Miðvikudagur 25.11.2015 - 20:43 - Ummæli ()

Að halda með Rússum en ekki Tyrkjum

Merkilegt er að fylgjast með viðbrögðunum við atburðunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Pútín Rússlandsforseti er orðinn feikilega vinsæll á Vesturlöndum, sérstaklega hjá þeim sem eru yst til vinstri og yst til hægri. Vinstrimennirnir fíla hann vegna þess að þeir telja að hann sé að sýna Bandaríkjunum tvo í heimana, það er alltaf vinsælt, en hægrimennirnir eru hrifnir af honum vegna þess að þeim finnst aðdáunarvert að hann sé að sprengja múslima. Rússum er meira að segja fyrirgefið þótt þeir hendi sprengjunum af fádæma ónákvæmni, ekki bara á ISIS, heldur líka á alls kyns aðra hópa sem berjast í Sýrlandi og auðvitað á óbreytta borgara.

Á sama tíma eru vinsældir Tyrkja mjög litlar. Andúð á Tyrkjum er svosem gamalgróin í Evrópu, en nú horfum við upp á Tyrkland sem vegur salt milli austurs og vesturs, þarf að gæta hagsmuna sinna báðum megin og gengur það ekki sérlega vel. Því þótt Tyrkland sé enn í Nató hefur Erdogan fært það lengra inn í hinn íslamska heim – fjær Evrópu. Það speglast meðal annars í miklu harðari afstöðu gegn Ísrael en áður, gríðarlegum viðskiptahagsmunum gagnvart olíuríkjum við Persaflóa og því að Erdogan náði að kveða í kútinn forystu tyrkneska hersins sem löngum stóð vörð um hinar veraldlegu hugsjónir Ataturks, föður nútíma Tyrklands, og greip inn í ef trúarvæðingin gekk of langt. Eitt af því sem Erdogan tókst að gera var að aftengja hættuna á því að herinn tæki völdin, eins og alltaf var möguleiki ef herforingjar töldu ríkja upplausnarástand eða ef hvarflað var frá hugmyndum Ataturks. Enn eru myndir af Ataturk alls staðar í Tyrklandi, en stundum virkar það eins og sýndarmennska, því stjórnvöld umgangast arfleifð hans eins og þeim hentar.

Á sama tíma er Tyrkland sjötti vinsælasti áfangastaður ferðamanna í heiminum, mikið af því eru ofurvenjulegir evrópskir borgarar í sólarlandaferðum. Fjöldi ferðamanna árlega nálgast 40 milljónir. Tyrkir hafa fjárfest gríðarlega í túrismanum, en nú er spurning hvort ferðamenn skynji slíka ógn að þeir kæri sig ekki um að fara til Tyrklands lengur.

Það væri mikið högg fyrir efnahagslíf Tyrklands sem hefur verið í ótrúlegum uppgangi nokkuð lengi. Þeir eru um margt líkir, Erdogan og Pútín – jú, þeir eru báðir frekar ógeðfelldir – en það má sá fyrrnefndi eiga að hann er miklu betri í efnahagsmálum.

Miðvikudagur 25.11.2015 - 18:25 - Ummæli ()

Minningargluggi um Kennedy í Lækjargötu 1963

Þessi ljósmynd kom upp úr kassa í tiltekt hér heima. Eins og greina má ef rýnt er í myndina er hún komin úr gleraugnaversluninni Fókus sem var í Lækjargötu í eina tíð. Sigurveig kona mín rak síðar veitingastað í sama húsi, það er sjálfsagt skýringin á því að myndin er hingað komin.

Myndin er augljóslega tekin 1963. Þarna hefur verið settur upp sérstakur minningargluggi um John F. Kennedy, hinn myrta Bandaríkjaforseta. Það eru blóm í glugganum, kerti, mynd af Kennedy, dökk tjöld, allt með miklum virðuleikablæ.

Sýnir hvílíkur harmdauði þessi stjórnmálamaður var heimsbyggðinni, en þess má líka geta að eigendur búðarinnar voru Frank Cassata og kona hans Áslaug Kjartansdóttir. Frank Cassata var Bandaríkjamaður af ítölskum ættum sem kom til Íslands með Bandaríkjaher í heimsstyrjöldinni en settist síðar að hér.

