Mánudagur 19.06.2017 - 09:04 - Ummæli ()

Hryðjuverk ógna Evrópu en borgir álfunnar eru miklu öruggari en fólk heldur

Hryðuverk eru hræðileg og þau vekja tilfinningu óöryggis og ótta meðal borgaranna. Óréttlætið sem er fólgið í hryðjuverkum sem beinast gegn almennum borgurum sem hafa ekkert til saka unnið svíður. Fólk er af tilviljun statt á veitingahúsi, tónleikum eða bara á einhverju torgi og verður fyrir árás ruglaðra manna sem sem hafa ánetjast sturlaðri hugmyndafræði. Þetta er vissulega martraðarkennt.

Varnir gegn hryðjuverkum eru líka mjög kostnaðarsamar, eins og við sjáum á öllu veseninu á flugvöllum heimsins, þær útheimta bæði mikinn mannafla og pláss – og þær gera samfélög okkar leiðinlegri og erfiðari að búa í.

En staðreyndin er samt, og þá verður ekki of oft minnt, að í raun lætur sárafátt fólk lífið vegna hryðjuverka á Vesturlöndum. Hryðjuverkamennirnir eru ekki sterkir, hafa ekki yfir fullkomnum vopnum að ráða. Við sáum það á hryðjuverkinu á Lundúnabrú. Ódæðismennirnir höfðu ekki átt fé til að leigja stóran vörubíl. Þeir urðu að láta sér minni bíl nægja. Þeir voru vopnaðir eldhúshnífum. Svona menn geta vissulega gert líf okkar erfiðara og flóknara, en þeir ógna ekki sjálfri samfélagsgerðinni. Það eru viðbrögð okkar við hryðjuverkunum sem skipta sköpum.

Á vef World Economic Forum má lesa grein sem ber yfirskriftina Hryðjuverkaógnin í Evrópu er raunveruleg en borgir álfunnar eru miklu öruggari en fólk heldur.

Langflest hryðjuverkin í heiminum eru reyndar framin í Miðausturlöndum, Afríku og Asíu. En síðustu árin hefur Evrópa upplifað mjög alvarlegar hryðjuverkaárásir. Á þessu ári hafa 39 manns látist í 11 hryðjuverkaárásum í Evrópu. Í greininni segir að þetta sé þó ekki nema 1 prósent af þeim sem fórust í hryðjuverkaárásum í heiminum fyrstu fimm mánuði ársins.

2016 er álitið að 142 borgarar Evrópusambandsins hafi dáið í hryðjuverkaárásum. Talan var hærri 2015, þá létust 176 manns í hryðjuverkaárásum innan ESB. Þetta er áhyggjusamleg aukning – hryðjuverkamönnunum hefur tekist ætlunarverk sitt sem er að vekja ótta og ugg.

En svo má líka setja þessar tölur í samhengi við aðrar dánarorsakir. Í téðri grein er birt stöplarit sem sýnir hættuna á því að deyja í hryðjuverki miðað við annað sem ógnar okkur. Þarna er miðað við árin 2010-2014, svo hryðjuverkin eru nokkuð hærri. Á metárunum 2015 og 2016 var hlutfallið 0,034 á hverja 100.000 íbúa fyrra árið en 0,027 síðara árið.

Þarf ekki að taka fram að margfalt líklegra er að fólk deyi vegna hitabylgja, íþróttaástundunar, að maður tali ekki um bílslys. Eldingar eru fyrir ofan hryðjuverk á töflunni hér fyrir neðan en myndu vera fyrir neðan síðustu tvö árin.

 

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is