Fimmtudagur 19.1.2017 - 10:29 - Ummæli ()

Eyðing kjarnorkuvopna og frjáls viðskipti

Það er orðið skrítið ástandið í heiminum þegar manni finnst að forseti Kína (sem í leiðinni er frammámaður í svonefndum kommúnistaflokki þess ríkis) sé eini leiðtogi stórveldis í heiminum sem talar af sæmilegu viti. (Þar er forsætisráðherra Bretlands meðtalin, þótt áhöld séu raunar um að hún stjórni stórveldi.)

Xi Jianping lagði það til í ræðu hjá Sameinuðu þjóðunum í gær að kjarnorkuvopn verði alfarið bönnuð og að þeim kjarnorkuvopnum sem eru til verði eitt.

En annars orðar Guðjón Friðriksson sagnfræðingur þetta ágætlega:

Það er margt kyndugt í henni Versu. Nú er forseti Kína, stærsta kommúnistaríkis í heimi, orðinn aðaltalsmaður frjálsra og opinna viðskipta í heiminum (ræða í Davos) meðan verðandi forseti Bandaríkjanna, höfuðvígis kapítalismans, boðar höft, tollamúra og einangrunarstefnu.

 

Miðvikudagur 18.1.2017 - 09:12 - Ummæli ()

Andstæða doða og skeytingarleysis

Að flestu leyti er gott að finna hvað fólk hefur miklar áhyggjur af afdrifum Birnu Brjánsdóttur. Málið er sérlega sorglegt, stúlka í blóma lífsins er horfin, fátt hefur maður séð átakanlegra en myndirnar af henni ganga upp Laugaveginn, vitandi að eftir það er ókunnugt um hvað af henni varð. Umkomuleysið rennur manni til rifja. Í viðbrögðum almennings birtist samhygð, umhyggja fyrir mannslífum, vitnisburður að meðal þessarar þjóðar er okkur ekki sama hvað verður um hvert annað.

En meðfram hefur maður líka orðið var við ákveðna múgæsingu. Alls konar söguburður fer fram á samskiptamiðlum, fólk setur fram kenningar sem eiga við lítil rök að styðjast – kannski nærðar af endalausu áhorfi á glæpaþætti? Sem betur fer upplifum við ekki oft hér í fámenninu að það sem þar er sýnt verði að veruleika.

Það er samt furðulegt hvað sumir eru til í að ganga langt, án þess að hafa við neitt að styðjast. Þetta er auðvitað einn af göllum samskiptamiðlanna, hvernig mál gjósa þar upp nánast óviðráðanlega og allir geta gert sína rödd gildandi, líka þeir sem kunna sér ekkert hóf eða stillingu. Netið verður gróðrarstía alls kyns orðasveims. Það er ekki gott þegar upplýsingar í svona málum eru farnar að birtast á samskiptamiðlum áður en þær koma til lögreglu.

Sumir fjölmiðlar hafa teflt á tæpasta vað. Við lifum í veruleika netfréttamennsku þar sem samkeppnin um að verða fyrstur með fréttirnar er talin í mínútum. Þetta er að mörgu leyti háskalegt fjölmiðlaumhverfi miðað við það sem áður var, fjölmiðlavélin er algjörlega óseðjandi. En talsmaður lögreglunnar, Grímur Grímsson, hefur áunnið sér traust með framgöngu sinni. Hann sýnir stillingu en um leið vilja til að upplýsa.

Eins og staðan er vitum við ekki hvernig fer. Vonin er frekar veik, það verður að segjast eins og er. Maður leyfir sér samt að halda í hana. Og eins og áður segir er líka gott að finna sterkar tilfinningar, áhyggjur og umhyggju – andstæðu doða og skeytingarleysis – þegar eitt af okkur týnist með svo vofveiflegum hætti.

Mánudagur 16.1.2017 - 22:41 - Ummæli ()

Átta gráðugar marglyttur

„Ef þessi frétt fjallaði um ástandið á fjarlægri plánetu þar sem átta gráðugar marglyttur hefðu sölsað undir sig mestallt ætilegt þá myndum við líta á það sem staðfestingu á að vitsmunalíf þrífist ekki á öðrum hnöttum.“ (Þráinn Bertelsson, 17. janúar 2017)

 

Sunnudagur 15.1.2017 - 10:55 - Ummæli ()

Ímyndaður leiðtogafundur?