 

IMG_6928

Þriðjudagur 24.11.2015 - 23:18 - Ummæli ()

Löng saga styrjalda milli Tyrkja og Rússa

Rússar og Tyrkir eru gömul óvinaveldi. Þau hafa reyndar ekki átt í stríði síðan á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar Tyrkir börðust með Þjóðverjum. En þegar Nató var stofnað var lykilatriði að Tyrkir yrðu með, enda eru þeir í strategískri stöðu við Bosporussund, en þar er eina siglingaleið Rússa út í Miðjarðarhafið.

Rússar og Tyrkir kepptu lengi um völd á Balkanskaga. Þar veittu Rússar þjóðum sem stundum áttu reyndar líka í innbyrðis stríði – Grikkjum, Búlgörum og Serbum. Það eimir eftir af þessu, Grikkir, sem líta á Tyrki sem helsta óvin sinn, eru samkvæmt hefð hliðhollir Rússum. Og í hinu hryllilega stríði í gömlu Júgóslavíu undir lok síðustu aldar voru Rússar helstu bandamenn Serba.

Í Kákasus og við suðurlandamæri Rússlands hafa líka verið dregnar línur milli Rússa og Tyrkja. Rússar hafa þar löngum verið í óða önn að berja niður múslima – nú síðast í hinu hryllilega blóðbaði í Tsétséníu, stríði sem var ekki síður grimmilegt en það sem er nú háð í Sýrlandi. Á móti herjuðu Tyrkir á kristna menn eins og í fjöldamorðunum á Armenum á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þá voru Armenar meðal annars hraktir út í sýrlensku eyðimörkina þar sem þeir dóu unnvörpum, á svæði þar sem nú er barist í öðru stríði.

Styrjaldirnar milli Rússa og Tyrkja eru fjölmargar í sögubókum. Rússar sigruðu í flestum stríðunum á 19. öld, þá voru þeir rísandi heimsveldi meðan veldi Ottómana í Tyrklandi og Arabíu var á löngu hnigunarskeiði. Í frægustu styrjöldinni, Krímsstríðinu svokölluðu 1853-1856, skárust Vesturveldi í leikinn til að stöðva framrás Rússa – Bretar, Frakkar og Ítalir töldu sér í hag að viðhalda Ottómanríkinu.

Það er vert að rifja þetta upp nú þegar rússnesk orrustuþota er skotin niður af Tyrkjum. Hagsmunir Rússa og Tyrkja skarast víða. Og það er dálítið kaldhæðnislegt að Pútín Rússlandsforseti og Edrogan, leiðtogi Tyrklands til margra ára, eru að vissu leyti samhverfur. Þeir eru báðir spilltir af langri valdasetu, einráðir, þola ekki gagnrýni, hafa jafnt og þétt verið að herða tökin gagnvart andstæðingum sínum. Báðir gangast þeir upp í að stunda flókið valdatafl, en þeir eru líka báðir praktískir menn á sinn hátt – hugsa fyrst og fremst um að tryggja valdahagsmuni sína og klíkubræðra sinna. Lykillinn að Pútín er að gleyma ekki að hann er KGB maður og hefur í raun aldrei sagt skilið við þau samtök.

Að því sögðu er varla hægt að segja að mikil hætta sé á ferðum. Rússar iðka ögranir víða á alþjóðavettvangi (rússneskar sprengjuflugvélar flugu inn í íslenska lofthelgi fyrr á þessu ári og það virðist alveg ljóst að vélin sem var skotin niður í gær fór inn í tyrkneska lofthelgi, hvort sem það var af slysni eða ásettu ráði) – þetta er leikrit sem er leikið með sorglega hnignun rússneska ríkisins að bakgrunni, efnahagurinn hefur versnað mikið og kjörum almenning hrakar. Pútín talar mjög digurbarkalega, hann er bandamaður Assads, sem er einn af höfuðóvinum Tyrkja. Tyrkneska stjórnin leikur tveimur skjöldum gagnvart ISIS (þar spilar ekki síst inn í baráttan milli súnní og shía múslima), en það verður sífellt meira áberandi hvernig erlend ríki eru að beita sér í borgarastríðinu í Sýrlandi, hvert með sitt markmið sem tengist ekki alltaf því að koma á friði. Það er ærið verkefni fyrir alþjóðasamfélaginu að vinda ofan af svona fjarstýrðum (proxy) átökum, sem voru eitt helsta einkenni kalda stríðsins. Stórveldin börðust ekki sjálf sín á milli, þau létu aðra gera það í einhverjum fjarlægum deildum jarðar.

