Mánudagur 09.10.2017 - 23:02 - Ummæli ()

Hugað að Rússlandsferð

Það er kannski ekki seinna vænna fyrir þá sem hafa áhuga (væntanlega þúsundir ef ekki tugþúsundir Íslendinga) að fara að huga að ferðinni til Rússlands vegna heimsmeistaramótsins í fótbolta í júní og júlí næsta sumar. Það er meira mál að skreppa til Rússlands með stuttum fyrirvara en til Frakklands.

Ljóst er að Ísland verður þar meðal 32ja þátttökuþjóða. Nú eru 17 búnar að tryggja sér þátttöku: Rússland, Brasilía, Íran, Japan, Mexíkó, Belgía, Suður-Kórea, Saudi-Arabía, Þýskaland, England, Spánn, Nígería, Costa Rica, Pólland, Egyptaland, Serbía og Ísland.

Liðin í Evrópu sem eru örugg að fara að minnsta kosti í umspil um sæti á HM eru Frakkland og Svíþjóð, sem berjast um efsta sætið í A-riðli, Sviss, Portúgal, Ítalía, Danmörk, Króatía, Svíþjóð, Norður-Írland, Grikkland og Írland.

Við vitum ekki á móti hverjum Ísland lendir eða í hvaða borgum. Það skýrist ekki fyrr en seinna. En það er leikið vítt og breitt um hið gríðarstóra Rússland, allt frá Kaliningrad í vestri austur í Úralfjöll. Það eru miklar vegalengdir á milli borga – ferðalögin sem þeir fóru í sem horfðu á leiki Íslands í Frakklandi í fyrra eru heldur lítilfjörleg í því sambandi.

Í mótinu í Rússlandi verður leikið á 12 leikvöngum í 11 borgum. Vestast er eins og áður sagði Kaliningrad, sem er lítið svæði, vestan Eystrasaltsríkjanna, sem Rússar ráða yfir, hét áður Köningsberg og var hluti af Austur-Prússlandi. Borgin er ein af fáum sem enn heita eftir karli úr flokki bolshévíka.

Nyrsti leikvangurinn er í Sankti Pétursborg. Það er leikið á tveimur völlum í Moskvu, á öðrum þeirra Luzhniki fer úrslitaleikurinn fram. Í Nizhny Novgorod sem norrænir menn kölluðu Nýjagarð, Kazan, sem er höfuðborg sambandslýðveldisins, Tatarstan, í Ekaterinburg sem er í á mörkum Evrópu og Asíu í Úralfjöllum.

Það er leikið í Saransk og Samara og í Volgograd – sem eitt sinn hét Stalíngrad. Svo er það strandbærinn Sochi við Svartahaf og Rostov við Don sem er stærsta borgin í Suður-Rússlandi og var áður helsta vígi kósakka.

Frá Kaliningrad til Ekaterinburg eru meira en 3000 kílómetrar og 3 og 1/2 tíma flug en frá Sankti Pétursborg til Sochi eru 2400 kílómetrar.

Það má svo benda á að hótel eru mjög dýr í Rússlandi, ekki síst í Moskvu – sem almennt er mjög dýr borg fyrir ferðamenn. Það getur líka verið vandkvæðum bundið að fá góðan mat.

 

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is