Sunnudagur 16.07.2017 - 01:07 - Ummæli ()

Álögur á bifreiðar – og rafbíla- og sjálfvirknivæðingin

Í Morgunblaðinu í dag birtist taflan hér á neðan, þetta eru gjöld sem eru lögð á bifreiðar. Blaðið reiknar þetta upp í 44,4 milljarða á síðasta ári. Maður verður var við það í umræðum á samskiptamiðlum að mörgum þykir nóg um. Það er til dæmis spurt hvort rétt sé að leggja veggjöld ofan á þetta – í því skyni að bæta vegakerfið. Um það má deila.

En svo má skoða þetta frá öðrum sjónarhóli. Væntanlega stendur fyrir dyrum mikil rafbílavæðing bílaflotans. Eða ekki vill maður trúa öðru. Þá ættu þessir skatt- og tekjustofnar að hverfa eins og dögg fyrir sólu. Langsamlega mest eru þetta álögur á bensín og olíu, skítuga orkugjafa sem við kærum okkur ekki um í framtíðinni.

Og enn má pæla: Það stendur yfir mikil umræða um sjálfkeyrandi bíla. Því er til dæmis haldið fram að fráleitt sé að fjárfesta í almenningssamgöngum því sjálfkeyrandi bifreiðar muni leysa þær af hólmi innan tíðar. En það er þá líka spurning hvort og hvernig slík ökutæki verða skattlögð?

Og reyndar er önnur spurning sem heyrist sjaldnar, hvort sé þá yfirleitt þörf á að fara í mikla vegalagningu ef sjálfvirku bílarnir eru á næsta leyti? Væri það ekki alveg jafn mikil tímaskekkja og almenningssamgöngurnar?

 

Laugardagur 15.07.2017 - 14:46 - Ummæli ()

Þorpið Picturesque Biertan í Transylvaníu

Eitt sinn vann ég í blaðamennsku með manni sem þýddi af Reutersskeyti langa grein um mafíuna í Nepal. Ég klóraði mér dálítið í hausnum yfir gríðarlegum ítökum mafíunnar í þessu afskekkta fjallaríki, þetta virkaði mjög áhyggjusamlegt.

En svo áttaði ég mig á því hvað hafði gerst og  kom, – liggur mér við að segja því miður – í veg fyrir birtingu greinarinnar. Þessi ágæti vinnufélagi minn hafði þýtt enska orðið Naples sem Nepal – en það þýðir auðvitað Napólí sem er borg á Ítalíu, þekkt fyrir mafíustarfsemi.

Það eru ýmis skemmtileg dæmi um svona. Annað á góður vinur minn, sem ég ætla ekki að nefna. Hann skrifaði í grein að þegar keisaradæmi Manchu ættarinnar féll í Kína í byrjun tuttugustu aldar, hefðu kínverskir karlar unnvörpum hent frá sér svínshölunum sem þeir báru til marks um tryggð við keisaraveldið.

En svínshalarnir voru í rauninni það sem á ensku kallast „pig-tails“ – fléttur í hári.

Þetta rifjaðist upp vegna þess að í Morgunblaðinu í morgun birtist frétt um þorp í Transylvaníu í Rúmeníu, héraðinu sem er frægt fyrir dulúð – jú, og sjálfan Drakúla greifa. Eins og sjá má er þorpið kallað Picturesque Biertan í fréttinni.

 

 

Hér er svo mynd frá Biertan, sem vissulega er mjög myndrænt þorp – engu er logið um það.

 

Föstudagur 14.07.2017 - 13:43 - Ummæli ()

Hin eindregna krafa um nekt í sturtuklefum

Í eina tíð, löngu fyrir tíma samskiptamiðla, voru lesendabréf eitthvert langvinsælasta lesefni í dagblöðum. Öll blöð héldu úti sérstökum síðum með lesendabréfum, sú frægasta var Velvakandi í Mogganum. Kannski er hann til ennþá, en er þá ekki nema svipur hjá sjón. Harðasti innsendari lesendabréfa í Velvakanda var „Húsmóðir í Vesturbænum“ eða bara „Húsmóðir“ sem hafði mikla óbeit á kommúnistum. Grunur lék á að húsmóðirinn væri í raun fullorðin karl. En bréfin voru dægilegasta skemmtilesning. Húsmóðirin varð sögufræg persóna og gaf Magnúsi Kjartanssyni sem skrifaði pistla af vinstri vængnum lítið eftir:

 

 

 

En það kom oft fyrir að ekki barst nóg af lesendabréfum inn á ritstjórnirnar. Því var það svo á sumum blöðum að blaðamennirnir sjálfir voru settir í að skrifa lesendabréfin. Það var jafnvel á þessu ákveðinn kvóti, blaðamaðurinn skyldi skila svosem einu til tveimur lesendabréfum í viku. Sumir voru býsna góðir í að skrifa eitthvað sem kom blóðinu á hreyfingu, rétt eins og á félagsmiðlum nútímans.

