Föstudagur 28.8.2015 - 12:36 - Ummæli ()

Hvað getur hreyft við okkur?

Evrópa horfir upp á versta flóttamannavanda sinn frá því í seinni heimsstyrjöld. Stríð og óstöðugleiki í Miðausturlöndum reka fólk af stað – og það bætist við flóttamannastrauminn sem hefur verið upp í gegnum Afríku og út á Miðjarðarhaf.

Við horfðum upp á gríðarlegan straum flóttamanna á tíma stríðs í gömlu Júgóslavíu, en nú er ástandið enn verra.

Stundum fáum við að sjá birtingarmyndir flóttamannavandans, eins og manninn sem selur penna með með dóttur sína í fanginu á götum Beirút. Þetta er Palestínumaður frá Sýrlandi – okkur þykir merkilegt að Íslendingur tók myndina.

En sjötíu manns sem kafna í vörubíl í Ungverjalandi hreyfa furðu lítið við okkur. Og heldur ekki tvö hundruð drukknaðir flóttamenn í Miðjarðarhafi sem gera þá meira en tvö þúsund og fimm hundruð á þessu ári.

Hið súra pólitíska ástand í Evrópu gerir illt verra. Mikið ósamlyndi ríkir innan álfunnar, gremja og beiskja. Kreppan 2008 og eftirmálar hennar hafa haft afar neikvæð áhrif á samskipti Evrópuríkja. Þjóðerniseinangrunarstefna fer vaxandi. Hreyfingar hægriöfgamanna eru hvarvetna í sókn. Í Ungverjalandi er beinlínis hægt að tala um framrás fasisma – og eins ótrúlegt og það kann að virðast mælast Svíþjóðardemókrataflokkurinn sem stærsta stjórnmálaaflið í heimalandi jafnaðarstefnunnar. Hið algjöra forystuleysi sem ríkir í Evrópusambandinu bætir ekki úr.

Það virðist heldur ekki mega koma upp almennilegum flóttamannabúðum í Evrópu, því er líkast að það myndi óhreinka álfuna með einhverjum hætti. Flóttamenn flæða frá Tyrklandi yfir til Grikklands – þar sem verður ekki ráðið við neitt – og áfram upp Balkanskaga uns hluti af bylgjunni brotnar á Ermasundsgöngum. Í Bretlandi er forsætisráðherra David Camerons sem um þetta notar orðalagið „migrant swarm“. „Swarm“ er orð sem oft er notað um skordýr. Sýnir hugarfar sem því miður er alltof algengt og fær hljómgrunn á samskiptamiðlum. Því má heldur ekki gleyma að Bretar, ásamt fleiri vestrænum ríkjum, áttu stóran þátt í að hleypa öllu í bál og brand í Sýrlandi og Írak.

 

ImageHandler-2

Myndin sem hefur vakið heimsathygli, flóttamaður frá Sýrlandi með sofandi dóttur sína reynir að afla sér viðurværis með því að selja penna á götum Beirút.

Föstudagur 28.8.2015 - 07:52 - Ummæli ()

Ógn, en kannski ekki sú allramesta

Ég deili áhyggjum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar af byggingum í miðborginni – og sérstaklega þeirri áráttu að nýta byggingarrétt út í ystu lóðamörk þannig að hús verða beinlínis ólöguleg og ljót en samræmi og fagurfræði er gefið langt nef. Maður veltir fyrir sér hvort ekki sé hægt að gera eins og í borgum þar sem eru sett fagurfræðileg viðmið fyrir byggingar. Víða þykir það sjálfsagt. Það er ekki hægt að láta byggingafélög og verktaka ein um að ákveða slíkt.

En það er samt ekki alveg nákvæmt hjá honum að miðborgin hafi aldrei staðið frammi fyrir meiri ógn.

Í bílabrautarskipulaginu mikla frá 1962 var beinlínis gert ráð fyrir að rífa nánast öll gömul hús í miðbænum, timburhúsin skyldu fara nema Menntaskólinn. Grjótaþorpið var allt dæmt til niðurrifs sem og Bernhöftstorfan. Þingholtin voru fjarska niðurnídd á þessum og Njálsgatan og Grettisgatan minntu á gamla fátækt.

