Miðvikudagur 17.01.2018 - 20:45 - Ummæli ()

Aðalerindi Davíðs

Í höndum Davíðs Oddssonar hverfur Morgunblaðið að vissu leyti aftur til blaðamennsku 19. aldar þegar ritstjórarnir voru blöðin. Björn Jónsson var Ísafold, Einar Benediktsson var Dagskráin, Valdimar Ásmundsson var Fjallkonan. Eins er þetta nú á Mogganum, Davíð Oddsson er Morgunblaðið. Þetta var ekki svona á Mogganum þegar Matthías Johannessen og Styrmir Gunnarsson stunduðu ritstjórn – þeir opnuðu blaðið fyrir alls konar sjónarmiðum og það varð miðpunktur þjóðfélagsumræðunnar.

Það var löngum hefð á Morgunblaðinu að starfsmenn hættu þegar þeir urðu sjötugir. Matthías og Styrmir létu báðir af störfum sjötugir þótt þeir hefðu fulla starfsorku og það gerði líka Haraldur Sveinsson, framkvæmdastjóri blaðsins á mesta velgegnisskeiði þess. Davíð ætlar ekki hætta, hann á ýmsu ólokið.

Það sést glöggt  í blaðinu á afmælisdaginn hvað er efst í huga Davíðs. Í miðju blaðsins er stór grein, þrjár blaðsíður, eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Þetta  eins og samandregin útgáfa af skýrslu hans um bankahrunið sem á að birtast á næstunni á ensku. Vart þarf að efast um að niðurstöðurnar þar verða í sama dúr. Það verður þá einhvers konar afmælisskýrsla.

Allt gengur það út halda því statt og stöðugt fram að Davíð hafi verið ein af hetjum hrunsins en ekki einn af skúrkunum. Þetta er aðalerindi Hannesar og það er erindi Davíðs á Morgunblaðinu. Því lýkur ekki í bráð, hvort sem blaðamönnunum þar, mörgum ágætum, líkar betur eða verr.

 

 

Miðvikudagur 17.01.2018 - 11:22 - Ummæli ()

Íslandskaupmennirnir fá nöfn og andlit

Guðmundur Andri Thorsson tók eftir því að í Kaupmannahafnarþáttum okkar Guðjóns Friðrikssonar mætti sjá merki þess að við værum ekki miklir knæpusetumenn.

Sem er ágætt – nógir eru um fjárans brennivíns- og glötunar- og síkja-rómantíkina kringum þennan gamla höfuðstað.

Það er nokkuð til í þessu hjá Guðmundi Andra – í seinni þáttum nefnum við fáeina glataða syni þjóðarinnar sem rötuðu í ógæfu en við erum mestanpart að segja annars konar sögu. Í þættinum sem verður sýndur í kvöld er mikið fjallað um Íslandskaupmenn. Þetta er í anda bókanna Kaupmannahöfn, höfuðborg Íslands eftir Guðjón og Jón Þ. Þór, en þættirnir eru byggðir á þeim.

Kaupmennirnir sem koma við sögu í þáttaröðinni bjuggu flestir í hverfinu Kristjánshöfn og í Nýhöfninni. Þar segir Guðjón að hafi verið Íslandskaupmenn í öðru hverju húsi. Við vorum alin upp við það flest að verslun Dana á Íslandi hefði verið alvond. En það voru mörg tímabil í versluninni og kaupmennirnir misjafnir. Stundum var myljandi gróði, stundum tap. Á löngu tímabili fór nær öll verslun til og frá Íslandi í gegnum Kaupmanahöfn. Þegar Íslendingar fóru sjálfir að stunda verslun að ráði annað en að hafa bækistöðvar í Kaupmannahöfn, að minnsta kosti hluta úr ári.

Í þáttunum fá kaupmennirnir nöfn og andlit. Við getum nefnt Jonas Trellund sem fyrstur manna er vitað til að hafi flutt sykur til Ísland, mikinn ævintýramann sem hét Kort Adeler, Mikkel Wibe sem varð borgarstjóri í Kaupmannahöfn, Hans Nansen sem sigldi átján sinnum til Íslands, Andreas Björn sem var stærsti hluthafinn í Hörmangarafélaginu sem hefur farið fremur illt orð af.

Svo er það Niels Ryberg sem hóf saltfiskverkun á Íslandi, Mads Hansen sem byggði glæsihús þar sem nú er Strikið og átti dóttur sem var ein af ástkonum Kristjáns IV og Knud Pedersen Storm sem varð þess valdandi að Hólmfastur Guðmundsson var hýddur fyrir að versla hjá röngum kaupmanni.

Nær okkar tíma eru svo P.C. Knudtzon sem reisti hús við Bernhöftstorfuna sem enn standa,  Niels Örum og Jens Andreas Wulff sem ráku mikið verslunarveldi á Norður- og Austurlandi og Hans Arreboe-Clausen sem bjó við síki í Kristjánshöfn en á nokkurn ættboga á Íslandi.

