Þriðjudagur 10.10.2017 - 22:00 - Ummæli ()

Sjálfstæðismenn ráðast á Sigmund

Það hlaut að koma að því að Sjálfstæðismenn beindu spjótum sínum að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem er manna líklegastur til að taka af þeim fylgi í kosningunum 28. október.

Bjarni Benediktsson kemur raunar fram og segir að verði hægt að taka tugi milljarða úr bönkunum og nota þá til að byggja upp heilbrigðiskerfið. Sigmundur ætlar að birta stefnuskrá sína á föstudaginn – það er öruggt að þar verður gerð hörð hríð að bönkunum. Þeir eru að sönnu ekki vinsælir – og spurning hvort Bjarni sé þarna að reyna að setja undir fylgisleka.

En stóru fallbyssurnar eru dregnar fram í Vef-Þjóðviljanum sem er ritstýrt af eiginmanni Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra. Þar er fullyrt að Sigmundur Davíð hafi komið vinstri stjórninni 2009 á laggirnar með því að verja minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar falli.

Það reyndar fylgir ekki sögunni að seinna slettist svo upp á vinskapinn þarna að æ síðan hefur verið talið ómögulegt að Sigmundur vinni með Samfylkingu og VG – alveg burtséð frá stefnumálum.

Sigmundi er lýst sem guðföður vinstri stjórnarinnar sem Vef-Þjóðviljinn er að sönnu ekki hrifinn af. Og svo er bætt við:

Og nú hefur sami maður og kom þessum ósköpum til leiðar klofið Framsóknarflokkinn rétt fyrir kosningar til að auðvelda myndun annarrar hreinnar vinstristjórnar.

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is