Sunnudagur 21.9.2014 - 14:48 - Ummæli ()

Afmælisbarnið Sigurveig

Sigurveig kona mín á afmæli í dag. Hún er afskaplega vinnusöm, mér skilst hún ætli að leggja gjörva hönd á bókhald í í dag.

Hún er betri helmingur minn, enda er hún klárari en ég og hefur meira ímyndunarafl. Og hún er líka skapmeiri en ég. Hún er hrædd við flest skordýr, aðallega köngulær, ég er hræddur við þrumuveður.

Sigurveig er menntuð í matreiðslu, frá Cordon Bleu skólanum. Ég er að mörgu leyti feginn að hafa komið eldamennsku hennar út af heimilinu, því nú rekur hún sælkerabúð í Bergstaðastræti 4, á spottanum sem er á milli Laugavegs og Skólavörðustígs.

Sigurveig er meistarakokkur, ótrúlega snjöll að laða það besta úr úr hráefninu og fundvís á einfaldar lausnir.

Í Sælkerabúð sinni framreiðir hún súpur, brauðmeti, kökur, sultur, frönsku makkarónurnar sem eru á heimsmælikvarða og hafraklattana sem eru seldir út um allt land. Allt er búið til úr bestu og ferskustu hráefnum sem völ er á. Það er aldrei gefinn neinn afsláttur af því.

Þetta er heilmikil vinna – og ég er ennþá með samviskubit yfir því að hafa stungið af í sumar og farið til Grikklands en skilið Sigurveigu eftir heima.

Fyrirtækið hennar Sigurveigar tók annars til starfa í október 2008, þegar allt virtist vera að fara til andskotans. Þetta er smáfyrirtæki sem nýtur þess að hafa nokkra góða starfsmenn sem fá ágæt laun. Ekki hefur verið stofnað til skulda. Almennt er ekkert hlaðið undir smáfyrirtæki á Íslandi – en mér hefur stundum fundist að Sigurveig eigi að fá viðurkenningar fyrir dugnað sinn og elju.

IMG_5253

Sunnudagur 21.9.2014 - 12:49 - Ummæli ()

Óralöng biðröð eftir iPhone

There is a sucker born every minute

Þetta á bandarískur kaupsýslumaður að hafa sagt þegar hann var spurður hvers vegna varan hans væri svona vinsæl.

Líklega má heimfæra þetta upp á tölvufyrirtækið Apple.

Fyrir ári kynnti fyrirtækið símana iPhone 5s og 5c og þá varð uppi fótur og fit. Þeir voru aðeins öðruvísi en iPhone 5.

Nú, aðeins ári síðar er kynntur síminn iPhone 6 og þá er biðröðin eftir nýja símanum í London svona.

iPhone 6 er pínulítið öðruvísi en símarnir sem á undan komu. Þeir verða komnir í sölu út um allt eftir stuttan tíma. En markaðssetningin er auðvitað fín – og hluthafarnir græða, út á það gengur þetta.

Laugardagur 20.9.2014 - 13:06 - Ummæli ()

Nei, þetta er ekki heimstyrjöld

Stundum geta menn talað frjálslega, líka þótt þeir séu Franz páfi, Styrmir Gunnarsson eða Hans Rosling.

Allir þessir menn hafa orðað það með einum eða öðrum hætti að þriðja heimsstyrjöldin sé á einhvern hátt byrjuð. Það er, eins og ég segi, mjög frjálslegt.

Við erum að lifa tíma þegar er ófriðlegt í Miðausturlöndum, það er ekki í fyrsta skiptið. Þar höfum við á síðstu áratugum séð margar innrásir Ísraela í Líbanon, síendurtekið sprengjuregn á Gaza, stórstyrjöld milli Írans og Íraks þar sem talið er að 1,2 milljónir manna hafi látið lífið. Við höfum séð tvær innrásir í Írak, 1991 og 2003.

Og aðeins austar var innrás Sovétmanna í Afganistan 1979, hún var gerð til að styrkja leppstjórn sem átti í vök að verjast í borgarastríði. Það var þá að Bandaríkin hófu að styðja sveitir vígamanna til að berjast gegn Sovétmönnum. Síðar tóku Bandaríkin við að herja í Afganistan.

Það var barist í Evrópu á árunum 1991-1999, á Balkanskaga. Mannfallið í þeim stríðum, sem voru háð af ógurlegri grimmd, er talið hafa verið nærri 150 þúsund manns. Þetta skapaði líka óskaplegan flóttamannavanda.

Á þessum tíma háðu Rússar líka blóðugt og ógeðslegt stríð í Tsétséníu. Þar voru framin skelfileg grimmdarverk. Óbreyttir borgarar þjáðust mikið, eins og í Balkanstríðunum.

Svo má nefna Mikla Afríkustríðið sem háð var í Kongó 1998-2003. Þetta var framhald af fyrri átökum sem höfðu verið mjög mannskæð. Talið er að allt að 5,4 milljónir manna hafi látið lífið vegna þessa stríðs – og aftur voru það óbreyttir borgarar sem urðu verst úti.

