Sunnudagur 20.4.2014 - 22:08 - Ummæli ()

Að lenda á lista sem maður gæti ekki hugsað sér að kjósa

Sjálfstæðisflokkurinn kynnti fyrir helgi stefnumál sín í borgarstjórnarkosningunum í lok maí.

Oddviti flokksins, Halldór Halldórsson, talaði af því tilefni um að þyrfti að „taka upp“ nýtt aðalskipulag borgarinnar.

En nú vill svo til að í fjórða og fimmta sæti framboðslistans sitja þær Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Friðriksdóttir.

Báðar greiddu þær atkvæði með aðalskipulaginu nýja þegar það var samþykkt í borgarstjórn í nóvember síðastliðnum.

Þá var haft eftir Hildi á vefnum vísir.is að hún sé sammála áherslum aðalskipulagsins í þróun borgarinnar.

Hildur segir aðalkost skipulagsins vera áhersluna á að skapa nýja valkosti, annars vegar með góðri þéttri byggð og hins vegar góðum úthverfum, svo fólk geti valið hvernig það vill búa. „Þétting byggðar er þó vandmeðfarin, því það verður að passa upp á hagsmuni núverandi íbúa, eins og segir í tillögunni sem ég flutti fyrir hönd okkar í dag.“ Tillaga Sjálfstæðismanna var samþykkt samhljóða, en þar sagði að gæta þyrfti að bílastæða- og grunnþjónusturéttindum þeirra sem fyrir eru í eldri hverfunum.

Einn aðalhöfundur aðalskipulagsins er Gísli Marteinn Baldursson. Hann starfaði að gerð þess allt frá 2006, og er sá borgarfultrúi sem lengst hefur komið að málinu, eins og kemur fram í viðtali við Gísla Martein í Morgunblaðinu um helgina.

Gísli segir ennfremur í viðtalinu að hann hafi óttast það að hann gæti lent í þeirri stöðu að leiða lista sem hann gæti ekki hugsað sér að kjósa.

Það var einróma, allir voru á því að ég ætti að hætta og fara í sjónvarpið. Og þessir vinir mínir eru flestir sjálfstæðismenn en eru eins og margir þreyttir á íhaldsseminni í flokknum. Þeim fannst, eins og ég hafði á tilfinningunni sjálfur, að jafnvel þótt ég ynni prófkjörið gæti ég lent í þeirri stöðu eftir endalausar málamiðlanir og endanlega niðurröðun lista, sem oddvitinn hefur ekkert um að segja, að leiða lista sem ég gæti ekki hugsað mér að kjósa.

Sunnudagur 20.4.2014 - 16:46 - Ummæli ()

Bara 41 af 50

Mbl.is tekur saman lítið próf úr öndvegisritalista Kiljunnar.

Maður getur hakað við til að sjá hverjar af 50 efstu bókunum maður hefur lesið.

Ég ætla að gera játningu – útkoman varð að ég hef bara lesið 41.

Sum rit hefur maður reyndar ekki lesið nema að hluta til – það á við um Eddu og Sturlungu.

En þetta er kannski ekki nógu gott.

Hér má finna prófið á Mbl.is.

Saga_Sturlunga_AM_122_a_fol

Margir hafa lesið eitthvað í Sturlunga sögu, en færri hafa lesið ritið allt. Þetta er myndskreytt síða úr Króksfjarðarbók sem er annað meginhandrit Sturlungu.

Laugardagur 19.4.2014 - 14:37 - Ummæli ()

Öndvegisrit í bókabúðum, höfundur Njálu, listinn allur

Val okkar í Kiljunni á íslenskum öndvegisbókum hefur vakið mikla athygli – og þá er tilganginum náð. Ég hef frétt af bókmenntaumræðum í framhaldi af þessu í heitum pottum sundlauga. Bókaforlögin og bókaverslanir hafa líka kíkt á listann. Í Eymundsson í Austurstræti er að finna borð bókum úr þessu vali og líka í bókaverslun Forlagsins á Fiskislóð. Þessi ljósmynd er þaðan.

10156092_685674428146052_5885816678937355954_n

Og til glöggvunar, hér er listinn frá 1-300. Hann hefur ekki verið settur fram áður svona í heild sinni. Og meðan ég man – hver var það sem samdi bókina sem er í fyrsta sæti?

