Þriðjudagur 22.4.2014 - 22:36 - Ummæli ()

Bollaleggingar um nýjan flokk og fylgi hans

Menn eru að vitna í alls kyns kannanir um nýjan hægri sinnaðan Evrópuflokk – að hann myndi taka fylgi frá hinum eða þessum.

Frá Samfylkingu, Bjartri framtíð og Sjálfstæðisflokki.

Stundum er reyndar erfitt að greina milli Samfylkingar og Bjartrar framtíðar, þar er jafnvel hægt að tala um höfuðból og hjáleigu. Og atkvæði frá Sjálfstæðisflokki kæmu náttúrlega á tíma þegar fylgi hans er í algjöru lágmarki.

En þetta eru auðvitað ekki annað en bollaleggingar. Það er erfitt að spá í svona hluti – þegar hlutirnir fara loks að gerast getur farið í gang atburðarás sem ekki var hægt að sjá fyrir.

Þannig var til dæmis um Besta flokkinn í Reykjavík. Hver hefði nokkurn tíma spáð því í upphafi árs 2010 að hann næði 35 prósenta fylgi í borgarstjórnarkosningunum 2010 og yrði stærsti flokkurinn?

Við höfum líka dæmi um að hlutirnir geti þróast í þveröfuga átt. Á síðasta kjörtímabili stofnaði Lilja Mósesdóttir sem nefndist Samstaða. Þegar flokksstofnunin var fyrst orðuð sögðu skoðanakannanir að hann gæti fengið allt að 20 prósenta fylgi. En flokkurinn lognaðist út af og náði ekki einu sinni að bjóða fram til þings.

Þannig að skoðanakannanir eru heldur ótryggur leiðarvísir í þessu. Þetta er spurning um mannval, málefni og tímasetningar – að ná að koma fram og springa út á réttum tíma.

Ein breytan í þessu er líka sú að það getur verið erfitt að stofna flokk snemma á kjörtímabili, þegar heil þrjú ár eru til þingkosninga – að því gefnu að ríkisstjórnin falli ekki. Það getur verið ansi erfitt að halda dampi í stjórnmálastarfi svo langan tíma án þess að eiga fulltrúa á þingi.

Það sem er hins vegar athyglisvert er að flokkshollusta er miklu minni en áður fyrr – og fleiri sem eru tilbúnir að kjósa eitthvað annað en fjórflokkinn.

Þriðjudagur 22.4.2014 - 20:39 - Ummæli ()

Þegar hertoginn kom til Íslands

Pathé kvikmyndafyrirtækið í Bretlandi hefur sett á netið talsvert af efni sem tengist Íslandi og má finna það á YouTube. Það nær alveg aftur til áranna fyrir stríð, en svo er líka yngra efni eins og frá heimsókn Filippusar hertoga af Edinborg til Íslands 1964.

Ég man eftir því að hafa verið barn á Austurvelli þegar hertoganum, eiginmanni Elísabetar drottningar, var fagnað. Hann kom út á svalir Alþingishússins með Ásgeiri Ásgeirssyni forseta. Þetta má sjá á myndunum og einnig þar sem Ásgeir og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra taka á móti Filippusi í Reykjavíkurhöfn.

Þetta hefur verið mikil viðhöfn fyrir ekki meiri valdamann, en kannski hefur heimsóknin þótt mikilvæg í ljósi þess að ekki var langt síðan að lauk öðru þorskastríðinu, þegar Íslendingar færðu landhelgina út í 12 mílur. Filippus kom siglandi til Íslands og í myndinni eru einmitt sýndir breskir sjómenn á togara við Íslands – vinnubrögðin eru býsna fornleg.

Þriðjudagur 22.4.2014 - 09:54 - Ummæli ()

Að verja stöðu Framsóknarflokksins

Lítill pistill sem ég skrifaði í gær um Guðna Ágústsson vakti nokkuð umtal, ekki voru allir hrifnir.

