Miðvikudagur 31.8.2016 - 23:26 - Ummæli ()

Sjónvarpsstöðvar í eigu símafyrirtækja

Við blasir nýr veruleiki í fjölmiðlum á Íslandi. Sjónvarpsstöðvar verða undirdeildir, maður hikar við að nota orðið „skúffur“, í stórum síma- og netfyrirtækjum.

Sú starfsemi verður eftir sem áður aðalviðfangsefni þessara fyrirtækja, en sjónvarpsreksturinn verður aldrei annað en aukabúgrein. Það er af sem áður var þegar fyrst Stöð 2 og síðar Skjár einn voru sérstök félög sem höfðu það eitt að markmiði að reka fjölmiðil – bæði fyrirtækin áttu sín glæstu blómaskeið og það er hryggilegt að fylgjast með því hvernig þau hafa skroppið saman. Sjálfur átti ég minn tíma bæði á Stöð 2 og Skjá einum – það er afleitt að sjá íslenska fjölmiðla veikjast jafn mikið og raun ber vitni, nánast alla með tölu. Dreifðir og smáir netmiðlar koma ekki í staðinn fyrir þá.

Skjár einn er nú deild í Símanum og Vodafone er að taka yfir Stöð 2. Í auknum mæli verða þetta veitur með bandarísku efni, það er rætt um að grundvöllurinn undir áskriftasjónvarpi eins og Stöð 2 hefur verið sé við það að bresta endanlega.

Síma- og netfyrirtæki eru í gríðarlega sterkri stöðu á fjömiðlamarkaði. Þau dreifa efni í hverja einustu tölvu, hvern einasta síma, til barna og fullorðinna, alþjóðlega eru þau í meiri mæli farin að geta ráðið lögum og lofum gagnvart listamönnum og framleiðendum efnis, þeim sem í raun skapa. Síminn á Íslandi auglýsti um tíma tilboð þar sem áskrifendur fengu tónlistarveituna Spotify ókeypis í kaupbæti. Það er í raun miðlunin sem er aðalatriðið, ekki innihaldið eða sköpunin.

Þess má geta í framhjáhlaupi að hinn nýi eigandi Stöðvar 2, Vodafone, sér um dreifingu fyrir Ríkisútvarpið samkvæmt samningi sem gerður var 2013 og gildir lengi enn.

Nú er í gangi mikil herferð til að fá Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Þar hefur sjónvarpið verið frá upphafi. Það hefur semsagt alltaf verið gert ráð fyrir að hluti af tekjum þess kæmi frá auglýsingum. Hugsanlega var það vond stefna en í langan tíma var ekki annarri sjónvapsstöð til að dreifa. Þetta kerfi hefur svo fengið að lifa af öll 50 starfsár sjónvarpsins. Ef auglýsingatekjurnar yrðu teknar út yrði til stórt gat sem þyrfti að fjármagna með öðrum hætti ellegar skera verulega niður – ofan á niðurskurð síðustu ára.

Æ meira af íslensku auglýsingafé rennur núorðið til erlendra veffyrirtækja í gegnum miðla eins og Google og Facebook. Enginn veit nákvæmlega hvaða upphæðir þar er um að ræða, menn skyldu athuga að mesta samkeppnin sem íslenskir fjölmiðlar eiga í núorðið er við miðla sem eru starfræktir í útlöndum. En það er athyglisvert að nú eru það tvö stærstu símafyrirtæki Íslands sem sækja í að komast í meira af auglýsingapeningum og vilja taka þá frá fjölmiðli sem er skylt að sinna íslenskri dagskrárgerð, íslenskri tungu og íslenskum veruleika.

 

Miðvikudagur 31.8.2016 - 13:07 - Ummæli ()

Marklaus tillaga um þjóðarakvæðagreiðslu

Tillaga þingmanna um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um Reykjavíkurflugvöll er fyrst og fremst tilraun til að rugla hlutina þegar innan við tveir mánuðir eru til kosninga.

Allir vita að ekki verður hægt að halda svona atkvæðagreiðslu meðfram kosningunum, það er of seint og það er líka ljóst að hún myndi taka of mikla athygli frá þingkosningum.

Í lok október verður kosið nýtt þing sem mun væntanlega geta fjallað um þetta. Þingið sem nú situr er á leiðinni heim. Umboð þess er nokkuð takmarkað.

Sá hængur er líka á að erfitt gæti reynst að boða til kosningar á landsvísu um skipulagsmál innan bæjarfélags. Kannski er það hægt, en það þarf örugglega að kanna hvort lagagrundvöllurinn er fyrir hendi.

Svona kosning gæti ekki verið nema „ráðgefandi“. Síðast var haldin „ráðgefandi“ þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi 20. október 2012, það var um tillögur stjórnlagaráðs. Ekki var farið eftir úrslitum atkvæðagreiðslunnar, stjórnvöld hafa beinlínis látið eins og hún hafi aldrei farið fram.

