Þriðjudagur 27.9.2016 - 21:12 - Ummæli ()

Íslendingur ræðst á ungan mann með rasistaupphrópunum, bítur eyrað af öðrum

Vefur Berliner Zeitung, götublaðs í Berlín. Hér segir frá Íslendingi, þannig er það orðað í fréttinni og sagt að hann sé 43 ára,  sem sat í lest í Berlín og réðist að ungum manni með svívirðingum. Kallaði hann Bin Laden, spurði hvort hann ætlaði ekki að ákalla Allah og sprengja sprengju í lestinni. Segir að ungi maðurinn hafi varla brugðist við, heldur látið þetta yfir sig ganga.

Íslendingurinn reyndi að æsa aðra farþega upp á móti honum. Þá steig fram Alexander B. til varnar unga manninum. Urðu nokkrar stympingar sem enduðu með því að Íslendingurinn beit stóran hluta eyrans af Alexander.

Þetta mun hafa gerst á sunnudag samkvæmt frásögn blaðsins. Segir í fréttinni að tilraun verði gerð til að sauma eyrað á Alexander en Íslendingurinn sitji í varðhaldi og verði leiddur fyrir dómara á næstu dögum.

 

Screen Shot 2016-09-27 at 21.13.12

 

Og hér er fréttin eins og hún birtist hjá Bild Zeitung. „Brjálaður Íslendingur beit af mér eyrað.“

 

Screen Shot 2016-09-27 at 22.29.26

Þriðjudagur 27.9.2016 - 17:17 - Ummæli ()

Stikla úr 4. þætti Steinsteypualdarinnar

Fjórði þáttur Steinsteypualdarinnar verður sýndur á RÚV á fimmtudagskvöldið. Hér er stikla úr þættinum. Við erum komin til ársins 1960 og hin hreinu form módernismans eru alls ráðandi, ekki bara í byggingalist heldur líka í málverki og hönnun.

Við byrjum ferð okkar um arkitektúr og skipulag þessa tíma á Ægissíðu sem á þeim árum var fínasta adressan í bænum. Þar stendur eitt frægasta húsið eftir arkitektinn Sigvalda Thordarson en skammt undan er hús sem Gísli Halldórsson teiknaði fyrir sjálfan sig.

 

Þriðjudagur 27.9.2016 - 11:05 - Ummæli ()

Forsetakappræður í Ameríku – og eldhúsdagur á Íslandi

Við lifum tíma sem er farið að kenna við post-factual eða post-truth. Þ.e. að staðreyndir eða sannleikurinn skipti ekki máli í pólitískri umræðu. Donald Trump þykir vera dæmi um þetta.

Þess vegna er maður ekki viss um að það breyti nokkru þótt sagt sé að Hillary Clinton hafi sigrað hann í kappræðum.

Þetta helst í hendur við hnignun stórra fjölmiðla og framgöngu fólks á samskiptamiðlum þar sem fólk þráttar en breytir aldrei um skoðun.

Við erum ekki komin jafnlangt út á þessa braut í íslenskum stjórnmálum – þótt vissulega sé farið að örla á þessum einkennum. Staðreyndatékk getur verið mikilvægt, en ekki er víst að það hafi áhrif á aðra en þá sem eru gagnrýnir í hugsun fyrir.

En eldhúsdagsumræður eins og þær sem við fengum að sjá í gær eru eins langt frá pólitíska showinu í kringum bandarísku kosningarnar. Össur Skarphéðinsson talar um „leiðindaþætti Rúv“ – en það verður líka að athuga að Rúv er skyldugt til að sinna öllum framboðum, hversu smá og vonlaus sem þau kunna að virðast. Ekki bara tveimur stærstu. Þess vegna er Samfylkingin með og líka Flokkur fólksins.

En raunar verður að segja að standardinn á mælskulistinni er ekki hár í íslenskum stjórnmálum. Á eldhúsdeginum í gær talaði varla einn einasti stjórnmálamaður sem telja má góðan ræðumann. Katrín Jakobsdóttir er í ágætri þjálfun, kemst líklega næst því.

Nýja stjarnan í íslenskri pólitík, Lilja Alfreðsdóttir, olli hins vegar vonbrigðum. Ræða hennar var flöt og í henni var að finna slöppustu metafóru kvöldsins – þessa um reynslumikla bílstjórann sem heldur um stýrið á efnahagsrútunni.

Hvað varð um karlinn í brúnni sem var alltaf vitnað í hér áður fyrr?

 

Mánudagur 26.9.2016 - 17:20 - Ummæli ()

Ætla ekki að horfa

Það er talað um að metáhorf verði á kappræður Clintons og Trumps í nótt. RÚV ætlar að sýna umræðurnar beint.

Ég ætla ekki að horfa.

