Sunnudagur 7.2.2016 - 19:43 - Ummæli ()

Píratarnir og málin tvö

Maður reynir að koma auga á hvað það gæti verið sem myndi leiða til þess að Píratar missi fylgi.

Ein er sú að þeim mistakist illilega að raða upp á framboðslista. Að framboðslistarnir verði barasta mjög óálitlegir. Það gæti gerst. Píratar munu væntanlega reyna að hafa valið á framboðslista sem lýðræðislegast, þeir hafa verið varaðir við lukkuriddurum, kveruúlöntum og einsmálsfólki. Kannski tekst þeim að sneiða framhjá því. En listauppstillingin mun reyna á Píratana.

Ungt fólk virðist ætla að kjósa Pírata í stórum stíl, en líklegt er að fylgi þeirra sem eldri eru hverfi að einhverju leyti aftur á gamlar slóðir. Samfylkingin ætti að geta endurheimt eitthvað af fylginu nema hún sé alveg heillum horfin – og Framsókn er þekkt fyrir að sveifla sér upp í kosningum. Það eru gömul sannindi að ekki er alltaf mikið að marka skoðanakannanir á miðju kjörtímabili. En fylgisaukningin hefur verið stöðug í næstum ár.

Svo eru það stefnumálin – jú, og framkvæmd stefnunnar. Birgitta Jónsdóttir hefur verið ótrauð að lýsa því yfir að Píratar vilji að næsta kjörtímabil – þar sem þeir komast hugsanlega til valda – verði stutt. Á landsfundi Pírata í ágúst síðastliðnum var samþykkt að það myndi snúast um tvö mál: Stjórnarskrána í útgáfu stjórnlagaráðs og þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið. Svo var greint frá samþykktinni eftir fundinn:

Að næsta kjörtímabil verði stutt og þar á þinginu verði eingöngu til umfjöllunar tvö mál; stjórnarskrármálið og aðildarumsóknin að Evrópusambandinu. Og þingið gangi út á það að samþykkja að færa þjóðinni þetta hvort tveggja; annars vegar í þjóðaratkvæðagreiðslu hvað varðar Evrópusambandsmálið og hins vegar að samþykkja nýja stjórnarskrá, sem sagt ný stjórnskipunarlög byggð á tillögum stjórnlagaráðs. Við höldum að þetta sé aðalmálið hjá þjóðinni.

Birgitta ítrekaði þetta varðandi stjórnarskrána í viðtali í sjónvarpsþættinum Eyjunni í dag.

En nú er spurning hvort kjósendur kæra sig yfirleitt um að ganga til kosninga upp á þau býti að þetta verði aðalmálin – og að kosið verði fljótt aftur? Og þingmennirnir sem verða kosnir fyrir Pírata (þeir eru nú 3 en verða kannski 25), verða þeir til í að gefa sætin sín eftir jafnóðum aftur?

Það gæti líka reynst býsna erfitt fyrir Píratana að útskýra þetta í kosningaumræðum: Tvö mál, stjórnarskrá og Evrópa. Hvorugt virkar eins og það sé ofarlega á listanum yfir forgangsmál kjósenda, að minnsta kosti ekki eins og sakir standa. Þetta misserið virkar a.m.k. eins og heilbrigðis- og velferðarmál séu efst á baugi.

 

1200px-Píratar

Sunnudagur 7.2.2016 - 12:36 - Ummæli ()

Rubio lendir í vandræðum vegna innantómra frasa

Chris Christie, ríkisstjóri í New Jeresy, og Marco Rubio öldungadeildarþingmaður lentu í harðri hríð í kappræðum Repúblikana.

Talað barst að um reynsluleysi Rubios. Afrekaskrá hans er heldur rýr. En hann hefur náð flugi í kosningabaráttunni með því að reyna að móðga engan, hvorki þá sem eru yst til hægri í Repúblikanaflokknum né þá sem eru nær miðjunni.

En Cristie fór ansi illa með Rubio og vakti athygli á því að hann svaraði spurningum með tillærðum og innantómum frösum – sem eru komir af minnisblöðum frá aðstoðarmönnum.

Eins og Christie sagði, svona ræður leysa engin vandamál. Rubio svaraði með því að gagnrýna aðgerðaleysi Christies þegar frægur snjóbylur skall á New Jersey og skuldir sem ríkið hefur safnað á tíma hans.

