Fimmtudagur 16.11.2017 - 17:13 - Ummæli ()

Máltöfrar Jónasar

Það er dagur íslenskrar tungu og afmæli Jónasar Hallgrímssonar. Sá maður var ótrúlegt séní. Hann elskaði tunguna – eða kannski er réttara að segja að tungan hafi elskað hann. Allt sem Jónas kom nærri var svo furðulega kliðmjúkt og þokkafullt. Það á jafnt við um kvæðin hans og öll nýyrðin sem hann bjó til.

Því Jónas var einn helsti nýyrðasmiður íslenskunnar – þessa tungumáls þar sem auðvitað vantaði orð yfir ýmsa hluti þegar þjóðin komst loks í tæri við nútímann og umheiminn.

Vissuð þið að Jónas bjó til orðin páfagaukur og mörgæs? Hann bjó reyndar líka til orðið framsókn sem síðar varð nafnið á stjórnmálaflokki.

Og svo eru orð eins og aðdráttarafl, almyrkvi, dýrafræði, efnafræði, einstaklingar, fábrotinn, geislabaugur, haförn, himingeimur, knattborð, líffæri, lífvörður, ljóshraði og ljósvaki, munaðarleysingi, sjónauki, skjaldbaka, sólmyrkvi, sólmiðjaspendýr, stjörnuþoka, svarthol, undirgöng, þjóðkjörinn, æðakerfi.

Allt hljómar svo fallega – þetta eru svo fín íslensk orð og einhvern finnur maður fyrir töfrasnertingu Jónasar.

Loks má nefna orðið þjóðareign. Það er komið úr smiðju Jónasar. Sumir hafa viljað halda því fram í seinni tíð að ekki sé til neitt sem heiti þjóðareign. En það er eins og hver önnur þrætubók.

 

 

Fimmtudagur 16.11.2017 - 11:30 - Ummæli ()

Hugmyndaauðgi, skáldskapur og listræn sýn í arkítektúr – og skortur á þessu

Þessar ljósmyndir eru af stórkostlegu nýju bókasafnið sem hefur risið í borginni Tianjin í Kína, Byggingin hefur þegar vakið heimsathygli og maður skilur hvers vegna. Höfundar byggingarinnar starfa á arkitektastofunni MVRDV í Rotterdam í Hollandi.

 

 

 

MVRDV er ein af leiðandi arkitektastofum í heiminum og teikna mannvirki út um allan heim. Það er gaman að skoða heimasíðuna. Maður rekst þar á ýmis hús og skipulagsverkefni sem gleðja augað eins og markaðsbygginguna í Rotterdam frá 2014.

 

 

Og hér er svo líkan að svokölluðum framtíðargarði sem stendur til að reisa í Pudong hverfinu í Shanghai. MVRDV vann samkeppni með þessum tillögum að menningarmiðstöð og lystigarði sem verða alls 100 þúsund fermetrar.

 

 

Hér í Reykjavík erum við á gríðarlegu uppbyggingarskeiði. En hér gengur allt út á að byggja sem mest og sem hraðast, húsin beinlínis þrýstast upp úr jörðinni og varla að maður skynji að neitt sé hugsað um samræmi eða fagurfræði.

Það virðist líka vera sár vöntun á því að ímyndunarafl og sköpunargáfa fái að njóta sín í þessum nýbyggingum. Þær eru kassalaga, virka skelfing praktískar, aðallega þó fyrir það sem byggja og fjármagna, en það mun enginn leggja á sig nein ferðalög til að skoða þær.

Einhvern veginn finnst manni eins og þarna sé spurning um glötuð tækifæri. Við höfðum möguleika á að byggja upp glæsilega í Miðborginni en þá hvarf úr okkur allur skáldskapur og listræn sýn. Excel-ið tók völdin.

 

 

 

Fimmtudagur 16.11.2017 - 08:00 - Ummæli ()

Glundroði á skrifborði

Samstarfskona mín Ragnheiður Thorsteinsson var beðin um að taka svart/hvíta ljósmynd af einhverju hversdagslegu myndefni og setja á netið.

Þetta valdi hún.

Bókahaugurinn á skrifborði umsjónamanns Kiljunnar. Virkar eins og algjör glundroði.

