Mánudagur 5.12.2016 - 08:47 - Ummæli ()

Kreppa Evrópusambandsins er langt í frá búin

Menn varpa öndinni léttar yfir því að hægriöfgamaðurinn Norbert Hofer tapaði forsetakosningum í Austurríki. Tala jafnvel um þetta eins og það sé til marks um að vindáttin í stjórnmálunum sé að breytast.

En það er langt í frá. Sömu helgi tapar Matteo Renzi, einn skásti stjórmálamaður Evrópu, þjóðaratkvæðagreiðslu og segir af sér. Ítalía er eitt af stofnlöndum Evrópusambandsins en nú mun gjósa upp umræða um útgöngu þess. Fimm stjörnu hreyfing popúlistans Beppe Grillo er nú í raun öflugasti stjórnmálaflokkur Ítalíu – þrátt fyrir að hafa klúðrað allrosalega þegar hreyfingin komst til valda í Róm.

Fimm stjörnu hreyfingin hamast gegn „pólitísku elítunni“ og sækir fylgi bæði til hægrisins og gamla vinstrisins – þar sem kommúnistaflokkurinn var eitt sinn allsráðandi. Ýmislegt í stefnu flokksins kemur frá vinstri, en á Evrópuþinginu hefur flokkurinn verið í samstarfi við Ukip.

Síðan eru það forsetakosningarnar í Frakklandi sem fara fram í lok apríl, fyrri umferðin, og í byrjun maí, seinni umferðin. Það er ljóst að frambjóðandi gamla hægrisins verður Francois Fillion. Hann þykir vera býsna langt til hægri og jafnvel hallur undir Thatcherisma. Talið hefur verið nánast öruggt að Marine Le Pen, formaður Þjóðfylkingarinnar, komist í seinni umferðina. Líklegast er að þar mæti hún Fillion. Vinstri hreyfingin er í tætlum eftir stjórnartíð Hollandes.

Fillion höfðar lítt til vinstri, minna en Alain Juppé sem líka sóttist eftir útnefningu hægri manna – og það er spurning hvað vinstrið gera í seinni umferð kosninganna þegar valið er milli tveggja frambjóðenda. Það er altént ekki hægt að útiloka röð atburða sem leiðir til sigurs Marine Le Pen – líkt og gerðist með Donald Trump í Bandaríkjunum.

Laugardagur 3.12.2016 - 22:42 - Ummæli ()

Borgartúnið á tíma fátækrahverfisins Höfðaborgar

Þetta er ekki svo ýkja langt síðan, en þarna er gata í Reykjavík sem er gerbreytt. Við sjáum að Hallgrímskirkjuturn er risinn, bifreiðin fremst á myndinni er Ford Bronco – það þóttu flottustu jepparnir á sínum tíma. Þetta myndi vera á fyrrihluta áttunda áratugarins, turn kirkjunnar var kláraður 1974.

Gatan er Borgartún sem síðar var einhvers konar city Reykjavíkur, eða átti að verða það – Borgartúnið er mjög sérkennilegt þar sem standa hús úr gleri og stáli innan um flæmi bílastæða. Hilmar Þór Björnsson arkitekt bendir á það í pistli hér á Eyjunni að samgöngumannvirki hafi tekið 48 prósent af borgarlandinu árið 2004. Það er ógnvænleg tala og í raun ekki hægt annað en að reyna að þétta byggðina af megni.

En á þessum tíma var öðruvísi um að litast í Borgartúni. Þarna eru ljósastaurar úr timbri, en húsin meðfram götunni tilheyra Höfðaborginni. Þetta var bráðabirgðahúsnæði sem var hróflað upp í stríðinu til að ráða bót á miklum húsnæðisskorti. Húsin voru léleg, það gnauðaði í gegn og það voru engir grunnar undir þeim þannig að gólfkuldi var mikill.

Myndin er líklega tekin rétt áður en Höfðaborgin var rifin, en það gerðist 1974. Hún var fátækrahverfi í ört vaxandi borg. Á Wikipediu má lesa eftirfarandi setningu:

Höfðaborgin, Pólarnir við suðurenda Laufásvegar og Selbúðirnar voru öreigabyggðir Reykjavíkur.

