Mánudagur 11.09.2017 - 16:24 - Ummæli ()

Umdeildur garður – og ansi ljótur miðað við það sem eitt sinn var

Það er deilt um svæðið í kringum fyrir austan og sunnan Landsímahúsið. Þar var eitt sinn Víkurkirkja og kirkjugarður íbúanna í byggðinni í Reykjavík. Fyrst þegar það gat varla talist þorp og svo þegar það fór að þróast í að verða bær. En byrjað var að grafa fólk í gamla kirkjugarðinum – sem síðar var farið að kalla Hólavallagarð – árið 1838, fyrir 180 árum.

En svæðið þar sem kirkjan og kirkjugarðurinn voru hefur tekið miklum breytingum í áranna rás. Þarna er búið að byggja og grafa, raska og færa til – það er spurning hvaða minningarmörk menn vilja varðveita og þá með hvaða hætti?

Þetta er þó ekki efni þessa greinarstúfs. Hér er ljósmynd af því sem nú kallast í daglegu tali Fógetagarður en hefur líka verið nefndur Víkurgarður. Þarna hóf Shierbeck landlæknir ræktun árið 1883, þarna er tré frá þeim tíma að voru eiginlega engin tré í Reykjavík, silfurreynir sem var gróðursettur 1884.

Myndin sýnir garðinn eins og hann var á árunum eftir stríð. Sjálfur þykist ég muna eftir honum nokkurn veginn svona. Þarna er styttan af Skúla fógeta ekki komin. Hún var gerð af Guðmundi frá Miðdal, það merkilega er að enginn veit hvernig Skúli leit út – hið herðabreiða tröll Guðmundar hefur orðið að mynd Skúla í vitund fólks.

Við sjáum hvað byggðin í kringum garðinn er heilleg. Því miður er það svo að öll húsin á myndinni eru horfin. Uppsalir eru þarna lengst til vinstri. Þau voru rifin eða brunnu. Öll stóðu þau enn þegar ég var barn. Í staðinn voru loks byggðar við Aðalstræti heldur daprar eftirlíkingar af gömlum húsum. Lengst til hægri er Aðalstræti 9, það hús brann 1967 og var þá reist forljótt hús sem síðar var byggt ofan á – og varð þá ennþá ljótara og frekara í götumyndinni.

En það sem vekur líka athygli er hversu garðurinn er miklu fallegri þarna en nú. Það mun hafa verið 1972 að hafist var handa við að endurskipuleggja garðinn. Þá var í tísku garðhönnun sem fólst í að nota sem mest af gangstéttarhellum. Beð voru sett í þartilgerða stalla. Gras var ekki vel séð. Þetta skipulag hefur ekki elst vel. Fógetagarðurinn er í dag skelfing ótútlegur – og sérstaklega ef miðað er við ljósmyndina hér að neðan.

 

 

Þessa misheppnuðu garðhönnun er reyndar að finna á fleiri stöðum í bænum – og er frá svipuðum tíma – eða þá leifar af henni. Austurstrætið var skipulagt sem göngugata á þessum árum og var alltaf frekar kuldalegt. Lækjartorg hefur aldrei náð sér á strik sem vettvangur fyrir bæjarbúa eftir að lokað var fyrir umferðina þar. Það er einfaldlega of óvistlegt. Leiksvæði æsku minnar á Landakotstúni varð líka fyrir barðinu á misvitrum garðhönnuðum.

Hér er til samanburðar mynd af Fógetagarðinum eins og hann lítur út nú.

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is