Þriðjudagur 26.7.2016 - 09:16 - Ummæli ()

Hinn stórhættulegi Repúblikanaflokkur – njósnarar Pútíns og vandræði Demókrata

Þetta er sumarið þegar sá ótti magnast upp hjá manni að mannkynið standi á hættulegum tímamótum. Þjóðfélagsrýnirinn Noam Chomsky segir í viðtali við Amy Goodman á sjónvarpsstöðinni Democracy Now (þau voru bæði gestir í Silfrinu hjá mér á sínum tíma!) að Repúblikanaflokkurinn eins og hann er í dag geti talist vera hættulegustu samtök í sögu mannkynsins. Bókstaflega, segir Chomsky.

Tökum bara afstöðu þeirra til tveggja stórmála sem blasa við okkur í dag: Loftslagsbreytinga, kjarnorkustríðs. Varðandi loftslagsbreytingarnar þarf ekki einu sinni að ræða það. Þeir segja: „Æðum alla leið út að brúninni. Tryggjum að barnabörnin okkar eigi vont líf.“ Varðandi kjarnorkuvopn þá heimta þeir aukna hervæðingu. Hún er þegar alltof mikil, meiri en efni eru til. „Skjótum þessu upp úr öllu valdi,“ segja þeir. Annað munu þeir skera niður meðfram því að þeir lækka skatta á ríkt fólk, svo það verður ekkert eftir. Ef maður hugsar um það, þá hefur annað eins ekki ógnað mannkyninu fyrr og síðar. Við ættum að horfast í augu við það.

Þetta eru stór orð. Varnaðarorð frá einum helsta stjórnmálaspekingi samtímans. Ekki að hann hrósi Demókrataflokknum sem hann segir að sé um þar sem hófsamir Repúblikanar voru áður.

Á sama tíma gerist það að Demókratar eru í miklum vandræðum vegna tölvupósta sem hafa lekið út af skrifstofum flokksins. Þar eru komin upp sú skrítna staða að Rússar virðast hafa brotist inn í tölvukerfi Demókrataflokksins. Píratinn Smári McCarthy deilir þessari grein af vefnum Motherboard og segist telja niðurstöður hennar mjög sennilegar. Þar er talað um tvo aðila í Rússlandi sem hafi verið að reyna að komast inn í tölvurnar, bæði gamla KGB, sem nú heitir FSB, og GRU, sem er leyniþjónusta hersins. Njósnarar Pútíns stela semsagt upplýsingum frá Demókrötum til þess að hjálpa Donald Trump. Vísbendingarnar um aðkomu Rússa eru sagðar mjög sterkar, þótt reynt sé að láta líta út á nokkuð klaufalegan hátt að hakkari á eigin vegum hafi verið að verki.

Það hefur ekki farið dult að Pútín er hrifinn af Donald Trump og vill að hann verði forseti. En gögnunum er síðar komið til WikiLeaks og Julians Assange sem hefur ekki farið dult með óbeit sína á Hillary Clinton. Milli Assange og Pútínsstjórnarinnar eru þræðir og Assange var um tíma með þátt á rússnesku áróðursstöðinni Russia Today. Gögnin eru birt beint ofan í flokksþing Demókratanna.

Thomas Rid, höfundur greinarinnar, er prófessor í öryggisfræðum við King’s College í London. Hann segir að með þessu sé farið yfir stóra rauða línu og sett afar hættulegt fordæmi.

Bernie Sanders lýsir yfir stuðningi við Hillary Clinton, en stuðningsmenn hans púa á hann. Stjarna Demókrataþingsins til þessa hefur í raun verið forsetafrúin, Michelle Obama, sem hélt þessa glæsilegu ræðu í gær. Það er líka hægt að tala um stjórnmál þannig að maður skynji von og uppörvun.

 

 

Mánudagur 25.7.2016 - 17:06 - Ummæli ()

Friðsemdartímanum að ljúka?

Það hefur verið óvenjulega friðsamlegt í íslenskum stjórnmálum upp á síðkastið – eiginlega alveg síðan stormurinn vegna Panamaskjalanna gekk yfir. Forsetakosningarnar fóru mjög friðsamlega fram, mætti jafnvel segja að þær hafi verið dauflegar. Því sem af er sumrinu hafa Íslendingar eytt í að fylgjast með fótbolta, þrasa smá um ferðamenn, og svo hafa borist tilkynningar frá stjórnmálamönnum um að þeir séu að hætta.

