Fimmtudagur 21.8.2014 - 19:55 - Ummæli ()

Vesturfarar

Þættirnir byrja á sunnudagskvöldið  á Rúv, klukkan 20.30. Þeir eru tíu talsins. Spanna frá Íslandi til Kyrrahafsstrandar Kanada og Bandaríkjanna. Fyrsti þátturinn er nokkurs konar inngangur – fjallar um lífið á Íslandi á tímum vesturferðanna og ástæður þeirra.

 
vestr:egill

 

Fimmtudagur 21.8.2014 - 13:58 - Ummæli ()

Óþýðanleg orð

Í grein í Guardian er fjallað um orð sem eru óþýðanleg – en hafa mjög sérstaka merkingu.

Þarna er nefnt danska orðið hyggelig, portúgalska orðið saudade, tékkneska orðið litost, norska orðið utepils, þýska orðið Waldeinsamkeit.

Maður getur skilið þessi orð, vitað nokkurn veginn hver meiningin er – en þau eru óþýðanleg.

Við þetta má bæta þýska orðinu Wehmut og gríska orðinu φιλότιμο eða filotimo. Það er að sumu leyti lykillinn að grískri þjóðarsál.

Muna lesendur eftir öðrum svona orðum – kannski íslenskum?

 

Fimmtudagur 21.8.2014 - 10:53 - Ummæli ()

Menningin blómstrar í Reykjavík

Miðborgin í Reykjavík iðar af lífi – það er eitthvað annað en fásinnið sem var þegar ég var að komast til vits og ára. Þá voru sirka tvö kaffihús sem hægt var að sitja á, varla neinir matsölustaðir að heitið gæti, menningarviðburðir voru mjög stopulir og alltaf sama fólkið á þeim.

Í gær vorum við sonur minn að koma af lokatónleikum jazzhátíðar í Reykjavík sem stóð í heila viku í Hörpu. Þar kom fram fjöldi frábærra listamanna, íslenskra og erlendra.

Á Bernhöftstorfunni var útibíó, fjöldi fólks, ókeypis popp og góð stemming. Myndin var Jaws.

Á laugardaginn er menningarnótt með fjölda viðburða. Það er sérlega skemmtilegt að nú skuli lögð áhersla á að hafa fjölda atriða á hinni nýuppgerðu Hverfisgötu. Með auknum mannfjölda er svæði miðbæjarins nefnilega að þenjast út.

Þá má ekki gleyma sunnudagskvöldinu, en þá leikur Toronto Symphony Orchestra í Hörpu. Þetta er helsta sinfóníuhljómsveit Kanada – mér skilst að hún sé framúrskarandi góð. Harpa gefur möguleika á að slíkar stórhljómsveitir sæki Ísland heim – áður var það óhugsandi.

10620507_10152715732360439_3560326015113528627_n

Útibíó við Bernhöftstorfuna í gærkvöldi.

 

Fimmtudagur 21.8.2014 - 08:53 - Ummæli ()

Stórundarleg kenning

Maður á kannski ekki að elta ólar við þau skrif sem birtast í ritstjórnarpistlum Morgunblaðsins.

En blaðið er borið í hvert hús í dag – líka til þeirra sem ekki eru áskrifendur.

Þar má lesa, bæði í leiðara og Staksteinum þá speki að rétt sé og sjálfsagt að leka trúnaðarupplýsingum um fólk úr stjórnkerfinu og í fjölmiðla ef vinir þeirra og stuðningsmenn hafi efnt til mótmælastöðu eða ef einhverjir lögfræðingar séu að vinna í málum þess.

Má þá líka leka villandi eða röngum upplýsingum, fyrst þetta snýst um almenningsálit, eins og lesa má í Morgunblaðinu?

En vissulega gæti þetta orðið forvitnilegt þegar ráðuneyti og stofnanir ríkis og sveitarfélaga fara að reka alls kyns einkamál í fjölmiðlum – fyrir dómstóli götunnar. Gróur þessa lands myndu væntanlega hoppa af kæti.

