Fimmtudagur 24.7.2014 - 21:01 - Ummæli ()

Hægri menn og hægri öfgar

Hvernig tekst Brynjari Níelssyni að komast að þeirri niðurstöðu að hægri menn séu almennt úthrópaðir sem öfgamenn í umræðunni – hvað er það sem hann er að taka til sín?

Ekki veit ég til þess að Angela Merkel sé kölluð öfgamaður eða David Cameron. Ekki Fredrik Reinfeld í Svíþjóð, Erna Solberg í Noregi eða Alexander Stubb í Finnlandi. Ekki Jean Claude-Juncker, formaður framkvæmdastjórnar ESB, eða Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, Mariano Rajoy á Spáni, Antonis Samaras í Grikklandi Mark Rutte í Hollandi eða Christine Lagarde, forstjóri AGS.

Ekki heldur Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson eða Hanna Birna Kristjánsdóttir. Nú eða Sjálfstæðisflokkurinn.

Þarna er hægra fólk og hægri flokkar sem enginn kennir við öfga.

En það eru hins vegar stjórnmálamenn eins og Geert Wilders, Marine Le Pen, Pia Kjærsgaard, Nick Griffith, Umberto Bossi, meðlimir Gylltrar dögunar í Grikklandi og Jobbik í Ungverjalandi sem kallast öfgahægri. Brynjar á varla neina samleið með þessu liði – eða hvað?

Eins og staðan er stafar lýðræðinu meiri ógn af þessum stjórnmálaöflum en ysta vinstrinu sem víðast hvar er mjög veiklað. Að sumu leyti er það vegna þess að vinstrið gleymdi sér í félagsmálapólitík, en athyglisvert er líka að talsverður straumur virðist hafa verið frá fylginu utarlega á vinstrivængnum til ysta hægrisins.

Ysta hægrið hefur fundið sér nýtt átrúnaðargoð í Vladímir Pútín. Það er mikill misskilningur hjá Styrmi Gunnarssyni að vinstrið eigi í sérstökum vandræðum með Pútín, heldur er staðreyndin sú að ákveðinn hluti ysta vinstrisins hefur náð saman við ysta hægrið í aðdáuninni á Pútín.

Fimmtudagur 24.7.2014 - 15:20 - Ummæli ()

Varla svaravert – en þó verður að árétta vissa hluti

Hér fáum við rök sem eru komin beint frá landránsmönnum í Ísrael og það er greinilegt á viðbrögðunum að þau vekja furðu. Þetta eru rök nýlendukúgara.

Meðal annars er þarna talað um að Íslendingar „haldi með“ Palestínumönnum.

En auðvitað er enginn að halda með neinum. Íslendingar eru friðsöm þjóð sem hefur skömm á kúgun, ofbeldi og manndrápum. Þegar við horfum á almenna borgara stráfellda með fullkomnustu vígvélum samtímans þá ofbýður okkur - að minnsta kosti flestum.

Þarna eru líka rökin um að Hamas-liðar tefli fram óbreyttum borgurum sem einhvers konar lifandi skjöldum.

En staðreyndin er sú að Gaza svæðið er eitt hið þéttbýlasta í heimi. Ef menn hella sprengjum þar yfir er öruggt að mannfall meðal óbreyttra borgara verður mikið.

Það er ótrúleg mannfyrirlitning sem felst í því að halda því fram að konur og börn Palestínu láti drepa sig eins og upp á sport – þegar verið er að skjóta á skóla og sjúkrahús. Þetta eru síðustu fréttirnar, fjöldi fólks er drepinn í skóla á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem það hafði leitað skjóls.

Og síðan er hitt, að andúð á framferði Ísraels sé gyðingahatur. Þetta er eiginlega brjálæðislegur málflutningur. Var Albert Einstein, sem var mjög gagnrýninn á Ísrael, þá gyðingahatari? Eða þeir sem mótmæla framferði Ísraelssjórnar í Ísrael sjálfu? Ilan Volkov, aðalhjómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem var framarlega í mótmælum í Tel Aviv í vikunni? Hið krítíska dagblað Haaretz?

Í þessu viðtali kom fram að gyðingar á Íslandi óttuðust um líf sitt. Er hægt að bulla meira? Ég hef hitt nokkuð  af ferðamönnum frá Ísrael á Íslandi í sumar og ekki hef ég orðið var við að þeir teldu sig vera í lífshættu – Ísraelar eru reyndar líka fjölmennir á grísku eyjunum og þar hitti ég oft fólk þaðan.

Reyndar er það svo að það eru oft hinir frjálslyndari Ísraelar sem ferðast - þeir sem eru gagnrýnir á kúgunina og ofbeldið sem er beitt gegn Palestínumönnum.