Hér er mynd úr skipulaginu frá 1962. Svona hugsuðu menn sér að Aðalstræti og Ingólfstorg myndu líta út.

skipulag1962

Og ég man það á yngri árum að timburhús brunnu eins og kyndlar, ár hvert voru brunar, og svo voru önnur rifin – sum bara til þess að rífa – og enn önnur voru send í útlegð upp í Árbæjarsafni. (Þaðan sem ætti auðvitað að flytja þau aftur.) Þetta voru niðurlægingartímar miðbæjarbyggðarinnar.

Hér er skemmtileg ljósmynd sem sýnir hvernig Kvosin var fyrir þennan tíma. Þarna eru samkomuhúsin Báran og Gúttó ennþá á sínum stað og hús sem var flutt út í Litla-Skerjafjörð þegar Ráðhúsið var byggt. Myndin er greinilega tekin úr turni Slökkviliðsstöðvarinnar gömlu við Tjarnargötu, greinilega fyrir 1930 því Hótel borg er ekki risin. Það verður að segja eins og er að yfir bænum eins og hann birtist á þessari mynd er nokkur þokki og samræmi. Ekki finn ég hver höfundur ljósmyndarinnar er, gömlum ljósmyndum er póstað í gríð og erg á Facebook, því miður oft án upplýsinga sem þyrftu að fylgja með.

11882350_10207574669353295_8692334970993963304_o

 

Fimmtudagur 27.8.2015 - 19:06 - Ummæli ()

Einkabílarnir og byggingarlandið

Í gær ók ég um Kjalarnes í hávaðaroki. Kjalarnes er ljómandi fallegt þar sem það kúrir við Esjurætur, ein af Íslendingasögunum dregur nafn af því, en það verður að segjast eins og er Kjalarnes er afar vindasamur staður. Það var miklu hvassara á Kjalarnesi en annars staðar sem við ókum um á leið frá Akureyri.

Ég fór að hugleiða útþenslu byggðarinnar í Reykjavík. Kjalarnes telst nú vera partur af sjálfri Reykjavík, en það liggur innan höfuðborgarsvæðisins svokallaðs. Við höfum horft upp á óskaplega útþenslu þess á þessari öld, í bókinni Scarcity in Excess – The Built Environment and the Economic Crisis in Iceland má lesa að vöxturinn hafi verið um 25 prósent á árunum frá 2000-2008. Það er ótrúlega há tala – í sömu bók má lesa að lengd hraðbrauta hafi vaxið um 60 kílómetra en annarra gatna um 163 kílómetra.

Eitt af því sem í þessu felst er ótrúleg sóun á landi. Byggðin sem þarna varð til er mestanpart mjög dreifð og akstursleiðir langar. Og það er örugglega ekki hægt að segja að þarna hafi verið „þrengt að einkabílnum“ eða „fjölskyldubílnum“ eins og stundum er talað um. Þvert á móti, byggðin þróaðist í þá átt að enn erfiðara en áður er að komast um höfuðborgarsvæðið án þess að hafa bíl, svæðið sem strætisvagnar þurftu að komast yfir lengdist sem þessu nam.

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar ágæta grein í Kjarnann og birtir tölur um bílaumferðina. Þórunn skrifar:

Undanfarna áratugi hefur bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu aukist meira hlutfallslega en íbúafjöldinn. Höfuðborgarsvæðið hefur þanist út, nú búa miklu færri íbúar á hverjum hektara lands en fyrir 30 árum. Þrjár af hverjum fjórum ferðum sem farnar eru á svæðinu eru farnar á einkabíl. Hlutfallið er óvíða hærra en það, og þá skiptir engu máli hvort um er að ræða borgir í heitari löndum eða borgir á svipaðri breiddargráðu og við. Og fyrst farið er að ræða um staðsetningu þá er tómt mál að tala um að það sé svo kalt á Íslandi að við verðum bara að vera á bílum. Í öðrum norðlægum borgum af svipaðri stærð og höfuðborgarsvæðið er ganga fleiri, hjóla eða nota almenningssamgöngur. Reykjavík er með langhæsta hlutfall einkabílaferða.

