Mánudagur 18.09.2017 - 10:50 - Ummæli ()

Kosningarnar 28. október – hverjir eru í stuði?

Ef kosið verður 28. október verður kjörtímabilið sem nú stendur yfir innan við eitt ár – en það munar bara einum degi, kosningarnar 2016 voru 29. október.

Þetta er ansi bratt. Það eru ekki nema fjörutíu dagar sem flokkarnir hafa til að koma saman framboðslistum og heyja sína kosningabaráttu.

Flokkarnir eru misvel undirbúnir. Sjálfstæðisflokkurinn setur sína vél í gang með nokkurn veginn óbreyttum listum frá því síðast. Vinstri græn eru til í kosningar, þau telja að þau geti bætt hressilega við sig. Framsóknarflokkurinn hefur verið í hálfgerðu reiðileysi á þessu kjörtímabili en gæti bætt við sig fylgi og styrkt stöðu sína aðeins.

Aðrir flokkar segjast vilja kosningar, en manni finnst hljóðin frá þeim ekki mjög sannfærandi. Píratar eru undanskildir, þeir lýsa opinberlega yfir efasemdum um að kjósa aftur. Björt framtíð sprengdi ríkisstjórnina og flokksmenn vona sjálfsagt að þeir njóti þess. Viðreisn þarf að reyna að marka sér sérstöðu frá Sjálfstæðisflokknum eftir ríkisstjórnartímann. Sjálfstæðismenn munu hamast á því að þetta séu smáflokkar sem ekki eru traustsins verðir.

Nánast öll forysta Samfylkingarinnar heltist úr lestinni í síðustu kosningum. Það er varla vænlegt til árangurs að reyna aftur með sama fólk. En hverjir koma þá í staðinn?

Munu kosningar breyta einhverju? Bjarni Benediktsson segist vilja tveggja flokka stjórn eftir kosningar. Ekki er sérlega líklegt er að það gangi eftir. Sennilegast er er að aftur þurfi að mynda a.m.k. þriggja flokka stjórn. Flokkur fólksins gæti skipt sköpum. Og svo mega flokkarnir á vinstri vængnum kannski ekki við því að styggja Framsóknarflokkinn ef þeir ætla að eiga möguleika á að komast í ríkisstjórn.

Gunnar Smári Egilsson veltir því fyrir sér á Facebook hvaða flokkar séu í stuði (ætlar Sósíalistaflokkur hans að bjóða fram?) En er þjóðin í stuði fyrir kosningar?

 

 

 

 

Mánudagur 18.09.2017 - 00:34 - Ummæli ()

Fjörugt Silfur

Hér er Silfur sunnudagsins. Þáttur sem var lengri en venjulega, en nokkuð fjörugur og áhugaverður held ég megi segja. Gestir voru Helgi Hrafn Gunnarsson, Svandís Svavarsdóttir, Páll Magnússon, Björt Ólafsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Kristinn Hrafnsson, Stefanía Óskarsdóttir, Jón Trausti Reynisson og Sigmundur Erni Rúnarsson.

Svo vek ég sérstaka athygli á viðtalinu við sagnfræðinginn bandaríska, Timothy Snyder, sem er í lok þáttarins.

Silfrið má sjá með því að smella hér á vef RÚV.

 

 

 

Laugardagur 16.09.2017 - 19:20 - Ummæli ()

Lengra Silfur í þetta sinn

Silfrið á morgun verður í lengri kantinum vegna falls ríkisstjórnarinnar og kosninganna sem verða væntanlega í byrjun nóvember. Það er af nógu að taka í pólitíkinni og þátturinn verður hálftíma lengri en vant er.

Fyrst í þættinum fáum við stjórnmálaskýrendur til að greina atburðarásina og horfurnar fyrir kosningarnar, en síðar í þættinum tekur við forystufólk úr stjórnmálaflokkunum og ræðir stöðuna.

Ég á svo von á að þættinum ljúki með viðtali sem ég tók við bandaríska sagnfræðinginn Timothy Snyder. Snyder hélt fyrirlestur hér fyrir stuttu og vakti mikla athygli. Hann ræðir um strauma og leikendur í alþjóðastjórnmálum, meðal annars þá Trump og Pútín.

Silfrið hefst á RÚV klukkan 11 og er jafnhliða sent út á Rás 2 – að undanteknum viðtölum sem fara fram á erlendum tungumálum.

 

Laugardagur 16.09.2017 - 10:48 - Ummæli ()

Helgi Hrafn segir ókei

Helgi Hrafn Gunnarsson segir ókei við beiðni Birgittu um að hann bjóði sig aftur fram. Þýðir það ekki já? Gæti reynst afar mikilvægt fyrir Pírata. Birgitta skorar á hann og Helgi Hrafn svarar.

