Sunnudagur 21.05.2017 - 23:40 - Ummæli ()

„Af hverju erum við að missa?“

Það verður varla auðvelt lífið fyrir Framsóknarmenn að eiga yfir höfði sér flokksþing í janúar þar sem líklega skerst í odda. Þangað til eru heilir þrír ársfjórðungar sem óánægja og tortryggin getur haldið áfram að grafa um sig í flokknum. Reyndar er dálítið óvenjulegt að halda flokksþing svona um hávetur þegar dagurinn er stystur og allra veðra von – það er vel hugsanlegt að verði illfært og gildir framsóknarbændur komist ekki leiðar sinnar á fundinn. Þetta er altént einn óvissuþátturinn.

Tæplega verður séð að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigi möguleika á að endurheimta formannssætið, slíkt myndi magna upp hjaðningavíg í flokknum. Sigurður Ingi Jóhannsson var auðheyrilega að beina orðum til hans á miðstjórnarfundinum í gær. Sigmundi hefur orðið tíðrætt um breytingar sem hafa orðið á stjórnmálunum, en Sigurður Ingi sagði ekki tilefni til að breyta stefnunni þótt einhverjir segðu að heimurinn væri að breytast:

En hver er sú stefna, hverjir eru þeir straumar, af hverju erum við að missa; vilja menn feta sig á slóð forseta Bandaríkjanna eða Le Pen í Frakklandi og fleiri úr þeim ranni? Er einhver í þessum sal sem telur að þar liggi tækifæri Framsóknarflokksins? Er einhver sem telur að með því að víkja frá hefðbundnum gildum flokksins muni fylgið sópast að honum?

Það er enginn sérstakur sáttatónn í þessu hjá Sigurði – en Sigmundur býður heldur ekki upp á sættir við hann. Á meðan styrkist staða Lilju Alfreðsdóttur sem margir horfa til sem framtíðarformanns í flokknum. Lilja var handgengin Sigmundi þegar hann var forsætisráðherra en nú verður reyndar ekki annað séð en ágætt samband sé milli hennar og Sigurðar Inga. Má kannski segja að hún sitji líkt og klofvega í flokknum. Lilja var í Silfrinu hjá Fanneyju Birnu Jónsdóttur í dag, vildi ekki segja af eða á um hvort hún gefi kost á sér til formanns. Það er skiljanlegt á þessum tímapunkti, enda getur margt gerst þangað til í janúar. En Lilja, líkt og Sigurður Ingi, er ætti að geta unnið hvort tveggja til hægri og vinstri.

 

Sunnudagur 21.05.2017 - 10:59 - Ummæli ()

Trump færir Saudum vopn

Það hljómar eins og sturlun að Bandaríkin og Saudi-Arabía skuli gera með sér vopnasamning upp á 55 milljarða dollara. Saudi-Arabía er auðvitað ekkert annað en fasískt trúræði þar sem makráð yfirstétt hefur hreiðrað um sig í miklu ríkidæmi, réttindi kvenna eru fótum troðin, innfluttir verkamenn hafa engan rétt, fólk er pyntað og tekið af lífi – mannréttindi eru öll í skötulíki en Saudar eru í óða önn við að breiða út sína ömurlegu heimssýn um veröldina. Fátt er rót meiri ófriðar í heiminum en hinn skelfilegi wahabbismi.

En fyrir Kanana er þetta náttúrlega business as usual, snýst um olíu og vopn – og svo það að vígbúast gegn höfuðóvininum í Íran. En það verður trauðla séð að Íranir séu eitthvað verri en Saudar. Obama mátti þó eiga það að hann reyndi að stilla til friðar gagnvart Íran. En Trump fer í sína fyrstu opinberu heimsókn til Saudi-Arabíu. Það segir sína sögu um prinsíppleysi mannsins.

Það segir líka sitt að Rex Tillerson, olíukarlinn sem er utanríkisráðherra Trump, sagði á blaðamannafundi í Riyadh í gær að Íranir þyrftu að taka sig á í mannréttindamálum. Það er örugglega rétt, en við hlið Tillersons á fundinum stóð Jubeir sem er utanríkisráðherra Saudi-Arabíu. Tillerson svaraði ekki spurningu um mannréttindin þar.

