Miðvikudagur 6.5.2015 - 10:03 - Ummæli ()

Að skilja verkfallsbaráttuna – varla hægt að setja lög á allt ef ekki semst

Það væri kannski ráð að reyna að brjóta til mergjar ástæðuna fyrir því að stefnir í hörð verkfallsátök og hvernig er hægt að koma í veg fyrir þau, fremur en að birta grjótharðan áróður eins og lesa má í því sem eitt sinn var kallað forystugrein í Morgunblaðinu.

Nú stöndum við frammi fyrir því að tugþúsundir launamanna eru á leið í verkfall á næstu vikum – þegar komið verður fram í júní er hætt við að samfélagið fari að miklu leyti að stöðvast vegna verkfalla.

Samt virðist ekkert vera að gerast í kjarasamningum. Hvernig ætla stjórnvöld að bregðast við þessu? Það er hægt að setja lög á verkföll afmarkaðra hópa, en það er nánast fáheyrt að sett séu lög á verkföll stórra félaga sem ná yfir heilu atvinnugreinarnar.

Ríkisstjórn sem reynir slíkt myndi magna upp mikinn ófrið – líklega væri réttast að hún segði síðan af sér og boðaði til kosninga.

Af fréttaflutningi í fjölmiðlum mætti helst skilja að sökin sé öll hjá verkalýðshreyfingunni, að hún fari fram með óraunhæfar hugmyndir og væntingar. En verkalýðshreyfingin er ekki til í tómarúmi. Hún neitar einfaldlega að sitja ein uppi með að eiga að sýna ábyrgð gagnvart verðbólgu – að það sé hlutverk launamanna að standa vörð um verðstöðugleika á kostnað betri kjara.

Guðmundur Rúnar Svansson, sem eitt sinn skrifaði á vefinn Deigluna, ritar afar greinargóðan pistil á Facebook, veltir því fyrir sér hvað vaki fyrir verkalýðshreyfingunni – og hvernig tíðarandinn nú vekur upp gremju hjá launafólki. Guðmundur segir að þarna sé líka á ferðinni uppgjör um hvert íslenskt samfélag stefni næstu áratugi:

 

Í meira en tvo áratugi hefur það verið almenna reglan að samið er um hóflegar hækkanir sem þó tryggja kaupmáttaraukningu: Það er löngu liðin tíð að forysta verkalýðshreyfingarinnar skilji ekki gangverk efnahagslífsins eða afneiti tengslum verðbólgu og launahækkana. Það er í meira lagi tilgangslaus umræða að reyna í föðurlegum tón að útskýra fyrir þeim að launahækkanir leiði til verðbólgu.

 

Ég hef meiri áhyggjur af hinu, sem maður sér víða hjá hægrisinnuðum kunningjum, sem er trúin á að verðbólgan muni éta upp allar launahækkanir sem fást, upp á krónu og jafnvel aurinn líka, sem er að sjálfsögðu einfaldlega rangt. Rétt eins og verðbólga getur á áfallatímum verið hagfræðilegur mekanismi sem lækkar laun í hagkerfinu, þá getur hún líka verið hagfræðilegur mekanismi sem er hluti af breytingum í samfélaginu sem auka tekjujöfnuð (en geta haft margvíslegar aðrar og neikvæðari afleiðingar).

 

Maður þarf ekki að vera neitt sérstaklega vel að sér í Íslandssögu 20. aldar til að skilja að verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur jöfnum höndum barist fyrir annars vegar launum og réttindum og hins vegar tekjujöfnuði og velferð í samfélaginu. Skipulag skattkerfisins, húsnæðiskerfið, heilbrigisþjónustan og bótakerfið hefur ekkert síður verið samkomulag við verkalýðshreyfinguna en pólitískt samkomulag milli þingflokka í ríkisstjórnum.

 

Þetta þarf að hafa í huga til að skilja af hverju við í dag erum að öllum líkindum að horfa upp á langan tíma af verkfallsátökum um allt samfélagið. Það kemur ekki til af vísitöluútreikningum frá hagfræðingum verkalýðsfélaganna, eða þá því að þau hafi skyndilega gengið af göflunum og gleymt löngu lærðum sannindum um tengsl verðbólgu og launahækkana. Það kemur til af pólitískri óánægju, sem ég myndi halda að væri réttmæt, þó ég skrifi kannski ekki upp á sýn verkalýðshreyfingarinnar á landsmálin.