En það er margt í húfi fyrir Tyrki og Rússa, ekki bara siglingar um Bosporus sem eru lífsnauðsynlegar fyrir Rússa, heldur líka mikil viðskipti milli ríkjanna, gagnkvæmar fjárfestingar, inn- og útflutningur, og ferðamennska. Rússar hafa verið næst stærsti hópurinn sem sækir Tyrkland heim sem ferðamenn á eftir Þjóðverjum, þótt hlutur þeirra hafi aðeins minnkað vegna efnahagskreppunnar í Rússlandi. Rússneskir auðmenn hafa líka fjárfest mikið í ferðamennskunni í Tyrklandi og Rússar hafa verið að reyna að fá Tyrki til að fjárfesta á Krímskaga – sem er ákveðnum vandkvæðum bundið vegna Úkraínudeilunnar.

 

The_defeat_of_Shipka_Peak,_Bulgarian_War_of_Independence

Málverk sem lýsir einni af ótal orrustum Rússa og Tyrkja. Þetta er úr einu af stríðunum á Balkanskaga.

Þriðjudagur 24.11.2015 - 12:41 - Ummæli ()

Hinir ömurlegu Svíþjóðardemókratar – rasistar í jakkafötum

Svíþjóðardemókratar eru flokkur sem fæddist af Ný-nasistum. Vel greiddir, í jakkafötum með bindi, konurnar í fallegum kjólum. Þeir eru nú þriðji stærsti flokkur Svíþjóðar.

Hugmyndirnar eru grautur, þau segjast vera „elíta“, eru í jakkafötunum til að ímynd þeirra sé „góð“, tala um „skítuga Rúmena“ og svo þegar er gengið á þau koma þau með einhver rök um að verði alls konar matur í skólaeldhúsum. Svo eru þau eins og þorpsbúar, hafa ekki komið til útlanda og segjast ekki vilja það.

Þessi umfjöllun er úr Guardian frá því fyrir fáum dögum.

Þriðjudagur 24.11.2015 - 08:20 - Ummæli ()

Andri Snær: Skásti heimur allra heima

Ég hef mörgum sinnum undanfarin ár bent á að við lifum í raun á afskaplega góðum tímum þegar ríkir meiri friður á jörðinni en löngum áður og velmegun breiðist út. Ég hef orðið var við að sumu fólki finnst þetta alveg fáránlegt, í fjölmiðlaveruleikanum er alltaf allt að fara til andskotans og svo magnast tilfinning óöryggis og óvissu upp í gegnum samskiptamiðlana. Þetta er veruleiki sem sænski fræðimaðurinn Hans Rosling hefur lýst ágætlega, og líka Harvardprófessorinn Stephen Pinker.

En við höfum dæmi í sögunni um að friður hafi spillst á skömmum tíma. 1914 var velmegunar-, menningar- og framfaraskeið í Evrópu, það var í raun engin ástæða til að fara í stríð en samt töluðu menn sig út í stríðsátök með furðulegum hætti, stríðsæsingar mögnuðust með hætti sem maður á nú mjög erfitt með að skilja – í algjöru tilgangsleysi.

Er hætta á því að eitthvað svipað gæti gerst aftur,  að meðfram því sem magnast ótti  – sem blæs upp langt umfram það sem tilefni er til – og með uppgangi öfgaafla, spillum við friðnum og þrengjum að frelsinu?

Það er heldur ekki alveg víst, mitt í þeim útbreidda pólitíska leiða sem ríkir um þessar mundir, að menn átti sig nógu vel á því að hugsjónirnar sem hin opnu lýðræðissamfélög Evrópu byggja á eru þess virði að verja þær. Þær ættu að vera okkar ær og kýr.

Andri Snær Magnason rithöfundur setti þessa hugleiðingu á Facebook í gærkvöldi:

Bara ein spurning. Hvenær hefur Evrópa verið skárri en hún er núna? Var það 1914 – 1918? Eða voru það kreppuárin? Nei varla og ekki stríðsárin og ekki 40 árin eftir stríð þegar öll austurblokkin var í járnum. Og austurblokkin opnaðist ekki fyrr en kringum 1990 og það hefur tekið hana nokkur ár að jafna sig.