 

Laugardagur 20.05.2017 - 14:07 - Ummæli ()

Lyfin heim, sími 24045

Utan á gamla Laugavegsapóteki sem nú heitir Lyfja. Lyfin heim, ókeypis heimsendingarþjónusta á lyfjum og snyrtivörum. Laugavegs Apótek, sími 24045.

Það er athyglisvert að veggjakrotararnir sem hafa haft fyrir því að klifra þarna upp – nánast með óskiljanlegum hætti – bera virðingu fyrir gamla skiltinu og hafa alveg látið vera að spreyja á það.

Hvað ætli skiltið sé gamalt? Þetta er frá því símanúmerin voru enn þá fimm stafa.

 

Laugardagur 20.05.2017 - 09:38 - Ummæli ()

Allt annað áfengisfrumvarp

Menn eru ekki á því að gefast upp með áfengisfrumvarpið. Fylgið við það fer reyndar stöðugt dvínandi. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun eru 70 prósent landsmanna á móti því að áfengi verði selt í matvöruverslunum. Það er býsna afdráttarlaust.

Frumvarpið fer varla í gegn á þessu þingi – meirihlutinn á þingi fyrir því er reyndar óviss. En þá er tekið upp á því að breyta frumvarpinu svo mikið að það er nánast óþekkjanlegt. Þetta er gert á milli fyrstu og annarrar umræðu í þinginu.

Það dylst varla neinum heldur að þetta er orðið allt annað mál en lagt var upp með og í raun eðlilegast að leggja fram nýtt frumvarp á öðru þingi, til umræðu bæði á Alþingi og úti í samfélaginu.

 

Föstudagur 19.05.2017 - 19:47 - Ummæli ()

Fáein orð um Jóhönnu

Jóhanna Kristjónsdóttir var í huga mínum fyrst og fremst mamma hans Illuga vinar míns. Við kynntumst þegar við vorum litlir drengir, við í vinahópnum héldum oft til á heimili hennar á Drafnarstígnum. Jóhanna var oft í burtu á ferðalögum og það ríkti mikið frelsi í húsinu. Seinna voru stundum haldin þar fjörug partí. Og ég kynntist líka Elísabetu og Hrafni.

Þá var Jóhanna blaðamaður á Morgunblaðinu, hún taldist vera í algjörri úrvalsdeild íslenskra blaðamanna; þá var Mogginn meira veldi en hefur þekkst í blaðamennskunni hér fyrr og síðar, gat sent blaðamenn út um allar jarðir. Það tíðkast ekki lengur. Jóhanna stóð aldeilis undir þessu, því hún var eilíflega að uppgötva eitthvað nýtt, hún hafði næga forvitni til að bera – á endanum fór hún til Miðausturlanda og þá var framtíð hennar ráðin.

Hún var einstaklega kjarkmikil kona, aðrir kunna að segja betri sögur af því en ég. Mér fannst það stórmerkilegt að hún skyldi hætta á Mogganum, það var einhvern veginn öruggasta höfn sem blaðamaður gat komist í. En svo rakst ég á hana þar sem hún bar út blöð í Vesturbænum. Og seinna var ég á ferð austur í Skaftafellssýslu og hitti Jóhönnu þar sem hún var að afgreiða í slopp í söluskála við Jökulsárlón. Hún var þar á sumrin – notaði peningana til að dvelja á veturna í Egyptalandi að læra arabísku.

Ég fór aldrei í ferð með Jóhönnu, því miður, þær voru rómaðar ferðirnar hennar. Vegna þekkingar hennar, viðmóts og þess hversu óbangin hún var. Hún var töffari hún Jóhanna. En mamma mín, Guðrún Ólafsdóttir, fór með henni í margar ferðir: Til Írans, Óman, Armeníu og Líbýu – og á fleiri staði held ég. Mamma var svolítið farin að gleyma á þessum tíma – hún er ennþá lifandi en er með alvarlega heilabilun – en mér fannst alltaf gott að vita af henni með mömmu Illuga vinar míns og ég veit að hún gat ekki verið í betri félagsskap.

 

 

Föstudagur 19.05.2017 - 10:32 - Ummæli ()

Móti hægri og vinstri – mayisminn í fæðingu

Breski Íhaldsflokkurinn hefur birt kosningastefnuskrá sína og nú er spurt hvort orðin sé til stefna sem megi kalla mayismi eftir Theresu May, sbr. thatcherismi og blairismi.

