Mánudagur 28.7.2014 - 22:51 - Ummæli ()

Síðustu eftirlifendur fyrra stríðs – ekki virði eins einasta hermanns

Harry Patch var talinn vera síðasti eftirlifandi hermaðurinn úr fyrri heimstyrjöldinni þegar hann dó 2009, 111 ára að aldri.

Hann var fæddur 1898 og barðist á vesturvígstöðvunum, meðal annars í orrustunni við Passchendaele. Hann var stundum kallaður The last Tommy – síðasti Tommy-inn.

Talsvert var látið með Patch þegar hann varð gamall – hann var að lokum elsti maður í Evrópu. Til dæmis fór hann til Ypres, þar sem var háð önnur stórorrusta, og þar hitti hann Charles Kuentz sem var síðasti eftirlifandi þýski hermaðurinn. Kuentz dó 2005, 107 ára gamall. Kuentz var frá Alsace og varð síðar franskur ríkisborgari.

Þeir rifjuðu upp ólyktina, hávaðann, gasið, blóði drifna moldina, óp fallinna félaga – þannig var sagt frá fundi þeirra. Báðir voru þeir friðarsinnar.

Patch talaði ekki af mikilli virðingu um stríðið. Hann var reiður og sagði að þetta hefði ekki verið annað en lögleg fjöldamorð – stjórnmálamennirnir hefðu átt að fara út með byssurnar og gera sjálfir upp málin sín á milli.

„Þetta var ekki virði eins einasta hermanns, hvað þá allra milljónanna,“ sagði Patch.

Það eru 100 ár síðan fyrri heimstyrjöldin braust út. Eyðileggingin var ótrúleg – og hún gerbreytti heiminum Við höfum söguna til að læra af – en það er ekki víst að við gerum það.

Sá vísi maður, Árni Bergmann, skrifar á Facebook í dag:

Hundrað ár frá upphafi fyrri heimsstyrjaldar: Ég setti fyrir nokkrum árum saman útvarpsþætti um styrjaldir og það kom mér satt að segja á óvart við heimildavinnuna hve algengt þetta mynstur er: Þegar nokkuð er liðið frá lokum síðasta stórstríðs reynist lygilega auðvelt að fá menn til að trúa því að stríð sé ekki bara spennandi heldur gefi lífinu lit og merkingu, gefi hvunndagsmönnum tækifæri á að sanna að þeir séu karlar í krapi og hafi hlutverki að gegna í annars tómlegri tilveru.

Harry-Patch-in-Ypres-in-2-009

Síðustu hermennirnir, Harry Patch og Charles Kuentz við Ypres 2004.

Mánudagur 28.7.2014 - 16:55 - Ummæli ()

Viss söknuður að Habsborgurum og Ottómönum

Gunnar Smári Egilsson virðist hafa náð að pirra marga með tillögu sinni um að Ísland gerist 20. fylki Noregs.

Á einum stað las ég að ýmsir „vinstri menn“ hefðu tekið undir þetta – og var ég sérstaklega nefndur.

Því fer þó fjarri að ég hafi tekið undir þessar hugmyndir – og ekki er ég vinstri maður.

Nú eru liðin hundrað ár frá því fyrri heimstyrjöldin braust út – það er merkilegt að skoða ríkjaskipan eins og hún var fyrir stríðið.

Styrjöldin kollvarpaði ríkjum og skapaði fjölda nýrra ríkja. Þetta var tími þjóðernisstefnu – hver þjóð skyldi hafa sitt land, sitt fullveldi og sinn sjálfsákvörðunarrétt.

Víða gekk þetta alls ekki upp. Landamæri eru óljós og þjóðir eru misjafnlega samsettar. Í Evrópu var þetta sérlega vandræðalegt á Balkanskaga – og svo hlutust af þessu alls konar vandamál í Mið-Austurlöndum og fyrir botni Miðjarðarhafs.

Þetta var á svæði tveggja stórvelda sem liðu undir lok í stríðinu, Ottómanveldisins í Tyrklandi og Mið-Austurlöndum og Austurríki- Ungverjalands, eða Habsborgaraveldisins, í Mið-Evrópu.

Nú hundrað árum síðar er ljóst að þessi sambandsríki höfðu ýmislegt til síns ágætis, en á sínum tíma voru þau úthrópuð. Í Ottómanveldinu ríkti sæmilegur friður og mismunandi þjóðir lifðu saman. Grikkir höfðu til dæmis sinn tilverugrunn hjá Ottómönum, þegar veldið liðaðist í sundur voru hérumbil allir Grikkir reknir frá fornum heimabyggðum sínum þar sem nú er Tyrkland. Hið sama var gert við Tyrki sem bjuggu Grikklandsmegin. Þetta voru skelfilegar hörmungar. Fjölmenningarlegar borgir eins og Smyrna, Saloniki og jafnvel Istanbul hafa aldrei borið sitt barr síðan – í stað fjölþjóðlegra samfélaga skyldu rísa einsleit þjóðríki.