 
Í stuttu máli, þá voru trekk í trekk eftir hrun gerðir samningar upp á „skid og ingenteng“ enda bauð ástandið varla upp á meira. En í dag virðist ríkisstjórnin hvað eftir annað vera að vinna fyrir hástéttirnar, á kostnað hinna. Auðlegðarskatturinn látinn renna út, veiðigjöld snarlækkuð (og nú makríllinn að því er virðist gefinn), leiðrétting sem í raun gagnast há- og millitekjufólki betur, dúndursamningar við lækna (og fjármálaráðherra sem nýlega talaði eins og launajöfnuður væri vandamál), breytingar á VSK kerfinu og þannig mætti áfram telja.

 
Það er orðið nokkuð síðan við fórum að sjá til sólar eftir hrun. Það verið teknar tvær stórar og veigamiklar pólitískar ákvarðanir um úthlutun á verðmætum – og þeim var ekki úthlutað til þeirra tekjulægstu – og það er meira eftir. Maður þarf ekki að vera genginn fyrir björg kommúnismans til að sjá að verkalýðshreyfingin er sannfærð um þessi ríkisstjórn ætli að úthluta öllu sem hún getur til annarra en láta fólkið á gólfinu sitja eftir. Og þeir sem trúa því í alvörunni að verkalýðshreyfingin muni eftir þessar ákvarðanir taka lága verðbólgu framyfir hið sögulega hlutverk sitt, að tryggja jöfnuð í samfélaginu, mega held ég heita fullkomlega ólæsir á Íslandssöguna.

 
Því í rauninni eru þetta ekki kjarasamningar sem tekist er á um laun, heldur væri ef til vill nær að hugsa um uppgjör þar sem er tekist er á um hvert íslenskt samfélag stefnir á næstu árum. Og það er ágætt að hafa í huga að þrátt fyrir montið í þeim Ólafi, Steingrími og Jóni Baldvin, þá var nú þjóðarsáttin á sínum tíma fyrst og fremst samkomulag milli verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda um að standa saman gegn ríkisstjórninni. Það er margt sem gæti breyst í pólitíska landslaginu næstu vikur.

 

Miðvikudagur 6.5.2015 - 07:20 - Ummæli ()

Appelsínugul sveifla í Alberta

Kosningaúrslit í hinu stóra og auðuga Albertafylki vekja skjálfta út um allt Kanada.

Alberta var lengst af mesta landbúnaðarfylki Kanada, en svo fannst olía – og nú er þarna einhver mesti olíuiðnaður í heimi.

Íhaldsflokkurinn (PC) hefur verið allsráðandi, og margir talið að það myndi seint breytast. Íhaldsmenn hafa stjórnað í Alberta í 44 ár samfleytt og hefur farið af þeim spillingarorð.

En í kosningum í gær breyttist þetta snögglega. Nýi lýðræðisflokkurinn (NDP), sem er vinstri/miðjuflokkur, sigraði með yfirburðum, fékk til dæmis öll þingsætin í olíuborginni Edmonton og mikinn meirihluta í Calgary, sem er mikil viðskiptamiðstöð.

Alls fékk NDP 53 þingsæti, og verður formaður flokksins í Alberta, Rachel Notley, forsætisráðherra fylkisins.

Íhaldsflokkurinn er ekki með nema 11 þingmenn, stærri en hann er nýr flokkur sem nefnist Wildrose flokkurinn og er enn íhaldssamari. Sá flokkur fékk 13 sæti, en einungis í sveitum.

Litur NDP er appelsínugulur svo talað er um appelsínugula sveiflu í Alberta.

11203155_10153366180925337_4692945905638707897_n

Þriðjudagur 5.5.2015 - 15:26 - Ummæli ()

Samfylkingin í krísu á afmælinu – á Katrín að taka við?

Samfylkingin er í neyðarlegri stöðu á 15 ára afmæli sínu. Hún ber meira að segja nafn sem átti að vera til bráðabirgða – en er orðið fast á henni, sérlega óaðlaðandi nafn á stjórnmálaflokki.

Fylgið er á bilinu 10 til 15 prósent, það er hvergi nærri 30 prósentunum og meira sem stefnt var að þegar flokkurinn var stofnaður úr Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi, Kvennalista og Þjóðvaka. Samanlagt fylgi þessara flokka var miklu meira. Samfylkingin átti að skáka Sjálfstæðisflokknum – en það talar enginn lengur um tvo turna í íslenskri pólitík.

Samfylkingin er í margvíslegri kreppu. Hún er með formann sem nýtur afar lítils trausts og var næstum felldur úr sessi á síðasta landsfundi. Þingflokkurinn er ekki bara fámennur, hann virkar gamall og úrsérgengin. Stefnan er óviss – flokkurinn er ekki ennþá búinn að ná sér upp úr blairismanum sem hann ánetjaðist á tíma Ingibjargar Sólrúnar.

