Sunnudagur 06.03.2016 - 19:40 - Ummæli ()

Hvar er Stjórnstöð ferðamála?

Bandarísk kona sem við þekkjum kom til Íslands í vetur. Hún byrjaði á því að panta sér tvær nætur við Bláa lónið. Svo kom hún þaðan til Reykjavíkur. Henni fannst lítið til lónsins koma, hún notaði frekar kurteislegt enskt orð, sagðist vera underwealmed.

Bláa lónið er einhver mest kynnti staður á Íslandi. Það er samt ekki víst að túristar sem hingað koma geri sér alveg grein fyrir því hvað það er – og að fyrir marga er kannski betra að fara bara í eina af hinum ágætu sundlaugum landsins, þar sem aðgangseyrir ekki nema brot af því sem er í Bláa lónið og ekki verið að rýja neinn inn að skyrtunni.

Nú sér maður deilt á internetinu grein um Bláa lónið sem birtist á erlendum ferðavef, það verður að segjast eins og er, þar er fátt sem kemur á óvart. Höfundarnir segja að Bláa lónið sé sóun á tíma og peningum.

Og svo er enn rætt um ástandið við náttúruperlurnar sem þangað sem við sendum ferðamenn í hundrað þúsunda tali. Það er birt myndband af túristum sem eru að staulast um í skelfilegri hálku við Gullfoss. Þetta er reyndar dálítið hallærislega orðað í viðtali við leiðsögumann á mbl.is:

Við þurf­um að skýra aðgengi að vör­unni. Og við erum ekki að gera það. Það er al­gjört óreiðuóstand við Gull­foss og það er al­gjört óreiðuástand við Geysi.

„Varan“ er semsagt Gullfoss og Geysir. Jú, það má kannski orða það þannig. En allt ber að sama brunni: Græðgi, peningaplokk, sinnuleysi, fyrirhyggjuleysi og léleg aðstaða á ferðamannastöðum. Það má taka peninga af ferðamönnum, en helst ekki kosta neinu til svo tryggja megi vellíðan þeirra og öryggi.

Hvað eru stjórnvöld að hugsa? Eftir hverju er beðið?

Á síðasta ári var sett á laggirnar með pompi og prakt Stjórnstöð ferðamála. Það var ráðinn forstjóri á ofurlaunum. Síðan hefur ekkert spurst til stjórnstöðvarinnar þótt liðið sé hálft ár. Ekki hósti né stuna. Á sama tíma hefur ferðamönnum fjölgað um tugi prósenta í vetrarferðamennsku sem við virðumst satt að segja vera illa búin undir.

Stjórnstöðin er til dæmis ekki með vefsíðu. Ekki virðist hún heldur hafa síðu á Facebook – svoleiðis síðu er hægt að koma upp á örfáum mínútum. En kannski miðlar hún upplýsingum um sitt mikla starf með öðrum hætti?

 

Myndband af ferðamönnum við Gullfoss, tekið í gær. Takið eftir parinu með litla barnið.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is