Laugardagur 19.08.2017 - 18:28 - Ummæli ()

Samansafn af veitingastöðum en ekki matarmarkaður

Mathöllin við Hlemm lítur ágætlega út, það ég náði að sjá í troðningi fyrr í dag. Svæðið virðist vera ágætlega hannað.  Kannski er nokkur bjartsýni að hafa þetta á stað þar sem eru svo fá bílastæði? Svo er náttúrlega er vitlaust að tala um Mathöll – á íslensku myndi það heita Matarhöll.

En þetta er hins vegar ekki matarmarkaðurinn sem margir hafa talað um að mætti koma upp í Reykjavík. Mathöllin – látum okkur hafa það að nota orðið – er samansafn, þyrping, nokkurra veitingahúsa og svo nokkuð af borðum þar sem hægt er að neyta fæðunnar. Sum veitingahúsanna eru þekkt og hafa starfsemi annars staðar.

Þetta er það sem kallast á ensku food court, líkt og við höfum í Kringlunni og Smáralind, matartorg, ekki matarmarkaður, food market. Veitingastaðirnir eru þó ólíkt lystugri en tíðkast í verslunarmiðstöðvunum.

En maður fer semsagt ekki á Hlemm til að kaupa ferskan fisk, kjöt eða grænmeti – heldur er seldur þar tilbúinn matur.

Það verður semsagt enn bið eftir matarmarkaði – og kannski er ekki heldur gundvöllur fyrir slíkt á sama tíma og Costco er að valda usla í matvöruversluninni. Komandi heim eftir sumarlanga dvöl erlendis sér maður beinlínis hvernig vandi matvörubúðanna blasir við þegar maður kemur inn í þær.

Margir staðirnir á Hlemmi virka líka nokkuð dýrir, þetta er ekki lægsti flokkur af veitingastöðum. Þarna er líka bakaríið sem selur afar gott brauðmeti – en á uppsprengdu verði.

Í framhaldi af því spyr maður sig hvað verður um strætófarþegana sem fara um Hlemm. Munu þeir geta fengið athvarf fyrir veðri og vindum í allri þessari fínimennsku? Ég hef ákveðnar efasemdir um að þeir muni upp til hópa sjá sér fært að kaupa veitingar þarna inni.

Veitingastaðirnir í Mathöllinni líta margir prýðilega út, það vantar ekki. Þar verður ábyggilega mikið gúrme. Tveir af uppáhaldsveitingastöðunum mínum eru meira að segja með útibú þarna. Ég kvarta ekki undan því. En það má líka spyrja hvort það sé í verkahring borgaryfirvalda að greiða sérstaklega og með þessum hætti fyrir opnun fleiri veitingastaða í bænum.

 

Laugardagur 19.08.2017 - 12:09 - Ummæli ()

Sjálfsagt að skipta um nafn

Samfylkingin var alltaf mjög vont nafn á stjórnmálaflokki. Það var líka hugsað til algjörra bráðabirgða á sínum tíma. Samfylking minnir á eitthvað frá því á millistríðsárunum, þá voru alls konar „fylkingar“ í gangi. Það var meira að segja ómur af gamalli sögu, sem einhverjir mundu ennþá fyrir aldamótin, í nafninu – frá því þegar kommar og kratar gerðu tilraunir til að fylkja sér saman.

En svo fórst fyrir að breyta nafninu – og flokkurinn sat uppi með þetta heiti. Það vekur engar sérstakar kenndir, segir ekkert um stefnuna eða viðhorfin, er innantómt.

Nú þegar fylgið er í nokkru lágmarki, virðist þó aðeins vera að rísa, ætti að vera tilvalið tækifæri til að breyta. Það er ekki þar með sagt að flokkurinn verði stór á ný, en hann á þó ákveðin sóknarfæri nú þegar Björt framtíð og Viðreisn eru undir hælnum á Sjálfstæðisflokknum.

Flokksmenn geta svo skeggrætt um það hvort nafnið á að vera Jafnaðarmannaflokkur eða Jafnaðarflokkur.

 

Föstudagur 18.08.2017 - 11:03 - Ummæli ()

Má berja fasista?