1908057_10204679446129066_3396960987951760586_n

Miðvikudagur 20.8.2014 - 18:19 - Ummæli ()

Framboðið á flugi í vetur – mikið flogið til Bretlands en lítið til Þýskalands

Á hinum prýðilega ferðavef turisti.is má lesa hvaða flugfélög fljúga til og frá Íslandi næsta vetur.

Mesta athygli vekur náttúrlega Easy Jet sem flýgur á ýmsa staði á Bretlandi, en líka til Genfar og Basel – það er allt í einu auðvelt að komast milli Íslands og Sviss.

Hins vegar er furðulegt hversu lítið er flogið til Þýskalands yfir veturinn, sérstaklega ef miðað er við hið mikla framboð á flugi milli Íslands og Þýskalands á sumrin. Eina flugið til heimsborgarinnar Berlínar er Wow þrisvar í viku, Icelandair flýgur daglega til Frankfurt og nokkrum sinnum í viku til München.

Margir Bretar koma hingað í helgarferðir yfir veturinn og Íslendingar fara á fótboltaleiki á Englandi. Þó má segja að miklu hagkvæmara sé fyrir Íslendinga að fara til Þýskalands, því verðlag þar er lægra og á það við um mat, gistingu, samgöngur og fatnað.

Ekki er hægt að segja að samkeppnin sé ýkja mikil hérna á veturna, eða eins og segir á turisti.is:

Af þessum þrjátíu og tveimur flugleiðum sem í boði verða í vetur þá er aðeins samkeppni á fimm þeirra. Til Oslóar og London fljúga þrjú félög og Icelandair og WOW air fljúga daglega til Kaupmannahafnar. Þeir sem ætla í fótboltaferð til Manchester geta áfram valið á milli easyJet og Icelandair og ef ferðinni er heitið til Parísar þá fjúga bæði WOW air og Icelandair þangað.

Þriðjudagur 19.8.2014 - 20:40 - Ummæli ()

Hugleikur og huldufólkið

Hugleikur Dagsson nær að sameina fjölskyldu mína – okkur finnst öllum að hann sé ógeðslega fyndinn.

Um daginn sýndi ég forsíðu Grapevine þar sem er fjallað um huldufólk.

Inni í blaðinu eru myndir eftir Hugleik þar sem er lagt út af sama efni – reyndar ekki á svo ólíkan hátt.

Ég tek mér það bessaleyfi að birta eina myndina, í virðingarskyni við Hugleik og Grapevine. Fleiri má finna með því að smella hérna.

14738691819_63d363fa2c_h-1

Þriðjudagur 19.8.2014 - 18:02 - Ummæli ()

Sífelld grísaveisla

Fátt var vinsælla hjá landanum í eina tíð en spænsku grísaveislurnar.

Íslendingar þyrptust í sólarferðir til Spánar – hápunktur þeirra var þegar farið var með ferðamennina í þorp þar sem voru haldnar grísaveislur, það var gnægð af ókeypis víni og grísir grilluðust á teini.

Margir urðu veikir af ofáti og ofdrykkju, en þetta þótti svo skemmtilegt að farið var að halda grísaveislur hér heima. Þær urðu fastir liðir í vetrarstarfi ferðaskrifstofa eins og Útsýnar og Sunnu.

Spánarfarar komu saman og rifjuðu upp minningar úr ferðum sínum yfir víni og grísakjöti. Á þeim árum var það reyndar fremur af skornum skammti á Íslandi, þjóðin var eiginlega ekki byrjuð að borða svín.

En nú eru breyttir tímar og við getum haft spænska grísaveislu allt árið, alveg eins og okkur lystir, líkt og sjá má á þessari mynd sem er úr Kvennablaðinu.

screen-shot-2014-08-19-at-08-03-32-f-h--688x451

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is