Þriðjudagur 13.02.2018 - 15:58 - Ummæli ()

Eyrarkarlar í gömlu Reykjavík

Þetta er stórkostleg ljósmynd úr gömlu Reykjavík. Höfundur hennar mun vera Guðni Þórðarson, sá merki blaðamaður, ljósmyndari og ferðamálafrumkvöðull. Guðni hafði einstaklega næmt auga, til dæmis hef ég mikið dálæti á myndum sem hann tók í vesturheimi og mátti sjá nokkrar þeirra í þáttunum Vesturfarar.

Þessi mynd mun vera tekin stuttu eftir 1950. Hún var sett inn á vefinn Gamlar ljósmyndir. Þarna má sjá verkamenn af því tagi sem einkenndu þennan bæjarhluta í eina tíð. Þeir eru í bláum nankinsfötum, með sixpensara á höfði, eyrarkarlar voru þeir stundum kallaðir. Á þessum tíma var öll hafnarstarfsemin niðri í bæ, hafnarverkamennnirnir settu svip á borgina – en stundum gat verið stopult um vinnuna hjá þeim.

Það er rigning, dumbungur, og báðir mennirnir, sá með hjólið og hinn, virka heldur vinnulúnir. Maður ímyndar sér að þeir séu á leið heim eftir vinnudag. Á hjólinu hangir nestistaska.

Reiðhjól eru ekki nýtt fyrirbæri í Reykjavík. Í Kiljuinnslagi um sögu Dagsbrúnar fyrir nokkrum árum sagði Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur frá því hvernig verkakarlarnir komu heim í hádeginu á hjólunum í verkamannabústaðina við Hringbraut. Þeir fengu að borða, en út um hvern glugga ómuðu fréttir Ríkisútvarpsins, svo lögðu þeir sig aðeins, og hjóluðu svo aftur í vinnuna.

Myndin er tekin í Mýrargötunni. Til hægri má sjá Hamarshúsið, þar var vélsmiðjan Hamar, en því var síðar breytt í íbúðir. Til vinstri er Café Skeifan, en þar hafði áður verið gamla hafnarvogin. Á þessum tíma og lengi síðar var þetta verkamannakaffihús, en nú er þarna Hamborgarabúllan. Og nánast hvert einasta hús sem sést á myndinni er orðið að veitingastað.

 

Þriðjudagur 13.02.2018 - 11:49 - Ummæli ()

Frelsið Ahed Tamimi!

Ahed Tamimi er stúlka frá þorpinu Nabi Saleh í Palestínu. Svæðið er hersetið af Ísraelum, landránsbyggðirnar halda áfram að þenjast út. Hún hefur verið í varðhaldi í Ísrael um nokkurra mánaða skeið, og nú verður hún dregin fyrir herdómstól (takið eftir: lokaðan herdómstól) fyrir að hafa ráðist að ísraelskum hermönnum á landi sínu. Árásirnar voru gerðar með berum hnúum og fótum, semsagt unglingsstúlka algjörlega vopnlaus gegn hermönnum í brynvörðum búningum og alvæpni.

Ísraelskir stjórnmálamenn segja að hún sé ekki ung stúlka heldur hryðjuverkamaður og eigi að vistast í fangelsi.

Þorpið er stutt frá Ramallah á Vesturbakkanum. Ætt Ahed hefur búið á svæðinu í mörg hundruð ár. Ísraelar stela gæðum landsins fyrir byggðir sínar, meðal þess sem er deilt um eru vatnslindir. Ættingjar Ahed hafa fallið fyrir kúlum Ísraela. Hún er fulltrúi enn einnar kynslóðar Palestínumanna sem elst upp við hernám og stöðugar ofsóknir með sama og enga von um að geta lifað eðlilegu lífi.

Amnesty International hefur krafist þess að Ahed verði látin laus, í áliti samtakanna segir að hún og fjölskylda hennar hafi af hugrekki andæft hernáminu. En ísraelski dómstóllinn gæti dæmt hana í margra ára fangelsisvist.

Ahed hefur orðið sterkt tákn fyrir frelsisbaráttu Palestínumanna. Það ruglar sýstemið svolítið hvernig hún lítur út. Hún gæti þess vegna verið bandarískur eða evrópskur táningur með sitt mikla ljósa hár. Þetta virkar þannig að það er ekki jafn auðvelt að framandgera hana og setja hana í hina stöðluðu mynd sem heimurinn hefur af Palestínumönnum og sem Ísraelar vilja halda að okkur. Eins dapurt og það í rauninni er.

 

 

Mánudagur 12.02.2018 - 12:43 - Ummæli ()

Bjartsýnn fundur í Garðabæ

Garðabærinn er sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins á landinu, heimili sjálfs formanns flokksins, Bjarna Benediktssonar. Öðrum stjórnmálaflokkum verður eiginlega ekkert ágengt í Garðabæ – og þegar þeir ná inn í bæjarstjórnina er lítið á þá hlustað. Í Garðabæ er það nánast talið óeðlilegt ástand að vera ekki í Sjálfstæðisflokknum.

