Föstudagur 24.10.2014 - 21:08 - Ummæli ()

Almannatengsl 101 – lögreglan í búsáhaldabyltingunni

Umræðan um vélbyssuvæðingu lögreglunnar heldur áfram að vera á furðulegum nótum. Ráðamenn halda áfram að svara í einhvers konar hálfkæringi, eins og þetta sé nú ekkert mál.

Staðreyndin er hins vegar sú að margt fólk upplifir þetta öðruvísi. Því finnst þetta vera grundvallarmál í okkar fámenna og friðsama landi þar sem vopnum er afar sjaldan beitt gegn fólki.

Það er spurning hvort þyrfti að setja ráðamenn einfaldlega á námskeið í almannatengslafræðum, barasta í almannatengsl 101, kenna þeim að vera ekki að tjá sig um svona mál að Facebook, að bíða aðeins með svör þangað til þeir finna hjá sér rósemd hugans, að reyna að svara hreinskilnislega – og framar öllu að tala eins og þeir skilji áhyggjurnar, skilji umbjóðendur sína, vilji koma til móts við það. Líka þá sem eru ekki endilega í sama flokki.

Á ensku mundi það heita að virka concerned.

Annars er víðar verið að ræða lögreglumál. Það er búið að birta skýrslu um framgöngu lögreglunnar í búsáhaldabyltingunni. Að flestu leyti stóð lögreglan sig með prýði þessa erfiðu daga. Tókst að halda valdbeitingu í lágmarki. Einnig má finna í Skemmunni meistararitgerð Huldu Maríu Mikaelsdóttur þar sem má lesa um aðgerðir lögreglunnar í búsáhaldabyltingunni. Eitt af þvi sem má ráða af ritgerðinni er hvílíkur afburða löggæslumaður Stefán Eiríksson er.

Í úrdrætti úr ritgerðinni stendur:

Það skipulag sem fylgt var í meginatriðum frá upphafi, þ.e. að vinna verkefni lögreglu með lágstemmdum og yfirveguðum hætti, var líkt og rauður þráður í gegnum aðgerðir lögreglu á tímabilinu. Leitast var við eftir fremsta megni að lögregla skapaði ekki verra ástand á vettvangi aðgerða en það sem hún var komin til að leysa úr.

Föstudagur 24.10.2014 - 12:05 - Ummæli ()

Alvarleg bilun í vélarrúmi kapítalismans

Í nýju hefti Der Spiegel er fjallað um það hvernig kapítalisminn hefur farið af hjörunum. Við lifum tíma þegar kapítalistar eru í raun verstu óvinir kapítalismans.

Einn helsti vandi kapítalismans í dag – og sumum þeim sem mest auðgast er kannski skítsama um þetta – er að auðurinn er ekki að dreifast um hin ýmsu lög samfélagsins. Spiegel segir að meira að segja sé farið að ræða þetta á fundum auðmanna í Davos og í höfuðstöðvum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Þetta eru aðrir tímar en var eftir hrun Berlínarmúrsins þegar hraðlest kapítalismans virtist óstöðvandi og Francis Fukuyama spáði „endalokum sögunnar“. Nú lifum við tíma mikillar óvissu þar sem vantraust á stjórnmál er útbreitt og grunsemdir um að við lifum í raun við auðræði – eða í „eins prósents samfélaginu“ eins og er líka farið að kalla það.

Stöðnun blasir við í efnahag Vesturlanda. Seðlabankar hafa ekki meira fé til að örva hagkerfin – alls staðar blasa við skuldafjöll. En á sama tíma hækkar húsnæðisverð og verð á hlutabréfamörkuðum – semsagt á sviðum þar sem er stunduð spákaupmennska. Kannski getur það ekki endað með öðru en nýju hruni.

En þeir sem eiga fjármagn verða ríkari, þeir sem geta látið peningana vinna fyrir sig, auðurinn safnast á færri hendur. En sjálf framleiðslan er ekkert að aukast, laun lækka eða standa í stað, hefðbundið sparifé gefur ekkert af sér.

Der Spiegel segir að þetta sé til marks um alvarlega bilun í vélarrúmi kapítalismans. Bankar og fjárfestingafélög tryggðu hér áður fyrr að sparifé væri breytt í tækninýjungar, vöxt og ný störf. Í dag gegna þau því hlutverki að færa fjármagn frá neðri lögum samfélagsins upp í þau efstu.