Meðan svo er geta aðrar þjóðaratkvæðagreiðslur sem er boðað til með svipuðum hætti ekki verið neitt annað en ómark. Gildi þeirra er ekkert. Fordæmið fyrir því hunsa þær gæti ekki verið skýrara.

Þannig að í raun er þetta markleysa. En þetta getur skapað uppnám og rugling í aðdraganda kosninganna  – þegar við getum ímyndað okkur að sé nóg annað að ræða og rífast um.

Miðvikudagur 31.8.2016 - 09:55 - Ummæli ()

Lífeyrissjóðirnir og Hagar

Þessi tafla kemur af heimasíðu Haga. Þarna má sjá hverjir eru tuttugu stærstu hluthafar í félaginu. Lífeyrissjóðir eru lang fyrirferðarmestir. En innherjar eru að selja í félaginu, það eru háttsettir starfsmenn þess – menn gera skóna að því að þetta kunni að vera af ótta við áhrif bandaríska verslunarrisans Costco á íslenskum markaði, annars konar vöruúrvals og verðlagningar.

Í pistli sem birtist hér á síðunni í gær var spurt hvort lífeyrissjóðirnir myndu kannski kaupa hluti innherjanna?

Um leið bregður þessi tafla upp mynd af því hvernig kaupin gerast á eyrinni á íslenskum markaði. Lífeyrissjóðirnir eru sagðir eiga 40 prósent af hlutabréfamarkaðnum og er hlutur þeirra stöðugt að aukast.

 

Screen Shot 2016-08-30 at 22.55.35

 

Þriðjudagur 30.8.2016 - 19:24 - Ummæli ()

Engar óskaríkisstjórnir í boði – fremur að verði stjórnarkreppa

Það er kannski best að hrapa ekki að ályktunum, fleiri skoðanakannanir eru á leiðinni, en ef litið er á könnun MMR sem birtist í dag verður varla séð að nein ríkisstjórn sé í kortunum – altént ekki ríkisstjórn sem neinn langar að fá. Stefnum við kannski í kosningar þar sem allir verða fyrir vonbrigðum áður en yfir lýkur?

 

image001

D og B eru með samanlagt 35 prósent. Við getum bætt C við og þá eru ekki komin nema 44 prósent. Ekki nóg til að mynda stjórn.

Stjórnarandstöðumegin lítur þetta svona út, þar dreifast atkvæði mjög mikið:

P + V + S + A samanlagt 48 prósent. Við gætum bætt C við og farið í 56 prósent, en 5 flokka stjórn – það er nánast óþekkt. En það er hedur ekki víst að A nái að rjúfa múrinn sem þarf til að ná manni á þing.

Maður gæti farið að álykta að stjórnarkreppa kunni að vera í uppsiglingu. Eða þá að við fáum ríkisstjórn sem er býsna fjarri því sem menn óska sér, eins og til dæmis 1978 þegar Alþýðuflokkurinn og Alþýðuflokkurinn unnu kosningasigur, en Framsókn tapaði – þá varð formaður Framsóknarflokksins, Ólafur Jóhannesson, forsætisráðherra.

Guðmundur Rúnar Svansson, afar snjall maður, spyr á Facebook hvort þetta séu í rauninni eðlilegustu stjórnarmynstrin eða hvort hinar raunverulegu línur liggi í raun annars staðar. Guðmundur bendir á það í leiðinni að mestu andstæðurnar í íslenskum stjórnmálum sé hugsanlega Viðreisn og VG.

Væri Framsókn, Íhald og VG ef til vill raunhæfasti stjórnarmeirihlutinn að loknum næstu þingkosningum? Augljóslega ekki á hefðbundnum vinstri-hægri skala, en klárlega þegar kemur að þeim málum sem verða einna helst á döfinni í komandi kosningum? Þeir eiga það til dæmis sameiginlegt að vera í meginatriðum hlynntir kvótakerfinu, tregir til breytinga á núverandi stjórnarskrá, andvígir ESB aðild og vilja halda í krónuna, og myndu ennfremur getað náð saman um að gera sem minnstar breytingar á núverandi landbúnaðarkerfi.

Þriðjudagur 30.8.2016 - 08:00 - Ummæli ()

Costco vekur ugg og ótta

Það er sérkennilegt að fylgjast með því þegar forráðamenn stærstu keðju matvöruverslana á Íslandi selja hlutabréf sín hver um annan þveran. Vísast græða þeir peninga á þessu, geta jafnvel farið að hafa það náðugt, en varla er hægt að skýra þetta öðruvísi en að þeir trúi ekki lengur á framtíð fyrirtækisins.