1. Brennu-Njálssaga – Höfundur óþekktur

2. Sjálfstætt fólk – Halldór Laxness

3. Íslandsklukkan – Halldór Laxness

4. Ljóðmæli – Jónas Hallgrímsson

5. Egilssaga – Snorri Sturluson (?)

6. Englar alheimsins – Einar Már Guðmundsson

7. Heimsljós – Halldór Laxness

8. Salka Valka – Halldór Laxness

9. Passíusálmar – Hallgrímur Pétursson

10. Þjóðsögur – Útg. Jón Árnason

11. Ofvitinn – Þórbergur Þórðarson

12. Himnaríki og helvíti/Harmur englanna/Hjarta mannsins – Jón Kalman Stefánsson

13. Svartar fjaðrir – Davíð Stefánsson

14. Jón Oddur og Jón Bjarni – Guðrún Helgadóttir

15. Bréf til Láru – Þórbergur Þórðarson

16. Laxdælasaga – Höfundur óþekktur

17. Snorra-Edda – Snorri Sturluson

18. Kristín Marja Baldursdóttir – Karitas án titils/Óreiða á striga

19. Djöflaeyjan – Einar Kárason

20. Híbýli vindanna/Lífsins tré – Böðvar Guðmundsson

21. Tíminn og vatnið – Steinn Steinarr

22. Tómas Jónsson metsölubók – Guðbergur Bergsson

23. Fátækt fólk – Tryggvi Emilsson

24. Punktur punktur komma strik – Pétur Gunnarsson

25. Aðventa – Gunnar Gunnarsson

26. Sturlunga/Íslendingasaga – Sturla Þórðarson

27. Dalalíf – Guðrún frá Lundi

28. Afleggjarinn – Auður Ava Ólafsdóttir

29. Gerpla – Halldór Laxness

30. Eddukvæði – Ýmsir höfundar

31. Kvæðasafn – Steinn Steinarr

32. Brekkukotsannáll – Halldór Laxness

33. Fjallkirkjan – Gunnar Gunnarsson

34. Svartfugl – Gunnar Gunnarsson

35. Heimskringla – Snorri Sturluson

36. Hávamál – Höfundur óþekktur

37. Úr landsuðri – Jón Helgason

38. Blóðhófnir – Gerður Kristný

39. Sálmurinn um blómið – Þórbergur Þórðarson

40. Sagan hans Hjalta litla – Stefán Jónsson

41. Dægradvöl – Benedikt Gröndal

42. Leigjandinn – Svava Jakobsdóttir

43. Ljósa – Kristín Steinsdóttir

44. Piltur og stúlka – Jón Thoroddsen

45. Völuspá – Höfundur óþekktur

46. Skugga-Baldur – Sjón

47. Svar við bréfi Helgu – Bergsveinn Birgisson

48. Grettis saga – Höfundur óþekktur

49. Íslenskur aðall – Þórbergur Þórðarson

50. Gunnlaðarsaga – Svava Jakobsdóttir

51. Óvinafagnaður/Ofsi/Skáld – Einar Kárason

52. Grámosinn glóir – Thor Vilhjálmsson

53. Tímaþjófurinn – Steinunn Sigurðardóttir

54. Hálendið í náttúru Íslands – Guðmundur Páll Ólafsson

55. Fagra veröld – Tómas Guðmundsson

56. Sagan af bláa hnettinum – Andri Snær Magnason

57. Draumalandið – Andri Snær Magnason

58. Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns – Ásta Sigurðardóttir

59. Þorpið – Jón úr Vör

60. Á meðan nóttin líður – Fríða Á. Sigurðardóttir

61. Kaldaljós – Vigdís Grímsdóttir

62. Faðir, móðir og dulmagn bernskunnar – Guðbergur Bergsson

63. Ævisaga Árna Þórarinssonar – Þórbergur Þórðarson

64. Milli trjánna – Gyrðir Elíasson

65. Kristnihald undir Jökli – Halldór Laxness

66. Nonni og manni – Jón Sveinsson

67. Íslenskir þjóðhættir – Jónas frá Hrafnagili

68. Undir kalstjörnu – Sigurður A. Magnússon

69. Mánasteinn – Sjón

70. Grafarþögn – Arnaldur Indriðason

71. Gísla saga Súrssonar – Höfundur óþekktur

72. Að breyta fjalli – Stefán Jónsson

73. Veisla undir grjótvegg – Svava Jakobsdóttir

74. Ljóðmæli – Einar Benediktsson

75. Ósjálfrátt – Auður Jónsdóttir

76. Benjamín dúfa – Friðrik Erlingsson

77. Fjalla-Eyvindur – Jóhann Sigurjónsson

78. Konan við 1000°- Hallgrímur Helgason

79. Halla og heiðarbýlið – Jón Trausti

80. Heljarslóðarorrusta – Benedikt Gröndal

81. Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón – Vigdís Grímsdóttir

82. Skólaljóðin – Kristján J. Gunnarsson tók saman

83. Jólin koma – Jóhannes úr Kötlum

84. Sitji Guðs englar – Guðrún Helgadóttir

85. Mávahlátur – Kristín Marja Baldursdóttir

86. Skálholt – Guðmundur Kamban

87. Dimmalimm – Muggur

88. Gullna hliðið – Davíð Stefánsson

89. Samastaður í tilverunni – Málfríður Einarsdóttir

90. Kvæðakver – Halldór Laxness

91. Atómstöðin – Halldór Laxness

92. Lilja – Eysteinn Ásgrímsson

93. Ævisaga – Jón Steingrímsson eldklerkur

94. Ljóðasafn – Hannes Pétursson

95. Svanurinn – Guðbergur Bergsson

96. Perlur í náttúru Íslands – Guðmundur Páll Ólafsson

97. Vísnabókin – Símon Jóh. Ágústsson og Halldór Pétursson

98. Megas – Textar 1966-2011

99. Gangandi íkorni – Gyrðir Elíasson

100. Andvökur – Stephan G. Stephansson

102. Snaran – Jakobína Sigurðardóttir

103. Landnámabók – Óþekktur höfundur

104. Jón Ólafsson Indíafari – Reisubók Jóns Indíafara

105. Íslendingabók – Ari fróði Þorgilsson

106. Úr Suðursveit – Þórbergur Þórðarson

107. Ferðabók Eggerts og Bjarna – Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson

108. Sumarljós og svo kemur nóttin – Jón Kalman Stefánsson

109. Guðjón Friðriksson – Einar Benediktsson ævisaga

110. Fuglar í náttúru Íslands – Guðmundur Páll Ólafsson

109. Minnisbók – Sigurður Pálsson

111. Höfundur Íslands – Hallgrímur Helgason

112. Galdra- Loftur – Jóhann Sigurjónsson

113. Óðfluga – Þórarinn Eldjárn

114. Dægurvísa – Jakobína Sigurðardóttir

115. Reisubók Guðríðar Símonardóttur – Steinunn Jóhannesdóttir

116. Kvæðasafn – Snorri Hjartarson

117. Íslenskir sjávarhættir – Lúðvík Kristjánsson

118. Mýrin – Arnaldur Indriðason

119. Riddarar hringstigans – Einar Már Guðmundsson

120. Lífsjátning Guðmundu Elíasdóttur – Ingólfur Margeirsson

121. Þyrnar – Þorsteinn Erlingsson

122. Anna frá Stóruborg – Jón Trausti

123. Bernskubók – Sigurður Pálsson

124 . Stundarfriður – Guðmundur Steinsson

125. Sandárbókin – Gyrðir Elíasson

126. Illgresi – Örn Arnarson

127. Suðurglugginn – Gyrðir Elíasson

128. Fólkið í kjallaranum – Auður Jónsdóttir

129. Illska – Eíríkur Örn Norðdahl

130. Hendur og orð – Sigfús Daðason

131. Lifandi vatnið – Jakobína Sigurðardóttir

132. Kvæði – Þórarinn Eldjárn

133. Ljóð frá ýmsum löndum – ljóðaþýðingar Magnúsar Ásgeirssonar

134. Skugga-Sveinn – Matthías Jochumsson

135. 79 af stöðinni – Indriði G. Þorsteinsson

136. Í barndómi – Jakobína Sigurðardóttir

137. Ferð án fyrirheits – Steinn Steinarr

138. Grannmeti og átvextir – Þórarinn Eldjárn

