Miðvikudagur 25.5.2016 - 12:00 - Ummæli ()

Undirbúningurinn fyrir kosningar í haust

 

Maður sér því haldið fram á nokkrum stöðum að Viðreisn sé klofningur úr Sjálfstæðisflokki. Það má vera að talsverðu leyti en sá klofningur varð í rauninni fyrir nokkuð löngu síðan, aðallega vegna evrópustefnu Sjálfstæðisflokksins. Maður heyrði fyrir síðustu kosningar að margir fyrri kjósendur Sjálfstæðisflokks hölluðust að Bjartri framtíð – og svo var náttúrlega hin stóra sneið kjósenda sem Framsókn tók af Sjálfstæðisflokki kosningavorið 2013. Hún er að talsverðu leyti að að skila sér aftur sem er væntanlega meginskýringin á því að Sjálfstæðisflokkurinn er að auka fylgi sitt.

Það er vandséð að Viðreisn breyti miklu þar um.

Í raun verður að segjast að Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera flokka best undirbúinn undir kosningar í haust. Flokkurinn er farinn að halda kjördæmaþing, undirbúa prófkjör, og innan hans er stöðugleiki. Staða Bjarna Benediktssonar er býsna traust, þrátt fyrir Panamauppljóstranir. Leiðin í skoðanakönnunum hefur legið upp á við og gæti jafnvel stefnt í 30 prósent í kosningum.

Aðrir flokkar virðast misjafnlega vanbúnir undir kosningar – að undanskildum Vinstri grænum þar sem ríkir mikill einhugur um Katrínu Jakobsdóttur sem formann. Hún ætti líka að vera nægilega sterk til að gæta þess að nauðsynleg endurnýjun verði á framboðslistum flokksins.

Samfylkingin kýs sér ekki nýjan formann fyrr en í júní; þar er varla farið að ræða um stefnumál eða framboðslista. Það má spyrja hvor eitthvert pláss sé fyrir Bjarta framtíð lengur – kannski gæti hún runnið saman við Viðreisn? Það er farið að tala um báða þessa flokka eins og þeir séu nánast feigir – það er erfitt að reka af sér slíkt orðspor.

Píratar virðast ekki búnir að ákveða hvernig þeir ætla að stilla upp, en það vekur athygli að einstaklingar sem hafa ekki starfað innan hreyfingarinnar, eins og Björn Þorláksson fréttamaður, sækjast eftir að komast á lista hjá flokknum. Hvernig munu Píratarnir bregðast við því?

Þá er komið að Framsóknarflokknum þar sem  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tilkynnti um helgina að hann vildi sitja áfram sem formaður, sæktist eftir því að koma aftur í forsætisráðuneytið og það yrðu ekki endilega kosningar í haust. Það vakti athygli að Bjarni sagði allt annað fáum dögum síðar, snupraði í raun Sigmund. Eftir að Sigmundur  hrökklaðist úr forsætisráðuneytinu í vor virðist trúnaðurinn milli hans og Bjarna hafa brostið.

Enn einu sinni kom í ljós hversu Sigmundur er gjarn á að spila einleik í stjórnmálunum. Hann fór í viðtalið án þess að vera búinn að láta vita um hugmyndir sínar og áform, þetta kom flatt upp á hans eigin flokksmenn og samstarfsflokkinn í ríkisstjórn.

En þá er spurning hvaða leið Framsóknarflokkurinn ætlar að fara? Það gæti dregið til tíðinda á fundi miðstjórnar flokksins sem verður haldinn í Reykjavík 4. júní. Þar eiga bæði Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra að halda ræður. Vilja Framsóknarmenn halda áfram með Sigmund sem formann – og þá væntanlega forsætisráðherraefni – en Sigurð Inga sem einhvers konar bráðabirgðamann? Eða veðja þeir á Sigurð Inga sem leiðtoga í kosningunum – hann hefur jú yfir sér dálítið gamaldags framsóknaryfirbragð? Svo er líka nefnd til sögunnar Lilja Alfreðsdóttir – hefur hún alvöru pólitískan metnað eða sækist hún kannski ekki eftir meiru en að vera utanríkisráðherra um stundarsakir?

