Miðvikudagur 18.10.2017 - 11:52 - Ummæli ()

Jónas Kristjánsson, Hallgrímur og Gunni Helga, Guðrún Pé, Biggi lögga og fleira frægt fólk á framboðslistum

Það er gaman að renna augunum yfir framboðslista til að sjá hvort maður þekkir fólk á þeim, jafnvel einhverja sem maður átti ekki von á að væru í framboði. Fréttablaðið birti í morgun tólf blaðsíðna aukablað sem er auglýsing frá landskjörstjórn um framboðslista við kosningarnar 28. október. Þar er að finna nöfn allra frambjóðenda.

Við skulum láta þá sem eru efst á listum liggja milli hluta, þeir hafa verið kynntir, en skoða aðeins hvaða fólk er neðar á listunum.

Maður tekur til dæmis eftir því að Jónas Kristjánsson, ritstjóri og einn helsti blaðamaður á Íslandi í marga áratugi, er í framboði fyrir Pírata. Hann er í heiðurssætinu í Suðvesturkjördæmi. Í heiðurssætinu hjá Pírötum í Reykjavík norður er skáldkonan og forsetaframbjóðandinn Elísabet Jökulsdóttir.

Það leynir sér ekki að Vinstri græn höfða vel til listamanna. Ragnar Kjartansson myndlistarmaður er í 9. sæti í Reykjavík norður og sama lista er söngkonan Sigríður Thorlacius í 19. sæti. Skáldið og rapparinn Kött Grá Pje, eða Atli Sigþórsson, er í 14. sæti í Reykjavík suður en þar er rithöfundurinn Úlfar Þormóðsson í 21. sæti.

Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur og formaður Rithöfundasambands Íslands, er í 13. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi en þar er kvikmyndaleikstjórinn Grímur Hákonarson í 24. sæti. Gunnar Þórðarson tónskáld er svo að finna í 8. sæti í Suðurkjördæmi.

Hjá Samfylkingunni er Hallgrímur Helgason í 8. sæti í Reykjavík norður, þar er Edda Björgvinsdóttir leikkona í 11. sæti, Birgir Þórarinsson eða Biggi veira úr Gusgus í 12. sæti en Dr. Gunni í 20. sæti. Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsisn er í 8. sæti í Reykjavík suður.

Gunnar Helgason, rithöfundur, leikari og bróðir Hallgríms,  er í 7. sæti í Suðvesturkjördæmi og þar er Hjálmar Hjálmarsson leikari í 10. sæti. Hann leiddi eitt sinn Næst besta flokkinn í Kópavogi.

Hjá Viðreisn vekur athygli Guðrún Pétursdóttir, líffræðingur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, en hún er í heiðurssæti í Reykjavík norður. Þar er Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara, í 8. sæti. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, er í heiðurssætinu í Reykjavík suður. Söngkonan Ólöf Kolbrún Harðardóttir er í 25, sæti hjá Viðreisn í Suðvesturkjördæmi og þar er athafnakonan Kristín Pétursdóttir í 21. sæti.

Biggi lögga, eða Birgir Örn Guðjónsson, er í 3. sæti hjá Framsóknarflokknum í Reykjavík suður, en það vekur athygli að Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismaður, er í heiðurssætinu í Reykjavík suður. Hann fór semsagt ekki með Sigmundi. Það gerðu heldur ekki fyrrverandi alþingismennirnir Haraldur Einarsson og Páll Jóhann Pálsson sem eru neðarlega á lista í Suðurkjördæmi.

Knattspyrnumaðurinn Davíð Þór Viðarsson er í 11. sæti í Suðvesturkjördæmi hjá Sjálfstæðisflokknum, en annar fótboltamaður, Rúrik Gíslason, er í 13. sæti í Reykjavík suður. Þar er Illugi Gunnarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra, í heiðurssæti, en hann leiddi listann í síðustu kosningum. Ragnheiður Ríkharðsdóttir er í heiðurssæti í Suðvesturkjördæmi.

Guðlaugur G. Sverrisson, fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur sem einnig hefur setið í stjórn RÚV, er í öðru sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík norður. Þar er Jón Hjaltalín Magnússon í 7. sæti, en hann er gamall handboltakappi og fyrrverandi formaður Handknattleikssambands Íslands. Atli Ásmundsson, fyrrverandi ræðismaður sem eitt sinn var hægri hönd Halldórs Ásgrímssonar, er í heiðurssætinu.

Í Suðurkjördæmi er að finna á lista Miðflokksins Sigurð Þ. Ragnarsson sem gat sér gott orð fyrir að flytja veðurfréttir í sjónvarpi, en í 14. sæti í Reykjavík suður er kvikmyndaleikstjórinn Hjálmar Einarsson.

Leikkonan Guðlaug Elísabet Ólafdóttir er í heiðurssætinu hjá Bjartri framtíð í Suðurkjördæmi, en í Suðvesturkjördæmi er grínistinn og handritshöfundurinn Sigurjón Kjartansson í 24. sæti fyrir flokkinn. Þeir Óttarr Proppé eru saman í Ham. Annar Ham-ari, Sigurður Björn Blöndal borgarfulltrúi, er í heiðurssætinu í Reykjavík norður.

Það verður að segjast eins og er að ekki er mikið af frægu fólki í framboði fyrir Flokk fólksins – kannski er alþýðan þar? En þar má nefna Ásgerði Jónu Flosadóttur, formann Fjölskylduhjálpar Íslands, sem er í 4. sæti í Reykjavík suður, veitingamanninn Margeir Margeirsson sem er í 16. sæti á sama lista, Svein Guðjónsson, blaðamann sem eitt sinn var í hljómsveitinni Roof Tops, sem er í 5. sæti í Reykjavík norður og Karl Berndsen hárgreiðslumann sem er í 7. sæti á sama lista.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is