Inn í þessa sögu blandast svo Íslendingar sem gerðust umsvifamiklir í verslun. Einna ævintýralegastur er Bjarni Sívertsen sem var bóndi úr Selvogi, verslaði um Suðurnes og í Hafnarfirði, kom sér upp allmiklum flota af kaupskipum og fór að stunda siglingar alla leið til Spánar og Ítalíu með fisk.

 

 

 

Miðvikudagur 17.01.2018 - 00:10 - Ummæli ()

Launin í ferðaþjónustunni

Við því hefur verið varað, og það er vitað, að ferðaþjónusta er láglaunaatvinnugrein. Þess vegna er alveg mátulega æskilegt að hún sé aðalatvinnuvegurinn. Það eru ekki borguð há laun fyrir að skipta á rúmum eða þjóna til borðs. Við Íslendingar höfum farið þá leið í ferðaþjónustunni okkar að fá hingað fjölda útlendinga – marga frá starfsmannaleigum – sem eru til í að vinna á enn lægra kaupi en við. Án þess gætum við einfaldlega ekki fengið svo margt fólk til landsins. En fyrir flesta Íslendinga er þetta starfsfólk nánast ósýnilegt.

Það er langt í frá að við séum ein um þetta. Víða í Evrópu er farandvinnuafl grundvöllur ferðaþjónustunnar. Það er reyndar svo að orðið hefur algjör sprenging í ferðamennsku í heiminum. Samkvæmt upplýsingum frá alþjóðaferðamálastofnuninni voru ferðamenn í heiminum 280 milljónir 1980, nú er fjöldinn kominn yfir 1,3 milljarða á ári. Þetta er atvinnugrein sem veitir mörgum vinnu, en eins og fyrr segir eru launin almennt léleg.

Friðrik Pálsson, eigandi Hótels Rangár og áhrifamaður í íslensku viðskiptalífi,, sagði í viðtali við Morgunblaðið nú í vikunni að vandi ferðaþjónustunnar á Íslandi væri meðal annars fólginn í því að launin séu of há. Tveggja manna herbergi á Hótel Rangá yfir háferðamannatímann, nóttina 21. til 22. júlí, kostar 590 evrur eða 75 þúsund íslenskar krónur. Vonandi er eitthvað aflögu af því til að borga kaup.

Annars er það svo einfalt að ef ferðaþjónustan hér á Íslandi getur ekki borgað almennileg laun þá er ekki minnsta ástæða til að standa í öllum þessum átroðningi. Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að flytja hingað túrista.

Þriðjudagur 16.01.2018 - 11:41 - Ummæli ()

Er í lagi að drekka vatnið eða er ekki í lagi að drekka vatnið?

Manni er sagt að maður eigi að sjóða vatnið í Reykjavík áður en maður drekkur það en svo er manni líka sagt að það sé allt í lagi að drekka vatnið. Upplýsingarnar eru heldur misvísandi. Voru veitur of seinar til að tilkynna um vatnsvandræðin eða er  þetta því líkt smámál að ekkert hefði þurft að tilkynna – stormur í vatnsglasi?

Þetta kemur auðvitað nokkuð á óvart. Maður er einhvern veginn alinn upp við það hér á Íslandi að þurfa aldrei að hafa áhyggjur af vatni – ólíkt megninu af íbúum jarðarinnar.

 

 

En það horfir til vandræða þegar hinni gosþambandi þjóð er tilkynnt að nú sé ekki framleitt kók í landinu. Geta Íslendingar verið lengi án kóks?

 

 

Sjálfur var ég sendur út, eftir að hafa drukkið hálfa könnu af vatni með þorskinum sem var í kvöldmat, til að afla birgða af vatni. Kom heim með tvo kassa af ítölsku ropvatni úr Costco. Fínna verður það ekki. Ef einhver er í vandræðum þá á ég dálitlar birgðir.

 

 

Frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins stekkur fram og vill fá skýringar. Eyþór má eiga að hann er duglegur að notfæra sér tækifærin sem bjóðast í kosningabaráttunni. Hlýtur að teljast sigurstranglegur með þessu áframhaldi. Hvað segir Dagur?

 

 

Svo er það þessi ráðstefna sem er auglýst í Fréttablaðinu í dag.  Verðmætin í vatninu. Með hinum fróðlegustu erindum eins og „Útkall, slys á vatnsverndarsvæði“ og „Mikilvægasta hráefnið í matvælaframleiðslu“ (ræðumaður frá Coca-Cola. Greinilega ekki vonum seinna að halda þennan fund.

 

Mánudagur 15.01.2018 - 19:38 - Ummæli ()

Vatn

Sá hlær best sem síðast hlær.

Sumir eru einfaldlega framsýnni en aðrir.