Fréttir af fundi Trumps og Pútíns í Reykjavík virðast vera tómur skáldskapur. Ekki það, kannski væri ágætt að þeir hittust?

Sonur minn stakk upp á því í gærkvöldi að besti staðurinn fyrir fund leiðtoganna væri veitingastaðurinn Texasborgarar – hjá Magga.

Það kom reyndar fram í fréttum í vor að þessi kunni veitingamaður og forsetaframbjóðandi ætti mynd af Trump.

En Bjarni Sigtryggsson, fyrrverandi sendifulltrúi, sem starfaði um nokkurt skeið í Moskvu, bendir á eftirfarandi, líklega er nokkuð til í þessu:

Hugmyndin um nýjan leiðtogafund í Reykjavík gæti aldrei gengið upp þar sem Rússar tengja 1986-fundinn við „uppgjöf og svik“ af hálfu Gorbasjevs.

 

Laugardagur 14.1.2017 - 18:59 - Ummæli ()

Brunnin Bernhöftstorfa

1977 brann svokölluð Móhúslengja sem stóð meðfram Skólastrætinu. Ég birti eitt sinn mynd af henni, hún er eftir hinn ástsæla upptökustjóra Sjónvarpsins, Tage Ammendrup. Þarna standa þessi gömlu hús, heldur óhrjáleg, en viðendann er verslunarhúsnæði sem KRON hafi til afnota, þar var um tíma bókabúð KRON sem þótti nokkuð menningarleg.

 

 

Þessi húsalengja brann til kaldra kola árið 1977, en í staðinn voru byggð hús sem falla svosem ágætlega að umhverfinu, eru í stíl sem á að virðast nokkuð gamall, en fá svosem aldrei nein verðlaun fyrir fegurð eða þokka.

Myndirnar sýna hvernig umhorfs var eftir brunann. Á efri myndinni er verið að ryðja burtu brunarústunum en einnig sjáum við að hús KRON sem vissi út í Bankastrætið fær að fjúka.

 

 

Á neðri myndinni sjáum við húsið þar sem nú er veitingastaðurinn Lækjarbrekka. Endurbygging þess hófst árið 1980. En þetta var frægt hús, það var reist árið 1834 af danska kaupmanninum P.C. Knutzon. Hann kemur nokkuð við sögu í sjónvarpsþáttum sem við Guðjón Friðriksson erum að gera.

Síðar hafði Bernhöft bakari aðsetur þarna, og þess vegna er tilkomið nafnið Berhöftstorfa en einnig var gatan upp holtið kölluð Bakarabrekka – sem síðar varð Bankastræti. Nú væri réttara að kalla hana Flísstræti, því enginn er bankinn þar lengur.

Þessar merkilegu myndir af brunarústunum tók Jón H. Hólm. Hann gaf mér góðfúslegt leyfi til að birta þær. 

Föstudagur 13.1.2017 - 21:01 - Ummæli ()

Hin baneitraða snjallsímafíkn – „kynslóð af kjánum“

Ein af ráðgátum nútímans er hvernig við látum tæknina taka af okkur völdin, fylgjum henni í blindni án þess að vita nokkuð um hvert hún er að leiða okkur. Í þessu er fólgin ákveðin nauðung – að við hljótum að þróa tæknina út á endamörk og helst út yfir þau, bara af því við getum það. En það er allsendis óvíst að mannkynið kunni fótum sínum forráð í þessu efni. Tækni hefur gert líf okkar betra og auðveldara, en hún kann líka að verða þess valdandi að mannkynið eða stórir hlutar þess fari sér að voða og jörðin verði lítt byggileg.

Í frétt sem birtist á vef RÚV er vitnað í Albert Einstein. Það er barnalæknirinn Björn Hjálmarsson sem þetta gerir, Einstein á að hafa sagt að hann óttaðist tímann þegar tæknin færi fram úr mannlegum samskiptum:

Og þá sagði hann: Þá óttast ég að verði til kynslóð af kjánum. Og ég held að þetta sé akkúrat það sem samfélagsleg umræða þarf að miðast að, að koma í veg fyrir þetta að tæknin taki af okkur ráðin.

Í fréttinni er fjallað um snjallsímanotkun barna og unglinga. Segir að margir séu hrjáðir af rafrænu skjáheilkenni, eins og það er kallað. Ungmenni sem ofnota tæki eins og snjallsímana finna til þunglyndis, kvíða, þau eiga erfitt með að einbeita sér. Þau eru ringluð. Í frétt um sama efni á Mbl.is segir í fyrirsögn að samfélagsmiðlar séu orðnir eitur.

