Sunnudagur 1.3.2015 - 13:56 - Ummæli ()

Frumkvöðull lattedrykkju á Íslandi

Sagnfræðingurinn og blaðamaðurinn Guðmundur Magnússon hefur gert stórmerkilega uppgötvun. Nefnilega að sjálfur Grímur Thomsen sé frumkvöðull í lattedrykkju meðal Íslendinga. Guðmundur telur jafnvel að rétt sé að reisa minnisvarða af Grími í 101 Reykjavík, hann gæti jafnvel verið með kaffibolla í hönd.

Grímur Thomsen var uppi frá 1820-1896 og reis til metorða innan embættismannakerfisins danska. Þannig var hann sá Íslendingur síns tíma sem var hagvanastur í erlendum stórborgum.

Guðmundur Magnússon skrifar á Facebook-síðu sína:

Latte-drykkja hófst á Íslandi þegar kaffihúsið Mokka var opnað á Skólavörðustignum á sjötta áratugnum. Eða svo er mér sagt. En varð ekki þjóðfélagsvandamál með tilheyrandi flokkadráttum milli borgar og sveitar og gáfumanna og daglaunafólks fyrr en löngu seinna. En hver haldiði að hafi fyrstur Íslendinga drukkið latte svo skjalfest sé? Enginn annar en heimsborgarinn Grímur okkar Thomsen! Hann segir frá daglegum háttum sínum í þeim efnum í bréfi til Brynjólfs Péturssonar 4. janúar 1847 (og fyrir siðsemis sakir sleppi ég því sem hann hefur orð á þegar hann nefnir Parísardömuna Mademoiselle Angéle enda tengist það ekki beint kaffidrykkjunni).

Svona fór lattedrykkja Gríms á þessum tíma í París í lýsingu Guðmundar. Grímur var 27 ára þegar þetta var og virðist hafa kunnað að njóta drykkjarins vel, ekki síður en lattelepjarar og kaffihúsaspekingar nútímans:

Grímur fer semsagt á hverjum morgni frá heimili sínu í miðborginni og kaupir sér ‘Café au lait c, 1/3 sterkt kaffe og 2/3 heit mjólk, og með því eitt franskbrauð’ sem hann segir að Frakkar dýfi smurðu niðrí bollann sinn, ‘Þennan drykk drekk eg nú á hverjum morgni og les blöðin með, ekki Berling og Föðurlandið, heldur Débats, Presse, Constitutionel, Chariviri, National, Corsaire-Satan, Réforme, L’Époche, Le Moniteur universel, Le Moniteur Parisien, Le Commerce, Le Siécle, Le Tintamarre o.s.frv.’ Enginn smálestur! Tekur þó fram að einkum séu það fimm fyrstnefndu blöðin sem hann les með latte-inu. Og eftir kaffidrykkjuna kveðst hann reykja vindilinn sinn og fari svo annað hvort heim eða uppá konungsbókasafnið eða í Sorbonne. Á kvöldin er það svo samkvæmislífið.

Og loks kemur Guðmundur með hina ágætu uppástungu um minnisvarðann um Grím og lattedrykkjuna:

Og nú velti ég því fyrir mér hvort ekki væri þjóðráð að reisa Grími minnisvarða í 101 Reykjavík við eitthvert kaffihúsið. Myndhöggvarinn gæti látið hann halda á kaffibolla í annarri höndinni og vindli í hinni.

Ungur_aeviagrip2

Grímur Thomsen á yngri árum. Hann var 27 ára þegar hann stundaði lattedrykkjuna.

Sunnudagur 1.3.2015 - 11:50 - Ummæli ()

Andri Snær les óbirta sögu af farsíma

Ég stjórna nú um helgina bókmenntadagskrá í Hörpu í tengslum við Food & Fun hátíðina. Þetta byrjar í dag klukkan 13, rithöfundarnir sem koma fram eru Ófeigur Sigurðsson, Yrsa Sigurðardóttir, Sigurður Pálsson og Bryndís Björgvinsdóttir.

Í gær komu fram Gerður Kristný, þrjú skáld úr hópnum Meðgönguljóð, þau Valgerður Þóroddsdóttir, Björk Þorgrímsdóttir og Elías Knörr, og Andri Snær Magnason sem var nýkominn frá Chicago þar sem Blái hnötturinn hefur verið settur á svið.

Í asanum gleymdi Andri tölvunni sinni, svo það varð úr að hann las áður óbirta smásögu – reyndar svo nýja að hann hafði samið hana í Chicago – upp af farsímanum sínum.

