Miðvikudagur 26.10.2016 - 19:44 - Ummæli ()

Hægri og vinstri vega salt

Skoðanakannanir eru ruglingslegar þessa dagana – og í raun ábyrgðarhluti að staðhæfa mikið út frá þeim. Það kemur skoðanakönnun að morgni og hún sýnir eitt, svo kemur skoðanakönnun um hádegið og hún sýnir annað.

Í fyrri skoðanakönnuninni sem birtist í dag er Sjálfstæðisflokkurinn nálægt kjörfylginu 2013 og þar er ríkisstjórn stjórnarandstöðuflokkanna vart möguleg, í þeirri síðari er Sjálfstæðisflokkurinn talsvert minni og ríkisstjórn Pírata, VG, Samfylkingar og BF möguleiki.

Þetta er allt frekar ruglandi en líkast til stefnir í það sem hefur legið í loftinu allt frá því farið var að ræða kosningar í haust, nefnilega að myndun ríkisstjórnar verður mjög erfið. Stjórnarkreppa gæti jafnvel verið í uppsiglingu. Ríkisstjórnin er kolfallin og nægir varla að fá Viðreisn til liðs við sig, ef svo ólíklega vildi til að hún kærði sig um það – slík stjórn myndi til dæmis hafa Sigmund Davíð Gunnlaugsson í liðinu og þurfa að stóla á að hann spilaði með.

„Umbótastjórnin“ svonefnd (Píratar, VG, Samfylking og BF) er varla inni í myndinni heldur. Nái þessir flokkar meirihluta verður hann svo naumur að slík stjórn yrði fjarska ótraust. Hún er varla á vetur setjandi ef meirihlutinn er ekki nema eitt þingsæti eða svo. „Villikettir“ síðasta kjörtímabils eru vinstri flokkunum í fersku minni – hver veit hvaða kettir kunna að leynast í þingliði sem er fullt af óreyndu fólki?

Varla hjálpar að Píratar árétta nú skilyrði um að næsta kjörtímabil verði stutt, semsagt að líftími næstu stjórnar verði „eitt og hálft ár eða tvö og hálft ár“ eins og Birgitta Jónsdóttir segir í viðtali við RÚV. Þetta er nokkuð sem hugsanlegir samstarfsflokkar Pírata hafa sáralítinn áhuga á og þeim finnst ekki þægilegt að Píratar tali um þetta sem „skilyrði“ fyrir stjórnarsamstarfi.

Eins og árar í stjórnmálum þar sem ríkisstjórnir eru fljótar að verða fjarskalega óvinsælar – ekki bara á Íslandi heldur víðar í veröldinni – getur þetta virkað eins og ávísun á ótímabært valdaafsal. Það eru eiginlega meiri líkur á því en minni að eftir stutt kjörtímabil komist „hinir“ að.

Eftir að stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir fóru að ráða ráðum sínum um stjórnarmyndun er ekki óeðlilegt að líta svo á að hér vegi salt hægri og vinstri vængur. Annars vegar Píratar, VG, Samfylking og BF sem fara þá saman í stjórn ef þeir geta, hins vegar Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Viðreisn. Annar hvor vængurinn verður með meirihluta eftir kosningarnar á laugardaginn, en hann verður væntanlega mjög naumur.

Þetta gæti verið ávísun á að langan tíma taki að mynda ríkisstjórn eða jafnvel stjórnarkreppu. Guðni forseti gæti þurft að grípa í taumanna. Og einhvern tíma í ferlinu gætu farið að koma í ljós ríkisstjórnarmynstur sem ekki blasa við í kortunum núna og sem flokksforingjar jafnvel þverneita að komi til greina.

Annars gæti hreinlega stefnt í að kosið verði aftur á næsta ári.

Miðvikudagur 26.10.2016 - 11:15 - Ummæli ()

Hinar ofurvinsælu bækur Jeffs Kinney

Meðal gesta í Kiljunni í kvöld er mjög athyglisverður höfundur, einn mesti metsöluhöfundur sem nú er uppi. Hann heitir Jeff Kinney, er Bandaríkjamaður, bæði rithöfundur og skopmyndateiknari, en hermt er að bækur hans hafi selst í 165 milljónum eintaka – og sú tala fer ört hækkandi.

Bókaflokkur Kinneys heitir Diary of a Wimpy Kid, það kemur ný bók um hver jól og hún fer undantekningalaust í efsta sæti metsölulista í Bandaríkjunum. Hér á Íslandi hafa bækurnar verið að koma út undir heitinu Dagbók Kidda klaufa. Þetta eru hugsanlega vinsælustu barnabækur heims síðan á tíma Harrys Potter.

