Þriðjudagur 10.10.2017 - 12:56 - Ummæli ()

Steingrímur í fortíð og framtíð

Það er rætt um Steingrím J. Sigfússon sem hefur verið samfleytt á þingi síðan 1983, semsagt í 34 ár. Ef hann nær kjöri nú og situr heilt kjörtímabil þá nær hann 38 árum. Slær samt ekki met Sjálfstæðismannsins Péturs Ottesen sem var 43 ár á þingi.

 

 

Hitt er þó nær því að vera vandamál núna að fólk er of stutt fremur en of lengi á þingi. Það er varla komið þangað inn fyrr en það dettur út aftur. Fyrir utan Steingrím eru einungis fjórir þingmenn sem sátu á Alþingi fyrir hrun og ná líklega aftur kjöri: Guðlaugur Þór Þórðarson, Bjarni Benediktsson, Birgir Ármannsson og Katrín Jakobsdóttir. Óvíst er með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, en hún hvarf auðvitað úr stjórnmálum og kom aftur inn á þing í fyrra.

Guðlaugur Þór hefur lengsta þingreynslu á eftir Steingrími. Hann var kosinn á þing 2003 (eins og Bjarni og Birgir), en hann kom líka nokkrum sinnum inn sem varamaður árin 1997 og 1998.

Það hefur semsagt verið hröð endurnýjun þingmanna síðan í kosningunum 2009, nú erum við að halda fjórðu kosningarnar síðan þá. Og svo endurnýjun ofan á endurnýjun. Nú detta væntanlega út einhverjir sem hafa einungis setið eitt ár á Alþingi.

Steingrímur er öruggur með kosningu í Norðausturkjördæmi. Það er spurt hvort hann verði ráðherra? Miðað við langan þingferil gæti hann auðvitað sómt sér sem forseti Alþingis. En kannski kærir vinnuþjarkurinn Steingrímur sig ekki um slíka tignarstöðu.

Ég var við upptökur úti á landi í síðustu viku. Hitti þá ágætan kunningja minn, bónda í Borgarfirði. Hann sagði að hann vildi að Steingrímur yrði aftur landbúnaðarráðherra.

Því embætti gengdi Steingrímur fyrst 1988.

 

 

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is