11026064_10153180081260439_7623826009736857511_n-1

Laugardagur 28.2.2015 - 20:16 - Ummæli ()

Frábærlega hannað en innantómt

Til að vera viss horfði ég á Birdman í annað skiptið – nú fór ég beinlínis að sjá myndina í kvikmyndahúsi.

Hvað varðar kvikmyndatöku og útlit er hún vissulega flott. Afar langar senur eru teknar í einni töku þar sem kvikmyndavélin þræðir ranghala leikhússins sem er sögusviðið. Inn á milli fáum við myndir af háhýsum sem gnæfa yfir sjónlínunni á Manhattan. Vélin er býsna miskunnarlaus þegar hún fer inn í andlitið á persónunum – og Michael Keaton er engin ofurhetja þar sem hann hleypur um á púkalegum hvítum nærbuxum.

En – þetta er samt ekki næstum því jafn snjallt og af er látið og höfundarnir sjálfir virðast álíta. Inntakið er spenna milli þess að vera útbrunninn og ekki útbrunninn, milli þess að vera alvöru listamaður og eitthvað sem er búið til í Hollywood. Þetta verður aldrei sérlega áhugavert.

Gagnrýnandinn, eldri kona, sem segist ætla að drepa leikverk vegna þess að aðalsprautan í því hefur einhvern tíma verið í Hollywood er algjörlega fráleit persóna og þegar hún svo verður svo yfir sig hrifin vegna þess að karakterinn sem Keaton leikur skýtur sig í nefið – ja, þá er þetta orðið heldur þvælið.

Hvað er verið að fara umfram hið smarta útlit, þessi endalausu löngu skot inn og út og upp og niður? Eiginlega ekki neitt og þar liggur veikleiki þessarar ofmetnu myndar. Hvað varðar Óskarsverðlaunin voru Boyhood og Grand Budapest Hotel báðar miklu verðugri verðlaunamyndir – sérstaklega sú fyrrnefnda sem er einstök.

url-13

Laugardagur 28.2.2015 - 11:39 - Ummæli ()

Illar grunsemdir vegna morðsins á Nemtsov

Morðið á Boris Nemtsov vekur alls kyns illar grunsemdir. Pútín lýsir því yfir að þetta sé ögrun, hið alþjóðlega orð er provokation. Það gerir hann stuttu eftir að hann fær fréttirnar. Hvað veit Pútín um það? Hvað felst í slíkri ögrun? Þetta er tungutak frá tíma Sovétríkjanna.

Pútín segist líka ætla að taka rannsóknina á morðinu í sínar eigin hendur. Það vekur ekki beinlínis traust. Minnir dálítið á morðið á Kirov í Leníngrad 1934. Þá tók Stalín rannsóknina einmitt í eigin hendur, flýtti sér til Leningarad. Morðið er ennþá ráðgáta. Hugsanleg var það að undirlagi Stalíns.

Í ríki eins og Rússlandi er reyndar vafasamt að morðið verði nokkurn tíma upplýst. Lögreglu og dómstólum er ekki treystandi. Það er auðvelt að búa til einhverja frásögn og troða henni ofan í almenning í gegnum áróðursmiðla. Líklegt er að margt fólk í vestrinu muni líka leggja mikið á sig til að trúa.

Pútín er gjarn á að tala um þá sem andmæla stjórn hans eða gagnrýna hana sem „fimmtu herdeild“. Þeir eru sagðir vinna fyrir „óvini Rússlands“. Eru semsagt landráðamenn. Nemtsov var á sérstökum lista yfir slíkt fólk sem hefur verið dreift af stuðningsliði Pútíns. Nemtsov ætlaði að taka þátt í mótmælum gegn Pútínstjórninni í Moskvu á sunnudag, en annar skipuleggjandi mótmælanna, Alexei Navalny var handtekinn fyrir nokkrum dögum.

boris-nemtsov

Föstudagur 27.2.2015 - 10:39 - Ummæli ()

Tími til að byggja upp ferðamannastaði – og hætta þrasi um fjármögnunina

Náttúrupassinn er ein leiðin til að takast á við nýjan veruleika – semsagt þann að helstu ferðamannastaðir landsins liggja undir skemmdum vegna átroðnings. Á sama tíma heldur túristunum bara áfram að fjölga og æ fleiri hafa atvinnu af því að þjónusta þá. Þetta er orðin langstærsta atvinnugrein á Íslandi.

En það er eins og við höfum ekki enn áttað okkur á því.

Það dugir skammt að vera með kenningar eins og í leiðara Morgunblaðsins þar sem er vísað til einhverrar óljósrar „heilbrigðrar skynsemi“ sem á einhvern tíma að hafa verið fyrir hendi í pólitíkinni (hvenær þá?).