139. 101 Reykjavík – Hallgrímur Helgason

140. Hauströkkrið yfir mér – Snorri Hjartarson

141. Undantekningin – Auður Ava Ólafsdottir

142. Sólon Íslandus – Davíð Stefánsson

143. Morgunþula í stráum – Thor Vilhjálmsson

144. Vídalínspostilla – Jón Vídalín

145. Kvæðabók – Hannes Pétursson

146. Skáldsaga Íslands – Pétur Gunnarsson

147. Öxin og jörðin – Ólafur Gunnarsson

148. Ljóð – Vilborg Dagbjartsdóttir

149. Snorri á Húsafelli – Þórunn Erlu Valdimarsdóttir

150. Yfir heiðan morgun – Stefán Hörður Grímsson

151. Páls saga – Ólafur Jóhann Sigurðsson

152. Þulur – Theodóra Thoroddsen

153. Ljóð – Þorsteinn frá Hamri

154. Brotahöfuð – Þórarinn Eldjárn

155. Ljóðasafn – Jóhannes úr Kötlum

156 . Matur og drykkur – Helga Sigurðardóttir

157. Sóleyjarkvæði – Jóhannes úr Kötlum

158. Kári litli og Lappi – Stefán Júlíusson

159. Ljóðasafn – Ingibjörg Haraldsdóttir

160. Ástarsaga úr fjöllunum – Guðrún Helgadóttir/Brian Pilkington

161. Rokland – Hallgrímur Helgason

162. Dagur vonar – Birgir Sigurðsson

163. Úr minnisblöðum Þóru í Hvammi – Ragnheiður Jónsdóttir

164. Sólarljóð – Höfundur óþekktur

165. Hart í bak – Jökull Jakobsson

166. Disneyrímur – Þórarinn Eldjárn

167. Ljóð – Jóhann Sigurjónsson

168. Ástarljóð – Páll Ólafsson

169. Valeyrarvalsinn – Guðmundur Andri Thorsson

170. Blíðfinnur – Þorvaldur Þorsteinsson

171. Stúlka með fingur – Þórunn Erlu Valdimarsdóttir

172. Árleysi alda – Bjarki Karlsson

173. Grandavegur 7 – Vigdís Grímsdóttir

174.  Píslarsaga – Jón Magnússon

175. Haustskip – Björn Th. Björnsson

176. Maður og kona – Jón Thoroddsen

177. Ofsögum sagt – Þórarinn Eldjárn

178. Auður – Vilborg Davíðsdóttir

179. Rógmálmur og grásilfur – Dagur Sigurðarson

180. Hrafnkels saga Freysgoða – Höfundur óþekktur

181. Höfuð konunnar – Ingibjörg Haraldsdóttir

182. Saga handa börnum – Svava Jakobsdóttir

183. Eyrbyggja saga – Höfundur óþekktur

184. Ævisaga Jónasar Hallgrímssonar – Páll Valsson

185. Íslensk menning – Sigurður Nordal

186. Hvunndagshetjan – Auður Haralds

187. Falsarinn – Björn Th. Björnsson

188. Hvað er í blýhólknum? – Svava Jakobsdóttir

189. Sögur og ljóð – Ásta Sigurðardóttir

190. Fótspor á himnum – Einar Már Guðmundsson

191. Býr Íslendingur hér? – Garðar Sverrisson

192. Harmsaga ævi minnar – Jóhannes Birkiland

193. Paradísarheimt – Halldór Laxness

194. Hér vex enginn sítrónuviður – Gyrðir Elíasson

195. Í verum  - Theodór Friðriksson

196. Dymbilvaka – Hannes Sigfússon

197. Bólu-Hjálmar – Ljóðmæli

198. Bréf til næturinnar – Kristín Jónsdóttir

199. Konur – Steinar Bragi

200. Fjarri hlýju hjónasængur – Inga Huld Hákonardóttir

201. Öldin okkar – Gils Guðmundsson og fleiri

202. Ljóðasafn – Tómas Guðmundsson

203. Baráttan um brauðið – Tryggvi Emilsson

204. Kvæði – Jóhann Jónsson

205. Þar sem vegurinn endar – Hrafn Jökulsson

206. Nýja testamentið – þýðing Odds Gottskákssonar

207. Ströndin í náttúru Íslands – Guðmundur Páll Ólafsson

208. Dórubækurnar – Ragnheiður Jónsdóttir

209. Svartálfadans – Stefán Hörður Grímsson

210. Sæmd – Guðmundur Andri Thorsson

211. Söngvar förumannsins – Stefán frá Hvítadal

212. Íslensk orðabók – Árni Björnsson, Mörður Árnason og fleiri

213. Skilaboðaskjóðan – Þorvaldur Þorsteinsson

214. Skessukatlar – Þorsteinn frá Hamri

215. Innansveitarkrónika – Halldór Laxness

216. Gæludýrin – Bragi Ólafsson

217. Bréfbátarigningin – Gyrðir Elíasson

218. Tröllakirkja – Ólafur Gunnarsson

219. Yosoy – Guðrún Eva Mínervudóttir

220. Gvendur Jóns og ég – Hendrik Ottósson

221. Hjartastaður – Steinunn Sigurðardóttir

222. Ástir samlyndra hjóna – Guðbergur Bergsson

223. Helgi skoðar heiminn – Njörður P. Njarðvík/Halldór Pétursson

224. Korkusaga – Vilborg Davíðsdóttir

225. Árni í Hraunkoti – Ármann Kr. Einarsson

226. Fiskarnir hafa enga fætur – Jón Kalman Stefánsson

227. Sögur frá Skaftáreldi – Jón Trausti

228. Landneminn mikli/Andvökuskáld, ævisaga Stephans G. – Viðar Hreinsson

229. Ljóðmæli – Grímur Thomsen

230. Crymogæa – Arngrímur Jónsson lærði

231. Stormur – Einar Kárason

232. Litbrigði jarðarinnar – Ólafur Jóhann Sigurðsson

233. Samkvæmisleikir – Bragi Ólafsson

234. Hraunfólkið – Björn Th. Björnsson

235. Öddubækurnar – Jenna og Hreiðar

236. Syndin er lævís og lipur – Jónas Árnason

237. Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma – Guðbergur Bergsson

238. Ljóðmæli – Matthías Jochumsson

239. Óðhalaringla – Þórarinn Eldjárn

240. Saga daganna – Árni Björnsson

241. Hómerskviður – Sveinbjörn Egilsson þýddi

242. Jarðlag í tímanum – Hannes Pétursson

243. Vísnabók – Káinn

244. Landfræðisaga – Þorvaldur Thoroddsen

245. Minn hlátur er sorg, ævisaga Ástu Sigurðardóttur – Friðrika Benónýsdóttir

246. Ljóð – Sigfús Daðason

247. Hús úr húsi – Kristín Marja Baldursdóttir

248. Íslensk þjóðlög – Bjarni Þorsteinsson

249. Ljóðasafn – Stefán Hörður Grímsson

250. Skáldið sem sólin kyssti, ævisaga Guðmundar Böðvarssonar – Silja Aðalsteinsdóttir

251. Þegar kóngur kom – Helgi Ingólfsson

252. Glímuskjálfti – Dagur Sigurðarson

253. Virkisvetur – Björn Th. Björnsson

254. Sendiherrann – Bragi Ólafsson

255. Sossa sólskinsbarn – Magnea frá Kleifum

256. Rigning í nóvember – Auður Ava Ólafsdóttir

257. Á Gnitaheiði – Snorri Hjartarson

258. Málverkið – Ólafur Jóhann Ólafsson

259. Skuggamyndir úr ferðalagi – Óskar Árni Óskarsson

260. Draumar á jörðu – Einar Már Guðmundsson

261. Sól í Norðurmýri – Þórunn Erlu Valdimarsdóttir og Megas

262. Guðbrandsbiblía

263. Jójó – Steinunn Sigurðardóttir

264. Jöklar á Íslandi – Helgi Björnsson

265. Á eigin vegum – Kristín Steinsdóttir

266. Úr fátæktar-/forheimskunarlandinu – Pétur Gunnarsson

267. Kristrún í Hamravík – Guðmundur G. Hagalín

268. Nei – Ari Jósefsson

269. Sjödægra – Jóhannes úr Kötlum

270. Yfir Ebrófljótið – Álfrún Gunnlaugsdóttir

271. Missir – Guðbergur Bergsson

272. Jórvík – Þorsteinn frá Hamri

273. Baróninn – Þórarinn Eldjárn

