Laugardagur 20.01.2018 - 20:28 - Ummæli ()

Áfram Gamla bíó!

Gamla bíó hefur verið samkomuhús síðan 1927 og hefur algjöran hefðarrétt umfram hótel sem var stofnað í næsta húsi fyrir fáum árum. Í 90 ár hafa verið bíósýningar, leiksýningar, óperusýningar og hljómleikar í Gamla bíói.

Væri algjörlega út í hött að stöðva það vegna ferðamannabólunnar. Þetta er ein glæsilegasta bygging Reykjavíkur og með einstaka sögu. Í frétt á RÚV er greint frá deilum vegna starfseminnar í Gamla bíói.

Hótel 101, þar sem er sífellt verið að kvarta undan Gamla bíói, er líka í merkri byggingu. En hún var ekki reist sem hótel þótt fjárfestar hafi síðan eignast húsið og notað það undir slíka starfsemi.

Þetta var sjálft Alþýðuhúsið – reist af Alþýðuflokknum og Alþýðusambandinu í kreppunni og tekið í notkun 1936. Í kjallaranum var veitingastaður sem nefndist Ingólfscafé (en síðar var rekinn þar skemmtistaður undir sama nafni). Um staðinn orti Leifur Haraldsson póstmaður vísu sem varð fleyg:

Ungu skáldin yrkja kvæði
án þess að geta það.
Í Ingólfskaffi ég er í fæði
án þess að éta það.

Verkafólk tók þátt í að reisa Alþýðuhúsið í sjálfboðavinnu og því er pínu öfugsnúið að þar skuli vera lúxushótel.

Gamla bíó hefur verið samkomuhús síðan á tíma þöglu myndanna. Fyrsta kvikmyndin sem var sýnd í húsinu var Ben Húr árið 1927.

 

 

Hér má í leiðinni geta meinlegra örlaga Rosenbergs sem lengi var einn helsti tónleikastaður í Reykjavík. Ævintýramenn eignuðust hann og settu á hausinn á fáum mánuðum – að því virðist í tómri vitleysu. Og það er þetta sem er að koma í staðinn, einmitt það sem vantar, eða hitt þó heldur. Írskur pöbb með karíókíherbergi.

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is