Föstudagur 6.5.2016 - 07:00 - Ummæli ()

Frambjóðandi sem getur höfðað til miðjunnar, vinstri og hægri

Við lifum á óvissu- og átakatímum í pólitík.

Eitt einkenni þess er að menn feykjast upp í há embætti sem þá eða aðra hefði aldrei órað fyrir að þeir myndu gegna. Þeir sem hafa hins vegar sóst lengi eftir slíkum stöðum, kannski haft auga á þeim frá ungum aldri, koma ekki til álita.

Grínistinn Jón Gnarr verður borgarstjóri. Háskólaneminn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður forsætisráðherra. Sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson verður ef til vill forseti.

Hann hafði ekki einu sinni verið orðaður við embættið fyrir rúmum mánuði!

Nú er svosem ekki gefið að Guðni vinni Ólaf Ragnar – en framboð hans ber upp á sama tíma og forsetinn til tuttugu ára er í veiklaður vegna uppljóstrana um fjármál eiginkonu hans. Kannski er þetta eitthvað sem hefði getað komið fram fyrr – en þá voru menn ekki að spyrja. Þetta er eitthvað sem ekki var hægt að sjá fyrir; tíðarandinn hefur breyst. Eiginkona sem var forsetanum mikill akkur er nú orðin akkilesarhæll.

Hitt er svo merkilegt við Guðna að hann virðist höfða til fólks alls staðar á pólitíska litrófinu. Maður heyrir af vinstra fólki sem vill kjósa hann, miðjumönnum, framsóknarmönnum, fólki hægra megin, sjálfstæðismönnum.

Það er dálítið óvenjulegt á átakatímum eins og þessum að finna frambjóðanda sem getur höfðað til fólks með svo ólíkar stjórnmálaskoðanir. Manni dettur helst í hug Kristján Eldjárn árið 1968. Það gleymist stundum að margt fólk af hægri væng studdi Kristján.

Guðni virðist nánast þurrka út fylgi Andra Snæs Magnasonar og hann gerir sig líklegan til að höggva mjög í raðir fylgismanna Ólafs Ragnars – eða þeirra sem hefðu endað með að kjósa hann enn einu sinni.

Svo má heldur ekki gleyma þeim sem munu fyrst og fremst kjósa á móti Ólafi Ragnari, velja hvern þann sem er líklegastur til að koma honum frá. Ef marka má umræður á internetinu er það eigi alllítill hópur. Ólafur Ragnar hefur jú afrekað það á ferli sínum að skipta um fylgissveit. Hann var kosinn af vinstra fólki 1996, en í síðustu kosningum kom fylgi hans einkum frá hægri.

Hrifning sjálfstæðismanna af honum hefur þó alltaf verið mjög blendin. Þeir hafa ekki haft djúpa sannfæringu fyrir kostum Ólafs.

 

538038234_1280x720

 

Fimmtudagur 5.5.2016 - 14:12 - Ummæli ()

Forsetakosningar – hvaða erindi eiga frambjóðendur?

Það fer kannski að verða kominn tími til að umræður um forsetakosningar hætti að snúast eingöngu um persónur og fari að nálgast umfjöllun um pólitík – jafnvel framtíðarsýn. Það má líka spyrja hvaða erindi frambjóðendur eiga.

Mín sýn er að for­seti standi utan fylk­inga í átaka­mál­um sam­tím­ans. Fólkið í land­inu á að finna að for­set­inn sé ekki í einni fylk­ingu frek­ar en ann­arri, en að hann verði fast­ur fyr­ir þegar á þarf að halda og leiði mál til lykta þegar þau kom­ast í öngstræti.

Þetta segir Guðni Th. Jóhannesson í viðtali við Mbl.is í dag.

