Sunday 21.12.2014 - 12:21 - Ummæli ()

Simmasjoppa, rithöfundarnir og sjoppu(ó)menningin

Hér er innslag úr Kiljunni frá því fyrr í mánuðinum. Þetta er úr dagskrárliðnum Bækur & staðir. Í þetta sinn förum við ekki langt að heiman, á Suðurgötuna í Reykjavík. Þar stóð Simmasjoppa sem var fræg en er nú stekkur. Nokkrir rithöfundar sem ólust upp í Vesturbænum  hafa skrifað um Simmasjoppu. Um leið rifjum við upp ýmis atriði úr sjoppumenningu áranna eftir stríð.

Dagskrárgerðin var í höndum Ragnheiðar Thorsteinsson.

 

Saturday 20.12.2014 - 23:23 - Ummæli ()

Jólaöl í gömlu ölgerðinni

Hér er skemmtileg jólafrétt og jólaauglýsing – brot úr gömlu Reykjavík.

Þarna er fólk samankomið að morgni, rétt fyrir jól, til að fá hvítöl á brúsa í Ölgerð Egils Skallagrímssonar sem þá var við Rauðarárstíg.

Fólk kom með stór ílát til að ná í ölið sem freyddi af krana. Það var einstaklega bragðgott – altént er það betra í minningunni en hvítölið sem er selt í plastflöskum í búðum. Eða kannski var það athöfnin sem gerði þetta skemmtilegt.

Nú er líka farið að selja hvítöl í dósum blandað saman við appelsín – mér varð óvart á að kaupa það um daginn – það er dísætur andskoti og bragðvondur eftir því.

Þarna mynduðust oft langar biðraðir og best var að koma snemma morguns.

Ég náði í þessar myndir af Facebook síðu Eggerts Þór Bernharðssonar sagnfræðings. Hann vann við hvítölssöluna og þaðan man ég fyrst eftir honum.

 

10535046_10204465941024981_7114293681386512018_o

Saturday 20.12.2014 - 11:30 - Ummæli ()

Framsókn í krísu – og allmjög öðruvísi en gamla Framsókn

Fylgi Sjálfstæðisflokksins nálgast þrjátíu prósentin, samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR, en Framsókn liggur í ellefu prósentum. Það gæti svo farið innan skamms að Sjálfstæðisflokkurinn væri orðinn þrefalt fylgismeiri en samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn.

Enn virðist Framsóknarflokkurinn ekki njóta á neinn hátt skuldaleiðréttingarinnar sem var helsta baráttumál hans. Er það vegna þess að hún stóðst ekki væntingar? Það er sagður vera sæmilegur gangur í hagkerfinu – þótt tölur frá Hagstofunni – bendi til annars. Framsókn nýtur þess ekki heldur.

Það er reyndar gömul saga og ný að flokkar sem eru í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn veikjast. Árið 2006 gafst Halldór Ásgrímsson beinlínis upp á að vera forsætisráðherra í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Líf hans í stjórnarráðinu var orðið óbærilegt.

Ég hitti um daginn gamlan forystumann úr Framsóknarflokknum sem sagðist vera að hugsa um að ganga út honum. Hann sagðist ekki þekkja flokkinn sinn lengur. Framsókn var á árum áður félagshyggjuflokkur með ívafi samvinnustefnu. Sumir þingmenn hans hafa nú tileinkað sér yfirbragð hægri pópúlisma – sem er órafjarri gamla Framsóknarflokknum. Hann var flokkur sem vildi gera málamiðlanir, lægja öldur, halda friðinn. Nú er málflutningurinn harður, stríður og útilokandi.

Kannski er þetta til marks um ákveðna tilvistarkreppu – og Framsókn væri þá ekki eini stjórnmálaflokkurinn sem á í slíku. Hin snögga fylgisaukning í síðstu kosningum er farin, Sjálfstæðisflokkurinn er smátt og smátt að endurheimta fylgið sem fór þá yfir til Framsóknar. Eftir stendur Framsóknarflokkur sem er afar taugaveiklaður og í svo úfnum ham að hætta er á að hann skaði sig og aðra, eins og gerðist í síðustu borgarstjórnarkosningum í Reykjavík.

Það eru líka fjarskalega erfið verkefni sem bíða ríkisstjórnarinnar. Enn er ósamið í læknadeilunni og fleiri kjarasamningar eru lausir eða að losna. Fyrirheitin um að ná einhverjum stórkostlegum fjárhæðum af erlendum kröfuhöfum virðast ekki ætla að rætast. Svo eru í uppsiglingu tvö mál sem gætu valdið stórkostlegum deilum – svo nánast allt annað bliknar – og leikið Framsóknarflokkinn sérlega grátt. Það er annars vegar kvótasetning makríls og hins vegar frumvarp sem myndi tryggja útgerðinni nýtingarrétt á kvóta í hálfan aldarfjórðung við afar vægu gjaldi.