Yfirleitt er þeim tilkynningum tekið með nokkru jafnaðargeði. Það koma sjálfsagt einhverjir og fylla í skörðin. Enginn er ómissandi.

Skoðanakannanir sem hafa birst um fylgi flokka benda til dálítið sérstakrar stöðu. Það gæti orðið erfitt að mynda ríkisstjórn vegna þess hversu fylgið dreifist víða. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem MMR birtir eru engin afgerandi stjórnarmynstur í kortunum, hvorki til hægri né vinstri. Eina tveggja flokka stjórnin sem er möguleg er ef Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn tækju upp samstarf.

Fylgið getur auðvitað farið á talsverða hreyfingu frá þessum niðurstöðum, en þarna er ríkisstjórnin kolfallin og það myndi ekki einu sinni duga henni þótt Viðreisn kæmi inn sem þriðji flokkur í stjórn.

Á stjórnarandstöðuvængnum er sundrungin ekki minni. Píratar eru stærsti flokkurinn, en fylgi þeirra, VG og Samfylkingar nægir varla til að mynda stjórn. Það yrði að koma til fjórði flokkurinn. Viðreisn, nú eða þá Framsókn.

Nú tilkynnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson endurkomu sína í stjórnmálin. Hann ætlar þá að leiða Framsóknarflokkinn í kosningunum – sem verða í haust þótt hann sé mótfallinn því. Allt bendir til þess að framsóknarmenn muni leyfa honum það. Flokkurinn kemst ekki mikið neðar í skoðanakönnunum. Það er alltaf ógurlegur titringur í kringum Sigmund. Hann mætir aftur með herópið „Íslandi allt“!  Framsókn undir forystu hans er ekki líkleg til að vinna með vinstri flokkunum. Og stjórnmálin verða varla jafn friðsamleg með hann inni á vellinum.

Screen Shot 2016-07-25 at 16.43.45

Niðurstöður  nýrrar skoðanakönnunar MMR.

Mánudagur 25.7.2016 - 10:27 - Ummæli ()

Plaststrendur – burt með styrofoam

Einhver ógeðslegasta birtingarmynd mengunarvanda nútímans er hvernig plast safnast upp í lífríkinu. Ýmsar tegundir af plasti sem ekki eyðast, hlaðast upp í hafinu og á ströndum og fara inn í fiska og alls kyns lífverur og safnast þar saman.

Það er sagt að varla sé til sá fermeter á ströndum heimsins lengur að ekki sé þar fullt af plastögnum. Sumar eru örsmáar, vart greinanlegar með berum augum. Þar sem ég dvel á Grikklandi er líklega hreinasti sjór í öllu Miðjarðarhafinu, en samt sér maður plastagnir á ströndum þar, manni til sárrar raunar. Og auðvitað er plastmengun við strendur Íslands, við komumst ekkert undan því þótt við teljum okkur búa við hreint haf. Það er varla til daprara dæmi um illa meðferð mannkynsins á náttúrunni.

En það er hægt að andæfa á móti og það er að gerast. Árni Finnsson var í viðtali á Bylgjunni í morgun um plastmengun. Hér eru sláandi atriði úr heimildarmynd sem var sýnd í Bíó Paradís í fyrra og nefnist Plaststrendur.

 

 

Íslendingar eru sjávarþjóð, við eigum allt undir því að hafið í kringum landið haldist hreint og ómengað. Við gerum samt furðu lítið í því að draga úr notkun á plasti. Við kaupum drykki í plastflöskum í stórum stíl, við berum vörurnar okkar úr búðum í plastpokum, notkun á plasti í matvælaframleiðslunni hér er gríðarlega mikil. Meðvitundin um vandann er furðu lítil.

Víða um heim er verið að banna notkun plastpoka eða takmarka hana verulega. Það er lítil fórn. Plastpokar eru ekki skemmtilegir eða fallegir. Það er auðvelt að hafa meðferðis fyrirferðarlitla innkaupapoka sem eru miklu handhægari.

Annað fyrirbæri má svo nefna sem er að finna alltof víða á Íslandi. Það er hið svokallaða polysterine – algengasta tegund þess nefnist styrofoam –sem er mikið notað undir matvæli. Styrofoam brotnar niður í litlar agnir og berst út í lífríkið. Efnið er satt að segja algjört ógeð og ætti helst ekki að sjást. Samt er það víða í notkun – eins og það sé hið eðlilegasta mál.

