Sunnudagur 4.10.2015 - 18:33 - Ummæli ()

Síðbúinn sigur Jóhönnu

Hún er dálítið skemmtileg könnunin sem Gísli Marteinn Baldursson birti í nýjum þætti sínum og sýnir að Jóhanna Sigurðardóttir nýtur mests álits af forsætisráðherrum Íslands á síðustu áratugum.

Stjórn Jóhönnu skíttapaði Alþingiskosningunum 2013 og fylgi flokks hennar lækkaði um heil 17 prósentustig. Það er hugsanlega mesta fylgistap flokks í stjórnmálasögu Íslands.

En þetta er smá uppreisn æru fyrir Jóhönnu – og hún hefur svosem mátt sækja ákveðna huggun í að fylgið hefur reyst hratt af eftirmönnum hennar sem töluðu sem hæst um að hún ætti að segja af sér á sínum tíma.

Jóhanna er ekki bara hæst, hún er langhæst. Það er greinilegt að þetta fer í taugarnar á sumum hægri mönnum sem hafa skrifað á samskiptamiðla að þetta sé ekkert að marka vegna þess að Jóhanna sé eini vinstri maðurinn sem spurt var um í könnuninni. En það er nú ekki alveg rétt – Steingríms Hermannssonar er fyrst og fremst minnst fyrir að leiða vinstri stjórn.

En um leið má spyrja að því hvernig staða Davíðs Oddssonar væri ef hann hefði haft vit á að hætta fyrir kosningarnar 2003? Það er ekki ólíklegt að þá hefði hann vermt toppsætið, en í staðinn er hann bara miðlungs.

 

fr_20151002_023915

Sunnudagur 4.10.2015 - 10:31 - Ummæli ()

Maher og Dawkins um málfrelsi, vinstrimenn, frjálslyndi og íslamófóbíu

Þetta er úr Real Time, þætti Bills Mahers, frá því í fyrradag. Í viðtali er Richard Dawkins. Þeir vitna í Sam Harris sem hefur talað um „vinstra afturhald“. Hvaða svör hafa menn við þessu?

 

Laugardagur 3.10.2015 - 10:16 - Ummæli ()

Eton-strákurinn á móti syni strætóbílstjórans

Ég las fyrir nokkrum árum bók sem nefnist Waiting for the Etonians. Þetta var stuttu áður en David Cameron tók við embætti forsætisráðherra í Bretlandi og fjallaði um furðulega hátt hlutfall karla innan Íhaldsflokksins sem hafa sótt menntun í Eton, snobbaðasta einkaskóla í heimi, eða í viðlíka stofnunum. Þessir menn voru þá á hraðri leið til valda.

David Cameron er gekk í Eton og sömuleiðis Boris Johnson, borgarstjóri í London, sem stundum hefur verið nefndur sem hugsanlegur eftirmaður hans.

Þetta hefur reyndar oft verið í umræðunni síðan, til dæmis sagði íhaldsmaðurinn Michael Gove, sem þá var menntamálaráðherra, að fjöldi Eton-drengja í innsta hring Camerons væri fáránlega hátt og nefndi að slíkt vígi forréttinda þekktist vart í öðrum löndum.

Nú er enn einn Eton-pilturinn að sækjast eftir háu embætti í Bretlandi. Þetta er auðmaðurinn Zac Goldsmith sem vill verða borgarstjóri í London. Goldsmith gekk í Eton, var reyndar rekinn þaðan stuttu áður en hann kláraði fyrir að reykja kannabis, en fór síðar í Cambridge. Hann veit ekki aura sinna tal – og er nú giftur konu úr hinni frægu fjölskyldu bankamanna, Rothschild.