Það er deilt um sveitir sem kalla sig antifa (antifascist). Mæta á staði þar sem hægriöfgamenn fara í göngur – og telja réttlætanlegt að lumbra á þeim. Og hægriöfgamennirnir eru líka til í slagsmál, það vantar ekki. Maður sér meira að segja fólk, og sumt telur maður yfirleitt skynsamt, deila færslum á Facebook þar sem er talið réttlætanlegt að berja hægriöfgamenn. Það eru meira að segja birtar skýringarmyndir um hvernig eigi að lemja fasista.

Á þessu eru ákveðnir meinbugir. Til dæmis hið sögulega fordæmi. Það gafst ekkert sérlega vel á millistríðsárunum, þegar uppgangur fasista var sem mestur, að mæta þeim í götubardögum. Fasistar náðu völdum víða í Evrópu, ekki bara á Ítalíu, Þýskalandi og Spáni, heldur líka nokkuð snemma í Grikklandi, Rúmeníu, Ungverjalandi, Austurríki og Portúgal. Ofbeldi milli stjórnmálahópa var notað sem átylla til að koma á einræðisstjórnarfari.

Öfgarnar mögnuðust vinstra og hægra megin, nasistar og kommúnistar sóttu að lýðræðinu og réttarríkinu, hvorir úr sinni átt, allt endaði það með skelfingu eins og þekkt er.

Það er líka spurningin hvar skal draga mörkin, hverja má berja og hverja ekki? Hver á að meta hvenær er rétt að antifa-hópar mæti með kylfur og hnúajárn, í hettupeysum og með klúta fyrir andlitinu? Hvenær á að sleppa svona hópum lausum? Hvenær endar vörnin fyrir mannréttindum og ofbeldisdýrkun tekur við?  Nú eru það íslamistar sem valda ógn og skelfingu með hryðjuverkum víða um lönd. Má þá líka berja þá sem liggja undir grun um að vera hallir undir íslamisma?

 

Fimmtudagur 17.08.2017 - 09:03 - Ummæli ()

Hrun í bóksölu – og horfurnar ekki bjartar

Það má lesa á forsíðu Morgunblaðsins að þriðjungur bóksölu hafi gufað upp síðan 2010. Tölur í þessa veru hafa verið á kreiki um nokkra hríð, en þarna er staðfesting á þessu. Þetta er í raun hrun í sölu og þá væntanlega líka lestri bóka – hjá bókaþjóðinni, eins og hún hefur verið kölluð.

Bækur eru enn keyptar og gefnar á jólum – en manni skilst að það verði æ sjaldgæfara að fólk kaupi bækur til eigin nota. Í lífsstílsþáttum sjónvarps, þar sem farið og skoðað inn á heimilum fólks, sjást aldrei bækur. Þeim hefur verið útrýmt.

Skýringarnar á þessu eru varla svo flóknar. Það er alls ekki svo að skrifaðar séu eða gefnar út verri bækur. Það eru komnir aðrir miðlar sem ryðja bóklestri burt. En ef miðað er við árið 2010 þá er það tíminn þegar fólk fór að ánetjast samskiptamiðlum. Þessir miðlar eru býsna andsnúnir bóklestri – þeir bjóða upp á annars konar örvun heilabúsins og hún hefur reynst vera býsna ávanabindandi.

Fátt bendir heldur til annars en að bóklesturinn haldi áfram að dragast saman. Þeim fjölgar sífellt sem líta aldrei í bók. Lestrarátök munu lítt duga gegn þessu.

 

 

Miðvikudagur 16.08.2017 - 10:09 - Ummæli ()

Elvis est mort

Í dag eru liðin fjörutíu ár frá andláti Elvis Presley.  Við Jakob Bjarnar vinur minn göntuðumst með það einu sinni að þegar við færum á elliheimili myndum við efna til ritdeilu um Elvis Presley. Ég ætlaði að skrifa greinar í Velvakanda undir nafninu „Einn á Grund“. Átti að halda því fram að Elvis hefði verið asnalegur. Jakob ætlaði að svara og segja að hann hefði verið frábær.

Annars væri ekki erfitt fyrir mig að halda fram þessum málstað – þegar ég var að alast upp var Elvis með því hallærislegasta sem hugsast gat. Eins og ofvaxinn hani á sviði í Las Vegas. Nýkominn úr hernum. Hafði leikið í mörgum leiðinlegum kvikmyndum.

