Laugardagur 19.08.2017 - 12:09 - Ummæli ()

Sjálfsagt að skipta um nafn

Samfylkingin var alltaf mjög vont nafn á stjórnmálaflokki. Það var líka hugsað til algjörra bráðabirgða á sínum tíma. Samfylking minnir á eitthvað frá því á millistríðsárunum, þá voru alls konar „fylkingar“ í gangi. Það var meira að segja ómur af gamalli sögu, sem einhverjir mundu ennþá fyrir aldamótin, í nafninu – frá því þegar kommar og kratar gerðu tilraunir til að fylkja sér saman.

En svo fórst fyrir að breyta nafninu – og flokkurinn sat uppi með þetta heiti. Það vekur engar sérstakar kenndir, segir ekkert um stefnuna eða viðhorfin, er innantómt.

Nú þegar fylgið er í nokkru lágmarki, virðist þó aðeins vera að rísa, ætti að vera tilvalið tækifæri til að breyta. Það er ekki þar með sagt að flokkurinn verði stór á ný, en hann á þó ákveðin sóknarfæri nú þegar Björt framtíð og Viðreisn eru undir hælnum á Sjálfstæðisflokknum.

Flokksmenn geta svo skeggrætt um það hvort nafnið á að vera Jafnaðarmannaflokkur eða Jafnaðarflokkur.

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is