Fimmtudagur 07.09.2017 - 22:27 - Ummæli ()

Vantar íslenskar bókmenntir meira snobb eða minna snobb?

Vangaveltur vegna minnkandi bóksölu – og væntanlega bóklesturs – sem ég held reyndar að eigi sér eina skýringu sem gnæfir yfir öllum öðrum. Nei, það er ekki hækkaður virðisaukaskattur á bækur, heldur einfaldlega tilkoma snjallsíma og samskiptamiðla. Sá sem hangir á Facebook les ekki bækur – líklegt er að eftir nokkurn tíma á samskipamiðlinum hafi hann heldur ekki eirð til þess. Örvunin sem fæst af bóklestri er allt annars eðlis. Fáar þjóðir hafa tileinkað sér þessa samskiptatækni af jafnmiklum krafti og Íslendingar.

Glöggur maður sem ég hitti um daginn benti mér til dæmis á að sú kynslóð sem virtist lesa einna minnst núna væri einmitt kynslóðin sem ólst upp við að lesa þykkari og lengri barnabækur en áður voru dæmi um. Þetta er kynslóðin sem beið í ofvæni eftir Harry Potter-bókunum, gleypti þær í sig, en lagði, ef svo má segja, bókina á hilluna eftir það.

En um þetta var fjallað í Fréttablaðinu um daginn. Rithöfundurinn Stefán Máni gerðist býsna ögrandi og talaði um snobb:

Almenningur hefur smám saman orðið afhuga íslenskum bókmenntum. … Það eru vissulega margir sem lesa en ekki endilega íslenskar bækur. Að mínu mati er snobbið að drepa íslenska menningu, þá helst bókmenntir og kvikmyndir. Frá því að Laxness fékk Nóbelinn hafa íslenskir höfundar upp til hópa skrifað bækur í þeim tilgangi að fá hól og verðlaun hjá einhverri elítu í stað þess að skrifa fyrir almenning, að föndra við stíl í stað þess að segja sögur.

Ef bækur eru ekki skrifaðar fyrir fólkið í landinu, fyrir hvern þá? Berum virðingu fyrir almenningi – hann borgar launin okkar. Og berum virðingu fyrir þeim listamönnum sem skapa fyrir fólkið í landinu. Þannig verður menning til – þannig snúum við blaðinu við.

Andri Snær Magnason bregst við orðum Stefáns Mána á Facebook og segir að þvert á móti vanti snobb:

Stefán Máni reyndi að snapa fæt í Fréttablaðinu um daginn en enginn varð bjálaður, Bragi brást aðeins við. Kannski þurfum við að verða miklu meira brjáðuð. Hrun í bóksölu helst einmitt í hendur við minnkandi snobb, ljóðabækur fást ekki dæmdar, dauða Lesbókar og djúprar umfjöllunar á almennum vettvangi á sama tíma og snobbað hefur verið fyrir glæpasögunni og salan hefur safnast á fárra hendur. Allt í einu er ekki hægt að segja sögu nema lík finnist á fyrstu síðum.

Andri Snær nefnir viðbrögð Braga. Það er Bragi Ólafsson rithöfundur. Bragi heldur úti bloggsíðu þar sem hann er nokkuð virkur – óhætt að mæla með henni.

Ég er litlu nær, en ég ímynda mér að Stefán eigi við það að ákveðnir rithöfundar sýni almenningi óvirðingu með því að „föndra við stíl“, og þar með gleymi þeir að segja sögu (sem almenningur hefur borgað rithöfundinum fyrir að gera – borgaðhonum fyrirfram). Og mjög líklegt er einnig að Stefán sé á þeirri skoðun að snobbið, sem er að murka lífið úr íslenskri menningu (þá helst bókmenntum og kvikmyndum), sé helst að finna í föndri höfunda við stíl. Kannski lögðu blaðamennirnir tveir ekki upp með að vera gagnrýnir á orð viðmælenda sinna þegar þeir söfnuðu saman í greinina, en mér finnst samt einhvern veginn að þeir hefðu átt að spyrja Stefán Mána: „Hvað áttu við með að snobb sé að drepa íslenska menningu? Er íslensk menning í dauðateygjunum, af völdum snobbs? Og hvað áttu við með orðinu snobb?“ Og kannski hefðu þeir líka átt að biðja höfund Svarts galdurs um að segja sér fyrir hverja hann álíti að íslenskir „föndurhöfundar“ séu að skrifa, fyrst þeir eru ekki að skrifa fyrir (íslenskan) almenning.

Bragi heldur áfram og birtir í lok greinar brot úr bók eftir Stefán Mána – kannski má segja að þar taki kaldhæðnin völdin hjá skáldinu?

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is