Hvers vegna nefni ég Kjalarnes? Jú, það getur nefnilega svo farið ef við gáum ekki að okkur að byggingarlandið á höfuðborgarsvæðinu klárist. Þótt víðsýni sé í höfuðborginni er byggingarlandið ekki ótakmarkað. Við verðum bráðum komin í rokið á Kjalarnesi. Eins og Þórunn bendir á verður einfaldlega ekki til land fyrir höfuðborgarbúa framtíðarinnar:

Ef haldið yrði áfram á sömu braut myndi bílum fjölga um 45 þúsund, bílastæðum þyrfti að fjölga um 85 til 130 þúsund og 60 prósent af uppbyggingu húsnæðis yrði utan núverandi byggðamarka. Það myndi þýða aukna bílaumferð, lengri vegalengdir og það þyrfti að ráðast í miklar framkvæmdir til þess ná fram fullnægjandi afkastagetu. Fólk myndi almennt verja miklu meiri tíma í bíl og aka lengri vegalengdir til að komast leiðar sinnar en það gerir núna. Óskar einhver sér þess?

Screen-Shot-2015-08-25-at-13.55.26

Línurit um ferðamáta í norðlægum borgum sem Þórunn Elísabet Bogadóttir birtir í grein sinni í Kjarnanum. Línuritið er komið úr skýrslu Mannvits, Höfuðborgarsvæðið 2040 – mat á samgöngusviðsmyndum.

Fimmtudagur 27.8.2015 - 15:02 - Ummæli ()

Noregur og Kanada í niðursveiflu – snúa Íslendingar aftur heim?

Tvö ríki á Vesturlöndum stóðu betur af sér kreppuna 2008 en flest önnur, Noregur og Kanada. Bæði eru olíuríki, hafa sífellt orðið háð olíugróða – í Kanada er það svo að olíuiðnaðurinn hefur ráðið lögum og lofum um nokkurt skeið, Norðmenn þykja til fyrirmyndar um hvernig þeir hafa ávaxtað olíupeningana, sett í risastóran sjóð, sem þeir passa upp á að eyða ekki miklu af.

En nú er olíuverðið orðið svo lágt að bæði þessi ríki eru komin í vandræði. Efnahagur Kanada hefur skroppið saman tvo ársfjórðunga í röð og framtíðin þykir ekki björt – engin teikn eru um að olíuverðið hækki aftur í bráð. Kanada er líka mikill álframleiðandi, áliðinaðurinn í heiminum er í kreppu sem versnar líklega enn vegna ástandsins í Kína.

Í gær birtust tölur um aðatvinnuleysi í Noregi væri komið upp í 4,5 prósent og hefði ekki verið hærra í tíu ár. Norska krónan hefur fallið að meðaltali um 18 prósent gagnvart öðrum gjaldmiðlum og norski seðlabankinn hefur lækkað vexti tvívegis síðasta árið – og er búist við að vextirnir lækki enn í september. Tunna af Norðursjávarolíu kostaði 100 dollara um mitt ár 2014, en er nú á 43 dollara.

Maður spyr hvaða áhrif þetta hefur á fjölda Íslendinga sem vinna í Noregi. Það er að minnsta kosti ljóst að þeir fá minna fyrir norsku krónurnar sínar þegar þeir koma með þær til Íslands. Sumt fólk „pendlar“ á milli, vinnur í tímabundið í Noregi og kemur á milli til Íslands.

Á sama tíma er uppgangur á Íslandi. Ásgeir Jónsson hagfræðingur sagði í viðtali um daginn að líkur væru á að margir Íslendingar færu að snúa heim frá Noregi vegna niðursveiflunnar þar. Þá er líka hugsanlegt að verði minna fjör hjá Fylkisflokknum.

norway-oil-series-logo

Fimmtudagur 27.8.2015 - 11:03 - Ummæli ()

Réttmæt gagnrýni Sigmundar Davíðs

Það verður að segjast eins og er að margt er hæft í gagnrýni Sigmundar Davíðs Gunnlaussonar forsætisráðherra á þróun skipulagsmála í miðborginni í Reykjavík.

