Fimmtudagur 23.10.2014 - 10:02 - Ummæli ()

Mikil andstaða við sölu áfengis í matvörubúðum

Það er alveg ljóst að það er býsna fámennur hópur sem brennur í andanum vegna sölu áfengis í matvöruverslunum.

Skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag sýnir að tveir þriðjuhlutar aðspurðra eru á móti því að svo verði.

En eins og segir, þetta er ekki mjög ofarlega í huga fólks – ólíkt til dæmis heilbrigði-, mennta- og atvinnumálum – og vegna þess að málið er fremur lágt á forgangslista er ekki ósennilegt að talsverðar sveiflur geti verið í afstöðu til þess.

Líkt og áður hefur verið bent á hér er ekki útilokað að meirihluti sé fyrir því á Alþingi að leyfa sölu víns í matarbúðum.

Það er hins vegar spurning hvort ríkisstjórnin kærir sig um að hleypa málinu alla leið í gegnum þingið – sérstaklega í ljósi þessarar niðurstöðu. En kannski er allt í lagi að láta fólk hafa eitthvað annað til að deila um en heilbrigðiskerfið og skuldamál?

AR-710239925

Svona lítur þetta út hjá Fréttablaðinu.

Fimmtudagur 23.10.2014 - 09:51 - Ummæli ()

Líka á Íslandi

Í gær birtist hér pistill um hvernig glæpatíðni hefur farið lækkandi á Vesturlöndum.

Þessi þróun er semsagt alþjóðleg, sömu sögu er að segja frá Íslandi.

Í fyrra birtust þessar tölur í frétt Ríkisútvarpsins.

logreglan01

Umferðarslysum hafði fjölgað, en glæpum hafði fækkað.

Í pistlinum í gær var vitnað í úttekt tímaritsins Economist. Þar var hvatt til þess að löggæsla yrði í auknum mæli fyrirbyggjandi og að kraftar sem spöruðust við fækkun „hefðbundinna“ glæpa yrðu notaðir til að berjast gegn efnahagsbrotum, skattsvikum og glæpastarfsemi sem á internetinu.

Þar er nefnilega vöxtur.

 

Fimmtudagur 23.10.2014 - 00:38 - Ummæli ()

Öfug áhrif Farages – tryggir hann veru Breta í Evrópusambandinu?

skoðanakönnun sýnir að fylgi við veru Bretlands í Evrópusambandinu hefur tekið óvænt stökk.

56 prósent Breta vilja vera áfram í ESB samkvæmt könnuninni, það er hæsta hlutfall síðan 1991.

Þetta eru merkileg tíðindi, og skýringin virðist helst vera ein – framsókn Ukip, flokksins sem er harðastur á móti aðildinni að ESB.

Foringi Ukip er Nigel Farage, hann gefur sig út fyrir að vera maður fólksins, drekkur bjór og reykir hvar sem hann fer – er líkastur náunga sem maður gæti hitt á krá og farið að tala við. Manni gæti líkað vel við hann fyrst – en eftir svolítinn tíma yrði maður þreyttur. Þetta er svolítið yfirdrifið hjá honum.

Í flokki Farage er svo alls konar fólk – margt af því er ekki síður á móti hjónaböndum samkynhneigðra og innflytjendum en ESB.

Farage tekur fylgi frá Íhaldsflokknum fyrst og fremst og David Cameron virkar logandi hræddur við hann.

En hjá öðrum er líkt og hann veki upp mótefni, hann hefur þveröfug áhrif við það sem ætlunin er – þeir sem horfa upp á framgöngu Ukip hneigjast fremur til að vera algjörlega á öndverðum meiði við Farage.

Og því vex stuðningurinn við ESB – það er að minnsta kosti ein stærsta skýringin. Kannski verður það Nigel Farage sem gulltryggir veru Breta í Evrópusambandinu?

Annað er reyndar að meðal þorra Breta þykir ESB ekkert stórmál. Skoðanakannanir sýna að þeir telja heilbrigðismál, innflytjendur, atvinnumál, laun og menntamál vera mikilvægari – í þessari röð. Svo kemur Evrópa, aðeins 7 prósent telja að það sé mikilvægasta málið. En meðan skoðanirnar eru ekki sterkari er auðveldara að hræra í þeim.

 

Nigel-Farage-431037

Nigel Farage, með bjórinn og sígarettuna. Hann er maður fólksins og ætlar ekki að láta neinn segja sér fyrir verkum.

