Mánudagur 24.11.2014 - 08:19 - Ummæli ()

Væntingastjórnun

Það sem kallast væntingastjórnun getur verið afar lýjandi – og er í raun eitt af því sem fær mann til að missa trú á stjórnmálum. Hún er ein tegundin af pólítískum spuna og er mikið notuð.

Nú er skýrt frá því að rætt sé um að matarskatturinn verði 11 prósent en ekki 12 prósent.

Katrín Jakobsdóttir bendir á að þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt hafi virðisaukaskattsþrepið verið 11 prósent en í glærukynningu hafi það verið 12 prósent.

Katrín segir á Facebook í morgun:

Dagurinn minn byrjaði á frétt um að rætt væri um 11% matarskatt. Þá rifjaðist upp fyrir mér að í september sagði ég þetta í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra:

„Hver veit nema ástæða þess að virðisaukaskattsþrepið er 12% í glærukynningu hæstv. ráðherra en 11% í frumvarpinu sjálfu sé sú að búið sé að ákveða málamiðlunina milli stjórnarflokkanna og semja leikritið sem á að leika fyrir forviða Íslendinga fram í nóvember. Ég bíð spennt.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lýsti því yfir um helgina að miklu meira fé myndi fást í heilbrigðismál, menntamál og ýmislegt fleira en áætlað hafði verið í fjárlögum. Eins og áður hefur verið sagt á þessari síðu er það sankallað gleðiefni.

En stafar þetta af breyttum forsendum eða spilar væntingastjórnun þarna inn í?

Sunnudagur 23.11.2014 - 22:50 - Ummæli ()

Dýrmæt gömul plata

Ég rakst á þessa mynd af plötu sem ég átti þegar ég var lítill strákur og hlustaði oft á. Kannski fyrstu kynni mín af klassískri músík – ásamt Árstíðum Vivaldis með ítalska kammerhópnum I Musici sem var líka til heima.

Þetta er Pétur og úlfurinn eftir Prokofieff. Leikinn inn á plötu 1956 af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Dr. Václavs Smetácek. Helga Valtýsdóttir segir söguna, ég held að systir hennar Hulda hafi þýtt. Þær voru þá með barnatíma í útvarpinu.

Það var Fálkinn sem gaf út plötuna sem naut mikilla vinsælda. Hún var tíu tommur að stærð – semsagt nokkuð minni en venjuleg lp-plata.

Á hulstrinu má sjá merki Sinfóníunnar frá þessum tíma – það sést ekki núorðið. Mér sýnist þetta vera fiðla og óbó innan í hring, en í ytri hringnum er nafn hljómsveitarinnar.

Umslag plötunnar er sérlega fallegt. Það væri gaman að vita hver listamaðurinn er.

 

10686836_10204035360941546_5309197242891946693_n

Sunnudagur 23.11.2014 - 21:37 - Ummæli ()

Hörkumynd um samfélagsmein

Kvikmyndin Nightcrawler er merkileg fyrir ýmissa hluta sakir.

Jake Gyllenhaal leikur þarna einhver mesta sósíópata sem maður hefur lengi séð í bíó.

Þarna er fjallað á mjög ágengan hátt um hvernig fréttir – ekki síðst fréttir í sjónvarpi – gera ótta og öryggisleysi að söluvöru, hvað fjölmiðlar eru til í að teygja sig langt í þeim sensasjónalismanum til að fá meira áhorf.

Myndin gerist í kringum svæðisfréttastöðvar í Los Angeles sem draga upp hræðilega mynd af heimi glæpa og ófriðar – á sama tíma og glæpum í borginni fækkar.

Þarna er líka fjallað um erfiðleika ungs fólks við að fá vinnu og réttindaleysi þess, hvernig er hægt að fá það til að vinna óþverrastörf, fyrir lítið sem ekkert kaup, í voninni um að komast einhvers staðar að. Siðleysingjum er í lófa lagið að notfæra sér slíkt umkomuleysi – og það á ekki bara við um mann eins og Lou Bloom, sem Gyllenhaal leikur, heldur líka stórfyrirtæki eins og til dæmis WalMart og McDonalds.

Þetta er hörkumynd.

 

url-1

Sunnudagur 23.11.2014 - 14:59 - Ummæli ()

Hin alltumlykjandi umræða

Ég hef verið að fletta blöðum úr kalda stríðinu. Umræðan nú er eins og pís of keik miðað við það sem þá var.

Menn voru einatt kallaðir landráðamenn, geðsjúklingar eða skríll. Stóru orðin voru ekki spöruð.

En umræðan er auðvitað ekki eins alltumlykjandi og þá. Nú höfum við internetið og samskiptamiðla þar sem birtast viðbrögð við því sem stjórnmálamenn segja og gera nær samstundis. Netið gleymir heldur ekki því sem þeir segja – það getur verið frekar óþægilegt.

