Fimmtudagur 06.11.2014 - 18:46 - Ummæli ()

Skattaundanskot í gegnum Lúxemborg – líka á Íslandi

Afhjúpanir ICIJ um stórfyrirtækin sem komast hjá því að borga skatta með því hafa skúffufyrirtæki í Lúxemborg hafa vakið athygli víða um heim.

Það hitnar undir Jean-Claude Juncker, framkvæmdastjóra Evrópusambandsins, vegna þessa. Hann er fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemborgar og hefur haldið því fram að landið sé ekki skattaparadís.

Vitnað er í Harvardprófessorinn Stephen Shay, sérfræðing í sköttum, sem segir að Lúxemborg sé eins og „ævintýraland“ sem hjálpi stórfyrirtækjum að komast hjá því að borga skatta.

Þetta er ekki nýtt umfjöllunarefni. David Cameron sagði á síðasta klúbbfundi kapítalismans í Davos að ekki væri hægt að þola lengur hvernig stórfyrirtæki forðast að greiða skatta.

Barack Obama hefur sagt að þetta athæfi sé „óþjóðlegt“.

En stórfyrirtæki eru það einmitt – þau hafa í raun engan áhuga á þjóðerni. Fjármagnið er alþjóðlegt, það er bara fólk sem er fast.

Þegar stórt fyrirtæki svíkst um að borga skatta lendir það á almenningi að halda uppi heilbrigðisþjónustu, velferð og menntun.

Kastljós fjallaði í fyrra um nákvæmlega eins mál – hér á Íslandi.

Eigandi Alcoa á Íslandi er Alcoa Luxembourg. Alcoa hér skuldar svo félagi sem nefnist Alcoa Global Treasury, líka í Lúxemborg, stórfé umfram eignir. Þessar skuldir er hægt að stilla af þannig að Alcoa á Íslandi greiði lítinn skatt, þannig er arður færður til milli mismunandi hluta í fyrirtækinu.

Pricewaterhouse Coopers er sérstaklega nefnt í uppljóstrunum ICIJ, það eru endurskoðendur hjá því fyrirtæki sem hafa komið upp þetta kerfi skattaundanskota. Og svo vill til að endurskoðandi Alcoa er einmitt Pricewaterhouse Coopers.

Hér má sjá Kastljósþáttinn frá því í maí 2013, en í honum sagði meðal annars:

Lítið mál er fyrir fyrirtæki að koma sér hjá skattgreiðslum með lánveitingum frá lágskattasvæðum. Það að Alcoa samsteypan segi starfsemi sína á Íslandi eina þá arðbærustu í heiminum á meðan botnlaust tap blasir við í reikningum þess hér, lýsir siðlausri bókhaldsbrellu að mati þingmanns. Talsmenn Alcoa segja fyrirtækið starfa í fullu samræmi við lög og reglur og þann samning sem sé í gildi við íslensk stjórnvöld. Hár fjármagnskostnaður starfseminnar hér sé ástæða þess að hagnaður af rekstri álversins á Reyðarfirði, snúist í tap. Sá fjármagnskostnaður er þó allur vegna lána sem móðurfélag Alcoa lánar hingað í gegnum Lúxemborg.

Og ennfremur:

Starfsemin á Íslandi er fjármögnuð með lánum frá enn öðru félagi, sem einnig er staðsett í Lúxemborg. Það er félagið Alcoa Global treasury. Rekstrarfélagið álversins Alcoa Fjarðaál skuldar því lúxemborgska um 45 milljarða króna og greiðir 1,3 milljarða á ári í vexti af því. Íslenska móðurfélagið Alcoa á Íslandi skuldar því lúxemborgska hins vegar 210 milljarða króna. Það sem er um 20 milljörðum umfram eignir Alcoa Ísland ehf á Íslandi. Eigið fé Alcoa Ísland er því neikvætt enda hefur það verið rekið með miklu tapi undanfarin ár. Ástæðan er fyrst og fremst vaxtakostnaður. Alcoa Ísland ehf hefur á undanförnum 6 árum greitt næstum 50 milljarða króna í vexti til Lúxemborgska félagsins. Þrátt fyrir það hefur skuldastaða þess lítið sem ekkert lækkað á þessum tíma. Vextir á þessu láni eru breytilegir, en fóru hæst í 14 milljarða króna, að núvirði, árið 2008. Milli áranna 2011 og 2012 hækkuðu vextirnir um meira en helming. Í ársreikningi Alcoa Ísland segir um þessi lán:

„Fjármögnunarsamningar við Alcoa global treasury eru endurnýjaðir árlega. Dagsetning endurgreiðslu er ekki í sjáanlegri framtíð.“

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is