Á þessum tíma hef ég eignast vini í hverju einasta Evrópulandi frá löndum sem mig grunaði ekki að ég ætti eftir að heimsækja þegar ég var lítill. Á þessum tíma hefur maður farið til Póllands og Eistlands og Litháen án þess að geltandi Schefferhundar bíði manns við hver landamæri og innanbæjarlest tekur mann frá Malmö til Kaupmannahafnar á tíu mínútum.

Já hvenær er gullöld Evrópu? Var það fyrir fimm árum? Eða kannski núna? Það loga eldar og fólk flýr – 99.99% gott og fallegt fólk, sem flýr fjandans hernaðarvélina. Og ég skil strákana vegna þess að hetjur flýja stríð. Það er slæmt að vera kona og barn í stríði – en miklu verra að vera karlmaður.

Og ég held að það sé hægt að endurbyggja Sýrland á styttri tíma en fátækar ekkjur endurbyggðu Varsjá. Er það hægt? Já – það er hægt – Evrópa sannar það. Hún sannar að andstæðar fylkingar geta hreinlega opnað landamærin. Það er barnaskapur að sakna Evrópu þar sem hver og ein þjóð skellir í lás og ,,stendur í lappirnar“. Eru gallar? Já alveg hundraðþúsund gallar. Milljón hlutir sem þarf að laga – ekki síst umhverfismálin. En hvað sem öllu líður – þá er þetta líklega skásti heimur allra heima og það er hægt að gera hann betri.

Mánudagur 23.11.2015 - 15:52 - Ummæli ()

Sagan endaði ekki – brostnar vonir upplýsingabyltingarinnar

Ein af hinum ofurbjartsýnu hugmyndum áranna eftir að kommúnisminn féll var að tæknin myndi ryðja burt öllum hindrunum á vegi lýðræðisins, að einræði og kúgun myndu ekki standast allar upplýsingarnar sem flæddu um heiminn í gegnum tölvur og sjónvarpsskjái.

Við áttum að upplifa endalok sögunnar, fullnaðarsigur lýðræðis- og markaðsbúskapar, eins og einn fræðingurinn hélt fram. Þetta var tíminn þegar fréttastöðvar sem sendu út allan sólarhringinn litu dagsins ljós – og svo internetið nokkru síðar.

Þetta hefur farið mjög á annan veg. Upplýsingabyltingin hefur í raun upplýst voða lítið.

Harðstjórar, einræðis- og kúgunaröfl hafa líka lært á hana. Áróður er ísmeygilegri en áður, það hefur aldrei verið jafn erfitt fyrir almenning að sjá í gegnum hann.

En á samskiptamiðlum er enginn að reyna að fræðast um neitt eða komast nær sannleika eða staðreyndum, heldur ota menn fram sinni fullvissu. Það skiptir aldrei neinn um skoðun á Facebook. Flóð túlkana og skoðana er linnulaust – að maður tali ekki um samsæriskenningar, ranghugmyndir og margvíslegar útgáfur af heimsendaspám – á Facebook er þetta allt jafngilt og um leið ágerist sú tilfinning að allt sé að fara til andskotans í heiminum, þótt við lifum í raun á góðum tímum eins og Hans Rosling segir hér að neðan.

En umræðan í fjölmiðlum og á netinu heldur áfram að fóðra óttann og svo nærir hann sjálfan sig – í þessum flaumi er sífellt erfiðara að koma auga á hvað eru staðreyndir, hvað er sannleikur og hvert er hið stóra samhengi. Atburðir síðustu vikna hafa verið glöggt dæmi um þetta.

 

 

 

Mánudagur 23.11.2015 - 09:56 - Ummæli ()

Hreinræktað feðraveldi

Vinur minn á Spáni benti mér á þessar myndir – þær eru komnar af spænskum femínistavef. Segir að þarna séu dæmi um hreinræktað feðraveldi.

Á fyrri myndinni er ráðstefna í Saudi-Arabíu um konur. En það er enga konu að sjá.

12141679_512431628924117_8386884774404372420_n

Á seinni myndinni er biskupaþing kaþólsku kirkjunnar um málefni fjölskyldunnar. En það er ekkert fjölskyldufólk að sjá. (Hér má lesa að íhaldsöflin hafi haft betur á ráðstefnunni, kemur kannski engum á óvart.)

11254141_512431722257441_4184655229450330789_n

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is