Þetta virðist nokkuð önnur sýn en Ólafur Ragnar Grímsson hefur haft á embættið í seinni tíð. Ólafur hefur til dæmis verið mjög virkur í mótun utanríkisstefnu Íslands, hann hefur verið lítt hallur undir Evrópusambandið og lagt áherslu á samskipti við ríki annars staðar í veröldinni. Hefur jafnvel verið sagt að ríkisstjórnin sem nú situr hafi fylgt utanríkisstefnu Ólafs. Önnur arfleifð Ólafs er hin mikla áhersla á Norðurskautið.

Ólafur hefur viljað fara varlega í breytingar á stjórnarskránni sem  hann telur hafa dugað vel – og auðvitað kastaði hann sér út í hin pólitísku átök þegar hann neitaði tvívegis að skrifa undir Icesavesamninginn. Þannig varð Icesave að stærsta átakamáli eftirhrunsáranna.

Orð Guðna munu væntanlega skýrast betur þegar kemur út í kosningabaráttuna, hann er öðrum fróðari um forseta Íslands. Vigdís Finnbogadóttir og Kristján Eldjárn stóðu náttúrlega „utan fylkinga í átakamálum“. Hins vegar má alveg deila um hvað þau voru „föst fyrir“.

Annar forsetaframbjóðandi, Andri Snær Magnason, slær nokkuð annan tón í grein sem birtist á Vísi.is. Andri er náttúrlega þekktur fyrir ódeiga baráttu fyrir umhverfisvernd. Andri tekur líka skýra afstöðu með nýrri stjórnarskrá og segir að verði að ljúka stjórnarskrárferlinu sem hófst á síðasta kjörtímabili en „dagaði upp í deilum og dægurþrasi þingmanna þvert á flokka“.

Kynslóðirnar á undan færðu okkur sjálfstæði, landhelgi og fyrsta kvenforseta heimsins. Við getum fært framtíðinni nýja stjórnarskrá og látið aðferðina og ferlið hvernig hún var unnin lýsa út um allan heim.

Fimmtudagur 5.5.2016 - 11:31 - Ummæli ()

Forsetinn og þjóðkirkjan

Hinn lúterski biskup Íslands telur að forseti ætti að tilheyra þjóðkirkjunni. Þetta hefur reyndar oft áður ómað í kosningum. Agnes Sigurðardóttir sagði þetta líka á tíma síðustu forsetakosninga.

Agnes hefur sagt að forsetinn sé verndari þjóðkirkjunnar og að vígsla hans fari fram við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni.

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson var kosinn forseti 1996 var þetta talsvert til umræðu – og það var fundið honum til foráttu að hann væri hugsanlega ekki nógu vel kristinn.

Ólafur hafði sagt í viðtali í Helgarpóstinum mörgum árum áður að hann tilheyrði þjóðkirkjunni en væri nokkuð viss um að guð væri ekki til.

En í kosningabaráttunni tók hann af skarið til að lægja öldur kringum trúmálin og sagði í viðtali hálfum mánuði fyrir kosningar:

„Auðvitað er ég kristinn maður eins og þorri þjóðar­innar og hef verið í þjóð­kirkjunni, skírður og fermdur og trúi á þann Guð, sem að sérstaklega amma mín kenndi mér að trúa á.“

Það eru dálítið breyttir tímar. Skiptir það almenning einhverju máli hverrar trúar forsetinn er, hvaða trú- eða kirkjudeild hann tileyrir eða hvort hann er trúlaus með öllu?

Guðni Th. Jóhannesson hefur sagt hreinskilnislega frá því að hann standi utan trúfélaga, hafi verið skírður til kaþólskrar trúar en hafi sagt sig úr kirkjunni vegna glæpa þjóna hennar. Trúarjátning hans sé mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna.

Miðvikudagur 4.5.2016 - 14:31 - Ummæli ()

Engin flóttaleið út í geim

Barack Obama kom til Evrópu um daginn og varaði við þeirri ógæfu að Evrópusambandið liðaðist í sundur. Hann sagði að það væri mikilvægt fyrir allan heiminn að Evrópuríki störfuðu saman.