Sjálfur man ég eftir Höfðaborginni og Selbúðunum, en Pólarnir eru fyrir mína tíð. Áðurnefndur Hilmar Þór Björnsson skrifaði um þá fyrir nokkrum árum og birti magnaðar myndir af þeim úr safni Vigfúsar Sigurgeirssonar.

 

14908170_10208466302231394_7188104340307682395_n

 

Ljósmyndina af Höfðaborginni setti Snorri Þorvaldsson á vefinn Gamlar ljósmyndir og gaf mér leyfi til að birta hana.

Fyrir fáum árum gaf Björg Guðrún Gísladóttir út bókina Hljóðin í nóttinni, en þar sagði hún meðal annars frá uppvexti sínum í Höfðaborginni. Hér er viðtal við Björgu úr Kiljunni frá því í mars 2014.

 

Föstudagur 2.12.2016 - 12:47 - Ummæli ()

Minning um Einar Heimisson sem hefði orðið fimmtugur í dag

Einar Heimisson var einstaklega hæfileikaríkur og glæsilegur maður sem kom miklu í verk á stuttri ævi. Hann varð bráðkvaddur í Þýskalandi 1998, aðeins 31 árs að aldri. Einar var mörgum harmdauði, íslenskt menningarlíf missti mikið við fráfall hans og kannski íslensk stjórnmál líka.

Einar var afskaplega hugmyndaríkur maður og fundvís á merkilega hluti. Hann skrifaði doktorsritgerð við háskólann í Freiburg um það hvernig Íslendingar höndluðu flóttamannamál á árunum fyrir stríð. Hann lærði sagnfræði og bókmenntir, en leitaði stöðugt nýrra leiða til að finna hugðarefnum sínum og þekkingu farveg.

Hann skrifaði skáldsögu um þetta efni, Götuvísu gyðingsins, þegar hann var aðeins 22 ára. Þarna eru lýsingar á því hvernig þjóðfélagið snerist gegn flóttamönnum af gyðingaættum og hrakti þá burt.

Einar stundaði líka kvikmyndanám í Munchen og gerði heimildarmyndir fyrir sjónvarp. Tvær þeirra fjölluðu um innflytjendamálin sem honum voru hugleikin, en einnig er minnisstæð mynd sem nefndist Hvíti dauðinn og fjallaði um baráttuna gegn berklaveikinni.

Loks leikstýrði hann kvikmynd í fullri lengd sem hét María og skrifaði handritið að henni. Myndin segir frá ungri þýskri konu sem flýr framrás Rauða hersins í stríðslok en býðst svo að fara til Íslands og setjast að á afskekktum bæ.

Einar lék á fiðlu, stofnaði félag um klassíska tónlist þegar hann var í menntaskóla og fjallaði um tónlist í útvarpinu. Hann þýddi bækur og ljóð, unni sér ekki hvíldar. Það kann jafnvel að vera að hann hafi keyrt sig of hart áfram, gert of miklar kröfur til sjálfs sín.

Einar var jafnaðarmaður að hugsjón, og flest verk hans fjalla um mannúð eða skort á henni.  Hann hefði getað lagt fyrir sig stjórnmál hefði hann viljað og komist í fremstu röð – slíkir voru hæfileikarnir og gáfurnar.

Einar Heimisson hefði orðið fimmtugur í dag. Hann fæddist 2. desember 1966. Minningarkvöld um hann verður í Seltjarnarneskirkju en þar verður forsýnd heimildarmynd um hann sem nefnist Undur einnar stundar. Höfundar hennar eru Kristrún, systir Einars, og Karl Lilliendahl.

 

15220089_10208152346593639_2921464692065153175_n

 

Föstudagur 2.12.2016 - 11:05 - Ummæli ()

Er tímabært að tala um nýjar kosningar?

Katrín Jakobsdóttir er leiðtogi stjórnarandstöðunnar, formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins. En ef marka má viðtal við hana er hún að gefast upp á því verkefni að mynda ríkisstjórn.

Mér finnst kannski bara ástæða til þess að flokkarnir velti fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að mynda hérna þjóðstjórn og kjósa að nýju eftir einhvern ákveðinn tíma. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki bara einfaldast í ljósi stöðunnar.