 

 

Þriðjudagur 24.5.2016 - 21:15 - Ummæli ()

Hvergi í heimi meiri áhrif af Airbnb en í Reykjavík

Vilji maður íbúð yfir helgi í höfuðborg Íslands, lítilli borg með 122.460 íbúa, býður Airbnb upp á mörg þúsund möguleika. En ef maður leitar að íbúð til að búa árið um kring, gufa þessir möguleikar upp. Í nýlegri leit eina netsvæði borgarinnar sem býður upp á íbúðaleigu, leigulistinn.is, aðeins upp níu íbúðir í miðborg Reykjavíkur. Í allri borginni voru þær tuttugu og tvær talsins.

Þetta má lesa í grein sem blaðamaðurinn Kirsten V. Brown skrifar á vef sem nefnist Fusion. Í greininni segir hún að það sé næstum ómögulegt að finna íbúð til leigu í borginni. Hún rekur dæmi um fólk sem leigði húsnæði en var sagt upp leigunni með stuttum fyrirvara. Hún nefnir konu sem varð að yfirgefa íbúð undir því yfirskyni að veikur frændi eigandans gæti flutt inn. Nokkrum dögum síðar var íbúðin auglýst á Airbnb.

Kirsten V. Brown segir að miðað við íbúatölu séu meira en tvöfalt fleiri Airbnb íbúðir í Reykjavík en í Barcelona, San Francisco og Róm. Hún vitnar í tölfræði sem segir að fimm prósent af íbúðum í borginni séu í boði á Airbnb. Segir að tölfræðingur að nafni Tom Slee hafi farið yfir gögnin og komist að því að næstum helmingur af íbúðunum séu í eigu aðila sem leigi þær út í atvinnuskyni, ekki sé búið í þeim að öðru leyti. Þar kemur einnig fram að sumir aðilar hafi yfir meira en tíu íbúðum að ráða, einn meira en fjörutíu.

Reykjavík sé hugsanlega sú borg í heiminum þar sem áhrif Airbnb eru mest.

 

Screen Shot 2016-05-24 at 21.25.07

Þetta kort af Airbnb íbúðum í Reykjavík fylgir greininni á vefnum Fusion.

Þriðjudagur 24.5.2016 - 12:36 - Ummæli ()

Smá upprifjun um einkavæðingu

Hér er grein sem birtist á þessum vef í upphafi árs 2009. Þarna er fjallað um mál sem reyndar hafði margoft verið rætt um allt frá því löngu fyrir hrun.

Nú sýnist manni það vera aftur komið upp sökum þess að umboðsmaður Alþingis greinir frá því að hafi undir höndum nýjar upplýsingar um einkavæðingu Búnaðarbankans og aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäser að henni.

 

Screen Shot 2016-05-24 at 12.42.13

Screen Shot 2016-05-24 at 12.42.36

Þriðjudagur 24.5.2016 - 08:10 - Ummæli ()

Einkavæðing Klettsins

Gamma er félag sem var stofnað í kringum hrunið af fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings. Þeir fóru úr spákaupmennsku með bankapappíra yfir í spákaupmennsku með húsnæði.

Má segja að Gammahafi verið sett á laggirnar á hárréttum tíma, því eftir að höftin lokuðust í kringum Ísland fór að magnast upp gríðarleg húsnæðisbóla – mikið af krónum veltist um í kerfinu í leit að fjárfestingu, ekki síst peningar lífeyrissjóða.

Við þetta bætist ferðamannastraumur sem enginn gat séð fyrir – verð á húsnæði er nú víða komið langt yfir sársaukamörk.

Í slíku bóluástandi getur félag eins og þetta stækkað gríðarlega ört. Veðrýmið eykst stöðugt – og þetta er starfsemi sem bönkum finnst gott að lána í, ábatinn getur verið skjótur ólíkt því sem til dæmis er þegar framleiðsla eða vöruþróun á í hlut. Þetta er í raun ágætt sýnishorn af því hvernig hið síðkapítalíska hagkerfi starfar.

Í gær var tilkynnt að Gamma hefði keypt mikinn fjölda af íbúðum af Íbúðarlánasjóði, þær voru undir hatti leigufélags sem nefnist Klettur, 450 íbúðir á einu bretti. Þetta er náttúrlega ekki annað en stór einkavæðing. Á sama tíma og félagsmálaráðherra er að berjast við að koma í gegn húsnæðisfrumvörpum er svo lítið beri á selt burt leigufélag í  opinberri eigu. Ekki hefur verið mikil umræða um þetta, en Drífa Snædal, sem situr í stjórn Íbúðalánasjóðs mun hafa mótmælt þessum málatilbúnaði.

