Miðvikudagur 22.03.2017 - 23:56 - Ummæli ()

Sven Ingvars – alltaf í útvarpinu

Frændi minn einn átti plötur með hljómsveit Sven Ingvars. Hann átti líka plötur með Savanna tríóinu. Þegar ég fór í heimsókn til hans vildi ég frekar hlusta á Savanna. Hann átti engar Bítlaplötur.

Sven Ingvars hljómaði í útvarpinu í tíma og ótíma. Fæstum börnum eða unglingum fannst þetta skemmtileg músík. Þau vildu fekar Bítlana eða Stones, en lítið framboð var af þeim í útvarpinu. Það var of villt. Sven Ingvars þótti nokkuð „seif“, eins og ein vinkona mín orðar það.

Nokkur laga Sven Ingvars voru tekin upp af íslenskum hjómsveitum og leikin með íslenskum textum, eins og tíðkaðist í þá daga.

Þetta var á tíma þegar Ísland var nær Norðurlöndunum. Við lásum dönsku blöðin, Hjemmet og Familie Journal, skandinavískar myndir eins og Karlsen stýrimaður nutu mikilla vinsælda, norrænir leikarar og söngvarar voru líkt og heimilisvinir – eða hver man ekki eftir Snoddas?

En forsprakki þessarar vinsælu sænsku hjómsveitar, Sven-Erik Magnusson, er nú látinn. Hann lék ásamt sveitinni í Austurbæjarbíói 14. mars 1967, fyrir fimmtíu árum semsagt. Þá var Sven Ingvars kynnt sem „vinsælasta hljómsveit Norðurlanda“.

 

 

Afar líklegt er að Sven Ingvars hafi í Austurbæjarbíói leikið þetta lag, eitt hið vinsælasta sem sveitin flutti, Jag ringer på fredag, Þetta hljómaði oft í útvarpinu, en upptakan er frá Noregi.

 

Miðvikudagur 22.03.2017 - 09:55 - Ummæli ()

Gleðilegan hönnunarmars!

Hallgrímskirkja sem hanki á tekrús ásamt íslenska fánanum. Vinur minn einn á Facebook tók mynd af þessum minjagrip í verslun í Miðbænum.

Hönnunarmars er að byrja. Ég er ekki viss um að þessari hönnun sé skipað í öndvegi þar. En þetta er áhugaverð tilraun.

 

 

Læt þess svo getið að ég fæ að vera atriði á Hönnunarmars þetta árið. Við Pétur H. Ármannsson förum í strætóferð um borgina og ræðum um skipulag og arkítektúr, þ.e. ég hlusta með öðrum á spekina í Pétri og skýt inn einu og einu orði. Hér er dagskrá hátíðarinnar.

Þriðjudagur 21.03.2017 - 11:06 - Ummæli ()

Uppsveifla í efnahagslífi heimsins

Efnahagur heimsins er í uppsveiflu. Þetta má lesa í leiðara nýjasta heftis The Economist. Leiðarar þessa tímarits eru fjarska áhrifamiklir, enda lesnir út um allan heim. Blaðið segir að stundum hafi virkað eins og hagkerfið væri á leiðinni upp á við eftir kreppuna 2008, en það hafi sumpart verið falsvonir, en nú lítur út fyrir að efnahagsbatinn sé rauverulegur og það sem meira er, hans verður vart út um allan heim.

Nú sé í fyrsta sinn í langan tíma uppsveifla sem verður vart í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. Bandaríska hagkerfið hafi bætt við sig störfum í 77 mánuði í röð, efnahagsástandið í Evrópu sé nú betra en nokkurn tíma síðan 2009 og meiri bjartsýni þar, ótti um yfirvofandi hrun í Kína hafi minnkað. Meira að segja lönd eins og Rússland og Brasilía séu ekki undanþegin, en bæði þessi lönd hafa átt í miklum erfiðleikum.