Þetta eru bara nokkur dæmi um styrjaldir sem ættu að vera okkur öllum í fersku minni.

Eins og ég segi, menn tala frjálslega um heimsstyrjöld, vegna þess að það eru átök við ofsatrúarhreyfingu í Írak, vegna þess að Ísraelar sprengja á Gaza og vegna þess að Rússar sýna yfirgangssemi í Úkraínu. Allt eru þetta alvarlegir atburðir, en það er fráleitt að tala um að heimurinn sé hættulegri en nokkru sinni fyrr eins og sumir eru farnir að gera af þessu tilefni.

Og heimsstyrjöld er þetta örugglega ekki ekki – og heimsstyrjöldin er heldur ekki að byrja – og ekki heldur þótt menn séu með hugann við stríðið sem hófst 1914. Staðreyndin er sú að dauðsföllum völdum stríðs hefur farið mjög fækkandi – og blóðugustu stríðin sem nú eru háð eru borgarastríð, ekki stríð milli þjóða, eins og í Sýrlandi, Írak og í Mexíkó þar sem víða er nánast styrjaldarástand vegna eiturlyfja.

worldwar3

 

 

Laugardagur 20.9.2014 - 10:25 - Ummæli ()

Hæfileikalausi hipsterinn – líka í Reykjavík

Rithöfundurinn Will Self skrifar um það sem hann kallar „hæfileikalausa hipsterinn“ í New Statesman. Hann segir að við séum að lifa tíma þessarar manngerðar –  átrúnaðar á hana – og þess sem hún telur vera „list“.

Greinin er skrifuð í stíl nokkuð önugs manns á sextugsaldri. Hann veltir fyrir sér allri þeirri „heilalausu sýndarmennsku sem telst vera hip“.

Will Self viðurkennir að sín eigin kynslóð beri ábyrgð á þessu með hugmyndum um að það væri enginn munur hámenningu og lágmenningu – og að auglýsingar væru líka listrænar.

Hann segist hafa komið til Reykjavíkur og ekki einu sinni þar sleppi maður undan þessu liði – borgin sé full af því.

 

talentless_hipster_shirts-re78bd7abb8204e7f9fb78c2a493bffdb_va6lr_324

Föstudagur 19.9.2014 - 15:58 - Ummæli ()

Ógild kosning um sjálfstæði Skotlands?

Kosningin um sjálfstæði Skotlands var líklega ógild.

Ef Hæstiréttur Íslands fengi að fjalla um málið yrði nær örugglega úrskurðað að svo væri.

Rússar sem fylgdust með kosningunni segja að talningin hafi fram í einhvers konar skemmu sem var alltof stór, engin leið hafi verið að hafa yfirsýn, og að öll framkvæmdin hafi verið meingölluð.

Menn hafi komið og farið með atkvæðaseðla án þess að nokkur fylgdist með.

En það fór eins og mig hugði að þessar kosningar væru í raun ekkert spennandi. Munurinn var meiri en svo – heil tíu prósentustig. Skoðanakannanir sýndu alla tíð að já-sinnar myndu tapa – það var í raun engin lógík í því þegar menn voru að tala sig í spennu um að úrslitin gætu verið á hinn veginn.

 

Föstudagur 19.9.2014 - 12:15 - Ummæli ()

Vesturfarar 4. þáttur – Árborg og Hekla

Í fimmta þætti Vesturfaranna förum við um byggðarlögin Árborg og Heklueyju. Þátturinn er á dagskrá Rúv á sunnudagskvöld klukkan 20.10.

Í Árborg fáum við meðal annars að heyra af konu sem saknaði Skagafjarðar svo mjög að útbúin var handa henni sérstök Drangey til að horfa á.

En á Heklueyju, sem er stærsta eyjan í Winnipegvatni, var lengi íslensk byggð. Þótt náttúran sé fögur, þá voru aðstæður oft erfiðar – byggðin var mjög afskekkt. Fólkið flutti burt af Heklu upp úr miðri síðustu öld, en nú hafa nokkrir snúið aftur.

 

5 ttt--

Hjónin Maxine og John Ingalls búa á Heklueyju. Maxine er uppalin þar, en John var áður í Konunglegu kanadísku riddaralögreglunni (RCMP) hann er af Ingalls fjölskyldunni – þeirri sem er vel þekkt úr sjónvarpi.

Fimmtudagur 18.9.2014 - 16:31 - Ummæli ()

Þegar miðasalan var á Lækjartorgi

Þessi auglýsing úr Vísi er frá 1962. Þá voru landsleikir vinsælir eins og nú, en miðar á þá voru seldir í þartilgerðu tjaldi sem var sett upp við suðurvegg Útvegsbankans á Lækjartorgi.

Þetta þótti gefast vel. Oft voru raðir við miðasölutjaldið, en það spjölluðu menn um fótbolta og fleira – var glatt á hjalla.

Nú er notað annað kerfi. Það er ekki víst að það gefist betur.

Screen Shot 2014-09-18 at 16.27.15

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is