Þriðjudagur 12.09.2017 - 15:47 - Ummæli ()

Stjórnarskráin sem bætt flík – Guðni tekur afstöðu með Sveini Björnssyni en ekki Ólafi Ragnari

Guðni Th. Jóhannesson fór aldrei í launkofa með þá skoðun sína það þegar hann var sagnfræðingur að stjórnarskráin íslenska hefði verið bráðabirgðaplagg. Þetta má til dæmis sjá á fundi hjá Stjórnarskrárfélaginu 2012 en þar hélt Guðni erindi og rakti afstöðu samtímamanna til þess er stjórnarskráin var samþykkt 1944. Þar gagnrýndi hann meðal annars orð forvera síns í forsetaembætti, Ólafs Ragnars Grímssonar, sem undir lok valdaferils síns var orðinn mjög andsnúinn breytingum á stjórnarskránni:

Fyrst má minnast á þær fullyrðingar í umræðum líðandi stundar að ekki hafi verið fastmælum bundið að taka stjórnarskrána til gagngerðrar endurskoðunar, enda hafi þjóðin stutt hana einum rómi árið 1944. Þar að auki hefur verið sagt ástæðulaust að umbylta lýðveldisstjórnarskránni því að hún sé „svo listilega smíðuð“ eins og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, komst að orði, og „helgur gerningur“, svo vitnað sé til orða höfundar Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins.

Guðni nefndi síðan ýmis dæmi um að í upphafi lýðveldistímans hefðu menn litið á stjórnarskrána sem nokkurs konar millileik. Þar vitnaði hann í ýmsa stjórnmálamenn, meðal annars Svein Björnsson, þáverandi forseta sem sagði beinlínis í nýársávarpi að ekki mætti dragast lengur „úr þessu að setja nýja stjórnarskrá“.

Guðni hefur ekki skipt um skoðun þótt hann sé kominn í forsetaembættið, og það er auðvitað lofsvert. Hann talaði um stjórnarskrármál í ræðu við setningu Alþingis í dag og vitnaði aftur í Svein Björnsson.

Þegar stjórnarskrá konungsríkisins Íslands var endurskoðuð við lýðveldisstofnun árið 1944 var um það einhugur að breyta því einu sem breyta þyrfti af nauðsyn við þau kaflaskil. Við fyrstu hentugleika yrði stjórnarskráin svo tekin til gagngerðrar endurskoðunar. Þannig líkti Sveinn Björnsson, fyrsti forseti lýðveldisins, henni við „bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld“.

Rétt eins og oftast er um ríkisstjórnir einsetti núverandi ríkisstjórn sér að gera breytingar á stjórnarskránni. Hvorki hefur gengið né rekið í því síðastliðin ár, annars vegar höfum við hægfara stjórnarskrárnefndir sem koma engu í verk vegna ágreinings, hins vegar stjórnlagaráðið sem samdi heila nýja stjórnarskrá á skömmum tíma. Sú stjórnarskrá fór svo í þjóðaraatkvæðagreiðslu sem er orðin eins og feimnismál fyrir Alþingi. Guðni hvatti til þess að endurskoðun stjórnarskrárinnar færi nú fram í tengslum við 100 ára afmæli fullveldisins á næsta ári og lagði línur um það sem þyrfti að breyta, þar nefndi hann meðal annars ákvæði um forsetaembættið og ábyrgð þess á valdgjörningum.

Við það er ríkur stuðningur, innan þings sem utan, að í stjórnarskrá skuli setja ákvæði um umhverfisvernd, þjóðareign á auðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslur, svo dæmi séu nefnd. Auk þess hafa stjórnmálaleiðtogar, stjórnspekingar og fleiri margsinnis viðurkennt, ekki síst á þessari öld, að í stjórnarskrá okkar þurfi að draga upp skýrari mynd af ríkjandi stjórnarfari. Árétta þurfi að ráðherrar fari með æðsta framkvæmdarvald, hver á sínu sviði, og nefna berum orðum hvaða stjórnskipuleg völd forseti hafi í raun. Í þeim efnum má meðal annars huga að atbeina við stjórnarmyndanir, þingrofi og skipun í ýmis embætti. Loks varðar miklu að völd og ábyrgð fari saman. Stjórnarskrárbundið ábyrgðarleysi forseta, sem felur samt í sér formlega staðfestingu á ákvörðunum annarra, samræmist ekki réttarvitund fólks og á ekki heima í stjórnsýslu samtímans.

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is