Eitt sinn var Þjóðarsálin á Rás 2 hálftíma í viku. Nú er eins og hafi verið skrúfað frá þjóðarsálinni allan sólarhringinn.

Pólitíkusar kvarta undan óvæginni umræðu eftir hrun. En ég held að þetta hafi minnst með hrunið að gera. Þróunin á samskiptamiðlunum er alþjóðleg. Við erum ekki sér á báti hérna.

Veruleiki stjórnmálanna er dálítið annar vegna þessa. Þeir eru undir meiri smásjá, orð þeirra eru vegin og metin jafnóðum. Hroki og oflæti virkar mjög illa. Pólítíkusar mega samt ekki festast í að horfa inn í þennan heim, þá missa þeir sálarfriðinn.

Ég hef vitnað í þau orð Davíðs Oddssonar að ekki sé gott að liggja með eyrun of þétt að grasrótinni – þá kunna ormar að skríða upp í þau.

 

Laugardagur 22.11.2014 - 21:19 - Ummæli ()

Góðar fréttir – en það þarf líka að bæta kjörin

Það er frábært ef aflögu eru peningar, eftir langan niðurskurðartíma, til að bæta við í heilbrigðisþjónustuna og menntakerfið.

Þetta boðar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Hann nefnir líka landhelgisgæsluna – það er svo margt sem hefur setið á hakanum. Innviðir samfélagsins eru farnir að láta á sjá – einhvers staðar sá ég sagt að þeir væru farnir að „ryðga“.

Sé að verða til meira „svigrúm“ – orð sem Sigmundur er gjarn á að nota – gætum við kannski átt von á framfara- og lífskjarasókn í landinu.

Hin hliðin á peningnum eru nefnilega lífskjörin. Þeim hefur hrakað. Það er alltof margt fólk sem nær ekki endum saman. En það virðist varla mega ámálga kauphækkanir án þess að á móti komi hagræðingarkröfur. Slíkar kröfur fela yfirleitt í sér fleiri vinnustundir og færra starfsfólk. Skuldaniðurfellingin kemur ekki í staðinn fyrir launahækkanir. Nei, það þarf einfaldlega að hækka laun á Íslandi.

Sigmundur Davíð sagði sjálfur í fyrsta áramótaávarpi sínu að þyrfti að bæta kjör hinna lægstlaunuðu og rétta hlut millitekjuhópanna. Þetta er í raun einhver mikilvægasta yfirlýsing hans á ferlinum.

„Á nýja árinu og árunum sem á eftir fylgja þurfum við að auka kaupmátt Íslendinga jafnt og þétt. Það ætlum við að gera í sameiningu. Sérstaklega þarf að bæta áþreifanlega kjör þeirra lægstlaunuðu en þau eru miklu lakari en við getum talið ásættanlegt á Íslandi. En það þarf líka að rétta hlut millitekjuhópanna sem hafa tekið á sig miklar byrðar á undanförnum árum“.

 

b604f67a3a-380x230_o

 

Laugardagur 22.11.2014 - 19:00 - Ummæli ()

Veður á Íslandi og á Nýja-Íslandi

Vinur minn Nelson Gerrard á Eyrarbakka við Winnipegvatn setti þessar myndir inn á Facebook í gær. Nelson er safnvörðurinn merki sem fjallað var um í þriðja þætti Vesturfara.

Hér má sá mikið vetrarríki, vatnið hefur lagt en ísinn síðan borist undan sterkum vindi upp á vesturströndina þar sem Nelson býr.

Ég las í Lögberg/Heimskringlu um daginn að á Íslandi væri „indian summer“. Það er hugtak notað þegar koma óvænt löng hlýindi í byrjun vetrar.

Trausti Jónsson veðurfræðingur segir á bloggi sínu að hitamet fyrir árið kunni að falla í Reykjavík. Það gæti fellt metið frá árinu 2003 – Trausti getur þess að engir sérstakir kuldar séu framundan í kortunum.

 

10392325_862121527172295_6841345342153889141_n-1

 

10429289_862121287172319_3157186489309387829_n

Laugardagur 22.11.2014 - 13:16 - Ummæli ()

Lausnin

Í ljósi umræðunnar kemur manni í hug lítið kvæði sem Bertolt Brecht orti eftir uppreisnina í Austur-Berlín 1953. Þar er líka fjallað um þjóð sem brást ríkisstjórn sinni. Kvæðið heitir einfaldlega Lausnin, þýðingin er eftir Þorstein Þorsteinsson.

Eftir uppreisnina 17. júní
lét formaður Rithöfundasambandsins
dreifa flugritum í Stalinallee.
Á þeim gat að lesa að þjóðin
hefði fyrirgert trausti
ríkisstjórnarinnar
og gæti því aðeins endurheimt það
ef hún legði á sig tvöfalda vinnu.
En væri ekki nær að stjórnin
veitti þjóðinni lausn og
veldi sér aðra?

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is