Sunnudagur 5.7.2015 - 22:28 - Ummæli ()

Bernie Sanders óskar Grikkjum til hamingju – hvernig er komið fyrir evrópska vinstrinu?

Bernie Sanders er besti forsetaframbjóðandi sem hefur sést í Bandaríkjunum um langa hríð. Hann talar enga tæpitungu, notar ekki spuna, svarar beint og án útúrsnuninga. Fylgi við Bernie Sanders fer mjög vaxandi og mikil aðsókn er að fundum hjá honum. Hann er alvöru, ekki gervi.

Bernie talar gegn ójöfnuði, ofurvaldi fjármálastofnana og stórfyrirtækja – sem í reynd eiga stjórnmálamenn með húð og hári. Því miður er keppinautur hans innan Demókrataflokksins, Hillary Clinton, dæmigerð fyrir þessa tegund af pólitíkusum.

Sanders talar líka gegn þeirri skuldaáþján sem nútíma fjármálakerfi leggja á fólk og þjóðir – skuldirnar eru orðnar alltumlykjandi enda framleiða fjármálastofnanir stöðugt peninga í formi skulda. Allir vita líka að stór hluti þessara skulda verður aldrei greiddur aftur.

Bernie Sanders segist vera sósíaldemókrati að skandinavískri fyrirmynd. Hann heldur reyndar uppi gildum sem margur kratinn á Norðurlöndunum virðist vera búinn að gleyma.

Kveðja Sanders til Grikkja á tíma hins stóra neis er í anda þessa. Hann óskar grískum almenningi til hamingju með að segja nei við meiri niðurskurði gegnvart fátæku fóki, börnum, sjúklingum og gamalmennum. Í heimi þar sem ójöfnuður er orðinn gríðarlegur þurfi Evrópa að hjálpa Grikkjum að byggja upp hagkerfi sem skapar fleiri störf og betri laun, en ekki meiri atvinnuleysi og þjáningar.

I applaud the people of Greece for saying ‘no’ to more austerity for the the poor, the children, the sick and the elderly.

“In a world of massive wealth and income inequality Europe must support Greece’s efforts to build an economy which creates more jobs and income, not more unemployment and suffering.

Sunnudagur 5.7.2015 - 17:47 - Ummæli ()

Stórt NEI

Fyrstu fréttir virðast benda til þess að Grikkir hafi sagt stórt NEI. Og að ekki sé eins mjótt á mununum og margir höfðu talið.

Kannski var fljótfærni í Tsipras forsætisráðherra að boða til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu, en niðurstaðan ætlar að verða ótvíræð. Það er gott að hún sé afdráttarlaus.

Grikkir voru heldur ekki að segja nei við evrunni, heldur við tilboði frá Troikunni sem var algjörlega óásættanlegt. Gerði ekki ráð fyrir neinni skuldaniðurfellingu, líkt og AGS segir að sé nauðsynleg, heldur einungis áframhaldandi niðurskurði og þjáningum. Sjúklingnum skal enn látið blæða – í þeirri furðulegu von að hann hjarni. En auðvitað var tilboðið ekki gert í góðri trú.

Það hefði verið niðurlægjandi fyrir Grikki að segja já – og ég held að margir sem hafi greitt atkvæði á þann veg hafi gert það með óbragði í munninum. Eitt stærsta blaðið hérna hvatti kjósendur til að segja já – en sagði um leið að Evrópa ætti að skammast sín.

Nú kemur í ljós hvað er varið í Evrópuhugsjónina og hvort lýðræði í Evrópu er einhvers virði. Þjóðverjum hefur ekki tekist að losna við Tsipras, eina ráðið er að búa til viðunnandi samning fyrir Grikkland sem getur leitt landið aftur á braut vaxtar. Það er bæði Evrópu og Grikkjum í hag.

 

Laugardagur 4.7.2015 - 17:04 - Ummæli ()

Atkvæði eru greidd hér í skólanum, en margir fá ekki að vera með

Á morgun er þjóðaratkvæðagreiðslan í Grikklandi. Augu heimsins mæna í átt þessarar þjóðar sem telur ekki nema ellefu milljónir, er í raun smáþjóð.

Hér á eyjunni þar sem ég dvel er kosið í barnaskólanum sem stendur hér út við klettabrún. Skólar sem líta svona út, í dálítið klassískum stíl, eru í mörgum smábæjum og þorpum í Grikklandi – þeir voru byggðir fyrir fé auðmanna sem töldust vera í hópi mannvina, eins og það var kallað í eina tíð, philantropos er orðið sem er komið úr grísku. Eru þeir kannski orðnir fágætari í seinni tíð?