En því miður hefur Palestínudeilan lengi eitrað út frá sér. Eins og ég hef áður sagt hefur hún eyðilagt Palestínu, en líka Ísrael. Ásjóna þess ríkis verður sífellt ógeðfelldari. Hún eitrar samskipti Bandaríkjanna við Mið-Austurlönd og nú er jafnvel farið að bera á óeirðum vegna hennar í borgum Evrópu.

Gyðingahatur, auðvitað þurfum við að vera á varðbergi gagnvart því. Framferði Ísraelsstjórnar er ekki gyðingum að kenna, ekki fremur en við kennum öllum múslimum um fasista eins og Al Queida eða Isis. En því miður er það svo að fólk af arabískum uppruna verður fyrir miklum óþægindum vegna þessa – þótt blásaklaust sé.

Málflutningurinn sem birtist í ívitnaðri grein er ótrúlegur. Í raun er þetta ekki svaravert, en því miður sér maður þetta nokkuð víða – sambland af heilaþvotti, mannfyrirlitningu, sjálfselsku og áróðri.

Loks er hér grein eftir Richard Seymour úr Guardian, hann segir frá stöðunum þar sem Hamasliðar fela sig – svo nauðsynlegt hefur verið fyrir Ísraela að skjóta.

They hid at the El-Wafa hospital.

They hid at the Al-Aqsa hospital.

They hid at the beach, where children played football.

They hid at the yard of 75-year-old Muhammad Hamad.

They hid among the residential quarters of Shujaya.

They hid in the neighbourhoods of Zaytoun and Toffah.

They hid in Rafah and Khan Younis.

They hid in the home of the Qassan family.

They hid in the home of the poet, Othman Hussein.

They hid in the village of Khuzaa.

They hid in the thousands of houses damaged or destroyed.

They hid in 84 schools and 23 medical facilities.

They hid in a cafe, where Gazans were watching the World Cup.

They hid in the ambulances trying to retrieve the injured.

They hid themselves in 24 corpses, buried under rubble.

They hid themselves in a young woman in pink household slippers, sprawled on the pavement, taken down while fleeing.

They hid themselves in two brothers, eight and four, lying in the intensive burn care unit in Al-Shifa.

They hid themselves in the little boy whose parts were carried away by his father in a plastic shopping bag.

They hid themselves in the “incomparable chaos of bodies” arriving at Gaza hospitals.

They hid themselves in an elderly woman, lying in a pool of blood on a stone floor.

Hamas, they tell us, is cowardly and cynical.

Gallery-Gaza-air-strikes--013[1]

 

Fimmtudagur 24.7.2014 - 13:15 - Ummæli ()

Samningaleið – eða hvað?

Næsti vetur gæti orðið forvitnilegur í pólitíkinni, samkvæmt frétt í Morgunblaðinu mun hann skipta sköpum varðandi uppgjör þrotabúa gömlu bankanna og gjaldeyrishöftin.

Það hefur ekki mátt nota orðið „samningar“  við kröfuhafa, en þetta er samt grunsamlega líkt samningum. Erlendir lögfræðingar eru komnir í málið fyrir Íslendinga. Það segir í fréttinni að kynna eigi fyrir kröfuhöfunum „þjóðhagsleg skilyrði“. Síðan eigi þeir að koma með tillögur að lausn vandans.

Í bakhöndinni hefur íslenska ríkisstjórnin svo hótunina um að taka búin til gjaldþrotaskipta – ef ekki semst. Gjaldþrotaleiðin svonefnd er semsagt ekki úr sögunni, en henni fylgir áhætta. AGS hefur til dæmis varað við henni.

Þeir mega eiga að nafn þessarar áætlunar er sniðugt, Project Irminger – eftir hafstraumnum sem vermir Íslandsstrendur. Maður þarf eiginlega að vita hverjum datt þetta í hug.

Þarna er kominn tímarammi í málið, virðist vera, eftir býsna langt hik ríkisstjórnarinnar. Það hefur verið ósamlyndi um hvernig eigi að taka á höftunum, en nú virðist Bjarni Benediktsson hafa náð forræði yfir málinu, að minnsta kosti í bili – meðan verður reynt að semja.

08428c4959-380x230_o

Fimmtudagur 24.7.2014 - 11:05 - Ummæli ()

Norskur þingmaður: Ólafur helgi var sadisti og fjöldamorðingi

Norski þingmaðurinn Torgeir Fylkesnes er mjög harðorður í garð Ólafs konungs Haraldssonar, Ólafs helga, verndardýrlings Noregs. Í ár eru 1000 ár síðan Ólafur tók kristni hann féll síðar í orrustu á Stiklastöðum, ekki löngu seinna gerði kirkjan hann að dýrlingi.

Fylkesnes, sem er í Sosialistisk venstreparti, segir að kirkjan hafi spunnið lygavef um Ólaf konung, hann hafi í raun verið, fjöldamorðingi, sadisti og harðstjóri. En kirkjan hafi tekið ímynd hans og unnið úr henni með hætti sem bestu auglýsingastofur gætu verið stoltar af.

