Laugardagur 23.5.2015 - 20:11 - Ummæli ()

Leikstjórinn Grímur – íslenskar myndir um búfé njóta velgengni

Fjarskalega þykir mér vænt um að sjá kvikmyndina Hrúta vinna stór verðlaun í Cannes. Un Certain Regard flokkurinn er mjög virtur – íslenskt kvikmynd hefur ekki komist svona langt síðan Börn náttúrunnar var tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Þessi verðlaun tryggja að myndin verður sýnd út um allan heim.

Ég hef ekki séð Hrúta, en ég hef lengi fylgst með leikstjóranum og handritshöfundinum, Grími Hákonarsyni, og skynjað að hann hefur mjög sérstakan tón. Hann gerði frábæra stuttmynd sem kallast Bræðrabylta og fjallar um glímumenn í sveit sem uppgötva að þeir eru samkynhneigðir.

 

 

Nú er Grímur aftur kominn út í sveit með Hrútana og ég get varla staðist mátið að ættfæra hann. Hann kemur af miklu landbúnaðarkyni. Faðir hans, Hákon Sigurgrímsson, starfaði innan bændahreyfingarinnar um langt árabil en móðir hans, Unnur Stefánsdóttir, var mikil ungmennafélagskona, íþróttagarpur og formaður Landsambands Framsóknarkvenna. Afi hans var bóndinn Stefán Jasonarson í Vorsabæ, sem líka var þekktur íþróttamaður og félagsmálafrömuður.

Þetta væri kannski ekki í frásögur færandi, nema vegna þess að Grímur er að fjalla um bændur í verðlaunamyndinni. Hún segir frá bræðrum sem búa í afdal og hafa ekki talað saman í fjörutíu ár, en þurfa að leggjast á eitt til að bjarga fjárstofni sínum. Sjálfur er Grímur alinn upp í Kópavogi.

 

Það má svo benda á að síðasta íslenska kvikmynd sem náði frama á alþjóðavettvangi fjallaði líka um búfé – nefnilega Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson. Svona er nú landbúnaðurinn gjöfull þegar allt kemur til alls.

Laugardagur 23.5.2015 - 11:52 - Ummæli ()

Rof milli raunveruleika og skynjunar?

Sigmundur Davíð tekur doktor Altúngu á þjóðfélagsástandið í viðtali hér á Eyjunni í dag í tilefni af því að tvö ár eru liðin frá því að ríkisstjórn hans tók við.

Við lifum í hinum besta heimi allra heima, en við sjáum það ekki.

Fólk er óánægt og vansælt, en ætti að vera bjartsýnt og jákvætt, að mati forsætisráðherrans.

„Drengir, sjáið þið ekki veisluna!?“ var eitt sinn sagt.

Sífellt minnkandi traust í skoðanakönnunum þrátt fyrir góðan árangur í efnahagsmálum kann að skýrast að einhverju leyti á rofi milli raunveruleika og skynjunar.

Sigmundur hefur átt ansi erfiðan feril sem forsætisráðherra. Hann virkar oft uppstökkur og reiður, svarar út í hött, og þegar eitthvað bjátar á kennir hann umræðunni um.

En það getur náttúrlega ekki verið nema lítill hluti af skýringunni þegar fylgi ríkisstjórnar og stjórnarflokka er hrunið og traust á ráðamönnum nálgast núllið.

Ísland er ekki ónýtt, eins og maður heyrir stundum sagt. Svoleiðis tal er hrein vitleysa. En það er ekki þar með sagt að óánægjan sem hvarvetna gætir sé tómur misskilningur eða stafi af einhverju sem Sigmundur kallar „stimplunarstjórnmál“.

Sigmundur Davíð og Bjarni eiga tvö ár eftir í ríkisstjórn, þeir hafa enn tíma til að sanna sig sem leiðtoga. En upplausnin sem nú ríkir í stjórnmálunum er óþolandi. Manni dettur jafnvel í hug að þingheimur þurfi allur að fara í hugræna atferlismeðferð til að læra að nálgast mál af stillingu, yfirvegun og hugsanlega auðmýkt, líkt og Tryggvi Gíslason, fyrrverandi rektor MA, leggur til.

 

optimist

Smá útlegging á kenningum dr. Altúngu. Bjartsýnismaðurinn telur að við lifum í hinum besta allra heima, svartsýnismaðurinn óttast að þetta sé satt.

Föstudagur 22.5.2015 - 20:14 - Ummæli ()

Moskuna til Íslands

Telji menn að moska Svisslendingsins Christops Büchel sé einhvers virði sem listaverk er einsýnt hvað verður að gera fyrst nú er búið að loka því í Feneyjum.