Það er svo undarlegt að mjög margir Grikkir munu ekki geta notað atkvæðisrétt sinn. Utankjörstaðaatkvæði þekkjast ekki, fólk verður beinlínis að fara heim til sín til að kjósa. En margt fólk er fjarri heimilum sínum, ekki síst allir þeir sem vinna í ferðmannaiðnaði út um allar eyjar. Það fer ekki í heimabyggð til að kjósa – sumir segja að þetta muni fækka nei-atkvæðunum, því þar er ekki síst ungt fólk sem ekki nýtir atkvæði sín.

Grikkir sem maður talar við eru margir alveg ringlaðir, vita ekki hvort þeir eigi að segja nei eða já. Það er líka erfitt að sjá hvað felst í svörunum. Merkel og Juncker láta eins og nei-ið þýði útgöngu úr evrunni, Pólverjinn Tusk segir að svo sé ekki. Jacques Delors, einn helsti hugmyndafræðingur ESB í seinni tíð, leggur til björgunaráætlun í þremur liðum og segir að Grikklandi verði að bjarga, ekki bara vegna Grikkja sjálfra, heldur líka vegna Evrópuhugsjónarinnar.

Á það er einnig bent að engin útgönguleið sé úr evrunni – það er hvergi skráð hvernig slík útganga eigi að fara fram. Þannig að ef Grikkir verða hraktir þaðan út er það í raun fjarska ólýðræðislegt. Erfitt er líka að verjast þeirri tilhugsun að Þjóðverjar – sem ráða öllu í Evrópusambandinu núorðið – vilji einfaldlega losna við Alexis Tsipras og flokk hans Syriza.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn lætur nú í ljósi þá skoðun að Grikkir geti ekki borgað skuldir sínar, þeir þurfi bæði afskriftir og skuldafrí í einhvern tíma. Þetta hefði auðvitað mátt koma fyrr frá sjóðnum. Jonathan Freedman skrifar í Guardian og bendir á að evran henti Þjóðverjum og sterkum útflutningsgreinum þeirra vel, en annars staðar sé hin heiftarlega aðhalds- og niðurskurðarstefna þeirra að valda miklum skaða – hugtakið sem hann notar er decifit fetishism. Heilu þjóðirnar verða eins og beiningamenn í evrusamstarfinu, sjúklingnum er látið blæða og svo þegar hann er alveg að geispa golunni, þá er tekið meira blóð.

Föstudagur 3.7.2015 - 22:08 - Ummæli ()

Ágætt í Borgartúnið – en ekki í hjarta bæjarins

Maður spyr hvernig hægt sé að láta sér detta í hug að byggja hús sem lítur svona út í hjarta Miðbæjarins, við sjálfa Lækjargötu, rétt hjá Tjörninni?

Þetta er vinningstillaga í samkeppni um nýtt hótel.

Skýringin er líklega nokkuð einföld – eins og þegar nýbyggingar eiga hlut núorðið er fyrst og fremst hugsað um nýtingarhlutfallið, að byggja út í hvern rúmentimetra sem er leyfilegur. Og hafa það helst ódýrt.

En samt – þetta gengur eiginlega ekki. Þarna er ekkert tillit tekið til hverfisins, sögu eða samræmis. Þetta hús væri sjálfsagt ágætt í Borgartúninu eða í Smárahverfinu.

En ferðamenn geta kannski komið í Miðbæinn, búið í svona kassa og horft á hin örfáu gömlu hús sem eru eftir.

Snjöll kona sem skrifar á Facebook segir að teiknistofan sem ber ábyrgð á þessu heiti Gáma Klín. Það eigi að klína þessum gámi í Lækjargötuna.

En nú er spurning, hefur borgarstjórnin í Reykjavík ekkert vald til að grípa inn í á fagurfræðilegum forsendum – til þess einfaldlega að afstýra slysum?

821970

Þetta er mynd af hinu fyrirhugaða hóteli í Lækjargötu. Hvað er loftbelgurinn annars að gera á myndinni? Hvaða þýðingu hefur hann? Er hann til að draga athyglina frá byggingunni?

Föstudagur 3.7.2015 - 15:25 - Ummæli ()

Sigmundur í miðið

Einhvern veginn virkar viljayfirlýsing um byggingu álvers við Hafursstaði á Skaga eins og rugl. Hvers vegna er verið að bjóða upp í þennan dans? Sveitarstjórnarmenn mæta prúðbúnir í ráðherrabústaðinn, skrifa undir eitthvert plagg, ásamt einhverjum mönnum fá Kína og sjálfum forsætisráðherra.

Rifjum aðeins upp hvernig þetta var með álverið í Helguvík. Þar var skrifað undir viljayfirlýsingu og svo var farið í gang með alls kyns framkvæmdir. Það var byggð heil höfn. Þetta hefur haft skelfileg áhrif á fjáhagsstöðu Reykjanesbæjar.