 

Miðvikudagur 15.11.2017 - 19:49 - Ummæli ()

Samhljóða Steingrímur og Óli Björn í leiðaraopnu Moggans

Er ný ríkisstjórn að fæðast – jú, margt bendir til þess. Og nú má greina samhjóm með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum. Til dæmis á leiðaraopnu Morgunblaðsins í dag. Þar eru tvær greinar sem eru mjög keimlíkar. Önnur er eftir Steingrím J. Sigfússon, fyrrverandi formann VG, hin er eftir Óla Björn Kárason, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Hingað til hafa þeir ekki átt sérstaka samleið í pólitík.

En nú mótmæla þeir báðir orðum sem hafa fallið, meðal annars frá Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, um að í nýju ríkisstjórninni verði ekki flokkar sem teljist sérlega frjálslyndir, frjálslyndið sé að finna annars staðar.

Báðir skrifa þeir um pólitíska merkimiða. Steingrímur:

Ég læt mig hafa það að minnast að lokum á einn fremur saklausan smáfrænda í fjölskyldunni sem er merkimiðapólitíkin. Hún gengur í einfaldleika sínum út á að velja sér sjálfum jákvæða merkimiða.

Óli Björn:

Merkingarlausir merkimiðar

Frjálslyndir, víðsýnir og umburðarlyndir. Þrjú jákvæð orð sem stjórnmálamenn eru gjarnir að skreyta sig með. Merking orðanna er hins vegar litlu meiri eða dýpri en innihaldslausir frasar sem hafa tekið yfir pólitíska orðræðu.

 

Miðvikudagur 15.11.2017 - 09:00 - Ummæli ()

Íslenskt átak gegn unglingadrykkju vekur heimsathygli – og fjörugar umræður

 

 

Fréttamyndband frá BBC sem fjallar um hvernig Íslendingar hafa tekið á áfengisdrykku og fíkniefnaneyslu unglinga hefur  deilt 17.152 sinnum þegar þetta er skrifað. Myndbandið er að finna hér á Facebook. Má segja að það fari eins og eldur um sinu.

Þarna er rætt meðal annars við Dag B. Eggertsson, fólk á foreldravakt og unglinga á Íslandi. Einnig eru birtar tölur um hvernig ástandið var áður – býsna slæmt segir í fréttinni – og hvernig það er nú, eitt hið besta á Vesturlöndum.

Það er mikið verk að fletta í gegnum ummæli um fréttina. Þau eru orðin meira en 1000 talsins. Þar má meðal annars lesa að Ísland sé stórkostleg þjóð, að aðrar þjóðir geti lært í þessu efni af Íslendingum, svo mælir þarna fólk sem hefur komið til Íslands eða langar að fara þangað.

Aðrir segja að það sé ekkert að marka þetta, Íslendingar séu svo fáir og þjóðin sé svo einsleit að það sé í raun enginn vandi að gera átak af þessu tagi. Svo eru líka þeir sem segja að við séum þrúgandi lúterskt samfélag og það sé ekkert eftirsóknarvert að líkjast okkur.

En margir eru semsé yfir sig hrifnir eins og sjá má hérna.

 

 

 

Þriðjudagur 14.11.2017 - 22:06 - Ummæli ()

Öruggt að stjórn DBV mun ekki beygja sig undir úrskurð EFTA-dómstólsins

Það er líklegt að eitt fyrsta verkefni ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna – ef hún kemst á koppinn – verði að ráðslaga um þann úrskurð EFTA-dómstólsins að íslenskar reglur um influtning á kjöti, eggjum og mjólk samræmist ekki EES samningnum.

Þetta er mál sem er búið að fara fyrir Héraðsdóm  – álit EFTA-dómstólsins er í samræmi við dóminn sem þar féll – en næst fer það fyrir Hæstarétt. Ljóst er að Hæstiréttur mun taka mið af úrskurði EFTA-dómstólsins.

 

 

En flokkarnir sem líklega munu skipa ríkisstjórnina eru allir mjög eindregnir í stuðingi sínum við íslenska landbúnaðarkerfið. Þetta er eitt af því sem sameinar þá helst, sterkir bændaarmar eru í öllum flokkunum. Og allir eru  þeir á móti Evrópusambandinu – þótt enginn þeirra hafi gengið svo langt að vilja rifta EES-samningnum sem er þó eins og hálfgildings aðild að ESB.