274. Síðdegi – Vilborg Dagbjartsdóttir

275. Landið þitt Ísland – Steindór Steindórsson/Þorsteinn Jónsson

276. Upp á Sigurhæðir, ævisaga Matthíasar Jochumssonar – Þórunn Erlu Valdimarsdóttir

277. Kvæði – Bjarni Thorarensen

278. Gauragangur – Ólafur Haukur Símonarson

279. Land og synir – Indriði G. Þorsteinsson

280. En hvað það var skrítið – Páll Árdal/Halldór Pétursson

281. Alli Nalli og tunglið – Vilborg Dagbjartsdóttir

282. Flateyjargátan – Viktor A. Ingólfsson

283. Guðsgjafaþula – Halldór Laxness

284. Heimkynni við sjó – Hannes Pétursson

285. Blómin á þakinu – Ingibjörg Sigurðardóttir

286.  Z ástarsaga – Vigdís Grímsdóttir

287. Röddin – Arnaldur Indriðason

288. Jarðabók Árna og Páls – Árni Magnusson/Páll Vídalín

289. Hvar sem ég verð – Ingibjörg Haraldsdóttir

290. Vögguvísa – Elías Mar

291. Kyndilmessa – Vilborg Dagbjartsdóttir

292. Skipið – Stefán Máni

293. Skaparinn – Guðrún Eva Mínervudóttir

294. Ég elska þig stormur, ævisaga Hannesar Hafstein – Guðjón Friðriksson

295. Númarímur – Sigurður Breiðfjörð

296. Ég man þig – Yrsa Sigurðardóttir

297. Hallgrímur – Úlfar Þormóðsson

298. Blandað í svartan dauðann – Steinar Sigurjónsson

299. Salómon svarti – Hjörtur Gíslason

300. Ljóð – Hannes Hafstein

kiljan-banner-1

Laugardagur 19.4.2014 - 12:04 - Ummæli ()

Græðgi hins fégjarna – úr Vídalínspostillu

Vinkona mín á Facebook setti þennan texta á síðu sína og spurði hvort ekki mætti lesa hann á Páskum eins og Passíusálmana.

Þetta er úr Vídalínspostillu, riti með predíkunum séra Jóns Vídalíns. Bókin var lesin upp til agna á Íslandi fram á tuttugustu öld, en núorðið þykir guðsorðið í henni kannski of kröftugt.

Jón var feikilegur mælskumaður og fulltrúi strangrar kenninga – hins lúterska píetisma. Hann var biskup í Skálholti, fæddur 1666, dáinn 1720.

Segir um hann í ágætri Wikipediagrein:

Jón er sagður hafa verið lítillátur og lítt gefinn fyrir íburð, stórgjöfull við fátæka og tók oft skólasveina og aðra efnilega unglinga til sín án þess að hirða um borgun, en ekki góður fjármálamaður. Hann var áhugasamur um framfarir, reyndi kálræktun og hvatti til nýjunga eins og hreindýraræktar og saltvinnslu. Hann þótti nokkuð drykkfelldur og gengu sögur um drykkjuskap hans á Alþingi og víðar. Hann var líka skapmaður mikill og átti til dæmis í deilum og jafnvel handalögmálum við Odd lögmann Sigurðsson.

Vídalínspostulla kom náttúrlega við sögu í vali Kiljunnar á íslenskum öndvegisritum.

Hér er textinn:

Hin grimmu villidýrin á mörkinni hafa sinn vissa skammt, og þau taka ekki bráðina nema hungruð. En græðgi hins fégjarna tekur aldrei enda. Hann etur alltíð og er þó alltíð soltinn. Hann óttast ekki guð, og eigi skammast hann sín fyrir mönnunum. Hann þyrmir ekki föður né móður. Hann undirþrykkir ekkjuna og rænir hinn föðurlausa…

Er hugsanlegt að mætti nota þetta í tengslum við Sparisjóðaskýrsluna – til að mynda?

430334

Brjóstmynd af Jóni Vídalín er sunnanmegin við Dómkirkjuna. Það taka ekki margir eftir henni, en hún er eftir Ríkarð Jónsson.

Föstudagur 18.4.2014 - 16:17 - Ummæli ()

Lygaáróðurinn um Úkraínu, Evrópa og Evrasía – öfgamenn í Úkraínu verða ekki ofan á nema Rússland geri innrás

Timothy Snyder, prófessor í sagnfræði, við Yale háskóla skrifar magnaða grein um Úkraínumálið sem birtist fyrst í New Republic og svo í New Statesman. Greinin ber yfirskriftina Ukranian extremists will only triumph if Russia invades. Snyder er sérfræðingur í sögu Mið- og Austur-Evrópu, mæltur á fjölda tungumála, höfundur bókar sem nefnist Bloodlands: Europe Between Hitler and Stalin en einnig samdi hann samtalsbókina Thinking the Twentieth Century með sagnfræðingnum Tony Judt skömmu fyrir andlát hans. Það er bók sem eindregið má mæla með, full af þekkingu og visku.

Hér fylgir endursögn á grein Snyders. Millifyrirsagnirnar eru mínar.

url-1

 

Forsagan

Í greininni rekur Snyder eldri sögu Úkraínu allt frá tíma Rús ríkisins sem hafði miðju sína í Kænugarði – og þangað sem norrænir víkingar komu –og til tíma vaknandi þjóðernishyggju á 19. öld. Þá voru uppi svipaðar frelsisbaráttuhugmyndir og í öðrum Evrópuríkjum. Úkraínu var skipt milli rússneska keisaradæmisins og veldis Habsborgaranna. Það sprakk allt í loft upp í fyrri heimstyrjöldinni.

Pólverjar náðu sér í Galisíu í Vestur-Úkraínu, en úkraínskir þjóðernissinnar börðust gegn bæði bolsévíkum og hvítliðum innan rússnesku landamæranna. Mismunandi herir lögðu Kiev tólf sinnum undir sig, en loks var stofnað sovétlýðveldið Úkraína.

 

Hungursneyð af völdum stalínisma

Fyrst var stefna Sovétstjórnarinnar að leyfa úkraínskri mennta- og stjórnmálastétt að verða til. Hugmyndin var sú að upplýst Úkraína myndi af frjálsum og fúsum vilja vera með í Sovétríkjunum. Þetta breyttist þegar Jósef Stalín náði völdum. Bændastéttin í Úkraínu var mjög treg gagnvart samyrkjubúavæðingunni – hún trúði á einkaeign.

Stalín brást við með mikilli hörku. Hann kenndi úkraínskum þjóðernissinnum og erlendum stuðningsmönnum þeirra um og sendi sveitir til að gera korn og búpening upptækan. Þarna var hann í raun að svelta milljónir manna. Meira en þrjár milljónir manna dóu í hungursneyðinni á fyrri huta fjórða áratugsins.

Áróður Stalíns fól í sér að Úkraínumenn væru sjálfir að svelta sig að fyrirskipunum frá Póllandi. Síðar gekk áróðurinn út á að hver sem nefndi hungungursneyðina væri útsendari nasista í Þýskalandi. Þar upphefst hin kunnuglega og mikið notaða viðkvæði að allir sem setja sig upp á Moskvuvaldinu séu fasistar og nasistar – þetta gengur aftur fram á okkar daga.

 

Hörmungarnar í Úkraínu milli 1933 og 1945

Þetta kom þó ekki í veg fyrir að Stalín gerði griðasáttmála við Hitler sem fól í sér að ríkin skiptu á milli sín Póllandi en Sovétríkin tóku líka völdin í Eystrasaltsríkjunum. Þannig var andstöðu við fasisma sífellt flaggað í áróðursskyni af Moskvuvaldinu, en þaðekki endilega raunverulega andstöðu við fasisma. Þetta mynstur er ennþá fyrir hendi.

