Mánudagur 20.10.2014 - 15:49 - Ummæli ()

Afstýrum verkfalli tónlistarkennara

Ég ætla ekki að trúa því upp á sveitarfélögin í landinu að þau láti viðgangast að tónlistarkennarar fari í verkfall sem gæti orðið langt og strangt. Verkfallið á að hefjast á miðvikudaginn.

Því tónlistarkennarar hafa kannski ekki ýkja mikinn slagkraft í verkfalli – það gerist jú ekki annað en að börn og unglingar missa af spilatímum og tímum í tónfræði.

En gleymum því ekki að tónlistarkennslan í landinu er afar verðmæt. Hún hefur orðið þess valdandi að Íslendingar – sem áttu sama og enga tónlist á árum áður – eru nú mikil tónlistarþjóð. Tónlistin ber hróður okkar víða um álfu – ekkert bætir heldur geð landans eins og hún.

Góðir tónlistarskólar hafa verið stolt sveitarfélaga. Það eru dæmi um að fólk vilji ekki flytja á staði þar sem er ekki almennilegt tónlistarnám.

En því miður hefur verið þrengt að tónlistarnáminu á undanförnum árum. Kennslan hefur minnkað – og laun tónlistarkennara hafa dregist aftur úr.

Manni heyrist að hvorki gangi né reki í samningaviðræðunum – og að uppi séu hægræðingarhugmyndir sem gætu stórskaðað tónlistarnámið. Það er ekki hægt að skera meira án þess að það bitni á gæðum námsins.

Maður vonar að það sé ekki satt, að sveitarfélögin nálgist þessa samninga af jákvæðni og sanngirni – studdir vonandi dyggilega af tónelskum menntamálaráðherra sem sjálfur leikur vel á hljóðfæri eftir að hafa notið tónlistarnáms í æsku.

 

10305039_10152425233173587_6411641709163378943_n

 

 

Mánudagur 20.10.2014 - 12:20 - Ummæli ()

Vesturfarar 9. þáttur – horfið hér

Hér má sjá 9. þátt Vesturfara sem sýndur var í sjónvarpinu í gærkvöldi.

Þarna erum við komin til Alberta, undir Klettafjöllin, en þar nam skáldið Stephan G. Stephansson land og þar búa afkomendur hans enn.

Horfið á þáttinn með því að smella hérna.

9 tattur

Mánudagur 20.10.2014 - 10:08 - Ummæli ()

Gáttin er opin

Því miður hefur fjölgað mjög í hópnum Mótmælum mosku á Íslandi. Síðast þegar ég tékkaði voru meðlimir um 2000, nú eru þeir 5026.

Samhliða því er vefurinn orðinn miklu harðari, orðbragðið er orðið ljótara en áður, stafsetningin verri, hatrið meira – og allt saman ógeðfelldara.

Það er vísast alveg rétt sem sagt var, það var opnað fyrir gátt síðastiðið vor og óhroðinn streymir út, samanber þessa færslu sem virðist vera komin frá sjálfum ritstjóra vefsins – hver sem hann er.

 

10015169_10204385244849764_810676855483747167_n

Það er spurning hvernig á að tækla svona. Guðfræðingurinn Bjarni Randver Sigurvinsson reynir malda í móinn, en fær yfir sig skammir. Bjarni er formaður Starfshóps þjóðkirkjunnar um samskipti við önnur trúarbrögð. Hann spyr:

Kæru vinir úr samtökunum Mótmælum mosku á Íslandi, hvernig getið þið stutt hatursboðskapinn sem þau standa fyrir og boða upp á hvern einasta dag?

 

Sunnudagur 19.10.2014 - 23:13 - Ummæli ()

Að sættast við höftin

Það er merkilegt að heyra tóninn í umræðunni um efnahagsmál þessa dagana. Hann hefur nefnilega breyst. Maður heyrir æ fleiri segja að það sé barasta allt í lagi að hafa gjaldeyrishöft.

Höftin séu heldur ekki neitt í líkingu við það sem var hér á árum áður – almenningur hafi aðgang að neysluvarningi og þetta komi okkur í raun ekkert illa.

Eina leiðin til að viðhalda stöðugleika í íslenska hagkerfinu sé að halda áfram með höft.

Nú má vera að í þessu felist að einhverju leyti játning á vanmætti – að menn treysti sér alls ekki til að afnema höftin. Það getur jú haft í för með sér gengisfall, verðbólguskot, hækkun á verðtryggðum lánum, og jú, þá þarf kannski aftur að leiðrétta forsendubrest.

Hugsanlega myndi engin ríkisstjórn þola að ganga í gegnum slíkt – þá er kannski betra að leita skjóls í tali um að höftin séu ekki svo slæm.

Um það eru þó væntanlega deildar meiningar. Hjálmar Gíslason, stofnandi upplýsingafyrirtækisins DataMarket, spyr á Facebook:

Er það bara ég, eða er alls konar fólk farið að færa rök fyrir að höftin séu nú ekkert svo skaðleg og kannski sé nú bara best að hafa þau áfram? Hvort er það veruleikafirring, skilningsleysi eða hagsmunapot?

