Fimmtudagur 20.04.2017 - 10:11 - Ummæli ()

Gleðilegt sumar!

Sumardagurinn fyrsti lifir í minningunni sem kaldur en oft bjartur dagur. Eitt sinn norpaði ég með skátum í sem gengu fylktu liði af Skólavörðuholti á þessum degi. Maður man eftir stelpum í sportsokkum og pilsum. Nú er mér sagt að skrúðgangan sem átti að vera vestur í bæ hafi verið felld niður vegna veðurs. Það er heldur aumt. Ég heyrði í heimilisföður í Vesturbænum sem var óánægður með þetta, sex ára dóttur hans langaði í skrúðgöngu.

Það var meiri viðhöfn á sumardaginn fyrsta í  gamla daga. Hátíðarhöldin fóru fram í Miðbænum nú hefur þetta verið meira fært út í félagsmiðstöðvar. Það er leiðindaveður, verður víst þannig fram yfir mánaðarmót, líklega er réttnefni að kalla þetta sumardaginn frysta eins og farið er að gera. En fólk á samt betri skjólflíkur en var á árum áður. Sumir fara varla út úr húsi eins og þeir séu klæddir eins og þeir séu að fara í fjallgöngu.

Sumardaginn fyrsta ber alltaf upp á vikuna frá 19.-25. apríl. Þetta er fyrsti dagurinn í mánuðinum sem ber hið fagra nafn Harpa. Út frá því hef ég stundum velt fyrir mér hvort sé ekkert vor á Íslandi. Við köllum þetta sumardag en vorið er auðvitað rétt að byrja. Ég elska vorið eins og Stefán frá Hvítadal:

Þér sem hefur þunga borið,
þráða gleðifregn ég ber:
Bráðum kemur blessað vorið,
bráðum glaðnar yfir þér.

Æskan heillar, augu skína,
eyru fyllast glöðum klið.
Syngur vor í sálu þína,
Svanakvak og vatnanið.

Ég sé að sumardagurinn fyrsti var gerður að lögbundnum fríðdegi 1971, en þá var 40 stunda vinnuvika líka sett í lög. Björt framtíð lagði fram tillögu á þingi á síðasta kjörtímabili um að veitt yrði frí föstudaginn eftir sumardaginn fyrsta. Það þætti mörgum óneitanlega þægilegt, en aðrir telja sjálfsagt að nóg sé af frídögum á þessum árstíma.

 

Börn safnast saman í Miðbæjarskólaportinu á sumardaginn fyrsta. Þarna sést í hús sem standa við Miðstræti.

 

Auglýsing um ýmsar góðar sumargjafir frá Thomsens magasíni, hinni glæsilegu verslun sem stóð við Lækjartorg og Hafnarstræti, allt frá harmónikum, boltum og yfir í smíðatól amerísk.

 

Þetta er af vef barnavinafélagsins Sumargjafar, en það stóð löngum fyrir margvíslegri starfsemi tengdri sumardeginum fyrsta. Hátíðarhöld í bænum á árunum eftir stríð.

 

Önnur mynd af vef Sumargjafar, þarna er mikill mannfjöldi samankominn á Fríkirkjuveginn og teygir sig alla leið út á Tjarnarbrúna.

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is