 

Mánudagur 15.01.2018 - 13:09 - Ummæli ()

Gamli Þjóðviljinn og Njálsgata/Gunnarsbraut

Þegar ég var að alast upp sem blaðalesandi var Þjóðviljinn ágætt blað, hafði meðal annara á að skipa frábærum blaðamönnum eins og Guðjóni Friðrikssyni, Ingólfi Margeirssyni – að ógleymdum Árna Bergmann. Sunnudagsblaðið var rómað fyrir greinar, viðtöl og uppsetningu. Ég er of ungur til að hafa lesið greinarnar sem Magnús Kjartansson skrifaði undir heitinu Austri, þær þóttu gríðarlega hvassar og óvægnar á sínum tíma. Seinna las ég úrval af þeim á bók og komst að þeirri niðurstöðu að gæði þeirra hefðu verið ofmetin. Svona pólitískt efni eldist oft ekki vel.

Á vefnum Gamlar ljósmyndir birtist þessi mynd af húsi Þjóðviljans sem stóð á horni Skólavörðustígs og Klapparstígs. Myndin er tekin innan úr Njálsgötunni. Við sjáum að þarna er strætóstöð, þarna ók um hin fræga leið Njálsgata-Gunnarsbraut. Mér er í barnsminni að hafa ferðast með henni, en leiðakerfinu var breytt um 1970.

 

 

Myndin er líklega tekin á sjöunda áratugnum. Við sjáum að þetta er reisulegt hús með háu þaki og kvistum. Húsinu var síðar breytt, það er ekki sjón að sjá núorðið – ferkantað og með ljótri klæðningu. Þjóðviljinn var líka með prentsmiðju í húsinu – en svo tóku öll blöðin sig til, nema Morgunblaðið, stofnuðu eina prentsmiðju sem hafði aðsetur í Síðumúla og þangað fluttu Tíminn, Alþýðublaðið, Þjóðviljinn og Vísir. Gatan var fyrir vikið kölluð Blaðsíðumúli. Þar starfaði ég fyrstu ár mín í blaðamennsku – það var heldur tilkomulítið umhverfi.

Þessi blöð áttu í sífelldum fjárkröggum. Að nokkru leyti nutu þau fjárframlaga sem komu frá ríkinu í gegnum stjórnmálaflokkana sem ráku þau. Þjóðviljinn hélt úti frægu happdrætti og kepptust sósíalistar við að selja miðana til að halda málstaðnum á lofti.

 

 

Svo voru sögusagnir um styrki sem kæmu austan að, frá kommúnistalöndum. Sá Þjóðvilji sem ég man eftir var að mestu laus við þjónkunina við Sovétríkin.  Eftir Ungó 1956 og Tékkó 1968 var fokið í flest skjól með það. En á sínum tíma var ekkert gefið eftir í stalínismanum á Þjóðviljanum, eins og sjá má á þessum leiðara, með sérstökum sorgarborða, sem birtist við andlát Stalíns 7. mars 1953 – skrifað af klökkum hug og djúpri virðingu fyrir einhverri „stórbrotnustu ævi, sem lifað hefur verið“.

 

Sunnudagur 14.01.2018 - 23:25 - Ummæli ()

Trump er óhæfur forseti – en efnahagurinn blómstrar

Í leiðara í The Economist segir að Donald Trump hafi ekki valdið jafn miklum usla í viðskipta- og efnahagslífi og hefði mátt halda af ýmsum yfirlýsingum hans fyrir kosningar. Nú er liðið ár frá því að hann tók við völdum. Trump njóti þess að nokkru leyti að efnahagsástand í heiminum er gott um þessar mundir. Í Bandaríkjunum er hlutabréfamarkaður í hæstu hæðum, hagvöxtur er um 3 prósent og atvinnuleysi komið niður í 4,1 prósent. Laun hafa líka farið hækkandi, segir blaðið.

Þetta er ekki sérstaklega Trump að þakka, en hann hefur ekki skemmt fyrir eins og hefði getað gerst ef hann hefði staðið við fyrirheit sín í kosningunum. Hann hefur ekki lagt tolla á vörur frá Kína og Mexíkó eins og hann hótaði, hann hefur ekki dregið Bandaríkin út úr NAFTA-fríverslunarsamningnum. Hann hefur semsagt ekki lagt út í viðskiptastríðin sem hann boðaði og skattabreytingar hans eru ekki af þeirri stærðargráðu sem hann hafði á prjónunum, þótt tímasetning þeirra á þensluskeiði sé ekki góð.

Efnahagshorfurnar fyrir 2018 eru góðar, segir The Economist, ef Trump heldur áfram á þeirri braut að standa ekki við stóru orðin. Ef það breytist geti hann gert heilmikinn skaða. Trump sé tækifærissinni sem hafi hvorki dómgreind né skapgerð til að leiða stóra þjóð eins og Bandaríkin. Forsetatíð hans skaði þau. Fólk geti ekki haft augun af sápuóperunni sem fer fram í Hvíta húsinu á hverjum degi og öllum tvítunum sem þaðan berast. Það sé ekki auðvelt að sjúkdómsgreina forsetann úr fjarska, sé hann galinn, þá er hann varla galnari en hann var þegar hann sigraði Hillary Clinton. Það sé hrein óskhyggja, og jafnvel háskalegt, að fjarlægja forsetann með því að grípa til 25tu greinar stjórnarskrárinnar.

 

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is