En það var baulað á Rubio – í fyrsta sinn í kappræðum.

 

Föstudagur 5.2.2016 - 18:56 - Ummæli ()

Næsti forseti Bandaríkjanna – Marco Rubio? (Langt til hægri við George W. Bush)

Það sem er merkilegt við bandarísku forsetakosningarnar er hversu frambjóðendurnir eru lítt kjósanlegir. Þeir eru eiginlega hver öðrum veikari, bæði hjá Demókrötum og Repúblikönum.

Við vitum núorðið allt um Ted Cruz og Donald Trump. Þeir eru pópúlistar sem gera út á lægstu hvatir kjósenda. Trump er með eindæmum ófyrirleitinn og því miður elska fjölmiðlarnir að sýna hann – líka þeir sem eru mótfallnir honum – en um Cruz hefur verið sagt að enginn sem hafi kynnst honum kunni vel við hann.

Demókratamegin eru svo Hillary Clinton og Bernie Sanders. Sanders sækir að Clinton. Hann boðar eindregnari vinstri stefnu en sést yfirleitt í bandarískum stjórnmálum og hrífur marga með sér, sérstaklega ungt fólk. En líkurnar á að Sanders nái kjöri sem forseti eru litlar sem engar. Hægri pressan hamast á Clinton en lætur Sanders mestanpart í friði. En þegar þar að kemur getur hún hamrað á því að Sanders sé sósíalisti og 74 ára gamall – það mun nægja til að gera út af við framboð hans.

Hillary Clinton er líka mjög veikur kandídat. Hún kemur innan úr kerfinu, hefur verið forsetafrú og utanríkisráðherra, og þykir handgengin fjármagnsöflunum. Það er erfitt að verða innblásinn af Hillary og hún höfðar ekki sérstaklega til almennings. Og eins og áður segir gengur Fox News og hægri pressan mjög langt í að níða hana niður, það getur verið erfitt að verjast slíku. Kannski spilar líka inn í að hún er kona?

Eins og sakir standa gæti maður jafnvel farið að halda að sá sem er líklegastur til að ná kjöri sem næsti forseti sé repúblikaninn Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður frá Florída. Hann styrkti stöðu sína í forkosningum í Iowa þar sem hann var rétt á eftir Cruz og Trump. Hann er þóknanlegri innabúðarmönnum í Repúblikanaflokknum en þeir. Rubio er þó í raun lengst til hægri – hann virkar einungis hófsamur við hliðina á náungum eins og Cruz og Trump. Hann er sagður vera langt til hægri við George W. Bush.

Uppi eru nokkrar vangaveltur um að Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri, kunni að taka slaginn sem óháður frambjóðandi. Hann hefur sagt að hann muni kannski fara fram ef annað hvort Trump/Cruz eða Sanders vinna útnefningu flokka sinna. Bloomberg er íhaldssamur í fjárhagsefnum en frjálslyndur hvað varðar félagsleg mál. Hann er auðkýfingur og er sagður vera tilbúinn að eyða einum milljarði dollara í forsetakjör. Bloomberg var mjög farsæll borgarstjóri í New York en hefur ekki verið í stjórnmálum á landsvísu.

En óháður frambjóðandi hefur aldrei náð að sigra í forsetakosningum í Bandaríkjunum og margir telja að Bloomberg muni færa Repúblikönum kosningarnar á silfurfati ef hann býður sig fram.

 

images

Marco Rubio. Hann þykir nú langlíklegastur til að hljóta útnefningu Repúblikana sem forsetaefni. Og hann gæti sigrað Clinton eða Sanders.

Föstudagur 5.2.2016 - 12:39 - Ummæli ()

Þegar bankastjórar Landsbankans sögðu af sér

1998 sögðu þrír bankastjórar Landsbankans af sér vegna deilna um risnukostnað – það snerist aðallega um laxveiði sem löngum var uppspretta spillingar á Íslandi.

Við þetta tækifæri sagði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, í ræðu á Alþingi.

Ekki er deilt um það í þinginu að þessar afsagnir voru eins og mál voru komin algerlega nauðsynleg forsenda þess að skapa mætti traust og frið um bankann á nýjan leik.