Nú er orðið ljóst að Donald Trump verður frambjóðandi Repúblikana, annars af stóru flokkunum í Bandaríkjunum, í forsetakosningum í nóvember.

Þetta eru tíðindi sem vekja ótta og ugg.

Nú þarf að vara Bandaríkjamenn alvarlega við, rétt eins og Obama gerði við okkur í Evrópu um daginn – leiða þeim fyrir sjónir að það yrði alheimsógæfa ef slíkur fordómafullur lýðskrumari, rasisti og kvenhatari, sem höfðar til lægstu hvata kjósenda, yrði forseti.

Þetta varðar ekki bara Bandaríkin heldur allan heiminn. Embætti Bandaríkjaforseta er svo valdamikið að undan áhrifum þess sleppur maður varla nokkurs staðar á jarðarkringlunni. Og það er ekki ennþá búið að finna almenna flóttaleið út í geim.

 

Miðvikudagur 4.5.2016 - 07:01 - Ummæli ()

Bananalýðveldi

Hér heima er bollalagt um hvort spilling í stjórnmálum hafi áhrif á orðspor Íslands í útlöndum.

Á vef TV2 í Danmörku birtist grein þar sem segir beint út að Ísland sé bananalýðveldi.

Þetta er reyndar dálítið villandi því greinin fjallar aðallega um bananaræktun sem eitt sinn var stunduð hér í gróðurhúsum.

Íslendingar voru mjög ánægðir með þetta, þeir töldu sig vera eina landið í Evrópu þar sem bananar væru ræktaðir,  og erlendir tignarmenn voru gjarnan dregnir í gróðurhús og látnir borða banana.

Hér er til dæmis frétt í Morgunblaðinu frá 1966. Þarna segir frá heimsókn U Thants, aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Hann fór í gróðurhús í Hveragerði með Emil Jónssyni utanríkisráðherra og fékk auðvitað banana.

Screen Shot 2016-05-04 at 07.07.21

 

Nú er öldin önnur. Íslendingar eru hættir að vera svona barnslega stoltir af banönunum sínum. Nú nota þeir innflutta banana, og eins og segir í greininni á vef TV2 er þeim varpað að litla gráa húsinu þar sem þing landsins kemur saman, til að minna stjórnmálamenn á að þeir hafi gert Ísland að bananalýðveldi – líkt og greinarhöfundur, Lars Toft Rasmussen, orðar það.

Þriðjudagur 3.5.2016 - 14:44 - Ummæli ()

Við Bragi – nú og fyrir 35 árum

Það er farið að teygjast aðeins úr þessum ferli mínum í fjölmiðlum. Nú í upphafi maímánaðar eru 35 ár síðan ég byrjaði í blaðamennsku. Ég fyllist hljóðri skelfingu við þessa tilhugsun. En það er best að rövla sem minnst, svo maður minni ekki á leigubílstjórann í Spaugstofunni.

Þetta átti ekki að verða langt, ég ætlaði bara aðeins að prófa.

Ég byrjaði sem skrifandi blaðamaður og var það alfarið fram undir 1990. Þá fór ég að koma fram í sjónvarpi – sem varð aðalvettvangur minn 1999.

Fyrsta greinin sem ég skrifaði sem blaðamaður birtist í Helgarblaði Tímans 10. maí 1981. Þá sátum við Illugi Jökulsson á skrifstofu í Skipholti og skrifuðum um pönk fyrir íslenska bændur.

Við heyrðum þá ekki kvarta mikið, en Helgar-Tíminn varð dálítið kúltblað í Reykjavík. Við vorum ekki nema rúmlega tvítugir – og má segja að Framsóknarflokkurinn hafi treyst okkur fyrir nokkuð miklu.

Greinin fjallaði um hljómsveitina Purrk Pilnikk. Hún er ekkert sérlega góð, það er á henni skólablaðsbragur og orðalag er stundum pínu vandræðalegt. En þetta er ágætlega orðað:

Höfuðóvinirnir eru Leiðindi og Firring og Purrkur Pilnikk telur ekki eftir sér að berjast með kjafti og klóm.