Líklegast er að ríkisstjórnin vilji halda algjöru status quo gagnvart Evrópusambandinu, rugga ekki bátnum eins og í raun hefur verið stefnan lengi – að pæla ekkert sérstaklega mikið í því sem felst í EES – en þarna en þarna er mál sem mun sameina og styrkja í andstöðu við það sem frá Evrópu kemur.

Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, skrifar eftirfarandi hugleiðingu á Facebook:

Það er líklega orðið tímabært að endurskoða þetta EES samstarf frá grunni. Það er einum of langt gengið ef við ráðum því ekki sjálf hvort við flytjum inn hrátt kjöt frá meginlandinu. Nýsjálendingar láta náttúruna njóta vafans og banna allann innflutning á dýrum og óunnu kjöti, enda er landið eyja og dýrastofnarnir þar ekki með varnir gegn öllum þeim pestum sem ganga á meginlandinu. Á Íslandi gilda sömu sjónarmið.

 

Þriðjudagur 14.11.2017 - 15:08 - Ummæli ()

Stjórnarandstaða sem gæti orðið ansi sundurleit

Eins og staðan er virðast meiri líkur á því en minni að ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks verði mynduð á næstu dögum með Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra. Það er nokkuð sögulegt, yfirlýstur sósíalisti í forystu ríkisstjórnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn situr. Hefði eitt sinn verið óhugsandi.

Það virðist líka vera einfaldlega svo að aðrir stjórnarmyndunarkostir séu ekki í boði, að minnsta kosti engir möguleikar sem geta talist raunhæfir.

Svo er eitt og annað sem má velta fyrir sér í þessu sambandi. Til dæmis því hvernig stjórnarandstaðan verður skipuð ef þessi þriggja flokka stjórn verður til. Hún verður vægast sagt ósamstæð.

Þarna verður Samfylkingin og Píratar og Viðreisn– þessir flokkar geta átt mikið samneyti og engin stór vandamál þar. Það vill reyndar gleymast að Viðreisn er markaðshyggjusinnuð og trúir mjög á aðhald í ríkisrekstri.  En svo eru þarna Miðflokkurinn og Flokkur fólksins. Þeir gætu líka átt ákveðna samleið. En milli Sigmundar Davíðs og Samfylkingarinnar og Pírata er afar lítil vinátta. Reyndar hefur það virst svo á löngum tímabilum að Sigmundur hafi algjört ofnæmi fyrir Samfylkingunni – og það er svo sannarlega gagnkvæmt.

Píratar hafa beinlínis útilokað stjórnarsamstarf með Miðflokknum, en þurfa að sitja með þeim í stjórnarandstöðunni. Svo er tekið til þess að Magnús Þór Hafsteinsson, nánasti ráðgjafi Ingu Sæland, er orðinn framkvæmdastjóri þingflokks Flokks fólksins.

Það er ekki langt síðan Magnús Þór þýddi og lét gefa út norska bók sem nefnist Þjóðarplágan Íslam. Hann beitti sér svo fyrir því að hún var gefin öllum þingmönnum á Alþingi, 63 talsins. Þeir sem enn sitja á þingi geta kannski rætt efnisatriði hennar við Magnús.

Hermt er að Sigurði Inga Jóhanssyni þyki þessi staða ekki beinlínis leiðinleg. Þarna geti hann einangrað Sigmund, fjandmann sinn, í stjórnarandstöðu með fólki sem þolir hann ekki og hann þolir ekki á móti. Fyrir Sigurð eru þetta vænlegri aðstæður en ef hann hefði farið í stjórn til vinstri. Þá hefði Sigmundur getað átt ýmis tækifæri í stjórnarandstöðu með Sjálfstæðisflokknum – rétt eins og á árunum 2009 til 2013 þegar hann lék við hvern sinn fingur andstöðu við ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms og reyndist henni mjög skeinuhættur.

 

Sigurði Inga finnst ekki verra að skilja Sigmund Davíð eftir í stjórnarandstöðu með Samfylkingunni og Pírötum. Þau þola hann ekki og hann þolir þau ekki.

 

 

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is