Upphæðirnar sem þarna var um að ræða voru afar smáar miðað við það sem maður horfir upp á í Borgunarmálinu. Þetta mál verður eiginlega svæsnara með hverri frétt sem birtist af því.

Í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag segir að Borgun sé metin á allt að 26 milljarða. Vildarvinir sem fengu að kaupa 32,2 prósenta hlut í Borgun í nóvember 2014 fengu hann á 2,2 milljarða, en út frá virðismati KPMG sem Morgunblaðið greinir frá í fréttinni er hluturinn nú 6-8 milljarða króna virði.

Málið verður æ pínlegra, fyrir Landsbankann, bankastjórann, stjórn bankans, Bankasýsluna – já, og það verður að segjast eins og er, fyrir fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, það er óþægilegt fyrir hann að vera tengdur forréttindamönnum sem fengu að sitja að þessum feiki ábatasömu viðskiptum – nánast í skjóli nætur.

Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, krefst þess einfaldlega að peningunum verði skilað og hún vill líka óháða rannsókn Bankasýslunnar. Þar er stjórnarformaður einn af trúnaðarmönnum Bjarna Benediktssonar, Lárus H. Blöndal. Í fréttum hefur verið sagt frá því að Bankasýslan hafi „óskað eftir nánari upplýsingum um málið“.

En svo rifjast líka upp, eins og áður segir, fordæmi bankastjóranna þriggja sem sögðu af sér 13. apríl 1998.

 

moggi

 

Föstudagur 5.2.2016 - 08:52 - Ummæli ()

Þingmaður sem villtist?

Hinn ungi þingmaður Sjálfstæðisflokks, Vilhjálmur Árnason, hefur farið mikinn í fjölmiðlum undanfarið. Í viðtali við Viðskiptablaðið er þetta haft eftir honum.

Vilhjálmur segir uppgang Pírata vera ákall þjóðarinnar um að breyta kerfinu, sem sé eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf talað um.

Það er spurning hvort þingmaðurinn sé kannski í röngum flokki, hafi ef til vill villst?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn á Íslandi í u.þ.b. 57 ár af þeim árum sem íslenska lýðveldið hefur verið til, það eru að verða 71 ár. Ríkisstjórnir hafa semsagt verið án hans í sirka 14 ár.

 

Fimmtudagur 4.2.2016 - 11:56 - Ummæli ()

Kraftur samskiptamiðla til að skapa – og til að eyðileggja

Hinn þekkti dálkahöfundur Thomas L. Friedman skrifar í New York Times og spyr hvort samskiptamiðlar skapi eða brjóti niður. Þetta er afskaplega tímabær hugvekja. Friedman vísar í uppreisnir sem hafa orðið í ýmsum löndum, knúðar áfram af skilaboðum á Facebook og öðrum samskiptamiðlum. Þar er náttúrlega frægast hið svokallaða Arabíska vor. En þegar upp var staðið, tókst ekki í neinni af þessum uppreisnum að byggja upp nýja eða varanlega skipan stjórnmála, meðal annars vegna þess hversu margar raddir fóru að hljóma í einu og gerðu ómögulegt að skapa samstöðu.

Friedman byggir pistil sinn á orðum Waels Ghonim, ungs Egypta sem setti í loftið Facebook-síðu árið 2011. Hún var eitt upphafið að hinum miklu mótmælum á Tahrir-torgi sem urðu þess valdandi að Hosni Mubarak hrökklaðist frá völdum. En sú uppreisn fæddi ekki af sér neinn lýðræðislegan valkost, fyrst náðu íslamistar völdum í Egyptalandi, síðar herforingjar. Nú ríkir þar mikil ógnarstjórn.

Friedman vitnar í eftirfarandi orð Ghonims, sem nú er fluttur til Bandaríkjanna:

Ég sagði eitt sinn að maður þyrfti ekki annað en internetið til að frelsa samfélagið. Það var rangt hjá mér. Ég sagði þetta 2011 þegar Facebook-síða sem ég opnaði undir nafnleynd varð kveikjan að egypskri byltingu. Arabíska vorið sýndi hinn mikla áhrifamátt samskiptamiðla, en líka stærstu gallana við þá. Sama tækið og hjálpaði okkur að fella einræðisherra, sundraði okkur líka.