Þessi hugmyndafræði náði hámarki með gyðingamorðum nasista – það var litið á gyðinga sem óþjóðlegt afl, eins konar meinsemd á þjóðarlíkamanum.

Habsborgaraveldið var á efnahagslegu blómaskeiði þegar það endaði snögglega. Listir stóðu í blóma og það var tími frjálsræðis. Þetta má greinilega sjá á borgum Mið-Evrópu, þær eru fullar af glæsibyggingum og menningarhúsum sem risu á árunum fyrir stríðið. Uppgangur þjóðernishyggju reyndist Habsborgaraveldinu ofviða, en íbúar svæðisins voru langt í frá betur settir þegar það hafði splundrast í mörg þjóðríki.

Þvert á móti, hið stirðbusalega skrifræðisveldi Habsborgara vék fyrir eilífum þjóðernisátökum og svo líka baráttu milli fasista og kommúnista. Í seinni heimstyrjöldinni, sem hófst rúmur tveimur áratugum síðar, varð austurhluti hins fallna veldis að einhverjum mesta blóðvelli mannkynssögunnar.

map34wwi

Evrópa og hluti af Mið-Austurlöndum áður en fyrri heimstyrjöldin gerbreytti landakortinu

Mánudagur 28.7.2014 - 11:26 - Ummæli ()

Tvö virtustu fréttatímarit Evrópu – stöðvið Pútín!

Svona lítur forsíða Der Spiegel út þessa vikuna. Stöðvið Pútín strax. Greinina er hægt að lesa á ensku á Spiegel International.

 

10466995_10152546816869869_8560460122632546506_o

 

Og hér er The Economist. Lygavefur. Hvernig hann umlykur Pútín, Rússland og Vesturlönd. Hér er hægt að lesa þessa grein.

 

20140726_cna400

Mánudagur 28.7.2014 - 00:02 - Ummæli ()

Láglaunastefnan og forstjóralaunin

Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforingi á Akranesi, skrifar á Facebook um launaskrið forstjóranna. Hann er ómyrkur í máli.

Já, hún er glæsileg samræmda láglaunastefnan sem Samtök atvinnulífsins og ASÍ sömdu um í síðustu kjarasamningum. En þar var verkafólki gert skylt að taka einungis 2,8% launahækkun, þó að hámarki 9.750 kr. á mánuði.

Núna liggur hins vegar fyrir samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar að það hvarflaði ekki að stjórnendum fyrirtækja að taka laun samkvæmt samræmdu láglaunastefnunni, enda hafa laun sumra stjórnenda hækkað um allt að 600.000 kr. á mánuði eða sem nemur 40%. Takið eftir, hækkað um 600.000 kr. á mánuði!

Já, forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins stóðu á öskrum í aðdraganda síðustu kjarasamninga og sögðu að ef ekki yrði samið um launahækkanir í kringum 2,8% þá yrði óðaverðbólga og undir þetta tók forysta ASÍ. Eins og allir muna þá splæstu Samtök atvinnulífsins í mikla auglýsingaherferð sem hvað á um að semja yrði um 2,8%.

Þessir snillingar sögðu að ef verkafólk fengi 20.000 kr. launahækkun á mánuði þá myndi það klifra upp allan launastigann! Er þá ekki gott núna að láta 40% launahækkun stjórnenda klifra niður launastigann?

Það er morgunljóst í mínum huga að ef ekki komi til alvöru leiðréttinga á launum verkafólks í kjarasamningum í byrjun næsta árs þá er ekkert annað í stöðunni en að fara í blóðug átök á almenna vinnumarkaðnum. Þetta viðbjóðslega óréttlæti sem nú birtist almennu verkafólki er lýtur að ofurlaunahækkunum stjórnenda verður að svara af fullri hörku.

Einu má forseti ASÍ ekki gleyma hann ber mikla ábyrgð á þessari samræmdu láglaunastefnu sem verkafólki var gert nánast skylt að taka.

Sunnudagur 27.7.2014 - 21:46 - Ummæli ()

Eru Rússar og Kínverjar æskilegri en vestræn lýðræðisríki?

Í grein á vefnum Breitbart segir að Ísland geti orðið leynivopn Kína og Rússlands gegn Bandaríkjunum.

Þetta er kannski ofmælt en staða Íslands í alþjóðlegu samhengi er vissulega athyglisverð.

Eins og kemur fram í greininni eru Kínverjar mjög áberandi á Íslandi. Við höfum nýlega undirritað fríverslunarsamning við Kína – og Kínverjar hafa mjög fjölmennt sendiráð í Reykjavík.