Við látum gott heita að afhenda börnum og unglingum þessi öflugu tæki án þess að hugleiða hvernig þau eru notuð, hverjar afleiðingarnar geta orðið, um ofnotkunina og firringuna sem þeim fylgir – þeirri röskun að vera í raun aldrei í núinu, á þeim stað þar sem maður er staddur, ónæmi fyrir umhverfinu. Þetta er í raun ótrúlegt ábyrgðarleysi. En fólk gerir það – af því allir hinir gera það.

Hin taumlausa net- og samfélagsmiðlanotkun ruglar fullorðið fólk í ríminu, við sjáum merki þess allt í kringum okkur, en hvað þá með ómótaða barnshuga? Við látum net- og símafyrirtæki, sem hafa ekkert annað en gróða að markmiði, taka af okkur ráðin og það þykir beinlínis hallærislegt að andæfa.

Víða erlendis hefur verið  reynt að banna eða takmarka snjallsímanotkun í skólum. Það gengur misjafnlega. Eitt af því sem hefur verið nefnt sem mótbára gegn slíku er börnin lendi beinlínis í fráhvörfum ef tækin eru tekin af þeim. Það er nöturlegt ef fólk getur ekki lifað stuttan tíma án þess að nota svona tæki. Þá er þetta orðið að fíkn. Að miklu leyti tengist það starfsemi boðefna i heilanum. Það hefur verið stungið upp á því að snjallsímum eigi að fylgja heilbrigðisviðvörun.

Barnalæknirinn Björn Hjálmarsson, sem starfar á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, segir að þurfi að ræða hvernig þessi tækni nýtist best og hvernig sé hægt að draga úr skaðanum sem hún veldur – þessari feikilegu ofnotkun.

Þessi svona vefræna hraðbraut er alveg eins og hraðbraut með bílum, við látum ekki börnin leika okkur við hraðbrautina nema við leiðbeinum þeim.

 

Fimmtudagur 12.1.2017 - 20:40 - Ummæli ()

Ráðherrar og hofmóðurinn

Ráðherrar tala digurbarkalega á fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar. Jón Gunnarsson gerði sig breiðan um Reykjavíkurflugvöll en þurfti svo að draga aðeins í land – enda voru orð hans í litlu samræmi við það sem stendur í stjórnarsáttmálanum. Björt Ólafsdóttir segir um kísilver að „þeim kafla í Íslandssögunni sé lokið“.

Kristófer Már Kristinsson, sem eitt sinn sat á þingi fyrir Bandalag jafnaðarmanna, kemur með ágæta ábendingu af þessu tilefni:

Samkvæmt hinni formlegu stjórnskipan íslenska lýðveldisins ber ráðherrum að framkvæma ákvarðanir Alþingis. Enginn nýskipaðra ráðherra virðist átta sig á þessu en gefa út þess í stað persónulegar fyrirætlanir og skoðanir í nafni embættanna á nokkurrar sýnilegrar raunveruleikatengingar. Ekkert nýtt í þessu en hvimleitt.

Þá má líka nefna að ríkisstjórnin hefur afskaplega tæpan meirihluta og það ætti að takmarka nokkuð möguleika ráðherra á að stjórna með geðþótta. Það vofir alltaf yfir að í einhverjum málum haldi stjórnarmeirihlutinn ekki, svo ráðherrum er kannski hollast að stíga varlega til jarðar. Hofmóður dugar væntanlega – og vonandi – ekki á þessu kjörtímabili. Við höfum fengið nóg af honum síðustu kjörtímabil.

Reyndar má minna á aðra grein stjórnarskrárinnar sem yfirleitt hefur verið alltof lítt í heiðri höfð:

Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.

Nokkuð hefur verið gert úr fýlu karlanna þriggja úr Sjálfstæðisflokki sem fengu ekki ráðherraembætti. Það er þó ekki sérstök hætta á því að Páll Magnússon, Brynjar Níelsson eða Haraldur Benediktsson sprengi stjórnina. Þeir spila með liðinu, þótt þeir séu að láta vita af sér með þessum hætti. Haraldur á þó bestu setninguna þegar sem er rætt um skipan ráðherra:

Utanríkismál eru ekki þungavigtarmál fyrir landsbyggðarfólk en þau eru mikilvæg fyrir Reykvíkinga.

 

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is