Mánudagur 20.02.2017 - 18:16 - Ummæli ()

Fleiri morð á staðnum þar sem Trump talaði en í allri Svíþjóð

Ætli megi ekki segja að Carl Bildt, fyrrverandi forsætis og -utanríkisráðherra Svíþjóðar, komist að kjarna málsins varðandi ummæli Donalds Trump um Svíþjóð? Í Bandaríkjunum er miklu meira ofbeldi en nokkurn tíma í Evrópu og ofbeldið kemur innan. Það berst ekki yfir nein landamæri.

En í öllu því sjónarpspili sem er bandarísk pólitík er ekkert gert til að ráða bót á því. Hræsnin ræður ferð.

 

Mánudagur 20.02.2017 - 10:34 - Ummæli ()

Undarlegar framkvæmdir – og aðeins meira um lundakofa

Einar Benediktsson hefur verið maður einstaklega forvitri. Hann sá fyrir að Íslendingar myndu selja norðurljós og ef til vill líka lundabúðir í Miðbænum.

Í grein sem ég skrifaði um helgina sagði ég að Páll Líndal skrifaði um það í verki sínu Reykjavík, sögustaður við Sund, að Einar færi háðulegum orðum um byggð við Laugaveginn og talaði um „lundakofa“. Ég fann ekki þessa tilvitnun, en nú er hún komin í leitirnar, gleggri maður en ég fann hana, hún er í blaði Einars, Dagskrá, 24. apríl 1898, undirrituð einfaldlega „Reykjavíkurbúi“.

 

 

Annars vakti greinin um Einar talsverð viðbrögð. Maður hafði samband við mig sem sagði að afi hans hefði verið svikinn um laun þegar hann starfaði sem blaðamaður á Dagskrá hjá Einari, ekki laust við að örlaði fyrir beiskju. En afinn hafði sagt að menn gætu kennt sjálfum sér um ef þeir létu Einar svindla á sér.

 

 

 

En hér er svo ljósmynd af byggingunum á Laugavegi 4-6 sem talað er um í fyrri greininni. Þarna keypti borgarstjórnin í Reykjavík tvö illa farin timburhús. Þau voru svo gerð myndarlega upp. Allt kostaði það mikið fé. Húsin voru svo seld aftur fyrir miklu lægri upphæð en samanlagt kaupverðið og viðgerðakostnaðinn, en með fylgdi ógurlegur byggingaréttur.

Þarna er búið að byggja stórt mannvirki, en gömlu húsin eru felld inn í það, en að auki bætist við kjallari sem var boraður niður í gegnum klöppina, heila sjö metra og var vart líft í nágrannahúsum langan tíma meðan á framkvæmdinni stóð. Framkvæmdaaðilar náðu meira að segja að bora sig inn í næstu hús. Miðað við þróunina í bænum er líklegt að þarna verði vegleg lundabúð.

 

Sunnudagur 19.02.2017 - 19:06 - Ummæli ()

Viðtalið við Jón Baldvin – Skotar sem hluti af Norðurlöndunum?

Hér er viðtal við Jón Baldvin Hannibalsson úr Silfrinu í dag. Jón man tímana tvenna eða þrenna, allt aftur í heimsstyrjöld, og auðvitað kalda stríðið, var á hápunkti ferils síns þegar því lauk,  er fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra í Bandaríkjunum, en fylgist vel með samtímanum og greining hans á þeim óvissutímum sem við lifum er mjög skörp.

Við ræðum uppgang lýðskrumshreyfinga, Evrópusambandið, evruna, Nató, Rússland, náttúrlega Trump og ástandið í Bandaríkjunum og lítum aðeins til Bretlands – og Skotlands og þá sem hluta af Norðurlöndunum en Jón telur möguleika að Skotar fari þá leið eftir Brexit.

Viðtalið má sjá á vef RÚV.

 

 

Sunnudagur 19.02.2017 - 00:19 - Ummæli ()

50 ára Penny Lane/Strawberry Fields

Einhver mesti dýrgripurinn sem ég átti í plötusafni mínu þegar ég var strákur var litla platan með Penny Lane öðru megin og Strawberry Fields Forever hinum megin. Hún var í upprunalegu umslagi sem leit svona út.

 

 

Ég man ekki hvernig ég eignaðist plötuna, en ég var bara sjö eða átta ára og óður í bítlatónlist. En ég var líka vitlaus og eignaðist plastmöppu sem hægt var að setja plöturnar í og þá fargaði ég umslögunum. Það var mjög heimskulegt. Seinna týndist reyndar plötumappan líka og þá fóru dýrgripir eins og þessi, Hey Jude/Revolution, We Can Work It Out/Day Tripper, en líka plötur eins og In The Year 2525 og Dizzy. Þetta var ekki allt jafn frábært.