Ég hef til dæmis tekið eftir því að stærsta keðja ísbúða á höfuðborgarsvæðinu notar styrofoam – en hún er náttúrlega ekki ein um það. Það er til dæmis mjög algengt að matarbakkar séu úr styrofoami sem og kaffibollar á vinnustöðum, enda þykir það veita góða einangrun. Það er kostur efnisins, fyrir utan að vera mjög létt. Samt verður að segjast eins og er að ekki er gott að neyta matar af styrofoami – efnið er ekki skemmtilegt viðkomu.

En víða um heim er farið að banna notkun styrofoams, hér má sjá hvernig borgir í Bandaríkjunum eins og Los Angeles, New York, Miami, Portland, Seattle og Washington hafa skorið upp herör gegn þessum óþverra.

 

images

 

Sunnudagur 24.7.2016 - 18:29 - Ummæli ()

Gömlu húsin sem stóðu við Skúlagötu

Eitt sinn fór ég með frægan franskan myndlistarmann um Skúlagötu. Þetta var á tíunda áratug síðustu aldar, eftir að mörg hús höfðu verið rifin við götuna og íbúðaturnar voru farnir að rísa í staðinn. Þeim hefur fjölgað mikið síðan. Ég lýg því ekki að franski listamaðurinn felldi tár yfir ljótleikanum sem blasti við. Hann spurði hvað við værum að gera við borgina okkar? Þarna var ekki bara eyðilegging búin Skúlagötunni, heldur líka Skuggahverfinu, öllu því smáa og litríka þar. Það er nú á bak og burt með sínum gömlu húsum.

Hér er nokkrar ljósmyndir af því hvernig Skúlagatan leit út áður en hún var skipulögð upp á nýtt fyrir háhýsabyggð. Þarna var atvinnustarfsemi af ýmsu tagi í húsum sem höfðu staðið lengi og voru mörg býsna reisuleg.

 

Screen Shot 2016-07-21 at 23.37.05

Fyrst eru það hús trésmiðjunnar Völundar með sínum fræga turni. Turninum var reyndar bjargað og er nú smáhýsi á hrossabúinu Dallandi. Elsti hluti Völundarhúsanna var frá 1905, en þau voru keypt af borginni sem lét rífa þau 1987 til að rýma fyrir nýju skipulagi.

 

980824_609302359087786_1890032224_o

Hér er sama mynd af Völundarhúsunum en aðeins víðari. Sést betur hvernig þau tóku sig út í byggðinni. Þetta voru timburhús. Nokkru ofar í byggðinni er Franski spítalinn, líka úr timbri, en hann var sem betur fer ekki rifinn.

 

13686518_10206965403599892_2701724985471934765_n

Kveldúlfshúsin voru reist 1913 og rifin 1989. Þá hafði Eimskipafélagið uppi áform um að byggja þar stórt hótel, 20 þúsund fermetra og eru til teikningar að því. Ekkert varð af þessu og fleiri íbúðaturnar risu á lóð þessara húsa. Þarna voru höfuðstöðvar Kveldúlfs, útgerðarfélags Thorsaranna. Þarna voru fiskvinnslusalir, geymslur og skrifstofur og náði langleiðina upp á Lindargötu. Seinna notaði Eimskipafélagið byggingarnar sem skemmur og voru þau þá kölluð Skúlaskáli.

 

Screen Shot 2016-07-21 at 23.37.22

Hér er yngri mynd af Kveldúlfshúsunum, skömmu áður en þau voru rifin.

 

Screen Shot 2016-07-21 at 23.37.50

Þriðja byggingin sem hér skal nefnd er Sláturfélag Suðurlands. Hún lifði lengst, var ekki rifin fyrr en 1994. Ýmsir urðu til að andæfa því, upp komu hugmyndir um að nýta bygginguna undir aðra starfsemi. Það er auðvitað þekkt í mörgum erlendum borgum hvernig gamalt iðnaðarhúsnæði hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Þarna var meðal annars pylsugerð og niðursuðuverksmiðja, en elsti hluti bygginganna var frá 1907.

 

Screen Shot 2016-07-21 at 23.35.55

Hér sjást svo Sláturfélagshúsin undir lok líftíma síns. Íbúðarturnarnir eru farnir að rísa allt í kring.