En Birgitta lýsir því yfir nú áðan að hún ætli að standa við þau orð sín að hún hætti eftir þetta kjörtímabil. Það verður sjónarsviptir að henni. Og hún hefði getað haldið áfram á þeim forsendum að kjörtímabilið er að reynast vera ekki nema eitt ár.

 

 

Föstudagur 15.09.2017 - 17:39 - Ummæli ()

Bjarni heldur áfram – flokkarnir misvel búnir undir kosningar

Einhverjir höfðu gert því skóna að Bjarni Benediktsson myndi segja af sér eða hrökklast frá völdum í Sjálfstæðisflokknum eftir atburðarás síðustu daga. En svo er ekki. Hann mætti á blaðamannafund, sem var afar vel skipulagður út frá sjónarmiði almannatengsla, hann mun eiga sviðið í öllum fréttatímum kvöldsins. Og hann boðar að haldnar verði kosningar í nóvember – þar sem hann mun leiða Sjálfstæðisflokkinn enn á ný.

Það er líka svo skringilegt að flokkurinn hefur ekki annað formannsefni. Það er er enginn annar í þessum sögufræga flokki. Bjarni er óskoraður leiðtogi hvað sem á gengur. Á sinn hátt er það dálítið dapurt að mannvalið í stjórnmálunum sé svo lítið. Og Bjarni er dálítið teflon, það verður að segjast eins og er.

Sjálfstæðisflokkurinn mun í kosningum leggja áherslu á stöðugleika og vara við ístöðulausum smáflokkum. Flokkurinn hefur vel skipulagða maskínu sem hann getur ræst með litlum fyrirvara – og hann getur náð í fé til að reka kosningabaráttu.

Gleymum ekki að hálfu ári eftir kosningar í nóvember eru bæjar- og sveitastjórnakosningar. Ein kenningin er sú að Björt framtíð hafi ekki síst viljað komast úr ríkisstjórninni vegna sveitarstjórnarfólksins sem var mjög farið að ókyrrast.

Það er spurning hvernig aðrir flokkar eru búnir undir kosningar. Sumir þeirra geta stillt upp nánast óbreyttum listum frá kosningunum í október í fyrra. Það er spurning hvort eitthvað af Samfylkingarþingmönnunum sem duttu út vilji reyna aftur, en kannski væri betra fyrir Samfylkinguna að mæta með nýjan hóp. En kosningarnar koma óþægilega snemma fyrir Samfylkinguna eftir fylgistapið síðast.

Björt framtíð mætti með mikið af sveitarstjórnarfólki sínu á listum í síðustu kosningum – það verður varla mikil eftirspurn eftir sætum á lista þar. Brotthlaupið úr ríkisstjórninni nær varla að vera lífakkeri fyrir þann flokk. Eftir stjórnarsetuna mun Viðreisn þurfa að skýra vel út hvaða erindi flokkurinn á – innan úr þeim herbúðum heyrast þær raddir að Benedikt Jóhannesson sé ekki alveg heppilegur sem formaður og aðaltalsmaður.

Sigurður Ingi Jóhannsson mun leiða Framsóknarflokkinn í kosningum í annað sinn, kannski áttu fáir von á því, en Lilja Alfreðsdóttir er senuþjófurinn sem líklegt er að taki við flokknum.

Flokkur fólksins hlýtur að reyna framboð í öllum kjördæmum, slík er fylgissveiflan. En auðvitað getur verið erfitt að koma því í kring. Það er jafnvel hugsanlegt að það verði Flokkur fólksins sem gefi tóninn í kosningunum. Þátt fyrir fögur fyrirheit í stjórnmálaumræðum hefur lítið farið fyrir stórátökum í þágu aldraðra, öryrkja og sjúkra. Einhvern veginn þagna slíkar raddir eftir kosningar. En FF getur tekið fylgi frá öllum flokkum sem munu sjá sig knúna til að bregðast við þeim – jafnvel í innflytjendamálunum líka.

Bjarni fer til Guðna forseta á morgun og biður um þingrof. Guðni verður væntanlega við þeirri ósk, enda virðast ekki vera neinir möguleikar á að mynda stjórn í stöðunni. Enginn virðist vera að reyna það. Það verður þá starfsstjórn undir forystu Bjarna fram að kosningum. Hverjir taka við eftir þær?

Vinstri vængnum mistókst að ná völdum í kosningunum fyrir ári, þótt munaði mjóu. Tekst honum það núna? Eða verður Framsókn aftur lykilstöðu og ríkisstjórnin kannski Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Flokkur fólksins?

Það er ekki víst að kosningarnar muni breyta miklu.

 

Mynd: DV, Sigtryggur Ari.

