Mánudagur 13.11.2017 - 15:55 - Ummæli ()

Klýfur stjórnarmyndunin VG?

Vinstri græn samþykkja að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn og maður verður var við alls kyns flog á netinu, eins og til dæmis þetta frá Merði Árnasyni, fyrrverandi þingmanni Samfylkingarinnar.

 

 

Það eru samt ekki nema níu af ellefu þingmönnum VG sem greiða því atkvæði að fara í viðræðurnar. Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson segja nei – og það birtist mynd af Rósu á göngum þinghússins þar sem hún er í peysu og með trefil, eins og hún sé á leiðinni burt.

Kannski er VG flokkur sem á mjög erfitt með að fara í ríkisstjórn. Síðast þegar VG var í stjórn brast flótti í liðið vegna málamiðlana sem voru gerðar við Samfylkinguna. Margir VG-arar upplifðu samningana við Evrópusambandið sem meiriháttar svik – rétt eins og tilfinning sumra er nú vegna samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Í þetta skiptið gæti eitthvað svipað gerst, Rósa og Andrés gætu til dæmis sem hægast gengið í Samfylkinguna, í raun er sáralítill munur á VG og Samfylkingunni þegar ESB málið er frá – eins og það verður væntanlega næstu árin.

VG, Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa samanlagt 35 þingmenn, það telst vera þokkalegur meirihluti, en án þeirra tveggja væri þingmannatalan 33, það er tæpara.

Bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsókn virðast hafa sætt sig við að Katrín Jakobsdóttir verði forsætisráðherra. Það er ekki sjálfgefið. Hér áður fyrr hefði Sjálfstæðisflokkurinn aldrei sett sig undir stjórnmálamann úr röðum flokks sem er hallur undir sósíalisma. Þetta kann líka að verða umdeilt innan flokksins. Katrín, þessi vinsæli stjórnmálamaður, er í sérkennilegri stöðu. Hún hefur á rúmlega ári átt kost á að verða forsætisráðherra og forseti Íslands – og nú aftur forsætisráðherra. Lætur hún það sér úr greipum ganga?

Varla á hún annan möguleika en þann stjórnarmyndunarkost sem nú er kannaður. Stjórn fimm flokka, VG, Samfylkingar, Pírata, Flokks fólksins og Viðreisnar, með aðeis eins manns meirihluta virðist ansi fjarlægur möguleiki. Sumir láta sig dreyma um það – eða þá að Framsókn halli sér aftur á vinstri vænginn.

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is