Úkraína var lykillinn að hugmyndum Hitlers um lífsrými fyrir þýsku þjóðina, lebensraum. Þangað átti að flytja þýskt fólk sem myndi yrkja hina frjósömu jörð. Úkraínumönnum skyldi útrýmt eða þeir hnepptir í þrældóm. Ekkert land í Evrópu leið aðrar eins hörmungar og Úkraína á árunum 1933-1945.

Um þetta hefur ekki verið mikið fjallað. Þjóðverjar hafa hugann aðallega við útrýmingu gyðinga og hernaðinn í Sovétríkjunum (og þá er núorðið talað um Rússland). Minna er talað um að Úkraína hafi verið lykillinn að útþenslustefnu Hitlers – meira að segja virtir stjórnmálamenn eins og Helmut Schmidt tala eins og í Úkraínu eigi ekki að gilda ákvæði alþjóðalaga. Sú hugmynd að Úkraínumenn séu ekki jafngildir í samfélagi þjóðanna er mjög þrálát – henni fylgir gjarnan sú hugsun af því að Úkraínumenn séu sjálfir ábyrgir fyrir glæpum stríðsins. Þá gleymist auðvitað að hinir skelfilegu glæpir sem voru framdir í Úkraínu voru partur af stefnu Þjóðverja og hefðu aldrei orðið nema vegna stríðs sem Þjóðverjar hófu og vegna heimsvaldastefnu þýska ríkisins.

 

Bandalag Hitlers og Stalíns

Griðasáttmálinn milli Hitlers og Stalíns var gerður 1939. Stalín var himinlifandi yfir þessu og batt miklar vonir við sáttmálann. Þegar Hitler loks réðst inn í Sovétríkinn var hann óviðbúinn. Þarna var orðið til bandalag milli ysta vinstrisins í Evrópu og ysta hægrisins. Í huga Stalíns var þetta lykillinn að því að eyðileggja Evrópu. Þjóðverjar myndu einbeita sér að nágrönnum sínum í vestri sem myndi þýða endalok kapítalismans í Evrópu. Þetta er ekki svo fjarri vissum útreikningum Vladimirs Pútíns, eins og síðar kemur í ljós.

Afleiðing sáttmálans var algjör eyðilegging pólska ríkisins, en líka ákveðinn uppgangur þjóðernishyggju meðal Úkraínumanna. Þjóðernishreyfingar þar höfðu verið brotnar á bak aftur með hörku, en nú komu þær upp á yfirborðið, sérstaklega í Póllandi þar sem margir Úkraínumenn höfðu leitað hælis. Þær voru í andstöðu við bæði nasista og kommúnista, en ofaná varð sú hugmynd að eina leiðin til að Úkraína gæti orðið sjálfstætt ríki væri með innrás Þjóðverja.

Þetta samstarf við Þjóðverja mistókst herfilega. Fjöldi Úkraínumanna slóst í lið með þýska innrásarliðinu 1941. Úkraínskir stjórnmálamenn töldu sig eiga eitthvað inni vegna þessa, þeir vildu lýsa yfir sjálfstæði Úkraínu í júní 1941. Hitler hafði engan áhuga á því og flestir leiðtogar þjóðernissinnanna voru drepnir eða fangelsaðir.

 

Stríðslok – hugmyndin um Föðurlandsstríðið mikla

Þegar leið á stríðið fóru þjóðernissinnar í Úkraínu að búa sig undir að Sovétherinn ræki Þjóðverja burt. Í huga þeirra voru Sovétríkin aðalóvinurinn á þeim tíma – einfaldlega vegna þess að þau voru að vinna stríðið. Þessar skæruliðasveitir háðu blóðugt stríð við hersveitir Sovétmanna og hræðileg grimmdarverk voru framin á báða bóga. Sveitir Úkraínumanna drápu líka Pólverja og gyðinga.

Á þessum skelfilega tímabili voru um sex milljónir manna drepnar í Úkraínu, þar á meðal 1,5 miljón gyðinga. Vissulega störfuðu margir Úkraínumenn með Þjóðverjum, en sannleikurinn er samt sá að miklu fleiri íbúar Úkraínu voru drepnir af nasistum en störfuðu með þeim. Það er ekki raunin í flestum öðrum Evrópulöndum sem nasistar hertóku. Fleiri Úkraínumenn féllu í bardögum við þýska herinn en bandarískir, franskir og breskir hermenn samanlagt.

Þessa sér ekki staði í Þýskalandi þar sem fyrst og fremst er litið á Rauða herinn sem rússneskan her.  Með þeim hætti hafa Rússar unnið áróðurssigur. Sé Rauði herinn rússneskur, þá hljóta Úkraínumenn að hafa verið í liði óvinarins. Hugmyndin um Föðurlandsstríðið mikla eins og hún var sett fram af Stalín hvílir á þremur meginstoðum: Stríðið byrjaði 1941 en ekki 1939 sem felur í sér að griðasáttmálinn gleymist, Rússland verður algjör þungamiðja þótt stríðið hafi leitt til meiri hörmunga í Úkraínu  – og í þriðja lagi, þjáningum gyðinga var alveg sleppt.

 

Rússavæðing

Það er þessi áróður eftirstríðsáranna fremur en reynslan af stríðinu sjálfu sem telur í stjórnmálum nútímans. Enginn valdamaður sem nú er uppi man eftir stríðinu. Þeir sem nú stjórna í Rússlandi eru börn Brésnefs-tímans. Þar var Föðurlandstríðið mikla rússneskt, án Úkraínumanna og gyðinga. Það var ekkert pláss fyrir Helförina. Úkraínumönnum var gjarnan kennt um hana og öðrum þjóðum á jaðri Sovétveldisins þar sem voru uppi kröfur um sjálfstæði og þar sem hafði verið andstaða við Sovétríkin í lok stríðisins. Þessi hefð hefur haldið áfram í rússneskum áróðri. Þar ríkir algjört skeytingarleysi um Helförina sjálfa, nema þegar er hægt að nota hana í áróðursskyni.

Á áttunda áratug síðustu aldar fór fram mikil rússavæðing innan Sovétríkjanna. Úkraínsk tunga var tekin af námsefni skóla og sérstaklega í hærri menntastofnunum. Á sama tíma fóru að myndast tengsl milli úkraínskra menntamanna og pólskra sem höfðu sest að í Vestur-Evrópu, ekki síst í París. Þeir pældu í framtíð þjóða sinna eftir hugsanlegt fall kommúnismans. Þar voru Pólverjar í forystu, eins og kom á daginn á níunda áratugnum þegar uppreisnin sem loks felldi kommúnismann hófst í Póllandi.

