Mánudagur 12.03.2018 - 19:21 - Ummæli ()

Hversu lengi ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að vera í fylkingu með Erdogan og Netanyahu?

Eftir því sem pópúlistum og öfgaöflum vex ásmegin í heiminum finnst manni æ skrítnara að ábyrgur stjórnmálaflokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn skuli eiga aðild að Acre, en það er skammstöfun fyrir bandalag íhalds- og umbótaflokka í Evrópu.

Stundin segir í dag frá fyrirhugaðri ráðstefnu Acre þar sem Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra verður einn ræðumanna – í nokkuð annarlegum félagsskap.

Skuggalegasta stjórnmálaaflið innan Acre er AK, flokkur Edogans Tyrklandsforseta. Hann stendur ekki bara fyrir stórfelldum fangelsunum á stjórnarandstæðingum og fjölmiðlafólki, heldur á nú í sérlega ógeðfelldu stríði gegn Kúrdum – einn af þeim sem hafa fallið í þeim hernaði er Íslendingurinn Haukur Hilmarsson.

Þarna er Laga- og réttarflokkurinn í Póllandi sem er að þrengja verulega að sjálfstæði dómstóla í landinu sem og frelsi fjölmiðla. Þarna er Likud flokkurinn í Ísrael, flokkur Netanyahus, sem er að baki stórfelldum ofsóknum gegn Palestínumönnum. Þarna er flokkur Sannra Finna, enn flokka frá Norðurlöndunum fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn. Þarna er Íhaldsflokkurinn breski, en þaðan virðist Sjálfstæðisflokkurinn yfirleitt þiggja leiðsögn,  og svo er annar flokkur sem er sérstaklega tengdur Acre, sjálfur Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum. Þar er Trump forseti sem virðist nú albúinn að hefja stórfelld viðskiptastríð, telur þau reyndar góð fyrir heimsbyggðina.

Það sem sameinar flesta þessa flokka er tortryggni gagnvart Evrópusambandinu eða jafnvel andúð á því. Það er fullkomlega lögmæt stjórnmálaskoðun. En hvernig ætli t.d. fulltrúum Erdogans gangi að tala um hvernig endurvekja megi „traust til stjórnvalda og lýðræðislega ábyrgð“ í Evrópu?

 

 

«
»

Ummæli ()

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is