Laugardagur 09.12.2017 - 09:47 - Ummæli ()

Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn – nú er hún Snorrabúð stekkur

Einu sinni var það reglan í Sjálfstæðisflokknum að ungir karlmenn úr Reykjavík, gjarnan menntaðir í Menntaskólanum í Reykjavík og í lagadeildinni í Háskólanum, uppfóstraðir í Heimdalli, yrðu borgarstjórar í Reykjavík. Það var svo áfangi á leið þeirra til að að komast alla leið í forsætisráðuneytið.

Svona var þetta með Bjarna Benediktsson, Geir Hallgrímsson, Gunnar Thoroddsen og Davíð Oddsson. Jón Þorláksson var reyndar fyrst forsætisráðherra, svo borgarstjóri í Reykjavík.

En nú er hún Snorrabúð stekkur. Sjálfstæðisflokkurinn er hvergi veikari en í Reykjavík – sínu gamla höfuðvígi. Og nú virðist flokkurinn ekki hafa önnur ráð varðandi borgina en að að sækja fólk út á land til að stilla upp í borgarstjórnarkosningum. Flokkurinn í Reykjavík virðist ekki skila nógu góðum efnivið og máski eru tækifærin sem felast í setu í borgarstjórn ekki svo heillandi lengur.

Fyrir síðustu kosningar var Halldór Halldórsson sóttur vestur á firði. Það gafst mátulega vel og nú er Halldór að hætta. Páll Magnússon hefur verið nefndur oftar en einu sinni, hann er Vestmananaeyingur sem býr í Garðabæ. En nú er oftast talað um Unni Brá Konráðsdóttur. Hún er dottin út af þingi eftir að hafa verið forseti Alþingis um stutt skeið,  var um hrið sveitarstjóri í Rangárþingi eystra og svo þingmaður Suðurlandskjördæmis.

Leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fer fram 27. janúar næstkomandi. Enn hefur ekki frést hverjir af borgarfulltrúm Sjálfstæðisflokksins sem nú sitja ætla að vera í kjöri. En þeir koma ekki vel út úr þessari umræðu.

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is