Afrek Kinneys er ekki síst að fá börn til að lesa sem almennt hneigjast kannski ekki sérstaklega til lestrar. Bækurnar hans eru með stóru letri, þær eru með skemmtilegum myndum, hann segir sjálfur að þær byggi á bröndurum sem hann tengir saman, þeir þurfa að vera meira en þrjú hundruð talsins til að bókin gangi upp að hans sögn.

Húmorinn er hlýlegur, söguhetjurnar Greg Heffley og vinur hans Rowley, eru venjulegir strákar, kannski frekar nördar en hitt. Uppátæki þeirra heppnast ekki alltaf. Það kemur ekki á óvart að Kinney sjálfur er afar viðkunnanlegur maður eins og sjá má í viðtalinu í Kiljunni.

Það gengur á með ýmiss konar lestrarátökum. Sífellt er verið að segja börnum að þau þurfi að lesa meira og foreldrum er uppálagt að halda að þeim bókum. En þá er líka spurning um lesefni – að finna bækur sem börnin vilja lesa og færa þeim heim sanninn um að lestur sé ánægjulegur. Stundum má jafnvel tala meira um bækurnar sjálfar og minna um gildi lestrar sem slíks.

Bækur Jeffs Kinney eru sérlega gagnlegar í þessu sambandi. Víða um heim á ferðalögum hef ég séð börn niðursokkin í þær. Kvikmyndir hafa reyndar líka verið gerðar eftir þeim.

Ég læt þess svo getið að Diary of a Wimpy Kid bækurnar hafa verið í miklu uppáhaldi hjá Kára syni mínum sem hefur fengið þær í jólagjöf síðan hann var lítill strákur og ávallt gleypt þær í sig á jólanótt – svo er líka um mörg börn í Ameríku.
url

 

Miðvikudagur 26.10.2016 - 08:45 - Ummæli ()

Fer þessu ekki að ljúka?

Því verður varla lýst með orðum hvað kosningar í Bandaríkjunum eru orðnar óskemmtilegar. Þeim mun gífuryrtari sem frambjóðendur eru, þeim mun meiri líkur eru á að þeir fái athygli. Það er skelfing að fylgjast með því hvernig fjölmiðlar lepja upp hroðann og dreifa honum af áfergju. Hugsjónir blaðamennsku um gagnrýna hugsun og sjálfstæða dómgreind fá að fjúka út í veður og vind.

Það er tillhlökkunarefni að forsetaskrípaleiknum í Bandaríkjunum lýkur eftir tíu daga. Maður er búinn að fá yfirdrifið nóg af þessu og langar ekki að sjá meira. En kemst varla hjá því. Þetta er eins og íþróttakappleikur sem hefði átt að vera löngu búið að flauta af.

Svo er vitað að þetta byrjar fljótt aftur. Forsetakjör í Bandaríkjunum tekur svo langan tíma núorðið að maður trúir því varla að nokkur tími sé til að stjórna landinu. Innan fárra missera verða menn farnir að mæna á næstu kosningar.  Þetta er ótrúlega langdregið, leiðinlegt – og skaðlegt – ferli, skrípamynd lýðræðis.

Fjölmiðlarnir munu heldur ekki hafa lært neitt, þótt einhverja iðrun megi kannski finna nú þegar hillir undir kjördag. Það verður áfram sama áherslan á áhorfstölur, hvað sem það kostar, sami smelludólgahátturinn, og víst að það fyrsta sem sekkur með þessu er heilbrigð og gagnrýnin þjóðfélagsumræða.

 

screen-shot-2016-10-25-at-23-57-14

 

Þriðjudagur 25.10.2016 - 20:32 - Ummæli ()

Skilti og lukt

Ég setti þessa mynd hér á vefinn fyrir nokkru, hún sýnir lækinn í Reykjavík, sem Lækjargata heitir eftir, séðan með myndavél Daniels Bruun frá því kringum aldamótin 1900.

Maður veltir fyrir sér sögu konunnar sem gengur þarna út á brúnna, á leið upp Bakarabrekkuna, barnsins sem er á undan henni og grípur í handriðið, en svo fór ég að skoða skiltið sem er þarna, ég sé ekki hvað á því stendur, og lugtina sem er falleg í sjálfri sér, en hefur brotnað þannig að eftir er bara grindin sem hefur verið utan um ljóskerið.

Það verður að segjast eins og er að flest á myndinni er frekar hrörlegt. Og ef luktarinnar hefur ekki notið við hefur sjálfsagt verið mjög dimmt þarna að kvöldlagi.

 

screen-shot-2016-10-13-at-08-34-06-1024x739

 

Svo sá ég þessa mynd á vefnum Gamlar ljósmyndir. Hún er miklu skýrari, þarna sér maður bæinn betur, flestöll húsin á myndinni eru horfin, en þau tvö fremstu til vinstri hafa verið endurbyggð. Svo glittir í Pósthússtræti 3 lengst til hægri, en það hús sem var byggt sem barnaskóli 1882 en var svo pósthús, síðan lögreglustöð, svo aftur pósthús, en hýsir nú starfsemi Hins hússins.