Miðvikudagur 22.10.2014 - 19:09 - Ummæli ()

Hin lækkandi glæpatíðni á Vesturlöndum – en við trúum því samt varla

Við erum að tala um byssueign íslensku lögreglunnar. Þingmaður segir að við lifum ekki í Disneylandi. Það er sagt að ofbeldi sé að aukast – og við tökum því eins og sjálfsögðum hlut, eins og ofbeldi hljóti alltaf að aukast, það sé bara partur af þróun. Heimurinn sé að verða harðari.

En þetta stenst ekki skoðun. Flest bendir til þess að ofbeldi hafi farið minnkandi í vestrænum samfélögum. Tíðni ofbeldisglæpa hefur lækkað bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Borgir eru miklu öruggari en þær voru áður. Frægt dæmi er New York. Fólk gengur óhult þar um á öllum tímum sólarhrings. Hér er nýleg grein í Guardian þar sem segir frá fækkun glæpa í Bretlandi og á Vesturlöndum. Þetta hefur verið þróunin síðustu tvo áratugi.

Tímaritið Economist fjallaði um þetta í fyrra. Það sagði að þessi lækkun glæpatíðni hefði verið þvert á það sem margir héldu. En þarna komi ýmislegt til. Meðalaldur í vestrænum samfélögum hafi hækkað, flestir glæpir eru framdir af ungum karlmönnum. Öryggisgæsla sé betri. Faraldrar heróíns og krakks hafi gengið yfir og séu ekki eins skæðir og áður var.

Í Bandaríkjunum er geysilegur fjöldi ungra karlmanna í fangelsi. Þetta er þó tæplega skýringin á lækkandi glæpatíðini, því glæpum fækkar líka í Evrópulöndum þar sem miklu færri eru í fangelsum.

Economist mælir í greininni með fyrirbyggjandi lögreglustarfsemi – þar getur öflun gagna og vinnsla þeirra gengt mikilvægu hlutverki. Eins segir blaðið að komin sé til sögunnar önnur tegund af glæpum sem þurfi að fylgjast betur með og sem fari vaxandi. Þegar ofbeldisglæpum og þjófnuðum fækki, fái lögregla kannski ráðrúm til þess.

Þar nefnir blaðið fjármálaglæpi eins og kreditkortasvindl og skattsvik. Nútíminn kalli semsagt á meiri árvekni gagnvart efnahagsbrotum.

Í þessu sambandi má líka tala um fræga bók Harvardprófessorsins Stevens Pinker sem nefnist The Better Angels of our Nature. Þar heldur Pinker því fram að ofbeldi hafi snarminnkað á Vesturlöndum og veltir fyrir sér ástæðunum.

Pinker heldur því fram fólk á Vesturlöndum sé orðið víðsýnna, umburðarlyndara, gagnrýnna, siðmenntaðra – ofbeldi og kúgun hafi minnkað, ekki síst gegn konum, samkynheigðum og þeim sem eru af öðum kynþætti. Við hugsum líka betur um þá sem eru veikir og fatlaðir.

Samt þykjumst við finna að ofbeldi og glæpir séu að aukast, höldum að það hljóti að vera þannig og andmælum sjaldnast þeim sem segja að við lifum mikla óöld.

En er það kannski aðallega í gegnum glugga fjölmiðlanna?

Enn eina kenningu má nefna í framhaldi af þessu og hún er dálítið brútal. Þetta var sett fram í þeirri frægu bók Freakonomics sem var mjög víðlesin fyrir um tíu árum. Þar héldu höfundarnir, Levitt og Dubner, því fram, og studdu tölfræðigögnum, að ein ástæða lækkandi glæpatíðni væru fóstureyðingar. Með útbreiðslu þeirra hefði beinlínis verið komið í veg fyrir að fæddist fjöldi karla, sem hefðu búið við lök kjör, oft hjá einstæðum mæðrum, í umhverfi þar sem er mikil hvatning til glæpa.

 

20130720_LDP001_0

Þessi mynd birtist með Economist greininni sem vitnað er í hér að ofan, The Curious Case of the Fall in Crime.

Miðvikudagur 22.10.2014 - 16:13 - Ummæli ()

Forsetaefnið Elizabeth Warren, ójöfnuðurinn og ofurvald fjármagnsins

Elizabeth Warren er flottasti stjórnmálamaður Bandaríkjanna um þessar stundir. Þessi öldungaþingmaður frá Massachusets er lang vænlegasta forsetaefnið vestra.