Hér á þessum vef hefur áður verið vakin athygli á stórkarlalegum áformum um byggingar á mótum Vonarstrætis og Lækjargögu – þar er byggt á því sem er árátta í samfélagi þar sem hver rúmsentimetri er mældur í peningum. Byggt stórt og frekjulega og út í ystu lóðarmörk. Fagurfræði og samræmi er látið lönd og leið.

images-19

Hin miklu byggingaráform við enda Tryggvagötu vekja líka ugg. Þarna er svæði sem vissulega má reisa hús á, en það er ekki sama hvernig það verður gert. Það er talað um skrifstofu- og verslunarhúsnæði (sem tæpast er mikill skortur á), en forstjóri Regins, fyrirtækisins sem ætlar að byggja þarna er heldur drjúgur með vöxt fyrirtækisins í stóru viðtali í Morgunblaðinu í dag.

Eftir því sem maður kemst næst á þetta að líta svona út:

Streetview---Austurhofn-R1&2-1

Því miður er eins og lóðareigendur og byggingaverktakar hafi sjálfdæmi um hvernig nýbyggingar í Miðbænum líta út. Arkitektar spila með, enda fá þeir borgað fyrir. Í arkitektastéttinni er að finna afar litla umræðu um byggingastíl og þróun skipulags, með afar virðingarverðum undantekningum eins og bloggi Hilmars Þórs Björnssonar á Eyjunni. Og borgarbúar vita mest lítið um þetta – það er í raun stóreinkennilegt að ekki sé hægt að setja viðmið um hvernig skuli byggja í gamla bænum svo stórspilli ekki borgarmyndinni. En gróðinn og græðgin gengur fyrir, eða eins og Sigmundur Davíð orðar það:

Því stærra sem húsið er, og því ódýrara, þeim mun meiri verður hagnaðurinn. Þess vegna eru kríaðir út eins margir fermetrar og mögulegt er og þar sem fæst leyfi fyrir nýbyggingum er iðulega öll lóðin grafin út og stundum jafnvel grafið undan garði nágrannans (eins og dæmi eru um). Svo er byggt alveg að lóðarmörkunum.

Reykjavík er að verða mikil ferðamannaborg og ferðamenn eru að uppgötva í borginni fegurð sem margir borgarbúar hafa kannski ekki tekið eftir sjálfir. Ég heyri ferðamenn á götum bæjarins tala um að þeim finnst Reykjavík skemmtileg og sjarmerandi. En það sem heillar er hin sérstæða lágreista byggð þessarar norðurborgar, ekki karkterlaus hús sem gætu staðið í hvaða skrifstofuhverfi sem er. Það þarf að hlú að gömlu byggðinni – og vanda afar vel það sem er byggt nýtt. Því miður virðist mikil vöntun á því.

Sjá: Að byggja eins og enginn sé morgundagurinn – þarf ekki að skoða þetta í heild?

Miðvikudagur 26.8.2015 - 09:25 - Ummæli ()

Umræða án stjórnenda

Ég les að háskólakennari á Akureyri nefnir mig og einhverja fleiri sem skuggastjórnendur umræðu á Íslandi. Þetta er sérkennileg kenning og býsna langsótt. Eins og staðan er fjölmiðlum og þó aðallega á samskiptamiðlum er ljóst að enginn stjórnar umræðunni. Mogginn gat það í eina tíð – altént fyrir ákveðinn hóp.

Þjóðfélagsumræðan núna er eins og fuglabjarg. Eitt sinn var útvarpsþáttur sem hét Þjóðarsálin og þar hringdi fólk inn og sagði meiningu sína. Nú geta allir sagt meiningu sína undireins og umbúðalaust. Þjóðarsálin er alltumlykjandi. Einhverju er skotið á loft og það fær kannski byr undir vængi eða er jafnóðum skotið niður af algjöru miskunnarleysi. Eftir smátíma, kannski bara nokkrar klukkustundir, verða allir leiðir.

