Miðvikudagur 18.10.2017 - 11:13 - Ummæli ()

Valdamesti maður heims

Einhver sérstæðasta og áhugaverðasta samkoma í heimi hefst í dag, það er 19. þing kínverska Kommúnistaflokksins. Síðasta þingið var haldið fyrir fimm árum. Tímaritið The Economist birtir forsíðugrein af þessu tilefni og fullyrðir að aðalritari flokksins og forseti Kína, Xi Jinping, sé valdamesti maður í heimi.

Yfirleitt hefði maður ætlað að þessi titill væri frátekinn fyrir forseta Bandaríkjanna. En Economist fullyrðir að Donald Trump sé forseti af því taginu að hann eigi það ekki skilið. Hann njóti einskis álits á alþjóðavettvangi og gangi illa að koma stefnumálum sínum í gegn heimafyrir.

Kerfið í Kína er að mörgu leyti ráðgáta. Kommúnistaflokkurinn, flokkur Maós, er einráður en hefur komið upp kapítalísku hagkerfi þar sem hefur orðið til fjölmenn og auðug millistétt sem nú hefur efni á því að ferðast um heiminn. Efnahagslega hafa verið tekin gríðarlega stór skref, en mannréttindi eru enn virt að vettugi í Kína.

Kommúnistaflokkurinn þorir ekki að lina tökin sem hann hefur á kínversku þjóðinni. Economist segir að Xi Jinping hafi verið góður leiðtogi fyrir kommúnistaflokkinn en síður fyrir Kína. Hann sé gríðarlega valdamikill, hafi hert tökin innanlands meðal annars með aukinni ritskoðun. Hins vegar nýtur hann álits á alþjóðavettvangi þar sem hann virkar nánast eins og skynsemis- og hófsemdarmaður við hliðina á Trump.

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is