Það er augljóst að May vill ekki vera Thatcher. Stefnuskráin færir Íhaldsflokkinn burt frá frjálshyggju hennar og inn á miðjuna. Í sumum tilvikum má jafnvel segja að Íhaldið færi baráttu sína yfir á svæði sem Verkamannaflokkurinn hefur helgað sér.

Þarn má til dæmis lesa eftirfarandi:

Við höfnum hugmyndafræðilegum viðmiðum sem sett hafa verið af hinum sósíalíska vinstri væng og hinum frjálshyggjusinnaða hægri væng og tileinkum okkur í staðinn þá sýn af miðjunni sem viðurkennir að ríkisvaldið geti gert góða hluti

Við trúm ekki á óhefta markaði. Við höfnum dýrkun á eigingjarnri einstaklingshyggju. Við erum alfarið á móti félagslegri misskiptingu, ósanngirni, óréttlæti og ójöfnuði. Við teljum að skoðanakreddur séu ekki bara óþarfar heldur beinlínis hættulegar.

 

 

Ég hef oft skrifað um hversu hugmyndir í breskum stjórnmálum eiga greiða leið til Íslands, svo var um thatcherismann og blairismann. Skyldi verða eins með mayismann?

Fimmtudagur 18.05.2017 - 19:31 - Ummæli ()

Gangandi auglýsingar – Að tengja „fyrirtæki“ og „áhrifavalda“

Það er sérlega óæskileg þróun að skil milli auglýsinga og frétta og ritstjórnarefnis verði óskýrari. Það var lengi talað um eldveggi í þessu sambandi – þeir skyldu vera milli ritstjórna og auglýsingadeilda.

En nú lifum við í heimi þar sem er sagt að séu tveir til þrír pr-menn á hvern fréttamann. Og leiðirnar sem hafa opnast fyrir auglýsingar inn í fréttaefni og inn á alls kyns miðla eru miklu fleiri og fjölbreyttari en áður. Það er líka erfiðara að varast ísmeygilegar aðferðir til auglýsinga og markaðssetningar.

Hér er til dæmis sagt frá fyrirtæki sem heitir Ghostlamp. Samkvæmt myndinni hefur því verið gert svo hátt undir höfði að það hefur fengið rými á fundi sem heitir Icelandic Startups. Ef markamá fréttina tengir Ghostlamp „saman íslensk fyrirtæki og svokallaða áhrifavalda í markaðsskyni“.

Á mannamáli þýðir þetta að fyrirtækið fær frægt fólk – eða hálffrægt – a-,b, eða c-lista selebs, til að auglýsa vöru. Þetta er ekkert flóknara en það. Hefur þekkst lengi. Og fræga fólkið fær svo eitthvað í staðinn. Ronald Reagan auglýsti Chesterfield á sínum tíma, Bessi Bjarnason Kórónaföt. En við visssum að það voru auglýsingar.

En forsvarsmaður fyrirtækisins segist vera „brautryðjandi“. Öllu má nafn gefa.

Í þessu tilviki fékk fyrirtækið fólk til að setja eitthvað um kökudeig á samskiptamiðla. Neytendastofa segir að þetta hafi verið duldar auglýsingar – manni finnst reyndar að þær séu ekkert sérlega duldar. En forstjóri Ghostlamp segir að „leiðbeiningar hafi ekki verið nógu skýrar á þeim tíma þegar við keyrðum herferðina“.

Er það?

Neytendastofa segir að engum leiðbeiningum hafi verið breytt. Þær eru hérna og virka býsna skýrar og auðskiljanlegar.

 

Texti á heimasíðu Ghostlamp. Það verður að segja eins og er að tungumálið á þessu er frekar skrítið og ekki alveg auðskilið hvað átt er við, en í grundvallaratriðum virðast fyrirtæki þarna eiga að geta komist í tengsl við „skapandi“ (sic!) fólk sem síðar talar vel um vörur þeirra og þjónustu – og fær svo greitt fyrir.

Þetta er nánast dýstópísk sýn, að geta ekki vitað nema næsti maður sé gangandi auglýsing.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is