Sunnudagur 11.02.2018 - 12:52 - Ummæli ()

Appelsínugult viðbúnaðarstig, íslensku veðurorðin og vegvilltir túristar

Það er blásið út í fjölmiðlum að komið sé appelsínugult viðbúnaðarstig. Ég verð að viðurkenna að ég skil þetta ekki alveg, en var svo bent á að finna má á vef Veðurstofunnar yfirlit yfir viðbúnaðarstigin.

 

 

En mér finnst eins og sé í fyrsta sinn í vetur að maður heyrir almennt, og þá í fréttum, aðallega talað um veður sem viðbúnaðarstig. Slíkt getur sjálfsagt verið gagnlegt í einhverjum tilvikum, en þó má minna á hinn gríðarlega auðuga orðaforða sem íslenskan hefur yfir veður og öll blæbrigði þess.

 

 

Þetta eru ótrulega skemmtileg orð mörg sem leika í munni manns, nánast eins og skemmtiefni, enda er þarna varðveitt skynjun kynslóðanna í þessu landi. Myndin kemur úr fyrirlestri sem ég kann ekki að nefna.

Viðbúnaðarstigin eru sjálfsagt líka hugsuð fyrir ferðamenn, á ensku er talað um code orange.  En ég get þess að á leiðinni heim úr Silfrinu áðan hitti ég dálítið af útlendingum sem voru að draga á eftir sér ferðatöskur og á leið í bílaleigubíla, stefndu í flug í Keflavík. Þetta fólk virtist lítið vita um veðurhorfurnar, bílarnir smáir og vanbúnir, en það sem verra er, fólkið hafði ekki fengið tilkynningar frá flugfélögum. Ég fletti upp fyrir það á vefnum kefairport.is, og viti menn, það var búið að aflýsa flugi sem það var á leiðinni í – án þess að þessir ferðamenn hefðu verið látnir vita. Fólkið hafði svo ekki hugmynd um við hvern það gæti haft samband vegna ferða sinna.

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is