Föstudagur 15.09.2017 - 08:12 - Ummæli ()

Skammlífasta samsteypustjórn sögunnar – hverjir geta myndað nýja stjórn eða verður efnt til kosninga?

Maður vaknar við það að ríkisstjórnin er sprungin. Björt framtíð er farin. Ekki er maður spámannlega vaxinn, ég hélt að ríkisstjórnin myndi lafa áfram einhver misseri. Illar tungur segja ábyggilega að þarna hafi Björt framtíð fundið tækifæri til að slíta stjórnarsamstarfi sem henni var ekki sætt í lengur. En það er athyglisvert að á innan við ári hafa tvær ríkisstjórnir á Íslandi fallið vegna hneykslismála, hin fyrri vegna eigna í aflandsfélögum, hin síðari vegna mála sem tengjast kynferðisbrotum.

Hér á árum áður féllu ríkisstjórnir á Íslandi yfirleitt vegna ágreinings um efnahagsráðstafanir og hagstjórn – sem var þá yfirleitt í kalda koli. En, ef ég fer ekki með fleipur, þá er þetta skammlífasta samsteypustjórn Íslandssögunnar. Hún var svo ótraust að hún sprakk við fyrsta stóráfallið.

Hvaða kostir eru í stöðunni? Við munum að það tók afar langan tíma að mynda ríkisstjórnina sem nú er að fara frá.

Framsóknarflokkurinn gæti gengið til liðs við stjórnina, hann þekktur fyrir að vera yfirleitt tilkippilegur í stjórnarsamstarf. Tvennt mælir á móti því – það er varla neitt sérlega freistandi að fara í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn við þessar aðstæður. Og svo hitt – það er himinn og haf milli Framsóknar og Viðreisnar, síðarnefndi flokkurinn vildi alls ekki vera í stjórn með þeim fyrrnefnda eftir kosningarnar í október. Það kann þó að hafa breyst – Viðreisn þurfti að sönnu að kyngja nokkrum kosningaloforðum við stjórnarmyndunina.

Reynt verður aftur að koma saman fimm flokka ríkisstjórninni sem Katrín Jakobsdóttir var að reyna að berja saman eftir kosningarnar. Þá tókst það ekki vegna innri ágreinings innan Vinstri grænna og vegna þess að andstaða var við slíku stjórnasamstarfi innan Viðreisnar. Kannski reynist áhuginn meiri eftir stjórn Sjálfstæðisflokks, VG og BF sem reyndist svo ótraust og skammlíf? Viðreisn hefur reyndar lýst því yfir strax að boða eigi til kosninga.

Í ljósi þess sem nú gengur á er ekki líklegt að VG hafi löngun til þess að prófa það sem ýmsir létu sig dreyma um í vetur, einkum landsbyggðararmur flokksins, stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokknum.  VG virðist heldur ekki þurfa að óttast kosningar, gengi flokksins í skoðanakönnunum hefur verið gott.

Svo er auðvitað hægt að boða til kosninga. Þá er annað hvort að gera það fljótlega og kjósa strax í október – ellegar stofna minnihlutastjórn sem sæti fram á vormisseri. Sú minnihlutastjórn þyrfti að njóta hlutleysis á þingi – það er spurning hvaða flokkur eða flokkar gætu tekið að sér að vera í slíkri stjórn?

Það eru bæjar- og sveitastjórnakosningar í vor. Það gæti reynst býsna erfitt fyrir stjórnmálaflokkanna að fara í tvennar kosningar með stuttu millibili.

Nýja aflið í íslenskum stjórnmálum heitir Flokkur fólksins. Hann er farinn að mælast í tveggja stafa tölum í skoðanakönnnum. Hefur mikinn byr í seglin. Fyrir hann gæti þetta verið frábær niðurstaða. Eða eins og einn Facebook-vinur minn skrifar:

Kosningar eru frábær niðurstaða. Sterk niðurstaða fyrir Flokk fólksins mun gera allt betra á Íslandi.

Það er svo spurning með stöðu Bjarna Benediktssonar sem þarna hefur misst ríkisstjórn sína eftir mjög stutta veru í forsætisráðuneytinu. Þar má minna á að landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn í nóvember. Fundarmenn hafa varla búist við að hann færi fram við slíkar aðstæður. Eða verður Sjálfstæðisflokkurinn í stjórn þegar fundardagarnir renna upp? Og verður Bjarni áfram formaður? Staða hans virtist afar trygg fyrir fáum dögum, en hún er það ekki lengur.

 

Skammlífasta ríkisstjórnin, einungis minnihlutastjórnir hafa setið skemur. Nú falla ríkisstjórnir ekki vegna efnahagsmála heldur vegna hneykslismála.

