Þriðjudagur 09.01.2018 - 10:52 - Ummæli ()

Landspítalinn stækkar enn

Nú er tilkynnt að enn eigi að auka byggingamagn á Landspítalasvæðinu, við bætist svokölluð „randbyggð“ meðfram Hringbrautinni. Það er reyndar mjög æskilegt að byggt sé meðfram stofnbrautunum á höfuðborgarsvæðinu, auðu „helgunarsvæðin“ kringum þær og öll umferðarmannvirkin eru fáránlega stór.

En svona lítur svæðið út með nýjustu viðbótum, byggingamagnið eykst um 15 þúsund. Teikningin er frá ASK arkitektum og birtist með frétt í Morgunblaðinu í dag. Menn taki líka eftir því að á þessum bletti eru líka ráðgerð stór hótel, samgöngumiðstöð og fluglest.

Reyndar er það dálítið skondið að eins mikið og er búið að tala um nýjan Landspítala þá eru framkvæmdir eiginlega ekki hafnar. Það er bætt við byggingum á teikningum og skipulagi, en enn hefur ekkert risið nema eitt sjúkrahótel.

Einhver kynni að velta því fyrir sér hvernig umferðarmálum verður háttað þegar þessar miklu framkvæmdir verða að veruleika. Hraðbrautarspottinn í Vatnsmýrinni var reyndar hannaður miðað við nýja Landspítalann – hátæknisjúkrahúsið eins og það hét þá. En allt í kring eru þrengri götur og þegar mikið álag á þeim sumum.

Það er svo dagljóst að flugvöllurinn er ekki á leiðinni úr Vatnsmýri á sama tíma og spítalinn er svo rækilega festur í sessi þar. Það hefur verið svo í deilunum um flugvöllinn að sjúkraflugsrökin hafa trompað allt annað og svo verður áfram jafnframt því að spítalinn stækkar og heilbrigðisþjónustan verður miðstýrðari kringum hann. Þannig að það verður lítil byggð í 102 fyrir utan nokkur stórhýsi sem þar eru að rísa og smáíbúðaþyrpingar á jöðrunum. Þannig er það heldur fjarlægur draumur að starfsfólk hins mikla Landspítala búi í nágrenni við hann.

 

 

Hér er svo tölvumynd af því hvernig áformað er að Landspítalinn líti út. Eins og segir í greininni er sáralítið af þessu farið að rísa. Gamla Landspítalabyggingin er pínulítil þarna innan um ný stórhýsi. Í framhaldi af þessu má benda á nýja grein eftir Hilmar Þór Björnsson sem birtist hér á Eyjunni. Þar fjallar Hilmar meðal annars um Borgarlínu sem hann er hlynntur. Hins vegar bendir hann á að það gæti verið snjallræði að hafa spítalann við austurenda Borgarínunnar, semsagt á Keldum.

 

 

Hilmar segir í grein sinni:

Nýtt aðalskipulag, AR2010-2030 tók á útþennslunni og stuðlaði að nauðsynlegri þéttingu byggðar og lagði drög að nýrri Reykjavík sem var línuleg og vistvæn. Fólk og samgöngur var sett í fyrsta sæti, ekki einkabílar. Meginhugmynd sem kom fram í skipulaginu er hugmyndin um samgönguás eftir borginni endilangri. Þarna voru lögð drög að Borgarlínunni sem binda átti borgina saman frá Vesturbugt að Keldum. Þessi hugmynd um að byggja línulega borg opnaði mörg tækifæri sem vísuðu til hagkvæmari, skemmtilegri og vistvænni borg fyrir fólk. Það var einhver stór hugsun þarna sem miklar vonir eru bundnar við og ber að fagna.

Meðfram samgönguásnum myndaðist tækifæri til þess að skapa mjög þéttann og lifandi ás frá miðborginni og austur að Keldum, þróunarás. Iðandi af mannlífi og með háu þjónustu og almenningssamgöngustigi. Þarna meðfram línunni voru tækifæri til þess að auka nýbyggingaheimildir verulega.  Ég nefni meðfram Laugavegi frá Hlemmi, meðfram Suðurlandsbraut, í Skeifunni með 85.000 fermetra aukningu, Vogabyggð með 400 íbúðum og 40.000 m2 atvinnuhúsnæði, Ártúnsholti þar sem er alls 115 ha þróunarsvæði samkvæmt  AR2010-2030 og svo á hinu mikla Keldnalandi sem er líklega nálægt 90 ha eða 900.000 m2.  Bara Keldur og Ártúnsholt er  talsvert stærra svæði en Vatnsmýrin svo þetta sé sett í samhengi.

AR2010-2030 tók líka á staðarandanum og borgarvernd eins og skipulagsnefndin 1978-1982 gerði. Fjallað var um þetta í síðasta pistli.

Verst þótti mér að ekki var lagt til að byggja stærsta vinnustað landsins, Landspítalann við austurenda Borgarlínunnar og þróunarássins sem þungaviktarpól á móti miðborginni og stuðla þannig að stórum góðum farþegagrunni fyrir Borgarlinuna í báðar áttir. Þarna er möguleiki að tryggja rekstrargrundvöll austur/vesturlínu Borgarlínunnar.

Í Keldnalandi má líklega byggja 1-2 milljónir fermetra atvinnuhúsnæðis sem pól á móti Miðborginni með öllum sínum atvinnutækifærim. Þetta hefði getað orðið e.k. La Defense Reykjavíkur þar sem væri Þjóðarsjúkrahúsið og læknaháskólinn með öllum sínum stoðbyggingum við annan endann og miðborgin við hinn.  Svona landnotkun mundi tryggja rekstur Borgarlínunnar nánast frá fyrsta degi með vagnana fulla í báðar áttir kvölds og morgna. En það sem borgin þarf á að halda eru fleiri atvinnutækifæri austar í borginni og fleiri íbúðatækifæri vestar í borginni til þess að jafna álagið á samgöngukerfinu. Og sem mest ætti að byggjast meðfram Borgarlínunni.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is