Nú í vikunni eru 50 ár síðan Penny Lane/Strawberry Fields kom út. Frétti það í kvöld, það er furðulegt að bæði þessi lög leituðu á mig í dag – ég var raula þau í bílnum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þetta sé hinn algjöri hátindur á ferli Bítlanna. Bæði Lennon og McCartney í ótrúlegu formi, hvor með sinn stíl, bæta hvor annan upp, vinir en líka keppinautar.

Lögin frábær, útsetningar frumlegar og skemmtilegar, textarnir bráðsnjallir. Penny Lane er reyndar uppáhalds bítlalagið mitt af þeim öllum. Það verður að taka fram að myndbandið sem fylgir með passar ekkert sérlega vel við texta lagsins – sem er skemmtileg og kímin götumynd frá Liverpool. Strawberry Fields er reyndar líka staður í Liverpool, þar lék Lennon sér sem barn.

Lögin sem slík heyra til Sgt. Peppers tímanum. Hefðu getað verið á þeirri plötu og styrkt hana mjög. En á þeim tíma var víst samningsatriði við Parlophone-útgáfuna að Bítlarnir gæfu út smáskífur með lögum sem ekki væru stórum plötum.

 

 

Laugardagur 18.02.2017 - 13:43 - Ummæli ()

Falskt vor í þokunni

Hann er skrítinn þessi febrúar. Líkt og vorblíða flesta daga. Væri hægt að kalla þetta falskt vor?

 

 

Vorlaukar spretta upp úr jörðinni í Vesturbænum og eru brátt að fara að blómgast.

 

 

Brum er farið að vaxa á trjám.

 

 

Gras grænkar upp við gamla steinvegginn í garðinum hjá mér.

 

 

Og í morgun lá skringileg þoka yfir bænum, í afskaplega stilltu og mildu veðri. Ég brá mér í líki túrista, fór út á Skólavörðustíg og tók mynd upp götuna að Hallgrímskirkju sem sást óljóst í þokunni.

Annars er það orðið þannig í Miðbænum að ef maður sér Íslending þar á gangi heilsar maður honum sérstaklega eða kinkar til hans kolli – við erum orðnir svo fáir og strjálir innan um ferðamennina að við skerum okkur úr.

 

Föstudagur 17.02.2017 - 23:41 - Ummæli ()

Lundakofar á Laugavegi og nytsemi höfuðbaða

Ég las í hinu stórkostlega safni Páls Líndals og Einars S. Arnalds, Reykjavík, sögustaður við Sund, að Einar Benediktsson hefði verið svo uppsigað við það hvernig Laugavegurinn byggðist undir aldamótin 1900 að hann hefði kallað húsin sem þar voru að rísa lundakofa.

Mér þótti þetta athyglisvert orðalag, því nóg er af lundakofunum í Miðbænum núorðið. Þetta átti að hafa verið í blaðinu Dagskrá sem Einar gaf út frá 1896-98. Ég fór á timarit.is, fann þetta ekki þar, en fletti í gegnum mörg tölublöð af Dagskrá.

Þar er vissulega að finna skammargrein um byggðina á Laugavegi eftir Einar. Honum þótti hún lágreist, ljót og óskipuleg. Sjálfum er mér skapi næst að skrifa eina slíka grein nú þegar er búið að flytja gamla húsið á Laugavegi 6 aftur á sinn stað eftir einhverja furðulegustu viðskipta- og byggingauppákomu í sögu borgarinnar. Þarna hafa orðið til gríðarlega stór mannvirki utan um tvö lítil timburhús – og undir þeim líka. Viðskiptasagan í kringum þetta er absúrd.

En það er önnur saga. Í Dagskrá las ég meðal annars bráðskemmtilega ritdeilu milli Einars Ben og Matthíasar Jochumssonar um kveðskap séra Valdimars Briem (við fjölluðum um hann í Kiljunni fyrr í vetur). Einar kallaði Valdimar „sálmaverksmiðju“, Matthías tók til varna, en Einar, sem annars dáði Matthías, sagði að hann hefði forðast að fjalla um kveðskap Valdimars heldur aðallega skrifað lof um manninn sjálfan, dyggð hans og gáfnafar og meinti þannig ekkert með þessu.

Svo var þarna grein um hversu dýrt væri í nýopnað Baðhús Reykjavíkur og það stæðist ekki samanburð við Sívalaturnsbaðhúsið í Kaupmannahöfn. Baðhúsið í Reykjavík reyndar sló ekki beinlínis í gegn, því Páll Líndal skrifar að á fyrstu þremur mánuðunum sem það starfaði hafi einungis komið 150 gestir, þar af flestir útlendingar en nokkrir stúdentar.