Fylkesnes vitnar í Snorra Sturluson máli sínu til stuðnings, en svo er náttúrlega annar íslenskur höfundur sem hefur skrifað um Ólafi helga sem algjört fól – það er Halldór Laxness í Gerplu, þeirri bráðskemmtilegu bók og mögnuðustu stríðsádeilu sem til er á íslensku.

iTOFj1BJwJi5ceeWba45PgSHuvIQxfkMp9Has8yDuB9w[1]

 

 

Miðvikudagur 23.7.2014 - 22:11 - Ummæli ()

Hvar er hættan?

Ísraelar segja að engin hætta fylgi því að fljúga til landsins.

En á sama tíma eru þeir að sprengja Gaza aftur á steinöld – með tilheyrandi mannfalli – vegna flugskeyta Hamas.

Hræsni?

Miðvikudagur 23.7.2014 - 12:43 - Ummæli ()

Pútín þarf að fá að bjarga andlitinu

Angus Roxburgh skrifar í Guardian um vandann sem Pútín Rússlandsforseti er kominn í. Hann telur að Pútín hjóti að leita leiða til að bjarga andlitinu gagnvart alþjóðasamfélaginu.

Roxburgh segist hafa horft á síðasta sjónvarpsávarp Pútíns, hann hafi virkað þreyttur, sveittur, pirraður og með bauga undir augum. Reiðin telur Roxburgh að beinist ekki gegn Úkraínumönnum heldur fremur gegn aðskilnaðarsinnunum í Austur-Úkraínu.

Hann segir líka að Pútín sitji í skítahaug sem hann hefur sjálfur skapað. Með framferði Rússa á Krímskaga hafi uppreisnarmennirnir í Úkraínu fengið grænt ljós – og þeir hafi notið velþóknunar Pútíns. Þeir hafi fengið ýmis konar aðstoð – þar á meðal eldflaugarnar sem grönduðu MH17.

Kreml afhenti semsagt drukknum og hálfærðum lýð vopn sem þeir kunna lítið sem ekkert á – en geta verið stórhættuleg.

Þarna fer ástandið úr böndunum. Þetta er orðið verulega pínlegt fyrir Pútín – og hann þarf að sitja undir stanslausum skömmum frá öðrum þjóðarleiðtogum. Nú stendur til að herða viðskiptaþvinganirnar gegn Rússlandi – og sérstaklega klíkunni í kringum Pútín – það er óhugsandi að ríki á Vesturlöndum geti haft eðlileg samskipti við Rússland á þessum tíma.

Roxburgh segir að nú verði Vesturlönd að nota tækifærið og fá Pútin til að ganga til samninga um Úkraínudeiluna – bjóða honum leið til að bjarga andlitinu og tryggja þannig frið. Lausnin gæti verið falin í einhvers konar sambandsríki. Á móti verði Pútín að hverfa frá öllum stuðningi við uppreisnarmennina – sem eru orðnir að vandræðamáli fyrir hann.

video-undefined-1FD8443B00000578-353_636x358

Miðvikudagur 23.7.2014 - 10:51 - Ummæli ()

Merkisstaðurinn Hornið – 35 ára

Þegar veitingastaðurinn Hornið var stofnaður 1979 var dálítið öðruvísi um að litast í Reykjavík. Hornið hefur alla tíð verið í húsnæði þar sem áður var verslun Ellingsen, á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis.

Á þeim tíma var nánast óþekkt að fólk færi út að borða nema þá annað hvort á matsölur eins og Múlakaffi eða á restauranta eins og Hótel Holt eða Grillið.

Það var sagt að Íslendingar drykkju helst ekki léttvín nema í húsum þar sem væri hægt að gista yfir nótt.

Hornið kom með nýja strauma inn í veitingahúsaflóruna. Þarna var framreiddur ítalskur matur eins og fólk sem fór til erlendra borga hafði kynnst, pitsur, pasta, lasagna. Og svo var drukkið með ítalskt chianti rauðvín, úr flöskum sem voru innan í þartilgerðum bastkörfum.

Ég les að Hornið er 35 ára í dag, veitingastaðir á Íslandi ná yfirleitt ekki svo háum aldri. Fáir gera sér núorðið grein fyrir því hvílíkir frumkvöðlar þau Jakob H. Magnússon og Valgerður Jóhannsdóttir voru þegar þau opnuðu staðinn. Hornið varð strax ótrúlega vinsælt og það breytti viðhorfunum í veitingahúsarekstri.

Það er líka sérstakt fagnaðarefni að Hornið starfar enn þá í sinni upprunalegu mynd, á sömu kennitölu – og maturinn er ennþá jafn ágætur þar og verðlagningin hófleg.

 

hornid_11072013_2013

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is