Mánudagur 20.10.2014 - 15:49 - Ummæli ()

Afstýrum verkfalli tónlistarkennara

Ég ætla ekki að trúa því upp á sveitarfélögin í landinu að þau láti viðgangast að tónlistarkennarar fari í verkfall sem gæti orðið langt og strangt. Verkfallið á að hefjast á miðvikudaginn.

Því tónlistarkennarar hafa kannski ekki ýkja mikinn slagkraft í verkfalli – það gerist jú ekki annað en að börn og unglingar missa af spilatímum og tímum í tónfræði.

En gleymum því ekki að tónlistarkennslan í landinu er afar verðmæt. Hún hefur orðið þess valdandi að Íslendingar – sem áttu sama og enga tónlist á árum áður – eru nú mikil tónlistarþjóð. Tónlistin ber hróður okkar víða um álfu – ekkert bætir heldur geð landans eins og hún.

Góðir tónlistarskólar hafa verið stolt sveitarfélaga. Það eru dæmi um að fólk vilji ekki flytja á staði þar sem er ekki almennilegt tónlistarnám.

En því miður hefur verið þrengt að tónlistarnáminu á undanförnum árum. Kennslan hefur minnkað – og laun tónlistarkennara hafa dregist aftur úr.

Manni heyrist að hvorki gangi né reki í samningaviðræðunum – og að uppi séu hægræðingarhugmyndir sem gætu stórskaðað tónlistarnámið. Það er ekki hægt að skera meira án þess að það bitni á gæðum námsins.

Maður vonar að það sé ekki satt, að sveitarfélögin nálgist þessa samninga af jákvæðni og sanngirni – studdir vonandi dyggilega af tónelskum menntamálaráðherra sem sjálfur leikur vel á hljóðfæri eftir að hafa notið tónlistarnáms í æsku.

 

10305039_10152425233173587_6411641709163378943_n

 

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is