Kosningarnar í Bandaríkjunum hafa þau áhrif á mig að mig langar að leggjast undir sæng og breiða yfir höfuðið. Opna ekki fyrir neinn fjölmiðil. Ég forðast að tala um þær. Þetta veldur mér miklum kvíða. Þetta er atburðarás sem ég get ekki haft nein áhrif á.

Og ég verð að segja eins og er, mér er hjartanlega sama um hvernig íslensku kosningarnar fara miðað við ósköpin sem eru þarna á ferðinni.

En eldhúsdagsumræður á Alþingi dreifa kannski huganum.

Mánudagur 26.9.2016 - 11:43 - Ummæli ()

Framsókn er bíó

Það eru ekki allir að fara að kjósa Framsóknarflokkinn, langt í frá. En það er ljóst að hann verður stanslaust í fréttum næstu vikurnar – og kannski alveg fram að kjördegi. Aðrir flokkar munu ekki fá viðlíka athygli.

Vissulega verður hún ekki öll jákvæð, þetta eru fréttir af átökum, deilum og svikabrigslum – en samt, Framsókn verður efst á baugi.

Flokksþingið er um næstu helgi og formannskjörið en síðan þarf að vinna úr úrslitunum – ólíklegt er að það gangi þegjandi og hljóðalaust fyrir sig.

Framsókn stefnir kannski ekki í kosningasigur, en það er ljóst að flokkurinn á sviðið. Þetta er bíó og við erum öll að horfa, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Sunnudagur 25.9.2016 - 21:35 - Ummæli ()

Ekki besta heilbrigðiskerfið, en heilnæmt og hættulítið umhverfi

Niðurstöður skýrslu Sameinuðu þjóðanna um lýðheilsu hefur verið til umræðu undanfarið. Þær birtust í læknatímaritinu Lancet og voru fyrst túlkaðar sem vitnisburður um að við Íslendingar hefðum besta heilbrigðiskerfi í heimi. Það er er ekki rétt túlkun. Þarna er fjallað um heilsu og ýmsa þætti sem hafa áhrif á heilsufar fólks – sumir þeirra fylgja lífsstíl, lífskjörum, aðrir eru utanaðkomandi eða háðir umhverfinu.

Hins vegar sýnir skýrslan ótvírætt að Ísland er að flestu leyti gott land, heilnæmt og öruggt að búa í. Það er staðreynd og við getum glaðst yfir henni. Samanburðurinn við þá jarðarbúa sem hafa það verst er sláandi.

Hér má sjá hluta af töflum sem birtust með skýrslunni, þarna eru gildin frá 0 og upp í 100 en neðar má svo sjá hvað er verið að mæla. Þarna eru meðal annars náttúruhamfarir, næringarskortur, offita, útbreiðsla berkla, malaríu og lifrarbólgu, sjálfsmorð, áfengisneysla, umferðarslys, unglingafæðingar, tóbaksneysla, hreinlæti, ofbeldi, loftmengun, gæði vatns, ofbeldi og stríð.

Ísland skorar hátt á flestum kvörðum, rétt eins og fleiri lönd í heimshluta okkar. Við erum jú að mestu leyti laus við margt af því sem er nefnt hér að ofan. En það er merkilegt að sjá hvað áfengisneyslan dregur Danmörku niður.

Svo má kannski nefna að samkvæmt þessu er Svíþjóð jafnöruggur staður og Ísland. Svona fyrir þá sem eru alltaf að tala um að það sé stórhættulegt í Svíþjóð.

Skýrsluna má lesa hérna.

Screen Shot 2016-09-25 at 21.12.51

Screen Shot 2016-09-25 at 21.13.34

Hér má svo sjá löndin í heiminum þar sem ástandið er verst – og sums staðar hrein skelfing.

 

Screen Shot 2016-09-25 at 21.12.16

Sunnudagur 25.9.2016 - 12:40 - Ummæli ()

Iceland – búðirnar og landið

Yfir ýmsu er hægt að þræta, nú nafni verslunarkeðju sem heitir Iceland. Ég man þegar ég kom ungur maður til Bretlands og sá þessar búðir. Fannst þær ólystugar.

En mig rekur samt ekki minni til að þetta hafi stuðað mig sérstaklega. Maður skildi út á hvað orðaleikurinn gekk, allt í búðinni var frosið í drep.

Mergurinn málsins er auðvitað sá að verslanakeðjan heldur áfram að heita Iceland og landið heitir áfram Iceland, það mun ekkert yfirþjóðlegt yfirvald úrskurða að þetta eigi að vera öðruvísi. En kemur í ljós hvort líður fyrr undir lok.

Myndin er af vef mbl.is.

 

Screen Shot 2016-09-25 at 12.34.42

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is