Hér eru dæmi þar sem Warren tekst á við tvær af stærstu meinsemdum samtímans.

Annars vegar er það ofurvald banka og fjármálastofnana sem hafa náð að koma sér fyrir utan og ofan við lögin. Þarna höfum við kerfi sem verndar þá stóru, grimmu og gráðugu.

Hins vegar er það vaxandi ójöfnuður – hvernig stórfyrirtæki blása út en kjör vinnandi fólks versna. Þetta tengist líka fjármálavaldinu – stjórnendur fyrirtækja einblína á hlutabréfamarkaði, braska þar með ýmsum hætti, fremur en að fjárfesta í vinnuafli eða innviðum.

 

Þriðjudagur 21.10.2014 - 19:09 - Ummæli ()

Ljósmyndaverk Sigurðar, þrjár kynslóðir kvenna, Sauðlauksdalur

Í Kiljunni á miðvikudagskvöld fjöllum við um nýútkomna bók sem inniheldur öll ljósmyndaverk Sigurðar Guðmundssonar frá árunum 1970 til 1982. Þessi verk eru í senn ljóðræn og fyndin og hafa borið hróður Sigurðar víða um lönd.

Helga Guðrún Johnson segir frá bókinni Saga þeirra, sagan mín. Þarna er rakin saga þriggja kynslóða kvenna, sú elsta, Katrín Thorsteinsson, átti barn með Hannesi Hafstein, dóttir hennar, Ingibjörg Briem, giftist auðugum Breta en þjáðist af alkóhólisma – sagan er sögð af sjónarhóli dóttur hennar, Katrínar Stellu Briem.

Anton Helgi Jónsson flytur ljóð úr bókinni Tvífari gerir sig heimakominn. Við fáum að heyra hverjar eru uppáhaldsbækur Ásdísar Þórólfsdóttur spænskukennara. Í dagskrárliðnum Bækur og staðir förum við í Sauðlauksdal.

Gagnrýnendur þáttarins fjalla um þrjár bækur: Koparakur eftir Gyrði Elíasson, Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Stundarfró eftir Orra Harðarson.

 

8cb0c51421e13f5f1b8f6c1bfba6d2d4

Fjall eftir Sigurð Guðmundsson.

Þriðjudagur 21.10.2014 - 16:21 - Ummæli ()

Peningarnir eru ekki aðalatriði, heldur stefnan

Nú skilst manni að Norðmenn séu hikandi við að gefa okkur jólatré, en gefi vélbyssur mjög frjálslega.

Í hinu stóra samhengi skiptir engu máli hvort hríðskotabyssur voru keyptar af Norðmönnum eða hvort þær voru gjöf frá Norðmönnum.

Það sem skiptir máli er stefnan – og það er hún sem á ekki að vera leyndarmál. Vopnaburður hefur alltaf verið viðkvæmt mál á Íslandi – það er beinlínis partur af þjóðarímyndinni að við séum friðsöm, vopnlaus þjóð.

Marinó Gunnar Njálsson orðar þetta sérlega vel á Facebook:

Íslenska lögreglan skotvopnavæðir bíla sína vegna þess að Norðmönnum datt af óskiljanlegri ástæðu að gefa henni vopnin. Ræður þá norska lögreglan því að hér fari skotvopn í íslenska lögreglubíla?

Svona eru ákvarðanir ekki teknar af engum: 1. Einhver samþykkti að taka við gjöfinni. 2. Einhver ákvað að vopnunum yrði dreift út um allt land. 3. Einhver skipulagði þjálfun lögreglumannanna. Spurningin er: Hver er þessi einhver? Var það ráðherra, embættismaður í innanríkisráðuneytinu, ríkislögreglustjóri, lögreglustjórar/sýslumenn eða einhver annar. Hvaða verkferlum var fylgt við þessa ákvörðun? Hafði verið gert áhættumat sem studdi þessa aðgerð?

En ef ekki fást svör um þetta úr íslenska stjórnkerfinu, þá má kannski reyna að spyrja Norðmenn hvernig standi á þessari „gjöf“. Var hún að þeirra frumkvæði eða bað þá einhver um að gefa vopn?

Heckler_Koch_MP5

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is