Þetta er eins og að búa í blokk þar sem þakíbúðin verður sífellt stærri, á neðstu hæðunum er alltof margt fólk og mikil þrengsli, en miðhæðirnar eru tómar og lyftan virkar ekki lengur.

Lýðræðið er líka í kreppu vegna þessa. Er ríkjum stjórnað af þjóðþingum og ríkisstjórnum – eða er það peningavaldið sem hefur síðasta orðið. Bankarnir geta í raun hegðað sér eins og sjálfmorðssprengjumenn. Sé hagur þeirra ekki í fyrrirúmi og þeim bjargað, þá býr undir hótunin um að draga allt kerfið niður með sér.

Hinn þekkti fjármálablaðamaður á Financial Times, Martin Wolf, kallar þetta ofurvald fjármálamarkaðanna „samning við djöfullinn“. Meira að segja sannfærðum markaðshyggjumönnum er illa brugðið.

image-765069-thumbflex-cqsi

Föstudagur 24.10.2014 - 09:49 - Ummæli ()

Dæmi um litla stjórnvisku

Sérkennilegt er það stóra byssumálið sem gaus upp í þessari viku.

Þarna er ljóslifandi dæmi um hvernig mál, sem þarf í sjálfu sér ekki að vera svo stórt, blæs upp vegna þess að stjórnsýslan gerir hverja vitleysuna á fætur annarri.

Þegar DV birtir fréttina um lögregluna og byssurnar vill enginn eða getur enginn gefið skýr svör. Mótsagnirnar verða himinhrópandi – tilfinningin fyrir því að þarna sé á ferðinni leynimakk ágerist.

Sumir ráðamenn tjá sig með hótfyndni þegar miklu nær hefði verið að segja einfaldlega að málið verði athugað, engu verði leynt – það verði lögð fram skýrsla um málið á Alþingi.

Þingmaður úr stjórnarliðinu stígur fram með furðulegan málflutning þar sem hann segir meðal annars:

Af hverju sagði ríkislögreglustjóri já við þessu? Af því að hann er með Glock skammbyssur útum allt. Og það er erfiðara að miða, þú ert kannski að fara inn í skóla þar sem er attack, og þá viltu hitta réttan mann.

Þingmaðurinn, sem áður starfaði í lögreglunni, notar meira að segja gælunafn um byssutegundina – kallar hana „Glockinn“.

Yfirlögregluþjónn kemur í viðtal og talar um Gúttóslaginn 1932. Tengingin er óljós en manni finnst helst að maðurinn sé að segja að þá hefði verið betra ef lögreglan hefði getað beitt byssum á verkafólk.

Nú kemur fyrrverandi dómsmálaráðherra með furðulega samsæriskenningu um að tilgangurinn með birtingu fréttarinnar hafi verið að kanna „styrk og veikleika Íslands“.

Þingmenn fimbulfamba um hinar miklu ógnir sem við eigum að standa frammi fyrir – þegar staðreyndin er sú að glæpatíðni fer lækkandi.

Eins og segir, þetta hefði aldrei þurft að verða svona mikið mál ef hefði verið svarað af stillingu og hreinskilni í upphafi, reynt að lægja öldur fremur en að kasta olíu á eldinn með vanhugsuðum yfirlýsingum. Þetta er eiginlega skólabókardæmi um hvernig á ekki að bregðast við – dæmi um litla stjórnvisku.

Föstudagur 24.10.2014 - 08:21 - Ummæli ()

Vesturfarar, síðasti þáttur – Kyrrahafsströndin

Síðasti þáttur Vesturfara er á dagskrá Rúv á sunnudagskvöldið.

Í þessum þætti förum við vestur á strönd Kyrrahafsins og fræðumst um Íslendingabyggðir þar.

Við förum til fjölþjóðaborgarinnar Vancouver, til Victoria sem er á Vancouvereyju, og til Point Roberts, en það er skagi sem tilheyrir Bandaríkjunum þótt hann sé landluktur inni í Kanada. Þar er merkileg byggð Íslendinga sem hófst í upphafi 20. aldar.