Þetta er Lækjartorg, þar er garður með girðingu, skólprenna er meðfram götunni hægra megin. Byggðin er fremur lágreist. Steinhúsið fyrir miðri mynd er bygging Landsbankans sem var reist skömmu fyrir aldamótin 1900, en hún brann í brunanum mikla 1915.

En það eru skiltið og luktin sem ég rak augun í. Þarna er nefnilega skiltið sem sést á fyrri myndinni og verður að segja að það er ekkert sérlega tignarlegt, þetta er spýta sem er negld á bjálka, en það væri gaman að vita hvað stendur á því. Svo er þarna sama luktin, nema þarna er hún heil, með gleri og öllu, og hefur væntanlega getað lýst þeim sem áttu leið yfir lækinn.

 

14680647_10209062379451242_3648949291626691444_n

Þriðjudagur 25.10.2016 - 11:27 - Ummæli ()

Syrtir í álinn hjá Sjálfstæðisflokknum

Maður hefur heyrt þá kenningu að Sjálfstæðisflokkurinn muni aðeins rétta úr kútnum í kosningunum miðað við síðustu skoðanakannanir en Píratar dala. Þetta er fyrst og fremst byggt á því að kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu líklegri til að skila sér á kjörstað en þeir sem geta hugsað sér að kjósa Pírata. Má vera að þarna verði einhverjar tilfæringar á prósentum.

En útlitið er að sönnu ekki gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Staða hans er veikari en virtist þegar var fyrst farið að ræða haustkosningar. Í síðustu skoðanakönnun sem birtist, frá Félagsvísindastofnun 21. október, var flokkurinn með 21,1 prósents fylgi. Hann er á svipuðu róli í fimm síðustu skoðanakönnunum, þó með 23,7 prósent hjá Fréttablaðinu 19. október. Það er sama og kjörfylgið var 2009, eftir hrun, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk verstu kosningu í sögu sinni.

Það er líka eins og vanti baráttuandann. Flokkurinn hefur í nánd við sig sveit manna sem er í óða önn að dreifa neikvæðum áróðri; þetta er hópur sem kann þá íþrótt upp á hár, en sumstaðar er gengið svo langt að áhrifin gætu verið öfug, það talar altént bara til þeirra sem eru sannfærðir fyrir.

Bjarni Benediktsson byrjaði kosningabaráttuna ágætlega, en síðan hefur hann farið að virka pirraður, líkt og hann skilji ekki að þetta gangi ekki betur hja sér. Að sumu leyti erum við náttúrlega að fara gegn því sem var viðtekið i kosningum, það er ágætt ástand í efnahagsmálum – eitt sinn hefði það skilað sér til ríkisstjórnar í kosningum. Í eina tíð hefði Sjálfstæðisflokkurinn verið með þriðjungsfylgi eða jafnvel meira í svona árferði.

En ástæðurnar fyrir hinu laka fylgi liggja dýpra og flokkurin hefur í raun aldrei endurheimt fylgið sem þó var farið að safnast aftur til hans á tíma ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur en hvarf svo snögglega yfir til Framsóknar á tíma Icesave-dómsins og skuldaleiðréttingarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn geldur líka fyrir hvað hann á fáa öfluga málsvara núorðið, maður hefur í raun ekki séð annað eins ástand í þeim efnum. Varaformaðurinn, Ólöf Nordal, er frá vegna veikinda en fyrir aftan þau Bjarna er bekkurinn frekar þunnskipaður. Illugi Gunnarsson er á braut sem og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þau lentu bæði í erfiðum málum en voru feikisterk í stjórnmálaumræðum þegar þeirra naut við. Hinn frjálslyndi, alþjóðasinnaði armur flokksins er að miklu leyti kominn yfir í Viðreisn en þjóðlegir íhaldsmenn hafa styrkt tökin verulega. Skírskotun flokksins er þrengri en áður.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 26,7 prósent í kosningunum 2013, nái hann svipuðu fylgi má kynna það sem varnarsigur. Miðað við sögu flokksins er það samt ekki góð útkoma, í sögulegu ljósi ætti hann að vera að bæta við sig. En verði flokkurinn á þeim slóðum sem skoðanakannanir benda til er það mjög slæm er það mjög slæm útkoma og hlýtur að kalla á einhvers konar uppgjör innan hans.

Þarna vakna spurningar um forystumálin. Mun Bjarni kæra sig um að sitja áfram sem formaður ef kosningaúrslitin verða svona óhagstæð og flokkurinn kemst ekki í ríkisstjórn? Það er náttúrlega mögulegt að ný ríkisstjórn endist ekki lengi, en Sjálfstæðisflokksins gætu líka beðið fjögur ár í stjórnarandstöðu þangað til að hann fær næst tækifæri. Það á varla vel við Bjarna sem hefur notið sín vel í fjármálaráðuneytinu.

