Fimmtudagur 13.07.2017 - 12:18 - Ummæli ()

Fyrsti viðkomustaðurinn á leiðinni til útlanda

Á vef Þjóðminjasafns Íslands birtast þessar myndir úr gömlu flugstöðinni í Keflavík sem var í notkun þangað til Leifsstöð (sem nú á að kalla FLE) var opnuð. Sjálfsagt muna einhverjir eftir þessum bar, en sumir þó kannski ekki nema óljóst, því þarna hellti fólk hressilega í sig fyrir flug. Þá þótti óhæfa að fara í flug án þess að fá sér vel af bjór áður – bjórinn var jú bannaður utan vallargirðingarinnar – og svo var haldið áfram í flugvélinni. Þá bættist jafnvel koníak við.

Margur Íslendingurinn kom vel slompaður til útlanda – og hélt þá jafnvel áfram drykkjunni, enda flóði allt af bjór, alls staðar nema á Íslandi.

Ein tegundin sem þarna var drukkin var hinn íslenski Polar bjór. Hann var fyrst framleiddur fyrir breska setuliðið á stríðsárunum en síðan fyrir Kanann á Vellinum. Ég bragðaði aldrei á Polar bjór – þetta voru forboðnar lystisemdir – en sagt er að hann hafi verið afar bragðvondur.

 

Barþjónninn sem er svo virðulegur þarna á myndinni mun vera Vilhjálmur Schröder.

Á vef Þjóðminjasafnsins er líka þessi mynd af gömlu Fríhöfninni. Hún var tákn frelsis í hugum Íslendinga. Allir sem fóru í ferðalög til útlanda keyptu þar eins og þeir gátu, en nú eru breyttir tímar og maður nennir varla að stoppa í Fríhöfninni lengur.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is