Þriðjudagur 30.08.2016 - 19:24 - Ummæli ()

Engar óskaríkisstjórnir í boði – fremur að verði stjórnarkreppa

Það er kannski best að hrapa ekki að ályktunum, fleiri skoðanakannanir eru á leiðinni, en ef litið er á könnun MMR sem birtist í dag verður varla séð að nein ríkisstjórn sé í kortunum – altént ekki ríkisstjórn sem neinn langar að fá. Stefnum við kannski í kosningar þar sem allir verða fyrir vonbrigðum áður en yfir lýkur?

 

image001

D og B eru með samanlagt 35 prósent. Við getum bætt C við og þá eru ekki komin nema 44 prósent. Ekki nóg til að mynda stjórn.

Stjórnarandstöðumegin lítur þetta svona út, þar dreifast atkvæði mjög mikið:

P + V + S + A samanlagt 48 prósent. Við gætum bætt C við og farið í 56 prósent, en 5 flokka stjórn – það er nánast óþekkt. En það er hedur ekki víst að A nái að rjúfa múrinn sem þarf til að ná manni á þing.

Maður gæti farið að álykta að stjórnarkreppa kunni að vera í uppsiglingu. Eða þá að við fáum ríkisstjórn sem er býsna fjarri því sem menn óska sér, eins og til dæmis 1978 þegar Alþýðuflokkurinn og Alþýðuflokkurinn unnu kosningasigur, en Framsókn tapaði – þá varð formaður Framsóknarflokksins, Ólafur Jóhannesson, forsætisráðherra.

Guðmundur Rúnar Svansson, afar snjall maður, spyr á Facebook hvort þetta séu í rauninni eðlilegustu stjórnarmynstrin eða hvort hinar raunverulegu línur liggi í raun annars staðar. Guðmundur bendir á það í leiðinni að mestu andstæðurnar í íslenskum stjórnmálum sé hugsanlega Viðreisn og VG.

Væri Framsókn, Íhald og VG ef til vill raunhæfasti stjórnarmeirihlutinn að loknum næstu þingkosningum? Augljóslega ekki á hefðbundnum vinstri-hægri skala, en klárlega þegar kemur að þeim málum sem verða einna helst á döfinni í komandi kosningum? Þeir eiga það til dæmis sameiginlegt að vera í meginatriðum hlynntir kvótakerfinu, tregir til breytinga á núverandi stjórnarskrá, andvígir ESB aðild og vilja halda í krónuna, og myndu ennfremur getað náð saman um að gera sem minnstar breytingar á núverandi landbúnaðarkerfi.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is