Hins vegar sé hið pólitíska andrúmsloft súrt. Þjóðremd viðhorf og lýðskrum sæki á, en hnattvæðingin eigi í vök að verjast. Uppsveiflan núna sé á engan hátt þjóðernispopúlistum að þakka, en þeir – og þá sérstaklega Donald Trump – gætu hins vegar reynt að eigna sér hana. Hugmyndir Trumps um skattalækkanir gætu líka reynst skaðlegar – og eins ef hann ætlar að leggja út í viðskiptastríð við Kína.

 

Mánudagur 20.03.2017 - 21:13 - Ummæli ()

Drungalegi Laugavegur – aðeins 21 prósent af götuljósum virka

Í dag eru jafndægur á vori, daginn lengir óðum og vorið er á næsta leyti. Dagarnir undanfarið hafa verið kaldir, dálítið glærir, það er mikið ryk í bænum og mengun – mörgum finnst svona veður óþægilegt, ekki síst þeim sem hafa tilhneigingu til hausverkja. Það á að hlýna og rigna á fimmtudaginn, þá skolast skíturinn vonandi burt.

Ég fór í gönguferð áðan upp Skólavörðuholtið, svo aðeins inn í Goðahverfið og niður á Laugaveg. Ég hef veitt því athygli undanfarið hversu lýsingin á Laugaveginum er frámunalega léleg – og hversu kaflar á götunni eru drungalegir. Það er dálítið skrítið, þetta er aðalverslunargata bæjarins og þarna er yfirleitt krökkt af ferðamönnum.

Ég gerði það að leik mínum að telja götuljósin frá því neðst á Laugaveginum og upp að Frakkastíg. Þau hafa verið í miklu ólagi í nokkurn tíma. Niðurstaðan var að þarna eru alls 24 götuljós. Af þeim voru aðeins 5 í lagi.

Það er semsagt einungis ljós á 21 prósenti af götuljósunum á neðri hluta Laugavegar. En sama vandamál virðist vera í ýmsum hliðargötum sem liggja frá Laugavegi. Annað sem íbúar í hverfinu velta stundum fyrir sér er hversu ljósin eru dauf – þ.e. þau sem lýsa. Það er eins og perurnar séu ekki sérlega sterkar.

Ekki kann ég skýringu á þessu, á þessum götuhluta hefur náttúrlega verið mikið um framkvæmdir og rask – en varla er hægt að segja annað en að þetta sé slóðaskapur. Nema menn séu búnir að ákveða að ljósin úr búðargluggum eigi að nægja. Það dugir þó varla, því á svæðinu er talsvert um óupplýstar byggingalóðir. Rétt er að taka fram að fyrir ofan Frakkastíg virka ljósin ágætlega. En kannski er mönnum sama, hugsa sem svo að á hinum björtu nóttum sumarsins sem fer í hönd sé götulýsing óþörf.

 

 

Þetta er hornið á Laugavegi og Frakkastíg. Fyrir ofan loga götuljós, fyrir neðan eru varla ljós nema á stangli.

 

 

Þetta er Laugavegur 28. Náttúrlega logar ekki á luktinni fyrir utan. Það er nýbúið að taka utan af húsinu. Það er gerbreytt frá því sem áður var, ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hina dimmu umgjörð utan um gluggana. Svona leit þetta út áður, ekkert stórkostlega fagurt en samt léttara yfirbragð.

 

Mánudagur 20.03.2017 - 13:31 - Ummæli ()

Fátækt fólk eignast málsvara

Eldmessa Mikaels Torfasonar í Silfrinu í gær hefur vakið mikla athygli. Þar talaði hann um fátækt á Íslandi. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, tekur þetta upp í pistli sem hann ritaði í gær og segir:

Í Silfri RÚV í morgun gerðist það óvænta að fátækt fólk á Íslandi eignaðist allt í einumálsvara.