Það er svo einber tilviljun að á þessu afmæli – sem getur ekki talist merkilegt – er ég með viðtal við einn af meðlimum Purrks Pilnikks, Braga Ólafsson. Bragi er nú einn af helstu rithöfundum þjóðarinnar og viðtalið verður sýnt í Kiljunni á morgun.

 

Screen Shot 2016-05-03 at 14.51.46

Myndin er af Einari Erni, ekki Braga. En þeir eru gamlir félagar.

Þriðjudagur 3.5.2016 - 09:28 - Ummæli ()

Ríkisstjórn sem virtist dauðvona komin með viðspyrnu

Okkur Íslendingum er ekki fisjað saman. Nú er því spáð að vöxturinn í einkaneyslu verði slíkur að standist samjöfnuð við hið fræga ár 2007.

Hagvöxturinn, segir ASÍ, verður 4,9 prósent í ár og 3,8 prósent næstu árin. Það er fyrst og fremst ferðaþjónustan sem knýr þetta áfram. Hún er ekki bara stærsta atvinnugreinin – hún er orðin langstærst.

Ungt fólk situr að vísu eftir – við sem eldri erum sölsum of mikið til okkar og látum ekki það sem við höfum komist yfir.

Á sama tíma birtist Gallupkönnun sem sýnir dálítið athyglisverða stöðu. Pólitískur órói apríl- og marsmánaða vegna Panamauppljóstrana, öll hin mikla spillingarumræða, mælist öðruvísi í fylgistölum en menn hefðu almennt búist við.

Sjálfstæðisflokkurinn er yfir kjörfylgi sínu með 27 prósent, Píratar halda áfram að dala og eru með 26,6 prósent. Framsóknarflokkurinn með sinn nýja forsætisráðherra er á svipuðu róli og löngum á þessu kjörtímabili, með 10,5. Og stuðningur við ríkisstjórnina eykst og er nú 37,3 prósent. Kannski þarf Framsókn ekki á Sigmundi Davíð að halda?

Fylgisaukning Vinstri grænna staðfestist í könnuninni, flokkurinn mælist með 18,4, en það virðist vera að fylgi sé einfaldlega að leita frá Pírötum til VG. Þetta er hreyfingin sem er á fylgi stjórnarandstöðunnar, í heildina bætir hún ekkert við sig.

Miðað við þetta, hagvöxtinn, líkleg fjárútlát úr ríkissjóði fyrir kosningar, verður ekki annað séð en að ríkisstjórnin sem virtist vera dauðvona um tíma sé komin með talsverða viðspyrnu.

Þó líklegra enn sem komið er að stjórnarandstöðuflokkar taki við stjórnartaumunum eftir kosningar (sem er óhjákvæmilegt að halda í haust eftir fjölda yfirlýsinga á þann veg). Samt á eftir að koma í ljós hvernig þeim tekst að stilla upp sínu liði. Það gæti verið að kjósendur fengju jafnvel skýrt val milli stjórnarflokka og stjórnarandstöðu – sem er fremur óvenjulegt í íslenskum stjórnmálum.

Svo er náttúrlega hugsanlegt að einhver flokkur sjái sér hag í að stökkva í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki ef þá vantar ekki nema nokkra þingmenn upp á. Það er vel mögulegt að slík staða kæmi upp. Sá flokkur fengi þá að vera með í að ausa út gæðum sem fylgja hagvaxtar- og neysluskeiðinu sem blasir við. Það er kannski til nokkurs að vinna.

Ég man allavega samfylkingarmanninn sem sagði við mig árið 2007 að það væri nauðsynlegt fyrir Samfylkinguna að komast í ríkisstjórn til að hún fengi að komast í það verkefni að útdeila öllum þeim fjármunum sem þá flæddu um samfélagið og í ríkiskassann. Samfylkingin komst í stjórn þá um vorið – en það endaði náttúrlega frekar illa.

 

8cz3j2ix

 

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is