Ýmislegt hefur verið ritað um Gamma síðustu árin, en þó í raun furðu lítið miðað við umsvifin. Gamma hefur ræktað ímynd sína með því að styrkja alls kyns menningarstarfsemi – eiginlega er meira fjallað um það. Formaður félags fasteignasala lýsti áhyggjum vegna félagsins fyrir nokkrum misserum, lýsti eignasöfnun þess, hvernig félagið hefði áhrif á húsnæðverð og hvernig leiga hefði „hækkað allverulega í eignum sem þeir eru með í útleigu“. Kjarninn birti líka grein sem fjallaði um ágengni Gamma á húsnæðismarkaði.

Í upphafi árs skrifaði stjórnsýslufræðingurinn Gunnar Alexander Ólafsson grein sem nefnist Kletturinn hverfur hér á Eyjuna. Gunnar fjallaði þar um fyrirhugaða sölu á Kletti.

Nú hefur ríkisvaldið ákveðið að hefja söluferli á merku fyrirbæri sem heitir Leigufélagið Klettur, sem er dótturfélag Íbúðalánasjóðs. Leigufélagið hefur leigt út íbúðir um land allt og býður einstaklingum uppá langtímaleigu á húsnæði. Allt sniðið að þörfum leigjenda. Klettur hefur boðið leigjendum upp á öryggi á leigutíma sem finnst ekki á almennum markaði í dag. Ekki var hægt að segja upp leigusamningi nema vegna vanefnda eða skemmda eða m.ö.o. leigendur bjuggu við öryggi hjá Kletti sem þekkist ekki á leigumarkaði.

Leigufélagið var aðgerð Guðbjarts heitins Hannessonar þáverandi velferðarráðherra til að auka framboð á húsnæði til langtímaleigu og mæta óskum vaxandi hóps leigjenda. Ætíð hefur verið mikil eftirspurn eftir íbúðum félagsins. Úti er ævintýri því nú hefur verið ákveðið að selja fyrirtækið. Þessi félagslega tilraun til að skapa leigjendum öryggi til langs tíma er á enda komin. Leigufélagið hefur verið vel rekið og hefur notað hagnað til að fjölga íbúðum. En hvaða áhrif mun sala á fyrirtækinu hafa?

  1. Leiguverð mun hækka, því kaupendur þurfa að fá fjárfestingu sína til baka á ákveðnum tíma.
  2. Leigutími verður takmarkaður og óöryggi leigjenda eykst.
  3. Staða núverandi leigjenda mun veikjast ásamt því að gera nýjum leigjendum erfiðara fyrir að leigja hjá þeim.

Vegna framangreindra atriða er salan á fyrirtækinu óskiljanleg. Fyrirtækið er vel stætt og hefur skilað tekjum til Íbúðalánasjóðs. Tilurð þess hefur skapað öryggi hjá þúsundum einstaklinga sem hafa loks séð fram á öryggi í langtímaleigu.

Salan vekur einnig upp spurningar í ljósi þess að leigjendum hefur fjölgað mikið undanfarin ár eða um 50% frá árinu 2004. Í dag er hlutfall leigjenda á húsnæðismarkaði um 22% en var 14% árið 2004. Í stað þess að auka þjónustu fyrirtækisins og gefa fleiri leigjendum kost á að njóta öryggis á leigumarkaði hafa yfirvöld félagsmála í landinu (Félagsmálaráðuneyti og Íbúðalánasjóður) ákveðið að auka óöryggi þessa hóps.

 

 

 

 

 

Mánudagur 23.5.2016 - 19:26 - Ummæli ()

Laugavegurinn er eins og Laugavegurinn

Enski hluti mbl.is sem nefnist Iceland Monitor (stórt nafn) gerir grein fyrir tískustraumum í miðbæ Reykjavíkur.

Þarna eru leiðbeiningar um hvernig eigi að passa inn í bæjarlífið og líta ekki út eins og túristi. Segir að maður eigi ekki að vera í útivistarfatnaði.

En í rauninni eru þetta úreltar leiðbeiningar. Laugavegurinn í Reykjavík er eins og hinn Laugavegurinn, þessi sem liggur í Landmannalaugar. Það eru allir í útivistarfatnaði.