Aðspurður um skaðsemi haftanna svarar Hjálmar:

1. Höftin koma í veg fyrir að alþjóðleg fyrirtæki byggist upp með höfuðstöðvar á Íslandi. Það stuðlar að áframhaldandi fábreytilegri atvinnusamsetingu.

2. Ungt fólk sem hefur sérhæft sig hefur ekki sömu möguleika á að nýta þá sérþekkingu í fábreytilegu umhverfi og er líklegara til að ílengjast erlendis (eða flytja þangað sé það heima).

3. Möguleikar fólks til að fjárfesta sparifé sínu skynsamlega eru nánast engir innan hafta og það situr því uppi með að blása í blöðruna sem það er þegar fast inni í (svolítið eins og Cirque du Soleil atriði).

Lágu launin eru sannarlega ekki vegna haftanna, heldur vegna hrunsins, en innan hafta verður gengið aldrei aftur hagstætt venjulegu fólki (bara atvinnurekendum í útflutningi).

 

Sunnudagur 19.10.2014 - 12:21 - Ummæli ()

Vesturfarar í kvöld – Stephan og Iris

Níundi þáttur Vesturfara er á dagskrá sjónvarpsins í kvöld klukkan 20.10

Í þessum þætti förum við til Albertafylkis, vestur undir Klettafjöllum, á slóðir skáldsins Stephans G. Stephanssonar.

Stephan nam þvívegis land í Ameríku, síðast í Markerville í Alberta. Hús hans þar er safn, ekki bara um hann, heldur líka um lífshætti landnema í vestrinu.

Í þættinum kynnumst við tveimur eftirlifandi barnabörnum Stephans G., Iris Bourne sem hefur fengist við búskap allt sitt líf og Stephan Benediktson, sem hefur starfað við olíuboranir víða um heim. Móðir þeirra var Rósa, yngsta barn skáldsins.

Rósa var fædd 1900 og dó 1995. Maður hennar var Sigurður Benediktsson, en hann dó fyrir aldur fram 1942, en eftir það þurfti Rósa að sjá fyrir börnum sínum. Stephan fór að vinna í olíuiðnaði en Iris hélt tryggð við sveitina og hefur stundað búskap allt sitt líf.

 

tvo

Iris og Stephan í gamla skólanum í Markerville. Þetta var hús með einni skólastofu og þar bjó kennslukonan.

 

Laugardagur 18.10.2014 - 22:39 - Ummæli ()

Stærsta málið

Þetta er stærsta mál samtímans – einfaldlega vegna þess að það snertir öll hin.

1 prósent mannkynsins á helminginn af auði veraldarinnar – og þessi skekkja hefur farið versnandi á undanförnum árum.

Við getum varla kallað þetta annað en tortímingarbraut. Afleiðingin getur ekki verið önnur en ófriður og óöld – sagan á að hafa kennt okkur það –  og einnig þykir víst að að aukinni misskiptingu fylgir efnahagslegur samdráttur.

Því auðurinn er ekki að leka niður – eins og ein kenningin sagði.

inequality-illo

 

 

Laugardagur 18.10.2014 - 14:29 - Ummæli ()

Lekinn og samráð skipafélaganna

Leki úr ráðuneyti sem varðar einkamál fólks – og þar sem hafði verið átt við gögn ráðuneytisins – bætt við niðrandi upplýsingum neðanmáls, er ekki sambærilegur við leka úr opinberri stofnun sem tengist meintum langavarandi brotum stærstu fyrirtækja landsins.

Það er meira að segja komið fram í umræðunni að Eimskip hefði átt að tilkynna um rannsókn Samkeppniseftirlitsins til Kauphallar Íslands. Hluthafar í Eimskip hafa hugsanlega átt kröfu á að vita þetta allir með tölu.

Nú hefur málið verið sent til sérstaks saksóknara – ekki veit maður hvaða bolmagn sú stofnun hefur til að rannsaka það eftir mikinn niðurskurð. Málið gæti semsagt dregist á langinn. Það er slæmt.

Varla ætla menn að reyna að halda því fram að það varði ekki allan almenning ef stærstu skipafélög landsins, einráð á markaði, gerast sek um alvarleg lögbrot?

Ólíklegt verður að teljast að slíku yrði haldið leyndu um langt skeið í nokkru erlendu ríki.

Gamalreyndur blaðamaður, Ómar Valdimarsson, orðar þetta svo á Facebook:

Leki er ekki endilega hið sama og leki. Eitt er að leka upplognum pappírum til að koma höggi á fólk sem á undir högg að sækja og annað að leka staðfestum upplýsingum sem almenningur á heimtingu á að hafa aðgang að. Hugarfar þess sem lekur skiptir einnig máli: er hann að koma öðrum illa eða vill hann koma fleirum vel?

 

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is