 

1991 – sjálfstæð Úkraína

Þarna var talað um Úkraína sem sérstakt land, rétt eins og Pólland , og að sjálfstætt Pólland skyldi að viðurkenna landamæri sjálfstæðrar Úkraínu – án þess að breyta landamæralínum. Þetta var umdeilt, því eftir stríðið hafði Pólland misst stór svæði í vesturhluta Úkraínu. En þetta var stórt skref í átt þess að byggja upp Úkraínu sem sjálfstætt ríki. Sjálfstæði Úkraínu var einn hornsteinninn í evrópupólitík stjórnarinnar sem tók við í Póllandi eftir fall kommúnismans. Í fyrsta skipti höfðu sjálfstæðissinnar í Úkraínu aðeins einn óvin – Sovétríkin. Í desember 1991 samþykktu 90 prósent Úkraínumanna sjálfstæði – fyrir því var meirihluti í öllum héruðum Úkraínu.

Rússland og Úkraína fóru hvort í sína áttina. Einkavæðing og skortur á lögum og reglu leiddi til auðræðis í báðum ríkjunum. Í Rússlandi tempraði miðstýrt ríkisvald áhrif ólígarkanna, í Úkraínu var ástandið óræðara, þar var uppi ákveðin tegund af fjölræði. Leiðtogar Úkraínu virkuðu ringlaðir og horfðu bæði til austurs og vesturs og fylgdu ýmsum klíkum ólígarka að málum, allt eftir því hvernig vindar blésu.

 

Janúkovits mistekst að herða tökin 

Forsetinn Viktor Janúkóvits reyndi að binda endi á þetta fjölræði, ekki bara hvað varðaði utanríkismálin heldur líka hvað varðaði ólígarkaklíkurnar. Heimafyrir kom hann upp sýndarlýðræði þar sem hinn valdi andstæðingur var öfgahægriflokkurinn Svoboda. Með þessu bjó hann til kerfi þar sem honum var í lófa lagið að vinna kosningar og þar sem hann gat sagt erlendum eftirlitsmönnum að hann væri þó skárri en þjóðernissinnarnir til hægri.

Í utanríkismálum þrýstist hann nær Rússlandi Pútíns, ekki endilega vegna þess að hann æskti þess sjálfur, heldur vegna þess að stjórnarfar hans torveldaði mjög samskiptin við Evrópusambandið. Janúkóvits virðist hafa stolið svo miklu úr ríkiskassanum að Úkraína var komin á barm gjaldþrots 2013. Það gerði hann aftur móttækilegri fyrir stuðningi frá Rússum.

 

Evrasíska bandalagið

En nú hafði orðið sú viðhorfsbreyting í Moskvu að erfitt var fyrir Úkraínustjórn  að spila þennan jafnvægisleik gagnvart austri og vestri. Moskva var ekki lengur höfuðborg rússnesks ríkis sem hafði nokkuð fyrirsjáanlegra hagsmuna að gæta, heldur voru komnar upp stórar fyrirætlanir um evrasískt bandalag. Þetta bandalag hefur tvö meginmarkmið – markaðs- og fríverslunarbandalag sem myndi ná yfir Rússland og ríki eins og Úkraínu, Belarús og Kazakhstan – þar sem stjórnarfar er ekki ýkja lýðræðislegt – og hins vegar að grafa undan Evrópusambandinu með því að styðja ysta hægrið í Evrópu.

Hugmyndafræðin er félagsleg íhaldssemi – en einn aðaltilgangurinn er einfaldur. Pútínstjórnin er háð sölu á olíu- og gasi sem fer um leiðslur til Evrópu. Sameinuð Evrópa getur komið sér upp orkustefnu, hvort sem er vegna áhyggja af loftslagsbreytingum eða af viðskiptaveldi Rússa. Þessi stefna getur verið andstæð hagsmunum Moskvustjórnarinnar. Sundruð Evrópa er miklu veikari gagnvart því hvernig Rússar beita orkunni í alþjóðaviðskiptum.

Allt árið 2013 var linnulaus herferð í málgögnum Kremlarstjórnarinnar þar sem var hamrað á hningnun Evrópu, aðallega í kynferðissefnum. En úrkynjun Evrópu er ekki hið raunverulega áhyggjuefni, heldur er þetta einungis notað í áróðursskyni sem liður í ákveðinni stefnu.

 

Úkraína setur strik í reikning Moskvuvaldsins

Þróun mála í Úkraínu setti þessi áform í loft upp. Tilraunin til að innlima Úkraínu í hina evrasísku hugmynd mistókust algjörlega. Fyrst þvingaði Moskva Janúkóvits til að hætta við að undirrita samstarfssamning við Evrópusambandið. Almenningur í Úkraínu fór út á göturnar til að mótmæla. Þá bauð rússneska stjórnin fram stór lán og gas á vildarkjörum. Lagabreytingar í janúar 2014 virkuðu eins og olía á eld mótmælanna. Janúkóvits stóð andspænis fjöldahreyfingu. Samkvæmt lögunum voru þær milljónir manna sem fóru út á götur að mótmæla nú glæpamenn.

Moskvustjórnin skipaði Janúkóvits að ráðast með hörku gegn vandanum, annars fengi hann ekki fjárhagsaðstoð. Fjöldamorðin í Kiev í febrúar snerust upp í pólitískan og móralskan sigur fyrir andstöðuöflin. Janúkóvits flúði til Rússlands.

Evrasíubandalagið getur ekki verið annað en klúbbur einræðisherra, en tilraunir til að koma upp einræði í Úkraínu höfðu þveröfug áhrif, endurreisn þingræðis, forsetakosningar og utanríkisstefnu sem hallast í átt til Evrópu. Ekkert af þessu hefði gerst nema vegna þess að fólkið sjálft, milljónir Úkraínumanna, tóku sig til og mótmæltu.

 

Blygðunarlaus áróður Pútínstjórnarinnar 

Þannig var uppreisnin í Úkraínu ekki aðeins herfilegur ósigur fyrir utanríksstefnu Rússa, heldur líka ógn við rússnesku stjórnina heimafyrir. Veikleiki Pútínstjórnarinnar eru að hún ræður illa við þegar borgararnir taka frelsið í sínar hendur og skipuleggja sig með þessum hætti. Styrkur hennar er hvað hún hikar ekki við að reka blygðunarlausan áróður og hversu snjöll hún er í alls kyns undirferli.

Nú varð línan sú að uppreisinin í Úkraínu hefði í raun verið valdataka nasista. Evrópa hefði stutt þessa nasista. Á þessu var hamrað linnulaust. Með þessu er rekinn fleygur í stjórnmálin í Úkraínu og í Evrópusambandið. Þessi útgáfa af atburðunum er fullkomlega fáránleg, en í hugarheimi Pútíns er virkar hún vel. Þá þarf ekki að viðurkenna hrakfarir rússneskrar utanríksstefnu í Úkraínu – sjálfsprottin mótmæli Úkraínubúa verða að samsæri sem tengist erlendum öflum.

Innrás Rússa á Krímskaga var bein ögrun við öryggiskerfið í Evrópu og við Úkraínu sem sjálfstætt ríki. Með þessu skapaðist líka sú hætta að Þjóðverjar og aðrir færu aftur í gamla hugarfarið, sem ber keim af nýlendustefnu, þar sem Úkraínumenn hafa í raun ekki rétt sínu eigin ríki og þar sem lög og regla eru virt að vettugi. Innrásin í Krím fór fram í skjóli evrópskra öfgaafla sem eru höll undir Pútín.

