Fimmtudagur 15.02.2018 - 11:19 - Ummæli ()

Ef hefðu verið átta hryðjuverkaárásir á þessu ári…

Byssuárásin í Marjory Stoneman Douglas skólanum í Parkland í Florida var sú áttunda í röðinni á þessu ári. Það eru liðnir 45 dagar af árinu. Ég endurtek, sú áttunda á skóla. Börn og ungmenni í Bandaríkjunum þurfa að sæta því að fara á stöðugar æfingar þar sem er farið yfir viðbrögð við byssumönnum sem ráðast á nemendur – með það yfirleitt fyrir augunum að drepa sem flesta. Þeim er kennt hverju eigi að henda í ódæðismenn – til að reyna á síðustu stund að bjarga lífi sínu.

Ef hefðu verið átta hryðjuverkaárásir í Bandaríkjunum á þessu ári væri allt vitlaust. Stjórnkerfið væri gjörsamlega komið á hvolf. Líklega væri búið að skerða borgaraleg réttindi talsvert. Kannski væri byrjað stríð á erlendri grund. En viðbrögð bandarískra stjórnmálamanna við fjöldamorðum í skólum eru helst þau að fólk eigi að fara með bænirnar sínar.

 

 

Unglingurinn sem drap að minnsta kosti sautján samnemendur sína var vopnaður AR-15 hríðskotabyssu. Þetta er sama vopn og hefur verið notað í ýmsum skotárásum, í Sutherland Springs kirkjunni í Texas í nóvember og í Las Vegas mánuði fyrr. Í fyrrnefndu árásinni dóu 26, í þeirri síðarnefndu 58. Mikill fjöldi særðist eða örkumlaðist. Hvernig í ósköpunum getur unglingspiltur náð sér í svona vopn?

 

Frelsið til byssueignar í Bandaríkjunum finnst manni vera algjör fjarstæða. Þegar stjórnarskráin var samin voru byssurnar framhlaðningar. Nú er um að ræða vopn sem geta drepið tugi manna á örskotsstundu. Og það hlýtur að vera ömurlegt fyrir foreldra að geta ekki verið vissir um öryggi barna í skólum andspænis slíku brjálæði.

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is