 

Screen Shot 2016-07-24 at 18.11.13

Loks er svo yfirlitsmynd sem sýnir Skuggahverfið og Skúlagötuna á árunum milli stríða. Þarna sjást Völundarhúsin andspænis olíutönkunum á Klöpp en Kveldúlfshúsin eru nær með sínum hvítu fiskreitum.

Sunnudagur 24.7.2016 - 11:08 - Ummæli ()

Nýr Nubo?

Hver var þessi nýi í Spaugstofunni í kvöld? Þessi sem lék útlendinginn sem ætlaði að byggja sjúkrahús í Mosfellssveitinni fyrir nokkra tugi miljarða en ekki sækja um leyfi fyrir starfseminni fyrr en byggingin væri tilbúin eftir nokkur ár?

Þetta skrifaði Guðmundur Magnússon blaðamaður á Facebook.

Hann kemur vægast sagt sérkennilega fyrir sjónir Hollendingurinn Henri Middledorp. Hann fullyrðir að samráð hafi verið haft við heilbrigðisyfirvöld.

En heilbrigðisyfirvöld koma af fjöllum. Landlæknir segist fyrst hafa heyrt um málið í fjöllum en heilbrigðisráðherra kannast ekki við neitt samkomulag – segir að þetta hafi ekki verið nefnt á fundi sem hann átti vissulega með „fjárfestunum“.

Þeir áttu fund og það er til mynd, en þeir voru bara að tala um allt annað. Myndina má sjá hér að neðan. Hollendingurinn verður uppvís að því að segja ósatt.

Og „fjárfestarnir“ eru reyndar óþekktir. Það kemur fram í fréttum að ekki megi gefa upp hverjir þeir eru. Við vitum jafnlítið um þá og Huang Nubo, Kínverjann sem ætlaði að kaupa stóra sneið af Norðurlandi. Áformum hans var hrundið.

Henri Middletorp segir að þeir ætli að byggja fyrst og svo ætli þeir að biðja um leyfi. Kannski er hægt að gera það með þeim hætti? Kannski er ekki hægt að stöðva svona áætlanir þó þær beri brátt að? Þeir brugðust allavega nógu hratt við í Mosfellsbæ. Bæjarstjórinn þar segist hafa heyrt fyrst af þessu fyrir viku – og hann var ekkert að tvínóna við að skrifa undir og láta þá fá lóð.

 

Screen Shot 2016-07-24 at 11.10.47

Laugardagur 23.7.2016 - 19:49 - Ummæli ()

Friðsamir tímar – þrátt fyrir allt

Hjá okkur ágerist sú tilfinning að við lifum í mjög hættulegum samtíma, að við séum jafnvel komin á heljarþröm. Hvað er í rauninni hæft í því? Hvað sem öðru líður er staðreynd að við höfum lifað einstaklega friðsamlega tíma, þótt ófriðlegra virðist á ákveðnum svæðum í heiminum en stundum áður.

Er hugsanlegt að samskiptamiðlar, hraður og ekki alltaf vandaður fréttaflutningur, sjónvarpsstöðvar sem senda út allan sólarhringinn magni upp hjá okkur tilfinningu óöryggis og hættu?

Hér er línurit sem sýnir þróun dauðsfalla í stríðsátökum frá 1400. Þetta er af áhugaverðu vefsvæði sem nefnist Our World in Data.

 

ourworldindata_wars-long-run-military-civilian-fatalities-from-brecke1-750x490

Sænski tölfræðingurinn Ola Rosling, sonur Hans Rosling, deilir þessu á Twitter og segir.

 

Screen Shot 2016-07-23 at 20.13.44

Föstudagur 22.7.2016 - 16:45 - Ummæli ()

Áhrifavaldar í lífi Ara Matt

Þáttaröðin Undir áhrifum heldur áfram á Rás 1. Gestur minn á laugardag er Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri. Í þættinum segja gestir frá áhrifavöldum í lífi sínu en þreyta líka persónuleikapróf sem er upprunnið í smiðju franska rithöfundarins Prousts.

Gestur í síðsta þætti var Auður Jónsdóttir rithöfundur, eins og heyra má hérna.

Þátturinn er klukkan 13 á laugardag á Rás 1.

 

ari_matt_frame_2571

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is