Miðvikudagur 19.08.2015 - 19:31 - Ummæli ()

Réttast væri að spila ekki eina einustu nótu á menningarnótt

Á laugardaginn er menningarnótt, það er fyrst og fremst tónlistarhátíð. Borgarstjórnin í Reykjavík er afar stolt af henni.

En á sama tíma stendur borgarstjórnin fyrir aðför að tónlistarnáminu í borginni. Það sætir gríðarlegu fjársvelti, tónlistarskólarnir upplifa stöðugan niðurskurð, og nú er framhaldsnám í tónlist í uppnámi vegna togstreitu milli borgar og ríkis. Ekki verður betur séð en að borginni sé í lófa lagið að leysa þann hnút. Nokkrir tónlistarskólar stefna beinlínis í gjaldþrot.

Ég vona að menntamálaráðuneytið taki þetta líka til sín – því það á líka part af skömminni.

Góðir tónlistarskólar og almennt aðgengi að þeim hefur lengi verið metnaðarmál í bæjarfélögum á Íslandi. Þetta hefur fætt af sér afar skemmtilegt og fjölbreytt tónlistarlíf á Íslandi og fer sögum af því víða um heim. Nú virðist borgarstjórn Reykjavíkur kæra sig kollótta þótt þetta kerfi molni niður og líði undir lok – og er hún þó skipuð fólki sem margt gefur sig út fyrir að hafa listáhuga.

Auðvitað verður það ekki, en mátulegt væri á borgarstjórnina að enginn tónlistarmaður spilaði svo mikið sem eina nótu á menningarnótt.

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is