Útvega kirkju á Íslandi og setja verkið þangað inn.

Föstudagur 22.5.2015 - 16:10 - Ummæli ()

Fíflar í túni, lykt af ösp

Er þetta ekki fyrsti raunverulegi vordagurinn?

Litlu verður Vöggur feginn – hitinn fer loks yfir tíu stig í dag.

Mér brá þegar ég kom heim frá Bandaríkjunum í fyrradag og sá að það var eiginlega ekkert farið að grænka.

En í dag sér maður nánast gróðurinn spretta. Fíflar springa út í túni og þetta er í fyrsta sinn í vor að ég finn sæta lykt af gróandi ösp.

Mér finnst hún góð.

En þetta er skammgóður vermir. Norska spáin segir að hitinn eigi aftur að fara vel undir tíu stig og haldast þannig fram að mánaðarmótum – eða eins langt og spáin nær.

 

dandelions-feat

Föstudagur 22.5.2015 - 14:06 - Ummæli ()

Almenningur fær að standa með krónunni

Orð dagsins eru eftir Úlfar Hauksson, stjórnmálafræðing og sjómann, hann birtir þau á Facebook. Þarna má lesa nokkur aðalatriði varðandi kjarasamninga:

Í ljósi þess að ekkert miðar í kjaraviðræðum, og í framhaldi og til upprifjunar á þessari ágætu grein sem birtist í Akureyri vikublaði fyrir um tveimur vikum, langar mig til að spyrja ykkur ágætu lesendur hvort ykkur þyki eðlilegt og sjálfsagt að hluti þjóðarinnar, þar á meðal öll helstu, útflutningsfyrirtæki, hafi tekjur í evrum, haldi bókhald sitt í evrum, fái lán í evrum, að sjálfsögðu óverðtryggð og á evru vöxtum, og búi við almennan gjaldeyrisstöðugleika á meðan almennt launafólk berst um í óglusjó krónuhagkerfisins? „Stendur með krónunni“ eins og sagt er og borgar herkostnaðinn af þessari sturluðu krónuherför og berst nú fyrir innihaldslausum kjarabótum sem munu fuðra upp jafn harðan og samningar nást eða lög verða sett. Er þetta bara eðlilegt? Væri ekki nær að berjast fyrir afturköllun á þessari krónuherför hinna fordæmdu og stefna að því að taka upp gjaldmiðil sem gæti veitt öllum kjarabætur og stöðugleika? Er eðlilegt að þeir sem tala á stundum um mikilvægi þess að halda herferðinni áfram, með tilheyrandi fórnum, séu fyrir löngu búnir að draga sig frá víglínunni og í öruggt virkisskjól en etja fordæmdum almenningi á forað einskinsmannslands þar sem enginn á afturkvæmt? Er ekki kominn tími til að láta af fórnum kynslóða Íslendinga í vonlausri krónuherför? Svari hver fyrir sig?

 

651281

Föstudagur 22.5.2015 - 10:46 - Ummæli ()

Þjóðareign að komast yfir 35 þúsunda markið – Bjarni boðar stjórnarskrárbreytingar

Þegar þetta er skrifað vantar aðeins 71 nafn til að undirskriftasöfnunin á vefnum Þjóðareign nái 35 þúsundum. Ég hef áður nefnt að þar séu ákveðin vatnaskil. Þegar fjöldinn er orðinn slíkur er mjög erfitt að sniðganga undirskriftasöfnun.

Það á bæði við um stjórnmálamenn og forseta Íslands, en undirskriftasöfnuninni er beint til hans – að hann vísi í þjóðaratkvæðagreiðslu lögum um lengri ráðstöfun fiskveiðikvóta en til eins árs. Í þessu tilviki er átt við makrílinn.

Nú vill hins vegar svo til að ekkert spyrst til makrílfrumvarps stjávarútvegsráðherra. Fiskistofa hefur reyndar sagt að það sé of seint komið fram – geti ekki tekið gildi á þessu ári. Á að skilja þetta svo að frumvarpið sé dautt, eins og mörg önnur mál sem ráðherrar hafa lagt fram, eða að það hafi verið sett inn í skáp í bili?

En verði frumvarpið keyrt í gegnum þingið á síðustu dögum á Ólafur Ragnar Grímsson varla annan kost en að neita að samþykkja það. Þá myndi væntanlega vera þjóðaratkvæðagreiðsla í haust. Hún gæti haft gríðarleg áhrif á allt kerfi fiskveiðistjórnunar.

Í undirskriftasöfnuninni er sérstaklega tekið fram að þess sé beðið að ákvæði um þjóðareign á auðlindum verði sett inn í stjórnarskrá. Það er löngu ljóst að mikill meirihuti þjóðarinnar er hlynntur þessu.