Málsvarar fátæks fólks hafa ekki sést opinberlega áratugum saman, eftir að verkalýðshreyfingin lenti að mestu leyti í höndunum á vinstri sinnuðu háskólamenntuðu fólki og hinar upprunalegu pólitísku hreyfingar, sem urðu til í tengslum við hana sömuleiðis.

En í morgun birtist athyglisvert þrístirni í fyrrnefndum þætti, sem var undir stjórn EgilsHelgasonar. Þetta voru þeir Gunnar Smári Egilsson og Mikael Torfason, sem báðir eiga starfsferil að baki í fjölmiðlum og Ragnar Önundarson, fyrrum bankastjóri, sem kynnti í þættinum nýyrðið „kverktakar“, sem, ef rétt er skilið, eins konar samheiti yfir þá, sem reka hin stóru leigufélög, sem hér hafa orðið til og hafa eins konar kverkataka á leigjendum sínum. Athyglisvert orð – kverktakar.

Það er augljóst að mikill tilfinningahiti er til staðar hjá þeim Gunnari Smára og Mikael, þegar kemur að þessum málum og Ragnar setti fram athyglisverða vörn fyrir gengisfellingar, sem hann lýsti sem velferðaraðgerð sem jafnaði áföll yfir þjóðfélagið allt í stað þess að í löndum, sem ekki beittu þeirri aðferð væru það þeir sem misstu vinnuna og yrðu atvinnulausir til lengri tíma, sem öxluðu afleiðingar af efnahagslegum áföllum.

Einhvern veginn sat áhorfandi og hlustandi eftir með þá tilfinningu, að málflutningur þeirra þremenninga í morgun yrði ekki það síðasta sem frá þeim mundi heyrast um þessi mál.

Um leið er það umhugsunarefni fyrir ráðandi öfl í verkalýðshreyfingunni og raunar einnig þingmenn vinstri flokkanna hvar þessir fyrrum málsvarar fátæka fólksins eru á vegi staddir.

 

Sunnudagur 19.03.2017 - 12:15 - Ummæli ()

Skuldum við Bandaríkjunum – eða þau okkur?

Ísland er ein af stofnþjóðum Atlantshafsbandalagsins. Og við höfum varnarsamning við Bandaríkin sem enn er í gildi þótt bandaríski herinn hafi farið héðan fyrir rúmum áratug. Við Íslendingar leggjum sjálfir afar lítið af mörkum til varna okkar. Varnir- og hermál eru hverfandi smár útgjaldaliður á fjárlögum.

Hvað ætli við eigum að borga Bandaríkjunum mikið samkvæmt þeirri formúlu Trumps að Natóríki séu stórskuldug gagnvart Bandaríkjunum? Hvað ætti skuldin að reiknast langt aftur í tímann?

Við getum velt þessu fyrir okkur en krafan um að við borgum meira er auðvitað ekki komin fram með beinum hætti – enn eru þetta ekki nema yfirlýsingar í hinum málglaða Trump.

En svo mætti náttúrlega snúa þessu við og spyrja hvort Bandaríkin skuldi okkur kannski fyrir notkun á landi og aðstöðu?

 

Laugardagur 18.03.2017 - 21:18 - Ummæli ()

Ævintýralegt Marshall-hús

Marshall-húsið í Örfirisey var opnað í dag. Ég skrapp, það var margt um manninn – skiljanlega. Kannski náði ég ekki að skoða sýningarnar nógu vel, verð eiginlega að fara aftur til þess. Sá þó heillandi verk eftir Ólaf Elíasson. En þarna er líka sýning frá Kling & Bang og sýningarrými Nýlistasafnsins.

Á þessum fyrsta degi var maður fyrst og fremst að skoða húsið sjálft. Það er óhemju glæsilegt, endurbygging þessi virðist hafa tekist stórvel. Þarna eru innandyra stór og björt rými, hátt til lofts og vítt til veggja, gluggarnir er stórkostlegir.

Það getur ekki annað verið en að þetta eigi eftir að vera frábær lyftistöng fyrir myndlistina í landinu.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is