Nú birtir hið ágæta rit Grapevine svohjóðandi lesendabréf frá konu í Kansas.

 

 

Það er eitthvað sem segir manni að bréfið kunni að vera skrifað inni á ritstjórn Grapevine. Við skulum samt ekki staðhæfa það. Ég tek fram að mér þykir Grapevine afar gott blað og dáist að úthaldi þess.

En það mega útlendingar vita að við Íslendingar gefum okkur ekki fyrr en í fulla hnefana með nektina í sturtunum. Þar skulu allir vera allsberir, háir og lágir, feitir og mjóir, konur og karlar – enginn kemst undan. Þetta er eitt af því sem gerir okkur að Íslendingum, stór þáttur í þjóðarkarakter okkar.

Þótt kannski væri ekki stórkostleg hætta á ferðum þótt sett væru upp snyrtileg hengi sumsstaðar, svona fyrir hina ofurviðkvæmu.

Föstudagur 14.07.2017 - 02:19 - Ummæli ()

Íslenskar barflugur í Boston

Þessi bók var í glugganum á Brattle Book Shop sem er ein frægasta fornbókaverslun í Bandaríkjunum. Brattle er í Boston og rekur sögu sína aftur til 1825. Það er dásamlegt að staldra þar við, úrvalið er mjög gott, á góðviðrisdögum er miklu af bókum stillt upp í hillur utandyra.

Líklega þekkja flestir Ingvar G. Sigurðsson þarna á kápunni. Bókin Barflies var gerð af Snorrunum, Einari og Eiði, þeir voru mjög umtalaðir ljósmyndarar og hönnuðir í Reykjavíkurkreðsum upp úr 1990. Þeir eru ennþá að, en á erlendri grund, ef marka má þessa vefsíðu. Í bókinni eru myndir af fastagestum á Kaffibarnum en sá staður opnaði 1993 og þótti þá mest hipp og kúl af öllum veitingahúsum bæjarins.

Það er svo mjög sárt að viðurkenna að sjálfur var ég fastagestur á Kaffibarnum á þessum árum en komst ekki í bókina. Kannski var það þess vegna að ég lét vera að fara inn í búðina og fletta henni?

 

Fimmtudagur 13.07.2017 - 12:18 - Ummæli ()

Fyrsti viðkomustaðurinn á leiðinni til útlanda

Á vef Þjóðminjasafns Íslands birtast þessar myndir úr gömlu flugstöðinni í Keflavík sem var í notkun þangað til Leifsstöð (sem nú á að kalla FLE) var opnuð. Sjálfsagt muna einhverjir eftir þessum bar, en sumir þó kannski ekki nema óljóst, því þarna hellti fólk hressilega í sig fyrir flug. Þá þótti óhæfa að fara í flug án þess að fá sér vel af bjór áður – bjórinn var jú bannaður utan vallargirðingarinnar – og svo var haldið áfram í flugvélinni. Þá bættist jafnvel koníak við.

Margur Íslendingurinn kom vel slompaður til útlanda – og hélt þá jafnvel áfram drykkjunni, enda flóði allt af bjór, alls staðar nema á Íslandi.

Ein tegundin sem þarna var drukkin var hinn íslenski Polar bjór. Hann var fyrst framleiddur fyrir breska setuliðið á stríðsárunum en síðan fyrir Kanann á Vellinum. Ég bragðaði aldrei á Polar bjór – þetta voru forboðnar lystisemdir – en sagt er að hann hafi verið afar bragðvondur.

 

Barþjónninn sem er svo virðulegur þarna á myndinni mun vera Vilhjálmur Schröder.

Á vef Þjóðminjasafnsins er líka þessi mynd af gömlu Fríhöfninni. Hún var tákn frelsis í hugum Íslendinga. Allir sem fóru í ferðalög til útlanda keyptu þar eins og þeir gátu, en nú eru breyttir tímar og maður nennir varla að stoppa í Fríhöfninni lengur.

Miðvikudagur 12.07.2017 - 13:45 - Ummæli ()

Sjálfkeyrandi bílar, áróður og auglýsingamennska

Umræðan um sjálfkeyrandi bíla er að þróast á dálítið einkennilegan hátt. Hún er farin að einkennast af því að sérstakir vinir einkabílsins nota hana til að lemja á almenningssamgöngum – því er haldið fram að mjög fljótlega verði almenningssamgöngur óþarfar vegna sjálfkeyrandi bílanna.

Þetta er ekki bara hér á Íslandi, auðvitað ekki – við höfum ekki slíka sérstöðu – heldur víða um heim eins og menn geta séð með því að gúgla smá.

