Fimmtudagur 02.11.2017 - 16:59 - Ummæli ()

Leynd yfir stjórnarmyndunarviðræðum – eru fjórir flokkar nóg?

Það hefur ríkt talsverð leynd yfir stjórnarmyndunarviðræðum. Katrín Jakobsdóttir fer á Bessastaði og sækir umboð til þess að vinna að myndun ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknar, Samfylkingar og Pírata, Guðni Th Jóhannesson veitir henni það. Þeir sem hafa tekið þátt í viðræðunum hafa passað að ekkert leki út – væntanlega minnugir þess hvernig allt lak út í kringum kosningarnar 2016. Þá var allt sem rætt var komið í fjölmiðla stuttu eftir að fundum lauk – bæði fyrir og eftir kosningar – og stórskaðaði allt ferlið.

Bara þessi þagnarhjúpur bendir til þess að viðræðurnar séu á alvarlegra stigi en þá var. Það virðist líka ríkja meiri trúnaður milli aðalleikaranna en þá.

Hins vegar er þetta viðkvæmt. Flokkarnir fjórir hafa ekki nema eins manns meirihluta á þingi. Það getur reynst ansi erfitt nema samstaðan sé þeim mun meiri. Þá þarf að aftengja ýmis erfið mál svo að þau valdi ekki stjórnarslitum. Landbúnaðarmálin, Evrópumálin, stjórnarskrána, sjávarútvegsmáin. Þarna er alls staðar ágreiningur milli flokkanna, það útheimtir nokkuð stórar málamiðlanir. En svo er aldrei hægt að koma í veg fyrir óvæntar uppákomur eins og þá sem varð valdandi að falli síðustu stjórnar. Afdrif Bjartrar framtíðar eru þó líklega víti til varnaðar.

Ef stjórnin verður stofnuð með þennan nauma meirihluta er líklegt að margir spái því að hún falli innan tíðar. Hún gæti fengið ansi harða stjórnarandstöðu þar sem Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð verða í fararbroddi – eins og á tíma vinstri stjórnarinnar sem stöðugt kvarnaðist úr árin 2009 til 2013. Það er náttúrlega möguleiki að flokkarnir fjórir fái til liðs við sig Flokk fólksins eða Viðreisn ellegar reyni að tryggja einhvers konar hlutleysi frá öðrum hvorum þessara flokka.

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is