki veit maður hvort það olli því að hann hætti við.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is