Greinarhöfundur, M.E. Synon, segir að Rússar sýni líka mikinn áhuga á Íslandi. Það megi marka á nýjum sendiherra Rússa í Reykjavík, Anton Vasiliev, sem er þungaviktarmaður úr utanríkisþjónustunni með mikla reynslu af heimskautamálefnum.

Greinin fer reyndar út í hálfgert rugl þar sem er talað um að Evrópusambandið sé útilokað frá heimskautasvæðinu – og að ESB hafi beitt bolabrögðum til að reyna að fá Ísland til að ganga inn í sambandið.

Hvort tveggja er rangt. Þrjú Evrópusambandsríki eru í Norðurskautsráðinu, Danmörk, Svíþjóð og Finnland. Og það var ekki ESB sem falaðist eftir inngöngu Íslands – heldur öfugt. Heimskautastefna ESB gengur líka aðallega út á umhverfisvernd og að auðlindanýtingu sé mjög stillt í hóf.

Hugsanlega er lélegum heimildarmanni þarna um að kenna, en einnig koma í greininni fyrir gamalkunnug stef úr íslenskri pólitík um að Bandaríkjamenn hafi gert mistök með því að yfirgefa herstöðina í Keflavík. En vissulega er rétt að Bandaríkin hafa ekki mikinn áhuga á Íslandi – sem Rússar og Kínverjar aftur hafa.

Er þetta góð staða fyrir Ísland.

Varla. Í vissum kreðsum á Íslandi hefur andúðin á Evrópusambandinu og Bandaríkjunum verið slík að því er haldið fram að Kína og Rússar séu æskilegri bandamenn en vestræn lýðræðisríki. Þetta er ótrúleg hugmynd – að þessi fámenna þjóð með sína litlu utanríkisþjónustu, deilugjörnu stjórnmálamenn og skrítnu hugmyndir um sjálfa sig geti staðist þessum agressífu stórveldum snúning.

iceland-and-china_s-unlikely-trade-alliance.si

 

 

 

 

 

Sunnudagur 27.7.2014 - 11:12 - Ummæli ()

Miklar breytingar í náttúrunni

Maður hefur skynjað síðustu ár hversu miklar breytingar eru að verða á náttúru landsins – hvað gróður eykst mikið og hratt. Og það eru að verða breytingar í lífi dýra og fiska. Lundi er að mestu horfinn sunnanlands, bleikja er á hröðu undanhaldi í ám og vötnum – en makríll gengur í stórum torfum upp að landinu.

Nýjar skordýrategundir gera vart við sig og fuglategundir sem hér voru tæplega áður – svartþrestir og uglur.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði, var innt eftir þessu í viðtali í Ríkisútvarpinu fyrir skemmstu. Hún sagði að þetta væru miklu hraðari breytingar en kynslóðir Íslendinga sem komu á undan okkur hefðu upplifað – kannski að undanskildum þeim sem  voru mikilvirkastar við að eyða skóginum í landinu.

Gott eða slæmt?

Við sjáum auðvitað ekki fyrir hvað þessar breytingar þýða. Nú hafa menn til dæmis áhyggjur af því að lax skili sér ekki í ár – getur það verið vegna breytinga í hafinu?

Sandar sem voru auðn hafa verið græddir upp. Sandarnir höfðu sína fegurð – en gróðurinn bætir lífsgæðin og sandrok minnkar. Skógar veita skjól og í þeim er fólgin fegurð – náttúrlega öðruvísi fegurð en í eyðimörkinni sem er hálendi Íslands. En það er deilt um jurtir eins og lúpínu og kerfil – og ekki er heldur sátt um grenitré eða aspir.

Líkast til tengjast þessar breytingar í náttúrunni hnattrænni hlýnun  – með stórauknum gróðri og bráðnun jökla – og þá er þetta skeið væntanlega rétt að hefjast.

p12-rainbow

 

 

 

Laugardagur 26.7.2014 - 20:16 - Ummæli ()

„Múlattinn“ Obama

Morgunblaðið heldur áfram að toppa sig.

Í Reykjavíkurbréfi dagsins í dag er talað um „Barack Hussein Obama II“. (Hljómar svolítið eins og Jón Gunnar Kristinsson.)

Bandaríkjaforseti er sagður vera „múlatti“.

Um orðið múlatti segir á Wikipedia.

Múlatti er aflagt og niðurlægjandi hugtak yfir afkvæmi hvíts karlmanns og svartrar konu eða öfugt.

Svipað má lesa á mörgum erlendum vefsíðum.

Orðið er ekki notað lengur. En getur hugsast að ristjórinn sé ennþá með gömlu orðabókina sína.

10302172_10203679946573653_387210228189614567_n

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is