Við þurfum ekki bara að leggja meiri peninga í uppbyggingu og innviði fyrir ferðaþjónustuna – það þarf miklu meiri peninga. Á þessu ári verða ferðamenn sem koma til Íslands þrefalt fleiri en innbyggjarar landsins – ef fer sem horfir verið þeir fjórum eða fimm sinnum fleiri eftir fáein ár. Við getum ekki haldið að við fáum allt úr þessari atvinnugrein án þess að leggja neitt á móti.

Hér á við gamli frasinn um að fljóta sofandi að feigðarósi.

Náttúrupassinn er eitt svarið við þessu, en virðist hugsanlega ekki njóta meirihlutastuðnings á Alþingi. Annar möguleiki er að fólk borgi beinlínis fyrir aðgang að þjóðgörðum eins og Þingvöllum eða Skaftafelli. Slíkt tíðkast út um allan heim. Gistináttagjaldið er samt lang einfaldasta leiðin, enda greiða ferðamenn svoleiðis gjald á hótelum bæði austan hafs og vestan og kippa sér ekki upp við það. Annar möguleiki væri smávægilegt gjald ofan á flugmiða eða gjald á skoðunarferðir – þær munu vera farnar að velta milljörðum.

Aðalatriðið er að formið á þessu skiptir ekki öllu máli. Það þarf að aðhafast fljótt áður en komið er í óefni með ferðamannastaðina okkar, traðkið verður yfirgengilegt, aðstöðuleysið enn ömurlegra og mannslífum jafnvel stefnt í hættu.

 

Fimmtudagur 26.2.2015 - 22:21 - Ummæli ()

Sigmundur Davíð, lágu launin og ofurhagnaður bankanna

Stefán Ólafsson prófessor sagði í viðtali um daginn að Framsókn ætti möguleika á að verða velferðarflokkur. Það væri betri leið fyrir hann en til dæmis að elta borgarfulltrúana í Reykjavík sem reru á mið útlendingaandúðar. Samkvæmt Stefáni er leiðin ennþá greiðari fyrir Framsókn sökum þess að vinstri flokkarnir hafa átt í erfiðleikum með að ná sambandi við alþýðu manna, hafa orðið mjög teknókratískir – rétt eins og vinstri flokkar víða í Evrópu.

Síðustu dagana hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra komið með tvær yfirlýsingar sem vekja athygli. Annars vegar hefur hann tekið að nokkru leyti undir kröfur verkalýðshreyfingarinnar um launahækkanir. Það fer ekki á milli mála að þetta vekur litla hrifningu í röðum Sjálfstæðismanna.

Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforingi á Akranesi, átti fund með Sigmundi og skrifaði eftir hann á Pressuna:

Átti mjög góðan fund með forsætisráðherra í dag þar sem staða kjaramála á íslenskum vinnumarkaði var meðal annars til umræðu. Það er gríðarlega ánægjulegt að heyra og finna að forsætisráðherra styðji okkar kröfur um að laun verkafólks hækki alverulega í komandi kjarasamningum. Hann tekur undir það að kjör verkafólks verði í það minnsta að duga fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út, en slíku er ekki til að dreifa í dag.

Fram kom í máli hans að hann telur eins og ég að horfa eigi til krónutöluhækkana en ekki prósentuhækkana í komandi kjarasamningum enda ljóst að það kemur milli og tekjulægstu hópunum hvað best að nota krónutöluhækkun.

Hins vegar gagnrýnir Sigmundur bankana harkalega fyrir ofurhagnað – 80 milljarða á síðasta ári. Sigmundur sagði í viðtali við RÚV:

Þetta er í rauninni algerlega ótækt. Ekki nóg með að bankarnir hafi yfirtekið lán almennings og íslenskra fyrirtækja á verulegum afslætti og haldið áfram að innheimta þau eins og þau væru 100 prósent, heldur hafa þeir komið á ótrúlegum vaxtamun og svo bætt þessum gjaldahækkunum við.

Hann bætti reyndar við að í nútímasamfélagi gæti ríkisstjórn ekki ákveðið hver eigi að vera vaxtamunur eða skipað bönkum fyrir um gjaldtöku.

En maður hlýtur samt að höfða til ábyrgðar þessara fyrirtækja og ekki hvað síst fyrirtækja sem eru í eigu almennings.

Ómar R. Valdimarsson bendir á eftirfarandi á Facebook:

Samanlagður hagnaður bankanna á síðasta ári voru 80 milljarðar króna. Það þýðir að bankarnir græddu alls 245.398.- krónur á hvert einasta mannsbarn þjóðarinnar…

Þetta er svosem ekkert nýtt. Fyrir hrun var Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, mikið að ræða um gjaldtöku bankanna – sem síðan hefur farið mjög í vöxt – og vaxtamunurinn var þá einnig til umræðu.