Goldsmith er frambjóðandi Íhaldsflokksins, en frá Verkamannaflokknum kemur allt öðruvísi maður, þingmaðurinn Sadiq Khan sem er múslimi. Hann er einn átta systkina, sonur strætóbílstjóra sem flutti til Englands frá Pakistan og saumakonu. Hann er alinn upp í blokkarhverfi við mikil þrengsli. Hann var samgönguráðherra í tíð Gordons Brown.

Þeir gætu varla verið ólíkari, en báðir lofa þeir átaki í húsnæðismálum og báðir leggja þeir áherslu á græn málefni og takmörkun bílaumferðar. Báðir eru þeir á móti þriðju flugbrautinni á Heathrow, en hún hefur verið mikið deilumál.

Kosið er í maí og Goldsmith þykir sigurstranglegri. Hann getur haldið því fram að hann sé svo ríkur að enginn geti keypt hann. Khan er ekki eins þekktur, en á móti kemur að hann virkar býsna ekta, eins og það er orðað í Guardian. Það er ákveðin eftirspurn eftir því í stjórnmálunum.

 

Zac-goldsmith-saidq-khan-featured-634x400

Föstudagur 2.10.2015 - 20:06 - Ummæli ()

Kleinuhringir og löggan

Fyrir nokkru var ég staddur í New York. Ég gekk að kvöldlagi inn í búð. Í búðinni fengust meðal annars kleinuhringir. Þar voru meðal viðskiptavina tveir lögregluþjónar úr hinu fræga lögregluliði borgarinnar, NYPD. Þeir voru að kaupa sér box með niðurskornum ávöxtum.

Ég spurði hverju sætti – hví þeir keyptu ekki kleinuhringi eins og bandarískir lögreglumenn almennt?

 

12096267_970938199631900_8979415879155901338_n

 

En nei, sögðu þeir, það er alveg búið. Lögreglan borðar ekki kleinuhringi lengur. Svo héldu þeir út í nóttina með ávextina sína.

Þetta má hins vegar sjá á Facebook-síðu Dunkin’ Donuts. Íslenska lögreglan hópast í kleinuhringina. Kæmi ekki á óvart þótt myndin ætti eftir að fara víða.  Á sama tíma berast þó fréttir um að DD eigi í vandræðum í Bandaríkjunum, þurfi að loka hundrað stöðum og að hlutabréfin hafi fallið um 12 prósent.

 

12075049_462206967291520_7346033863558289452_n

Föstudagur 2.10.2015 - 18:34 - Ummæli ()

Er virkilega ekkert hægt að gera?

Enn ein fjöldamorðin í skóla í Bandaríkjunum, Obama heldur ræðu – frábæra ræðu – og er mikið niðri fyrir. Það er farið að telja, þetta er í sjötta sinn sem hann flytur ræðu af slíku tilefni. Þær virka semsagt ekki neitt ræðurnar, þótt þær séu góðar

Viðbrögð við skotárásinni í Oregon í gær eru víðast þau að ekki sé hægt að gera neitt – forsetinn hefur greinilega ekki næg völd til að stöðva brjálæðið.

Einn spekingurinn sem er í forsetaframboði fyrir Repúblikanaflokkinn sagði eftir síðustu eða þarsíðustu árás að best væri ef allir væru með nógu öflugar byssur – þá gætu menn til dæmis varið sig ef einhver færi að skjóta í bíó.

Þessi tölfræði hér er eiginlega alveg brjálæðisleg. Þarna má sjá muninn á því hversu miklu fleiri Bandaríkjamenn deyja af byssuskotum heima fyrir og af völdum hryðjuverka. Munurinn er þúsundfaldur.

 

12120044_10154115905481509_2227027035749703073_o

Föstudagur 2.10.2015 - 09:52 - Ummæli ()

Uppselt til Íslands?

Það eru litlar líkur á að túristabólan íslenska springi eða hjaðni. Ísland liggur allt í einu um þjóðbraut þvera. Eitt sinn lentu hér örfáar flugvélar á dag – nú eru flug sem hingað koma talin í tugum. Þar á meðal eru flugfélög eins og Easy Jet, Lufthansa, Delta og British Airways. Og svo hin stóraukni farþegafjöldi hjá Icelandair og Wow.