Hvað er þjóðstjórn? Væri hugmyndin þá að allir flokkarnir ættu þar sæti? Hefðin á Íslandi hefur fremur verið sú að minnihlutastjórn er sett á laggirnar í nokkurn tíma þangað til kosið er eða þangað til tekst að mynda stjórn. Við höfum fordæmi frá 1958-1959 og 1979-1980.

Ef kjósa á að nýju, jafnvel næsta vor, er kannski fullmikið í lagt að bisa við að mynda þjóðstjórn.

Fimm flokka stjórn virðist enn vera möguleiki, en það er ýmislegt sem ber í milli. Í pistli í gær nefndi ég sjávarútvegsmál og Evrópumál – svo hafa skattamál einnig verið nefnd – en hjá Vinstri grænum er það líka tortryggni í garð Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar.

Benedikt mun hafa sett sig á nokkuð háan hest í stjórnarmyndunarviðræðum – og verið mjög einráður í sínum hópi. Í þingflokki hans er fólk sem hefur meiri reynslu í stjórnmálum, er liprara að semja, en hefur minna komist að.

En þegar ekki er liðinn nema rétt rúmur mánuður frá kosningum er býsna snemmt að fara að tala um að kjósa upp á nýtt. Það veit Guðni Th. Jóhannesson með sína miklu þekkingu á íslenskri stjórnmálasögu mæta vel.

Eins og áður hefur verið sagt eru líklegustu úrslitin úr öðrum kosningum þau að Sjálfstæðisflokkur styrki stöðu sína og máski Framsókn líka. Flokkarnir gætu gert sér mat úr ósamlyndi hinna og óstöðugleika.

Raunar birtist í gærkvöldi nýr Þjóðarpúls Gallups. Maður hefur reyndar vara á sér með skoðanakannanir eftir úrslit kosninganna í október. En eitt af því sem sem má sjá er að fylgi Viðreisnar dalar. Forystumenn þess flokks hljóta að velta því fyrir sér hvernig honum myndi reiða af í kosningum eftir skamman tíma. Kannski gæti þingseta þeirra orðið býsna stutt?

 

721f1d9f99-415x230_o

Fimmtudagur 1.12.2016 - 19:12 - Ummæli ()

Katrín talar um þjóðstjórn – en við erum enn í annarri umferð

Við erum enn í annarri umferð stjórnarmyndunartilrauna, henni er ekki lokið. Bjarni Benediktsson móðgaði frænda sinn Benedikt Jóhannesson með því að rjúka burt og fara að tala við Vinstri græna. Upp úr því slitnaði eftir dálitlar þreifingar, en þá voru Benedikt og Óttarr Proppé farnir að funda með Pírötum og Samfylkingu.

Nú segir Benedikt að þau hafi öll verið of „fljót á sér“ í stjórnarmyndunarviðræðum – ber að skilja það svo að Vinstri grænum verði líka boðið að þessu borði? Að tekinn verði annar snúningur á fimm flokka stjórninni?

En Vinstri græn virðast vera mjög tvílráð – vita ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga. Katrín Jakobsdóttir, sem er farin að virka dálítið þreytt á þessu, talar um þjóðstjórn.

Eiga þá allir flokkar að vera saman eða flestallir? (Í einu ríkisstjórninni á Íslandi sem hefur fengið heitið þjóðstjórn fengu kommúnistar ekki að vera með eins og má lesa í grein eftir sjálfan forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson.)

Vandi Vinstri grænna er meðal annars sá að þau geta ekki fallist á hugmyndir Viðreisnar, BF, Samfylkingar og Pírata um uppboðsleið í sjávarútvegi og þau eru illa brennd á því að gefa eitthvert færi á nálgun við ESB.

Og þau leggja ekki í stjórn með Sjálfstæðisflokki því þau óttast að þá verði uppreisn í liðinu – og svo er reyndar hitt að enn virðist enginn vilja vera með í slíkri stjórn nema þá Framsókn. Brúin milli VG og íhaldsins er semsagt einbreið.

Guðni forseti boðar formenn flokkana á sinn fund á morgun. Líklega fá þeir að klára aðra umferðina, en það er spurning hvort sú þriðja myndi breyta einhverju.

