Sunnudagur 16.07.2017 - 21:28 - Ummæli ()

Google og Facebook: Hver ætlar að stoppa mig?

Það er varla á hverjum degi að greinar birtast í viðskiptablaðinu Wall Street Journal þar sem er hvatt til þess að aðgerðum sé beitt til að hnekkja valdi auðfyrirtækja – og borið lof á Evrópusambandið fyrir slíkt. Greinin sem hér um ræðir ber yfirskriftina Er hægt að stoppa tæknirisana? og er skrifuð af Jonathan Taplin.

Taplin rekur hvernig fyrirtæki eins og Facebook, Google og Amazon auka stöðugt áhrif sín og völd án þess að ríkisvaldið hafi nokkuð um það að segja, skipti sér að því – einn vandinn sé í rauninni hversu lítil umræða sé um hið mikla og uggvænlega ris þessara fyrirtækja.

En þau séu að valda gríðarlegum breytingum. Taplin nefnir alla þá umbyltingu sem verður í hagkerfinu og á vinnumarkaði vegna gervigreindar – ákvarðanir eru aðallega teknar af tæknimönnum hjá Facebook og Google án þess að nokkur stjórnmálaleg umræða fari fram. Það getur orðið mjög erfitt að hnekkja einokun á þessu sviði. Sá sem ræður yfir upplýsingaveitunum getur sífellt safnað meiri upplýsingum og notað þær til að þróa hugbúnaðinn.

Markaðshlutdeild Google er 87 prósent í Bandaríkjunum og 91 prósent í Evrópu. Hjá Facebook er hlutfallið í samskiptamiðlun (ásamt með dótturfyrirtækjum eins og Instagram , WhatsApp og Messenger) 75 prósent.

Annað sem Taplin nefnir er hvernig áhrif og fjármagn hafa færst frá þeim sem skapa, búa til innihald, til þeirra sem dreifa. Þetta á við um tónlistarmarkaðinn þar sem veiturnar taka sífellt til sín stærri hlut. Einnig fjölmiðlana þar sem auglýsingatekjur færast í stórum stíl frá þeim sem flytja fréttir, skrifa eða tala í fjölmiðla til netrisanna. 20016 voru auglýsingatekjur Google 79,4 milljarðar dollara. Við getum ímyndað okkur hvað fjölmiðlarnir gætu gert við slíkt fé. Facebook var þá í öðru sæti með 26,9 milljarða dollara. Þessar upphæðir fara bara hækkandi.

Ástæðan fyrir þessu er alls ekki sú að fólk hlusti á minni tónlist eða noti færri fréttir. Alls ekki. Þetta er stórkostleg tilfærsla á fjármunum til einokunarfyrirtækja.

Það eru fleiri hlutir sem Taplin nefnir í sinni athyglisverðu grein, falskar fréttir, persónuvernd. Hann spyr hvort forstjórarnir í Silicon Valley hugsi eitthvað um siðferðislega hlið þessarar miklu tæknibyltingar eða hvort að mottó þeirra sé hið fræga slagorð frjálshyggjukonunnar Ayn Rand: „Hver ætlar að stoppa mig?“

Taplin nefnir síðan dæmi um þegar bandarísk stjórnvöld gripu inn í með lögum gegn einokun, til dæmis gegn IBM á áttunda áratugnum. Það var ein undirstaða tölvubyltingarinnar, segir hann. Hann nefnir einnig málsókn gegn Microsoft árið 1998 vegna Internet Explorer vafrans. Þar sé ein ástæða þess að Google gat vaxið svo hratt. Þannig hafi lög gegn einokun (antitrust) oft haft þau áhrif að örva nýsköpun.

Og ólíkt mörgum sem fjalla um viðskipti og tækni ber Taplin lof á Evrópusambandið fyrir að leggja 2,7 milljarða dollara sekt á Google í júní síðastliðnum. Þar hafi ESB sýnt að markmið þess sé að halda uppi samkeppni á þessu afdrifaríka sviði.

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is