Það verður líka að segjast eins og er að verslanir Haga – Hagkaup og Bónus – eru ótrúlega staðnaðar. Vöruúrval er lélegt þar, hefur reyndar farið hrakandi fremur en hitt. En staðreyndin er sú að Íslendingar láta bjóða sér mjög lélegar matvörubúðir, úrvalið er slappt, verðið hátt, gæði vörunnar vafasöm, ferskleiki afar lítill.

Líklegasta skýringin á hlutabréfasölunni er auðvitað innkoma bandaríska verslunarrisans Costco á íslenskan markað. Allt bendir til þessa að vöruframboðið þar verði öðruvísi en við eigum að venjast. Álagningin sem tíðkast hjá fyrirtækinu er miklu lægri en tíðkast á Íslandi.

Verslun Costco verður víst ekki opnuð fyrr en í mars 2017, þannig að enn er dálítill tími til stefnu fyrir íslensku verslunina að aðlagast. Hlutabréfasalan bendir samt ekki til að mikill vilji sé til þess. Maður sér fyrir sér þúsundir viðskiptavina þyrpast í Costco á fyrsta degi. Í raun er hugsanlegt að það muni sprengja íslenska verslunarhætti í loft upp.

En hverjir ætli séu annars að kaupa hlutabréfin í Högum? Það eru þó ekki lífeyrissjóðirnir?
886560

 

 

 

 

 

 

Mánudagur 29.8.2016 - 20:52 - Ummæli ()

Njálsgata-Gunnarsbraut – Garðar úrsmiður, Pétur þulur og hús við Lækjartorg

Hér er dásamleg ljósmynd frá Reykjavík eins og ég man hana á fyrsta áratug lífs míns. Hún er líklega tekin um miðjan sjöunda áratuginn, birtist á vefnum Gamlar ljósmyndir. Maður rekur fyrst augun í litina sem eru oft svo skemmtilega mjúkir í myndum frá þessum tíma.

Myndin sýnir norðurhlið Lækjartorgs, Hafnarstræti og út á Kalkofnsveg. Ég man eftir að hafa verið að selja Vísi á þessu svæði þegar ég var strákur. Það gekk ekki sérlega vel, ég náði aldrei að vera nógu ágengur. En það var einn maður sem sá aumur á mér oftar en einu sinni, þetta var Garðar Ólafsson úrsmiður sem var með verslun í litlu húsunum sem eru fremst á myndinni. Síðan hugsa ég alltaf með miklum hlýhug til Garðars.

Í fjarska má sjá Sænska frystihúsið, stórbyggingu sem var rifin til að rýma fyrir húsi Seðlabankans. Litla húsið við hliðina á turninum sem hefur lengi verið á flakki um þetta svæði var Hreyfilsstöðin en þar rak Pétur Pétursson þulur sjoppu um tíma. Pétur bjó í Ásvallagötunni og var óþreytandi að ræða málin við vegfarendur, líka okkur krakkana. Það varð aldrei neitt af sundlauginni sem hann vildi setja upp í húsasundinu á bak við Ásvallagötuna, en hann bauð mér eitt sinn í söngferð með frönskum drengjakór sem hann hafði flutt til Íslands. Ég man samt ekkert hvert við fórum, í eitthvað félagsheimili úti á landi, þekkingu minni á landafræði var ábótavant í þá daga. Pétur var kvæntur Birnu, hún vann eitt sinn á Veðurstofunni og var sagt að þá hefði alltaf verið gott veður.

Það er furðu mikill borgarbragur á þessari mynd, þótt húsin séu ekki ýkja háreist öll. Þarna má líka sjá gamla Siemsens-húsið sem var endurbyggt í Grófinni og hús þar sem Bílar & landbúnaðarvélar höfðu starfsemi. Á þessum árum var Lækjartorg enn miðstöð samgangna í Reykjavík. Við sjáum að á myndinni eru tveir strætisvagnar. Þarna ók Njálsgata-Gunnarsbraut, ein af leiðunum sem var til áður en kerfinu var breytt í kringum 1970. Ég var í Ísaksskóla og tók stundum strætó þangað, hef varla verið nema sjö ára.

Þetta svæði er hálfgerð eyðimörk nú, enda búið að rífa öll hús nema þau sem eru aftast á myndinni. Í staðinn á að reisa hið svonefnda Hafnartorg. Ég er ekki viss um að verði skemmtilegri bragur yfir því en sá sem má sjá myndinni.

 

14114971_1068026026621739_1768748185282238007_o

Sunnudagur 28.8.2016 - 22:57 - Ummæli ()

Steinsteypuöldin – brot úr þættinum

Hér er örstutt kynningarstikla fyrir Steinsteypuöldina, þáttaröðina um sögu byggingalistar og byggðaþróunar í Reykjavík sem við höfum sett saman Pétur H. Ármannsson, Ragnheiður Thorsteinsson og ég.

Fyrsti þátturinn verður sýndur í sjónvarpinu á fimmtudagskvöldið 1. september klukkan 20.10.

 

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is