Það er hins vegar alltof snemmt að tala um stjórnarkreppu, ekki nema mánuður frá kosningum og engin vá fyrir dyrum þótt ríkisstjórn sé ekki mynduð strax.

Annars endaði Guðni þjóðstjórnargrein sína árið 2010 með svofelldum orðum:

…fátt virðist geta sameinað Íslendinga. Hitt gæti þó virst svipað að djarfra og einstæðra ákvarðana sé þörf. En hver á að gera hvað og hvenær?  Það er vandinn.

 

 

Fimmtudagur 1.12.2016 - 13:11 - Ummæli ()

Breyttir tímar í skákinni

Eitthvert eftirminnilegasta sjónvarpsefni fyrri tíma voru skákskýringar í sjónvarpssal. Þær fóru þannig fram að skákskýrandinn stóð fyrir framan lóðrétt skákborð, sem varð að vera nokkuð stórt til að vera sýnilegt, og færði til menn annað hvort með höndunum eða þartilgerðri stöng.

Þetta gekk ekki alltaf hratt fyrir sig, langt í frá, og það var auðvitað eitt af því besta við svona sjónvarpsefni. Þetta var sannkallað slow tv. Svo gat verið gaman ef skákskýrandinn færði mennina svo mikið til í leit sinni að möguleikum að hann átti erfitt með að finna sjálfa stöðuna í skákinni, þá sem lagt var út af.

Eða jafnvel, eins og gerðist stundum, að skýrandinn fór eitthvað óvarlega, varð kannski mjög spenntur, og taflmennirnir beinlínis hrundu á gólfið og þurfti að raða þeim upp á nýtt í miðri útsendingunni.

 

untitled-1

 

Nú eru aðrir tímar. Þetta er allt skýrt og greint með aðstoð tölvu. Og tölvan sér betur en bestu stórmeistarar. Ýmsir voru að fylgjast með úrslitaskákinni í heimsmeistaraeinvigi Magnus Carlsen og Sergej Karjakin í gær. Carlsen vann, það voru ágæt úrslit, hann er sókndjarfur og lagði hinn varnarsinnaða Karjakin með drottningarfórn.

En tímarnir eru breyttir. Guðmundur Rúnar Svansson, sem ég  vitna stundum í hér á vefnum, orðar það svo:

Ég hugsa það hafi verið skemmtilegra að fylgjast með live skákeinvígjum fyrir daga ofurskáktölvanna. Það tekur svolítið sjarmann af þessu þegar hvaða skýrandi sem er getur með hjálp þeirra spottað hvern sigurleikinn á fætur öðrum áður en heimsmeistaraefnið gerir eitthvað allt annað.

 

15192526_10211238608101694_96482338331080040_n

Miðvikudagur 30.11.2016 - 17:13 - Ummæli ()

Fjórflokksstjórnin – nei, varla!

Frumlegasta mynstrið varðandi stjórnarmyndanir er það sem kom fram hjá Birgi Guðmundssyni, stjórnmálafræðingi á Akureyri. Þetta hljómar þannig að allir gömlu fjórflokkarnir verði saman í stjórn, íhald, framsóknarmenn, kommar og kratar.

Semsagt allt pólitíska litrófið eins og það hefur verið lengst af frá því fyrir stríð.

Stjórnarandstaðan væru þá nýju flokkarnir, Píratar, Viðreisn og Björt framtíð. Gamla gegn nýja.

Sannarlega athyglisverð staða – og sýnir hversu stjórnarmyndunartaflið er orðið snúið.

Raunar er ólíklegt að saman gangi milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Til þess er gjáin milli flokkanna of stór og tortryggnin mikil. Maður sér Sjálfstæðismenn á netinu fárast yfir því að fara í ríkisstjórn með Steingrími J. og keppast við að pósta gömlum og að því þeim finnst væntanlega asnalegum myndum af honum.

 

15171140_10207546254831366_2069762259058395194_n

 

Á móti minna vinstri menn linnulaust á það að ekki megi fara í stjórn með Panamafólki.

Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa Framsókn með, en Vinstri græn vilja Samfylkinguna – og þar stendur meðal annars hnífurinn í kúnni –  en að allir þessir flokkar séu að fara saman í eina sæng, nei, fjandakornið.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is