Bjarni gæti þá staðið frammi fyrir því að vera fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur aldrei orðið forsætisráðherra, á tíma þegar gætu liðið heil tólf ár án þess að Sjálfstæðisflokkurinn kæmist í forsætisráðuneytið. Það er met í stjórnmálasögunni.

En arftakar eru ekki á hverju strái, það vantar einfaldlega „þungaviktina“ sem eitt sinn var að finna í Sjálfstæðisflokknum. Miðað við stöðuna nú eru það Guðlaugur Þór Þórðarson og Kristján Þór Júlíusson sem eru líklegustu formannsefnin ef Bjarni teldi að þetta væri orðið gott hjá sér.

 

 

Mánudagur 24.10.2016 - 21:37 - Ummæli ()

Fjórum dögum fyrir kosningar

screen-shot-2016-10-24-at-21-31-03Í Guardian er sagt frá því að Ísland sé besti staður í heimi fyrir konur. Það er tilkynnt að sýndur verði sjónvarpsþáttur um þetta á ITV sjónvarpsstöðinni á þriðjudagskvöld. Á vef Business Insider má fræðast um að á Íslandi séu næstmest lífsgæði í veröldinni, á eftir Noregi.

Bloomberg segir frá því að erlendir fjárfestar kunni að hafa varann á gagnvart Íslandi og jafnvel láta sig hverfa héðan ef verða stjórnarskipti sem gætu getið af sér „eitraða blöndu róttækni og pólitísks óróa“. Spákaupmenn munu semsagt hugsa sig um tvisvar.

En það er ekkert sem getur bjargað ríkisstjórninni. Hún er ekki að ná í gegn með málflutning sinn – og síðustu dagana hefur þetta dálítið mikið verið að snúast upp í hræðsluáróður eins og sjá má á þessari síðu sem ber yfirskriftina Kosningar 2016 . Þar sem birtast myndir eins og þessi hér að neðan.

Ætli svona bullugangur virki?

 

14700773_1338810159471228_2159242516232949448_o

Mánudagur 24.10.2016 - 12:19 - Ummæli ()

Klukkan 14.38

Konur ætla að leggja niður vinnu í dag klukkan 14.38 til að mótmæla launamun kynjana. Það er 24. október, 41 ár frá kvennafrídeginum mikla 1975.

Reyndar voru deilur dagana áður um hvort þetta væri kvennafrí eða kvennaverkfall. En það einhvern veginn skipti ekki máli þegar á hólminn var komið, samstaðan og einurðin sem birtist á útifundinum þann dag var einstök. Það þurfti þetta til að ná saman konum sem voru róttækar og þeim sem voru meira hægfara, en milli þeirra var talsverð gjá á þessum árum.

Þegar maður hugsar aftur er þetta einn af stórum sögulegum atburðum á Íslandi á 20. öld. Dagur af því tagi að það muna hérumbil allir hvar þeir voru.

Sjálfur var ég piltur í 3. bekk í MR. Maður fagnaði því náttúrlega að kennsla félli niður, mig minnir að það hafi verið danska hjá Ólöfu Ben. Ég fór út á skólalóðina, þar sem er útsýni yfir bæinn,  og sá að  fólk var farið að safnast saman á Lækjartorgi. Auðvitað mestanpart konur, en það voru líka karlar innanum. Þá skynjaði ég að eitthvað stórt var að gerast. Svo óx fjöldinn og þetta varð mannhaf. Annar eins fundur hefur ekki verið haldinn á Íslandi.

Ég var þarna einhvers staðar í mannfjöldanum og heyrði  flest sem fór fram á fundinum. Ræða Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur er ógleymanleg, hún talaði með sinni rámu og lífsreyndu rödd beint inn í hjarta þeirra sem hlýddu. Þessi baráttukona varð þjóðhetja á samri stund.

En þetta hafði líka sínar óvæntu hliðar. Ég fór í Vesturbæjarlaugina síðdegis. Þar voru þá engar konur, enda búnings- og sturtuklefar kvenna lokaðir. Karlar í hópi fastagesta völsuðu um naktir og fundu frekar til sín. Var reyndar hálf fáránlegt.

Okkur hefur miðað áfram síðan þá varðandi jafnrétti kynjanna. En það er ennþá talsvert í land og þar speglast öfugsnúið gildismat í samfélaginu. Það er alltaf jafn óþolandi að „kvennastörf“ skuli vera svo hraksmánarlega illa launuð – meðan „karlastörf“ sem eru síst merkilegri gefa vel í aðra hönd.

 

Kvennafrídagurinn 24. október 1975. Fjöldafundur á Lækjartorgi.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is