Friedman lýsir því í greininni hvernig Ghonim var handtekinn af lögreglu, barinn og látinn laus þegar fjöldamótmæli brutust út. Hann var þá með vinsælustu Facebook-síðu í arabaheiminum. Mubarak gafst loks upp og sagði af sér.

En að sögn Ghonims dvínaði gleðin fljótt. Samfélagsmiðlarnir mögnuðu upp klofning með því að auðvelda dreifingu alls kyns sögusagna, rangra upplýsinga og hatursáróðurs. Þetta hafi smátt og smátt orðið eitrað umhverfi.

Heimur minn á netinu varð eins og vígvöllur, fullur af hatri, lygum og tröllsskap.

Ghonim segist hafa verið í sjálfskipuðu þagnarbindindi í tvö ár eftir að uppreisnin sem hann átti svo mikinn þátt í að hefja endaði með ósköpum. Ósigurinn hafi lagst þungt á hann. Hann hefur þetta að segja um áhrif internetsins, í endursögn:

Í fyrsta lagið vitum við ekki hvernig við eigum að taka á sögusögnum. Sögusögnum sem staðfesta fyrirfram ákveðnar meiningar fólks er látlaust dreift og trúað af milljónum manna.

Í öðru lagi höfum við tilhneigingu til að eiga fyrst og fremst samskipti við fólk sem er á sömu skoðun og við. Á samskiptamiðlum getum við þaggað niðri í öllum öðrum, blokkerað það og útilokað.

Í þriðja lagi: Umræður á netinu geta mjög fljótt breyst í reiðan múg. Það er eins og við gleymum því fljótt að á netinu er raunverulegt fólk, ekki bara merki á skjá.

Í fjórða lagi er mjög erfitt að skipta um skoðun. Vegna þess hversu miðlarnir gera ráð fyrir hröðum og knöppum samskiptum, drögum við ályktanir og tjáum skoðanir okkar á flóknum málum í örfáum orðum. Og þegar við erum búin að því lifir það til eilífðarnóns á netinu.

Og í fimmta lagi: Á netinu erum við sífellt að hrópa upp, við básúnum viðhorf okkar. Þetta kemur í stað fyrir eiginlega samræðu, við setjum fram grunnfærnar athugasemdir í stað þess að eiga eiginlegt samtal. Það er líkt og við höfum ákeðið að tala yfir hausamótunum hvert á öðru í stað þess að tala saman.

Ghonim hefur þó ekki gefist upp á internetinu. Hann hefur opnað vef sem nefnist parlio.com sem er ætlað að vera vettvangur vitrænnar samræðu, hugmyndin er að færa fólk saman fremur en að sundra því, þótt málefnin kunni að vera erfið og eldfim.

Grein Thomas L. Friedman endar á þessum orðum:

Fyrir fimm árum, segir Ghonim, hélt ég því fram að maður þyrfti ekki annað en internetið til að frelsa samfélagið. Í dag trúi ég því að ef við viljum frelsa samfélagið, þá þurfum við fyrst að frelsa internetið.

 

Wael-Ghonim

Wael Ghonim á Tahrir torgi í Kaíró 2011. Hann segir að samskiptamiðlar hafi fylkt mótmælendum saman en sundrað þeim fljótt aftur.

Miðvikudagur 3.2.2016 - 17:27 - Ummæli ()

Mögnuð grein Árna um áfengisfrumvarpið

Sá merki maður, Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifar grein um áfengisfrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi í blað dagsins. Þetta er knappur og magnaður texti hjá Árna – og rökin sem hann setur fram eru afar sterk. Greinin gæti verið lengri og hægt væri að taka með rökin um að nauðsyn sé að vernda börn og unglinga fyrir áfengi eins lengi mögulegt er. Ef neysla hefst á annað borð er betra að hún hefjist eins seint og hugsanlegt er – enda ljóst að hluti ungmennanna verður alkóhólistar. Hjá því verður ekki komist, það er eðli áfengisneyslu – því hefur verið haldið fram að erfðafræðilegir þættir séu að verki.

En grein Árna talar sínu máli. Hann byrjar á að lýsa því hvernig var að alast upp á alkóhólísku heimili.

 

12697034_10207532426301053_4486477285003958365_o

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is