Friday 19.12.2014 - 16:20 - Ummæli ()

Þýski jóladiskurinn

Í bílnum er ég að hlusta á þýska jóladiskinn sem ég keypti fyrir nokkrum árum. Eins og segir um hann, þetta er fyrir tíma crossover – þarna voru jólalög háklassísk eða komin úr sálmabókinni. Upptökurnar eru frá 6. og 7. áratugnum, þarna eru drengjakórar og dísætir sópranar.

Þetta er ekki góð tónlist til að hafa undir stýri. Maður hverfur inn í hálfgerða leiðslu, gleymir sér á ljósum – það er flautað á mann.

Hugurinn leitar aftur í mið-evrópskar borgir, þar sem eru gömul hús og upplýstir gluggar, brakar í snjó, fólk er vel en fallega klætt, ilmur af brenndum kastaníuhnetum og glühwein.

Dálítið annað en íslensk jólalög þar sem er svo oft verið að öskra á mann: JÓOOLLL og JÓOOOLAAA.

Það er tónlist sem er hönnuð til að spila í Kringlunni og Smáralind.

51Q4wMime+L

Á jóladisknum góða frá Deutsche Grammophone syngja meðal annarra Maria Stader, Fritz Wunderlich, Herman Prey, Gundula Janowitz, Irmgard Seefried og Dietrich Fischer-Dieskau. Þetta er mjög þýskt og sætt – svo maður gleymir sér í jólaumferðinni. En það er kannski ekki gott?

Friday 19.12.2014 - 09:49 - Ummæli ()

Umræða um tittlingaskít

Facebook vinur minn, Þórður Magg úr Grundarfirði, birtir þennan texta. Er hugsanlegt að hann hafi eitthvað til síns máls um það hvað við tölum mikið um hluti sem skipta engu máli:

Ég var að spögulera.
Umræðan undanfarin misseri er um algeran titlingaskít. Gott dæmi er kirkjusókn barna, skiptir þetta venjulegt fólk miklu máli? Annað dæmi; múslima umræðan. Þekkir einhver múslim? Flugvallarmálið; er einhver sem þið þekkið sem notar þennan flugvöll? Áfengisfrumvarpið; er einhver í öngum sínum útaf skorti á víni?
Ég get alveg haft (og hef) skoðanir á þessu öllu saman. En ég hef það á tilfinningunni að það sé verið að beina umræðunni frá málum sem skipta raunverulegu máli yfir í þrautleiðilegan tittlingaskít sem litlu/engu máli skiptir. Er ég paranoid eða getur verið að umræðunni sé stýrt? Vá, hvað ég veit um mörg mál sem skipta mig meira máli en þessi smáatriði.

Er kannski eitthvað til í þessu? Getum við tekið okkur til og hætt að elta svona mýrarljós?

Thursday 18.12.2014 - 23:51 - Ummæli ()

Frosti er varla að fatta þetta fyrst nú?

Frosti Sigurjónsson alþingismaður hefur um árabil verið einn harðasti andstæðingur inngöngu Íslands í ESB.

Maður skyldi ætla að hann skilji hvernig EES samningurinn virkar.

En Frosti er óánægður með að hafa ekki neitt að segja um lög sem koma inn á Alþingi í gegnum EES samninginn – embættismenn segja honum að þá sé það alltof seint.

Við þingmenn hljótum að vilja hafa eitthvað að segja um það hvernig lög eru sett, við erum lýðræðislega kjörnir og það er ekki ásættanlegt að einhverjir embættismenn segi okkur að það sé of seint.

En þetta er einmitt eðli EES samningsins. Íslendingar eru nauðbeygðir til að taka við ESB lögum og lagabálkum vegna hans, en hafa hvergi aðkomu að því hvernig hún er. Við getum ekki samið um þessi lög, ekki breytt þeim, ekki haft áhrif á þau.

Svona hefur þetta verið frá upphafi. Lýðræðislegt er það ekki. Og hefur líklega alltaf brotið í bága við íslensku stjórnarskrána.

Varla er Frosti að fatta þetta fyrst núna?

Thursday 18.12.2014 - 22:46 - Ummæli ()

Hógværi?

Við sem erum hinn hógværi, algjöri meirihluti, við höfum í okkar sofandahætti látið þetta yfir okkur ganga. Það er bara ekki hægt. Samfélagið er á móti því að þetta sé á einn eða annan hátt bannað.

Ásmundur Friðriksson aþingismaður, 17. desember 2014

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is