Margt merkilegt fólk kemur við sögu eins og stjórnmálamaðurinn Boss Johnson, prófessor Ríkharður Beck, flugkappinn og Ólympíuverðlaunahafinn Frank Fredrickson og landar sem voru svo þakklátir Teddy Roosevelt Bandaríkjaforseta að þeir sendu honum sauðargæru að gjöf.

egill ferja 2

 

Fimmtudagur 23.10.2014 - 17:41 - Ummæli ()

Ýmsir möguleikar – ef við leyfum ekki öllu að fara í háaloft

Flugbraut í Reykjavík sem löngu var búið að ákveða að yrði aflögð, fór allt í einu að heita Neyðarbraut með stóru N-i  – einungis í áróðursskyni.

Við horfum upp á það hvernig innanlandsflugið er að veslast upp á sama tíma og ferðamönnum fjölgar stöðugt.

Verðið á farmiðum er hryllilega dýrt.

Það er eitthvað í ólagi þarna, en það virðist ekki vera hægt að gera neinar málamiðlanir varðandi flugið. Það er allt eða ekkert.

Ég sé fyrir mér minnkaðan Reykjavíkurflugvöll þar sem lenda innanlandsvélar sem þurfa æ styttri flugbrautir. Ekki stórar þotur, ekki einkaþotur, ekki æfinga- og kennsluflugvélar og ekki flugvélar sem eru að fara á milli Íslands, Færeyja og Grænlands. Flugbrautir mætti líka færa aðeins lengra út í Skerjafjörð.

Að einhver hluti innanlandsflugsins færist til Keflavíkur og þannig myndist tenging milli alþjóðaflugs og innanlandsflugs. Það held ég að sé óhjákvæmilegt ef innanlandsfluginu á ekki að hnigna enn meira.

Það er líka möguleiki að leggja flugvöll í grennd Reykjavíkur. Hann þarf ekki að vera næstum því jafn stór og Reykjavíkurflugvöllur, enda myndi þar einungis vera innanlandsflug og umferð minni flugvéla.

Það eru semsagt ýmsir möguleikar – en þetta er eitt af þeim málum sem erfitt er að ræða án þess að allt fari í háaloft. Í bókstaflegri merkingu.

Fimmtudagur 23.10.2014 - 10:02 - Ummæli ()

Mikil andstaða við sölu áfengis í matvörubúðum

Það er alveg ljóst að það er býsna fámennur hópur sem brennur í andanum vegna sölu áfengis í matvöruverslunum.

Skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag sýnir að tveir þriðjuhlutar aðspurðra eru á móti því að svo verði.

En eins og segir, þetta er ekki mjög ofarlega í huga fólks – ólíkt til dæmis heilbrigði-, mennta- og atvinnumálum – og vegna þess að málið er fremur lágt á forgangslista er ekki ósennilegt að talsverðar sveiflur geti verið í afstöðu til þess.

Líkt og áður hefur verið bent á hér er ekki útilokað að meirihluti sé fyrir því á Alþingi að leyfa sölu víns í matarbúðum.

Það er hins vegar spurning hvort ríkisstjórnin kærir sig um að hleypa málinu alla leið í gegnum þingið – sérstaklega í ljósi þessarar niðurstöðu. En kannski er allt í lagi að láta fólk hafa eitthvað annað til að deila um en heilbrigðiskerfið og skuldamál?

AR-710239925

Svona lítur þetta út hjá Fréttablaðinu.

Fimmtudagur 23.10.2014 - 09:51 - Ummæli ()

Líka á Íslandi

Í gær birtist hér pistill um hvernig glæpatíðni hefur farið lækkandi á Vesturlöndum.

Þessi þróun er semsagt alþjóðleg, sömu sögu er að segja frá Íslandi.

Í fyrra birtust þessar tölur í frétt Ríkisútvarpsins.

logreglan01

Umferðarslysum hafði fjölgað, en glæpum hafði fækkað.

Í pistlinum í gær var vitnað í úttekt tímaritsins Economist. Þar var hvatt til þess að löggæsla yrði í auknum mæli fyrirbyggjandi og að kraftar sem spöruðust við fækkun „hefðbundinna“ glæpa yrðu notaðir til að berjast gegn efnahagsbrotum, skattsvikum og glæpastarfsemi sem á internetinu.

Þar er nefnilega vöxtur.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is