En Sósíalistaflokkurinn lætur það ekki aftra sér frá því að blása til þessa fundar í Garðabænum á morgun.

 

Mánudagur 12.02.2018 - 11:46 - Ummæli ()

Viðtalið við Zoe Konstantopoulou

Hér má sjá viðtalið við grísku stjórnmálakonuna Zoe Konstantopoulou úr Silfri gærdagsins. Hún er fyrrverandi forseti gríska þingsins, var þá í stjórnarflokkum Syrisa, flokki Tsipras forsætisráðherra, en gekk úr honum vegna óánægju með hversu undanlátssöm stjórnin var gagnvart erlendum kröfuhöfum og Evrópusambandinu.

Zoe Konstantopoulou er ómyrk í máli um hörmungarnar sem hafa gengið yfir Grikkland í kreppunni, hún notar orðið glæp í því sambandi, og hún vandar ESB ekki kveðjurnar.

 

 

Sunnudagur 11.02.2018 - 12:52 - Ummæli ()

Appelsínugult viðbúnaðarstig, íslensku veðurorðin og vegvilltir túristar

Það er blásið út í fjölmiðlum að komið sé appelsínugult viðbúnaðarstig. Ég verð að viðurkenna að ég skil þetta ekki alveg, en var svo bent á að finna má á vef Veðurstofunnar yfirlit yfir viðbúnaðarstigin.

 

 

En mér finnst eins og sé í fyrsta sinn í vetur að maður heyrir almennt, og þá í fréttum, aðallega talað um veður sem viðbúnaðarstig. Slíkt getur sjálfsagt verið gagnlegt í einhverjum tilvikum, en þó má minna á hinn gríðarlega auðuga orðaforða sem íslenskan hefur yfir veður og öll blæbrigði þess.

 

 

Þetta eru ótrulega skemmtileg orð mörg sem leika í munni manns, nánast eins og skemmtiefni, enda er þarna varðveitt skynjun kynslóðanna í þessu landi. Myndin kemur úr fyrirlestri sem ég kann ekki að nefna.

Viðbúnaðarstigin eru sjálfsagt líka hugsuð fyrir ferðamenn, á ensku er talað um code orange.  En ég get þess að á leiðinni heim úr Silfrinu áðan hitti ég dálítið af útlendingum sem voru að draga á eftir sér ferðatöskur og á leið í bílaleigubíla, stefndu í flug í Keflavík. Þetta fólk virtist lítið vita um veðurhorfurnar, bílarnir smáir og vanbúnir, en það sem verra er, fólkið hafði ekki fengið tilkynningar frá flugfélögum. Ég fletti upp fyrir það á vefnum kefairport.is, og viti menn, það var búið að aflýsa flugi sem það var á leiðinni í – án þess að þessir ferðamenn hefðu verið látnir vita. Fólkið hafði svo ekki hugmynd um við hvern það gæti haft samband vegna ferða sinna.

 

Laugardagur 10.02.2018 - 13:05 - Ummæli ()

Síakstur og forskot í kosningum

Í framhaldi af umræðunni um mikinn akstur þingmanns kemur G. Valdimar Valdemarsson með mjög athyglisverðan punkt. Hann lýtur að jafnræði frambjóðenda í kosningum. G. Valdimar skrifar:

Ég hef verið í framboði í fyrsta sæti fyrir Bjarta framtíð í Norðvestur kjördæmi. Ég þurfti að taka mér frí frá vinnu og ferðast um kjördæmið enda á milli á eigin kostnað í 2 mánuði.

Á sömu fundi komu sitjandi þingmenn í vinnutímanum og ferðakostnaður greiddur af Alþingi. (Sumir komu nú reyndar á ráðherrabílnum með bílstjóra)

Hér er vitlaust gefið og það væri fróðlegt að fá t.d álit ÖSE á því hvort þetta forskot sitjandi þingmanna í kosningabaráttu stenst þeirra viðmið um sanngjarnar kosningar og eðlilega framkvæmd kosningabaráttu.

 

Föstudagur 09.02.2018 - 21:05 - Ummæli ()

Þrjár kvikmyndir um Ólympíuleika

Vetrarólympíuleikarnir eru að hefjast í Suður-Kóreu og ég hef verið að horfa á nokkrar kvikmyndir sem fjalla um Ólympíuleika. Þær hafa verið að birtast í Criterion-safninu. Þar er fyrsta að telja sjálfa Olympíu eftir Leni Riefensthal, umdeilda mynd eftir umdeildan leikstjóra. Enn í dag er rifist um hversu mikill nasisti hún hafi verið. En myndin er algjört snilldarverk, nú 82 árum síðar horfir maður á sum hlaupin í myndinni og verður raunverulega spenntur. Slíkur meistari var Riefensthal í beitingu myndmálsins. Hún var snillingur í kvikmyndalist á borð við hinn rússneska Eisenstein – en bæði gerðu þau samning við skrattann.