Stjórnmálamenn verða illa fyrir barðinu á þessu. Svo mikil fyrirlitning ríkir á hefðbundnum stjórnmálamönnum að þeim er að sumu leyti vorkunn. Maður spyr hvenær fer eins fyrir Pírötum – ef þeir kæmust til valda væri þess ekki lengi að bíða.

Fólk er líka hætt að vera orðvart. Menn segja meiningu sína umbúðalaust á Facebook og í athugasemdakerfum. Kurteisi og hógværð er ekki í hávegum á þeim vettvangi. Að sumu leyti er það máski gott, flokkshollustan fer ört minnkandi en um leið hefur opnast veita fyrir ógeðfelldar skoðanir sem hafa legið í þagnargildi – þar sem er gert út á mannhatur og ofbeldi – líkt og þýska sjónvarpskonan Anja Reschke benti á í frægri ræðu nýskeð.

Þeim sem lesa blöð fer ört fækkandi. Fjölmiðlar sem áður mótuðu skoðanir eru bara partur af kliðnum. Hjá ungu fólki er nánast óþekkt að gerast áskrifandi að blaði. Ritstjórnir eru ekki nema svipur hjá sjón frá því sem áður var. Blaðamenn sitja við tölvur og pikka fréttir upp af Facebook. Fréttunum er síðan deilt á Facebook og það verður svo efni í aðrar fréttir. Þetta er furðulegur og stundum nokkuð afskræmislegur speglasalur. Það er gríðarlegt offramboð á skoðunum og túlkunum, skortur á áreiðanlegum upplýsingum.

Í svona umhverfi er mikið og flókið verk að stjórna umræðu og þarf stundum mikið til. Margir láta sér líka nægja að rugla umræðuna – það getur verið nóg. Við sjáum til dæmis hvernig farið er að í Rússlandi Pútíns. Þar hefur verið sett á laggirnar heil stofnun sem hefur það hlutverk að blanda sér í umræður á samskiptamiðlum, dreifa áróðri, þyrla upp ryki, rugla og blekkja.

Þriðjudagur 25.8.2015 - 23:19 - Ummæli ()

Sjötugur meistari laga og texta

Magnús Eiríksson er sjötugur í dag. Við hyllum einn frábærasta lagahöfund Íslands. Magnús kom með alveg nýjan tón inn í íslenska dægurmúsík með fyrstu plötum Mannakorns. Lögin voru grípandi og töff, og textarnir voru á góðri íslensku. Þeir voru blátt áfram, sögðu oft litlar og sniðugar sögur. Á plötunum voru hugljúf lög, ástarlög, dúndrandi rokklög, fyndin lög. Mín kynslóð hlustaði á þetta upp til agna.

Magnús stóð yfirleitt með gítarinn í bakgrunninum, var ekkert að trana sér fram að óþörfu, en hann var alltaf með frábærlega skemmtilegt band sem upphaflega var byggt upp á liðsmönnum úr sveitinni Pónik þar sem Magnús lék í eina tíð. Fremst voru söngvarar í heimsklassa, Vilhjálmur, Ellen og auðvitað Pálmi.

Ég held það hafi verið Guðmundur Andri Thorsson sem sagði að Magnús hefði komið með nýbylgju til Íslands fyrir tíma svokallaðrar nýbylgju sem gekk yfir tónlistarheiminn undir 1980.

Ég tala um Magnús í fortíð – það er auðvitað vitleysa, því hann er enn að bæta við sinn stóra og glæsilega katalóg. Til hamingju meistari.

Því miður er ekki að finna margar tónleikaupptökur með Mannakornum á netinu en hér er Gamli skólinn frá 1979. Þetta er það elsta sem ég finn og upptakan er því miður endaslepp. Pálmi syngur, Magnús er á gítar, og það er sveifla á bassanum hjá Jóni Kristni Cortes. Baldur Már Arngrímsson er á kassagítar, en Björn Björnsson leikur á trommur. Þetta eru þeir sem sjást í mynd.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is