Böð áttu ekki mjög upp á pallborðið hjá Íslendingum á þessum tíma, en Baðhúsið auglýsti að það væri ekki nauðsynlegt að þvo allan skrokkinn, höfuðböð hefðu sína „nytsemi“.

 

 

Þetta var áður en vínbannið var sett á og frelsi í áfengisverslun og -veitingum. Í Dagskrá rakst ég líka á þessa auglýsingu. Hún ber þess reyndar merki að þarna var talsverður uppgangstími, atvinnuvegirnir voru farnir að vaxa – stórhug Einars í því efni má lesa á flestum síðum blaðsins – og bærinn stækkaði og efldist. Það var líka hægt að gera vel við sig í drykk, hvort sem menn vildu vín, bjór eða sterkt.

 

Föstudagur 17.02.2017 - 17:26 - Ummæli ()

Yfirlýsing Zuckerbergs og ótrúleg völd Facebook

Ekkert hefur farið jafn illa með hefðbundna fjölmiðla og Facebook – og þarmeðtalda fjölmiðla sem starfa á netinu. Facebook hefur líka grafið undan fjölmiðlun með útbreiðslu rangra og villandi frétta og með myndun þess sem kallast bergmálsherbergi. Almennt er farið að viðurkenna að þetta sé stórt vandamál – lýðræðissamfélag þrífst ekki án þess að borgararnir séu þokkalega upplýstir og víðsýnir. Notendur Facebook eru sagðir vera 1,9 milljarðar. Allir fjölmiðlar heimsis eru dvergar miðað við þetta.

Önnur áhrif Facebook (og Google) má finna í auglýsingum. Í grein í The Atlantic er því haldið fram að 85 prósent af auglýsingatekjum á internetinu í Bandaríkjunum fari nú í gegnum þessi risafyrirtæki. Aftur eiga fjölmiðlar í vök að verjast, ekki síst þeir sem leggja áherslu á heimildarvinnu og sjálfstæða öflun upplýsinga. Þeir berjast í bökkum og neyðast líka til að spila með í Facebook-veruleikanum sem gengur út á hröð skilaboð og öra smelli.

Þess vegna er ansi merkilegt að skoða sex þúsund orða yfirlýsingu Marks Zuckerberg, stofnanda Facebook. Enginn hefur jafnmikil áhrif á upplýsingaflæðið í veröldinni. Zuckerberg talar sem fylgismaður hnattvæðingar, um nauðsyn samstöðu meðal mannkyns en ekki bara innan þjóða eða borga.

Hann ávarpar meira að segja lesendurna, Facebook-notendurna, sem „samfélag okkar“. En hann viðurkennir að Facebook byggir á stuttum og samþjöppuðum upplýsingum, þetta ýti undir einföld viðhorf, vinnur á móti blæbrigðum. Þrátt fyrir þessa draumsýn um sameinað mannkyn (á Facebook væntanlega) myndast bólur og bergmálsherbergi á Facebook þar sem fólk heyrir ekki í öðrum en sjálfu sér og þeim sem hafa svipaðar skoðanir. Því verður ekki neitað að öfgar og hatur hafa fundið vettvang á Facebook – innan um fjölskyldumyndir og kettlinga.

Zuckerberg talar um að í framtíðinni verði hægt að nota gervigreind til að greina færslur og upplýsingar á Facebook, til dæmis hvort þar er hvatning til ofbeldis eða hatursumræða. Þetta muni geta gerst á næstu árum. Annað sem Facebook hefur á prjónunum er að ganga úr skugga hvort fólk hefur lesið fréttir áður en það deilir þeim til að draga úr útbreiðslu falskra frétta og smellubeita.

Zuckerberg talar líka um nauðsyn þess að efla virkni í nærsamfélögum og segist vilja styðja fjölmiðla. Það er ekki vanþörf á, en áleitin spurning hvernig það getur orðið. Fjölmiðlarnir ekki bara smáir og veikir miðað við Facebook, heldur líka sífellt háðari risafyrirtækinu um að dreifa efni sínu.

Vald fyrirtækis Zuckerbergs er ótrúlegt. Við höfum aldrei séð neitt líkt þessu á jörðinni. Það er mikilvægt að rýna í yfirlýsingu hans – hvað meinar hann og hverjar eru hugsanlegar efndir? Þarf ef til vill að koma böndum á Facebook? Ein kenningin er reyndar sú að Zuckerberg ætli sér að fara út í pólitík, jafnvel sem forsetaframbjóðandi. Það er þó ekki víst að hann þurfi það, þessi ungi maður hefur þegar gríðarlegt ríkidæmi – og ótrúleg völd.

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan (hjá) eyjan.is