Staðreyndin er hins vegar sú að það gæti verið býsna langt í sjálfkeyrandi bíla sem geta virkað almennilega í gatnakerfinu. Þróun þessarar tækni er á algjöru frumstigi og bílar sem hafa verið prófaðir ráða ekki við einföldustu verkefni sem ökumenn þurfa að takast á við á hverjum degi. Flestir sjálfkeyrandi bílarnir gera ráð fyrir að ökumaður geti gripið í stýrið með litlum fyrirvara, eins og til dæmis má sjá varðandi þessa útgáfu frá Toyota. Vonandi er bílstjórinn ekki að horfa á snjallsímann sinn þegar eitthvað óvænt kemur upp á?

Það er líka spurning um hvernig við deilum þessari tækni, hvort hún útrýmir t.d. einkabílnum, hvaða rými verður fyrir hana í borgunum, hvað verður á álagstímum – og svo eru siðferðisleg vandamál eins og hvort við viljum láta sjálfkeyrandi bíl aka á vegfaranda fremur en að farþegar inni í bifreiðinni meiðist eða jafnvel bíði bana. Sjálfkeyrandi bílar verða að veruleika einhvern tíma, vissulega, en hugsanlega þarf þá að byggja upp net þar sem þeir eru samtengdir. Slíkar bifreiðar munu fækka umferðarslysum verulega, en svo er annað álitamál: Við umberum slys þegar þau eru af manna völdum, en það verður erfiðara að sætta sig við stór slys í umferðinni vegna þess að búnaður í sjálfkeyrandi bíl bilar. Í því sambandi má nefna að gerðar eru miklar ráðstafanir vegna líþíum battería í flugvélum, enda þótt að dæmin um að slík batterí springi séu í raun örfá.

Bílaframleiðendur sjá sér hag í því að tala upp þessa tækni og láta eins og hún sé á næsta leiti. Þeir vilja náttúrlega geta haldið áfram að selja varning sinn. Hér eru tvær greinar úr virtustu fjölmiðlum Bandaríkjanna þar sem er talað um sjálfkeyrandi bíla sem hype. Nákvæm íslensk þýðing er ekki til, en þetta er eins konar sambland af áróðri og auglýsingamennsku.

Önnur greinin er úr Wall Street Journal og nefnist Self Driving Hype Doesn´t Reflect Reality.

Hin er úr New York Times og nefnist Silicon Valley-Driven Hype for Self-Driving Cars.

Hér er svo ansi skemmtileg auglýsing um framtíð samgangna í borgum. Hún kemur frá Svíþjóð. Horfið til enda – endirinn er skemmtilega óvæntur.

Miðvikudagur 12.07.2017 - 01:00 - Ummæli ()

Heimur sem verður sífellt flóknari

Þegar maður eldist finnst manni eins og tíminn líði hraðar og að heimurinn sé flóknari. Maður upplifir meiri ótta og óöryggi – sjálfsagt er það eitthvað sem má skýra með líkamsstarfseminni.

Ég fæddist 14 árum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, þetta var tími kalda stríðsins, kjarnorkuváin vofði yfir heiminum. Hin blóðuga tuttugasta öld var ekki nema rúmlega hálfnuð, en mesta ófriðarskeið hennar var þó afstaðið. En einhvern veginn fannst manni línur vera skýrari í þá daga.

Vandamál annars áratugs 21. aldarinnar virka hrikalega krefjandi og – að því maður óttast – óyfirstíganleg. Loftslagsbreytingar sem eru hraðari en nokkurn óraði fyrir, vaxandi misskipting auðs, fólksfjölgun, flóttamannastraumur, útrýming dýrategunda og eyðilegging náttúru, höf sem eru full af plasti, fjölónæmir sýklar, vélmenni sem taka störf af mönnum, tölvur sem verða greindari en við, yfirtaka fárra stórfyrirtækja á upplýsingamiðlun, framfarir í læknavísindum sem geta leitt til gífurlegrar heilsufarslegrar stéttaskiptingar – við gætum fengið yfirstétt sem væri nánast ódauðleg.

Það er merkilegt að leiðtogi voldugasta ríkis heims, Bandaríkjaforseti, minntist á ekkert af þessum málum í ræðu sem hann hélt í Póllandi á dögunum – þetta var helsta stefnuræðan sem hann hefur flutt á alþjóðavettvangi, boðskapur hans til alþjóðasamfélagsins. Hann fimbulfambaði eitthvað um endalok Vesturlanda en virtist algjörlega utanveltu hvað varðar raunverulegar ógnir sem steðja að mannkyni.

Ekkert af ofangreindum málum fær nokkra lausn nema með samstarfi þjóða, þau útheimta mikla og nána alþjóðasamvinnu.

Allt er þetta skelfing flókið. Maður verður sjálfsagt dauður áður en þessi framtíð gengur í garð með öllum sínum þunga, en börnin, barnabörnin og barnabarnabörnin sitja uppi með þennan heim.

 

 

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is