Fimmtudagur 14.09.2017 - 21:11 - Ummæli ()

Alls ekki eins og að skrifa upp á víxil

Einu sinni var bærinn fullur af fólki sem fór um og bað annað fólk um að skrifa upp á víxla fyrir sig. Það tíðkaðist að fara á fund stjórnmálamanna og áhrifamanna og biðja þá um að skrifa upp á víxlana. Mörgum fannst erfitt að neita þessum greiða. Bankarnir vildu fá sína ábyrgðarmenn og ábekkinga. Flestir borguðu víxlana, en svo voru alltaf einhverjir sem létu víxlana falla á ábyrðarmennina sem þurftu þá að borga skuldina. Þá fóru innheimtubréfin að hrynja inn um lúguna.

Það að skrifa upp á betrun og bót – nokkurs konar aflausn – fyrir brotamenn – að maður tali ekki um verst þokkuðu tegund glæpamanna í samtíma okkar, barnaníðinga, er auðvitað ekki eins og að skrifa upp á víxil. Flestir myndu ekki gera slíkt nema að vel athuguðu máli, maður þyrfti að vita alla málavöxtu og taka sér tíma í að kynna sér þá. Kynferðisglæpamenn fremja einmitt brot sín fyrir luktum dyrum og geta haldið uppi háttsemi sinni lengi án þess að fréttist.

En það er líkt og þeir sem skrifuðu upp á fyrir brotamennina tvo sem nú eru til umræðu hafi gert það í hálfkæringi, líkt og þeir væru að skrifa upp á víxil. Það virkar nokkuð skringilega, en sýnir okkur líka að þær reglur sem hefur verið farið eftir eru gjörsamlega ónýtar. Vottarnir þurfa ekki að vita nema hálfa söguna – í raun þurfa þeir ekki að vita neitt. Lögunum um þetta sem er kallað „uppreist æru“ þarf að breyta helst á morgun.

Svo er að gá að því er að á Íslandi viljum við ekki reka harða refsistefnu þar sem brotamenn geta ekki fengið annað tækifæri. Við erum ekki Bandaríkin þar sem fangelsisdómar eru brjálæðislega langir – og þar sem fyrrverandi fangar eiga enga leið inn í samfélagið aftur. Við það getur myndast hræðilegt hliðar- og undirsamfélag. Það verður þó að segjast eins og er að maður furðar sig stundum á því hversu dómar fyrir ofbeldisglæpi, og þá teljast með nauðganir og barnaníð, eru vægir á Íslandi og hversu fljótt gerningsmennirnir losna út aftur.

Mál barnaníðinganna tveggja hefur tekið óvænta stefnu eftir að birt voru nöfn þeirra sem skrifuðu upp á fyrir þá. Sumir virtust eiga von á því að miklir áhrifamenn hefðu kvittað fyrir Róbert Árna Hreiðarson, en svo er ekki. Loftið lak úr þeirri samsæriskenningu. Allt þetta mál komst upp vegna þess að hann vildi endurheimta lögmannsréttindi sín, annars hefði það líklega legið í þagnargildi. En þetta virðast vera vinir sem eru að gera greiða – kannski í hugsunarleysi, án þess að velta fyrir sér að þetta skipti máli eða hefði afleiðingar, líklega töldu þeir að nöfn þeirra yrðu ekki gerð opinber.

En í máli Hjalta Sigurjóns Haukssonar kemur uppljóstrunin, faðir sjálfs forsætisráðherra skrifar upp á hjá honum. Hann skrifar afsökunarbréf, þetta virðist hafa verið gert í fljótræði og af misskilinni góðmennsku. Af fréttum að dæma virðist Hjalti enn vera haldinn ranghugmyndum. Ábyrgðarmenn hans eru semsagt að votta eitthvað sem þeir vita ekki um.

En stóra spurningin núna er upplýsingagjöfin í málinu. Hví gengu dómsmálaráðuneytið og ráðherra dómsmála svo langt í því að halda upplýsingum um ábyrgðarmennina frá fjölmiðlum. Ein skýringin gæti verið sú að þau hafi ekki talið óhætt að gefa þessar upplýsingar fyrr en úrskurður nefndar um upplýsingamál lægi fyrir. En hvers vegna sagði Sigríður Á. Andersen þá Bjarna Benediktssyni frá strax í júlí? Var henni yfirleitt heimilt að gera það? Hafði þetta áhrif á málsmeðferðina og hvernig málin hafa þróast í sumar og fram á haust? Það er alls ekki gefið að svo sé, en þetta kallar á svör.

Og svo er það pólitísk spurning: Hvers vegna taldi Sigríður ástæðu til að upplýsa í kvöld að hún hefði sagt Bjarna frá þessu?

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is