 

Öfgahægrið og öfgavinstrið í Evrópu leggja blessun sína yfir innrásina 

Enginn alþjóðastofnun með sómakennd myndi viðurkenna kosningarnar þar sem 97 prósent íbúa Krímskaga greiddu atkvæði með því að skiljast frá Úkraínu. En skingilegur hópur hægri pópúlista, ný-nasista og fulltrúa frá þýska stjórnmálaflokknum Die Linke skirrðist ekki við að fara til Krím og leggja blessun yfir úrslitin. Þýska sendinefndin til Krím samanstóð af fjórum meðlimum Die Linke og einum félaga úr Neue Rechte. Þessi samsetning segir sína sögu.

Die Linke hrærast í sýndarveruleika sem er búinn til af rússneskum áróðursmönnum. Þar er hlutverk evrópska vinstrisins – eins og þetta er satt upp af Moskvu – að gagnrýna hægriöflin í Úkraínu, en ekki hægriöflin í Evrópu og alls ekki hægriöflin í Rússland.

 

Hægriöfgamennirnir í Kiev og völd þeirra

Það eru til öfgahægrimenn í Úkraínu. Þeir hafa nokkur áhrif. Svoboda, sem Janúkóvits fannst svo þægilegt að hafa í andstöðu, hefur fjóra ráðherra af tuttugu í ríkisstjórninni í Úkraínu. Þetta er rausnarlegt miðað við að flokkurinn hafði aðeins 3 prósenta fylgi í síðustu kosningum. Sumir af þeim sem börðust gegn lögreglunni í uppreisninni voru úr hópi sem kallast Hægri armurinn. Þar eru róttækir þjóðernissinnar meðal félaga. Forsetaframbjóðandi þessa flokks hefur 2 prósent í skoðanakönnunum en meðlimirnir eru um 300. Hægri öfgaflokkar hafa semsagt nokkurn stuðning í Úkraínu – en hann er samt minni en í flestum ríkjum Evrópusambandsins.

Öfgaöfl verða oft ofan á í uppreisnarástandi og það er sjálfsagt að vera á verði. Það var mjög áberandi að friður komst á í Kiev og mestallri Úkraínu strax eftir að uppreisninni lauk. Nýja ríkisstjórnin hefur mætt yfirgangi Rússa með ótrúlegri ró. Eina hugsanlega leiðin til að öfgamenn í Úkraínu komist til valda er ef Rússar ráðast inn í landið. Ef forsetakosningar fara fram í maí eins og áætlað er, þá er öruggt að komi í ljós veikleikar og óvinsældir ysta hægrisins. Þetta er eitt af því sem Moskuvaldið óttast.

Þeir sem hamra sífellt á hlut hægriaflanna í Úkraínu sjá ekki tvennt. Í fyrsta lagi kom uppreisnin frá vinstri. Óvinurinn var þjófræðisseggur með einræðistilhneigingar – aðalmarkmið uppreisnarinnar að byggja upp réttarríki og samfélagslegt réttlæti. Einn upphafsmaðurinn var blaðamaður af afgönskum ættum, þeir fyrstu sem féllu voru frá Armeníu og Belorús. Uppreisnin var studd af Krímtatörum og gyðingum.

 

Rússneskir fjölmiðlar eru frjálsir – í Úkraínu

Uppreisnin á Maidantorgi fór fram á tveimur tungumálum, úkraínsku og rússnesku. Kiev er tvítyngd borg og Úkraína er tvítyngt land. Einn helsti drifkraftur uppreisnarinnar var hin rússneskumælandi millistétt í Kiev. Ríkisstjórnin sem situr nú er speglar mismunandi þjóðabrot og tungumál. Úkraína er fjölþjóðlegur staður þar sem uppruni og tungumál skipta ekki jafn miklu máli og sumir virðast halda. Og raunar er Úkraína nú vettvangur frjálsustu fjölmiðlunar á rússneskri tungu sem um getur. Nú ríkir þar málfrelsi.

Sú hugmynd að Pútín sé að vernda rússneskumælandi fólk í Úkraínu er algjörlega fráleit. Vitlausust er hún þó vegna þessa: Fólk getur sagt það sem það vill á rússnesku í Úkraínu en í sjálfu Rússlandi er það ekki hægt.

 

Öfgahægrið í Rússlandi er mun hættulegra en öfgahægrið í Úkraínu – það er nefnilega við völd

Og svo er það enn eitt. Öfgahægrið í Rússlandi er miklu hættulegra en öfgahægrið í Úkraínu. Þó ekki væri nema vegna eins, í Rússlandi er það við völd. Þar ógnar því engin stjórnarandstaða. Það þarf ekki að taka tillit til alþjóðasamfélagsins. Og nú rekur það utanríkisstefnu sem byggir á kynþáttahyggju. Það skiptir ekki máli hver einstaklingurinn er, hvað hann vill eða hvaða lög gilda. Ef hann talar rússnesku er hann volksgenosse sem þarf að fá rússneska vernd – og það getur þýtt innrás.

Rússneska þingið gaf Pútín grænt ljós á að ráðast inn í Úkraínu og til að umbreyta stjórnmálum og samfélagi þar. Það er afskaplega rótttækt markmið. Það sendi lika skilaboð til Pólverja með hugmyndum um að skipta Úkraínu í tvennt. Á vinsælli sjónvarpsstöð er gyðingum sjálfum kennt um Helförina. Í dagblaðinu Izvestiia er Hitler lýst sem skynugum stjórnmálamanni sem hafi verið undir óbærilegum þrýstingi frá Vesturlöndum. Þeir sem þramma um og lýsa yfir stuðningi við innrásina í Úkraínu eru klæddir einkennisbúningum og ganga í takt. Íhlutun Rússa í Austur-Úkraínu gengur út á að magna upp ofbeldi milli þjóðarbrota. Maðurinn sem reisti rússneska fánann í Donetsk er meðlimur í ný-nasistaflokki.

 

Frjálslyndu lýðræði hafnað

Allt þetta er í samræmi við hugmyndirnar sem eru á baki Evrasíu. Evrópusamstarfið hefur að forsendu að nasimi og stalínismi hafi verið neikvæð fordæmi sem beri að forðast, en Evrasíuáformin ganga út frá þeirri póstmódernísku hugmynd að sagan sé einhvers konar skjóða þar sem maður getur tínt upp hugmyndir eftir því sem hentar. Frjálslynt lýðræði er skilyrði fyrir Evrópusamrunanum, evrasíska hugmyndafræðin hafnar því.

Alexander Dugin er einn helsti hugmyndafræðingur Evrasíu og hefur aldrei fengið meiri athygli en nú. Hann boðar nauðsyn þess að taka yfir Úkraínu, hnignun Evrópusambandsins og evrasískt bandalag sem myndi spanna frá Atlantshafi til Kyrrahafs. Þetta endurómar í rússneskri utanríkisstefnu, þótt málflutningurinn sé ekki alveg jafn öfgakenndur. Pútín lýsir Rússlandi sem umkringdu landi sem hafi sérstaka siðmenningu og sérstakt hlutverk. Þetta þurfi að verja með ráðum og dáð.