Hingað koma stjörnur eins og Justin Bieber og básúna á samskiptamiðlum hvað landið sé stórkostlegt. Ég tek mið af erlendum vinum mínum sem fyrir fáum árum hefði ekki dottið í hug að koma hingað – nú segjast þeir allir vera á leiðinni, þeir sem eru ekki búnir að koma.

Ég tók lítið próf á netinu í gær þar sem var spurt til hverra af 250 af helstu áfangastöðum veraldar ég hefði komið. Þar á meðal voru fjórir staðir á Íslandi: Gullfoss, Geysir, Þingvellir og Blá Lónið. Það er býsna hátt hlutfall. Allt vinnur þetta saman til að gera Ísland að miklu ferðamannalandi til framtíðar.

Á næsta ári segja þeir að tala ferðamanna verði 1,5 miljón og svo 2 milljónir eftir fáein ár.

En við erum alls ekki búin undir að taka við slíkum fjölda. Það þarf að gera verulegt átak í að bæta innviðina og efla menntun tengda ferðamennsku. Öll umræða um ferðaþjónustuna er hippsum happs og það skortir algjörlega frumvkæði og sýn frá stjórnvöldum. Aðgerðaleysi þeirra í málefnum ferðaþjónustunnar er eiginlega ráðgáta. Hverju er um að kenna, sofandahætti, áhugaleysi – eða því að þeir sem standa að ríkisstjórninni eru hallir undir aðrar atvinnugreinar?

Ef ekki verður gerð gangskör að því að byggja betur upp innviðina, þá fer að verða spurning hvort við þurfum að beita aðgangskvótum – segja einfaldlega að það sé uppselt á Íslandi?

 

Fimmtudagur 1.10.2015 - 19:36 - Ummæli ()

Ólöf inn, Hanna Birna út?

Nú er nokkurn veginn gengið út frá því að Ólöf Nordal bjóði sig fram sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hanna Birna Kristjánsdóttir mun þá líklega draga sig í hlé, því varla fer hún út í vonlítinn slag við Ólöfu.

Áskoranir á Ólöfu um að bjóða sig fram berast víða að – þetta virkar eins og herferð sem lýtur nokkru skipulagi.

Ásdísi Höllu Bragadóttur er mjög heitt í hamsi og hún sakar forystumenn í Sjálfstæðisflokknum um að „sparka í liggjandi konu“, og bætir við að einelti sé „ógeð“.

En stjórnmál eru náttúrlega óvægin – fleyg eru orðin: „All political lives end in failure.“ Öll líf í stjórnmálum enda í ósigri. Kannski er skiljanlegt að flokksmenn vilji ekki hafa leiðtoga sem liggur.

Ólöf er nokkuð vinsæll stjórnmálamaður, óneitanlega. En hún hefur aldrei verið þekkt fyrir að rugga neinum bát. Hún var varaformaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 2010-2013 en hætti svo um tíma í pólitík. Hún situr raunar ekki á þingi, heldur gegnir einungis embætti innanríkisráðherra.

En kannski skiptir litlu máli í hinu stóra samhengi hver er varaformaður Sjálfstæðisflokksins, þetta er einhvern veginn ekki sama tignarstaða og forðum tíð. Varaformaðurinn er klappaður upp á landsfundi, fær myndir af sér í fjölmiðlunum með formanninum en síðan gleyma flestir hver er í þessu djobbi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur afar lítið fylgi núorðið meðal ungs fólks, hann er fylgismestur hjá þeim sem eru komnir yfir fimmtugt. Það er afskaplega ólíklegt að þessar varaformannshrókeringar breyti einhverju þar um – kannski væri nær að leita aðeins út fyrir þrengsta hringinn?

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is