Sumir myndu segja að þetta sé afleiðing fákeppninnar sem er á Íslandi, hins sérstaka gjaldmiðils sem hér er notaður og þeirrar staðreyndar að erlendir bankar kæra sig ekki um að starfa hér.

Svo eru þeir líka til sem halda því fram að þetta sé ekkert óeðlilegt, eins og Ragnar Önundarson sem skrifar á Facebook og setur út á meintan pópúlisma þeirra sem gagnrýna bankana:

Heildareignir bankanna eru um 3.000 m.kr. Hagnaður banka þarf að vera til lengri tíma á bilinu 1-2% af þessari tölu (gömul langtímaviðmiðun) eða á bilinu 30-60 milljarðar kr. Segjum 1,5% eða 45 milljarðar. Þetta er miðað við venjulegt eiginfjárhlutfall, sem er 10-11%. Ríkisvaldið hefur krafist 16% hlutfalls eftir hrun. Þetta eigið fé þarf að ávaxta ! Ég fæ ekki séð að hagnaður bankanna sé óeðlilegur í ljósi þess eigin fjár sem af þeim er krafist. Það er huglaus popúlismi að rjúka upp með órökstudda gagnrýni og tala eins og vitað er að fjöldanum lætur best í eyrum. Leiðtogar eiga að hafa hugrekki. Við verðum að velja okkur forystumenn af því tagi.

Fimmtudagur 26.2.2015 - 13:54 - Ummæli ()

Róttækni og félagsleg úrræði

Ég á svona frekar erfitt með að trúa því að Íslandi stafi mikil hætta af hryðjuverkum. Menn eru reyndar gjarnir á að nota orðið „útiloka“. Jú, sumt er ekki alveg hægt að útiloka, eins og að einhverjum hér láti sér detta í hug að fremja hryðjuverk, að hryðjuverkamenn komi til landsins eða millilendi í Keflavík.

Útilokum ekki neitt, en þetta er samt mjög ólíklegt.

Íbúafjöldi Íslands er á við litla borg erlendis. Ísland stendur ekki í neinum stórræðum í útlöndum, hér er friðsamasta ríki á jörðu. Ógnar engum. Hér er lítið af spennandi skotmörkum. Landið hentar líka fremur illa til  hryðjuverka, það er einangrað, eina leiðin til að komast til og frá því með sæmilega skjótum hætti er í gegnum einn flugvöll. Sían er semsagt frekar þröng.

Búandi á Íslandi er náttúran í raun það sem ég óttast mest. Það stafaði mikil ógn af eldsumbotunum eystra fyrr í vetur. Maður vissi ekki nema sjálf Bárðarbunga færi að gjósa.  Það hefði getað þýtt að flytja þyrfti á brott af heimilum sínum fjölda landsmanna. Það er jafnvel hugsanlegt að hér verði svo stórt eldgos að Ísland verði nánast óbyggilegt um skeið.

Hættulegar farsóttir berast líka til Íslands eins og annað. Ekki einu sinni á miðöldum vorum við óhult fyrir þeim, þótt skipakomur væru afar stopular.

En hryðjuverk? Auðvitað þarf að vera eftirlit með ferðum til og frá landinu. En hvað varðar hættu að öðru leyti þá er í raun ekkert óskynsamlegt að tala um úrræði fyrir þá sem lenda í rugli. Þeir sem telja sig róttæka hafa reyndar móðgast óskaplega yfir þessum orðum í greinargerð ríkislögreglustjóra:

Sköpuð verði félagsleg úrræði fyrir þá sem verða fyrir áhrifum róttækni (radikalíseringar, e. radicalization).

Þarna er þó tæplega átt við þá sem vilja ganga í VG eða Píratahreyfinguna, heldur er býsna útbreitt í nágrannalöndum að ungt fólk sé að ganga til liðs við samtök eins og ISIS. Nýlegt dæmi eru bresku unglingsstúlkurnar þrjár sem hurfu af heimilum sínum, fóru líklega til Sýrlands. Þessara ungmenna bíður fátt annað en dauði, kúgun og skelfileg hugarfarsbrenglun. Miðað við fjöldann sem hefur farið frá nágrannalöndum er alls ekki ólíklegt að einhverjir kunni líka að vilja fara frá Íslandi.

Í rauninni er ágætt að talað sé um félagsleg úrræði í þessu sambandi. Hugmyndin er semsagt að aftra því að fólk lendi í þessum aðstæðum, segi sig úr lögum við samfélagið. Þarna eru félagsleg úrræði til dæmis betri en fangelsi, ef hægt er að koma þeim við.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is