Á sjálfan afmælisdaginn skrifar einn virtasti rithöfundur þjóðarinnar, Jón Kalman Stefánsson, grein þar sem hann leggur til að vinstri menn fylki sér að baki Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna.

Katrín er langvinsælasti stjórnmálamaður Íslands, en hún er í flokki sem dregur hana niður. Þar eru Ögmundur og Steingrímur á fleti fyrir. Katrín sat reyndar í hinni óvinsælu Jóhönnustjórn með þeim, og er eiginlega eini pólitíkusinn sem komst ólemstraður þaðan út.

Vinstri grænir rifu sjálfa sig á hol í því stjórnarsamstarfi, þar kom í ljós að flokksmenn gátu varla verið sammála um nokkurn hlut. Steingrímur gerðist eindreginn hollvinur fjármálaaflanna, en Ögmundur var í eilífri uppreisn. Síðan þá hefur VG ekki haft sérlega mikið til málanna að leggja – og fylgið er eftir því.

Jón Kalman leggur til að VG, Samfylking og Björt framtíð fari saman í breiðfylkingu undir stjórn Katrínar, svona í anda R-listans. Hann segir að hennar tími sé runninn upp. En þá þurfa Samfylking og VG nánast að leggja sig niður og horfast í augu við að flokkarnir eru eiginlega þrotabú. Í síðustu skoðanakönnun var samanlagt fylgi flokkanna í kringum 20 prósent.

 

 

 

Þriðjudagur 5.5.2015 - 11:31 - Ummæli ()

Dómsmál – og siðferði á íslenskum hlutabréfamarkaði

Líklega er markaðsmisnotkun bankanna fyrir hrun stærsti blekkingarleikur sem hefur verið farið í á Íslandi.

Þá var virði bankanna var haldið uppi misserum saman á hlutabréfamarkaði með alls konar brellum.

Þetta var náttúrlega ljótur leikur – því með þessu voru hluthafar blekktir. Margt fólk tapaði óskaplegum fjármunum á hruni bankanna – þá féll hlutabréfaverðið eins og steinn. Um tíma var það í fáránlegum hæðum, í júlí 2007 var úrvalsvísitalan (sic!) 9040 stig, í desember árið eftir var hún komin í 370.

Þetta er einhver mesta hlutabréfabóla sögunnar, og að miklu leyti var hún pumpuð upp innanífrá. Það var haldið uppi falsaðri eftirspurn eftir hlutabréfum – og þar með verði þeirra.

Um þetta var mikið rætt á sínum tíma, fyrir hrun. Margir vissu hvað var að gerast – en þá var eins og samfélagið flyti sofandi að feigðarósi.

Nú veit ég ekki hvort verður hægt að sanna þessa grófu blekkingarstarfsemi – markaðsmisnotkun er það kallað – þannig að nægi til sakfellingar í dómi. Kannski er það erfiðleikum bundið?

En það er mjög sérstakt að horfa upp á sakborninga og lögmenn þeirra láta eins og það sé út í hött og jafnvel asnalegt að rannsaka þessi mál og ákæra fyrir þau. Annað hvort er þetta einhvers konar taktík eða veruleikafirring – en þessi málflutningur fær feikilegt pláss í fjölmiðlum.

Eins og segir er aldrei að vita hvernig dómar falla. En siðferðislega var þessi leikur fyrir neðan allar hellur. Um það má til dæmis lesa í ágætri BS-ritgerð Eyjólfs Brynjars Eyjólfssonar sem er aðgengileg á netinu og nefnist Siðferði á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Mánudagur 4.5.2015 - 17:22 - Ummæli ()

Nokkuð mikið gölluð skoðanakönnun

Það er alveg sama hvort menn eru með eða á móti Reykjavíkurflugvelli, skoðanakönnun um hann sem birtist um helgina er meingölluð.

Ástæðan er einfaldlega sú að orðalagið spurningarinnar er gildishlaðið – þetta er nokkuð sem unglingar læra í stjórnmálafræði í framhaldsskóla, að þurfi að gera ákveðnar kröfur um hvernig spurningar í könnunum eru orðaðar. Þetta er stjórnmálafræði 101.

Í könnuninni er spurt um flugbraut á Reykjavíkurflugvelli og vísað til hennar sem „neyðarbrautar“.