Hún lagði ótrúlega mikla vinnu við að þróa hvernig væri hægt að mynda íþróttaviðburði – til þess þarf að hafa margar myndavélar og þær þurfa að hreyfast. Leikarnir voru gríðarleg sviðsetning nasista til að sýna kraft sinn og mátt, en það var mesti íþróttamaður sögunnar, Jesse Owens, sem setti strik í reikninginn og vann fern gullverðlaun. Sagan af viðureign hans við Þjóðverjann Lutz Long og Jesse Owens í langstökkinu er fræg. Með þeim tókst vinátta, en Long dó í hernaði 1943. Þeir skrifuðust á og Long bað Owen að segja sonum sínum frá því hvernig heimurinn var á friðartímum ef hann félli í styrjöldinni. Owen stóð við það.

Ein frægasta senan í Ólympíu er þegar Jesse Owens flýgur í loftinu í langstökkinu, setur heimsmet og sigrar. En það er fleira magnað í myndinni, til dæmis hvernig Riefensthal myndar maraþonhlaupið.

 

 

Hitler var náttúrlega ekki hrifinn af Owens. En svo er dapurleg sagan af því að Owens var ekki boðið í Hvíta húsið við heimkomuna frá Berlín. Þangað fóru hins vegar hvítir sigurvegarar af leikunum. Var F.D. Roosevelt rasisti?

Íslendingar tóku þátt í þessum leikum, sendu meðal annars lið í sundknattleik, sem nú er ekki lengur iðkaður hér á landi. Í myndinni bregður fyrir íslenska spjótkastaranum Kristjáni Vattnes. Gæti verið að hann sé ódauðlegastur íslenskra íþróttamanna fyrir vikið.

Önnur mynd, miklu ófullkomnari er löng úttekt á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi 1912. Þá er annar tími. Karlar með pípuhatta, konur í síðum kjólum og barðastóra hatta á áhorfendapöllum. Allur íþróttabúnaður virkar lélegur og aðstæðurnar forneskjulegar. Samt finnst manni að árangurinn í sumum greinum sé furðu góður. Menn gátu líka hlaupið, stokkið og kastað á þeim tíma.

Þessi mynd var endurgerð árið 2016. Hún er heilar 270 mínútur. Það er eitthvað róandi við að horfa á þetta. Ég er samt ekki kominn út á enda, og líklega sést ekki þar sem íslenski flokkurinn sýnir glímuna okkar. Glíman var viðurkennd sem sýningargrein á Stokkhólmsleikunum, en náði ekki að verða Ólympíuíþrótt. En þetta var fræg ferð, og einn glímumaðurinn, Sigurjón Pétursson, keppti líka í rómverskri glímu. En það er margt sem virkar dálítið undarlegt. Það er til dæmis hörð keppni í reiptogi og keppendur í skotfimi ganga um í sínum borgaralegu fötum, reykjandi vindla.

 

 

Þriðja myndin heitir 13 dagar í Frakklandi og er eftir kvikmyndagerðarmanninn Claude Lelouch. Hún fjallar um Vetrarólympíuleikana í Grenoble 1968. Aðalgarpurinn var skíðamaðurinn franski Jean-Claude Killy. Myndin er í þessum lausa, eilítið fjarræna stíl, sem Lelouch ástundaði – samanber kvikmyndina Maður og kona sem hann gerði aðeins fyrr.

Lelouch hefur ekki sérstakan áhuga á íþróttakeppninni sjálfri eða úrslitum, heldur er það eins og oftar hreyfingin sjálf sem heillar hann, bæði hvernig íþróttamennirnir hreyfast og öll tækin kringum keppnina, og svo hreyfingar sjálfrar myndavélarinnar.

Það var sjálfur De Gaulle forseti sem bað Lelouch um að gera þessa mynd. Tónlistin er eftir hinn fræga Francis Lai. Þetta eru fyrstu Ólympíuleikar sem ég man eftir, og þeir fyrstu eftir að íslenska sjónvarpið hóf útsendingar. Þetta hafði þau áhrif að áratug síðar stóð ég frammi fyrir því að velja hvert ég ætlaði að fara á frönskunámskeið. Valið stóð milli einhverra borga í Frakklandi og ég valdi Grenoble. Var þar í rúman mánuð sem unglingur. Ekki fannst mér borgin sérlega skemmtileg og ég hef ekki komið þangað síðan.

 

Frjáls fjölmiðlun ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is