Ég sagði að framboð Guðna vekti ákveðinn ótta – sumir urðu mjög skömmóttir vegna þessa.

Samt held ég að þetta sé raunin. Guðni ruglar kerfið þegar aðeins rúmur mánuður er til kosninga.

Hann kemur inn á stöðum þar sem meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn eru viðkvæmastir. Talar um flugvöllinn með herskáum hætti og gerir út á þá tilfinningu að fólk í úthverfunum beri á einhvern hátt skarðan hlut.

Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki farið af sama krafti í þessi mál af þeirri einföldu ástæðu að í baráttusætum á lista flokksins sitja fulltrúar sem vilja flugvöllinn burt og samþykktu nýtt aðalskipulag Reykjavíkur.

Guðni er óbundinn af þessu – og hann er líka í þeirri stöðu að hann getur leyft sér ákveðinn pópúlisma í kosningabaráttunni. Menn búast ekki við öðru af Guðna.

Aðalatriðið er þó að hversu framboð Guðna getur reynst mikilvægt fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Sigmundur er afar vel að sér um skipulagsmál – en það er Guðni ekki. Sigmundur getur kannski tekið hann í tíma.

Það væri afar slæmt fyrir Framsóknarflokkinn ef hann biði algjört afhroð í borgarstjórnarkosningunum, eins og stefndi í með Óskari Bergssyni í fyrsta sæti. Sigmundur Davíð þyrfti að mæta í sjónvarpssal á kosninganótt og réttlæta tapið. Það er mjög óþægileg staða. Eins og ég hef áður bent á sagði Halldór Ásgrímsson af sér sem forsætisráðherra eftir tap í sveitarstjórnakosningum 2006.

Með Guðna kviknar sú von að flokkurinn geti náð fylgi – kannski 10 prósentum, kannski 7 prósentum sem nægja til að ná einum borgarfulltrúa? Framsókn getur túlkað það sem sigur – allavega varnarsigur.

Guðni yrði þá borgarfulltrúi. Það er næsta öruggt að hann yrði í minnihluta. Það er spurning hvað honum finnst það skemmtilegt hlutskipti. En þá gæti hann einfaldlega látið sig hverfa smátt og smátt, tilganginum væri náð, þetta snýst ekki um borgarpólitíkina í Reykjavík heldur um að verja stöðu Framsóknarflokksins.

 

 

Mánudagur 21.4.2014 - 17:50 - Ummæli ()

Guðni vekur ótta

Það er náttúrlega mjög sérkennileg staða ef báðir ríkisstjórnarflokkarnir – stærstu flokkar Íslands í síðustu þingkosningum – ætla að bjóða fram landsbyggðarmenn í fyrsta sæti í borgarstjórnarkosningum.

Því þótt Guðni búi í blokk í Skuggahverfi, þá var hann þingmaður landsbyggðar, hefur verið eindreginn talsmaður hennar, bænda og búfjár.

En það er greinilegt að hugsanleg innkoma Guðna í borgarmálin er hefur komið miklu róti á hugi margra. Maður sér þess víða stað á internetinu, ekki síst í röðum Samfylkingarfólks og VG-ara. Maður skynjar beinlínis ótta.

Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, skrifar á vefinn Herðubreið:

Það var t.d. mikið hlegið á nokkrum borðum á herrakvöldinu stuttu fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar þegar Guðni skemmti viðstöddum með bröndurum af „[....] á henni Hönnu Birnu“ og bólförum Sóleyjar Tómasdóttur sem báðar voru þá að sækjast eftir kjöri í borgarstjórn. Það voru aldeilis gamansögur sem Guðni gæti fært inn í sali borgarstjórnar í vor.

Ekki segir neitt um hvenær þessi meintu og vægast sagt ósmekklegu ummæli Guðna eiga að hafa fallið eða hvort þetta er heilaspuni úr Birni Val, en ummælin eru ítrekuð í greinarkorni eftir Karl Th. Birgisson, ritstjóra Herðubreiðar og eru þar komin í fyrirsögn.