Nú er þetta orð „neyðarbraut“ alveg nýtt af nálinni, það hefur verið notað af þeim sem vilja ekki láta hrófla við flugvellinum, er beinlínis hanað sem vopn í áróðursstríði til að vekja upp ákveðnar tilfinningar.

Þessi flugbraut kallast norðaustur-suðvesturbraut eða braut 06-24 og það hefði auðvitað átt að nægja í skoðanakönnuninni.

Við gætum neft dæmi sem eru hliðstæð. Það má vissulega krydda skoðanakannanir, en þá hætta þær að vera hlutlausar.

Til dæmis spurningu sem er svona: „Ertu með eða á móti Evrópusambandinu, sem oft er kallað friðarbandalag?“

Eða:

„Styður þú eða ert andvígur ríkisstjórninni, öðru nafni stjórn ríka fólksins?“

Eða svona, þennan hef ég frá þekktum Skagfirðingi:

„Ertu með eða á móti því að fjarlægja stólana úr ráðhúsinu, en þeir hafa einnig verið kallaðir frelsisstólar?“

Mánudagur 4.5.2015 - 14:34 - Ummæli ()

Svavar Dalmann

Svavar Dalmann Hjaltason var á svipuðu reki og ég. Ég man eftir honum úr æsku, fjörmiklum pilti. En hann ánetjaðist snemma áfengi, strax á gagnfræðaskólaárunum.

Svavar á tímum útigangsmaður og oft í hræðilegu ástandi. Ég furðaði mig stundum á því að hann væri enn á lífi, en nú er hann látinn, 55 ára að aldri. Mér skilst að síðasta skeið hans hafi verið mjög erfitt. Ég heyrði í manni sem sagðist hafa hjálpað honum á fætur fyrir stuttu eftir að honum var gerður ljótur grikkur á Hlemmi.

Alkóhólismi og eiturfíkn geta tekið á sig hræðilegar myndir.

Hann var greindur maður, snjall í tilsvörum, töffari á sinn hátt, flestir sem þekktu hann minnast hans með hlýju. Það geri ég – ég á honum nokkra skuld að gjalda sem verður ekki launuð með peningunum  sem hann sníkti stundum af mér. Hann reyndist mér vel.

Illugi vinur minn Jökulsson segir af Svavari þessa sögu:

Einhvern tíma í fyrra hitti ég hann frekar slappan og sagði honum að hann myndi drepa sig á þessu. „Æjá,“ svaraði hann og svo eftir hárrétt tæmaða kúnstpásu: „En ætli þú drepir þig ekki á einhverju líka?“

 

11198622_673033559509111_261987933_n

Mánudagur 4.5.2015 - 11:40 - Ummæli ()

Ríkisstjórn í djúpri lægð

skoðanakönnun MMR staðfestir sveifluna sem var í Þjóðarpúlsi Gallups, ríkisstjórnin stefnir í djúpa lægð. Í MMR könnuninni fellur fylgi ríkisstjórnarinnar í 30,7 prósent, Sjálfstæðisflokkurinn er með 22 prósent, en Framsókn 10,8.

Fyrir þessu eru ýmsar ástæður, en kannski má fyrst og fremst nefna þá tilfinningu sem ágerist að stjórnarflokkarnir vinni fyrir auðmenn en ekki almenning. Könnunin er reyndar gerð áður en umræðan um makrílfrumvarpið komst í hámæli.

Það stendur upp á Sigmund Davíð og Bjarna Benediktsson að snúa þessu við. Á það má minna að þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var komin í svipaða stöðu, kallaði Bjarni eftir afsögn hennar.

Þeir geta kannski helst huggað sig við að fylgi síðustu ríkisstjórnarflokka er í algjöru lágmarki – þar þurfa menn verulega að hugsa sinn gang. Samfylkingin er þarna komin niður í 10,7 prósent.

Miðað við þetta eiga ríkisstjórnarflokkarnir varla annan kost en að kasta makrílfrumvarpinu umdeilda, reyna af alvöru að knýja fram kjarasamninga í stað þess að gefa glannalegar yfirlýsingar sem eru eins og olía á eld.

Reyndar er talað um að innan fárra daga líti í ljós alvöru tillögur um stöðugleikaskatt sem á að koma í veg fyrir að allt fari á hliðina ef slakað verður á gjaldeyrishöftum. Skattur af því tagi er nauðsynlegur – og líklega óhjákvæmilegur – en það verður áhugavert að sjá framkvæmdina.

Píratar fara í 32 prósent – og eru semsagt orðnir fylgismeiri en ríkisstjórnin. Það er ótrúleg staða.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is