Íslendingarnir eru upp til hópa í útivistarfötum líka þegar þeir koma í bæinn. Sérstaklega á þetta við á hátíðardögum eins og 17. júní og menningarnótt. Það er ekki tilviljun að Bankastræti hefur fengið nýtt heiti og kallast nú Flísstræti.

Það er að opna ný útivistarfatnaðarbúð á Laugaveginum, beint á móti Máli & menningu, undir merkjum 66 Norður. Önnur ný opnar á Skólavörðustíg, það er Rammagerðin, og svo fáum við stærstu flísbúð heims uppi við Hlemm, þar sem eitt sinn var Sautján.

Það er helst að þeir fáu þorpsbúar sem enn lafa í miðbænum, nokkrir hipsterar og ráðuneytisfólk sem skýst milli húsa séu í því sem mætti kalla borgaralegan götuklæðnað. Annars klæðast allir útivistarflíkum í dauflegum jarðlitum og tilheyrandi bomsum, arkandi upp Laugaveg og Skólavörðustíg.

Þess utan má kannski nefna einstaka hópa af drukknum Bretum sem hafa álpast hingað í fyllerísferðir og eru alltaf á bolnum.

Við sjáum stundum gamlar myndir og hugsum: „Mikið voru allir fallega klæddir á þessum tíma.“

Hvað ætli menn segi í framtíðinni þegar þeir sjá þegar þeir sjá hvernig fólkið var klætt í miðbæ Reykjavíkur á árum túristabólunnar miklu?

 

 

Screen Shot 2016-05-23 at 19.35.59

 

Mánudagur 23.5.2016 - 13:00 - Ummæli ()

Austurríki og nasisminn

Austurríkismenn eru í þann mund að kjósa sér hægriöfgamann sem forseta. Við þetta rifjast upp fyrir mér viðtal sem ég tók við „nasistaveiðarann“ Simon Wiesenthal árið 1987 og birtist í Helgarpóstinum. Þetta var á skrifstofu Wiesenthals í Vín en þá var í hámæli mál Kurts Waldheim, þáverandi forseta Austurríkis, en hann hafði verið í herjum nasista í stríðinu og meðal annars orðið vitni að útrýmingu gyðinga í grísku borginni Þessaloniki.

Wiesenthal sagði um Waldheim að hann væri lygari en ekki stríðsglæpamaður, en hann ræddi líka þátt Austurríkis í stríðinu. Hitler var Austurríkismaður og margir af helstu nasistunum komu þaðan. Austurríki beygði sig fúslega fyrir Hitler þegar hann innlimaði það 1938, en eftir stríðið var látið eins og Austurríkismenn hefðu verið fórnarlömb í stríðinu en ekki gerendur.

Wiesenthal var ómyrkur í máli um þetta í viðtalinu:

 

Screen Shot 2016-05-23 at 13.03.35

Screen Shot 2016-05-23 at 13.03.54

Screen Shot 2016-05-23 at 13.04.16

Sunnudagur 22.5.2016 - 13:33 - Ummæli ()

Starfsáætlun þingsins – og dagsetning kosninga

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerir kombakk og segir að ekki liggi neitt á að kjósa í haust, og hann sjái ekki að kosningar verði í september eða október.

Það er nú samt svo að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra hefur margítrekað að kosið verði í haust.

Ein yfirlýsingin var svohljóðandi:

Eins og fram hefur komið mun verða boðað til kosn­inga í haust. Dag­setn­ing hefur ekki verið ákveð­in.

Stjórnmálaflokkar eru farnir að boða til prófkjöra miðað við að kosið verði í haust – einkum og sérílagi Sjálfstæðisflokkurinn. Þar virðist semsagt vera almennur skilningur að kosningarnar verði haldnar.

Hér er svo breytt starfsáætlun Alþingis. Þarna má sjá að þingi verður frestað 2. júní, en þráðurinn verður aftur tekinn upp í ágúst á sumarþingi, sem virðist eiga að ljúka í byrjun september með eldhúsdegi.

Af þessu má ráða að kosningar eigi að fara fram í október, í fyrsta lagi 8. október, í síðasta lagi í lok mánaðarins – eða það skyldi maður ætla. Ef ekki er ætlunin að kjósa í haust er lítill tilgangur með þessu sumarþingi.

 

Screen Shot 2016-05-22 at 13.30.09

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is