Þar er reyndar líka tekinn upp annar þráður frá Birni Val. Þar segir:

Björn Valur rifjar einnig upp meðferð á andvirði sölu á Lánasjóði landbúnaðarins, sem Guðni hafði umsjón með sem landbúnaðarráðherra. Ríkisendurskoðun gerði athugasemd við þá ákvörðun ráðuneytisins að ávaxta 214 milljónir króna í bankabréfum hjá Kaupþingi banka í stað þess að skila fénu til ríkisféhirðis lögum samkvæmt. Stærsti hluti þessa fjár tapaðist við fall bankans.

Aðrir eru farnir að lýsa yfir stuðningi við Guðrúnu Bryndísi Karlsdóttur, sem skipar annað sætið á lista Framsóknarflokksins. Þetta eru reyndar ekki kjósendur Framsóknar, heldur svarnir andstæðingar flokksins, til að mynda bloggarinn Lára Hanna Einarsdóttir sem skrifar:

Framsóknarflokknum í Reykjavík býðst að setja fullkomlega frambærilega, vel menntaða konu í fyrsta sætið. Hún heitir Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sjúkraliði og verkfræðingur sem hefur mikla þekkingu á skipulagsmálum í Reykjavík ásamt fleiru.

Eitt hefur Framsókn að minnsta kosti tekist – að eiga fréttirnar nú yfir páskana.

gudni-1

 

Mánudagur 21.4.2014 - 14:16 - Ummæli ()

Tímamótabók Pikettys

New York Times birtir viðtal við Thomas Piketty, nýju stjörnuna á himni hagfræðinnar. Bók Pikettys kom út í Frakklandi fyrir ári, hún fer nú sigurför um heiminn, bókin heitir Auðmagnið á 21. öld. New York Times segir í fyrirsögn að Pikkety ráðist til atlögu við Adam Smith en líka Karl Marx.

Piketty byggir verk sitt á miklu magni gagna sem hann hefur safnað saman, talnaefni – en hann horfir líka til sögunnar og hann talar um Jane Austen og Balsac í bók sinni. Hann segist sjálfur vera einlægur markaðshyggjumaður.

„Við þurfum einkaeign og stofnanir markaðsins, ekki bara vegna hagkvæmninnar heldur líka vegna einstaklingsfrelsisins,“ segir hann.

En stóra hættan við kapítalismann er ójöfnuðurinn að mati Pikketys. Og hann vex ef menn gá ekki að sér. Ástæðan er í grundvallaratriðum sú að vöxturinn af fjármagni er meiri en hinn eiginlegi hagvöxtur – það þýðir að peningar færast stöðugt til þeirra sem eiga fjármagn, en í miklu minna mæli til þeirra sem vinna fyrir launum. Á tíma þegar lítill vöxtur er í hagkerfinu og mannfjöldinn stendur í stað eykst ójöfnuðurinn.

Þvert á móti var jöfnuður meiri á árunum eftir stríð. Þá var mikill hagvöxtur og mannfjöldinn var mjög vaxandi.

Inn í þetta spilar svo stefna Reagans og Thatcher sem gekk út á að lækka skatta og álögur á ríkt fólk – hugmyndin var sú að auðurinn myndi leka niður í neðri lög samfélagsins. Þetta reyndist vera rangt, segir Piketty.

Ójöfnuðurinn hefur slæm áhrif á lýðræðið, á réttarfarið, á samheldnina og siðferðið í samfélaginu, segir Piketty. Jöfn tækifæri eru ekki síður mikilvæg en jafn atkvæðisréttur.

Það er spurning hvað þetta á eftir að reynast mikilvæg bók. Hún er komin á lista yfir mest seldu bækur hjá New York Times. Nóbelsverðlaunahagfræðingurinn Paul Krugman hefur tekið hana upp á arma sína og segir að þetta sé líklega mikilvægasta hagfræðirit áratugarins. Bæði páfinn og Obama forseti halda ræður um ójöfnuð – það er kominn tími til að breyta stefnunni – ef það er þá hægt.