Nú kemur Bjarni Benediktsson fram og segir að verði að breyta stjórnarskránni. Hann talar sérstaklega um auðlindaákvæðið, ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur (hversu margar undirskriftir þarf til) en það gæti takmarkað mjög völd forseta Íslands og um framsal fullveldis – það er nokkuð á hreinu núorðið að EES samningurinn brýtur í bága við stjórnarskrá.

Bjarni vill hraða þessu svo mjög að þjóðin greiði atkvæði um þessar breytingar samhliða forsetakosningum á næsta ári. Það er heldur knappur tími – ekki er ólíklegt að komi til deilna um orðalag auðlindaákvæðis. Það er spurning hvort þjóðin fengi að velja á milli kosta í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá eða hvort verði einungis leyft að velja og hafna.

Á það er bent í Stundinni að þjóðin hafi þegar greitt atkvæði um sumt að því sem Bjarni lagði til. En þess verður auðvitað að geta að sú atkvæðagreiðsla var „ráðgefandi“ og fjallaði um tillögur – en atkvæðagreiðslan sem Bjarni talar um yrði bindandi og ekki undan því komist að virða niðurstöður hennar.

 

Screen Shot 2015-05-22 at 10.45.22

 

 

 

 

Fimmtudagur 21.5.2015 - 19:03 - Ummæli ()

Myndir Andrésar, gamla ÍR-húsið, hús Framsóknarforkólfa

Þessi mynd mun vera tekin úr turni Landskotskirkju árið 1961. Höfundur hennar er frændi minn kær, Andrés Kolbeinsson, óbóleikari, nótnaskrifari, ljósmyndari, áhugamaður um alla mögulega hluti. Frábær maður.

Ljósmyndir Andrésar hafa notið vaxandi viðurkenningar síðustu ár. Hann tók mikið af myndum á fyrri hluta sjöunda áratugarins og þær fanga andblæ þess tíma sérlega vel. Það er sérstakur módernistasvipur yfir myndunum hans Andrésar sem rímar við arkitektúr og myndlist þessa tíma – tíma flatarmálsins.

Á myndinni sést yfir Túngötu, Hávallagötu og Sólvallagötu, út á Hringbraut og alveg út á nes. Svæðið þar sem nú eru Grandarnir er óbyggt. Þarna var ekki búið að byggja við Landakotsskóla og gamla ÍR-húsið er á sínum stað. Það var eitt sinn kirkja sem var afhelguð og breytt í íþróttahús.

Krakkar í Vesturbæjarskóla, sem þá var á Öldugötu, fóru í leikfimi í ÍR-húsinu. Strákarnir voru hjá Guðmundi Þórarinssyni íþróttaþjálfara og sérstökum öðlingi. Ég æfði meira að segja frjálsar íþróttir í ÍR– bara vegna Guðmundar. Hann var svo almennilegur við okkur krakkana að hann leyfði okkur að innrétta eins konar vísi að félagsmiðstöð uppi á lofti hússins. Við fórum og náðum okkur í netakúlur niðri á Granda og hengdum upp. Það þótti ægilega smart á þeim tíma.

Við fengum meira að segja að halda böll í húsinu, tónlistin var leikin af forláta segulbandi – var tekin upp úr Lögum unga fólksins og þættinum Á nótum æskunnar. Það voru einu þættirnir í útvarpinu þar sem mátti heyra tónlist þar sem krakkarnir vildu. Allt var þetta Guðmundi að þakka, hann var sérlega umburðarlyndur og jákvæður.

ÍR-húsið var flutt í Árbæjarsafn upp úr síðustu aldamótum. Þar stendur það – en hefði auðvitað farið miklu betur á sínum gamla stað, líkt og má segja um flest húsin í Árbæjarsafni. Það er barn síns tíma – á skeiðinu þegar flest húsin eru flutt í Árbæinn stóð til að rífa gömlu byggðina í Reykjavík eins og hún lagði sig.

Tvö hús sem standa bak við Landakotsskólann eru nú að mestu hulin gróðri og ekki jafn sýnilega og þegar Andrés tók myndina. Húsin voru byggð fyrir mikla Framsóknar- og SÍS-fórkólfa, hið neðra fyrir Jónas frá Hriflu og hið efra fyrir Vilhjálm Þór. Í æsku minni kom yfirleitt aldrei til greina að ganga á götunni ef maður gat klifrað yfir garða. Þau eru ótalin skiptin sem ég klöngraðist þarna í gegn á leið í skólann, yfir grindverk og bílskúra. Íbúar húsanna gerðu aldrei neina athugasemd við það.

 

11350452_10205936244101651_3519064743593023383_n

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is