 

Stóra lygin 

Það sem tengir stjórnvöld í Rússlandi mest við öfgahægrið í Evrópum er ákveðinn óheiðarleiki, lygi sem er svo stór og alltumlykjandi að hún hefur mikinn eyðileggingarmátt. Um leið og stjórnarherrar í Rússlandi ausa óhróðri yfir Evrópu og lýsa henni sem leikvelli siðspillingar og samkynhneigðar, er rússneska elítan háð Evrópusambandinu á öllum sviðum.

Án stöðugleikans í Evrópu, stjórnfestunnar, laga og menningar, myndu Rússar ekki hafa neinn stað til að þvo peningana sína, setja upp fyrirtæki, senda börn sín í skóla og fara í frí. Evrópa er bæði grunnur rússneska kerfisins og öryggisventill þess.

Á sama hátt njóta dæmigerðir kjósendur Le Pen eða Strache ýmissa hluta sem hafa orðið til vegna Evrópusamrunans, friðar, felsis og farsældar. Skýrt dæmi er möguleikinn sem rennur upp 25. maí þar sem verður hægt að nota frjálsar kosningar til að kjósa á Evrópuþingið fólk sem segist vera á móti tilvist Evrópuþingsins.

 

Meira að segja Farage dreifir áróðri Pútins

Líkt og hjá Pútín felur málflutningur Le Pen og Strache í sér augljósa þversögn. Allir kostir Evrópu, friður, frelsi og farsæld, muni halda áfram að vera til þótt Evrópubúar hverfi aftur til þjóðríkja sinna. En þetta er draumsýn sem er álíka heimskuleg og hún er daufleg. Það er ekkert þjóðríki til að hverfa til. Eini möguleikinn í hnattvæddum heimi eru gagnkvæm samskipti. Fyrir lönd eins og Frakkland, Austurríki, Grikkland, Búlgaríu og Ungverjaland er höfnun á Evrópusambandinu eins og opinn faðmur í garð Evrasíu.

Þetta er hinn einfaldi veruleiki: Sameinuð Evrópa getur og mun líklega standa gegn hinu rússneska olíu- og gasveldi, þyrping þjóðríkja sem deila innbyrðis getur það ekki. Leiðtogar hægriöfgaflokkanna í Evrópu eru hættir að draga dul á að flótti þeirra frá Brussel mun leiða þá í fang Pútíns. Flokksfélagar fara til Krímskaga og lofsyngja kosningafarsann þar eins og þetta sé fyrirmynd fyrir Evrópu. Tryggð þeirra er gagnvart Pútín fremur en meintum hægriöfgamönnum í stjórn Úkraínu. Meira að segja leiðtogi UKIP í Bretlandi dreifir áróðri Pútíns um Úkraínu í sjónvarpi fyrir framan milljónir sjónvarpsáhorfenda.

 

Rússar vilja eyðileggja kosningarnar í Úkraínu

Forsetakosningar verða haldnar í Úkraínu 25. maí. Það er sama dag og kosningarnar til Evrópuþingsins. Íhlutun Rússa í austurhluta Úkraínu hefur að markmiði að koma í veg fyrir að þessar kosningar verði haldnar. Á næstu vikum munum við sjá sambræðing Kremlarvaldsins og öfgahægrisins í Evrópu þegar Rússar reyna að eyðileggja kosnngarnar í Úkraínu og evrópskir þjóðernissinnar sækja fram í kosningum til Evrópuþingsins.

Atkvæði greitt Strache eða Le Pen eða jafnvel Farage jafngildir nú atkvæði greitt Pútín. Ósigur Evrópu er sigur Evrasíu. Það er óhugsandi að snúa aftur til þjóðríkisins, saamruni verður með einum eða öðrum hætti. Það eina sem hægt er stjórna er hvaða form hann tekur. Stjórnmálamenn og menntamenn sögðu löngum að enginn valkostur væri við Evrópusamrunann – nú er hann kominn, það er Evrasía.

Úkraína á enga  framtíð án Evrópu, en Evrópa á heldur enga framtíð án Úkraínu. Vendingar í Evrópusögunni hafa áður hverfst um Úkraínu. Sú er líka raunin í dag. Hvernig það gerist veltur á Evrópubúum sjálfum, að minnsta kosti næstu sex vikurnar.

images

 

 

 

 

 

 

 

 

Fimmtudagur 17.4.2014 - 21:17 - Ummæli ()

García-Marquez og hin stóra bók hans

Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Marquez var ein af hinum stóru bókum unglingsára minna – og fólks sem var á mínu reki. Nú er Marquez látinn, 87 ára að aldri.

Það var um 1975 að maður fór að hafa spurnir af þessari miklu skáldsögu. Leið hennar var nokkuð löng, því hún kom fyrst út í Kólumbíu 1967. Hún barst ekki strax til norðurálfu. En þegar þarna var komið voru afar margir farnir að lesa hana. Það var manni mjög til framdráttar í partíum að hafa lesið Marquez.

Bókin kom svo út á íslensku í þýðingu Guðbergs Bergssonar 1978.

Þetta var algjör sprengja – full af ótömdu hugmyndaflugi, dásamlegri sagnamennsku, fáránlega stórum og undarlegum persónum.

Hundrað ára einsemd varð eins og flaggskip fyrir suður-amerískar bókmenntir – heimurinn lá í þeim árin eftir að hún sló í gegn. Margir reyndu að apa eftir töfraraunsæið svokallað, furðurnar sem voru eins og eðlilegur hlutur í sagnaheimi Marquezar.

Nafn Marquezar verður um ókomna tíð bundið við þessa klassísku bók, hann samdi fleiri góðar bækur, en náði samt aldrei þessum hæðum. Þarna er einfaldlega ein af hinum stóru bókum 20. aldarinnar.

Cien_años_de_soledad_(book_cover,_1967)

Kápan á frumútgáfunni á Hundrað ára einsemd frá 1967.

Fimmtudagur 17.4.2014 - 13:27 - Ummæli ()

Kanadamenn sniðganga Norðurskautsfund í Moskvu – en Íslendingar?

Kanadamenn ákváðu að senda ekki fulltrúa á fund Norðurheimskautaráðsins sem haldinn var  í Moskvu nú í vikunni. Þetta má lesa á vef CBC-News í Kanada og víðar á fréttamiðlum þar í landi. Málið hefur vakið mikla athygli þar.

Þetta er vegna framferðis Rússa í Úkraínu og á Krímskaga. Kanadastjórn hefur beitt Rússa fleiri refsiaðgerðum eins og takmörkunum á ferðafrelsi og viðskiptaþvingunum.

Stephen Harper, forsætisráðherra Kanda, segir að athæfi Rússa einkennist af „árásarhneigð, vopnaskaki og heimsvaldastefnu“.

Styrmir Gunnarsson gerir þetta að umtalsefni á Evrópuvaktinni. Hann spyr hvort fulltrúar frá Íslandi fari á slíkan fund?

Er ekki eðlilegast að svo sé  ekki?

Spurning er hvað Ólafur Ragnar Grímsson segir um það – eins og kunnugt er vildi hann ekki fara með málefni Úkraínu inn á vettvang Norðurskautssamstarfsins.

Stephen-Harper.preview-1

Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is