Piketty segist ekki vera neinn byltingarmaður. En hann segir að breyta þurfi skattbyrðinni. Hann er hlynntur alþjóðlegum skatti á fjármagn og þegar hann er spurður hvort eigi að senda herlið í skattaskjól eins og til dæmis Ermasundseyjuna Guernsey, svarar hann að það sé nóg að beita viðskiptaþvingunum.

34429-pik6-580x310

 Thomas Piketty. Hér, á vef New Yorker, er ágætt ítarefni um bók hans í formi línurita.

Sunnudagur 20.4.2014 - 22:08 - Ummæli ()

Að lenda á lista sem maður gæti ekki hugsað sér að kjósa

Sjálfstæðisflokkurinn kynnti fyrir helgi stefnumál sín í borgarstjórnarkosningunum í lok maí.

Oddviti flokksins, Halldór Halldórsson, talaði af því tilefni um að þyrfti að „taka upp“ nýtt aðalskipulag borgarinnar.

En nú vill svo til að í fjórða og fimmta sæti framboðslistans sitja þær Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Friðriksdóttir.

Báðar greiddu þær atkvæði með aðalskipulaginu nýja þegar það var samþykkt í borgarstjórn í nóvember síðastliðnum.

Þá var haft eftir Hildi á vefnum vísir.is að hún sé sammála áherslum aðalskipulagsins í þróun borgarinnar.

Hildur segir aðalkost skipulagsins vera áhersluna á að skapa nýja valkosti, annars vegar með góðri þéttri byggð og hins vegar góðum úthverfum, svo fólk geti valið hvernig það vill búa. „Þétting byggðar er þó vandmeðfarin, því það verður að passa upp á hagsmuni núverandi íbúa, eins og segir í tillögunni sem ég flutti fyrir hönd okkar í dag.“ Tillaga Sjálfstæðismanna var samþykkt samhljóða, en þar sagði að gæta þyrfti að bílastæða- og grunnþjónusturéttindum þeirra sem fyrir eru í eldri hverfunum.

Einn aðalhöfundur aðalskipulagsins er Gísli Marteinn Baldursson. Hann starfaði að gerð þess allt frá 2006, og er sá borgarfultrúi sem lengst hefur komið að málinu, eins og kemur fram í viðtali við Gísla Martein í Morgunblaðinu um helgina.

Gísli segir ennfremur í viðtalinu að hann hafi óttast það að hann gæti lent í þeirri stöðu að leiða lista sem hann gæti ekki hugsað sér að kjósa.

Það var einróma, allir voru á því að ég ætti að hætta og fara í sjónvarpið. Og þessir vinir mínir eru flestir sjálfstæðismenn en eru eins og margir þreyttir á íhaldsseminni í flokknum. Þeim fannst, eins og ég hafði á tilfinningunni sjálfur, að jafnvel þótt ég ynni prófkjörið gæti ég lent í þeirri stöðu eftir endalausar málamiðlanir og endanlega niðurröðun lista, sem oddvitinn hefur ekkert um að segja, að leiða lista sem ég gæti ekki hugsað mér að kjósa.

Sunnudagur 20.4.2014 - 16:46 - Ummæli ()

Bara 41 af 50

Mbl.is tekur saman lítið próf úr öndvegisritalista Kiljunnar.

Maður getur hakað við til að sjá hverjar af 50 efstu bókunum maður hefur lesið.

Ég ætla að gera játningu – útkoman varð að ég hef bara lesið 41.

Sum rit hefur maður reyndar ekki lesið nema að hluta til – það á við um Eddu og Sturlungu.

En þetta er kannski ekki nógu gott.

Hér má finna prófið á Mbl.is.

Saga_Sturlunga_AM_122_a_fol

Margir hafa lesið eitthvað í Sturlunga sögu, en færri hafa lesið ritið allt. Þetta er myndskreytt síða úr Króksfjarðarbók sem er annað meginhandrit Sturlungu.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is