Breska bítlið feykti þessu öllu burt. Og enn finnst mér að Elvis sé fyrst og fremst sætsúpusöngvari. En hann tók tónlist svarta fólksins og gerði hana húsum hæfa fyrir hvíta fólkið Það voru margir svartir tónlistarmenn sem voru miklu betri en Elvis – einn þeirra, Chuck Berry, dó nýskeð í hárri elli. Chuck samdi sín eigin lög, það gerði Elvis ekki.

Þegar Elvis dó var ég í frönskuskóla í Grenoble í Frakklandi. Ég var tiltölulega saklaus unglingur og bókmenntahneigður. Þetta var sami dagur og ég kynntist Matthíasi Viðari. Man að ég sá fréttina á forsíðum blaða þegar ég fór út í búð að kaupa rósavínsflösku til að drekka um kvöldið. Elvis est mort  stóð í blöðunum. Ég var penn í drykkjunni þá. Matthías Viðar kom með fulla flösku af Pernod á stúdentagarðinn til mín – gerðist nokkuð drukkinn. Ég var ekki alveg undirbúinn undir það. En Matthías var ógleymanlegur maður og ég sakna hans.

 

Þriðjudagur 15.08.2017 - 13:41 - Ummæli ()

Fögur náttúra og skemmtilegt mannlíf á Nýja-Englandi

Við fjölskyldan höfum verið að ferðast um Nýja-England undanfarna viku. Þetta er fjarskalega heillandi svæði með mikili náttúrufegurð og ágætu mannlífi. Við komum hingað sökum þessa að Kári Egilsson sem er fimmtán ára piltur fór hingað á fimm vikna sumarnámskeið í hinum frábæra Berklee College of Music í Boston. Það gekk afar vel, skólinn er mjög stór en sérlega vel skipulagður og kennslan góð – hann fékk svo styrk eftir áheyrnarpróf til að koma aftur í skólann að ári.

Við höfum ekið inn í land og dvalið í Berkshires þar sem er mikið skóglendi og litlir afar þokkafullir bæir. Fórum þar á tvenna tónleika með Boston Symphony Orchestra sem leikur þar á sumarsviði í júlí og ágúst. Síðan fórum við út að ströndinni og gistum á Cape Ann, höfða þar sem eru meðal annars bæirnir Gloucester og Rockport. Víðast hvar er mikil menning, bókabúðir, leihús, tónleikasalir, gallerí – og mikil starfsemi á sumrin og fólk sem er albúið að segja manni frá henni. Fólk er almennt mjög vingjarnlegt þegar kemur út í litlu bæina, þetta er eitthvert frjálslyndasta svæði Bandaríkjanna og margir skýra frá því gagngert að þeir hafi ekki kosið Trump.

Hér eru frábærar strendur sem vita út á sjálft Atlantshafið – sjórinn er frískandi, voldugur og fallegur, talsverður munur á flóði og fjöru.

Í gær snæddum við í Gloucester. Það er mikill sjávarútvegsbær, með stórum flota og frystihúsum. Það var frekar vinalegt fannst okkur að lyktin í bænum minnti helst á Vestmannaeyjar. Líklega fær maður hvergi í heiminum betri humar – og alls kyns skelfisk. Maður gæti sjálfsagt leiðst út í að borða humar í hvert mál, því ekki er hann sérlega dýr.

Íslendingar ferðast mikið til Boston, þarna er svæði sem er stutt frá þeirri merku borg – og óhætt að mæla með til sumarfría. Og reyndar er gott að koma hér á öðrum tímum, því Nýja England er frægt fyrir mikla haust- og vetrarfegurð. Sjálf höfum við aðallega haldið okkur í Massachusetts en skroppið aðeins til New Hampshire og Maine – en hér er eru líka ríki eins og hið fjöllótta og skógi vaxna Vermont.

Læt hér fylgja með myndband þar sem Kári spilar tvö lög með skólafélögum í Berklee.

 

Mánudagur 14.08.2017 - 13:02 - Ummæli ()

Vertu ekki asni

Þetta er mynd sem er farin að dreifast um veraldarvefinn í kjölfar aðgerða nýnasista í Charlottesville í Virginíu. Myndin heitir Don´t Be a Sucker og var gerð á vegum bandarískra stjórnvalda rétt eftir heimsstyrjöldina – til að vara við uppgangi fasisma. Þetta á merkilega vel við enn þann dag í dag.

 

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is