Álverið kom nefnilega ekki. Því hafði ekki verið tryggð orka – og það gat ekki eða vildi ekki greiða orkuverð sem var ásættanlegt fyrir seljendurna, semsagt Íslendinga.

Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms mátti sitja undir stöðugum skömmum fyrir að draga lappirnar við byggingu þessarar stóriðju, frá sveitarstjórnarmönnum, stjórnarandstöðunni og verkalýðshreyfingunni. En svo tók ný ríkisstjórn við og þá hafði ekkert breyst. Það var ekki grundvöllur fyrir byggingu álversins.

Maður veltir fyrir sér hvort eitthvað svipað uppi á teningnum. Landsvirkjun þegir þunnu hljóði – orkan er ekki til staðar, og  svo á seinna að stækka álverið í 220 þúsund tonn – Ómar Ragnarsson hefur kalla það túrbínutrix að leggja á ráðin um lítið álver en stækka svo ört.

Svo er athyglisvert að þarna ná saman tveir áhugaverðir aðilar, kínverskt ríkisfyrirtæki og Kaupfélag Skagfirðinga, en eins og Ómar Ragnarsson bendir á er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í miðið.

821605

Föstudagur 3.7.2015 - 11:11 - Ummæli ()

InDefence – helst út um allan heim

InDefence eru einhver merkilegustu grasrótarsamtök sem hafa starfað á Íslandi – og þótt víðar væri leitað.

Barátta InDefence hefur fyrst og fremst verið gegn ofurvaldi fjármálaaflanna – sem samfélög nútímans undirgangast af furðulegu rænuleysi.

Samtökin beittu sér í Icesave-málinu og svo aftur gegn þjónkun við kröfuhafa föllnu bankanna.

En það er merkilegt með þessi samtök að vinstri hreyfingin á Íslandi viðurkennir þau varla. Samt ættu þau auðvitað að hafa yfir sér hetjuljóma í augum vinstrisins. Víða erlendis er vitnað í þessa baráttu, til dæmis í Grikklandi, en hér heima heyrist oft að það sé tómur misskilningur.

Líklega á þetta tvær skýringar, InDefence barðist gegn ákvörðunum sem teknar voru af ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms – meintri vinstri stjórn þeirra – og samtökin þvældust fyrir draumum Samfylkingarinnar um Evrópusambandsaðild. Fátt fór verr með Evrópusambandsumsóknina en einmitt baráttan gegn Icesave.

Nú horfum við á hvernig fjármálavaldið ræður lögum og lofum í Evrópu. Meira að segja Alþjóða gjaldeyrissjóðnum er farið að blöskra. Fjöldi virtra hagfræðinga stígur fram og segir að svona geti þetta ekki gengið. Við þetta verður maður þakklátur fyrir baráttu InDefence á Íslandi. Líklega þyrftu fleiri lönd svona samtök til að verjast fjármálavaldinu.

 

Fimmtudagur 2.7.2015 - 23:35 - Ummæli ()

Tónlistarsnillingur sem dó alltof snemma

Menn hafa verið að fagna því að Debbie Harry á afmæli. Hún er orðin sjötug. Debbie var fígúra í nýbylgjusenunni í New York undir lok áttunda áratugarins. Söng með hljómsveitinni Blondie – sem átti nokkra smelli. Debbie hafði sinn söngstíl, fremur litla rödd, í henni er ákveðinn sönglandi – svona eins og hún sé hérumbil fölsk.

Úr þessu má kannski lesa að ég hafi ekki verið neinn sérstakur aðdáandi. Það er voða lítið í þessari tónlist sem er hlustandi á núorðið.

Á móti þessu ætla ég að benda á tónlistarsnilling sem hefði orðið sextíu og fimm ára í mars. Hún var einungis 32 ára þegar hún dó. Þetta er Karen Carpenter. Einhver besta söngkona í gjörvallri sögu dægurtónlistar – með einstaka innilega tilfinningu, angurværð sem er engu lík, og í ofanálag var hún frábær trommari. Það er reyndar sagt að hún hafi miklu fremur viljað tromma en að vera syngjandi fremst í sviðsljósinu.

Það varð henni að fjörtjóni, hún varð svo heltekin af vaxtarlagi sínu að hún dó úr lystarstoli árið 1983.

Tónlist The Carpenters er einstaklega vel samin og flutt – en það er Karen sem gerir gæfumuninn með söng sínum. Fleytir þeim upp í flokk sígildrar dægurtónlistar.

Um leið skal ég viðurkenna að ég er óforbetranlegur sentimentalisti – það sem er vel væmið og viðkvæmt höfðar miklu meira til mín en það sem er hip og kúl.

Þó verður líklega að viðurkennast að hvað varðar hvað varðar klæðaburð og tísku voru Carpenters ekki í fremstu röð.

 

 

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is